Ferill 153. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 153  —  153. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um gjafsókn í heimilisofbeldis- og kynferðisbrotamálum.


Flm.: Ágúst Ólafur Ágústsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Andrés Ingi Jónsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Björn Leví Gunnarsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Guðmundur Andri Thorsson, Halldóra Mogensen, Hanna Katrín Friðriksson, Helga Vala Helgadóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Steindór Valdimarsson, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Þorsteinn Víglundsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


    Alþingi ályktar að dómsmálaráðherra verði falið að leggja fram eigi síðar en 1. október 2019 frumvarp til laga um gjafsókn í heimilisofbeldis- og kynferðisbrotamálum þegar einkaréttarlegar kröfur brotaþola hafa ekki fengið framgang í sakamáli.

Greinargerð.

    Með þingsályktun þessari yrði lögbundnum tilvikum til gjafsóknar fjölgað og næði þar með einnig til heimilisofbeldis- og kynferðisbrotamála. Þannig eiga brotaþolar í þessum málum möguleika á að koma einkaréttarkröfum sínum að, sér að kostnaðarlausu, þegar þær hafa ekki fengið framgang í sakamáli eins og dæmi sýna að getur gerst.
    Réttur brotaþola í þessum málum til að fá skipaðan réttargæslumann á kostnað ríkissjóðs er að finna lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Það er hins vegar þegar þeim lögum sleppir sem réttindi eru lök, t.d. þegar sakamál eru felld niður á rannsóknarstigi af ýmsum ástæðum, svo sem vegna mistaka eða vegna þess að nægar sannanir teljast ekki vera til staðar að sakamálarétti eða þegar sýknað er í sakamálinu.
    Við þessar aðstæður allar kann að vera hægt að fara í einkamál til að fá einkaréttarlegum kröfum framgengt enda eru t.d. sönnunarkröfur þar minni en í sakamáli og þá kæmi þetta gjafsóknarúrræði til sögunnar. Flutningsmenn tillögunnar telja eðli þessara brota og alvarleika þeirra réttlæta að gjafsókn sé veitt í þessum málum.
    Almennt séð er möguleiki á gjafsókn bundinn við lágar tekjur umsækjanda. Þó eru einnig lögbundin tilvik um gjafsókn sem hefur verið veitt óháð efnahag umsækjanda og eru það þau tilvik sem flutningsmenn vilja fjölga.
    Gjafsókn er lögbundin og því óháð efnahag, m.a. í bótamálum sem varða handtöku og gæsluvarðhald, úrskurði óbyggðanefndar um þjóðlendur, aðild barna að barnaverndarmálum, vinnudeilur fyrir Félagsdómi, ákvörðun vegna veitingar ættleiðingarleyfis og öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið.
    Slíkar lögbundnar heimildir til gjafsóknar eru þröngar en leyfið er ávallt veitt ef skilyrði viðkomandi ákvæða eru uppfyllt, óháð efnahag og tilefni til málsóknar.
    Löggjafinn hefur eins og fram hefur komið þegar tekið þá ákvörðun að í ákveðnum málum skuli gjafsókn vera heimiluð burtséð frá efnahag umsækjanda. Flutningsmenn telja að heimilisofbeldis- og kynferðisbrotamál eigi hiklaust heima í þessum flokki mála sem heimila gjafsókn. Efnahagur fólks eða fjölskyldu á ekki að ráða því hvort hægt sé að sækja sér einkaréttarkröfur í þessum málaflokki.
    Undanfarin ár hefur löggjafinn tekið ríkara tillit til þessara mála, svo sem með því að lögfesta sérstakt ákvæði um heimilisofbeldi og að sök fyrnist ekki vegna alvarlegra kynferðisbrota gegn börnum.
    Finna má raunveruleg dæmi um þann vanda sem brotaþolar í heimilisofbeldis- og kynferðisbrotamálum þurfa að glíma við og eru blaðagreinar þar sem slík dæmi eru rakin í fylgiskjali I.
    Í desember 2017 svarar dómsmálaráðherra opnu bréfi brotaþola, sjá fylgiskjal II, um að hún muni „taka til skoðunar tillögu þína um gjafsókn í einkamálum þegar um ræðir kynferðis- og heimilisofbeldisbrot“.
    Þá vilja flutningsmenn vekja athygli á því að samkvæmt lögum um sakamál á fólk rétt á gjafsókn, burtséð frá efnahag, séu kröfur uppi vegna hugsanlegrar ólögmætrar frelsisskerðingar af hálfu hins opinbera en þegar kemur að heimilisofbeldis- og kynferðisbrotum er ljóst að frelsisskerðing á sér einnig stað, þótt hún sé vegna athafna einstaklings en ekki af hálfu hins opinbera. Flutningsmenn telja ekki sé réttlætanlegt að gera þennan greinarmun á frelsisskerðingu annars vegar af hálfu hins opinbera og hins vegar frelsisskerðingu í heimilisofbeldis- og kynferðisbrotamálum.
    Á meðfylgjandi mynd má sjá skiptingu milli þeirra tilvika gjafsóknar sem annars vegar var veitt vegna lágra tekna og hins vegar vegna lögbundinna tilvika fyrir árin 2011–2013. Það er ljóst að einhver kostnaður fylgir samþykkt þessarar þingsályktunar en flutningsmenn telja að hann sé réttlætanlegur í ljósi þeirra hagsmuna sem hér um ræðir. Heildarkostnaður við opinbera réttaraðstoð, þ.m.t. gjafsókn, árið 2018 nam 391 millj. kr. og gera má því ráð fyrir að viðbótarkostnaður vegna þessarar réttarbótar verði ekki mjög hár. Þó ber að hafa í huga að samkvæmt lögum um meðferð sakamála er réttur brotaþola til að koma að kröfum samhliða sakamáli nú til staðar.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Um réttargæslu.
    Eins og fram hefur komið er mikilvægt að hafa í huga að einkaréttarkröfur má hafa uppi og dæma í sakamáli samkvæmt ákvæðum XXVI. kafla laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Í 41. gr. sömu laga kemur fram að skylt er að tilnefna réttargæslumann ef rannsókn máls beinist að kynferðisbroti skv. XXII. kafla almennra hegningarlaga og brotaþoli óskar þess. Skylt er enn fremur eftir ósk brotaþola að tilnefna honum réttargæslumann ef rannsókn beinist m.a. að manndrápi og líkamsmeiðingum skv. XXIII. kafla sömu laga og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þá kemur fram að þóknun réttargæslumanns greiðist úr ríkissjóði og telst til sakarkostnaðar skv. 216. gr., sbr. 3. mgr. 48. gr. laga um meðferð sakamála.
    Með hliðsjón af framangreindu má sjá að tilgangurinn er sá að brotaþolar, m.a. í heimilisofbeldis- og kynferðisbrotamálum, geti komið kröfum sínum á framfæri samhliða refsikröfum ákæruvaldsins sér að kostnaðarlausu. Hins vegar er rétt að taka fram að brotaþola er heimilt að ráða á sinn kostnað lögmann til að gæta hagsmuna sinna.
    Þingsályktun þessi breytir því ekki rétti brotaþola hvað þetta varðar eða möguleikum hans á að fá gjafsókn skv. b-lið 1. mgr. 126. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 19/1991. Hún eykur hins vegar möguleika á gjafsókn hafi brotaþoli ekki komið kröfu sinni að í sakamáli t.d. vegna mistaka lögreglu eða stjórnvalds eða vegna niðurfellingar máls eða sýknunar og þarf því þá að höfða sjálfur einkamál og á sinn kostnað.

