Ferill 270. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 293  —  270. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um póstþjónustu.

Frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.



I. KAFLI

Markmið, gildissvið og orðskýringar.

1. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að stuðla að hagkvæmri, virkri og áreiðanlegri póstþjónustu um land allt og til og frá landinu, m.a. með því að tryggja notendum aðgang að alþjónustu eins og hún er skilgreind á hverjum tíma og með því að efla samkeppni á markaði fyrir póstþjónustu.


2. gr.

Gildissvið.

    Lög þessi gilda um póstþjónustu í atvinnuskyni og starfsemi sem henni tengist.
    Póstsendingar innan fyrirtækis eða félags, þ.m.t. milli mismunandi starfsstöðva þess, falla ekki undir ákvæði laga þessara ef viðkomandi fyrirtæki eða félag annast póstsendinguna.

3. gr.

Stjórn póstmála.

    Ráðherra fer með yfirstjórn póstmála.
    Póst- og fjarskiptastofnun hefur eftirlit með framkvæmd laga þessara og fer um eftirlitið samkvæmt ákvæðum laga um Póst- og fjarskiptastofnun.

4. gr.
Orðskýringar.

    Merking hugtaka í lögum þessum er sem hér segir:
     1.      Afgreiðslustaður: Aðstaða, t.d. húsnæði, bifreið eða sjálfvirkur afgreiðslukassi, þar sem einstaklingar og lögaðilar geta fengið póstþjónustu.
     2.      Alþjónusta: Lágmarkspóstþjónusta sem notendum póstþjónustu skal standa til boða á jafnræðisgrundvelli, sbr. 9. gr.
     3.      Alþjónustuveitandi: Aðili sem falið er af stjórnvöldum að sinna alþjónustu.
     4.      Ábyrgðarsending: Póstsending sem alþjónustuveitandi ábyrgist með fyrir fram ákveðnum skaðabótum gegn tapi, þjófnaði eða skemmdum þar sem hann afhendir sendanda samkvæmt beiðni hans sönnun um viðtöku sendingarinnar og afhendingu hennar til áritaðs viðtakanda eða þess sem heimild hefur til að taka við slíkri sendingu fyrir hans hönd. Afbrigði af þessari þjónustu er til í sendingum innan lands þar sem nægir að afhenda sendinguna á tilgreindum afhendingarstað gegn áritun aðila á staðnum til staðfestingar á viðtöku.
     5.      Blindrasending: Póstsending sem inniheldur einvörðungu upplýsingaefni fyrir blinda og sjónskerta.
     6.      Bréf: Skrifleg boðskipti rituð á hvers konar miðil sem senda á og afhenda á heimilisfang sem sendandi hefur gefið til kynna á bréfinu eða umbúðum þess. Ekki er litið á bækur, verðlista, dagblöð og tímarit sem bréf.
     7.      Bréfakassasamstæða: Tveir eða fleiri bréfakassar sem staflað er eða raðað upp hlið við hlið til móttöku á póstsendingum. Kassarnir geta verið staðsettir innan eða utan húss eða á svæði sem tilgreint hefur verið af viðkomandi sveitarstjórn sem móttökustaður póstsendinga.
     8.      Bréfakassi: Aðstaða, t.d. kassi eða lúga, sem viðtakendur setja upp til viðtöku á póstsendingum.
     9.      Dreifikerfi: Aðföng og kerfi sem póstrekandi notar til að koma póstsendingum til skila, svo sem flokkunarstöðvar, afgreiðslustaðir, flutningsleiðir, póstnúmer, pósthólf, póst- og bréfakassar, gagnagrunnar um heimilisföng, upplýsingar um breytingar á heimilisföngum, aðgangur að áframsendingarþjónustu og þjónusta í tengslum við endursendingu bréfa.
     10.      Endastöðvargjald: Þóknun póstrekanda fyrir dreifingu póstsendinga frá útlöndum.
     11.      Fjölpóstur: Óáritaðar sendingar, t.d. auglýsingapóstur.
     12.      Fríblað: Dagblað og vikublað sem borið er út til viðtakanda án þess að viðkomandi hafi óskað eftir því.
     13.      Frímerki: Tegund gjaldmerkis fyrir póstþjónustu sem er ávísun á ákveðna þjónustu.
     14.      Gjaldmerki: Merki sem límt er eða stimplað á póstsendingar eða fylgibréf þeirra sem tákn um að greitt hafi verið fyrir viðkomandi póstþjónustu. Gjaldmerki getur einnig verið rafrænn kóði.
     15.      Móttaka: Móttaka og söfnun póstsendinga sem lagðar eru inn á afgreiðslustöðum.
     16.      Notandi: Einstaklingur eða lögaðili sem nýtir sér póstþjónustu sem sendandi eða viðtakandi.
     17.      Póstkassi: Póstkassi sem ætlaður er fyrir söfnun póstsendinga.
     18.      Póstnúmer: Númer, eða kerfi númera, sem notað er fyrst og fremst til landfræðilegrar afmörkunar, til að staðsetja viðtakanda og auðvelda dreifingu póstsendinga.
     19.      Póstrekandi: Aðili sem veitir póstþjónustu í skilningi laga þessara.
     20.      Póstsending: Sending með eða án áritunar á umbúðir hennar. Auk bréfa upp að 2 kg teljast til póstsendinga bækur, verðskrár, dagblöð, tímarit og pakkar upp að 20 kg sem innihalda varning hvort sem hann er einhvers virði eða ekki.
     21.      Póstþjónusta: Þjónusta sem nær til móttöku og söfnunar, flokkunar, flutnings og dreifingar á póstsendingum gegn greiðslu.
     22.      Rekjanleg sending: Skráð póstsending sem gerir sendanda eða viðtakanda kleift að fylgjast með henni frá móttöku póstrekanda og til afhendingar til viðtakanda.
     23.      Skráð sending: Póstsending með einkvæmu auðkenni.
     24.      Tryggð sending: Póstsending sem póstrekandi tryggir gegn tapi, þjófnaði eða skemmdum samkvæmt því verðgildi sem sendandi tilgreinir.
     25.      Útburður: Starfsemi sem hefst að jafnaði með flokkun póstsendinga í póstmiðstöð og lýkur með afhendingu þeirra á tilgreindum afhendingarstað.


II. KAFLI
Almenn heimild til veitingar póstþjónustu.
5. gr.
Skráningarskyld starfsemi.

    Rekstur póstþjónustu í atvinnuskyni hér á landi er háður skráningarskyldu hjá Póst- og fjarskiptastofnun.
    Póst- og fjarskiptastofnun heldur, birtir opinberlega og uppfærir reglubundið skrá yfir póstrekendur hér á landi.
    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að hafna skráningu og/eða afskrá aðila af lista yfir póstrekendur og stöðva rekstur, eftir atvikum með aðstoð lögreglu, ef hann eða stjórnendur eða eigendur starfseminnar hafa á síðustu fimm árum verið úrskurðaðir gjaldþrota eða hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum þessum. Sama á við ef aðili leggur niður starfsemi eða brýtur ítrekað gegn ákvæðum laga þessara, svo og ef póstrekandi brýtur ítrekað gegn skyldum sínum sem alþjónustuveitandi, að undangenginni skriflegri aðvörun og að liðnum viðeigandi fresti til úrbóta.
    Nú lætur póstrekandi undir höfuð leggjast að skrá sig hjá Póst- og fjarskiptastofnun og skal þá stofnunin gefa póstrekandanum færi á að bæta úr innan tveggja vikna.
    Nú verður póstrekandi ekki við fyrirmælum Póst- og fjarskiptastofnunar og getur þá stofnunin ákveðið póstrekanda dagsektir skv. 12. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003, með síðari breytingum, þar til bætt er úr.
    Póst- og fjarskiptastofnun setur nánari reglur um framkvæmd skráningar samkvæmt grein þessari.


6. gr.
Almenn heimild.

    Lögaðilar sem staðfestu hafa innan Evrópska efnahagssvæðisins eða í aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hafa almenna heimild til veitingar póstþjónustu hér á landi, til og frá landinu, að uppfylltum skilyrðum laga þessara.
    Almenn heimild felur í sér réttindi til að starfrækja póstþjónustu samkvæmt ákvæðum laga þessara og reglugerða og reglna sem settar eru samkvæmt þeim.

7. gr.
Skilyrði almennrar heimildar.

    Skilyrði almennrar heimildar til veitingar póstþjónustu eru eftirtalin:
     a.      Póstrekandi auðkenni sig skilmerkilega sem póstrekanda á viðeigandi hátt.
     b.      Almennir viðskiptaskilmálar og gjaldskrá sem um þjónustuna gilda séu aðgengilegir, t.d. á vefsíðu.
     c.      Ákvæði laga þessara séu uppfyllt, þar á meðal ákvæði um þjónustu- og gæðakröfur.
     d.      Rekstrargjald hafi verið greitt, eða samið um greiðslu á því, í samræmi við lög um Póst- og fjarskiptastofnun og lög um aukatekjur ríkissjóðs.

8. gr.
Tilkynning um starfsemi.

    Aðilar sem hyggjast starfrækja póstþjónustu samkvæmt almennri heimild skulu tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun um það eigi síðar en tveimur vikum áður en fyrirhugað er að veita þjónustuna og veita upplýsingar sem nauðsynlegar eru til skráningar á viðkomandi póstrekanda og starfsemi hans. Í tilkynningu skal upplýst um stofnendur, hluthafa og hlutfallslegt eignarhald þeirra, hver sé fyrirhuguð þjónusta, þ.m.t. hvort aðili hyggist veita þjónustu sem skilgreind er sem alþjónusta, og til hvaða svæða þjónustan nær. Svæði skulu tilgreind eftir póstnúmerum.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal staðfesta skráningu aðila á skrá yfir póstrekendur innan tveggja vikna frá móttöku tilkynningar skv. 1. mgr., enda sé það mat stofnunarinnar að skilyrði laga þessara teljist uppfyllt.
    Póstrekandi sem hyggst leggja niður starfsemi, að hluta til eða í heild, skal tilkynna stofnuninni það með þriggja mánaða fyrirvara en í tilviki alþjónustu með sex mánaða fyrirvara.

III. KAFLI

Alþjónusta.

9. gr.

Inntak alþjónustu.

    Allir notendur póstþjónustu á Íslandi eiga rétt á alþjónustu sem uppfyllir gæðakröfur og er á viðráðanlegu verði. Samsvarandi þjónusta skal standa til boða notendum sem búa við sambærilegar aðstæður. Alþjónusta skal á hverjum tíma taka mið af tækni- og samfélagsþróun, hagrænum þáttum og þörfum notenda.
    Í alþjónustu felst a.m.k. eftirtalin þjónusta:
     1.      Aðgangur að afgreiðslustað og póstkössum.
     2.      Alþjónusta nær til bæði póstsendinga innan lands og milli landa, þar á meðal ábyrgðarsendinga og tryggðra sendinga. Í henni felst póstþjónusta vegna bréfa allt að 2 kg, pakka allt að 10 kg innan lands en 20 kg milli landa og sendinga fyrir blinda og sjónskerta allt að 2 kg.
     3.      Miða skal dreifingu innan alþjónustu við tvo daga í viku til einstaklinga sem hafa fasta búsetu, sbr. lög um lögheimili og aðsetur. Á sama hátt skal bera út póstsendingar til lögaðila sem hafa fasta atvinnustarfsemi í viðkomandi húsnæði.
     4.      Alþjónustuveitendur skulu tryggja að póstkassar sem falla undir alþjónustu séu tæmdir a.m.k. tvisvar í viku eða að losun sé í samræmi við fjölda dreifingardaga á viðkomandi svæði að teknu tilliti til eftirspurnar eftir þjónustu.
    Fara ber eftir reglum Alþjóðapóstsambandsins (UPU) um stærð og frágang póstsendinga sem falla undir alþjónustu.
    Póst- og fjarskiptastofnun birtir árlega upplýsingar um alþjónustu og alþjónustuveitendur, þ.m.t. hvaða þjónusta fellur undir alþjónustu, auk upplýsinga um verð og gæði. Póst- og fjarskiptastofnun tilkynnir einnig Eftirlitsstofnun EFTA hverjir sinna alþjónustu hér á landi.


10. gr.
Undantekningar frá alþjónustu.

    Þjónustuskylda sem felst í 9. gr. er aðeins virk ef viðtakandi er með þekkt heimilisfang skráð í þjóðskrá og ef bréfakassi/bréfalúga er merktur með nafni í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur sem gildir á hverjum tíma eða ef samið hefur verið um annan afhendingarstað við þjónustuveitanda.
    Þjónustuskylda skv. 9. gr. tekur eingöngu til virkra daga (mánudags til föstudags). Skyldan getur einnig fallið niður tímabundið við sérstakar aðstæður sem koma í veg fyrir að póstþjónusta sé veitt eða gera hana óhóflega kostnaðarsama.


11. gr.
Val á þjónustuveitanda sem skylt er að veita alþjónustu.

    Ráðherra ákveður hvort hann gerir samning við fyrirtæki með almenna heimild, eitt eða fleiri, til að sinna þeim skyldum sem kveðið er á um í 9. gr. Við samningsgerð getur ráðherra notið liðsinnis Póst- og fjarskiptastofnunar og m.a. falið stofnuninni að meta og skera úr um kostnað við samninginn. Ráðherra getur einnig falið Póst- og fjarskiptastofnun að útnefna fyrirtæki til að sinna þjónustunni. Jafnframt getur ráðherra ákveðið að bjóða hana út.
    Við val á þjónustuveitanda eða þjónustuveitendum skv. 1. mgr. skal viðhafa opið, gagnsætt og hlutlægt ferli þar sem gætt er jafnræðis. Skyldu til veitingar alþjónustu má afmarka við tiltekna landshluta, póstnúmer og/eða tiltekna þætti póstþjónustu.
    Ráðherra getur látið framkvæma markaðskönnun þar sem metið er hvort nauðsynlegt er að tryggja alþjónustu með samningi eða útnefningu.

12. gr.
Umsóknir útnefnds fyrirtækis um fjárframlög vegna alþjónustu.

    Ef póstrekandi sem er útnefndur, sbr. 11. gr., telur að alþjónusta sem honum er skylt að veita hafi í för með sér hreinan kostnað getur hann sótt um til Póst- og fjarskiptastofnunar að honum verði með fjárframlögum tryggt sanngjarnt endurgjald fyrir þá starfsemi sem um ræðir. Útreikningar þjónustuveitanda skulu taka mið af viðauka II við lög þessi. Jafnframt þarf umsækjandi að sýna fram á að reiknað tap, ef eitthvert er, hafi í för með sér ósanngjarna byrði á fjárhag alþjónustuveitanda.
    Með hreinum kostnaði er í 1. mgr. átt við kostnað póstrekanda við að veita alþjónustu að frádregnum beinum tekjum af þjónustunni og markaðsávinningi sem alþjónustuveitandi hefur af því að veita alþjónustu.
    Um ósanngjarna byrði í skilningi 1. mgr. er að ræða þegar alþjónustukvöð á póstrekanda með almenna heimild um að veita tilteknum notendum eða notendahópum póstþjónustu eða veita hana á tilteknum svæðum leiðir til taps eða til aðstæðna sem ekki myndu skapast ef venjuleg viðskiptasjónarmið væru lögð til grundvallar. Tapið eða aðstæðurnar verða að teljast hafa veruleg áhrif á rekstrargetu fyrirtækisins og samkeppnismöguleika eða stofna efnahag þess í hættu.
    Með markaðsávinningi er í 2. mgr. m.a. átt við æviferilsáhrif, alnánd, ímynd og vörumerki. Við mat á markaðsávinningi umsækjanda skal m.a. taka mið af framkvæmd innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Ráðherra getur látið gera nýja markaðskönnun ef talið er að forsendur hennar hafi breyst verulega frá því að gerður var samningur um alþjónustu eða fyrirtæki útnefnt með skyldu til að veita alþjónustu.
    Kostnaður vegna alþjónustu greiðist úr ríkissjóði samkvæmt heimild í fjárlögum.

