Ferill 162. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 163  —  162. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., lögum um bifreiðagjald og lögum um virðisaukaskatt (losunarviðmið, sendi-, vöru- og golfbifreiðar).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.


I. KAFLI
Breyting á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993,
með síðari breytingum.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Á fólksbifreiðar og önnur vélknúin ökutæki, sem ekki eru sérstaklega tilgreind í 4. og 5. gr., skal lagt vörugjald miðað við skráða losun koltvísýrings ( CO2) viðkomandi ökutækis, mælt í grömmum á hvern ekinn kílómetra. Gjaldið skal vera sem hér segir en samanlagt ekki nema meira en 65% á hvert ökutæki:
                  1.      0,37% á hvert gramm koltvísýringslosunar umfram 74 grömm á hvern ekinn kílómetra skráðrar koltvísýringslosunar hafi losunin einvörðungu verið skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni.
                  2.      0,34% á hvert gramm koltvísýringslosunar samkvæmt evrópsku aksturslotunni umfram 81 gramm á hvern kílómetra skráðrar koltvísýringslosunar hafi losunin verið skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunaraðferðinni.
                  3.      0,31% á hvert gramm skráðrar koltvísýringslosunar umfram 90 grömm á hvern ekinn kílómetra hafi losunin einvörðungu verið skráð samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni.
     b.      3. mgr. fellur brott.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Við p-lið 1. tölul. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gildir um golfbifreiðar sem eingöngu eru knúnar rafhreyfli.
     b.      G-liður 2. tölul. orðast svo: Sendibifreiðar með sambyggt stýrishús og flutningsrými, eftir atvikum búnar farþegasætum eða sætisfestingum fyrir allt að tvo farþega auk ökumanns í stýrishúsi en engum slíkum í farmrými og flutningsrými, sem aðallega eru ætlaðar til vöruflutninga og eru undir 5 tonnum að leyfðri heildarþyngd.
     c.      Á eftir h-lið 2. tölul. kemur nýr stafliður, svohljóðandi: Ökutæki ætluð til vöruflutninga, að heildarþyngd 5 tonn eða minna, sem ekki eru skráningarskyld samkvæmt umferðarlögum.
     d.      Í stað orðsins „golfbílar“ í b-lið 3. tölul. kemur: golfbifreiðar.

3. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Vörugjald skal lagt á leigubifreiðar til fólksflutninga, bifreiðar til ökukennslu og sérútbúnar bifreiðar til fólksflutninga miðað við skráða losun koltvísýrings ( CO2) viðkomandi ökutækis, mælt í grömmum á hvern ekinn kílómetra. Gjaldið skal vera sem hér segir en samanlagt ekki nema meira en 30% á hvert ökutæki:
     a.      0,26% á hvert gramm skráðrar koltvísýringslosunar umfram 132 grömm á hvern ekinn kílómetra skráðrar koltvísýringslosunar hafi losunin einvörðungu verið skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni.
     b.      0,24% á hvert gramm skráðrar koltvísýringslosunar umfram 145 grömm á hvern kílómetra skráðrar koltvísýringslosunar samkvæmt evrópsku aksturslotunni hafi losunin verið skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunaraðferðinni.
     c.      0,21% á hvert gramm skráðrar koltvísýringslosunar umfram 160 grömm á hvern ekinn kílómetra skráðrar koltvísýringslosunar hafi losunin einvörðungu verið skráð samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni.
    Mismunur álagningar skv. 3. gr. og grein þessari skal að hámarki nema 1.250.000 kr.
    Aðeins er heimilt að leggja vörugjald á bifreiðar samkvæmt þessari grein að eftirfarandi skilyrðum uppfylltum:
     a.      Kaupandi leigubifreiðar hefur atvinnuleyfi til leiguaksturs fólksbifreiða samkvæmt ákvæðum laga um leigubifreiðar og hefur akstur hennar að aðalatvinnu.
     b.      Ökukennari sem kaupir bifreið til ökukennslu hefur hlotið löggildingu sem ökukennari skv. 56. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, og hefur akstur hennar að aðalatvinnu.
     c.      Kaupandi bifreiðar til ökukennslu er ökuskóli með gilt starfsleyfi samkvæmt reglugerð sem sett er á grundvelli 56. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987.
     d.      Kaupandi sérútbúinnar bifreiðar til fólksflutninga hefur leyfi til reksturs sérútbúinna bifreiða skv. 9. gr. laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017.
    Skilyrði fyrir því að vörugjald sé lagt á bifreið til ökukennslu hjá ökuskóla samkvæmt grein þessari er að skráningu á akstri bifreiðarinnar sé hagað þannig að á hverjum tíma sé unnt að gera grein fyrir akstri í þágu ökukennslu. Tollstjóri getur án fyrirvara óskað eftir gögnum þar um. Við mat á því hvort bifreið hafi einungis verið notuð til ökukennslu skal miðað við að unnt sé að gera grein fyrir a.m.k. 80% af akstri hennar í þágu ökukennslu með framvísun þar til gerðrar akstursbókar eða á annan hátt sem tollstjóri metur fullnægjandi.
    Skilyrði fyrir því að kaupandi sérútbúinnar bifreiðar til fólksflutninga njóti vörugjaldsívilnunar samkvæmt grein þessari er að bifreiðin sé eingöngu nýtt í tengslum við þjónustu við ferðamenn. Bifreiðin skal auðkennd sérstaklega í ökutækjaskrá. Skal hún bera sérstök skráningarmerki og skal útlit þeirra tilgreint nánar í reglugerð um skráningu ökutækja.
    Komi í ljós að skilyrði sem sett eru í 3. mgr. hafi ekki verið uppfyllt við álagningu vörugjalds samkvæmt grein þessari varðar það því að kaupandinn, hvort sem er einstaklingur eða lögaðili, missir rétt til að njóta ívilnunar vörugjalds samkvæmt grein þessari í þrjú ár frá síðasta broti.
    Sé bifreið notuð til annars en hún er ætluð skv. c- og d-lið 3. mgr., sbr. 4. og 5. mgr., er tollstjóra heimilt að innheimta af skráðum eiganda hennar fullt vörugjald skv. 3. gr. eins og það hefði verið við upphaflega álagningu að viðbættu 50% álagi. Kröfunni fylgir lögveð ríkissjóðs í hlutaðeigandi bifreið í tvö ár frá gjalddaga og nær það til einnig til vaxta, dráttarvaxta og innheimtukostnaðar.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari skilyrði um ökutæki sem falla undir grein þessa, svo sem um notkun ökutækis, búnað þess og hvað teljist vera aðalatvinna skv. 3. mgr., svo og ákvæði um endurgreiðslu á mismun vörugjalds samkvæmt ákvæðum 3. gr. annars vegar og greinar þessarar hins vegar ef skilyrði c- og d-liðar 3. mgr., sbr. 4. og 5. mgr., eru ekki uppfyllt.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða XVI í lögunum:
     a.      Í stað orðanna „miðað við skráða losun koltvísýrings viðkomandi ökutækis“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: miðað við skráða losun koltvísýrings viðkomandi ökutækis samkvæmt evrópsku aksturslotunni.
     b.      Á eftir 1. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Hafi losunin einvörðungu verið ákvörðuð samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni skal lækka skráða losun koltvísýrings ökutækis um 17,36% við ákvörðun vörugjalds.
     c.      2. mgr. orðast svo:
                  Sé bifreið notuð til annars en útleigu hjá ökutækjaleigu sem er skráð fyrir henni, sbr. 1. mgr., er tollstjóra heimilt að innheimta af skráðum eiganda hennar fullt vörugjald skv. 3. gr. eins og það hefði verið við upphaflega álagningu að viðbættu 50% álagi. Kröfunni fylgir lögveð ríkissjóðs í hlutaðeigandi bifreið í tvö ár frá gjalddaga og nær það einnig til vaxta, dráttarvaxta og innheimtukostnaðar.

5. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 3. og 5. gr. skal lækka skráða losun koltvísýrings ökutækis um 17,36% við ákvörðun vörugjalds á ökutæki frá gildistöku ákvæðis þessa til ársloka 2018 hafi losunin einvörðungu verið ákvörðuð samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni.

II. KAFLI
Breyting á lögum um bifreiðagjald, nr. 39/1988, með síðari breytingum.
6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 2. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „skráðri kolefnislosun ökutækis“ kemur: skráðri losun koltvísýrings ökutækis samkvæmt evrópsku aksturslotunni.
     b.      Við bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Hafi koltvísýringslosunin verið skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunaraðferðinni skal gjaldið vera 6.075 kr. fyrir losun allt að 133 grömmum af skráðri koltvísýringslosun ökutækis samkvæmt evrópsku aksturslotunni en 133 kr. fyrir hvert gramm af losun umfram það. Hafi koltvísýringslosunin einvörðungu verið skráð samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni skal gjaldið vera 6.075 kr. fyrir losun allt að 146 grömmum af skráðri koltvísýringslosun ökutækis en 121 kr. fyrir hvert gramm af losun umfram það.

III. KAFLI
Breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum.
7. gr.

    2. tölul. 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIV í lögunum orðast svo: Við innflutning og skattskylda sölu tengiltvinnbifreiðar skal skráð losun slíkrar bifreiðar á koltvísýringi vera 50 g eða minna á hvern ekinn kílómetra samkvæmt evrópsku aksturslotunni. Hafi koltvísýringslosunin verið skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunaraðferðinni skal skráð losun slíkrar bifreiðar á koltvísýringi samkvæmt evrópsku aksturslotunni vera 55 g eða minna á hvern ekinn kílómetra. Hafi koltvísýringslosunin einvörðungu verið skráð samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni skal skráð losun slíkrar bifreiðar á koltvísýringi vera 60 g eða minna á hvern ekinn kílómetra.

IV. KAFLI
Gildistaka.
8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Ákvæði 1., 3., 6. og 7. gr. öðlast þó gildi 1. janúar 2019.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Það hefur að geyma tillögur að breytingum sem snerta skattlagningu ökutækja miðað við skráða koltvísýringslosun sem æskilegt er að verði samþykktar á haustþingi 2018. Rétt er að geta þess að tillögunum er ekki ætlað að hafa áhrif á tekjur ríkissjóðs heldur einvörðungu að koma í veg fyrir að ósamræmi skapist við álagningu skatta og gjalda á ökutæki. Á heildina litið ætti samþykkt frumvarpsins að vinna gegn því að útsöluverð bifreiða hækki en vegna þess hve fjölbreytilegur bifreiðafloti er markaðssettur á Íslandi um þessar mundir er þó óhjákvæmilegt að áhrifin verði mismunandi ef litið er til hverrar og einnar bifreiðar. Jafnframt er í frumvarpinu lagt til að skilgreining sendibifreiðar verði lagfærð, vörugjaldi af tilteknum ökutækjum til vöruflutninga verði breytt, vörugjald af golfbifreiðum verði samræmt markmiðum um orkuskipti og gerðar verði breytingar í því skyni að treysta hagsmuni ríkissjóðs við veitingu ívilnana.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Markmið frumvarpsins er að treysta grundvöll skattlagningar ökutækja með það fyrir augum að tryggja samræmi hennar eftir fremsta megni. Breytingar sem orðið hafa á grundvelli skattlagningar ökutækja kalla á aðlögun og henni verður ekki náð fram án lagabreytinga.