Hvað er gjafsókn?
    Reglur um gjafsókn kveða á um í hvaða tilvikum kostnaður við dómsmál einstaklings er greitt úr ríkissjóði. Reglurnar er að finna í lögum um meðferð einkamála. Sótt er um gjafsókn til dómsmálaráðuneytisins sem óskar umsagnar gjafsóknarnefndar um umsóknina.
    Gjafsókn er ekki veitt nema gjafsóknarnefnd mæli með gjafsókn eða það sé lögbundið. Gjafsókn er notað bæði um gjafsókn og gjafvörn. Gjafsókn er veitt vegna mála sem rekin eru fyrir íslenskum dómstólum. Þannig verður gjafsókn ekki veitt vegna mála sem rekin eru fyrir stjórnvöldum eða erlendum dómstólum. Hver sá einstaklingur sem getur átt aðild að dómsmáli hér á landi, án tillits til ríkisborgararéttar, getur átt rétt til gjafsóknar. Gjafsókn verður ekki veitt eftir að dómur hefur verði kveðinn upp.
    Gjafsókn skuldbindur ríkið til að greiða þann málskostnað sem gjafsóknarhafi hefur sjálfur af máli, þ.e. þóknun lögmanns o.fl. Gjafsókn má þó takmarka þannig að hún nái aðeins til tiltekinna þátta málskostnaðar eða geti hæst numið tiltekinni fjárhæð. Þóknun lögmanns gjafsóknarhafa fyrir flutning máls skal ákveðin í dómi eða úrskurði. Ríkið verður því ekki skuldbundið til að greiða þá þóknun sem málflytjandi gjafsóknarhafa kann að áskilja sér heldur aðeins þá fjárhæð sem dómari ákveður handa honum.
    Gjafsóknarhafi er undanþeginn öllum greiðslum í ríkissjóð vegna þess máls sem gjafsókn tekur til, þar á meðal greiðslum fyrir opinber vottorð og önnur gögn sem verða lögð fram í máli. Gjafsókn nær einnig til kostnaðar af fullnustu réttinda gjafsóknarhafa með aðför og nauðungarsölu, nema annað sé tekið fram í gjafsóknarleyfinu. Gjafsókn breytir engu um að gjafsóknarhafa verði sjálfum gert að greiða gagnaðila sínum málskostnað.
    Gjafsókn er annars vegar vegna lögbundinna tilvika og hins vegna lágra tekna umsækjandans og þarf annað hvort skilyrðið að vera uppfyllt sbr. 1. mgr. 126. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Þessi þingsályktun fjallar ekki um gjafsókn vegna lágra tekna en þó telja flutningsmenn að tekjumörk umsækjanda í slíkum tilvikum séu enn allt of lág, þrátt fyrir nýlega hækkun þeirra. Enn eru tekjumörkin lægri en t.d. í Danmörku og eru núna einungis jafnhá lágmarkslaunum í landinu.