IV. KAFLI

Nauðsynleg aðstaða.

13. gr.

Aðgangur að dreifikerfi og nauðsynlegri aðstöðu.

    Ef nauðsynlegt þykir, til að vernda hagsmuni notenda eða fyrirtækja á póstþjónustumarkaði og til að koma á virkri samkeppni, getur Póst- og fjarskiptastofnun lagt kvaðir á póstrekendur sem eru skilgreindir sem alþjónustuveitendur um veitingu aðgangs að dreifikerfi sínu og nauðsynlegri aðstöðu. Við setningu slíkra kvaða skal gæta jafnræðis og gagnsæis. Aðgangur að eftirfarandi aðstöðu getur fallið hér undir, þ.e. aðgangur að:
     1.      Pósthólfum.
     2.      Póst- og bréfakössum.
     3.      Áframsendingarþjónustu.
     4.      Þjónustu í tengslum við endursendingu bréfa.
    Íhlutun Póst- og fjarskiptastofnunar getur m.a. tekið til ákvörðunar um gjald fyrir aðgang, þ.m.t. ákvörðunar endurgjalds fyrir aðgang, sem og skilyrða fyrir aðgangi.
    Við málsmeðferð Póst- og fjarskiptastofnunar skulu m.a. eftirfarandi sjónarmið lögð til grundvallar:
     1.      Sanngirni þeirra skilyrða sem tengjast viðkomandi aðgangsbeiðni.
     2.      Þarfir notenda.
     3.      Þörf á að tryggja og viðhalda hagkvæmri þjónustu í tengslum við alþjónustu.
     4.      Aðrir möguleikar á hliðstæðum aðgangi fyrir aðgangsbeiðanda.
     5.      Samkeppni á markaði fyrir póstþjónustu.
     6.      Möguleikar til að veita umræddan aðgang.
     7.      Fjárfestingar alþjónustuveitanda.

14. gr.

Frímerki og gjaldmerki.

    Póst- og fjarskiptastofnun veitir póstrekendum heimild til útgáfu frímerkja og annarra gjaldmerkja. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að kveða á um að alþjónustuveitandi skuli gefa út frímerki.
    Öll íslensk frímerki bera áletrunina „ÍSLAND“.
    Um skipti á frímerkjum við erlend póstþjónustufyrirtæki fer eftir reglum sem Alþjóðapóstsambandið (UPU) kann að setja.
    Gjaldmerki önnur en frímerki bera heiti viðkomandi póstrekanda eða númer sem Póst- og fjarskiptastofnun úthlutar honum.

15. gr.

Póstnúmeraskrá.

    Póst- og fjarskiptastofnun ákvarðar landfræðileg mörk póstnúmera og heldur póstnúmeraskrá. Breytingar á póstnúmeraskrá skulu ekki gerðar nema að höfðu samráði við Þjóðskrá Íslands.


V. KAFLI

Viðskiptaskilmálar, gjaldskrár og bókhald alþjónustuveitanda.

16. gr.

Viðskiptaskilmálar.

    Alþjónustuveitandi birtir opinberlega almenna viðskiptaskilmála og gjaldskrá sem gildir um alþjónustu sem hann sinnir á hverjum tíma. Ákvæði 1. málsl. telst uppfyllt ef upplýsingar eru aðgengilegar á vefsíðu hlutaðeigandi alþjónustuveitanda.
    Telji Póst- og fjarskiptastofnun skilmála brjóta gegn lögum, reglugerðum, almennum heimildum eða skyldum alþjónustuveitanda gerir stofnunin alþjónustuveitanda grein fyrir niðurstöðu sinni og gefur honum færi á að bæta úr ágöllum viðskiptaskilmála innan hæfilegs frests. Sama gildir hvað varðar ágalla á birtingu skv. 1. mgr.

17. gr.

Gjaldskrá alþjónustuveitanda.

    Gjöld fyrir alþjónustu skulu vera viðráðanleg fyrir notendur þannig að þeir geti notfært sér þjónustuna.
    Smásölugjaldskrá fyrir bréf allt að 50 g innan alþjónustu skal vera sú sama um allt land.
    Gjaldskrár fyrir alþjónustu, þar á meðal gjaldskrár vegna pakkasendinga til landsins, skulu taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði. Gjaldskrár skulu vera auðskiljanlegar og gæta skal jafnræðis og tryggja gagnsæi.
    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að krefjast þess að alþjónustuveitandi geri grein fyrir kostnaðargrundvelli gjaldskrár fyrir þjónustu innan alþjónustu.
    Alþjónustuveitanda er heimilt að setja sérstaka gjaldskrá fyrir fyrirtæki sem afhenda mikið magn bréfa í einu eða fyrirtæki sem safna saman bréfum mismunandi viðskiptavina og afhenda alþjónustuveitanda til dreifingar. Slík gjaldskrá getur tekið til dreifingar um land allt sem og svæðisbundinnar dreifingar. Alþjónustuveitanda er heimilt að miða við ákveðið dreifingarhlutfall bréfa eftir landsvæðum við útreikninga á sérstakri gjaldskrá.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur krafist þess að alþjónustuveitandi geri kostnaðarlíkan til útreiknings á verði. Póst- og fjarskiptastofnun getur við útreikninga á kostnaði tekið mið af rekstri sambærilegrar þjónustu sem telst rekin á hagkvæman hátt, tekið mið af gjaldskrám á sambærilegum samkeppnismörkuðum og notað kostnaðargreiningaraðferðir sem eru óháðar aðferðum póstrekanda.
    Telji Póst- og fjarskiptastofnun gjaldskrá alþjónustu ekki uppfylla skilyrði þessarar greinar gerir stofnunin kröfu um úrbætur.
    Nánar er kveðið á um bókhald og gjaldskrár í reglugerð, m.a. um einstaka vöruflokka á einstaklingsmarkaði sem falla undir kvöð um samræmda gjaldskrá, um aðferðir við eignamat, afskriftir, ávöxtunarkröfu og gerð kostnaðarlíkana.
    Nú verður alþjónustuveitandi ekki við fyrirmælum Póst- og fjarskiptastofnunar samkvæmt grein þessari og getur þá stofnunin ákveðið póstrekanda dagsektir skv. 12. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003, með síðari breytingum, þar til bætt er úr.

18. gr.

Um breytingar á gjaldskrá innan alþjónustu.

    Breytingar á gjaldskrá innan alþjónustu fyrir einstök bréf og pakka upp að 10 kg skal tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun með að lágmarki tíu daga fyrirvara áður en gjaldskrá tekur gildi. Breytingum á gjaldskrá skal fylgja fullnægjandi rökstuðningur fyrir breytingum á einingarverði í 50 g þyngdarflokki (lægsta þyngdarflokki).
    Breytingar á gjaldskrá fyrir magnpóst, þ.m.t. breytingar á verði og skilmálum, skal tilkynna með að lágmarki 30 daga fyrirvara. Alþjónustuveitandi skal fyrir sömu tímamörk senda Póst- og fjarskiptastofnun fullnægjandi rökstuðning fyrir breytingum sem gerðar eru.
    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að yfirfara útreikninga alþjónustuveitanda og getur eftir atvikum kveðið á um breytingar á tilkynntu verði ef útreikningar alþjónustuveitanda eru ekki réttir eða gefa ekki tilefni til þeirrar hækkunar sem tilkynnt var. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að samþykkja og/eða synja beiðni um gjaldskrárbreytingu að hluta eða í heild sinni.
    Breytingar á gjaldskrá innan alþjónustu ásamt rökstuðningi skulu birtar á vefsíðu Póst- og fjarskiptastofnunar.

19. gr.

Fyrirkomulag bókhalds alþjónustuveitanda.

    Bókhald alþjónustuveitanda skal byggjast á hlutlægum reikningsskilareglum í samræmi við viðurkenndar aðferðir. Ársreikningar alþjónustuveitanda skulu gerðir í samræmi við lög um bókhald og lög um ársreikninga og birtir opinberlega.
    Alþjónustuveitandi skal í bókhaldi sérgreina kostnað og tekjur fyrir sérhverja tegund þjónustu sem fellur undir alþjónustu. Bókhaldsleg aðgreining er forsenda þess að alþjónustuveitandi geti sótt um fjárframlag vegna alþjónustu sem honum er skylt að veita og hann telur ósanngjarna byrði á fjárhag sinn.

20. gr.

Upplýsingar um starfsemi og rekstur.

    Alþjónustuveitandi veitir Póst- og fjarskiptastofnun upplýsingar um rekstur sinn og fjárhag svo að stofnunin geti haft eftirlit með starfsemi hans, þ.m.t. um fjárhagsstöðu með tilliti til hættu á rekstrarstöðvun. Póst- og fjarskiptastofnun eða löggiltum endurskoðanda í umboði stofnunarinnar skal hvenær sem er og án fyrirvara heimilaður aðgangur að bókhaldi alþjónustuveitanda í þeim tilgangi að sannreyna að aðgreining kostnaðar fari rétt fram og til að kanna hver sé kostnaður við alþjónustu.
    Alþjónustuveitandi lætur Póst- og fjarskiptastofnun í té upplýsingar um gæði alþjónustu, sbr. 21. gr. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að birta slíkar upplýsingar í úttekt sinni.
    Alþjónustuveitandi birtir opinberlega helstu upplýsingar um alþjónustu sem hann sinnir, þar á meðal forsendur og gæðakröfur á hverjum tíma. Ákvæði 1. málsl. telst uppfyllt ef upplýsingar eru aðgengilegar á vefsíðu hlutaðeigandi alþjónustuveitanda.

VI. KAFLI

Kröfur um þjónustu og gæði.

21. gr.

Gæðakröfur.

    Ráðherra setur reglugerð um kröfur um gæði útburðar bréfa í lægsta þyngdarflokki innan alþjónustu. Þar er m.a. kveðið á um hver skuli vera lengstur tími frá móttöku póstsendinga til útburðar miðað við ákveðinn hundraðshluta, lágmarksafgreiðslutíma póstafgreiðslustaða, hversu oft póstkassi er tæmdur, hámarkstíma frá því að póstur berst til landsins þar til hann er borinn út og hámarkstíma frá móttöku póstsendinga til útlanda þangað til þær eru afhentar flutningsaðila. Þá er kveðið á um veitingu undanþágu frá gæðakröfum um tímalengd og tilkynningar slíkra undanþágna til eftirlitsstofnana erlendis.
    Gæðakröfur sem varða bréf í lægsta þyngdarflokki innan alþjónustu milli landa innan Evrópska efnahagssvæðisins skulu vera í samræmi við ákvæði viðauka I við lög þessi.
    Alþjónustuveitandi lætur árlega óháðan aðila kanna gæði dreifingar lægsta þyngdarflokks bréfa innan alþjónustu.
    Póst- og fjarskiptastofnun hefur eftirlit með því að gæðakröfur séu virtar og birtir opinberlega skýrslu um niðurstöður hennar.
    Póst- og fjarskiptastofnun skulu veittar nauðsynlegar upplýsingar vegna skráningar og eftirlits. Þar á meðal eru tölfræðilegar upplýsingar um starfsemi, svo sem heildartölur um fjölda póstlagðra sendinga í mismunandi þjónustu- og þyngdarflokkum, tölur um afgreiðslumagn einstakra afgreiðslustaða, upplýsingar um dreifingu á mismunandi stöðum o.fl.

22. gr.
Staðlar.

    Póstrekendur skulu hafa að leiðarljósi staðla um póstmál sem staðfestir eru af Staðlaráði Íslands. Ráðherra getur áskilið í reglugerð að sama gildi um staðla sem birtir eru í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins, einkum þegar efni þeirra fellur undir ákvæði 27. gr.

23. gr.
Öryggi póstsendinga.

    Póstrekendur skulu tryggja örugga meðferð allra póstsendinga meðan þær eru í vörslu þeirra og verktaka þeirra.
    Póstrekandi sem hyggst bjóða upp á rafræna meðhöndlun bréfa, svo sem með því að yfirfæra þau á stafrænt form og birta í rafrænu pósthólfi, skal tryggja öryggi rafrænna pósthólfa með viðeigandi ráðstöfunum sem geta m.a. falist í dulkóðun, auðkenningu notenda og notkun öryggisstaðla.
    Póst- og fjarskiptastofnun setur reglur um öryggi póstsendinga og öryggismál á póstafgreiðslustöðum.

24. gr.
Póstleynd.

    Einungis má veita upplýsingar um póstsendingar og notkun póstþjónustu að undangengnum dómsúrskurði eða samkvæmt heimild í öðrum lögum.
    Öllum sem starfa við póstþjónustu er óheimilt að gefa óviðkomandi aðilum upplýsingar um póstsendingar eða gefa öðrum tækifæri til þess að verða sér úti um slíka vitneskju. Enn fremur er þeim óheimilt að opna eða lesa það sem afhent er til póstsendingar. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
    Heimilt er að senda rafrænt upplýsingar um sendanda, viðtakanda, innihald, verðmæti og auðkenni póstsendingar og taka við framangreindum upplýsingum til að uppfylla alþjóðasamninga eða kröfur afhendingarlands.

25. gr.
Undanþágur frá póstleynd.

    Þrátt fyrir ákvæði 24. gr. er heimilt að opna án dómsúrskurðar póstsendingar sem ekki er unnt að koma til skila í því skyni að freista þess að komast að því hverjir sendendur eru svo að hægt sé að endursenda þær. Enn fremur er heimilt að leyfa að sendingar séu opnaðar þegar það er óhjákvæmilegt vegna flutnings þeirra eða til að kanna hugsanlegar skemmdir á innihaldi. Sama á við þegar rökstuddur grunur leikur á um að ekki hafi verið forsvaranlega búið um sendinguna vegna innihalds hennar eða að sending innihaldi hluti sem hættulegt getur verið að senda. Póstrekandi skal halda skrá yfir póstsendingar sem eru opnaðar án dómsúrskurðar.
    Um opnun á póstsendingum vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda fer samkvæmt ákvæðum tollalaga.
    Póstsendingar til einstaklinga sem úrskurðaðir hafa verið gjaldþrota má afhenda skiptastjórum eftir beiðni þeirra enda beri þær með sér að varða fjárhagsmálefni þrotamanns. Sendingar til látinna manna skal á sama hátt afhenda skiptastjóra þegar um opinber skipti er að ræða. Þegar um einkaskipti er að ræða skulu allar póstsendingar afhentar forráðamanni dánarbús nema þær beri með sér að vera einkabréf. Skal sending þá endursend með viðeigandi skýringu áritaðri á sendinguna sjálfa.


26. gr.
Skylda til að flytja póstsendingar.

    Hverjum þeim sem heldur uppi reglubundnum flutningum innan lands eða til útlanda er skylt, ef þess er óskað, að flytja póstsendingar innan alþjónustu milli staða enda komi eðlileg greiðsla fyrir. Slíkar póstsendingar skulu njóta forgangs fram yfir annan póst- eða vöruflutning. Flutningsaðilar sem annast póstflutninga skulu tryggja örugga meðferð pósts.
    Ef upp kemur ágreiningur á milli flutningsaðila og alþjónustuveitanda, t.d. um hvað telst eðlileg greiðsla, geta aðilar borið ágreiningsefnið undir Póst- og fjarskiptastofnun.

27. gr.
Móttaka og afhending póstsendinga.