Breytingar á aðferðafræði mælinga sem snerta útblástur ökutækja.
    Að vissu marki eru skattar og gjöld lögð á eigendur ökutækja miðað við skráða losun koltvísýrings við notkun. Þannig er meginregla laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, sú að vörugjald er lagt á ökutæki miðað við skráða losun koltvísýrings viðkomandi ökutækis, mælt í grömmum á hvern ekinn kílómetra (g/km). Bifreiðagjald sem lagt er á skráð ökutæki að eigin þyngd 3.500 kg eða minna samanstendur annars vegar af fastri gjaldfjárhæð og hins vegar fjárhæð sem ákvarðast með tilliti til skráðrar losunar ofan tiltekinna marka. Þá er virðisaukaskattur af innflutningi felldur niður og undanþeginn skattskyldri veltu að tilteknu hámarki í tilviki skilgreindra flokka tengiltvinnbifreiða sem hafa skráða losun undir tilteknum mörkum.
    Koltvísýringslosunin sem vísað er til í ákvæðum framangreindra lagabálka er skráð af Samgöngustofu í samræmi við reglur sem byggjast á ákvæðum umferðarlaga og stjórnvaldsfyrirmæla, sem m.a. fela í sér innleiðingu ýmissa Evrópugerða, þar sem gerðar eru kröfur til framleiðslu og markaðssetningar ökutækja.
    Um langa hríð hafa alþjóðastofnanir, þar á meðal Sameinuðu þjóðirnar, unnið samkvæmt þeirri stefnu að draga beri úr losun mengunar og skaðlegra efnisagna frá ökutækjum. Allt frá 1970 hefur verið unnið að setningu staðla til að unnt sé að leggja samræmt mat á mengun, losun og eldsneytiseyðslu ökutækja. Hefur ökutækjaframleiðendum verið gert að veita yfirvöldum og neytendum upplýsingar um niðurstöður slíks mats. Nýja evrópska aksturslotan (e. New European Driving Cycle/NEDC), sem í frumvarpinu er nefnd evrópska aksturslotan, hefur verið helstur þessara staðla. Frá því skömmu fyrir síðustu aldamót hefur notkun staðalsins sætt töluverðri gagnrýni, m.a. þar sem aðferðafræði hans hefur ekki þótt standast tímans tönn í ljósi þróunar við framleiðslu ökutækja, breyttra notkunarhátta þeirra og mismunandi eiginleika.
    Alþjóðlegur vinnuhópur um samræmingu reglna um ökutæki, sem starfar á vegum deildar sjálfbærra samgangna hjá efnahagsnefnd Evrópu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna (e. World Forum for Harmonization of Vehicle Regulations), hefur þróað nýjan staðal. Staðallinn ber heitið prófunaraðferð fyrir létt ökutæki sem er samræmd á heimsvísu (e. Worldwide harmonized Light vehicles Test Procedure/WLTP) en hún er í frumvarpinu nefnd samræmda prófunaraðferðin. Í tengslum við gildistöku nokkurra Evrópugerða á sviði ökutækja 1 hefur evrópskum framleiðendum fólksbifreiða og léttra vörubifreiða verið gert að veita upplýsingar samkvæmt mati sem grundvallast á aðferðafræði nýja staðalsins (WLTP). Tilgangur upptöku staðalsins er að mat á mengun, losun og eldsneytiseyðslu ökutækja endurspegli betur raunverulega notkun ökutækja.
    Samkvæmt áhrifamati sem unnið var fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mun upptaka nýja staðalsins hafa í för með sér að upplýsingar um mengun, losun og eldsneytiseyðslu ökutækja taka breytingum. Á þessum tímapunkti er m.a. ljóst að uppgefin koltvísýringslosun ökutækja mun hækka um 7–37% eða 21% að meðaltali. Sem dæmi má nefna að ökutæki sem hafa haft uppgefna koltvísýringslosun sem nemur 100 g/km samkvæmt evrópsku aksturslotunni (NEDC) að meðaltali hafa uppgefna losun sem nemur 121 g/km samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni (WLTP).
    Frá og með 1. september 2017 hefur evrópskum ökutækjaframleiðendum verið gert að veita upplýsingar um losun bæði samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni (WLTP) og evrópsku aksturslotunni (NEDC) í tilviki ökutækja sem hafa fengið gerðarviðurkenningu eftir þann tíma. Frá og með 1. september 2018 munu öll ný ökutæki sem markaðssett eru á EES-svæðinu fá uppgefna koltvísýringslosun samkvæmt báðum stöðlunum. Árið 2020 verður framleiðendunum hins vegar gert skylt að veita einungis upplýsingar um koltvísýringslosun samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni (WLTP). Upplýsingar um koltvísýringslosun verða gefnar upp samkvæmt báðum stöðlunum á innleiðingartíma samræmdu prófunaraðferðarinnar (WLTP) 2017–2020. Sá munur verður hins vegar á að upplýsingar samkvæmt evrópsku aksturslotunni (NEDC) verða frá 1. september 2018 alfarið byggðar á umreikningi koltvísýringslosunar, þ.e. losunargildis í g/km, samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni (WLTP). Annað gildið verður merkt WLTP á samræmingarvottorði ökutækis og verður það alfarið byggt á samræmdu prófunaraðferðinni. Hitt gildið verður á tímabilinu merkt NEDC á samræmingarvottorði og verður það einnig byggt á nýju aðferðafræðinni en umreiknað þannig að það samsvari sem best skráningargildi byggðu á evrópsku aksturslotunni. Innleiðingarferill samræmdu prófunaraðferðarinnar er útskýrður á einfaldaðan máta á mynd 1.

Mynd 1.
Innleiðingarferill samræmdu prófunaraðferðarinnar (WLTP).

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Á innleiðingartímanum 2017–2020 munu ökutækjaframleiðendur gefa upp tvö losunargildi í tilviki flestra nýrra bifreiða. Samræmda prófunaraðferðin (WLTP) tekur tillit til ýmiss konar aukabúnaðar ökutækja sem evrópska aksturslotan (NEDC) gerir ekki. Vegna þessa er að óbreyttu hætta á að verulegur munur kunni að verða á vörugjaldi sambærilegra ökutækja sem búnar eru mismunandi búnaði og þá án tengsla við þá hækkun koltvísýringslosunar sem búnaðurinn orsakar. Svo dæmi sé tekið virðast fyrirliggjandi gögn gefa til kynna að vinsæll smájeppi (jepplingur) sem hefur verið markaðssettur á Íslandi í tveimur sambærilegum útgáfum, þar sem munurinn felst einvörðungu í því að veglegri útgáfan er búin stórum felgum og glerþaki, hafa skráða losun samkvæmt evrópsku aksturslotunni sem nemur 136 g/km í tilviki hefðbundnu útgáfunnar en 140 g/km í tilviki hinnar.

