Ferill 498. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Prentað upp.

Þingskjal 725  —  498. mál.
Breyttur texti.




Beiðni um skýrslu


frá utanríkisráðherra um framkvæmd alþjóðlegra skuldbindinga er varða flutning á vopnum.

Frá Rósu Björk Brynjólfsdóttur, Loga Einarssyni, Þorgerði K. Gunnarsdóttur, Gunnari Braga Sveinssyni, Ingu Sæland, Andrési Inga Jónssyni, Álfheiði Eymarsdóttur, Birni Leví Gunnarssyni, Helga Hrafni Gunnarssyni, Hönnu Katrínu Friðriksson og Jóni Steindóri Valdimarssyni.


    Með vísan til 54. greinar þingskaparlaga er óskað eftir skriflegri skýrslu utanríkisráðherra, í samvinnu við samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra eftir því sem við á, um alþjóðlegar skuldbindingar Íslands er varða leyfisveitingar eða undanþágur vegna vopnaflutninga.
    Í skýrslunni verði dregin fram ábyrgð ráðuneytisins, og annarra ráðuneyta og stofnana ef við á, um veitingar á leyfum og undanþágum til vopnaflutninga um íslenska lofthelgi eða til íslenskra aðila sem starfa á alþjóðavettvangi. Í því felist að skýrt verði hvernig íslensk stjórnvöld framfylgja því þegar Ísland undirgengst alþjóðlegar skuldbindingar varðandi vopnaviðskipti eða vopnaflutninga, svo sem viðskiptabann alþjóðastofnana, alþjóðlega samninga og sáttmála, ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og ályktanir Evrópuráðsins.
    Óskað er eftir því að í skýrslunni verði verkferlar skýrðir sem og ábyrgðarkeðjan innan stjórnsýslunnar, og einnig hið pólitíska verklag þegar íslenska ríkið undirgengst alþjóðlegar skuldbindingar af þessu tagi.

Greinargerð.