    Póstrekendum er heimilt að setja í skilmála ákvæði um frágang póstsendinga sem þeir taka á móti. Skilmálarnir skulu vera skýrir og jafnræðis gætt. Póstrekendur skulu við móttöku ganga úr skugga um að frágangur sendingar sé þannig að hægt verði að koma sendingunni til viðtakanda.
    Skylt er að dagstimpla póstsendingar sem teljast til almenns bréfapósts upp að 2 kg sé því lofað að póstsending berist fyrir tiltekinn tíma. Dagstimplun sýnir móttökudag póstsendinga.
    Póstsendingu skal komið til þess sem hún er stíluð á eða hefur umboð til viðtöku hennar, í bréfakassa eða pósthólf viðtakanda, á afgreiðslustað eða sjálfsafgreiðslukassa, með skönnun á afhendingarstað ef við á, eða þangað sem utanáskrift segir að öðru leyti til um. Ekki er skylt að krefja um undirskrift viðtakanda nema fyrir sendingar þar sem greitt hefur verið fyrir slíka viðbótarþjónustu, þ.e. kvittun fyrir afhendingu.
    Móttakendum póstsendinga er skylt að setja upp bréfakassa eða bréfalúgu svo að póstrekendur geti komið póstsendingum til skila á hagkvæman hátt. Um staðsetningu bréfakassa eða bréfalúgu fer að jafnaði eftir ákvæðum byggingarreglugerðar. Um staðsetningu bréfakassa í dreifbýli, t.d. fjarlægð frá heimili eða atvinnuhúsnæði, sem og staðsetningu í fjölbýlishúsum, er kveðið á í reglugerð um alþjónustu.
    Alþjónustuveitanda er heimilt að setja upp á einum stað bréfakassasamstæður fyrir alla móttakendur póstsendinga í þéttbýli. Slík bréfakassasamstæða skal vera aðgengileg með tilliti til umferðar og umhverfis. Hafa skal samráð við viðkomandi sveitarstjórnir um staðsetninguna. Bréfakassasamstæður eru settar upp á kostnað alþjónustuveitanda. Nánar er kveðið á um útfærslu í reglugerð um alþjónustu, t.d. um póstnúmer þar sem þetta er heimilt, frágang bréfakassasamstæðna, stærð, fjarlægðarmörk og staðsetningu.
    Póstrekendum er heimilt að endursenda póstsendingar ef bréfakassar eða bréfalúgur viðtakanda eru ekki í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar eða reglugerðar um alþjónustu.
    Póstsending telst vera í vörslu póstrekanda og á ábyrgð hans frá móttöku og þar til hún hefur verið afhent á tilgreindum afhendingarstað.
    Sendandi telst eigandi póstsendingar sem hann hefur afhent póstrekanda þar til hún hefur verið afhent viðtakanda. Sendandi hefur jafnframt ráðstöfunarrétt yfir sendingunni og er heimilt að gefa póstrekanda ný fyrirmæli um póstmeðferð þar til hún hefur verið afhent tilgreindum viðtakanda.
    Í tilfellum þar sem viðtakandi hefur pantað póstsendinguna, t.d. í netverslun, telst hann sendandi. Póstrekanda er heimilt að innheimta aukagjald vegna kostnaðar sem hlýst af nýjum fyrirmælum frá sendanda eða viðtakanda eða vegna atvika sem varða viðtakandann og koma í veg fyrir að hægt sé að veita þjónustuna í samræmi við skilmála hennar.

28. gr.
Óumbeðnar fjöldasendingar.

    Póstrekendum er skylt að virða merkingar notenda sem kveða á um að viðkomandi viðtakandi óski ekki eftir óumbeðnum fjöldasendingum, svo sem fjölpósti, fríblöðum eða almennu kynningarefni frá fyrirtækjum.
    Tilkynningar veitufyrirtækja, t.d. fjarskipta-, vatns- og rafmagnsveitna, falla ekki hér undir ef verið er að tilkynna um tímabundið rof á þjónustu vegna framkvæmda og því um líkt. Sama gildir um kynningarefni vegna kosninga á vegum stjórnvalda, tilkynningar sveitarfélaga til íbúa sinna og tilkynningar stjórnvalda sem varða almannahag og almannaöryggi.

29. gr.
Óskilasendingar.

    Póstrekandi setur sér reglur um meðferð óskilasendinga sem uppfylla skilyrði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Póstrekendur skulu gera allar eðlilegar ráðstafanir til að koma póstsendingum til skráðra viðtakenda. Ef ekki tekst að koma póstsendingu til skila vegna rangra eða ófullkominna upplýsinga um nafn og heimilisfang eða vegna þess að skráður viðtakandi hefur flust búferlum skal póstrekandi endursenda hana til sendanda. Póstrekendum er heimilt að endursenda til sendanda póstsendingar sem póstlagðar eru án þess að burðargjald hafi verið innt af hendi. Þegar póstsending í óskilum er ekki merkt sendanda og ekki er hægt að endursenda hana er póstrekanda heimilt að opna póstsendinguna í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur. Við gerð og beitingu þessara reglna skal þess gætt að óskilasendingar geta innihaldið viðkvæmar persónuupplýsingar.
    Póstsendingar sem fyrir mistök komast í hendur annars póstrekanda en ætlað var að flytja sendinguna skulu sendar réttum póstrekanda strax og unnt er.

30. gr.
Óheimilar póstsendingar.

    Óheimilt er að afhenda póstrekanda sendingar með innihaldi sem er hættulegt eða sem brýtur í bága við ákvæði laga að hafa undir höndum.

31. gr.
Umbúðir póstsendinga.

    Ganga skal tryggilega frá póstsendingum sem afhentar eru póstrekendum í umbúðum. Póstrekendur geta hafnað því að veita póstsendingum móttöku ef hætta er talin á að umbúðir muni skemmast í höndum póstrekandans. Móttaka póstsendinga með innihaldi sem getur valdið skaða, smiti eða veikindum er skilyrt því að rétt sé búið um sendinguna og hún merkt í samræmi við innihald. Dæmi um slíkt innihald eru lífræn, auðskemmd efni, smitefni og geislavirk efni.

VII. KAFLI

Meðferð kvartana og skaðabætur.

32. gr.

Meðferð kvartana.

    Póstrekendur skulu semja reglur um meðferð kvartana frá notendum og birta opinberlega.
    Reglur skv. 1. mgr. skulu gefa kost á skjótri og sanngjarnri lausn deilumála með endurgreiðslum eða skaðabótum þegar þær eiga rétt á sér.
    Telji notendur póstþjónustu eða aðrir sem hafa hagsmuna að gæta að póstrekandi brjóti gegn lögum, skilyrðum sem mælt er fyrir um í almennum heimildum eða réttindum þeirra getur hlutaðeigandi beint kvörtun til Póst- og fjarskiptastofnunar um að hún láti málið til sín taka á grundvelli laga um Póst- og fjarskiptastofnun.

33. gr.

Skaðabætur.

    Póstrekendum er ekki skylt að greiða skaðabætur fyrir óskráðar póstsendingar, sem glatast eða seinkar vegna óviðráðanlegra aðstæðna eða atburða (force majeure).
    Sendendur skráðra póstsendinga geta átt rétt á skaðabótum fyrir slíkar sendingar sem glatast eða eyðileggjast að einhverju eða öllu leyti í vörslu póstrekenda.

34. gr.

Ábyrgðartakmarkanir.

    Póstrekendum er heimilt að setja viðmið í viðskiptaskilmála um hámark skaðabótaábyrgðar sem tryggð er eins og á við um einstakar tegundir póstsendinga.

35. gr.

Óbeint tjón.

    Skaðabótaskylda samkvæmt þessum kafla nær aðeins til þess hlutar verðmætis sem glatast hefur eða rýrnunar sem stafar af skemmdum á sendingunni hjá póstrekanda. Ekki er skylt að bæta fyrir ábata- eða afnotamissi, tjón vegna rýrnunar á verðgildi peninga eða verðbréfa eða aðrar óbeinar afleiðingar.

36. gr.

Póstsendingar milli landa.

    Um skaðabætur fyrir póstsendingar milli landa fer eftir gildandi milliríkjasamningum. Glatist sending eða skemmist hjá póstrekanda á íslensku landsvæði greiðast þó skaðabætur eins og um innlenda sendingu sé að ræða enda sé það hagstæðara fyrir tjónþola.

37. gr.

Fyrning skaðabótakröfu.

    Skylda til greiðslu skaðabóta fellur niður sé þeirra ekki krafist innan sex mánaða frá því að viðkomandi póstsending var afhent til flutnings.

VIII. KAFLI

Milliríkjasamningar, viðurlög o.fl.

38. gr.
Póstþjónusta við önnur lönd.

    Ákvæði laga þessara gilda einnig um póstþjónustu við önnur lönd. Ef ósamræmi er milli laga þessara og milliríkjasamninga ganga milliríkjasamningar framar hvað varðar póstþjónustu við önnur lönd.
    Ráðherra getur falið Póst- og fjarskiptastofnun að útnefna póstrekanda samkvæmt lögum þessum til að fara með réttindi og skyldur samkvæmt alþjóðapóstsamningnum.
    Við gerð samninga um endastöðvargjöld fyrir póstsendingar milli landa sem falla undir alþjónustu og/eða alþjóðapóstsamninginn skal útnefnt fyrirtæki hafa til viðmiðunar eftirtaldar grundvallarreglur:
     1.      Endastöðvargjöld skulu taka mið af kostnaði við póstmeðferð, þ.m.t. útburð.
     2.      Upphæð gjalda skal vera í samræmi við gæði þjónustu.
     3.      Endastöðvargjöld skulu vera gagnsæ og jafnræðis gætt.
    Útnefndu fyrirtæki er ekki skylt að dreifa póstsendingum sem sendendur hafa póstlagt eða látið póstleggja í öðru landi en þeir eru búsettir í, án þess að fá fyrir það greiðslu sem stendur undir kostnaði við vinnslu og dreifingu sendinganna. Er útnefnda fyrirtækinu heimilt að krefja sendanda um greiðslu innanlandsburðargjalds fyrir slíkar sendingar eða póstfyrirtækið sem sendi póstsendingarnar. Ef ekki er unnt að innheimta viðeigandi greiðslu er útnefndu fyrirtæki heimilt að endursenda póstsendinguna.

39. gr.
Heimild til rekstrarstöðvunar.

    Póstrekendur með almenna heimild til veitingar póstþjónustu skulu að beiðni Póst- og fjarskiptastofnunar veita stofnuninni upplýsingar samkvæmt lögum um Póst- og fjarskiptastofnun sem nauðsynlegar eru til þess að ganga úr skugga um að farið sé eftir skilyrðum laga þessara.
    Komist Póst- og fjarskiptastofnun að þeirri niðurstöðu að póstrekandi fari ekki að skilmálum almennra heimilda eða skilyrðum sem tengjast réttindum eða sérstökum kvöðum skal stofnunin tilkynna póstrekandanum um þessa niðurstöðu og gefa honum tækifæri á að koma skoðun sinni á framfæri eða lagfæra brot sitt innan eins mánaðar frá dagsetningu tilkynningar eða skemmri tíma sem aðilinn samþykkir eða Póst- og fjarskiptastofnun kveður á um þegar um endurtekið brot er að ræða eða lengri tíma sem Póst- og fjarskiptastofnun samþykkir.
    Við alvarleg og endurtekin brot á skilmálum almennrar heimildar eða skilyrðum sem tengjast réttindum eða sérstökum kvöðum þegar ráðstafanir til að tryggja að farið verði að lögum hafa mistekist getur Póst- og fjarskiptastofnun stöðvað rekstur eða þjónustu póstrekanda, afskráð hann af lista yfir póstrekendur eða afturkallað réttindi tímabundið eða varanlega. 
    Póst- og fjarskiptastofnun getur, ef sannanir liggja fyrir um brot á skilmálum almennrar heimildar eða skilyrðum sem tengjast réttindum eða sérstökum kvöðum sem leiðir til yfirvofandi hættu fyrir öryggi og heilsu almennings eða getur skapað alvarleg fjárhagsleg eða rekstrarleg vandamál fyrir aðra póstrekendur eða notendur, tekið bráðabirgðaákvarðanir til að bæta úr ástandinu áður en endanleg ákvörðun er tekin. Póstrekandanum sem í hlut á skal að lokinni bráðabirgðaákvörðun veitt tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri og leggja til úrbætur. Þegar við á getur Póst- og fjarskiptastofnun staðfest bráðabirgðaákvörðun sína.

40. gr.
Viðurlög.

    Brot á lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim varða sektum. Stórfelld brot eða ítrekuð varða fangelsi allt að tveimur árum. Með stórfelldu broti er m.a. átt við það þegar brot er framið í tengslum við skipulagða brotastarfsemi.
    Gáleysisbrot skulu eingöngu varða sektum.
    Nú er brot skv. 1. mgr. framið í starfsemi lögaðila og má þá gera lögaðilanum fésekt skv. II. kafla A almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
    Tilraun til brota og hlutdeild í brotum skv. 1. mgr. er refsiverð skv. III. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

41. gr.
Almenn reglugerðarheimild.

    Ráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd laga þessara, þar á meðal um:
     1.      Alþjónustu og val á alþjónustuveitanda.
     2.      Nánari útfærslu á þjónustu sem fellur undir alþjónustu skv. 9. gr., þar á meðal um gæði, þjónustusvæði, söfnun póstsendinga, skilyrði fyrir fækkun dreifingardaga, tegundir þjónustu sem fellur undir alþjónustu innan lands og milli landa, aðgengi að póstafgreiðslustöðum, notkun póstlúðurs, útgáfu frímerkja, móttöku og afhendingu póstsendinga, staðsetningu bréfakassa í dreifbýli, póstnúmer o.fl. skv. 9., 10., 27. og 29. gr.
     3.      Bókhald og gjaldskrár alþjónustuveitenda, þar á meðal um aðferðir við eignamat, afskriftir, ávöxtunarkröfu og gerð kostnaðarlíkana skv. 17. gr.
     4.      Aðgreiningu tekna og kostnaðar milli alþjónustu og annarrar þjónustu skv. 17. gr.
     5.      Gæðakröfur til alþjónustu skv. 21. gr.
     6.      Móttöku og afhendingu póstsendinga, þar á meðal um staðsetningu bréfakassa í dreifbýli skv. 27. gr.
     7.      Pakkasendingar milli landa skv. 38. gr. þar sem m.a. er heimilt að kveða á um eftirfarandi:
       a.      Upplýsingaskyldu póstrekanda vegna gjaldskrár um pakkasendingar milli landa, t.d. verð, skilmála, veltu, starfsmannafjölda o.fl.
       b.      Fresti til að láta upplýsingar í té og um birtingu þeirra opinberlega.
       c.      Viðmið um hvernig eftirlitsaðilar eiga að meta hvort gjaldskrá sé viðráðanleg fyrir neytendur.
       d.      Innleiðingu reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2018/644, um pakkasendingar yfir landamæri.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd laga þessara, þar á meðal um:
     1.      Undantekningar frá dreifingarskyldu innan alþjónustu skv. 9. gr. til einstaklinga og lögaðila, að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum, þannig að alþjónustuskylda teljist uppfyllt með afhendingu á afgreiðslustað póstrekanda eða tiltekinni aðstöðu. Jafnframt getur ráðherra ákveðið samkvæmt nánari fyrirmælum í reglugerð að alþjónustuskyldur teljist uppfylltar rafrænt.
     2.      Aðgang að nauðsynlegri aðstöðu og þjónustu og bókhaldslega aðgreiningu á aðgangi að nauðsynlegri aðstöðu skv. 13. gr.
     3.      Bókhald alþjónustuveitanda í samræmi við 14. og 15. gr. pósttilskipunar Evrópusambandsins 97/67/EB, með síðari breytingum, og aðgreiningu tekna og kostnaðar á milli alþjónustu og annarrar þjónustu skv. 19. gr.
     4.      Staðla sem birtir eru í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins skv. 22. gr., sbr. 27. gr.
     5.      Meðferð óskilasendinga.
     6.      Ólögmætt innihald póstsendinga skv. 30. gr.
     7.      Annað sem kann að varða framkvæmd póstþjónustu, svo sem um frágang, umbúðir og merkingar, skv. 31. gr.

42. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2020. Um leið falla úr gildi lög um póstþjónustu, nr. 19/2002, með síðari breytingum.

