Ferill 405. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 572  —  405. mál.




Fyrirspurn


til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um stöðu hafnarsjóða og stefnumörkun í hafnamálum.

Frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur.


     1.      Hver hafa verið áhrif laga nr. 119/2014, um breytingu á hafnalögum, nr. 61/2003, á fjárhag hafnarsjóða og hafa markmið lagasetningarinnar náðst?
     2.      Hvernig á að mati ráðherra að bregðast við því að fjárhagsstaða margra hafnarsjóða er svo slök að þeir geta hvorki staðið undir viðhalds- né nýframkvæmdum?
     3.      Liggur fyrir mat á fjárþörf hafnarsjóða sem eiga kost á fjárframlagi úr ríkissjóði vegna viðhalds- og nýframkvæmda á næstu árum og ef svo er, hvað felur það í sér í aðalatriðum og hvernig er áformað að bregðast við fjárþörfinni?
     4.      Hver er afstaða ráðherra til hugmynda um opinbera stefnumörkun til langs tíma í hafnamálum og hyggst hann beita sér fyrir slíkri stefnumörkun?
     5.      Hafa verið veitt framlög úr ríkissjóði til að auðvelda eiganda hafnar að hætta hefðbundnum hafnarrekstri eða draga úr honum eins og heimilt er samkvæmt hafnalögum?
     6.      Hafa verið veitt framlög úr ríkissjóði til að standa straum af kostnaði við niðurrif hafnarmannvirkja eins og heimild er fyrir í hafnalögum og ef svo er, hvert hafa þeir styrkir runnið og hversu háir voru þeir?
     7.      Hefur skapast þörf fyrir dýpkun í höfnum eða gerð viðlegukanta vegna koma skemmtiferðaskipa til landsins og hefur verið unnt að mæta þeirri þörf?
     8.      Hvernig er ætlunin að standa að grunnrannsóknum og líkantilraunum vegna hafnarframkvæmda á næstu árum og hver er stefnan varðandi öldufarsrannsóknir og þróun í öflun og miðlun rauntímaupplýsinga til sjófarenda um veður og sjólag og gerð og birtingu ölduspár fyrir íslenskt hafsvæði?


Skriflegt svar óskast.