Ferill 680. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1382  —  680. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um starfshóp um endurskoðun eignarhalds á bújörðum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig miðar vinnu starfshóps um endurskoðun eignarhalds á bújörðum sem var skipaður af þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í júní 2017 og hvenær má vænta að hópurinn skili tillögum sínum til ráðherra?

    Ráðherra skipaði hinn 16. júní 2017 fimm manna starfshóp um endurskoðun eignarhalds á bújörðum. Formaður starfshópsins er frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, aðrir nefndarmenn eru frá Bændasamtökunum, dómsmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Í skipunarbréfinu kemur fram að starfshópnum er ætlað að fara yfir þær takmarkanir sem unnt er að mæla fyrir um í ákvæðum ábúðar- og jarðalaga. Hópnum er ætlað að leggja mat á takmarkanir sem er að finna í löggjöf nágrannalanda Íslands eins og Noregs, Danmerkur og Möltu og rúmast innan marka 40. gr. EES-samningsins. Starfshópnum er einnig ætlað að leggja mat á það hvaða takmarkanir koma helst til greina hér á landi til að viðhalda ræktanlegu landbúnaðarlandi og búsetu í sveitum landsins. Einnig er hópnum ætlað að gera tillögu til ráðherra um nauðsynlegar breytingar á lögum í samræmi við framangreint.
    Starfshópurinn miðar að því að skila tillögum sínum um mánaðamótin ágúst/september.