Gjafsókn vegna lágra tekna.
    Efnahag umsækjanda þarf að vera þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í máli yrði honum fyrirsjáanlega ofviða. Við mat á því hvort gjafsókn verði veitt vegna efnahags umsækjanda skal miða við að stofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars og fjármagnstekjur nemi ekki hærri fjárhæð en samtals 3.600.000 kr. Sé umsækjandi í hjúskap eða sambúð ber að hafa hliðsjón af tekjum maka og skulu samanlagðar árstekjur ekki nema hærri fjárhæð en sem nemur 5.400.000 kr. Þegar umsækjandi er yngri en 18 ára skal höfð hliðsjón af samanlögðum tekjum foreldra. Hækka skal viðmiðunarmörk tekna um 400.000 kr. fyrir hvert barn undir 18 ára aldri, þ.m.t. stjúp- og fósturbörn, sem búa hjá umsækjanda eða hann elur að mestum hluta önn fyrir, sbr. 1. mgr. 7. gr. reglugerðar um skilyrði gjafsóknar og starfshætti gjafsóknarnefndar, nr. 45/2008. Framangreindar fjárhæðir taka breytingum miðað við vísitölu neysluverðs 1. janúar ár hvert.
    Þó má veita einstaklingi gjafsókn þótt tekjur hans séu yfir viðmiðunarmörkum í vissum tilvikum, sbr. 8. gr. reglugerðarinnar:
     a.      þegar framfærslukostnaður er óvenjulega hár af einhverjum ástæðum,
     b.      aflahæfi umsækjanda er verulega skert til frambúðar vegna varanlegrar örorku,
     c.      umsækjandi, maki hans eða sambúðaraðili á ekki íbúðarhúsnæði og leigukostnaður er verulegur,
     d.      samanlagðar tekjur umsækjanda og maka hans eru yfir viðmiðunarmörkum en tekjur hans sjálfs eru undir þeim mörkum og telja verður að málið varði hann aðallega,
     e.      umsækjandi er yngri en 18 ára og sérstakar ástæður mæla með því þótt tekjur foreldra séu yfir tekjumörkum,
     f.      málskostnaður verður fyrirsjáanlega hár miðað við efnahag umsækjanda,
     g.      frá launatekjum er heimilt að draga vaxtagjöld vegna eigin húsnæðis ef vaxtagjöld eru óvenjulega há. Við mat á fjárhagsstöðu er jafnframt heimilt að leggja við þær vaxtabætur sem umsækjandi og maki hans fá greiddar.
    Synja má einstaklingi um gjafsókn þótt tekjur hans séu undir viðmiðunarmörkum, m.a. í eftirfarandi tilvikum:
     a.      umsækjandi, maki hans eða sambúðaraðili á peningainnstæðu, hlutabréf, skuldabréf, fasteign, lausafé eða aðrar eignir sem skipt geta máli þegar metin er greiðslugeta hans til að kosta málsókn sína sjálfur,
     b.      eignir umsækjanda, maka hans eða sambúðaraðila umfram skuldir eru verulegar,
     c.      aðilar að dómsmáli eru fleiri en einn og hlutur gjafsóknarbeiðanda er tiltölulega lítill miðað við aðra málsaðila.
    Gjafsókn verður aðeins veitt ef nægilegt tilefni er til málshöfðunar eða málsvarnar og eðlilegt megi teljast að öðru leyti að gjafsókn sé kostuð af almannafé.
    Málið þarf að vera þess eðlis að eðlilegt sé að málskostnaður verði greiddur af almannafé og málsefnið þarf að vera nægilega skýrt og málsókn nauðsynleg og tímabær.
    Að jafnaði er ekki veitt gjafsókn í málum þar sem ágreiningsefnið er eins og að neðan greinir nema sérstakar ástæður mæli með því, sbr. 1. tölul. 5. gr. reglugerðarinnar:
     a.      varðar viðskipti umsækjanda er tengjast verulega atvinnustarfsemi hans og hann hefur með aðgerðum sínum eða aðgerðaleysi komið sér í þá aðstöðu sem málsókninni er ætlað að bæta úr,
     b.      þegar ágreiningsefnið er milli nákominna,
     c.      þegar um er að ræða mál sem varðar óverulega hagsmuni og ekki er eðlilegt hlutfall milli þeirra og líklegs málskostnaðar,
     d.      þegar umsækjandi hefur sýnt af sér verulegt tómlæti sem hefur í för með sér sönnunarvanda.
    Þegar metið er hvort málsefnið er nægilega skýrt og málsókn nauðsynleg og tímabær eru eftirtalin atriði höfð til hliðsjónar, sbr. 2. tölul. 5. gr. reglugerðarinnar:
     a.      hvort málatilbúnaður sé nægilega skýr þannig að ætla megi að málið sé tækt til efnismeðferðar fyrir dómstóli,
     b.      hvort leitast hafi verið við að leysa málið utan réttar, þar á meðal fyrir úrskurðarnefndum,
     c.      hvort gagnaöflun utan réttar sé lokið og málshöfðun sé nauðsynleg og tímabær.
    Þá er litið til þess hvort málsefnið sé þannig að nokkrar líkur séu á því að málið vinnist fyrir dómi, þá er m.a. að horft til þess hvort dómstólar hafi áður leyst úr sambærilegu ágreiningsefni, sbr. 3. tölul. 5. gr. reglugerðarinnar.
    Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar skal umsókn um gjafsókn skal vera ítarlega rökstudd og þar skal m.a. fjallað um:
     a.      helstu málsatvik, málsástæður og lagarök,
     b.      hvort nægilegt tilefni sé til málshöfðunar eða málsvarnar,
     c.      fjölskylduhagi umsækjanda, framfærslubyrði og hvort efnahag hans sé þannig komið að kostnaður við rekstur dómsmáls verði honum fyrirsjáanlega ofviða,
     d.      hver sé áfallinn málskostnaður og hver væntanlegur málskostnaður verði, þ.m.t. kostnaður við öflun matsgerða og annarra sönnunargagna.
     e.      á hvaða gjafsóknarheimild umsókn er reist.
    Þegar gjafsókn er lögbundin (sjá hér á eftir) þarf aðeins að greina í umsókn þau atriði sem getur í 1. og 5. lið, sbr. 4. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar.
    Þó ber að vekja athygli á að skv. b-lið 1. mgr. 126. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, er heimilt að veita gjafsókn án tillits til fjárhags umsækjenda en einvörðungu ef úrlausn máls sé talin hafa verulega almenna þýðingu eða varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda.
    Lögmannafélag Íslands hefur bent á að þessu ákvæði sé lítið beitt og sé óhóflega matskennt. Litlar leiðbeiningar er að finna í reglugerð um veitingu gjafsóknar og starfshætti gjafsóknarnefndar en þar segir einvörðungu að við mat á því hvort gjafsókn verður veitt vegna þess að úrlausn máls hafi verulega almenna þýðingu skal m.a. höfð hliðsjón af því hvort úrlausn máls teljist mikilvæg og hafi verulega þýðingu fyrir fjölda einstaklinga og hvort dómstólar hafi áður leyst úr sambærilegu eða svipuðu málefni, sbr. 6. gr. a reglugerðarinnar.