    Í kjölfar umfjöllunar í fréttaskýringaþættinum Kveik, sem sýndur var á RÚV 27. febrúar sl., var haldinn fundur í utanríkismálanefnd þar sem fjallað var um það lagaumhverfi og þá alþjóðasamninga sem snúa að vopnaflutningum. Þar kom fram að íslenska ríkið hefur ítrekað veitt íslensku flugfyrirtæki undanþágur til flutninga á vopnum sem grunur leikur á að gætu endað á svæðum sem bannað er að flytja vopn til í samræmi við þær alþjóðaskuldbindingar sem Ísland hefur gengist undir. Það er því talið nauðsynlegt að kalla eftir skýrslu frá utanríkisráðherra þar sem fram kemur hvaða reglur gilda og hvaða verklag er viðhaft innan utanríkisráðuneytisins, og annarra ráðuneyta og undirstofnana, þegar Ísland undirgengst og framfylgir alþjóðasamningum er varða bann við flutningum á tilteknum vopnum til tiltekinna átakasvæða í heiminum.
    Mikilvægt er að í skýrslunni verði tekinn af allur vafi um að íslenska ríkið standi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar um vopnaflutninga og að í öllu hafi verið farið að íslenskum lögum þegar kemur að þeim undanþágubeiðnum sem samþykktar voru og sneru að vopnaflutningum. Jafnframt er vísað til viðtals við forstöðumann Samgöngustofu í fjölmiðlum þar sem fram kom að stofnunin hefði enga sérfræðiþekkingu um vopna- og alþjóðamál. Mikilvægt er að skýrt verði tekið fram hvaða verkferlar fóru af stað innan stjórnsýslunnar þegar þetta varð ljóst og hver ber ábyrgð á þeim svo að tryggja megi að ákvarðanir af þessu tagi verði teknar með nægilega upplýstum hætti.
    Óskað er eftir því að í skýrslunni verði fjallað um hvernig ráðuneyti og stofnanir hafa sinnt rannsóknarskyldu sinni í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, við samþykkt undanþágubeiðna á vopnaflutningi.
    Sérstaklega er óskað eftir því að í skýrslunni komi fram upplýsingar er varða skuldbindingar Íslands samkvæmt eftirfarandi:
     1.      vopnasölusamningnum (e. Arms Trade Treaty), sérstaklega með tilliti til 3. mgr. 6. gr. samningsins;
     2.      reglugerð nr. 880/2015, um þvingunaraðgerðir gegn Jemen (ásamt síðari breytingum);
     3.      lögum nr. 93/2008, um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða, sérstaklega hvað varðar gildissvið laganna skv. 2. mgr. 11. gr.;
     4.      samningnum um bann við notkun, birgðasöfnun, framleiðslu og flutningi jarðsprengna gegn liðsafla og um eyðingu þeirra (e. Convention on the Prohibition of the Use, Stockpiling, Production and Transfer of Anti-Personnel Mines and on Their Destruction).
    Hvað varðar vopnasölusamninginn er óskað eftir því að skýrt verði hvernig Ísland hefur lagt sig fram um að afla upplýsinga svo að ákvarðanataka teljist upplýst. Þá er óskað eftir því að fram komi hvernig hugtakið 'flutningur' (e. transfer) hefur verið meðhöndlað innan stjórnsýslunnar, sbr. skilgreiningu þess í 2. mgr. 2. gr. vopnasölusamningsins.
    Hvað varðar samninginn um bann við notkun, birgðasöfnun, framleiðslu og flutningi jarðsprengna gegn liðsafla og um eyðingu þeirra, er óskað eftir því að í skýrslunni verði tiltekið sérstaklega hvernig gengið hefur verið úr skugga um það innan stjórnsýslunnar hvort jarðsprengjur hafi verið í farmskrá þeirra flugfélaga sem óskað hafa eftir undanþágum í leyfisveitingum. Í þeim tilfellum þar sem grunur leikur á að jarðsprengjur hafi verið í farminum er óskað eftir upplýsingum um hvort kannað hafi verið hvort um væri að ræða jarðsprengjur sem nota á gegn liðsafla (e. anti-personnel mines) eða almennum borgurum.
    Að auki er óskað eftir því að í skýrslunni komi fram hvernig farið hefur verið að ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, þá sérstaklega ályktunum nr. 2201/2015 og 2016/2015, auk annarra ályktana sem snúa að ástandinu í Jemen. Í 14. gr. ályktunar nr. 2016/2015 er tiltekið sérstaklega að ríki skuli grípa til nauðsynlegra aðgerða án tafar til að koma í veg fyrir beina eða óbeina afhendingu, sölu eða flutning til tilgreindra aðila eða annarra sem tengjast þeim.
    Sambærilegt ákvæði er að finna í ákvörðun ráðsins, 2015/882/SSUÖ, frá 8. júní 2015, um breytingu á ákvörðun 2014/932/SSUÖ, um þvingunaraðgerðir í ljósi ástandsins í Jemen, sem innleidd var með reglugerð nr. 880/2015. Í 1. gr. ákvörðunarinnar er lagt bann við því að ríkisborgarar aðildarríkja selji, afhendi, tilfæri eða flytji út, beint eða óbeint, vopn og tengd hergögn af hvaða gerð sem er, þ.m.t. vopn og skotfæri, herfarartæki og -búnaður, búnaður sem ekki er ætlaður ríkisher og varahlutir í fyrrnefnd tól og tæki, til einstaklinga og rekstrareininga, sem tilgreind eru af öryggisráði Sameinuðu þjóðanna eða nefndinni sem komið var á fót skv. 19. mgr. ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 2140 (2014), eða þeim til ávinnings og þeirra sem koma fram fyrir þeirra hönd eða samkvæmt fyrirmælum þeirra í Jemen eða að það sé gert frá yfirráðasvæðum aðildarríkja eða að skip eða loftför undir fána þeirra séu notuð í því skyni, hvort sem fyrrnefnd tæki og tól eru upprunnin á yfirráðasvæðum þeirra eður ei.
    Einnig er óskað eftir að í skýrslunni verði tilgreint hvort líkur séu á að íslenska ríkið hafi mögulega brotið bann við óbeinni afhendingu vopna í samræmi við ofangreinda ákvörðun ráðsins. Þá er óskað eftir að tekið verði fram hvernig tryggt hefur verið að ákvarðanir ráðsins og ályktanir öryggisráðsins hafi verið virtar af íslenskum stjórnvöldum.
    Telja verður að ákvörðun um veitingu undanþágu sem heimilar vopnaflutning sé þess eðlis að sérstaklega ríkar kröfur um fyllstu aðgát verði að gera og að krefjast megi þess að málið verði rannsakað til hlítar. Á það einkum og sér í lagi við þar sem vísbendingar eru um að vopn fari til ríkis sem sætir verulegum hömlum á viðskiptum með vopn af hálfu öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, þar sem líklegt er að þau verði notuð til voðaverka.
    Með vísan til þess að unnið er að undirbúningi að því að utanríkisráðuneytið taki við leyfisveitingum íslenskra stjórnvalda vegna hergagnaflutninga með öllum borgaralegum loftförum, er þess farið á leit við utanríkisráðherra að í skýrslunni verði gerð grein fyrir því hvernig ráðuneytið hyggst koma í veg fyrir að fyrirtæki sem heyra undir íslensk lög taki þátt í vopnaflutningum sem kunna að brjóta í bága við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og íslensk lög.