Ferill 185. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 189  —  185. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, lögum um málefni aldraðra og lögum um sjúkratryggingar (dvalarrými og dagdvöl).

Frá heilbrigðisráðherra.



I. KAFLI

Breyting á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, með síðari breytingum.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      2. tölul. orðast svo: Almenn heilbrigðisþjónusta: Heilsugæsla, almenn sjúkrahúsþjónusta og þjónusta og hjúkrun á hjúkrunarheimilum, í hjúkrunar- og dvalarrýmum stofnana og í dagdvöl.
     b.      Í stað orðsins ,,sjúkrahúsi“ í 9. tölul. kemur: heilbrigðisstofnun.
     c.      Á eftir 12. tölul. koma tveir nýir töluliðir, 13. og 14. tölul., svohljóðandi:
              13.      Dvalarrými: Rými á hjúkrunarheimili eða heilbrigðisstofnun þar sem þeim er hjúkrað sem þarfnast umönnunar og meðferðar, sem hægt er að veita utan sjúkrahúsa, en þó ekki í þeim mæli sem veitt er í hjúkrunarrými.
              14.      Dagdvöl: Stuðningsúrræði fyrir þá einstaklinga sem að staðaldri þurfa eftirlit og umsjá til að geta búið áfram heima.

2. gr.

    Á eftir 16. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 16. gr. a og 16. gr. b, svohljóðandi, ásamt fyrirsögnum:

    a. (16. gr. a.)

Dvalarrými.

    Í dvalarrýmum skal vera aðstaða fyrir hjúkrun, læknishjálp og endurhæfingu fyrir sjúkratryggða einstaklinga sem metnir hafa verið í þörf fyrir þjónustu í dvalarrými. Enginn getur dvalið til langframa í dvalarrými nema að undangengnu mati færni- og heilsumatsnefndar á þörf fyrir dvöl skv. 15. gr. laga um málefni aldraðra.

    b. (16. gr. b.)

Dagdvöl.

    Í dagdvöl skal veitt hjúkrunarþjónusta og vera aðstaða til þjálfunar og læknisþjónustu. Um frekari þjónustu í dagdvöl vísast til 3. tölul. 1. mgr. 13. gr. laga um málefni aldraðra. Enginn getur notið þjónustu í dagdvöl nema að undangengnu mati faglegs inntökuteymis samkvæmt lögum um málefni aldraðra.

II. KAFLI

Breyting á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum.

3. gr.

    Við 13. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 3. tölul. 1. mgr. er heimilt að samþykkja dvöl einstaklinga sem eru yngri en 67 ára í dagdvöl enda liggi fyrir mat á þörf þeirra fyrir slíka dvöl.
    Enginn getur notið þjónustu í dagdvöl nema að undangengnu mati faglegs inntökuteymis.
    Ráðherra getur í reglugerð kveðið nánar á um faglegt inntökuteymi og skilyrði við mat á þörf fyrir dagdvöl.

4. gr.

    1. málsl. 3. mgr. 14. gr. laganna orðast svo: Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að samþykkja dvöl einstaklinga sem eru yngri en 67 ára í hjúkrunar- og dvalarrýmum hjúkrunarheimila og í hjúkrunar- og dvalarrýmum stofnana enda liggi fyrir mat á þörf þeirra fyrir slíka dvöl skv. 15. gr.

5. gr.

    Í stað orðanna „óskertum grunnlífeyri einstaklings“ í 1. málsl. 19. gr. laganna kemur: 18% af fullum ellilífeyri skv. 23. gr. laga um almannatryggingar.

6. gr.

    Í stað orðanna „rýmum fyrir aldraða“ í 24. gr. laganna kemur: hjúkrunarrýmum, dvalarrýmum og dagdvöl.

III. KAFLI

Breyting á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum.

7. gr.

    24. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Þjónusta í hjúkrunarrýmum, dvalarrýmum og dagdvöl.

    Sjúkratrygging tekur til þjónustu sem veitt er í hjúkrunarrýmum, dvalarrýmum og dagdvöl sem samið hefur verið um skv. IV. kafla. Skilyrði er að mat á þörf sjúkratryggðs fyrir þjónustuna hafi farið fram samkvæmt lögum um málefni aldraðra.

8. gr.

