Ferill 578. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 919  —  578. mál.




Fyrirspurn


til umhverfis- og auðlindaráðherra um mengunarhættu vegna saltburðar og hættulegra efna í nágrenni vatnsverndarsvæða höfuðborgarsvæðisins.

Frá Ólafi Ísleifssyni.


     1.      Hafa hlutaðeigandi heilbrigðisnefndir samþykkt það magn iðnaðarsalts sem dreift hefur verið á Suðurlandsveg í nágrenni vatnsverndarsvæða höfuðborgarsvæðisins á árunum 2012–2017, sbr. svar við fyrirspurn á þingskjali 764? Eru efri mörk fyrir leyfðu magni af salti sem er dreift í nálægð við vatnsverndarsvæði? Eru gerðar gæðakröfur til saltsins með tilliti til hreinleika? Liggja fyrir rannsóknir um áhrif af notkun iðnaðarsalts til hálkuvarna á vatnsból höfuðborgarsvæðisins eftir gæðaflokkum saltsins?
     2.      Hvaða þýðingu hefur það á dreifingu salts út í umhverfið þegar það leysist upp í vatni, umfram það sem fram kemur í tilgreindu svari á þingskjali 764 um að 90% af salti lendi innan við 20 metra frá vegkantinum? Skiptir það máli fyrir vatn í grunnvatnsæðum á svæðinu hve mikið magn af iðnaðarsalti er borið á vegi?
     3.      Hyggst ráðherra afla upplýsinga um hvar sýni voru tekin og hversu mikið mæligildi fóru yfir hámarksgildi fyrir klóríð í þeim tilvikum sem það kom fyrir, sbr. niðurstöður í skýrslu Matvælastofnunar sem vísað er til í áðurnefndu svari ráðherra á þingskjali 764? Hvernig telur ráðherra að þessar athuganir gagnist neytendum til að verjast óæskilega miklu salti í neysluvatni, ef umræddar upplýsingar liggja ekki fyrir?
     4.      Hvernig er hagað eftirliti með gæðum neysluvatns á höfuðborgarsvæðinu og hver er skipting verka og ábyrgðar á milli einstakra stofnana og annarra aðila sem hlut eiga að máli? Hvaða staðlar eru lagðir til grundvallar?
     5.      Hversu oft frá aldamótum hafa opinberir aðilar gefið út viðvaranir til almennings um að gæðum neysluvatns sé áfátt? Hver ber ábyrgð á að slíkar viðvaranir séu gefnar út ef tilefni er til og að það sé gert tímanlega? Hvaða viðmið gilda um hvenær slíkar tilkynningar eru gefnar út?
     6.      Hvernig er fylgst með mengunarhættu vegna hugsanlegs olíuleka frá flutningatækjum, vinnutækjum og öðrum tækjum sem notuð eru í grennd við eða ofan vatnsverndarsvæða höfuðborgarsvæðisins?
     7.      Hvernig hyggst ráðherra bregðast við þeim upplýsingum frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur að engar rannsóknir hafi verið gerðar á áhrifum á gæði neysluvatns af gúmmíkurli frá hjólbörðum bifreiða og af öðrum mengandi efnum sem fylgja umferð bifreiða í nágrenni vatnsverndarsvæða höfuðborgarsvæðisins? Hvaða skýringar eru á því að ekki eru gerðar viðeigandi rannsóknir á vatnsgæðum í ljósi fyrrgreindrar mengunarhættu?


Skriflegt svar óskast.