43. gr.
Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum: 7. tölul. 2. gr. laganna orðast svo: Póstþjónusta vegna bréfasendinga svo sem móttaka og dreifing á árituðum bréfum, þ.m.t. póstkortum, blöðum og tímaritum.
     2.      Lög um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003, með síðari breytingum:
                  a.      Í stað orðanna „eða rekstrarleyfum“ í 6. mgr. 5. gr. laganna kemur: rekstrarleyfum eða skilgreindum alþjónustukvöðum.
                  b.      Í stað orðanna „rekstrarleyfishafa í póstþjónustu“ í 1. málsl. 7. mgr. 5. gr. laganna kemur: póstrekanda.
                  c.      Í stað orðanna „rekstrarleyfi fyrir póstþjónustu“ í 8. mgr. 5. gr. laganna kemur: afskráð hann af lista yfir póstrekendur.
                  d.      Í stað orðsins „rekstrarleyfi“ í 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: rekstrarleyfi eða skilgreindum alþjónustukvöðum.
                  e.      Í stað orðanna „útgáfu rekstrarleyfa“ í 1. mgr. 14. gr. laganna kemur: tilnefningu alþjónustuveitanda.
                  f.      Í stað „0,34%“ í 1. málsl. 4. mgr. 14. gr. laganna kemur: 0,4%.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Íslandspóstur ohf. skal afhenda Póst- og fjarskiptastofnun upplýsingar um gildandi póstnúmerakerfi eigi síðar en tveimur mánuðum fyrir gildistöku laga þessara.

Viðauki I.
Gæðakröfur til bréfasendinga milli landa innan Evrópska efnahagssvæðisins.

    Gæðakröfur fyrir póstsendingar milli landa innan Evrópska efnahagssvæðisins skulu í hverju landi settar um lengsta tíma fyrir póstmeðferð frá móttökustað til afhendingarstaðar og er hann mældur fyrir póstsendingar sem eru í hraðasta flokki samkvæmt jöfnunni D + n þar sem D merkir móttökudag og n fjölda virkra daga sem líða milli móttökudags og afhendingar sendingarinnar til áritaðs móttakanda.
    Móttökudagur telst sá dagur þegar póstsendingin er lögð inn svo framarlega sem það á sér stað fyrir þann tíma sem tilkynnt hefur verið að síðasta söfnun póstsendinga á þeim móttökustað sem um ræðir muni eiga sér stað. Þegar sending er lögð inn eftir þennan tíma skal móttökudagur teljast næsti söfnunardagur.
    Þær gæðakröfur eru gerðar að 85% bréfa séu afhent samkvæmt fyrirkomulagi D + 3 og 97% samkvæmt fyrirkomulagi D + 5.

Viðauki II.
Leiðbeiningar um útreikning á hreinum kostnaði alþjónustu, ef einhver er.

A-hluti: Útreikningur á hreinum kostnaði.
    Leita skal leiða til að tryggja póstrekendum viðeigandi hvatningu til að rækja alþjónustuskyldur á sem skilvirkan hátt að því er kostnað varðar.
    Hreinn kostnaður alþjónustuskyldna er allur kostnaður sem tengist og er óhjákvæmilegur við rekstur alþjónustu. Hreinn kostnaður alþjónustuskyldna er reiknaður sem mismunur á hreinum kostnaði alþjónustuveitanda sem samið er við eða gert skylt að veita alþjónustu og kostnaði sama póstrekanda án skyldu til að veita alþjónustu.
    Útreikningarnir skulu fela í sér alla aðra viðkomandi þætti, þ.m.t. rétt á sanngjörnum hagnaði, hvata til kostnaðarhagkvæmni, óefnislegan ávinning og markaðsávinning, sem falla til póstrekanda sem er tilnefndur til að veita alþjónustu.
    Vandlega skal hugað að því að meta rétt kostnað sem alþjónustuveitandi hefði kosið að komast hjá hefði ekki verið um neinar alþjónustuskyldur að ræða. Við útreikning á hreinum kostnaði er metinn ávinningur, þ.m.t. óefnisleg hlunnindi, sem póstrekandi sem veitir alþjónustu nýtur.
    Útreikningur grundvallast á kostnaði sem hægt er að heimfæra á:
    i.         Þætti í viðkomandi þjónustu sem aðeins er hægt að veita með tapi eða hafa í för með sér meiri kostnað en eðlilegt getur talist í viðskiptum. Þessi flokkur getur falið í sér þjónustuþætti, svo sem þjónustu sem skilgreind er í A-hluta.
    ii.    Tiltekna notendur eða hópa notenda sem aðeins er hægt að þjóna með tapi eða með meiri kostnaði en eðlilegt getur talist í viðskiptum, að teknu tilliti til kostnaðar og tekna af starfrækslu viðkomandi þjónustu og viðeigandi samræmdra gjalda.
    Undir þennan flokk falla notendur og hópar notenda sem fengju enga þjónustu hjá póstrekanda sem starfaði á viðskiptagrundvelli og væri ekki skylt að veita alþjónustu.
    Útreikningur á hreinum kostnaði við afmarkaða þætti alþjónustuskyldu skal fara fram aðskilið og þannig að komist sé hjá því að tvítelja hvers kyns bein eða óbein hlunnindi og kostnað. Hreinn heildarkostnaður tilnefnds veitanda alþjónustu, sem hlýst af alþjónustuskyldu, er reiknaður sem summan af hreinum kostnaði sem hlýst af tilteknum þáttum alþjónustuskyldu, að teknu tilliti til hvers kyns óefnislegra hlunninda. Stjórnvöld sannprófa hver er hreinn kostnaður. Veitandi alþjónustu á samstarf við stjórnvöld til að gera þeim kleift að sannprófa hreinan kostnað.

B-hluti: Hreinn kostnaður við alþjónustuskyldu endurheimtur.
    Endurheimt eða fjármögnun hreins kostnaðar við alþjónustuskyldu getur krafist þess að viðsömdum eða tilnefndum veitendum alþjónustu sé bættur kostaður við þjónustu sem þeir veita en er ekki veitt á venjulegum viðskiptagrundvelli. Þar sem slíkar bætur fela í sér tilfærslu fjár skal tryggja að þær séu gerðar þannig að þær séu hlutlægar, gagnsæjar, án mismununar og hlutfallsbundnar. Þetta hefur í för með sér að tilfærslurnar valda, að því marki sem það er unnt, minnstu mögulegu röskun á samkeppni og eftirspurn.


Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta til nýrra heildarlaga um póstþjónustu er samið í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu að höfðu samráði við Póst- og fjarskiptastofnun og fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Frumvarpið á sér langan aðdraganda en tildrög þess má rekja til breytinga á reglum Evrópusambandsins á sviði póstþjónustu sem m.a. lúta að því að opna póstmarkaðinn fyrir samkeppni með því að afnema einkarétt ríkja á sviði póstþjónustu.
    Með póstlögum nr. 31/1940 var einkaréttur hins opinbera á sviði póstþjónustu afmarkaður við lokaðar áritaðar bréfasendingar allt að 2 kg. Með lögum um póstþjónustu, nr. 142/1996, var pósttilskipun Evrópusambandsins 97/67/EB innleidd í íslenskan rétt (hér eftir nefnd pósttilskipunin) og öllum þegnum þar með tryggð grunnþjónusta. Árið 1998 var dregið úr einkarétti ríkisins og hann bundinn við 250 g bréfasendingar. Í gildandi lögum um póstþjónustu, nr. 19/2002, er miðað við að bréf undir 50 g séu háð einkarétti, sbr. tilskipun 2002/39/EB (hér eftir nefnd önnur pósttilskipunin). Með frumvarpinu er nú stigið lokaskrefið í átt að afnámi einkaréttar póstþjónustu hér á landi en það byggist m.a. á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/6/EB um frekari breytingar á pósttilskipun 97/67/EB (hér eftir nefnd þriðja pósttilskipunin). Eitt meginmarkmið póstlöggjafar Evrópusambandsins er að skilgreina jafnan aðgang notenda að svonefndri alþjónustu, þ.e. grunnþjónustu á sviði póstþjónustu ( universal postal service). Alþjónusta hefur verið tryggð hér á landi þar sem pósttilskipunin og önnur pósttilskipunin hafa verið teknar inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Einkaréttur ríkisins hefur hins vegar ekki verið afnuminn eins og þriðja pósttilskipunin kveður á um. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að alþjónusta verði eftir sem áður tryggð borgurunum og leitast við að gera það á sem hagkvæmastan máta fyrir íslenska ríkið og í takt við þarfir samfélagsins. Það verði gert á þann veg að einn eða fleiri póstrekendur verða valdir, samkvæmt reglum sem frumvarp þetta kveður á um, til að sinna alþjónustuskyldum.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Pósttilskipunin og önnur pósttilskipun Evrópusambandsins hafa verið innleiddar í lög hér á landi þar sem þær hafa verið teknar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Flest ríki Evrópusambandsins afnámu einkarétt á póstþjónustu fyrir 1. janúar 2011 líkt og þriðja pósttilskipunin kveður á um og afnám einkaréttar hefur nú komið til framkvæmdar í öllum aðildarríkjum. Upptaka þriðju pósttilskipunarinnar í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið hefur hins vegar tafist. Ástæðan fyrir töfunum er að þrátt fyrir að tilskipunin væri það sem kallað er EES-tæk gerðu Norðmenn stjórnskipulegan fyrirvara við upptöku hennar og málið varð að kosningamáli í Noregi á sínum tíma. Fyrrverandi innanríkisráðherra Íslands ákvað þá að fylgja Norðmönnum að málum og fresta innleiðingu hér á landi. Með nýrri ríkisstjórn í Noregi var ákveðið að innleiða þriðju pósttilskipunina og tóku ný póstlög gildi í Noregi 1. janúar 2016. Ísland er því eina ríkið á Evrópska efnahagssvæðinu sem ekki hefur afnumið einkaréttinn og innleitt þriðju pósttilskipunina. Með frumvarpi þessu er lagt til að það verði gert þrátt fyrir að þriðja pósttilskipunin hafi ekki verið tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
    Á Íslandi fer íslenska ríkið með einkarétt en hefur falið Íslandspósti ohf. að annast hann. Einkaréttur er á eftirfarandi:
          Bréfum undir 50 g.
          Útgáfu frímerkja.
          Uppsetningu póstkassa.
          Auðkenni Íslandspósts (póstlúður).
    Tilgangur einkaréttar hefur ávallt verið að standa undir kostnaði við alþjónustu í pósti. Alþjónusta hefur verið skilgreind sem lágmarksþjónusta sem allir íbúar eiga rétt á, óháð staðsetningu. Skv. 3. mgr. 6. gr. gildandi laga um póstþjónustu, nr. 19/2002, skal í alþjónustu að lágmarki vera innifalinn „aðgangur að póstafgreiðslu og póstþjónustu vegna bréfa og orðsendinga með utanáskrift, annarra sendinga með utanáskrift, markpósts og dagblaða, vikublaða, tímarita, bóka og verðlista með utanáskrift, ábyrgðarsendinga, tryggðra sendinga, fjármunasendinga og blindrasendinga allt að tveimur kílóum og pakkasendinga allt að tuttugu kílóum“. Alþjónusta nær bæði til póstsendinga innan lands og til annarra landa.
    Með þriðju pósttilskipun Evrópusambandsins voru ekki gerðar grundvallarbreytingar á skilgreiningu alþjónustu. Hins vegar hafa aðildarríki sambandsins ákveðið svigrúm til að útfæra alþjónustuskyldur með hliðsjón af aðstæðum í hverju landi fyrir sig þrátt fyrir að vera bundin við ákveðin grunnsjónarmið. Sú breyting er hér lögð til á skilgreiningu alþjónustu að markpóstur falli ekki lengur undir hugtakið enda er það valkvætt. Eðlilegt er í aðdraganda afnáms einkaréttar að yfirfara inntak alþjónustu með hliðsjón af breytingum á þörfum og eftirspurn notenda auk tækniframfara. Á það skal minnt í þessu samhengi að þriðja pósttilskipunin er tíu ára gömul.
    Almennum bréfasendingum hefur fækkað umtalsvert á undanförnum árum. Þannig hafa bréfasendingar innan einkaréttar farið úr tæplega 60 milljónum 2008 og niður í rúmlega 20 milljón bréf 2017 og fækkar hratt að óbreyttu. Til að bregðast við þessari fækkun og til að ná jafnvægi í afkomu við dreifingu hefur verið nauðsynlegt að draga úr tíðni dreifingar og hagræða í afgreiðslu, samhliða því að aðlaga verðskrá.
    Hluti þróunar fram til þessa og líkleg áframhaldandi fækkun bréfa á sér eðlilegar og að flestu leyti „jákvæðar“ orsakir. Þannig hefur breytt samskiptatækni og samskiptamáti fært upplýsingagjöf í auknum mæli af prentmiðlum yfir á stafræna miðla. Á þetta ekki síst við um hefðbundin bréf undir 50 g. Tölvupóstur, upplýsingagáttir á netinu, samfélagsmiðlar o.fl. hafa fyrir löngu leyst af hólmi hefðbundin prentuð bréf.
    Ein af forsendum átaksverkefnisins Ísland ljóstengt, þar sem ríkið styrkir ljósleiðaravæðingu í dreifbýli sveitarfélaga um allt land, er að bæta fjarskipti einstaklinga og fyrirtækja utan þéttbýlis. Þannig næst að jafna aðgengi landsmanna að upplýsingasamfélaginu og um leið að hvers konar stafrænni þjónustu. Á það einnig við um aðgengi að stafrænum upplýsingum sem áður voru aðeins aðgengilegar með hefðbundnum bréfapósti. Stefnt er að því að ljúka við Ísland ljóstengt 2020 eða 2021. Þá mun ríkið hafa styrkt verkefnið um nær 3,1 milljarð kr. á móti sambærilegu eða hærra samanlögðu framlagi sveitarfélaga, notenda og fjarskiptafyrirtækja, eftir atvikum.
    Með bættum fjarskiptum og samgöngum hefur á undanförnum árum dregið úr mikilvægi póstþjónustu hér á landi, sér í lagi hvað varðar dreifingu á hefðbundnum bréfum, svo sem útsendingu á reikningum, launaseðlum og öðru slíku. Með tilkomu rafrænna samskiptalausna gegnir póstþjónusta ekki sama hlutverki og áður.
    Mikilvægi hefðbundinnar póstþjónustu sem samskiptamiðils hefur breyst, hvort heldur er milli einstaklinga eða fyrirtækja. Eigi að síður gegnir póstþjónusta enn mikilvægu hlutverki, ekki síst fyrir atvinnulíf, og er í lykilhlutverki í vefverslun. Í nýlegri stefnu Evrópusambandsins um stafrænan innri markað (e. Digital Single Market eða DSM) er lögð sérstök áhersla á að virk og áreiðanleg póstþjónusta sé grundvöllur virkrar vefverslunar milli landa. Í þessu samhengi er vert að nefna nýlega reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2018/644, um pakkasendingaþjónustu yfir landamæri, sem kemur til viðbótar við pósttilskipanirnar þrjár að því er varðar pakkasendingar milli landa. Í d-lið 7. tölul. 1. mgr. 41. gr. frumvarpsins er sett lagastoð fyrir innleiðingu reglugerðarinnar svo hægt sé að innleiða hana með setningu reglugerðar þegar þar að kemur.
    Með afnámi einkaréttar fellur niður heimild í gildandi lögum um póstþjónustu, í 2. málsl. 6. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu, þar sem kveðið er á um heimild handhafa einkaréttar til að greiða niður þjónustugjöld innan alþjónustu.
    Póst- og fjarskiptastofnun hefur haft eftirlit með þessum þætti í starfsemi Íslandspósts ohf., m.a. í tengslum við eftirlit stofnunarinnar með bókhaldslegri aðgreiningu félagsins, sbr. 18. gr. gildandi laga, sbr. reglugerð nr. 313/2005, um bókhaldslega og fjárhagslega aðgreiningu í rekstri póstrekanda.
    Eftir sem áður verður aðgengi notenda að alþjónustu tryggt. Í frumvarpinu er kveðið á um inntak alþjónustu, þ.e. þeirri póstþjónustu sem notendur póstþjónustu eiga rétt á. Þá eru skilgreindar leiðir til að tryggja að þeirri þjónustu sé viðhaldið, m.a. í samræmi við eftirspurn eftir henni.
    Þegar hafa verið stigin stór skref í átt til lækkunar kostnaðar við alþjónustu, sbr. þá lágmarksdreifingu sem nú er miðað við innan hennar.
    Hvað varðar aðra aðila sem stefna að því að hasla sér völl á póstmarkaði er gert ráð fyrir því að ekki verði skylt að reka eigið dreifinet um land allt en þó er gert ráð fyrir því að aðilar þurfi að tryggja sér aðgengi að slíku neti. Yrði slíkt gert á markaðslegum forsendum eða með samkomulagi við alþjónustuveitanda á hverju svæði.
    Nýlegt vandamál í rekstri Íslandspósts ohf. tengist mikilli fjölgun erlendra sendinga til landsins, einkum frá Kína, en fyrirtækið fer með réttindi og skyldur samkvæmt alþjóðapóstsamningnum. Samkvæmt starfsþáttaryfirliti í ársreikningi Íslandspósts ohf. fyrir árið 2017 nam tap af þessum sendingum um 426 millj. kr. þegar tekið hafði verið tillit til hagnaðar af póstsendingum úr landi. Þetta tap á einkum rót sína að rekja til þeirra alþjóðlegu endastöðvarsamninga sem gerðir eru á vegum Alþjóðapóstsambandsins sem Íslandspóstur ohf. er bundinn af. Mikil fjölgun erlendra póstsendinga hefur einnig áhrif á tilfærslu kostnaðar innan kostnaðarmódels Íslandspósts ohf., einkum frá einkarétti yfir á samkeppni innan alþjónustu. Þetta þýðir að vörur sem falla undir samkeppni innan alþjónustu bera hlutfalslega hærri kostnað af rekstri dreifikerfisins en áður.
    Gildandi skylda Íslandspósts ohf. til að sinna dreifingu á erlendum póstsendingum byggist á 3. mgr. 6. gr. og 52. gr. gildandi laga um póstþjónusta. Þar er kveðið á um að alþjónustuhafi skuli afhenda innan lands póstsendingar allt að 20 kg sem berast frá útlöndum. Einnig er í 52. gr. laganna kveðið á um að Póst- og fjarskiptastofnun geti mælt svo fyrir að rekstrarleyfishafi skuli taka þátt í samstarfi sem leiðir af alþjóðlegum skuldbindingum. Kveðið er á um bæði þessi atriði í núverandi rekstrarleyfi Íslandspósts ohf.
    Ráðuneytinu er ekki kunnugt um að til þessa hafi verið litið á þetta tap af alþjóðlegum póstsendingum, sem er einnig fyrir hendi hjá póstrekendum í Evrópu í sambærilegri stöðu og Íslandspóstur ohf., sem hluta af alþjónustubyrði sem fyrirtæki eigi að fá bætt með einhverjum hætti frá ríkinu og/eða í gegnum jöfnunarsjóð alþjónustu.
    Í frumvarpinu er tekin afstaða til þessa í 3. mgr. 17. gr. þar sem sérstaklega er tekið fram að gjaldskrár fyrir alþjónustu, þar á meðal gjaldskrár vegna pakkasendinga til landsins, skuli taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði. Þetta er gert með vísan til 12. gr. pósttilskipunarinnar eins og henni var breytt með þriðju pósttilskipuninni. Þannig mun alþjónustuveitanda vera heimilt að leggja gjald á hvern pakka innan 20 kg sem kemur til landsins. Neytandinn mun þá greiða gjaldið en ekki íslenska ríkið.