Golf- og sendibifreiðar og ökutæki til vöruflutninga.
    Golfbifreiðar hafa borið 30% vörugjald um nokkra hríð óháð því hvers konar aflvélum þær eru búnar. Hefur fyrirkomulagið sætt verulegri gagnrýni og því verið haldið fram að það hvetji til kaupa á golfbifreiðum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti á kostnað þeirra sem ganga fyrir rafmagni, þvert á stefnu stjórnvalda í orkuskiptum og loftslagsmálum.
    Ökutæki aðallega ætluð til vöruflutninga að heildarþyngd 5 tonn eða minna báru 13% vörugjald allt til gildistöku laga nr. 156/2010, sem kváðu á um ýmsar breytingar á skattlagningu ökutækja og eldsneytis í nafni kerfisbreytingar. Ein af grundvallarbreytingunum sem lögin kváðu á um var sú að svokallaðar pallbifreiðar, að heildarþyngd 5 tonn eða minna, voru felldar undir meginreglu laganna um álagningu miðað við skráða losun koltvísýrings viðkomandi ökutækis. Var það gert með því að fella brott ákvæði um 13% vörugjald á ökutæki aðallega ætluð til vöruflutninga að heildarþyngd 5 tonn eða minna en taka þess í stað upp sérákvæði um 13% vörugjald á sendibifreiðar og grindarbifreiðar. Sérákvæðin grundvölluðust á sjónarmiðum um að ívilna skyldi eigendum ökutækjum sem alla jafna notuðu þau eingöngu í atvinnurekstri. Orðalag þess ákvæðis sem gerir ráð fyrir 13% vörugjaldi af sendibifreiðum var byggt á skilgreiningu slíkra bifreiða samkvæmt reglugerð nr. 822/2004, um gerð og búnað ökutækja. Í framkvæmd hefur hins vegar komið á daginn að orðalagið er haldið annmörkum sem gera það að verkum að fleiri bifreiðar hafa fallið undir ákvæðið en lagt var upp með. Framkvæmdin hefur því fjarlægst það markmið að ívilna eigendum atvinnutækja. Einnig hefur í framkvæmd verið leitt í ljós að tiltekin ökutæki sem ekki eru skráningarskyld samkvæmt ákvæðum umferðarlaga og stjórnvaldsfyrirmæla sem á þeim byggjast, og óumdeilt er að eru nær eingöngu notuð í atvinnurekstri, bera mun hærra vörugjald en til stóð.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í ljósi breytinga á aðferðum sem notaðar eru við mælingar á koltvísýringslosun ökutækja er æskilegt að gera breytingar á reikniforsendum skatta og gjalda af ökutækjum sem taka mið af skráðri koltvísýringslosun. Til að koma í veg fyrir að ósamræmi skapist þegar að skattlagningu kemur þurfa breytingarnar að vera tvenns konar:
     1.      Jafna þarf þunga skattlagningar á ökutæki með hliðsjón af þeim mun sem líklegt er að verði á losunarupplýsingum.
     2.      Falla frá því fyrirkomulagi að leggja vörugjald á ökutæki í tíu gjaldbilum og taka þess í stað upp að heita má línulega skattlagningu miðað við hvert g/km skráðrar koltvísýringslosunar.
    Breytingin sem felst í því að taka upp línulega álagningu vörugjalds er í eðli sínu veigamikil kerfisbreyting þegar kemur að álagningu skatta á ökutæki. Tilgangur hennar er að tryggja samræmi við álagningu vörugjalds, þ.e. að ekki komi til þess að ökutæki færist milli gjaldbila og vörugjald hækki um 5–10% vegna aukabúnaðar sem hefur lítil sem engin áhrif á skráða koltvísýringslosun.
    Rétt er að taka fram að breytingarnar hafa ekki áhrif á skattbyrði eigenda ökutækja sem þegar hafa verið flutt inn og skráð á Íslandi, að því gefnu að þau hafi einvörðungu skráða koltvísýringslosun samkvæmt evrópsku aksturslotunni. Telja verður að svo eigi við um nær öll ökutæki sem skráð eru á Íslandi við framlagningu frumvarpsins. Breytingarnar munu hins vegar hafa áhrif í tilvikum ökutækja sem verða flutt inn eftir samþykkt frumvarpsins.

Vörugjald.
    Vörugjald er lagt á öll ökutæki sem flutt eru til landsins, ný og notuð, og ökutæki sem hér eru framleidd, unnin eða sett saman, nema það sé gert í útflutningsskyni. Gjaldstofninn er tollverð viðkomandi ökutækis við innflutning, verksmiðjuverð sé það framleitt hér á landi eða verðmæti ökutækis eftir breytingu eða aðvinnslu. Samkvæmt meginreglu er vörugjald lagt á bifreiðar í tíu gjaldbilum (A-J) aðalflokks miðað við skráða koltvísýringslosun ( CO2) mælt í grömmum á hvern ekinn kílómetra, frá 0% gjaldi ef losunin nemur undir 80 g/km til 65% gjalds ef losun fer yfir 250 g/km. Viðamiklar undantekningar eru gerðar frá meginreglunni sem aftur skiptast í marga undirflokka eftir gerðum ökutækja og tilgangi notkunar þeirra. Undanþágunum má þó í aðalatriðum skipta í þrennt:
     a.      Undantekningar fyrir tilteknar gerðir ökutækja, þ.e. ýmis ökutæki sem nýtt eru í atvinnurekstri, og þá jafnvel utan vegakerfisins, eldri ökutæki og bifhjól.
     b.      Sérstakar undantekningar fyrir leigubifreiðar, bifreiðar í eigu ökutækjaleigu, ökukennslubifreiðar og sérútbúnar bifreiðar til fólksflutninga.
     c.      Sérstakar undantekningar fyrir ökutæki sem hafa metan eða metanól sem aðalorkugjafa.
    Ökutæki sem falla undir undanþágur a-liðar bera fast gjaldhlutfall, 0%, 5%, 13% eða 30%. Ökutæki sem falla undir undanþágur b-liðar bera 0–30% vörugjald, lagt á í tíu gjaldbilum miðað við skráða koltvísýringslosun sem mæld er í g/km. Svokallað þak er á sérstökum undanþágum b-liðar, þ.e. munurinn á vörugjaldi ef það væri lagt á samkvæmt aðalflokki (0–65%) og undanþáguflokki (0–30%) getur að hámarki numið tiltekinni fjárhæð. Ökutæki sem falla undir undanþágur c-liðar eru undanþegin vörugjaldi að tilteknu hámarki en bera vörugjald samkvæmt aðalflokki 3. gr. laganna, 0–65%, eða fast vörugjald skv. 4. gr. laganna að öðru leyti.
    Til að bregðast við þeirri stöðu sem getið var um í inngangi þessa kafla er í fyrsta lagi lagt til að gerð verði breyting á meginreglu 1. mgr. 3. gr. og undantekningarákvæðum 5. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Breytingin sem lögð er til bæði á meginreglunni og undantekningarákvæðinu felur í sér að í stað þess að vörugjald verði lagt á ökutæki í tveimur flokkum, aðalflokki og undanþáguflokki, í tíu gjaldbilum (A-J), verði vörugjaldið línulegt í þeim skilningi að tiltekið gjaldhlutfall verður lagt á hvert gramm skráðrar koltvísýringslosunar ofan tiltekinna marka og að tilteknu samanlögðu hámarki gjaldhlutfalls. Kveðið verði á um að gjaldið beri að miða við losunarupplýsingar sem hafa verið skráðar samkvæmt evrópsku aksturslotunni (NEDC) en í undantekningartilvikum skuli miða við losunarupplýsingar sem hafa verið skráðar samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni (WLTP). Hafi hins vegar bæði verið skráðar losunarupplýsingar samkvæmt evrópsku aksturslotunni (NEDC) og samræmdu prófunaraðferðinni (WLTP) skuli miða við losunarupplýsingar samkvæmt evrópsku aksturslotunni (NEDC) en gjaldið verði þá lægra en ef tekið væri mið af gjaldi sem leggja bæri á ef losunarupplýsingar hefðu aðeins verið skráðar samkvæmt evrópsku aksturslotunni (NEDC), sjá nánar á mynd 2.