Lögbundin gjafsókn.
    Gjafsókn verður enn fremur veitt þegar mælt er fyrir um það í öðrum lögum. Sækja þarf um slíka gjafsókn til dómsmálaráðuneytis og gjafsóknarnefndar og nefndin að mæla með að gjafsókn sé veitt. Þingsályktun þessi fjallar um að fjölga þeim málum sem heyra undir lögbundna gjafsókn þannig að hún nái einnig til heimilisofbeldis- og kynferðisbrotamála.
    Lögskylt er samkvæmt 230. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, að veita gjafsókn í málum þar sem settar eru fram kröfur um bætur fyrir handtöku, leit á manni eða í húsi, hald á munum, rannsókn á heilsu manns, gæsluvarðhald og aðrar aðgerðir sem hafa frelsissviptingu í för með sér.
    Samkvæmt 60. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, skulu foreldrar, fósturforeldrar og barn sem gengur inn í mál skv. 55. gr. laganna hafa gjafsókn fyrir héraðsdómi og Hæstarétti. Ef mál er höfðað skv. 34. gr. laganna til endurskoðunar á fyrri niðurstöðu dóms, sbr. 3. mgr. 34. gr., fer um rétt aðila til gjafsóknar samkvæmt almennum reglum.
    Samkvæmt 66. gr. laga, nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, gilda almennar gjafsóknarreglur um málsókn og málsvörn fyrir Félagsdómi.
    Samkvæmt 23. gr. ættleiðingarlaga, nr. 130/1999, skal stefnandi hafa gjafsókn í dómsmáli vegna ættleiðingar skv. 22. gr. laganna.
    Í 1. mgr. 4 . gr. laga nr. 21/1994, um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið, er heimilað að veita málsaðila, sem ekki hefur krafist þess að álits verði aflað, gjafsókn vegna þess þáttar málsins.
    Samkvæmt d-lið 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur umboðsmaður lagt til að gjafsókn verði veitt í máli sem heyrir undir starfssvið umboðsmanns og hann telur rétt að lagt verði fyrir dómstóla til úrlausnar.
    Samkvæmt 11. gr. barnalaga, nr. 76/2003, skal greiða þóknun lögmanns stefnanda sem dómari ákveður úr ríkissjóði, svo og annan málskostnað, þegar barn er stefnandi faðernismáls. Ákvæði 11. gr. eiga jafnframt við í dómsmálum til vefengingar á faðerni barns, þegar barn er stefnandi vefengingarmáls, sbr. 22. gr laganna. Orðalag greinarinnar er með sama sniði og 17. gr. lögræðislaga, en málskostnaður greiðist úr ríkissjóði í málum sem rekin eru á grundvelli lögræðislaga án þess að gjafsókn hafi verið veitt.
    Þá segir í 19. gr. laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998, að sá sem ekki vill una úrskurði óbyggðanefndar skal höfða einkamál innan sex mánaða frá útgáfudegi þess Lögbirtingablaðs sem útdráttur úr úrskurði er birtur í skv. 1. mgr. 18. gr. Er þá unnt að leggja til úrlausnar dómstóla hverja þá kröfu sem gerð hefur verið fyrir nefndinni. Heimilt er að veita aðila gjafsókn í samræmi við reglur XX. kafla laga um meðferð einkamála. Þrátt fyrir skilyrði 126. gr. laga um meðferð einkamála er heimilt að veita aðila gjafsókn þegar úrlausn máls hefur:
     a.      verulega almenna þýðingu eða
     b.      varðar verulega miklu um hagsmuni umsækjanda og kostnaður af gæslu hagsmuna hans í málinu hefur fyrirsjáanlega veruleg áhrif á efnahag hans.