3. Meginefni frumvarpsins.
3.1. Yfirlit.
    Svo sem fram hefur komið er í frumvarpi þessu kveðið á um afnám einkaréttar ríkisins á póstmarkaði og opnun markaðar. Þá er með frumvarpinu tryggð alþjónusta í pósti, hvernig hún skuli skilgreind og veitt og hvernig skuli fara með kostnað við alþjónustu ef hún er ekki leyst af hendi á markaðslegum forsendum.
    Í fyrsta kafla frumvarpsins er fjallað um markmið, gildissvið og yfirstjórn og settar fram orðskýringar. Þar kemur fram í 1. gr. hvert skuli stefnt með frumvarpinu. Ákvæðið er örlítið breytt frá gildandi rétti. Lagt er til að ákvæði sem undanþiggur póstsendingar innan fyrirtækis og félaga verði í ákvæði um gildissvið en ekki í sérákvæði eins og í gildandi lögum.
    Rétt er að geta þess að með frumvarpinu er lagt til að breyta hugtakanotkun og einfalda umsýslu, einkum að því er almenna heimild til veitingar póstþjónustu varðar. Lagt er til að notkun hugtaksins rekstrarleyfi verði hætt og gert ráð fyrir því að allir sem hugsa sér að starfa á þeim markaði sem fellur undir póstþjónustu eins og hann er skilgreindur á hverjum tíma séu skráningarskyldir og öðlist að uppfylltum lagaskilyrðum almenna heimild til veitingar póstþjónustu.
    Í 2. kafla frumvarpsins er kveðið á um almenna heimild til veitingar póstþjónustu, þ.m.t. alþjónustu. Lagt er til að veiting póstþjónustu í atvinnuskyni verði ekki leyfisskyld heldur háð skráningu til eftirlitsstjórnvaldsins, Póst- og fjarskiptastofnunar. Skilyrði sem þörf er á að uppfylla eru almenns eðlis og eiga almennt ekki að takmarka aðgengi að markaðinum. Eftirlitsstjórnvaldið getur beitt dagsektum ef póstrekandi skráir sig ekki og vísað er til 12. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun um það efni. Þá er gert ráð fyrir að eftirlitsstjórnvald geti stöðvað starfsemi ef skilyrði laganna er ekki uppfyllt, sbr. 39. gr. frumvarpsins.
    Í 3. kafla frumvarpsins er kveðið á um alþjónustu. Frumvarpið byggist á því að ef alþjónusta verði ekki veitt á markaðslegum forsendum, eins og í Svíþjóð og Þýskalandi, komi til kasta ríkisvaldsins að tryggja hana. Það felst í því að einn eða fleiri aðilar eru fengnir til að sinna alþjónustu gegn því að kostnaður vegna byrðar sem í því felst verði bættur úr ríkissjóði. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hægt sé að gera samning við tiltekinn póstrekanda eða póstrekendur, útnefna póstrekanda eða bjóða þjónustuna út. Síðasti kosturinn mun ekki vera raunhæfur við gildistöku laganna í ljósi áralangs einkaréttar ríkisins. Gert er ráð fyrir að ráðherra geti látið gera markaðskönnun nái frumvarpið fram að ganga. Í kaflanum er lagt til að meginreglan verði sú að miðað verði við að dreifing póstsendinga innan alþjónustu verði tveir dagar í viku. Mikill meiri hluti bréfasendinga, eða yfir 70% bréfasendinga innan lands, er nú póstlagður sem B-póstur sem felur í sér að hann skuli borinn út innan þriggja virkra daga eftir póstlagningu. Lítil eftirspurn eftir A-pósti gefur vísbendingu um að þörf fyrir fimm daga þjónustu hafi sífellt farið minnkandi.
    Dreifingarskylda innan alþjónustu sem fjallað er um í 9. gr. er sambærileg við þá skyldu sem nú hvílir á Íslandspósti ohf. Breytingin tók gildi 1. febrúar 2018, sjá nánar ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnun nr. 2/2018, þar sem fjallað er um forsendur sem Íslandspóstur ohf. tiltók fyrir breytingunum. Ekki er verið að leggja til minnkandi þjónustuskyldu miðað við það sem nú tíðkast. Í 5. mgr. 9. gr. er síðan veitt heimild til frekari fækkunar dreifingardaga ef aðstæður á markaði gera það nauðsynlegt, t.d. niður í einn dag í viku.
    Í 4. kafla er kveðið á um nauðsynlega aðstöðu, frímerki og póstnúmeraskrá. Í 13. gr. er kveðið á um kvaðir á póstrekendur sem skilgreindir hafa verið sem alþjónustuveitendur um veitingu aðgangs að dreifikerfi sínu og nauðsynlegri aðstöðu. Þetta er bráðnauðsynlegt ákvæði til að tryggja samkeppni þar sem einn aðili hefur verið nánast einráður á markaðinum í langan tíma.
    Í 5. kafla er kveðið á um viðskiptaskilmála, gjaldskrár og bókhald alþjónustuveitanda og vísast í athugasemdir um einstaka greinar þess kafla.
    Í 6. kafla er gerð grein fyrir kröfum sem lagðar eru til í frumvarpinu um þjónustu og gæði póstþjónustu. Kaflinn gildir bæði um póstrekendur með almenna heimild og þá sem sinna alþjónustu. Í kaflanum er kveðið á um gæðakröfur, staðla, öryggi póstsendinga, póstleynd, undanþágur frá póstleynd, skyldu flutningsaðila til að flytja póstsendingu, móttöku og afhendingu póstsendinga, óumbeðnar fjöldasendingar, sem er nýmæli, óskilasendingar, óheimilar póstsendingar og umbúðir póstsendinga.
    Í 7. kafla er að finna ákvæði sem lúta að meðferð kvartana og skaðabætur. Það nýmæli er að finna í kaflanum að fellt er niður ákvæði gildandi laga þess efnis að Póst- og fjarskiptastofnun geti í sérstökum tilvikum mælt fyrir um að póstrekandi skuli þrátt fyrir ábyrgðartakmarkanir greiða skaðabætur fyrir póstsendingar ef tjónið stafar af ásetningi eða stórfelldu gáleysi póstrekanda eða starfsmanna hans. Þetta er gert að danskri fyrirmynd. Eðlilegt þykir að menn leiti með ágreiningsefni sem þessi fyrir dómstóla.
    Í 8. kafla frumvarpsins er kveðið á um póstþjónustu við önnur lönd, heimild til rekstrarstöðvunar, viðurlög o.fl. Rétt er að benda á að gildistaka frumvarpsins, verði það að lögum, er 1. janúar 2020.

3.2. Samanburður við erlend ríki.
    Í flestum aðildarríkjum hefur þróunin orðið sú að þrátt fyrir opnun markaða eru fyrrverandi einkaleyfishafar enn með markaðsráðandi stöðu á póstmarkaði. Þó hefur myndast samkeppni í þéttbýli í sumum löndum, t.d. í Svíþjóð. Víðast hvar hefur alþjónusta verið tryggð með því að útnefna alþjónustuveitanda sem er þá iðulega fyrrverandi einkaleyfishafi viðkomandi ríkis en sum ríki gera ráð fyrir að tryggja aðgang notenda að alþjónustu með útboði.
    Alþjónusta stendur að fullu undir sér í nokkrum löndum Evrópu á markaðslegum forsendum. Má þar nefna Svíþjóð, Þýskaland og Holland. Í öðrum aðildarríkjum þurfa yfirvöld að jafnaði að styrkja rekstur alþjónustu.
    Í Danmörku var einkaréttur afnuminn í byrjun árs 2011. Þar í landi er Post Danmark útnefndur alþjónustuveitandi. Var jöfnunarsjóður alþjónustu settur á fót til þess að standa straum af kostnaði við alþjónustu. Í sjóðinn greiða þeir póstrekendur sem ekki eru útnefndir alþjónustuveitendur en veita samt þjónustu sem fellur innan alþjónustuskyldna. Til þess að fá framlag úr sjóðnum þarf alþjónustuveitandi að leggja fram bókhaldsgögn sem sýna fram á nettókostnað hans af veitingu alþjónustu.
    Í Finnlandi er fyrirtækið Itella Posti Oy tilnefnt sem alþjónustuveitandi. Sýni alþjónustuveitandi þar í landi fram á það á sannanlegan hátt að hann verði fyrir kostnaði vegna alþjónustukvaða getur hann sótt um endurgreiðslu á þeim kostnaði úr ríkissjóði. Gert er ráð fyrir því í lögum að dreifa megi þeim kostnaði á póstrekendur í landinu.
    Í Svíþjóð var einkaréttur til póstdreifingar afnuminn 1993. Þar hefur myndast nokkur samkeppni á póstmarkaði. Posten AB, sem áður var handhafi einkaréttar, er tilnefndur sem veitandi alþjónustu á landsvísu. Þar í landi er þó enginn jöfnunarsjóður alþjónustu sökum þess að yfirvöld meta slíkan sjóð óþarfan og ekki hafa verið veittir ríkisstyrkir til Posten AB síðan 2007. Í Svíþjóð er heimilt að bjóða út alþjónustu en ekki hefur reynst þörf á því heldur hefur verið gerður samningur við gamla einkaleyfishafann um að tryggja notendum aðgang að alþjónustu. Þess skal getið að ekki hefur verið talið felast í því fjárhagsleg ósanngjörn byrði enda líta sænsk stjórnvöld svo á að alþjónustuveitandi njóti samkeppnislegs hagræðis vegna stöðu sinnar sem alþjónustuveitandi.
    Ný póstlög tóku gildi 1. janúar 2016 í Noregi. Í Noregi hefur norski pósturinn verið útnefndur sem alþjónustuveitandi. Alþjónustuveitandi á rétt á fjárstuðningi vegna þess hluta alþjónustu sem telst ósanngjörn byrði á fyrirtækinu.
    Í Þýskalandi hefur ekki reynst þörf á að útnefna eða bjóða út póstþjónustu og hefur þar tekist að tryggja alþjónustu á markaðslegum forsendum. Í þýskum póstlögum er kveðið á um að heimilt sé að bjóða þjónustuna út að undangenginni markaðskönnun. Gert er ráð fyrir þeim möguleika að settur sé á laggirnar alþjónustusjóður en heimildir laga um slíkan sjóð hafa ekki verið nýttar enn sem komið er.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið felur í sér upptöku á efnisákvæðum pósttilskipunar 2008/6/EB, sbr. tilskipun 97/67/EB, líkt og fram hefur komið. Við upptöku efnisákvæðanna hefur verið tekið tillit til séríslenskra aðstæðna, t.d. að því er varðar þörf á fjölda dreifingardaga innan alþjónustu, sem frumvarpinu er m.a. ætlað að tryggja. Rétt þykir að taka upp efnisákvæði tilskipunar 2008/6/EB í íslenskan rétt þrátt fyrir að tilskipunin hafi enn sem komið er ekki verið tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Öll önnur ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins hafa þegar afnumið einkarétt á póstmarkaði.
    Þá er gert ráð fyrir lagastoð fyrir innleiðingu reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2018/644, um pakkasendingar yfir landamæri, í 38. gr. Reglugerðin kemur til viðbótar reglum sem Evrópusambandið hefur sett um póstþjónustu, þ.e. tilskipun 97/67/EC (fyrsta pósttilskipunin), 2004/4/EC (önnur pósttilskipunin) og tilskipun 2008/6 (þriðja pósttilskipunin). Reglugerðinni er einkum ætlað að ýta undir traust neytenda á því að eiga viðskipti á netinu milli landa með aukinni söfnun og miðlun upplýsinga um pakkasendingaþjónustu.
    Frumvarpið þótti ekki kalla á sérstaka skoðun á samræmi við stjórnarskrá.