Mynd 2. Hlutfall vörugjalds á fólksbifreiðar og önnur vélknúin ökutæki fyrir og eftir samþykkt breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Vegna þess hve skammur tími er til stefnu fyrir stjórnvöld til að gera breytingar á kerfum skattlagningar ökutækja er lagt til að framangreindar breytingar taki gildi 1. janúar 2019. Til að brúa bilið er hins vegar einnig lagt til að kveðið verði á um það bráðabirgðafyrirkomulag að frá samþykkt frumvarpsins til og með 31. desember 2018 skuli lækka skráða losun koltvísýrings ökutækis um 17,36% við ákvörðun vörugjalds hafi losunin einvörðungu verið skráð samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni (WLTP).
    Á mynd 3 eru tekin dæmi um hver áhrif samþykkt frumvarpsins kunna að verða í tilviki nokkurra bifreiða þegar að vörugjaldi kemur. Í dæmunum er tekið mið af raunverulegum breytingum á skráðri koltvísýringslosun nokkurra ökutækja en fjárhæðir vörugjalds eru reiknaðar miðað við meðaltollverð ökutækja, með sambærilega skráða losun, á árinu 2017. Rétt er að ítreka að hér er aðeins um dæmi að ræða og líklegt er að þau endurspegli ekki nákvæmlega áhrifin sem fram koma í tilviki hvers og eins ökutækis.


Mynd 3.
Dæmi um hver áhrif samþykktar frumvarpsins gætu orðið í tilviki nokkurra bifreiða.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Bifreiðagjald.
    Bifreiðagjald er lagt á vélknúin ökutæki sem skráð eru í bifreiðaskrá, þ.e. fólksbifreiðar og vöruflutningabifreiðar á þremur hjólum eða fleiri, dráttartæki sem eru hönnuð til hraðari aksturs en 30 km á klst., dráttartæki og bifhjól. Gjaldið er lagt á í tveimur sex mánaða gjaldtímabilum miðað við skráða losun koltvísýrings viðkomandi ökutækis. Gjaldið er lagt á ökutækin í tveimur þrepum:
     1.      Af ökutækjum sem eru allt að 3.500 kg að eigin þyngd eru greiddar 5.925 kr. tvisvar á ári nemi skráð losun koltvísýrings allt að 121 g/km en 142 kr. fyrir hvert g/km umfram það.
     2.      Af ökutækjum sem eru 3.501 kg að eigin þyngd eða þyngri eru greiddar 55.510 kr. tvisvar á ári og 2,37 kr. á hvert kg eigin þyngdar umfram þá þyngd.
Aldrei er greitt meira en sem nemur 87.375 kr. hálfsárslega í bifreiðagjald.
    Lagt er til að kveðið verði á um að við álagningu bifreiðagjalds á ökutæki skuli að miðað við losunarupplýsingar sem hafa verið skráðar samkvæmt evrópsku aksturslotunni (NEDC) hafi einungis slíkar upplýsingar verið skráðar. Miðað verði við losunarupplýsingar sem hafa verið skráðar samkvæmt evrópsku aksturslotunni (NEDC) hafi losunin verið skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni (NEDC) og samræmdu prófunaraðferðinni (WLTP) en lögð til aðlögun að þeim 9,6% meðalmun sem er á þeirri losun og losun sem aðeins er skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni. Þá skuli miða við losunarupplýsingar sem hafa verið skráðar samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni (WLTP) hafi slíkar losunarupplýsingar einvörðungu verið skráðar. Er þetta skýrt nánar á mynd 4.


Mynd 4.
Fjárhæð bifreiðagjalds af ökutækjum, fólksbifreiðum o.fl., að eigin þyngd 3.500 kg eða minna, á hverju gjaldtímabili, fyrir og eftir samþykkt breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Virðisaukaskattsívilnun tengiltvinnbifreiða.
    Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, er heimilt út árið 2020 að fella niður eða telja til undanþeginnar veltu tiltekna hámarksfjárhæð við sölu á nýjum rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiðum. Ívilnunin er bundin við hámarksfjölda ökutækja, þ.e. 10.000 rafmagnsbifreiðar, 10.000 vetnisbifreiðar og 10.000 tengiltvinnbifreiðar. Í tilviki tengiltvinnbifreiða er það m.a. gert að skilyrði ívilnunar að viðkomandi bifreið hafi skráða losun koltvísýrings sem nemur 50 g/km eða minna.
    Lagt er til að kveðið verði á um sambærilega efnislega breytingu á losunarviðmiði virðisaukaskattsívilnunar tengiltvinnbifreiða og lögð er til í tilviki vörugjalds og bifreiðagjalds. Þannig er lagt til að losunarviðmið koltvísýrings verði 50 g/km eða minna hafi koltvísýringslosunin einvörðungu verið skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni, 55 g/km eða minna hafi hún verið skráð bæði samkvæmt evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunaraðferðinni en 60 g/km eða minna hafi hún einvörðungu verið skráð samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni.

Golfbifreiðar.
    Í þingsályktun um aðgerðaáætlun um orkuskipti, nr. 18/146, er m.a. gert ráð fyrir að haft verði að leiðarljósi að Ísland verði framarlega í notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum á öllum sviðum. Í samræmi við stefnu stjórnvalda um að stuðla að orkuskiptum er lagt til að golfbifreiðar verði alfarið undanþegnar vörugjaldi séu þær eingöngu knúnar rafhreyfli.

Sendibifreiðar.
    Í samræmi við þá stefnumörkun að aðeins ökutæki sem alla jafna eru eingöngu notuð í atvinnurekstri skuli njóta undanþágna frá meginreglum vörugjalds á ökutæki er lagt til að aðeins sendibifreiðar sem ekki eru búnar farþegasætum eða festingum fyrir þau í farmrými falli undir undantekningarákvæði g-liðar 2. tölul. 4. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993. Sendibifreiðar sem búnar eru farþegasætum eða festingum fyrir þau í farmrými munu því bera vörugjald samkvæmt meginreglu 3. gr. laganna en ekki 13% vörugjald.

