Ferill 17. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Prentað upp.

Þingskjal 17  —  17. mál.
Flutningsmenn.




Frumvarp til laga


um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993, og búnaðarlögum, nr. 70/1998
(verðlagsnefnd búvara, undanþágur frá ákvæðum samkeppnislaga, verðjöfnunargjöld o.fl.).


Flm.: Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Steindór Valdimarsson, Smári McCarthy, Þorsteinn Víglundsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson.


I. KAFLI
Breyting á búvörulögum, nr. 99/1993, með síðari breytingum.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Við a-lið bætist: á opnum og frjálsum markaði
     b.      C-liður orðast svo: að liðka fyrir sölumöguleikum fyrir búvörur erlendis.
     c.      D-liður orðast svo: að þeim sem landbúnað stunda verði gert kleift að selja framleiðsluafurðir sínar á frjálsum markaði.
     d.      F-liður orðast svo: að stuðla að jöfnum tækifærum framleiðenda hvað varðar hagnýtingu lands og aðgang að markaði.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Framleiðendur búvara fara með eigið fyrirsvar við framkvæmd laga þessara. Framleiðendum er heimilt að fela Bændasamtökum Íslands eða öðrum skipulögðum samtökum að fara með fyrirsvar sitt.
     b.      2. og 3. mgr. falla brott.
     c.      4. mgr. orðast svo:
                  Samningar sem framleiðendur búvara, eða aðrir aðilar sem fara með fyrirsvar fyrir þeirra hönd, gera skv. a-lið 1. mgr. 30. gr., skulu aðeins vera bindandi fyrir þá framleiðendur sem teljast aðilar að samningunum.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á IV. kafla laganna:
     a.      7. gr. orðast svo:
                  Öllum framleiðendum búvara, eða fyrirsvarsaðilum þeirra, er heimilt að semja við afurðastöð eða afurðastöðvar um hvers konar vinnslu afurða og afurðaverð.
     b.      8., 11., 13. og 15.–17. gr. falla brott.
     c.      Fyrirsögn kaflans verður: Samningar um vinnslu afurða og afurðaverð.

4. gr.

    VI. kafli laganna, Um greiðslu afurðaverðs, fellur brott.


5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 30. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Bændasamtök Íslands“ í a-lið 1. mgr. kemur: framleiðendur búvara eða fyrirsvarsaðila þeirra.
     b.      Í stað orðanna „samnings“ og „samningi“ í 2. mgr. kemur: samninga og; samningum.
     c.      Í stað „samning“ í 3. mgr. kemur: samninga.

6. gr.

    31. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra er heimilt að gera samninga skv. 30. gr. við einstaka framleiðendur eða við samtök þeirra. Ráðherra er heimilt að setja á fót samráðsvettvang sem skal þá skipaður samkvæmt reglum sem ráðherra setur.

7. gr.

    Í stað orðanna „Framkvæmdanefnd búvörusamninga“ í 7. mgr. 41. gr. laganna kemur: Ráðherra.

8. gr.

    3. mgr. 52. gr. laganna fellur brott.

9. gr.

    Í stað orðanna „framkvæmdanefnd búvörusamninga“ í 3. mgr. 55. gr. laganna kemur: ráðherra.

10. gr.

    71. gr. laganna orðast svo:
    Markaðsráðandi afurðastöð er skylt að safna og taka við allri mjólk sem henni býðst frá framleiðendum mjólkur. Einnig er henni skylt að selja óháðum afurðastöðvum og vinnsluaðilum ógerilsneydda mjólk til framleiðslu á mjólkurvörum. Söluskylda markaðsráðandi afurðastöðvar nemur allt að 20% af þeirri mjólk sem afurðastöðin tekur við.
    Jafnræði skal gilda um verð, viðskiptakjör og skilmála gagnvart framleiðsluhluta markaðsráðandi afurðastöðva og óháðra aðila. Framleiðsluhluti markaðsráðandi afurðastöðvar skal vera fjárhagslega og stjórnunarlega aðskilinn frá annarri starfsemi afurðastöðvarinnar.
    Samkeppniseftirlitið skal hafa eftirlit með ákvæði þessu sem hluta af eftirliti með markaðsráðandi afurðastöðvum á grundvelli samkeppnislaga. Brot gegn ákvæði þessu varðar sömu viðurlögum og 11. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005, sbr. 37. gr. þeirra laga.

11. gr.

    2. mgr. 76. gr. laganna fellur brott.

12. gr.

    85. gr. A laganna fellur brott.

13. gr.

    Á eftir orðunum „Bændasamtökum Íslands“ í 4. mgr. 87. gr. laganna kemur: og öðrum samtökum sem framleiðendur hafa veitt fyrirsvar fyrir sína hönd.