5. Samráð.
    Drög að frumvarpinu voru lögð fram til umsagnar í samráðsgátt á Ísland.is 7.–21. júní 2018. Tvær umsagnir bárust í samráðsgáttina og tvær umsagnir beint til ráðuneytisins. Umsagnaraðilar voru Samband íslenskra sveitarfélaga, Bændasamtök Íslands, Umhverfisstofnun og Íslandspóstur ohf. Rétt er að taka sérstaklega fram hér að verulegar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu í kjölfar samráðs.
    Samband íslenskra sveitarfélaga benti m.a. á að í frumvarpið vantaði skýra umfjöllun um kæruleiðir, óljóst væri hvaða leiðir ætti að fara ef tryggja þyrfti alþjónustu í dreifbýli og litlar skorður væru á skerðingu póstþjónustu á dreifbýlum svæðum. Bent var á að hjá Norðmönnum sé aðeins vikið frá fimm daga reglunni við sérstakar aðstæður eða sérstakar landfræðilegar aðstæður. Þá hafi Byggðarstofnun ekki greint áhrif skerðingar á póstþjónustu á skilyrði til búsetu og atvinnurekstur í dreifbýli. Loks skorti ákvæði um heimild til að skylda flutningafyrirtæki til að veita hluta af þjónustu sem alþjónustuaðili veitir gegn greiðslu í þeim tilgangi að tryggja betri þjónustu við landsbyggðina.
    Ráðuneytið bendir á að í 10. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003, er að finna fyrirmæli um rétt neytenda til að kvarta til stofnunarinnar. Þá er í 13. gr. sömu laga að finna heimild til að kæra ákvarðanir stofnunarinnar til úrskurðarnefndar. Í 11. gr. frumvarpsins og í greinargerð er fjallað um leiðir til að tryggja alþjónustu í dreifbýli. Varðandi skerðingu á póstþjónustu eru þéttbýli og dreifbýli sett undir sama hatt samkvæmt frumvarpinu. Íbúar í þéttbýli munu hins vegar hafa fleiri möguleika til að nálgast ýmiss konar þjónustu. Ráðuneytið bendir á að á Íslandi er aðgangur að háhraðatengingum mjög góður á landsvísu og er það til þess fallið að jafna aðstöðu landsmanna til að nýta sér þjónustu á netinu en hún gerir bréfasendingar í mörgum tilfellum óþarfar. Hvað varðar samanburð við norsku lögin bendir ráðuneytið á að svigrúm norsku laganna er í raun ekki minna en frumvarpsins. Ábendingin er hins vegar rétt, þ.e. að aðeins vikið frá fimm daga reglunni í Noregi við sérstakar aðstæður eða sérstakar landfræðilegar aðstæður. Athugasemdin varðandi Byggðastofnun er ekki tímabær þar sem lagt er til óbreytt fyrirkomulag miðað við það sem tíðkast nú. Ráðuneytið bendir á að í 26. gr. er hverjum þeim sem heldur uppi reglubundnum flutningum innan lands eða til útlanda skylt, sé þess óskað, að flytja póstsendingar innan alþjónustu milli staða enda komi eðlileg greiðsla fyrir. Ráðuneytið mat það svo að ekki væri nauðsyn á að breyta ákvæðum frumvarpsins vegna athugasemda Samband íslenskra sveitarfélaga.
    Bændasamtök Íslands gerðu þær athugasemdir að tryggja þyrfti jafnræði milli dreifbýlis og þéttbýlis þannig að dreifbýlið yrði ekki undir. Þannig var lagt til að lágmarksfjöldi útburðardaga væri aldrei færri en tveir í viku og að varanleg undanþága frá tíðni dreifingar vegna landfræðilegra aðstæðna yrði ekki heimil.
    Ráðuneytið telur að ekki sé rétt að breyta frumvarpinu vegna þessara athugasemda Bændasamtaka Íslands en líklegt er að umfjöllun um þessi efni komi til kasta Alþingis.
    Umhverfisstofnun fagnaði ákvæði frumvarpsins þar sem lögfestur væri réttur neytanda til að afþakka óumbeðnar fjöldapóstsendingar (nú 28. gr.). Þá taldi stofnunin þörf á að rýmka undanþágur og hefur ráðuneytið orðið við þeirri athugasemd með því að bæta við texta 2. mgr. 28. gr. eftirfarandi setningu: „Sama gildir um kynningarefni vegna kosninga á vegum stjórnvalda, tilkynningar sveitarfélaga til íbúa sinna og tilkynningar stjórnvalda sem varða almannahag og almannaöryggi.“
    Íslandspóstur ohf. gerði athugasemdir við frumvarpið. Þannig taldi fyrirtækið betra að alþjónustuveitanda yrði tryggt fjármagn fyrir fram eða a.m.k. samhliða veittri þjónustu og benti á að erfitt yrði fyrir alþjónustuveitanda að sækja bætur til ríkisins eftir á. Þá var aðferðafræðin við að reikna út fjármögnun alþjónustu sömuleiðis gagnrýnd. Loks voru gerðar athugasemdir við einstaka greinar frumvarpsins.
    Ráðuneytið bendir á að samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að hægt verði að framkvæma markaðskönnun þegar fram líða stundir en með henni verða metin:
     a.      þörf á póstþjónustu,
     b.      tegund þjónustu,
     c.      hvar nauðsynlegt er að grípa inn í.
    Fyrst eftir að lögin taka gildi kann að vera ótímabært að framkvæma markaðskönnun og því nauðsynlegt að sjá hvernig næstu missiri og ár þróast. Ríkið hefur litlar forsendur til að ákveða með viðunandi nákvæmni endurgjald fyrir fram og því þarf að meta það eftir á miðað við aðferðir sem viðurkenndar eru og notaðar eru annars staðar í Evrópu. Erfitt er að sjá að notast eigi við aðrar aðferðir við að reikna út mögulega alþjónustubyrði en þær sem tilskipun Evrópusambandsins tiltekur og stuðst hefur verið við annars staðar í Evrópu. Copenhagen Economics (CE) notast við sömu aðferðafræði. Þá bendir Íslandspóstur ohf. ekki á neinar aðrar aðferðir. Rétt að benda á að ákvæði frumvarpsins um útreikning á kostnaði sem fellur til vegna alþjónustubyrði uppfylla leiðbeinandi reglur OECD, þ.e. eru fyrir fram skilgreindar og gagnsæjar. Verið er að setja sömu reglur og gilda erlendis. Enn fremur vill ráðuneytið benda á að nú sé horfið af braut einkaréttar og því nauðsynlegt að eftirlit sé virkt. Það er mat ráðuneytisins að frumvarpið dragi ekki úr frelsi og samkeppni á póstmarkaði.
    Íslandspóstur ohf. gerði jafnframt athugasemdir við fjölmargar greinar frumvarpsins. Í kjölfarið var farið ítarlega yfir frumvarpið og gerðar voru umtalsverðar breytingar á skipan og efni ákvæða. Of langt mál er að gera grein fyrir því hér. Ráðuneyti gerir hins vegar ráð fyrir að athugasemdir Íslandspósts ohf. og viðbrögð ráðuneytisins verði aðgengileg þingmönnum og öðrum sem þess óska í sérstöku skjali.

6. Mat á áhrifum.
    Skýrslur og greiningargögn sem hér eru einkum lögð til grundvallar við nálgun á mati á kostnaði ríkisins við innleiðingu frumvarpsins eru eftirfarandi (aldur undirliggjandi gagna/ birtingarár):
          Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands (HHÍ) (2015/2017).
          Kostnaðarmat Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) (2013/2015).
          Greinargerð Íslandspósts (ÍSP) (2013/2015).
          Skýrsla sem unnin var af Copenhagen Economics (CE) fyrir Íslandspóst (ÍSP) (2016/2018).
    Í töflu 1 má sjá samanburð Póst- og fjarskiptastofnunar frá apríl 2018 á framangreindum gögnum (m.kr.).

Tafla 1.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Samræmis gætir í niðurstöðum milli skýrslna Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, Póst- og fjarskiptastofnunar og Copenhagen Economics/Íslandspósts. Beinn nettókostnaður var metinn á bilinu 235–250 m.kr. miðað við gildandi fyrirkomulag útburðar á öllu landinu, þ.e. tvo daga í viku. Þessum nettókostnaði (tapi) hefur á síðustu árum verið mætt með gjaldskrárhækkunum Íslandspósts innan einkaréttar. Með afnámi einkaréttar frá og með 1. janúar 2020 stendur ekki lengur til boða að „bæta“ tap vegna alþjónustu með þessum hætti.
    Hröð þróun hefur átt sér stað á póstmarkaði síðustu ár og breytingar eru ófyrirséðar. Þróuninni hefur m.a. verið mætt með fækkun á dreifingardögum í þéttbýli og breyttu þjónustustigi, þ.e. D + 3, eða annan hvern dag frá 1. febrúar 2018. Sambærileg breyting var gerð í dreifbýli 2015.
    Í nóvember 2016 óskaði ráðuneytið eftir að Hagfræðistofnun Háskólans mæti kostnað Íslandspósts ohf. við alþjónustu í póstdreifingu. Í skýrslu stofnunarinnar var metinn kostnaður við þrjár sviðsmyndir.
    Samkvæmt skýrslu sem Copenhagen Economics gerði fyrir Íslandspóst og kom út í upphafi árs 2018 var niðurstaða kostnaðarmats við alþjónustubyrði Íslandspóst nánast sú sama og niðurstaða Hagfræðistofnunar hvað útburðarþáttinn varðar.
    Magn bréfpósts innan einkaréttar hefur minnkað nokkuð hratt síðustu árin. Fyrr á þessu ári var útlit fyrir frekari fækkun á næstu árum eða a.m.k. 7-8% árlega magnminnkun samkvæmt upplýsingum Íslandspósts ohf. Auk þess gerir Íslandspóstur ohf. ráð fyrir allt að 25% minni markaðshlutdeild í bréfum strax við afnám einkaréttar en áhrif þess koma þó ekki fram fyrr en frá og með 2020 verði frumvarpið að lögum. Óvissa ríkir um þessa þróun alla.
    Rétt er að nýta þá miklu innviðauppbyggingu sem lýst er í kafla II hér að framan til að ná fram samfélagslegri hagkvæmni með aukinni nýtingu fjarskipta í tengslum við rafræna stjórnsýslu og breytt samskiptamynstur almennt. Fækkun bréfa innan alþjónustu, fyrir tilstuðlan stefnu stjórnvalda eða vegna breyttrar tækni og samskipta, er eðlileg þróun í nútímasamfélagi. Viðfangsefnið í því samhengi er að skilgreina lágmarkspóstþjónustu sem ríkið vill tryggja á hverjum tíma og mögulegan kostnað sem þjónustan hefur í för með sér fyrir ríkissjóð.
    Stjórnvöld hafa sett sér það markmið að færa samskipti stofnana við einstaklinga og lögaðila sem mest yfir á stafrænt form. Gert er ráð fyrir að það spari hinu opinbera um 500 m.kr. árlega og þar af sé sendingarkostnaður um 200 m.kr. Það veldur samsvarandi tekjutapi fyrir póstþjónustufyrirtæki. Þá er mikilvægt að hafa í huga að ekki þykir skynsamlegt að setja alþjónustustigið svo hátt að hamli samkeppni og nýsköpun.
    Við gerð mats á áhrifum er gert ráð fyrir að frumvarpið verði samþykkt á haustþingi 2018 en að gildistaka þeirra verði 1. janúar 2020. Í millitíðinni verði breytingarnar undirbúnar og yfirstjórn Íslandspósts ohf. gefið færi á að laga rekstur félagsins að þeim.
    Afnám einkaréttar í pósti hefur lítil sem engin áhrif á umfang bréfpósts annars vegar og pakkasendinga hins vegar. Líkleg fækkun bréfa innan lands og fjölgun pakka erlendis frá á sér þegar stað og mun sú þróun líklega halda áfram að óbreyttu, burtséð frá afnámi einkaréttarins. Sama þróun hefur átt sér stað annars staðar í Evrópu þar sem einkarétturinn hefur verið afnuminn fyrir allnokkru. Þar eiga póstþjónustufyrirtæki flest í rekstrarerfiðleikum og vega lág endastöðvargjöld vegna pakkasendinga, einkum frá Asíu, þar þungt. Þessi endastöðvargjöld eru ákveðin af Alþjóðapóstsambandinu og þar af leiðandi háð alþjóðasamningum.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að lágmarksþjónusta í pósti, alþjónusta, verði tryggð annaðhvort með samningum við póstrekanda eða að Póst- og fjarskiptastofnun verði falið að útnefna póstrekanda sem alþjónustuveitanda. Útboðsleiðin er ekki talin raunhæfur kostur við gildistöku laganna þótt forsendur útboðsleiðar kunni að skapast síðar. Gert er ráð fyrir að samningaleiðin verði reynd áður en gripið verður til útnefningar.
    Gildandi rekstrarleyfi Íslandspósts rennur að óbreyttu út í árslok 2018. Tryggja verður samfellu í póstþjónustu fram að fyrirhugaðri gilditöku nýju laganna 1. janúar 2020. Fyrirséð er að framlengja þurfi rekstrarleyfi Íslandspósts til ársloka 2019 hið minnsta.
    Rétt er að benda á að kostnaður sem hlýst af óhagstæðum endastöðvargjöldum vegna pakkasendinga frá útlöndum er undanskilinn hér í mati á áhrifum. Þessi kostnaður er, sem fyrr segir, að mestu til kominn vegna alþjóðasamninga og tengist hvorki afnámi einkaréttar í pósti né liggur að óbreyttu til grundvallar útreikningum á ósanngjarnri byrði við alþjónustu. Fyrir liggur hins vegar að tap Íslandspósts vegna þjónustunnar er verulegt og fer að óbreyttu vaxandi. Ekki liggur fyrir hvort stjórnvöldum í Evrópu ber eða hyggist bæta póstfyrirtækjum tap af slíkum samningum og þá í hve miklum mæli. Spyrja má hvort eðlilegt sé að ríkissjóður greiði niður kostnað við verslun á netinu.
    Í frumvarpinu er opnað eins mikið og talið er ásættanlegt á sveigjanleika Íslandspósts ohf. til að breyta þjónustufyrirkomulagi til kostnaðarlækkunar og eða tekjuauka, beint eða á grundvelli reglugerðarheimilda. Þessi viðleitni er rauður þráður í frumvarpinu, þ.e. að koma ekki í veg fyrir nauðsynlegan sveigjanleika fyrir stjórnvöld og markaðsaðila til að bregðast við markaðsþróun og öðrum áskorunum sem ógnað geta lágmarkspóstþjónustu á hverjum tíma.
    Gera verður ráð fyrir því að samningsleið og útnefningarleið leiði til sambærilegrar fjárhagslegrar niðurstöðu fyrir stjórnvöld til lengri tíma litið. Munurinn felst einkum í því að í samningsleið geta útreikningar á ósanngjarnri byrði mögulega byggst á spá um slíkt ár fram í tímann, að gefnum forsendum. Útnefningarleiðin byggist hins vegar á niðurstöðu yfirferðar Póst- og fjarskiptastofnunar á kostnaði fyrir liðið eða næstliðið ár. Kostur samningsleiðar er því einkum sá að ríkið hefur ákveðinn umhugsunartíma ár hvert til að ákveða að viðhalda þjónustustigi sem leiðir mögulega til tiltekinnar ósanngjarnrar byrði eða kjósa þess í stað að lækka þjónustustigið sem leiðir til minni kostnaðar fyrir stjórnvöld, ef svo ber undir. Að sama skapi hefur Íslandspóstur tíma til að bregðast við breyttri eftirspurn stjórnvalda eftir þjónustu með viðeigandi tímanlegum hagræðingaraðgerðum.
    Ef samningaleiðin væri farin tekur framlag ríkisins mögulega mið af spá um alþjónustubyrði Íslandspósts fram í tímann og mun spá ætíð byggjast á áætlun. Útreikninga sem þessa þarf þá væntanlega að yfirfara og leiðrétta eftir á með hliðsjón af rauntölum þegar að þær liggja fyrir. Þannig yfirferð eða leiðrétting getur þá mögulega leitt til endurgreiðslu ofgreidds ríkisframlags eða viðbótargreiðslu frá ríkinu vegna vanáætlunar taki ákvæði samnings ekki á því. Mat á spá fram í tímann og árleg endurskoðun fyrri spár með hliðsjón af rauntölum kallar á verulegt umstang og veldur í raun óvissu um kostnað ríkisins. Líklegt er að samningaleiðin auki fyrirsjáanleika og bæti útgjaldastýringu beggja aðila umfram útnefningarleið.
    Gert er ráð fyrir að stuðst verði við sömu kostnaðarmatsaðferðir á ósanngjarnri byrði hvort sem farin er samningsleið eða útnefningarleið.
    Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að stjórnvöld hafi með reglugerðarheimildum mikið um það að segja á hverjum tíma hver lágmarksþjónusta innan alþjónustu skuli vera. Þær heimildir ná einnig til annarra þátta sem ekki eru endilega hluti af alþjónustu. Sveigjanleikinn kemur til af fyrirsjáanlegri þörf fyrir aðlögun á þjónustustigi með hliðsjón af kostnaði ríkisins. Hluti óvissunnar felst í því hversu mikil samkeppni verður á póstmarkaði og hvernig nýsköpun kemur til móts við fyrirliggjandi og nýjar þarfir neytenda á póstmarkaði. Því er mikilvægt að festa ekki í lög ákvæði sem æskilegt væri að geta breytt með skömmum fyrirvara, stuðli þau að framþróun og/eða hagræðingu á póstmarkaði.
    Umfang eftirlits, einkum fyrstu árin eftir afnám einkaréttar, mun tæplega verða minna en áður. Ljóst er að reyna mun verulega á Póst- og fjarskiptastofnun við að skera úr ýmiss konar deilumálum milli markaðsaðila og skapa forsendur samkeppni fyrir nýja aðila. Því er nauðsynlegt að leggja til hækkun rekstrargjalds sem kveðið er á um í 43. gr. til að standa undir fyrirséðum auknum kostnaði Póst- og fjarskiptastofnunar við framkvæmd nýrra póstlaga.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er áætlað að kostnaður sem hlýst við innleiðingu verði um 250 m.kr. frá og með árinu 2020. Gerður er fyrirvari vegna óvissu um þróun póstþjónustu og getu Íslandspósts ohf. til aðlögunar, þ.m.t. hagræðingar. Gert er ráð fyrir hækkun á rekstrargjaldi um 5,5 m.kr. ár hvert. Áætluð fjárhagsáhrif fyrir ríkissjóð á tíma fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar 2020–2023 er um 1.022 m.kr. Gert er ráð fyrir að lögin verði samþykkt á haustþingi 2018 en að gildistaka þeirra verði 1. janúar 2020.
    Ljóst er að útgjaldaukning rúmast ekki innan núgildandi útgjaldaramma málaflokks í fjármálaáætlun til fimm ára. Ekki er raunhæft að ætla að áætlaðri útgjaldaukningu verði fundinn staður með tilfærslu fjármuna eða með samdrætti annarra útgjalda innan málaflokksins. Með því að fresta gildistöku laganna er gert ráð fyrir að í millitíðinni verði tíminn notaður til að undirbúa breytingar varðandi ríkisfjármálin, sem og að gefa yfirstjórn Íslandspósts færi á að laga rekstur félagsins að væntanlegum breytingum.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Greinin er efnislega sambærileg 2. gr. gildandi laga. Í greininni er vísað til þess notendur póstþjónustu hér landi skuli eiga aðgang að ákveðnum þáttum póstþjónustu, þ.e. svonefndri alþjónustu eins og hún kann að vera skilgreind á hverjum tíma, svo sem nánar greinir í 9. gr. (sjá einnig 10. gr.). Markmið laganna er að tryggja hagkvæma, virka og áreiðanlega póstþjónustu hér á landi, m.a. með því að efla samkeppni á markaði fyrir póstþjónustu. Með frumvarpinu er lagt til að innleidd verði í íslenskan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2008/6/EB (þriðja pósttilskipunin) sem rennir m.a. frekari stoðum undir að unnt verði að veita alþjónustu á sem hagkvæmastan máta og stuðla um leið að því að póstþjónusta á Íslandi verði sjálfbær.