    Í stað orðanna „rýmum fyrir aldraða“ í 1. mgr. 38. gr., 1. mgr. 39. gr. og 4. mgr. 43. gr. laganna kemur: hjúkrunarrýmum, dvalarrýmum og dagdvöl.

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, lögum um málefni aldraðra og lögum um sjúkratryggingar byggist á frumvarpi sem lagt var fyrir Alþingi á 148. löggjafarþingi, 426. mál, en hlaut ekki afgreiðslu. Það frumvarp var samið í velferðarráðuneytinu. Við samningu frumvarpsins var haft samráð við sjúkratryggingastofnun og Tryggingastofnun.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni þess að frumvarp þetta er lagt fram er vilji til að heimilt verði að samþykkja dvöl í dvalarrýmum eða dagdvöl fyrir þá sem yngri eru en 67 ára ef þörf krefur, vegna heilsufars þeirra. Slík heimild er nú þegar í lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, varðandi dvöl í hjúkrunarrýmum.
    Ákvæði um dvalarrými og dagdvöl er nú einungis að finna í lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, en ekki í lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007. Rétt þykir að bæta í þau lög ákvæðum um dvalarrými og dagdvöl svo og í lög um sjúkratryggingar, nr. 112/2008.
    Sjúkratryggingastofnun hefur verið falið að vinna að gerð rammasamnings um dagdvöl og því brýnt að lög heimili að fólki standi þetta úrræði til boða eftir metinni þörf, óháð aldri.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Markmiðið með frumvarpinu er að jafna aðgang þeirra sem þurfa á dvöl í dvalarrými eða dagdvöl að halda, óháð aldri, og forgangsraða eftir þörf.
    Breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu fela í sér breytingar til samræmingar á lögum nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, og lögum nr. 112/2008, um sjúkratryggingar.
    Samkvæmt 1. tölul. 2. gr. laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999, telst sá aldraður í skilningi laganna sem náð hefur 67 ára aldri. Í 3. tölul. 13. gr. sömu laga er fjallað um dagdvöl en það er úrræði sem sjúkratryggingar greiða að verulegu leyti og er ætlað öldruðum sem að staðaldri þurfa eftirlit og umsjá til að geta búið áfram heima. Dagdvöl er mikilvægt úrræði til að styðja einstaklinga til búsetu heima sem lengst. Í 14. gr. laga um málefni aldraðra kemur fram að þó að hjúkrunarheimili séu skilgreind fyrir aldraða þá sé heimilt að bjóða yngri einstaklingum dvöl þar hafi þeir verið metnir í þörf fyrir slíkt úrræði. Samkvæmt gildandi ákvæðum eru úrræðin dagdvöl og dvalarrými einungis ætluð öldruðum. Með frumvarpinu er ætlunin að það sama gildi um dvöl í dvalarrými og í dagdvöl, þ.e. að dvöl grundvallist á faglegu heilsufarsmati, óháð aldri. Um langa hríð hafa komið upp tilvik þar sem óskað hefur verið eftir undanþágum til dvalar í dvalarrýmum og í dagdvöl þrátt fyrir að viðkomandi sé yngri en 67 ára. Lagastoð fyrir slíkum undanþágum hefur vantað.
    Með þeirri breytingu á löggjöfinni sem lögð er til mun verða heimilt að veita undanþágu frá aldursskilyrði varðandi dvalarrými og dagdvöl.
    Þá er lagt til að 24. gr. laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, verði breytt þannig að skýrt sé að sjúkratrygging nái til þjónustu sem veitt er í hjúkrunarrýmum, dvalarrýmum og dagdvöl sem samið hefur verið um skv. IV. kafla laganna. Þessi breyting er til að skjóta lagastoð undir núverandi framkvæmd varðandi dvalarrými og dagdvöl.
    Í 3. gr. frumvarpsins er einnig að finna reglugerðarheimild sem ætlunin er að setja í lög um málefni aldraðra til handa ráðherra til að kveða í reglugerð nánar á um fyrirkomulag faglegs teymis og skilyrði mats á þörf fyrir dagdvöl. Við gerð þessa frumvarps var kannað hvort æskilegt væri að skjóta sterkari lagastoð en hinni almennu reglugerðarheimild 29. gr. laga um málefni aldraðra undir reglugerð um nánari útfærslu lagabreytingarinnar sem lögð er til með frumvarpi þessu. Reglugerðarheimildin gerir ráð fyrir faglegu teymi og mati á þörf sem ráðherra útfærir sérstaklega.