II. KAFLI
Breyting á búnaðarlögum, nr. 70/1998, með síðari breytingum.
14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Ráðherra hefur á hendi yfirstjórn þeirra mála sem lög þessi taka til. Hann skal gera samninga við Bændasamtök Íslands, önnur samtök búvöruframleiðenda og sjálfstæða bændur um verkefni samkvæmt lögum þessum og framlög til þeirra þar sem m.a. skal kveðið á um framlög til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins vegna atvinnuuppbyggingar í sveitum og verkefna sem stuðla að aukinni umhverfisvernd, nýliðun og framleiðni í íslenskum landbúnaði.
     b.      Á eftir orðinu „sviði“ í 2. mgr. kemur: umhverfisverndar, skógræktar, lokunar framræsluskurða, smávirkjana, ferðaþjónustu.
     c.      3. mgr. orðast svo:
                  Ráðherra fer með faglega og fjárhagslega umsjón þeirra verkefna sem svo er samið um skv. 1. mgr. og fjárveiting heimilar og annast framkvæmd þeirra nema öðruvísi sé um samið eða ákveðið með lögum, enda sé skipulag þeirra og starfsreglur í samræmi við ákvæði laganna.

15. gr.

    Orðin „að fenginni umsögn Bændasamtaka Íslands“ í 4. gr. laganna falla brott.

16. gr.

    11. gr. laganna orðast svo:
    Hlutverk ræktunarstöðva er að rækta með úrvali eða innflutningi erfðaefnis þá eiginleika sem taldir eru eftirsóknarverðir. Ríkissjóður tekur þátt í stofnun og rekstri ræktunarstöðva samkvæmt samningum við Bændasamtök Íslands, önnur samtök búvöruframleiðenda og sjálfstæða framleiðendur, sbr. 3. gr.

17. gr.

    20. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra er heimilt að setja á fót samráðsvettvang um framkvæmd samninga skv. 3. gr.

18. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. maí 2019.

Greinargerð.

I. Inngangur.
    Markmið með frumvarpi þessu er að auka frelsi og sjálfræði framleiðenda búvara til markaðssetningar á afurðum sínum á innlendum og erlendum mörkuðum. Í því felst m.a. að afnema sérreglu búvörulaga sem gildir um mjólkuriðnaðinn og draga úr afskiptum ríkisvaldsins af verðlagningu, framleiðslu og vinnslu búvara.
    Í gildandi lögum hafa bændur sérstaka stöðu sem helst verður líkt við stöðu launþega í þjónustu afurðastöðva og hins opinbera. Til að stuðla að bættum kjörum bænda þarf að búa til regluverk sem gerir bændum kleift að vinna og markaðssetja afurðir sínar sjálfir. Þannig verði bændum gert fært að starfa sem atvinnurekendur og njóta kosta þess að reka bú sín á opnum markaði. Í frumvarpi þessu er því lagt til að verðlagsnefnd búvara og framkvæmdanefnd búvörusamninga verði lagðar niður og þannig stuðlað að jafnræði bænda á markaði og að verðmyndun verði í samræmi við almenn markaðslögmál. Jafnframt er lagt til að felld verði niður heimild til að gera fyrirframákveðnar framleiðnikröfur til afurðastöðva eða um einstakar framleiðsluvörur.
    Enn fremur er lagt til að felld verði niður heimild afurðastöðva skv. 71. gr. búvörulaga til að gera samninga sín á milli um verðtilfærslu milli afurða fyrir verðmyndun mjólkur og mjólkurafurða. Ákvæðið var lögfest með lögum nr. 85/2004, um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu búvara, nr. 99/1993. Á þeim tíma einkenndi fjárhagsvandi flest svið landbúnaðarins sem aðallega var til kominn vegna óhagstæðra rekstrareininga og lögbundinnar skyldu afurðastöðva og mjólkuriðnaðarins til þess að jafna landsbundinn aðstöðumun einstakra afurðastöðva og fjarlægð frá stærstu mörkuðum landbúnaðarvara. Afurðastöðvum í mjólkuriðnaði hefur fækkað og mikil hagræðing átt sér stað í þau 13 ár sem ákvæðið hefur staðið í búvörulögum. Til að tryggja samkeppni á mjólkurmarkaði og stuðla þannig að nýsköpun og vöruþróun er nauðsynlegt að vinnsluaðilum sé tryggður aðgangur að hrámjólk/ógerilsneyddri mjólk í lausu máli.
    Hafa undanþágur frá samkeppnislögum samkvæmt búvörulögum verið umdeildar og fyrir liggja fjölmörg álit Samkeppniseftirlitsins vegna beitingar og túlkunar á þeim. Með þessu frumvarpi er lagt til að veigamiklar undanþágur frá samkeppnislögum, sem um hafa gilt sérákvæði, verði afnumdar. Verði frumvarpið að lögum er verið að leysa helstu ágreiningsefni sem uppi hafa verið vegna beitingar og túlkunar á undanþágum frá samkeppnislögum í búvörulögum.
    Þá er lagt til að felld verði brott heimild til verðjöfnunar skv. 85. gr. A búvörulaga í samræmi við ákvörðun ráðherrafundar Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO, World Trade Organisation) í desember 2015 um að afnema útflutningsbætur.
    Frumvarpið er samið með hliðsjón af gildandi lögum og reglum í nágrannalöndum Íslands. Í skuldbindingaskrá Íslands að GATT-samningnum er kveðið á um skuldbindingar Íslands til þess að veita þjónustuveitendum frá aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar aðgang að markaði sínum. Þar er jafnframt kveðið á um skuldbindingar Íslands til þess að hafa ekki í gildi reglur sem fela í sér mismunun sem sé innlendum þjónustuveitendum í hag gagnvart erlendum þjónustuveitendum. Niðurstaða ráðherrafundar WTO í desember 2015 felur í sér pólitíska skuldbindingu um að afnema útflutningsbætur. Felur ákvörðunin ekki í sér lagalega skuldbindingu en ef ekki er brugðist við ákvörðuninni er talið líklegt að ómögulegt verði að ná saman um staðfestingu nauðsynlegra og formlegra breytinga á landbúnaðarsamningnum. Er því lagt til í frumvarpi þessu að heimild til útflutningsbóta í formi verðjöfnunargjalda verði felld brott.

II. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpið skiptist í tvo kafla, annars vegar breytingar á ákvæðum búvörulaga, nr. 99/1993, og hins vegar á ákvæðum búnaðarlaga, nr. 70/1998.
    Í I. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á tilgangi búvörulaga þar sem skerpt er á mikilvægi frjálsrar samkeppni í landbúnaði. Í kaflanum er jafnframt mælt fyrir um að framleiðendur búvara fari að meginreglu með eigið fyrirsvar við gerð samninga á grundvelli laganna en þeim sé þó heimilt að annað hvort fela Bændasamtökum Íslands að fara með fyrirsvar sitt eða stofna önnur samtök í þeim tilgangi. Þá er fellt brott ákvæði laganna um að samningar skuli vera bindandi fyrir framleiðendur viðkomandi búvara hvort sem þeir eru félagar í Bændasamtökum Íslands eða standa utan þeirra og í staðinn kveðið á um að samningar á grundvelli laganna séu aðeins bindandi fyrir þá framleiðendur sem teljast aðilar að hverjum samningi fyrir sig.
    Í kaflanum eru lagðar til ýmsar orðalagsbreytingar á lögunum, sem miða að því að jafna stöðu allra búvöruframleiðenda, sama hvort þeir tilheyra Bændasamtökum Íslands, öðrum samtökum eða standa utan samtaka. Þá eru felld brott öll ákvæði um verðlagsnefnd búvara og framkvæmdanefnd búvörusamninga. Tilgangurinn með því er að draga úr miðstýringu verðmyndunar og auka sjálfstæði bænda sem framleiðenda á markaði. Með því að leggja niður verðlagsnefnd búvara verður einnig unnið að því að gera styrkjakerfi landbúnaðarins gagnsærra. Samhliða breytingunni er jafnframt rétt að koma á fót beinum styrkjum til bænda, sem stuðli að aukinni nýsköpun og betri nýtingu lands og gæða.
    Í II. kafla frumvarpsins er lagt til að ákvæði um framkvæmdanefnd búvörusamninga verði fellt brott og lagðar til breytingar sem draga úr sérstöðu Bændasamtaka Íslands sem fyrirsvarsaðila búvöruframleiðenda í samningaviðræðum og samskiptum við ríkið. Í 14. gr. frumvarpsins er enn fremur kveðið á um aukinn stuðning Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og ríkissjóðs við umhverfisvernd, nýliðun, skógrækt, lokun framræsluskurða, gerð smávirkjana og þróun á sviði ferðaþjónustu. Verði frumvarp þetta að lögum er rétt, í framhaldinu, að hefja vinnu við sameiningu Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og AVS rannsóknarsjóðs, í sameiginlegan og öflugan Matvælasjóð. Slík breyting yrði til þess fallin að spara kostnað við yfirstjórn og yfirbyggingu sjóðanna sem nýta mætti beint í styrki til nýsköpunar í matvælageiranum, ekki síst í nýsköpun hjá bændum.
    Umræddar breytingar eru viðamiklar en að mati flutningsmanna frumvarpsins til þess fallnar að bæta hag íslenskra bænda og stuðla að heilbrigðri samkeppni á markaði, bændum og neytendum öllum til heilla.