Vöruflutningatæki undir 5 tonna heildarþyngd sem ekki eru skráningarskyld.
    Í samræmi við þá stefnumörkun að ökutæki sem alla jafna eru eingöngu notuð í atvinnurekstri skuli njóta undanþágna frá meginreglum skattlagningar á ökutæki er lagt til að vörugjald af ökutækjum sem aðallega eru ætluð til vöruflutninga, að heildarþyngd 5 tonn eða minna, sem ekki eru skráningarskyld samkvæmt umferðarlögum, nr. 50/1987, nemi 13%.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Vegna krafna sem ákvæði 40. og 77. gr. stjórnarskrár gera til skattlagningarákvæða laga var m.a. hugað sérstaklega að því að tilgreina skýrt viðmið skatta og gjalda á ökutæki.
Verði frumvarpið ekki samþykkt er hætt við að ósamræmi skapist við skattlagningu sem tekur mið af skráðri koltvísýringslosun ökutækja. Afleiðingin kann að verða sú að efnahagslegur hvati skapist til innflutnings og kaupa á eldri ökutækjum sem ekki uppfylla nútímakröfur. Þá mun skattlagning sendibifreiða og ökutækja sem aðallega eru ætluð til vöruflutninga, að heildarþyngd 5 tonn eða minna, sem ekki eru skráningarskyld, verða áfram í ósamræmi við þá stefnumörkun að ívilna eigendum atvinnutækja. Þá verður engin hvati til kaupa á golfbifreiðum sem ganga fyrir rafmagni umfram golfbifreiðar sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti verði frumvarpið ekki samþykkt.
    Þar sem skattamálum skal skipað með lögum eru aðrar leiðir ekki færar við að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Þeim verður aðeins náð með breytingum á skattalögum.

5. Samráð.
    Á vinnslutíma frumvarpsins voru drög að því borin undir tollstjóra, ríkisskattstjóra og Samgöngustofu. Þá átti ráðuneytið samskipti við forsvarsmenn Bílgreinasambandsins. Vegna þess hve skammur tími er til stefnu fyrir innleiðingu samræmdu prófunaraðferðarinnar hefur hvorki verði haft innra né ytra samráð um frumvarpið samkvæmt samþykkt ríkisstjórnarinnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og stjórnartillagna, sbr. 9. gr. reglna um starfshætti ríkisstjórnar.
    Þau ákvæði frumvarpsins sem innihalda tillögur um breyttar forsendur álagningar vörugjalds af ökutækjum miðað við skráða losun koltvísýrings snerta innflytjendur og söluaðila ökutækja beint. Þá snerta tillögurnar neytendur og fyrirtæki óbeint þar sem vörugjald er óbeinn skattur sem endurspeglast í útsöluverði ökutækja. Ákvæði frumvarpsins sem innihalda tillögur um breyttar forsendur álagningar bifreiðagjalds miðað við skráða losun koltvísýrings snerta neytendur og fyrirtæki með beinum hætti. Ákvæði a-liðar 2. gr. snertir einkum golfiðkendur og golfklúbba. Ákvæði b-liðar 2. gr. um breytingu á skilgreiningu sendibifreiða sem falla undir undantekningarákvæði 4. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, snerta einkum atvinnurekstraraðila. Sama á við um ákvæði c-liðar 2. gr. þar sem gerð er tillaga um að vörugjald af ökutækjum sem aðallega eru ætluð til vöruflutninga, að heildarþyngd 5 tonn eða minna, sem ekki eru skráningarskyld, nemi 13%.

6. Mat á áhrifum.
    Samantekið hefur samþykkt frumvarpsins ekki teljandi áhrif á tekjur ríkissjóðs.
    Í fjárlagafrumvarpi ársins 2019 eru áætlaðar tekjur af vörugjöldum af ökutækjum 8.950 millj. kr. það ár. Að óbreyttum lögum má ætla að tekjur af vörugjöldum yrðu hærri en ella þar sem ekki var gert ráð fyrir tekjuauka vegna breytinga á aðferðafræði við mat á koltvísýringslosun ökutækja. Miðað við umfang innflutnings árið 2017 má ætla að samþykkt vörugjaldsundanþágu golfbifreiða sem eingöngu eru knúnar rafhreyfli verði neikvæð um sem nemur 6 millj. kr. á ársgrundvelli. Tillaga um breytta skilgreiningu sendibifreiðar samkvæmt undanþáguákvæði g-liðar 2. tölul. 4. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, mun að einhverju leyti hafa jákvæð áhrif á tekjur ríkissjóðs en ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um fjölda bifreiða sem munu eftir breytinguna falla undir meginreglu 3. gr. laganna. Þar sem innflutningur á ökutækjum sem aðallega eru ætluð til vöruflutninga, að heildarþyngd 5 tonn eða minna, sem ekki eru skráningarskyld, hefur að nokkru leyti verið takmarkaður er ekki gert ráð fyrir að tillaga um 13% vörugjald af slíkum ökutækjum hafi teljandi áhrif á tekjur ríkissjóðs.
    Rétt er að geta þess að tillögur sem eru tilkomnar vegna breytinga á aðferðafræði við mat á koltvísýringslosun ökutækja fela í grundvallaratriðum í sér að viðmið skráðrar losunar koltvísýrings eru hækkuð. Er þetta gert í ljósi niðurstaðna áhrifamats sem unnið var fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sem gefa til kynna að meðaltalsmunurinn milli upplýsinga samkvæmt áðurnefndri prófunaraðferð og samkvæmt nýju evrópsku aksturslotunni (NEDC) nemi 21% og vísbendinga um að upplýsingar samkvæmt nýju evrópsku aksturslotunni (umreiknað NEDC) verði 9,6% hærri en áætlað var á innleiðingartíma samræmdu prófunaraðferðarinnar (WLTP). Munurinn getur reynst afar mismunandi ef litið er til einstakra gerða bifreiða og jafnvel framleiðenda og því kunna tillögurnar að hafa mjög misjöfn áhrif á innflytjendur ökutækja, neytendur og fyrirtæki. Á heildina litið ættu áhrifin þó að verða afar takmörkuð. Í ljósi þessa fjölbreytileika og þar sem einungis liggja fyrir takmarkaðar upplýsingar um stöðuna þykir réttlætanlegt að fara þá leið sem lögð er til í frumvarpinu með samræmi að leiðarljósi. Til lengri tíma litið má ætla að jafnvægi verði náð.
    Samþykkt tillagna frumvarpsins um breytingu á forsendum álagningar skatta og gjalda á ökutæki miðað við skráða koltvísýringslosun mun hafa í för með sér að gera þarf breytingar á vörugjaldsálagningarkerfi tollstjóra og álagningarkerfi bifreiðagjalda hjá ríkisskattstjóra. Á þessum tímapunkti lítur út fyrir að einskiptiskostnaður vegna breytinga á álagningarkerfi vörugjalds muni nema nálega 13 millj. kr. Þær breytingar munu ekki hafa verulega áhrif á starfsemi embættis tollstjóra og ætti kostnaðurinn að rúmast innan heimilda þess. Þá mun samþykkt frumvarpsins kalla á breytingar á tollskrá. Að öðru leyti verða áhrif frumvarpsins á stjórnsýslu ríkisins ekki teljandi.
    Ekki var talin þörf á að greina áhrif frumvarpsins á stöðu kynjanna. Lagasetningin snýr að tæknilegu úrlausnarefni og áætluð kynja- og jafnréttisáhrif þess eru metin lítil sem engin.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. og 3. gr., a- og b-lið 4. gr. og 5.–7. gr.