Um 2. gr.

    Hér er almennt kveðið á um gildissvið laganna og er 1. mgr. að meginefni í samræmi við 1. gr. gildandi laga um póstþjónustu. Lagt er til að kveðið verði á um að lögin skuli gilda um póstþjónustu, eins og það hugtak er skilgreint í frumvarpinu, þ.e. þjónusta sem nær til móttöku og söfnunar, flokkunar, flutnings og dreifingar á póstsendingum gegn greiðslu (sbr. 21. tölul. 4. gr.). Með tengdri starfsemi er átt við rekstur sem gerir kleift að veita póstþjónustu, t.d. rekstur póstmiðstöðva og afgreiðslustaða, útgáfu frímerkja o.s.frv.
    Ákvæði 2. mgr. er samhljóða 3. gr. gildandi laga um póstþjónustu. Því er gert ráð fyrir að póstsendingar innan veggja tiltekins lögaðila, þ.m.t. milli ólíkra starfsstöðva, falli ekki undir ákvæði laganna. Undanþágan frá gildissviði laganna gildir ekki ef öðrum aðila er falið að annast póstþjónustuna.


Um 3. gr.

    Greinin kveður á um að ráðherra fari með yfirstjórn póstmála. Í 2. mgr. segir enn fremur að eftirlit með framkvæmd laganna skuli vera í höndum Póst- og fjarskiptastofnunar. Um Póst- og fjarskiptastofnun gilda ákvæði laga nr. 69/2003, með síðari breytingum.

Um 4. gr.

    Að uppistöðu er hér um sömu orðskýringar að ræða og eru í gildandi lögum en allnokkrar nýjar bætast við. Einkum er horft til skilgreininga tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 97/67/EB (pósttilskipunin) eins og henni hefur verið breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/39/EB (önnur pósttilskipunin) og 2008/6/EB (þriðja pósttilskipunin). Lagt er til að hugtakanotkun verði einfölduð, t.d. felst í frumvarpinu tillaga um að hverfa frá notkun hugtakanna rekstrarleyfi og rekstrarleyfishafi. Gert er ráð fyrir skráningarskyldu póstrekenda hjá Póst- og fjarskiptastofnun, sbr. 5. og 8. gr. Annars vegar geti póstrekendur veitt póstþjónustu samkvæmt almennri heimild. Hins vegar er gert ráð fyrir samningi við eða útnefningu á alþjónustuveitanda eða - veitendum sem falið verður af stjórnvöldum að sinna alþjónustu, eins og hún er skilgreind á hverjum tíma, í samræmi við ákvæði laganna. Þriðji valkostur er útboð á alþjónustu.
    Með frumvarpinu er lagt til að hugtakið afgreiðslustaður (1. tölul.) verði útvíkkað frá því sem er í gildandi lögum og nái framvegis yfir hvers konar aðstöðu þar sem mögulegt er að veita póstþjónustu. Þetta þýðir að auk hefðbundinna afgreiðslustaða verða nú tekin af öll tvímæli um það að póstbíll getur í skilningi laganna verið afgreiðslustaður. Jafnframt er lagt til að sjálfvirkir afgreiðslukassar verði felldir undir hugtakið.
     Alþjónusta (2. tölul.) er sú lágmarkspóstþjónusta sem notendum póstþjónustu skal standa til boða á jafnræðisgrundvelli, svo sem nánar greinir í 9.–10. gr. Gengið er út frá að sambærileg þjónusta standi notendum sem búa við sambærilegar aðstæður til boða, líkt og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/67/EB, með síðari breytingum, gerir ráð fyrir, og að hún taki á hverjum tíma m.a. mið af þörfum notenda. Með frumvarpinu er lagt til að gerður verði greinarmunur á hugtökunum bréfakassi (8. tölul., kassi eða lúga eða önnur aðstaða sem móttakendur setja upp til viðtöku á póstsendingum) og póstkassi (17. tölul., póstkassi sem ætlaður er fyrir söfnun póstsendinga).
    Lagt er til að í 7. tölul. verði ný skilgreining á hugtakinu bréfakassasamstæða. Enn fremur er lagt til að í 9. tölul. verði hugtakið dreifikerfi skilgreint, þ.e. þættir sem þurfa að vera til staðar til að hægt sé að dreifa póstsendingum.
    Með frumvarpinu er lagt til að hugtökin fjölpóstur og fríblöð verði nú skilgreind í lögum um póstþjónustu (11.–12. tölul.). Ástæða þess er sú að í frumvarpinu er gert ráð fyrir nýmæli í lögum er felur í sér að viðtakendur hafi nú skýra heimild til að hafna móttöku fjölpósts og fríblaða.
    Lagt er til að hugtakið notandi verði skilgreint sérstaklega (16. tölul.). Réttindi og skyldur samkvæmt lögunum geta eftir atvikum tekið til sendanda póstsendinga og/eða viðtakanda, sbr. þær skyldur sem viðtakendur hafa til að setja upp bréfalúgu og/eða bréfakassa þar sem póstrekandi getur afhent póstsendingar.
    Lagt er til að hugtakið póstnúmer verði skilgreint í nýjum lögum um póstþjónustu (18. tölul.). Þ.e. númer eða kerfi númera sem fyrst og fremst eru notuð til landfræðilegrar afmörkunar, til að staðsetja viðtakendur póstsendinga og auðvelda dreifingu.
    Ekki eru lagðar til efnislegar breytingar á skilgreiningu hugtaksins póstrekandi í 19. tölul. frá því sem er í gildandi lögum. Hér er um safnheiti að ræða og áréttast að frumvarpið gerir ráð fyrir að allir sem veita póstþjónustu þurfi að hafa svokallaða almenna heimild, með vísan til 6. gr.
    Breyting er lögð til á skilgreiningu hugtaksins póstsending í 20. tölul. frá því sem er í gildandi lögum. Í nýjum lögum um póstþjónustu verði tilgreind þyngdarviðmið, þ.e. að bréf upp að 2 kg og pakkar upp að 20 kg teljist til póstsendinga.
    Lagt er til að tvö ný hugtök verði skilgreind. Annars vegar rekjanleg sending (22. tölul.): Skráð sending sem gerir sendanda eða viðtakanda kleift að fylgjast með sendingunni frá póstsendingu og til afhendingar til móttakanda. Hins vegar skráð sending (23. tölul.): Póstsending með einkvæmu auðkenni, án rekjanleika. Í ákvæðinu er jafnframt gert ráð fyrir skilgreiningu eftirfarandi hugtaka, með engum eða lítils háttar breytingum frá því sem er í gildandi lögum og ekki þarfnast nánari skýringa: Alþjónustuveitandi, ábyrgðarsending, bréf, blindrasending, endastöðvargjald, frímerki, gjaldmerki, móttaka, póstþjónusta, tryggð sending og útburður.

Um 5. gr.

    Lagt er til að kveðið verði á um að rekstur póstþjónustu verði skráningarskyldur hjá Póst- og fjarskiptastofnun sem halda skal og uppfæra reglubundið skrá yfir alla póstrekendur sem veita þjónustu hér á landi. Rétt þykir að gera ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun útfæri fyrirkomulag skráningar í reglum.
    Lagt er til að Póst- og fjarskiptastofnun geti hafnað skráningu og/eða afskráð aðila af lista yfir póstrekendur og stöðvað rekstur, eftir atvikum með aðstoð lögreglu. Þetta á við ef aðili, stjórnendur eða eigendur hlutaðeigandi starfsemi hafa á síðustu fimm árum verið úrskurðaðir gjaldþrota eða hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um póstþjónustu. Þetta á einnig við ef aðili leggur niður starfsemi eða brýtur ítrekað gegn ákvæðum laganna eða skyldum sínum sem alþjónustuveitandi, að undangenginni skriflegri aðvörun og liðnum viðeigandi fresti til úrbóta.
    Lagt er til að í 4.–5. mgr. verði kveðið á um hvernig með skuli farið ef aðili lætur undir höfuð leggjast að skrá sig sem póstrekanda hjá Póst- og fjarskiptastofnun.
    Þá vísast til umfjöllunar um 8. gr. sem kveður á um tilkynningarskyldu um starfsemi.

Um 6. gr.

    Gert er ráð fyrir að lögaðilar með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins eða í aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hafi, að uppfylltum skilyrðum laganna, almenna heimild til veitingar póstþjónustu hér á landi, til og frá landinu. Ekki skiptir máli hvort aðili sinnir eða hyggist sinna öllum þeim þáttum sem falla undir hugtakið póstþjónusta, þ.e. móttöku, söfnun, flokkun, flutningi eða dreifingu á póstsendingum.

Um 7. gr.

    Í greininni er kveðið á um skilyrði almennrar heimildar til veitingar póstþjónustu. Slík skilyrði skulu skv. 9. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 97/67/EB, sbr. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/6/EB m.a. vera gagnsæ, hlutlæg, ótvíræð og án mismununar. Samkvæmt ákvæðinu er lagt til að póstrekandi skuli auðkenna sig skilmerkilega, viðskiptaskilmálar og gjaldskrá skuli vera aðgengileg notendum, t.d. á vefsíðu, og viðeigandi ákvæði laganna teljist uppfyllt. Einnig er gert ráð fyrir að rekstrargjald sé innheimt vegna eftirlits. Skilyrðin eiga ekki að tálma því að fyrirtæki fari inn á póstmarkaðinn.

Um 8. gr.

    Áður en fyrirtæki hefur starfsemi í formi póstþjónustu skal það tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun um áform sín og veita upplýsingar sem stofnunin telur nauðsynlegar til þess að geta skráð fyrirtækið og veitt því tilskilið eftirlit.
    Greinin er að hluta byggð á 13. gr. gildandi laga. Póst- og fjarskiptastofnun skal staðfesta skráningu aðila á skrá yfir póstrekendur, sbr. 5. gr. frumvarpsins, innan tveggja vikna frá móttöku tilkynningar skv. 1. mgr. enda sé það mat stofnunarinnar að skilyrði laganna teljist uppfyllt.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að Póst- og fjarskiptastofnun skuli staðfesta skráningu aðila á skrá yfir póstrekendur innan tveggja vikna frá móttöku tilkynningar skv. 1. mgr. enda sé það mat stofnunarinnar að skilyrði laga þessara teljist uppfyllt. Hér eru gerðar ríkar kröfur til stofnunarinnar um að bregðast skjótt við. Hins vegar eru skilyrðin almenn, svo sem fram kom við skýringar við 7. gr., og það ætti að auðvelda matið.
    Í 3. mgr. er nýmæli sem varðar þau tilvik þar sem póstrekandi með almenna heimild hyggst leggja niður starfsemi, að hluta til eða í heild. Þá skal hann tilkynna stofnuninni það með þriggja mánaða fyrirvara. Sé um alþjónustuveitendur að ræða ber að tilkynna slík áform með að minnsta kosti sex mánaða fyrirvara.

Um 9. gr.