4. Samráð.
    Við samningu frumvarpsins var haft samráð við sjúkratryggingastofnun og Tryggingastofnun. Þá voru einnig haldnir samráðsfundir með Landssamtökunum Þroskahjálp, Öryrkjabandalagi Íslands, Landssambandi eldri borgara, NPA-miðstöðinni, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu. Tekið hefur verið tillit til sjónarmiða er komu fram á fundum velferðarnefndar Alþingis með umsagnaraðilum við fyrri meðferð frumvarpsins hjá nefndinni er varðar samsetningu faglegs teymis er metur þörf á dagdvöl og leiddu þau til breytinga á frumvarpinu.
    Á fundum ráðuneytisins með framangreindum hagsmunaaðilum var lýst yfir ánægju með faglegt inntökuteymi. Sú heimild sem felst í lagabreytingunni mun helst koma til álita þegar um er að ræða unga einstaklinga með minnissjúkdóma og þar sem þörf fyrir sérhæfða dagþjálfun minnisveikra kann að koma til snemma í sjúkdómsferlinu. Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu bentu á að þarfir fólks séu mismunandi á mismunandi aldursskeiðum. Þegar einstaklingur velji það þjónustuform sem hentar honum best er mikilvægt að stjórnendur stofnana hagi þjónustuframboði þannig að henti öllum aldurshópum sem þjónustuna nota í samræmi við ákvæði laganna. Samtökin bentu á að sú staða geti komið upp að dvalarheimili standi frammi fyrir þeirri kröfu að taka við einstaklingi sem það getur í raun ekki sinnt þar sem það hefur ekki aðstöðu til að sinna yngri einstaklingum sem hafa jafnvel allt aðrar þarfir en eldri einstaklingar. Mikilvægt væri að matsnefndir og/eða inntökuteymi hefðu slík sjónarmið til hliðsjónar þegar færni- og heilsumat eða mat á þörf í dagdvöl er framkvæmt. Leiðbeiningar til þeirra sem sækja um rými á viðkomandi stöðum skuli vera þess eðlis að ekki fari á milli mála hvaða staðir geti raunverulega tekið við yngri einstaklingum. Þá komu fram þau sjónarmið að mikilvægt væri að ráðuneytið skoði hvort setja megi í reglugerð hvaða skilyrði staðir sem taka við yngri einstaklingum í dvalarrými eða dagdvöl þurfa að uppfylla.
    Í umræðu um frumvarpið kom fram að úrræði samkvæmt frumvarpinu skulu ekki vera almenn úrræði heldur gildir áfram sú meginstefna stjórnvalda að þjónusta skuli veitt á því þjónustustigi sem hentar þörfum einstaklingsins og í fullu samráði við hann sjálfan. Stofnanaþjónusta skuli ekki vera fyrsta úrræði heldur einungis í boði þegar önnur úrræði duga ekki til, þ.m.t. samningur um notendastýrða persónulega aðstoð og þjónusta á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Enginn skuli vistaður í dvalarrými eða dagdvöl án þess að viðkomandi hafi sótt um slíka vist sjálfur.

5. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið snertir fyrst og fremst þá sem eru yngri en 67 ára og þarfnast dvalar í dvalarrýmum eða í dagdvöl. Mögulega gætu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu þó haft áhrif á aðgengi að þjónustunni fyrir þá sem eru eldri en 67 ára þar sem fleiri eiga nú rétt á sömu þjónustuúrræðum.
    Verði frumvarpið að lögum mun það stækka þann hóp sem óskar eftir framangreindri heilbrigðisþjónustu. Um 3% hjúkrunarrýma eru nú nýtt af yngri einstaklingum en 67 ára. Þrátt fyrir það hefur það ekki sjálfkrafa haft áhrif á fjölda rýma í boði. Unnið er að því jafnt og þétt að fjölga rýmum og úrræðum sem öldruðum standa til boða. Auk þess má reikna með að viðkomandi einstaklingur njóti þá annarrar þjónustu af hendi ríkis og/eða sveitarfélaga sé rými ekki til staðar í viðunandi úrræði. Frumvarpið eitt og sér leiðir því ekki til hækkunar á útgjöldum ríkissjóðs. Verði frumvarpið að lögum gæti þeim fjölgað sem eiga kost á viðkomandi þjónustu og þar með lengt biðlista en það fjölgar ekki rýmum sjálfkrafa.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í a-lið er almenn heilbrigðisþjónusta skv. 2. tölul. 4. gr. laga um heilbrigðisþjónustu skilgreind sem heilsugæsla, almenn sjúkrahúsþjónusta og þjónusta og hjúkrun á hjúkrunarheimilum, í hjúkrunar- og dvalarrýmum stofnana og í dagdvöl. Með frumvarpinu er verið að bæta við upptalninguna og fella undir skilgreiningu á almennri heilbrigðisþjónustu þjónustu og hjúkrun í dvalarrýmum og í dagdvöl.
    Í b-lið segir að í stað orðsins ,,sjúkrahúsi“ í 9. tölul. komi orðið ,,heilbrigðisstofnun“. Breytingin felur í sér að það sé skýrt að hjúkrunarrými eru ekki einungis tengd sjúkrahúsum heldur einnig heilbrigðisstofnunum enda falla sjúkrahús undir skilgreininguna heilbrigðisstofnun.
    Í c-lið er að finna skilgreiningar á hugtökunum dvalarrými og dagdvöl sem eru í lögum um málefni aldraðra en hafa ekki verið skilgreind áður í lögum um heilbrigðisþjónustu. Með frumvarpinu munu hugtökin nú einnig verða í lögum um heilbrigðisþjónustu.
    Í 13. tölul. er dvalarrými skilgreint sem rými á hjúkrunarheimili eða heilbrigðisstofnun þar sem hjúkrað er þeim sem þarfnast umönnunar og meðferðar sem hægt er að veita utan sjúkrahúsa en þó ekki í þeim mæli sem veitt er í hjúkrunarrými, þ.e. þeir sem metnir eru í þörf fyrir dvalarrými þurfa á minni hjúkrunarþjónustu að halda en þeir sem metnir eru í þörf fyrir hjúkrunarrými. Meginlagaákvæði um dvalarrými og þá þjónustu sem þar er veitt er aftur á móti að finna í lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra.
    Í 14. tölul. er dagdvöl skilgreind sem stuðningsúrræði fyrir þá einstaklinga sem að staðaldri þurfa eftirlit og umsjá til að geta búið áfram heima. Meginlagaákvæði um dagdvöl og þá þjónustu sem þar skal veita er í lögum um málefni aldraðra.

Um 2. gr.

    Í greininni er kveðið á um þjónustu við einstaklinga í dvalarrýmum og í dagdvöl og vísast þar nánar til laga um málefni aldraðra. Með frumvarpinu eru ekki lagðar til neinar breytingar varðandi veitta þjónustu, hvorki í dvalarrýmum né dagdvöl. Einungis er verið að renna lagastoðum undir að rými þessi teljist til heilbrigðisþjónustu.

Um 3. gr.

    Greinin bætir við heimild í 13. gr. laga um málefni aldraðra til að samþykkja dvöl fyrir þá sem eru yngri en 67 ára í dagdvöl, að undangengnu mati faglegs inntökuteymis en slíkt er breyting á núverandi fyrirkomulagi. Enginn getur notið þjónustu í dagdvöl nema að undangengnu mati faglegs inntökuteymis. Við matið skal teymið horfa til þess hvernig þörfum umsækjenda verði best mætt. Einnig skal litið til samsetningar notendahóps í viðkomandi dagdvöl og samráð í því efni haft við rekstraraðila hennar. Nánar skal fjallað um skipan inntökuteyma í reglugerð.
    Í greininni er einnig að finna heimild ráðherra til að kveða í reglugerð nánar á um fyrirkomulag faglegs inntökuteymis og skilyrði mats á þörf fyrir dagdvöl. Við gerð þessa frumvarps var kannað hvort ekki væri æskilegt að skjóta sterkari lagastoð en hinni almennu reglugerðarheimild laga um málefni aldraðra, 29. gr., undir reglugerð um nánari útfærslu lagabreytingarinnar sem þessu frumvarpi er ætlað að breyta. Reglugerðarheimildin gerir ráð fyrir faglegu inntökuteymi og mati á þörf sem skilyrði sem ráðherra útfærir sérstaklega.