Um gjafsókn á Norðurlöndum.
    Í Danmörku er fjallað um réttaraðstoð og gjafsóknir í 31. kafla réttarfarslaganna, retsplejeloven. 329. gr. réttarfarslaganna getur átt við brotaþola í heimilisofbeldis- eða kynferðisbrotamálum, en þau eru ekki nefnd í lögunum: „Uden for de tilfælde, der er nævnt i § 325, jf. §§ 327 og 328, kan justitsministeren efter ansøgning meddele en part fri proces, når særlige grunde taler for det. Dette gælder navnlig i sager, som er af principiel karakter eller af almindelig offentlig interesse, eller som har væsentlig betydning for ansøgerens sociale eller erhvervsmæssige situation.“
    Í 11. gr. norskra laga um gjafsóknir, n. rettshjelploven, eru nefnd mál þar sem kemur til greina að veita gjafsókn. Meðal þeirra eru mál brotaþola í ofbeldismálum þegar gerðar eru kröfur um bætur frá sakborningi.
    Í Svíþjóð gilda sérstök lög um gjafsóknir, s. rättshjälpslag. Samkvæmt lögunum verður umsækjandi um gjafsókn að greiða réttaraðstoðargjald, s. rättshjälpsavgift, sem reiknað er eftir kostnaði og greiðslugetu umsækjandans. Gjafsókn er veitt vegna kynferðisbrotamála, sem fjallað er um í 6. kafla sænsku hegningarlaganna, s. brottsbalk.
    Í Finnlandi geta brotaþolar fengið gjafsókn en brotin eru ekki tilgreind.

Fylgiskjal I.


Frétt á vef Ríkisútvarpsins 16. febrúar 2018: 1

    Kona, sem kærði heimilisofbeldi til lögreglu, fær ekki gjafsókn til að höfða einkamál, þrátt fyrir að mistök lögreglu hafi orðið til þess að málinu var vísað frá dómi. Upptaka af skýrslutöku misfórst hjá lögreglu og málið var látið niður falla áður en kærufrestur var liðinn. Rúna Guðmundsdóttir lýsti í fréttum RÚV í fyrra hvernig fyrrverandi sambýlismaður hennar beitti hana grófu ofbeldi. Rúna leitaði til lögreglu, en áður en kærufrestur var liðinn lét lögreglan rannsókn málsins niður falla. Það varð til þess að málinu var vísað frá dómi. „Málið fór forgörðum þegar ég sótti málið og leitaði til lögreglunnar og þá annað hvort voru valmöguleikarnir að gera ekki neitt eða að fara í einkamál. Og það er sárt að vera tekinn fyrir, og laminn ítrekað, og brotið svona á manni inni á heimili þar sem börn voru, og að kæra ekki,“ segir Rúna.
    Rúna ákvað því að sækja um gjafsókn. Samkvæmt lögum um meðferð einkamála er gjafsókn einungis veitt ef efnahagur umsækjanda er þannig að kostnaður af dómsmáli yrði honum fyrirsjáanlega ofviða, eða að úrlausn málsins hafi verulega almenna þýðingu eða skipti verulega miklu fyrir umsækjanda. „Þeir höfnuðu þessu alfarið af því að ég væri með of háar tekjur og það var ekkert horft til þess að lögreglan klúðraði málunum.“
    Samkvæmt reglugerð um gjafsókn vegna efnahags mega árstekjur viðkomandi ekki vera hærri en tvær milljónir króna, en tekjumarkið hækkar ef viðkomandi á börn, um 250 þúsund krónur á hvert barn. Tekjuviðmiðið hefur ekki verið hækkað frá því árið 2010.
    Rúna er einstæð, þriggja barna móðir. Samkvæmt tekjuviðmiði um gjafsókn mættu árstekjur hennar mest vera 2.750.000 krónur, eða um 230 þúsund krónur á mánuði. „Þessi upplifun segir mér bara að konur geti bara sleppt því að sækja réttar síns,“ segir Rúna. Hún íhugar nú að höfða einkamál og leggja út fyrir kostnaðinum sjálf. „En mig langar ekki að fara þá leið, mig langar frekar að þetta verði lagað, því að það koma fleiri konur á eftir mér.“