    Í 1. og 3. gr., a- og b-liðum 4. gr. og 5.–7. gr. eru lagðar til breytingar sem snerta álagningu skatta og gjalda á ökutæki sem taka mið af skráðri losun koltvísýrings ( CO2) viðkomandi ökutækis, mælt í grömmum á hvern ekinn kílómetra (g/km). Tilgangur tillagnanna er að koma í veg fyrir að ósamræmi skapist við álagningu skatta og gjalda í ljósi breytinga á aðferðum við að meta mengun, losun og eldsneytiseyðslu ökutækja.
    Í 1. gr. er lögð til breyting á meginreglu 3. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993. Í tillögunni felst að árið 2019 verði fallið frá því fyrirkomulagi að leggja vörugjald á fólksbifreiðar og önnur vélknúin ökutæki, sem ekki eru sérstaklega tilgreind í 4. og 5. gr. laganna, miðað við skráða losun koltvísýrings eins og hún er tilgreind í tíu gjaldbilum (A-J). Þess í stað verði tekin upp nokkurn veginn línuleg álagning vörugjalds, þ.e. að meginreglan verði sú að vörugjald sé lagt á fólksbifreiðar og önnur vélknúin ökutæki, sem ekki eru sérstaklega tilgreind í 4. og 5. gr. laganna, sem nemur 0,37% á hvert g/km skráðrar losunar umfram 74 g/km. Hafi losunin verið skráð bæði samkvæmt evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunaraðferðinni nemi gjaldið 0,34% á hvert gramm koltvísýringslosunar samkvæmt evrópsku aksturslotunni umfram 81 g/km skráðrar koltvísýringslosunar. Ætlunin er að meginreglan nái til ökutækja sem hafa skráða koltvísýringslosun samkvæmt evrópsku aksturslotunni (NEDC) en gera má ráð fyrir því að það eigi við um flest ökutæki til ársins 2020. Á grundvelli öryggissjónarmiða er einnig lagt til að ef svo vill til að ökutæki hafi ekki skráða losun samkvæmt evrópsku aksturslotunni (NEDC) heldur aðeins samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni (WLTP) skuli vörugjaldið nema 0,31% á hvert g/km skráðrar koltvísýringslosunar umfram 90 g/km. Í öllum tilvikum er gert ráð fyrir að samanlagt nemi vörugjaldið aldrei meira en 65% gjaldstofns.
    Í 3. gr. er lögð til breyting á undantekningarákvæði 5. gr. laga nr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, þar sem kveðið er á um álagningu vörugjalds á leigubifreiðar til fólksflutninga, bifreiðar til ökukennslu og sérútbúnar bifreiðar til fólksflutninga. Samkvæmt gildandi lögum er vörugjald lagt á framangreindar bifreiðar miðað við skráða losun koltvísýrings viðkomandi ökutækis, mælt í grömmum á hvern ekinn kílómetra, samkvæmt undanþáguflokki 1. mgr. 3. gr. laganna. Með tillögunni er lagt til að fallið verði frá því fyrirkomulagi en þess í stað verði vörugjaldið að heita má línulegt. Þannig mun gjaldið að meginreglu nema 0,26% á hvert g/km umfram 132 g/km skráðrar koltvísýringslosunar samkvæmt evrópsku aksturslotunni (NEDC) en 0,24% á hvert gramm skráðrar koltvísýringslosunar umfram 145 grömm á hvern kílómetra skráðrar koltvísýringslosunar samkvæmt evrópsku aksturslotunni hafi losunin bæði verið skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni (NEDC) og samræmdu prófunaraðferðinni (WLTP). Á grundvelli öryggissjónarmiða er einnig lagt til að ef svo vill til að ökutæki hafi ekki skráða losun samkvæmt evrópsku aksturslotunni (NEDC) heldur aðeins samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni (WLTP) þá skuli vörugjaldið nema 0,21% á hvert g/km skráðrar koltvísýringslosunar umfram 160 g/km. Samanlagt er gert ráð fyrir að vörugjaldið nemi aldrei meira en 30% gjaldstofns. Í lokamálsgrein 3. gr. gildandi laga er kveðið á um að sú lækkun á vörugjaldi sem gjaldanda hlotnast samkvæmt undanþáguflokki 1., 3. og 4. tölul. 2. mgr. 5. gr., sbr. 1. mgr., geti aldrei numið hærri fjárhæð en 1.250.000 kr. Þar sem tilgreining gjaldbila verður felld brott úr 3. gr. laganna við samþykkt frumvarpsins er lagt til að kveðið verði á um það í 2. mgr. nýrrar 5. gr. laganna að mismunur á álagningu skv. 3. gr. laganna og 5. gr. megi að hámarki nema 1.250.000 kr. Hér er um svokallað afsláttarþak vörugjalds að ræða en tillögunni er ekki ætlað að hafa efnisbreytingu í för með sér. Þannig verður áfram við álagningu vörugjalds skv. 5. gr. laganna litið svo á að ef fjárhæð vörugjalds á bifreið samkvæmt meginreglu 3. gr. næmi t.d. 1.250.000 kr. þá nemi það 0 kr. falli bifreiðin undir undantekningarákvæði 5. gr. Að sama skapi nemi fjárhæð vörugjalds skv. 5. gr. 1.250.000 kr. ef fjárhæðin næmi 2.500.000 kr. samkvæmt meginreglu 3. gr. Öðrum breytingum sem lagðar eru til á 5. gr. er ekki ætlað að fela í sér efnisbreytingu á ákvæðum gildandi 5. gr. laganna.
    Í a- og b-liðum 4. gr. er lögð til breyting á ákvæði til bráðabirgða XVI í lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993. Í því er kveðið á um vörugjaldsívilnun sem ökutækjaleigur njóta til ársloka 2018. Ívilnunin er fólgin í því að vörugjald er lagt á bifreiðar sem ætlaðar eru til útleigu hjá ökutækjaleigum samkvæmt undanþáguflokki gildandi 3. gr. laganna í tíu gjaldbilum (A-J) og nemur það 0–30%. Í tillögunni felst að ef til þess kemur að bifreið sem ætluð er til útleigu hjá ökutækjaleigu hafi aðeins skráða koltvísýringslosun samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni (WLTP) skuli lækka skráða losun um 17,36% áður en hún verður lögð til grundvallar við ákvörðun vörugjalds samkvæmt undanþáguflokki 1. mgr. 3. gr. gildandi laga. Þannig mun t.d. skráð losun bifreiðar sem nemur 121 g/km samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni (WLTP) verða lækkuð í 100 g/km, vörugjald lagt á bifreiðina í gjaldbili B og það nema 0%.
    Í 5. gr. er lagt til að nýju ákvæði til bráðabirgða verði bætt við lög um vörugjald af öku-tækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993. Ákvæðinu er aðeins ætlaður gildistími frá samþykkt frumvarpsins til ársloka 2018. Tillagan byggist á öryggissjónarmiðum en með henni er ætlunin að kveða á um hvernig haga beri álagningu vörugjalds ef bifreið hefur einungis skráða koltvísýringslosun samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni (WLTP). Rétt er að taka fram að með ákvæðinu er ekki er ætlunin að víkja frá þeirri gildandi meginreglu að vörugjald skuli lagt á ökutæki miðað við skráða koltvísýringslosun samkvæmt evrópsku aksturslotunni (NEDC) hafi hún verið skráð fyrir ökutækið.
    Í 6. gr. er lagt til að 2. mgr. 2. gr. laga um bifreiðagjald, nr. 39/1988, verði breytt. Tilgangur breytingarinnar er að tryggja samræmi í álagningu bifreiðagjalds á ökutæki að eigin þyngd 3.500 kg eða minna miðað við skráða losun koltvísýrings hvort sem losunin er skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni (NEDC) eða samræmdu prófunaraðferðinni (WLTP). Lagt er til að koltvísýringsviðmið 2. mgr. 2. gr. laganna verði því sem næst 8,8% hærra hafi koltvísýringslosun verið skráð bæði samkvæmt evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunaraðferðinni en því sem næst 21% hærra hafi koltvísýringslosun einvörðungu verið skráð samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni (WLTP) sem endurspeglar áætlaðan meðaltalsmun niðurstaðna matsaðferðanna.
    Í 7. gr. er lögð til breyting á einu skilyrði þess að heimilt sé að fella niður virðisaukaskatt eða telja til undanþeginnar veltu fjárhæð að ákveðnu hámarki við innflutning og skattskylda sölu tengiltvinnbifreiðar. Skv. 2. tölul. 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, er kveðið á um að við innflutning og skattskylda sölu tengiltvinnbifreiðar skuli skráð losun slíkrar bifreiðar á koltvísýringi vera 50 g eða minna á hvern ekinn kílómetra. Í greininni er lagt til að 50 g/km viðmiðið verði bundið við skráða losun samkvæmt evrópsku aksturslotunni (NEDC) en bætt verði við að viðmiðið nemi 55 g/km eða minna hafi koltvísýringslosunin bæði verið skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni (NEDC) og samræmdu prófunaraðferðinni (WLTP) en 60 g/km eða minna hafi koltvísýringslosun einvörðungu verið skráð samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni (WLTP).