Um 4. gr.

    Í greininni er lögð til breyting á 3. mgr. 14. gr. laga um málefni aldraðra sem varðar heimild til að samþykkja dvöl fyrir þá sem eru yngri en 67 ára í hjúkrunarrýmum. Í breytingunni felst sams konar heimild til að samþykkja dvöl í dvalarrýmum fyrir þá sem eru yngri en 67 ára að undangengnu mati á þörf fyrir dvöl skv. 15. gr. laganna. Í 16. gr. laga um heilbrigðisþjónustu er á hinn bóginn vísað til matsins í lögum um málefni aldraðra enda eru ákvæði um færni- og heilsumatsnefndir í 15. gr. þeirra laga. Því þykir rétt að breyta 3. mgr. 14. gr. laga um málefni aldraðra til samræmis við gildandi lög og vísa til 15. gr. laganna.

Um 5. gr.

    Gert er ráð fyrir að í stað þess að hámark kostnaðarþátttöku fyrir dagdvöl einstaklings miðist við óskertan grunnlífeyri einstaklings verði miðað við 18% af fullum ellilífeyri skv. 23. gr. laga um almannatryggingar. Svokallaður grunnlífeyrir ellilífeyrisþega var afnuminn frá 1. janúar 2017 með lögum nr. 116/2016, um breytingu á lögum um almannatryggingar og fleiri lögum, þegar bótaflokkar ellilífeyrisþega voru sameinaðir. Fjárhæð hins nýja ellilífeyris er mun hærri en fjárhæð eldri grunnlífeyris og því þykir nauðsynlegt að breyta ákvæðinu þannig að miðað verði við ákveðið hlutfall af fullri fjárhæð hins nýja ellilífeyris sem samsvarar fyrri fjárhæð grunnlífeyris ellilífeyrisþega að teknu tilliti til þeirra hækkana sem orðið hafa á bótum almannatrygginga. Fjárhæð grunnlífeyris ellilífeyrisþega var 39.862 kr. á árinu 2016. Bætur hækkuðu um 7,5% 1. janúar 2017 og hefði grunnlífeyrir því orðið 42.852 kr. Fjárhæð ellilífeyris 2017 var 228.734 kr. en 18% af þeirri fjárhæð eru 41.172 kr.

Um 6. gr.

    Lagt er til að orðalag 24. gr. laga um málefni aldraðra verði rýmkað. Í stað þess að ákvæði greinarinnar tiltaki einungis að lög um sjúkratryggingar gildi þegar ekki liggi fyrir samningar um þjónustu í rýmum fyrir aldraða er lagt til að lög um sjúkratryggingar gildi þegar ekki liggja fyrir samningar um þjónustu í hjúkrunarrýmum, dvalarrýmum og dagdvöl. Hér er gert ráð fyrir að sjúkratrygging taki til allra framangreindra tegunda rýma óháð aldri þeirra sem metnir hafa verið í þörf fyrir dvöl í tilgreindum mismunandi úrræðum heilbrigðisþjónustu.

Um 7. gr.

    Lagt er til að orðalag 24. gr. laga um sjúkratryggingar verði rýmkað. Í stað þess að ákvæði greinarinnar tiltaki einungis að sjúkratryggingar taki til þjónustu sem veitt er í rýmum fyrir aldraða er lagt til að sjúkratrygging taki til þjónustu sem veitt er og samið hefur verið um í hjúkrunarrýmum, dvalarrýmum og dagdvöl. Hér er gert ráð fyrir að sjúkratrygging taki til allra framangreindra tegunda rýma óháð aldri þeirra sem metnir hafa verið í þörf fyrir dvöl í tilgreindum mismunandi úrræðum heilbrigðisþjónustu.

Um 8. gr.

    Lagt er til að orðalag í 1. mgr. 38. gr., 1. mgr. 39. gr. og 4. mgr. 43. gr. laga um sjúkratryggingar verði rýmkað. Í stað þess að ákvæðin tiltaki einungis „rýmum fyrir aldraða“ nái það til hjúkrunarrýma, dvalarrýma og dagdvalar. Þetta er gert til samræmis við önnur ákvæði frumvarpsins.

Um 9. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.