Frétt á Vísi 11. september 2017: 2

    Tveggja barna móðir sem höfðaði dómsmál til að fá lögskilnað frá eiginmanni sínum sem beitti hana ofbeldi fær ekki gjafsókn frá ríkinu. Maðurinn flúði land og hefur verið ákærður fyrir ítrekuð ofbeldisbrot. „Gjafsóknarnefnd gætir ekki jafnræðis,“ segir Kristrún Elsa Harðardóttir, lögmaður konunnar.
    „Þessi kona var í langvarandi ofbeldissambandi sem henni tókst að koma sér úr. Maðurinn hefur sætt þremur nálgunarbönnum og hefur brotið þau sextán sinnum. Það er evrópsk handtökuskipun á hann í gildi. Konan hefur notið aðstoðar lögreglu vegna málsins en svo mætir hún mótlæti kerfisins þarna,“ segir Kristrún Elsa og ítrekar erfiða félagslega stöðu konunnar. „Hún er í dag einstæð tveggja barna móðir og býr í leiguhúsnæði. Eina leiðin fyrir hana til að fá skilnað var að höfða dómsmál vegna flótta mannsins úr landi. Kostnaðurinn lendir allur á henni,“ segir Kristrún Elsa sem segist áður hafa fengið samþykkta gjafsókn í sambærilegum málum. Bæði í skilnaðar- og í forsjármálum þar sem tekjur eru yfir viðmiði. Við í lögmannastétt höfum oftsinnis gagnrýnt störf nefndarinnar og mat hennar.“
    Þegar sótt er um gjafsókn á grundvelli efnahags er almennt miðað við að tekjur nemi ekki hærri fjárhæð en samtals tveimur milljónum króna.
    Reglur um gjafsókn eru hins vegar sveigjanlegar að þessu leyti því tekið er fram að það megi veita einstaklingi gjafsókn þótt tekjur hans séu yfir viðmiðunarmörkum í vissum tilvikum. Félagsleg staða umsækjenda og aðstæður eru einnig metnar. Til dæmis þegar umsækjandi á ekki íbúðarhúsnæði eins og umrædd kona og leigukostnaður er verulegur. Einnig þegar framfærslukostnaður er hár eins og er í hennar tilfelli með tvö börn á framfæri. Einnig má víkja frá tekjuviðmiði þegar málskostnaður verður fyrirsjáanlega hár miðað við efnahag umsækjanda.
    Kristrún nefnir að helsta gagnrýni lögmanna felist í því að löggjafinn þurfi að fara yfir og ákveða í hvaða málaflokkum sé tilefni til að veita gjafsókn án tekjutengingar.
    Ýmsir gætu sagt að lögmenn hafi beina hagsmuni af því að gjafsóknir verði fleiri án tekjutengingar. Kristrún Elsa segir það af og frá. „Það er skelfilegt ef þröngar gjafsóknarreglur og synjanir nefndarinnar valda því að konur losna ekki við ofbeldismanninn úr lífi sínu. Borgarar verða að njóta jafnræðis fyrir lögum. Ég hef áður fengið gjafsókn þegar tekjur eru hærri og skjólstæðingur minn ekki í jafn vondri stöðu. Þá hef ég einnig fengið gjafsókn í forsjármálum. Þetta er ótækt. Mér finnst afar mikilvægt að konur sem hafa ef til vill barist árum saman séu ekki stöðvaðar þarna.
    Þessi kona stóð sig vel, hún kom sér út úr ofbeldissambandinu, var í góðu sambandi við lögreglu. Þá hefur hún unnið börnum sínum farborða og er refsað fyrir það. Mál hennar hefur verið dómtekið og líklegt að hún fái lögskilnað og fulla forsjá barna sinna. En nú veltir kerfið afleiðingunum, kostnaðinum, á hana.


Fylgiskjal II.


Hanna Kristín Skaftadóttir.
Opið bréf til dómsmálaráðherra 10. desember 2017:

Verðmiði réttlætis? – Opið bréf til dómsmálaráðherra
    „Ég mun drekkja þér í lögfræðikostnaði“
    Í dag fögnum við alþjóðadegi mannréttinda og lokadegi sextán daga átaks Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi. Konur í öllum kimum samfélagsins að tjá sig um reynsluheim sinn í skugga kynbundis ofbeldis. Við reynum oft að telja okkur trú um að við séum komin lengra á veg en raun ber vitni um. Þegar fyrstu tístin um reynslusögur kvenna í íslensku samfélagi litu dagsins ljós var reynt að mæta þeim með aumum rökum um að það séu alltaf tvær hliðar á öllum málum, þetta sé ekki svona slæmt og/eða gert lítið úr upplifun viðkomandi kvenna. Ég segi konur og held mig við umræðuna um að kynbundið ofbeldi beinist að mestu að konum en er þó alls ekki með því að gera lítið úr ofbeldi gegn öðrum hópum, hvort sem það eru karlmenn eða börn.
    Kynbundið ofbeldi í garð kvenna er ekkert nýtt. Hvort heldur sem er heimilisofbeldi eða kynferðisofbeldi. Það má rekja það skriflega aftur til 1776 f.Kr. þar sem sjötti konungur Babýlon, Hammurabi, taldi þörf sérstaklega á að meitla í stein hver viðurlög væru ef maður legði hendur á barnshafandi konu (ekki kona að leggja hendur á karlmann) svo illilega að hún myndi missa fóstur – þá voru viðurlögin þau að hann skildi greiða miska vegna þessa. Greiða miska. Bæta fyrir gjörðir sínar því hann gerði rangt.
    Það er alltaf rangt að beita ofbeldi og við kennum börnum okkar í nútímasamfélagi að ef í skólanum barn leggur hendur á annað barn þá taka skólayfirvöld eða kennari á málinu. Strax. Það ætti að vera geranda og þolanda ljóst að það er aldrei í lagi að gera lítið úr upplifun þolanda. Við myndum aldrei samþykkja að gera ekkert í málinu og bíða í 1–2 ár með að taka á því. Aldrei. Auðvitað sýnum við og kennum börnum okkar að við tökum á málinu strax og að svona hegðun sé óviðunandi.
    Réttlæti er að búa í samfélagi þar sem er gerð samfélagsleg sátt um hvernig við högum okkur, komum fram við hvort annað og við setjum okkur viðmið og gildi félagslega og persónulega. Ef mikið rekur út af þá þarf að vera einhver afleiðing þegar fólk brýtur á öðrum einstakling í samfélaginu. Því það eru skilaboð til þess sem brotið er á um að ef maður er beittur órétti þá sé það fordæmt af samfélaginu og bætt fyrir það. #metoo er að styðja við þau viðmið og gildi sem hafa í orði verið í samfélaginu en eru loksins að koma fram á borði líka.
    Hvað kostar þetta réttlæti í nútíma samfélagi? Hversu langt erum við komin í þróun jafnréttis? Í dag hefur vissulega þróun átt sér stað á stjarnfræðilegum hraða á sviði tækninýjunga – en þær eru ekki að skila sér nema á mjög afmarkaðan hátt til samfélagsins. Réttarkerfi okkar er því miður ekki að fá neina glæsilega IOS uppfærslu, það virðist allt gerast á hraða snigilsins og fyrr en varir verðum við föst með þá bláköldu staðreynd að óréttlæti er orðið verulega kostnaðarsamt fyrir samfélagið.
    Það kemur skýrt fram í stjórnarsáttmálanum að lagaumhverfi kynferðisbrota verði rýnt með það að markmiði að styrkja stöðu kærenda kynferðisbrota og að Istanbul-samningurinn um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi verður fullgiltur. Svo ég bind vonir um að það sé innstæða fyrir þessari yfirlýsingu af hálfu ykkar og að þær ísköldu staðreyndir sem í dag blasa við brotaþolum séu nokkuð sem komandi kynslóðir muni ekki þurfa að lifa við. Skoðum hvað réttlætið kostar okkur í nútímasamfélagi. Höfum hugfast að okkar dýrmætasta auðlind er tíminn sem er, því miður, takmörkuð auðlind.
    Kaldar staðreyndir í mínu tilfelli eru að nú eru 253 dagar síðan ég lagði fram kærur, með sönnunargögnum, indexað af mér. Það er alveg hægt að gera sér í hugarlund hversu þungbærir þessir dagar eru manni og það skánar ekkert því lengra sem líður frá hrottalegu ofbeldinu meðan réttlætinu er ekki sinnt. Maður dofnar upp með tímanum. Á þessum 253 dögum hefur málið lítið sem ekkert þokast áfram en fékk þó nálgunarbann í ágúst. Á aðfangadag, 24. desember, eru sléttir 2 mánuðir í að nálgunarbanni á hendur ofbeldismanninum sé aflétt, en þó verða líklegast öll málaferli enn óafgreidd. Það er galið að nálgunarbannið sé ekki áætlað framyfir réttarhöldin gegn ofbeldismanninum. Áfallateymi LSH veitir ráðgjöf 3x1 klst þar sem metin er áhættan á áfallastreitu í kjölfar ofbeldis. Ef einstaklingur sýnir alvarleg merki áfallastreitu? Þá er það ekki á vegum LSH að sinna því og viðkomandi þarf að leita sér faglegrar aðstoðar á eigin vegum. Á brotaþoli að greiða það? Tíminn, okkar dýrmætasta auðlind, er umvafinn svörtum skugga meðan málið mallar áfram hjá ákæruvaldinu.