Um 2. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á 4. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993.
    Í a-lið er lagt til að golfbifreiðum sem eingöngu eru knúnar rafhreyfli verði bætt við ákvæði p-liðar 1. tölul. lagagreinarinnar þar sem efnislega er kveðið á um að bifhjól knúin rafhreyfli að öllu leyti skuli undanþegin vörugjaldi.
    Í b-lið er lögð til breyting á skilgreiningu sendibifreiðar sem ber 13% vörugjald samkvæmt ákvæði g-liðar 2. tölul. lagagreinarinnar. Af úrskurði yfirskattanefndar nr. 7/2018 leiðir að sendibifreiðar sem hafa farþegasæti í farmrými bera lægra vörugjald en upphaflega var lagt upp með. Af þeim sökum er lagt til að undanþáguákvæði framangreinds g-liðar verði bundið því óundanþæga skilyrði að slík sæti eða sætisfestingar megi aðeins vera í stýrishúsi bifreiðarinnar. Til að hnykkja enn frekar á merkingunni er lagt til að tekið verði fram að sætin eða festingarnar í stýrishúsi geti aðeins verið tvær auk sætis fyrir ökumann. Er þannig gert ráð fyrir að engin umbúnaður sé fyrir farþega, sæti eða sætisfestingar, í öðrum rýmum bifreiðarinnar en stýrishúsi (framrými). Gildir þá einu hvort um er að ræða flutningsrými eða farmrými (afturrými) samkvæmt ákvæðum reglugerðar um gerð og búnað ökutækja.
    Í c-lið er lagt til að nýjum staflið verði bætt við 2. tölul. lagagreinarinnar þar sem kveðið verði á um að greiða skuli 13% vörugjald af ökutækjum sem eru ætluð til vöruflutninga, að heildarþyngd 5 tonn eða minna, sem ekki eru skráningarskyld samkvæmt umferðarlögum, nr. 50/1987. Er með þessu helst átt við svokallaða dembara sem eru gerðir til nota utan þjóðvega (e. dumpers).
    Í d-lið er lögð til smávægileg orðalagsbreyting á b-lið 3. tölul. Ekki er um efnislega breytingu að ræða utan þess sem getið er um í a-lið og skýringum við hann.

Um 7. mgr. 3. gr. og c-lið 4. gr.

    Í 7. mgr. 3. gr. og c-lið 4. gr. eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, sem snerta möguleika hins opinbera til að tryggja hagsmuni sína ef til þess kemur að aðilar sem hafa notið vörugjaldsívilnunar skv. 5. gr. og ákvæði til bráðabirgða XVI í lögunum, og njóta því lækkunar vörugjalds frá því sem gildir samkvæmt meginreglu 3. gr. laganna, brjóta gegn skilyrðum laganna fyrir slíkri ívilnun. Lagt er til að ríkissjóði verð tryggt lögveð í ökutækjunum í tvö ár frá gjalddaga í kjölfar endurupptöku álagningar vörugjalds.

Um 8. gr.

    Í frumvarpinu er lagt til að fallið verði frá álagningu vörugjalds samkvæmt gjaldbilum 1. mgr. 3. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993. Af tæknilegum ástæðum getur sú breyting ekki tekið gildi fyrr en 1. janúar 2019. Af þeim sökum er kveðið á um það í gildistökuákvæði frumvarpsins að lögin taki þegar gildi utan ákvæða 1., 3., 6. og 7. gr. sem öðlist gildi 1. janúar 2019. Rétt er að geta þess að bifreiðagjald er lagt á ökutæki fyrir fram og þannig er gjalddagi tímabilsins 1. janúar til 30. júní hinn 1. janúar. Seljandi og kaupandi ökutækis gera upp bifreiðagjaldið sín á milli við eigendaskipti.


1    Þar á meðal reglugerð framkvæmdastjórnar ESB nr. 2017/1151, um gerðarviðurkenningu vélknúinna ökutækja með tilliti til losunar frá léttum farþega- og atvinnuökutækjum (Euro 5 og Euro 6) og um aðgang að upplýsingum um viðgerðir og viðhald ökutækja.