    Aðrar kaldar staðreyndir Í mínu tilfelli eru að grófasti ofbeldisverknaðurinn nær ekki til lögsögu íslenska ákæruvaldsins og gerði ég því það sem fæstar konur þora að gera. Ég höfðaði einkamál gegn geranda mínum. Þá verður málið enn kaldara og staðreyndir máls fá mann til að undra afhverju nokkur kona skildi höfða einkamál gegn geranda sínum. Nú hef ég notið stuðnings Arnars Þórs Stefánssonar hrl. hjá LEX lögmannsstofunni. Vafalaust væri ég ekki búin að fá nálgunarbann á ofbeldismanninn, málið væri enn seinna í úrvinnslu og ég hefði aldrei haft hugrekkið í að sækja einkamál og eflaust ekki stutt ákæruvaldið jafn mikið og ég hef gert í sakamálunum – ef ekki hefði notið stuðnings LEX og Arnars.
    Kaldar staðreyndir hér eru að þegar kalla þarf eftir vottorði áfallateymis LSH greiðir brotaþoli 87.500,- fyrir. Ef þýða þarf gögn hleypur sá kostnaður á hundruðum þúsunda. Ef brotaþoli þarf að sækja sér læknisaðstoð, sálfræðiaðstoð, tannviðgerðir eða annað vegna skaða sem gerandi olli, þá greiðist það allt af brotaþola. Ef brotaþoli leggur í einkamál og tapar þá þarf viðkomandi að greiða lögmannskostnað geranda síns. Ef brotaþoli vinnur einkamálið en gerandi neitar að greiða þá fær brotaþoli ekkert í sinn hluti og situr uppi með útlagðan kostnað sinn. Getur þú aðstoðað mig við að skilja hvernig meðal kona í samfélaginu sem er með miðgildi heildarlauna VR (um 583.000,-) á að geta staðið straum af þessu öllu? Mögulega einstæð móðir með börn? Það er nákvæmlega enginn hvati fyrir hana til að höfða einkamál því verðmiði réttlætis er hreinlega of hár fyrir hana til að greiða. Þetta stólaði gerandi minn á þegar hann sagði „ég mun drekkja þér í lögfræðikostnaði“. Ég væri alveg til í að fara út í kynbundið launamisrétti hér … Það er efni í aðra grein, en samt beintengt inn á kynbundið óréttlæti.
    Það er sorglega mikill tími og orka sem fer hjá brotaþola, fjölskyldu, vinum, lögmönnum og öðrum aðstandendum í þessi mál meðan það eru óskýrir ferlar í þeim og úrvinnsla grátlega svifasein. Tímanum sem er rænt af fólki út af þessum málaferlum get ég engan veginn verðlagt. Óafturkræfur tími minn frá börnum mínum og þeim sem ég unni mest til þess eins að þjarkast í kerfi sem er hliðhollt geranda.
    Mig langar því að bjóða þér og ráðuneyti þínu mína dýrmætustu gjöf. Jólagjöfina í ár : tíma. Nú er nóg komið af sokknum kostnaði fjármuna og tíma sem hefur farið í þetta mál hjá mér. Leyfum verkunum að tala og bætum úr þessu ófremdarástandi þar sem er verið að láta brotaþola bera kostnað af einkamálum þegar ákæruvaldið getur ekki staðið undir málaferlum. Mig langar því að gefa þér hér formlega minn tíma sem þarf til þess að finna bestun og lausn á því hvernig við í sameiningu getum innleitt betri verkferla.
    Við Arnar Þór Stefánsson hrl. mælum með að skoðað verði að tekin verði upp gjafsókn fyrir brotaþola í kynferðis- og heimilisofbeldismálum hérlendis, þegar ástæða og þörf er á að sækja einkamál. Til dæmis í málum eins og hryllilega ofbeldismáli konunnar þar sem gleymst hafði að kveikja á upptöku í skýrslutöku – þar ætti auðvitað að bjóða henni upp á möguleika á gjafsókn. Við mælum með að stutt verði við konur að sækja réttlæti sitt og lágmarkaður tíminn sem þær þurfa að bíða eftir að mál þeirra verði tekið fyrir. Því fyrr sem við tökum á þessum málum og setjum þau í ferli því minni kostnaður verður það fyrir hið opinbera og heildrænt fyrir samfélagið þar sem minni tími þarf að fara í sokkinn kostnað sársauka og vonlausrar biðar. Einnig væri frábært að koma í framkvæmd rafrænu kerfi sem virkar þannig að þegar brotaþoli leggur fram kæru geti hann fylgst með rafrænt í kerfinu nákvæmlega hvar það sé statt í ferlinu og hver sé ábyrgðaraðili máls og ekki síst að úthlutaður sé félagsráðgjafi sem styðji við bakið á viðkomandi aðila í ferlinu. Ég veit að þú ert mjög réttsýn og skelegg kona svo hvað segirðu um þessar hugmyndir Sigríður Á. Andersen?
    Inntak erindis míns til þín er að skoða virði réttlætis. Eina sem ég veit er að núverandi staða er kostnaðarsöm heildrænt fyrir allt samfélagið en umfram allt á réttlætið ekki að þurfa að greiðast úr vasa þolenda.

1     www.ruv.is/frett/ekki-gjafsokn-thratt-fyrir-mistok-i-malsmedferd
2     www.visir.is/g/2017170919943