    Í greininni er að finna umfjöllun um inntak alþjónustu sem byggist á 3. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 97/67/EB, sbr. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/6/EB. Alþjónusta er lágmarkspóstþjónusta sem notendur póstþjónustu skulu eiga aðgang að á jafnræðisgrundvelli. Með því er átt við að þjónustan skuli uppfylla kröfur um gæði og vera á viðráðanlegu verði en jafnframt að stjórnvöld skuli gæta samræmis og jafnræðis varðandi alþjónustu.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að allir notendur póstþjónustu hér á landi skuli hafa aðgang að alþjónustu sem uppfyllir gæðakröfur og er á viðráðanlegu verði. Sambærileg þjónusta skuli standa til boða notendum sem búa á sambærilegum svæðum.
    Þá er gert ráð fyrir að alþjónusta skuli á hverjum tíma taka mið af tækni- og samfélagsþróun, hagrænum þáttum og þörfum notenda.
    Í 2. mgr. eru taldir upp þjónustuþættir sem falla eiga undir alþjónustu.
    Í 1. tölul. er fjallað um aðgang að afgreiðslustað og póstkössum. Í því felst að notendur eiga að hafa aðgang að afgreiðslustað í gegnum net afgreiðslustaða um land allt. Gerð hefur verið breyting á skilgreiningu afgreiðslustaðar frá gildandi lögum, en póstbíll og sjálfvirkir afgreiðslustaðir geta nú fallið undir hugtakið. Með heimild í 3. mgr. 15. gr. og 24. gr. gildandi laga gaf Póst- og fjarskiptastofnun út reglur um afgreiðslustaði, nr. 504/2003, sem ætlað var að setja ákveðinn ramma um hvenær væri þörf á að reka hefðbundinn afgreiðslustað og þá um leið viðmið um hvernig væri hægt að leysa aðgangsþörf á annan hátt. Frá því að reglurnar voru settar hefur núverandi alþjónustuveitandi fengið heimild til að loka fjölda afgreiðslustaða vítt og breitt um landið, bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. Á höfuðborgarsvæðinu hefur hagræðingin einkum falist í sameiningu afgreiðslustaða. Á landsbyggðinni hefur þjónustuskylda alþjónustuveitanda verið leyst með póstbíl og/eða aukinni landpóstaþjónustu. Með aukningu í pakkaflutningum hefur þörfin fyrir aðgang að afgreiðslustað hins vegar aukist á ný, en vera má að fjöldi þeirra hafi náð ákveðnu jafnvægi.
    Í 2. tölul. er talin upp þjónusta sem lagt er til að falla skuli undir alþjónustu, þ.e. póstþjónusta vegna bréfa upp að 2 kg, pakka upp að 10 kg innanlands en 20 kg á milli landa og sendinga blindra og sjónskerta allt að 2 kg. Þá er tekið sérstaklega fram að þetta nái til ábyrgðarsendinga og tryggðra sendinga.
    Póstþjónusta innan alþjónustu vegna pakka innan lands er nú skilgreind allt að 10 kg, en var áður 20 kg. Svigrúm er um þetta atriði í pósttilskipuninni en ekki heimilt að fara neðar en 10 kg. Ekki er talin sérstök þörf á að viðhalda alþjónustuskyldu varðandi innlendar pakkasendingar upp að 20 kg enda er nokkur samkeppni á sviði pakka- og vöruflutninga hér á landi. Áfram verður hins vegar miðað við að alþjónustuskyldan varðandi pakka erlendis frá verði 20 kg, enda ekki gert ráð fyrir svigrúmi í póstþjónustutilskipun Evrópusambandsins til að ákvarða önnur þyngdarmörk.
    Í 3. tölul. er lagt til að kveðið verði á um að dreifing á póstsendingum innan alþjónustu verði tveir dagar að jafnaði í viku. Þó er í 1. tölul. 2. mgr. 41. gr. gert ráð fyrir að ráðherra geti heimilað fækkun dreifingardaga. Forsendur slíkrar undantekningar gætu t.d. verið kostnaður við dreifingu, breyttar markaðsaðstæður eða þörf á þjónustu. Mikilvægt er að slík heimild sé til staðar ef bréfum heldur áfram að fækka með sama hraða og verið hefur og of kostnaðarsamt verður fyrir ríkið að tryggja tveggja daga þjónustu eða að hún verði af öðrum ástæðum talin óþörf.
    Hér er einnig kveðið á um að skyldan taki einungis til dreifingar á lögheimili móttakanda eða á fasta starfsstöð fyrirtækis. Í framkvæmd þekkist hins vegar mun víðtækari dreifing en á skráð lögheimili móttakanda. Í samræmi við pósttilskipunina er í frumvarpi þessu gert ráð fyrir reglugerðarheimild til handa ráðherra, í 1. tölul. 2. mgr. 41. gr., á þá vegu að kveða megi á um að alþjónustuskylda teljist uppfyllt með afhendingu á afgreiðslustað póstrekanda eða tiltekinni viðeigandi aðstöðu.
    Í 4. tölul. er kveðið á um tæmingu móttöku- og söfnunarstaða og er gert ráð fyrir að alþjónustuveitandi geti, ef hann kýs svo, stillt henni upp til samræmis við tíðni dreifingar. Í flestum tilvikum er hér um að ræða póstkassa sem settir eru upp á almannafæri.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að fara skuli eftir reglum Alþjóðapóstsambandsins, m.a. um stærð og frágang póstsendinga sem falla undir alþjónustu.
    Þá er kveðið á um það í 4. mgr. að Póst- og fjarskiptastofnun skuli birta árlega upplýsingar um alþjónustu og alþjónustuveitendur, þ.m.t. hvaða þjónusta fellur undir alþjónustu auk upplýsinga um verð og gæði.
    Í 2. tölul. 1. mgr. 41. gr. er kveðið á um að ráðherra setji reglugerð um nánari útfærslu alþjónustu. Þar er talið upp í dæmaskyni hvað gæti fallið hér undir.
    Í 1. tölul. 2. mgr. 41. gr. er eins og áður greinir að finna reglugerðarheimild til handa ráðherra, m.a. um setningu reglna er fælu í sér að alþjónustuskyldur teldust uppfylltar rafrænt.
    Mikilvægt er að ráðherra hafi nægilegt svigrúm í lögunum til að bregðast við ef miklar breytingar verða á póstmarkaði, svo sem í þróun bréfapósts og pakkasendinga. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að alþjónustuveitandi eigi rétt á framlagi úr ríkissjóði vegna alþjónustu ef tiltekin skilyrði eru fyrir hendi, sbr. 12. gr. Nauðsynlegt er því að ráðherra geti brugðist við mögulegum ríkisútgjöldum vegna þessa með breytingum á inntaki alþjónustu, innan þess ramma sem kveðið er á um í lögunum, með skilvirka nýtingu fjármuna að leiðarljósi. Er í því sambandi einkum horft til breytinga á fjölda dreifingardaga innan alþjónustu, sem og einstakrar þjónustu sem skilgreind verður innan alþjónustu.

Um 10. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að kveðið verði á um að til að viðtakandi eigi rétt á þjónustu sem fellur undir alþjónustu þurfi hann að vera með þekkt heimilisfang skráð í þjóðskrá. Einnig er sú skylda lögð á viðkomandi að hann merki bréfakassa eða bréfalúgu með nafni. Ástæður þess að lagt er til að skýrt verði kveðið á um þessa skyldu eru einkum hagkvæmnisrök, þ.e. mikilvægi þess að dreifing geti gengið hratt og örugglega fyrir sig. Réttar merkingar gegna þar lykilhlutverki auk þess sem þær draga úr kostnaði við dreifinguna. Réttar merkingar fækka mistökum í útburði og auka líkur á að póstsending komist til skila og auka þannig gæði þjónustunnar almennt. Í ákvæðinu er einnig kveðið á um að viðtakandi geti samið við póstrekanda um annan afhendingarstað en skráð lögheimili eða aðsetur. Hér er t.d. um að ræða afhendingu í pósthólf og áframsendingu bréfa, t.d. vegna tímabundinna búsetuflutninga vegna vinnu og náms. Gera má ráð fyrir að móttakendur þurfi að greiða aukalega fyrir þjónustu sem þessa enda ekki gert ráð fyrir að hún sé innifalin í burðargjöldum fyrir bréf og/eða pakka.
    Í 2. mgr. kemur fram að útburðardagar innan alþjónustu hér á landi eru eingöngu virkir dagar. Einnig er kveðið á um að heimilt sé að fella niður þjónustu tímabundið vegna sérstakra aðstæðna. Það sem einkum fellur hér undir er veður eða almenn ófærð.

Um 11. gr.

    Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að hægt sé að fara þrjár mismunandi leiðir við val á alþjónustuveitanda, í því skyni að tryggja á hverjum tíma þá lágmarksþjónustu sem kveðið er á um í 9. gr. Þessar leiðir eru samningur, útnefning eða útboð.
    Gert er ráð fyrir að ákvörðunarvald um hvaða leið farin skuli hverju sinni verði í höndum ráðherra. Þannig er það ráðherra sem ákveður hvort reyna eigi samninga við tiltekinn póstrekanda og getur hann þá leitað liðsinnis Póst- og fjarskiptastofnunar við samningsgerðina. Ráðherra getur einnig ákveðið að fela Póst- og fjarskiptastofnun að útnefna fyrirtæki til að sinna alþjónustu.
    Í 2. mgr. er lagt til að kveðið verði á um að við val á þjónustuveitanda skuli viðhafa opið, hlutlægt og gagnsætt ferli þar sem gætt sé jafnræðis. Þá er lagt til að í ákvæðinu verði tekið fram að alþjónustukvaðir megi afmarka við tiltekna landshluta, póstnúmer og/eða tiltekna þætti póstþjónustu.
    Áður en til þess kemur að hægt sé að taka ákvörðun um hvaða leið er heppilegust með tilliti til íslenskra aðstæðna kann að vera æskilegt, en ekki nauðsynlegt, að framkvæmd sé markaðskönnun. Markaðskönnun getur m.a. leitt í ljós áhuga markaðsaðila á að veita þá þjónustu sem skilgreind er í lögunum sem alþjónusta. Reynist markaðurinn ekki fær um að leysa af hendi þá lágmarksþjónustu sem skilgreind er í 9. gr. kemur til kasta ráðherra að taka ákvörðun um næstu skref. Markaðskönnun getur þannig við tilteknar aðstæður verið gagnlegt tæki til að leggja mat á hvort fyrirtæki munu sinna skilgreindri þjónustu á markaðsforsendum. Leiði markaðskönnun í ljós að markaðurinn muni ekki sinna póstþjónustu án sérstakrar kvaðar þar að lútandi er nauðsynlegt að tryggja þjónustuna.
    Um útboð á póstþjónustu fer samkvæmt lögum um opinber innkaup, sbr. einnig 2. mgr. 7. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 97/67/EB, sbr. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/39/EB, þar sem ákvæðið á sér stoð.

Um 12. gr.

    Í 1. mgr. 12. gr. kemur fram hvernig haga beri meðferð mála þegar útnefndur alþjónustuveitandi sækir um fjárframlög vegna alþjónustu sem honum er skylt að veita. Ef niðurstaða Póst- og fjarskiptastofnunar er að þær kvaðir sem hvíla á alþjónustuveitanda samkvæmt útnefningu hafi í för með sér hreinan kostnað ( net cost), sbr. viðauka II sem byggist á pósttilskipuninni, og teljist ósanngjörn byrði á alþjónustuveitandann verður kostnaðurinn greiddur úr ríkissjóði. Erfitt er að leggja mat á það fyrir fram hver kostnaður alþjónustuveitanda muni verða í framtíðinni verði frumvarpið að lögum. Á undanförnum árum hefur verið dregið úr þjónustuskyldum innan alþjónustu, svo sem varðandi tíðni dreifingar. Með frumvarpinu er lagt til að haldið verði áfram á þeirri braut og leiddar í lög frekari heimildir um mögulegar tilslakanir á ýmsum kröfum í tengslum við skyldubundna þjónustu, þ.e. að því marki sem pósttilskipunin, með síðari breytingum, heimilar berum orðum. Vísast einkum til fyrri umfjöllunar um heimild til fækkunar dreifingardaga og ákvörðunar á afhendingarstað. Þá er lagt til að með frumvarpinu verði kveðið á um heimild alþjónustuveitanda til innheimtu gjalda af erlendum pakkasendingum sem nemur raunkostnaði að viðbættum hæfilegum hagnaði, sbr. 17. gr.
    Í frumvarpinu er byggt á aðferðafræði sem pósttilskipunin, með síðari breytingum, mælir fyrir um við útreikning þjónustukostnaðar. Benda má á að pósttilskipunin gengur út frá svigrúmi til handa aðildarríkjum um tilhögun er stuðlar að skilvirkri nýtingu fjármuna samfélagsins. Þannig kveður hún á um valkvæða þætti sem grípa má til til að lágmarka kostnað samfélagsins af alþjónustubyrði. Þannig má fækka útburðardögum og reisa póstkassasamstæður svo dæmi séu tekin. Þá má ljóst vera að taka ber viðeigandi tillit til fjárfestingarkostnaðar póstrekanda við ákvörðun útnefningar- eða samningstíma. Í þessu samhengi má minna á ákvæði 15. gr. laga nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun, þar sem kveðið er á um að stofnunin skuli árlega birta skýrslu um starfsemi sína. Í henni skal m.a. birtur listi yfir póstrekendur og upplýsingar um kostnað við alþjónustu.
    Sambærilegt fyrirkomulag um útreikninga á kostnaði við alþjónustu er að finna í fjarskiptarétti innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Rétt er að taka fram að framlög úr ríkissjóði vegna útboðs kunna að einhverju marki lúta öðrum lögmálum en þegar alþjónustukostnaður er reiknaður út frá aðferðafræði um hreinan kostnað (e. net cost).

Um 13. gr.

    Ef nauðsynlegt þykir til að vernda hagsmuni notenda eða fyrirtækja á markaði og til að koma á virkri samkeppni getur Póst- og fjarskiptastofnun lagt kvaðir á alþjónustuveitendur um að veita öðrum póstrekendum aðgang að dreifikerfi sínu eða annarri nauðsynlegri aðstöðu í merkingu ákvæðisins. Um er að ræða aðgang að ýmsum innviðum sem nýjum aðilum á markaði getur verið talið nauðsynlegt að fá aðgang að til að þeir geti keppt á jafnréttisgrundvelli eftir að markaðurinn hefur verið opnaður fyrir samkeppni. Sú aðstaða sem getur fallið hér undir er í fyrsta lagi aðgangur að pósthólfum. Nokkur fjöldi einstaklinga og fyrirtækja leigja pósthólf af núverandi alþjónustuveitanda og sækja sjálf póstinn sinn. Til að tryggja jafnræði á markaði er því nauðsynlegt að keppinautar alþjónustuveitanda geti komið þeim pósti til skila þar sem heimilisfang er merkt sem ákveðið pósthólf, en oft er ekki um aðrar merkingar að ræða. Í öðru lagi fellur aðgangur að póst- og bréfakössum hér undir. Hér er átt við aðstöðu sem póstrekendur í flestum tilvikum hafa komið sér upp. Almennt ætti því ekki að vera um að ræða vandkvæði varðandi þennan aðgang. Í þriðja og fjórða lagi er um að ræða þjónustu í tengslum við áframsendingu bréfa á nýtt heimilisfang og endursendingu bréfa. Jafnframt er talið upp til hvaða sjónarmiða Póst- og fjarskiptastofnun beri að líta þegar metið er hvort fyrirtæki eigi rétt á aðgangi sem talinn er upp í ákvæðinu. Á þessu stigi er óljóst hversu mikla þörf samkeppnisaðilar hér á landi telja sig hafa fyrir aðgang að þjónustu sem hér er talin upp. Nauðsynlegt er hins vegar að til séu ákvæði í lögunum sem tryggja þennan rétt annarra póstrekenda í samræmi við ákvæði 11. gr. a í pósttilskipuninni, með síðari breytingum.
    Ekki er sérstaklega tilgreindur aðgangur að póstnúmeraskrá í ákvæðinu enda er í frumvarpinu gert ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun haldi framvegis utan um póstnúmerakerfið, sbr. 15. gr.

Um 14. gr.

    Samkvæmt gildandi lögum hefur íslenska ríkið einkarétt á útgáfu frímerkja. Í framkvæmd hefur einkarétturinn verið framseldur til núverandi alþjónustuveitanda (Íslandspósts ohf.) með ákvæði í rekstrarleyfi fyrirtækisins. Þörf fyrir sérstök frímerki sem greiðslumerki og þar með sönnun fyrir greiðslu burðargjalds hefur farið minnkandi á undanförnum árum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun geti veitt póstrekendum heimild til útgáfu frímerkja og annarra gjaldmerkja. Heimilt er að kveða á um að alþjónustuveitandi skuli gefa út frímerki.
    Í 3. mgr. er kveðið á um skipti á frímerkjum við erlend póstþjónustufyrirtæki skuli fara eftir reglum sem Alþjóðapóstsambandið (UPU) kann að setja. Nú er framkvæmdin á þá vegu að Íslandspóstur ohf. sendir ný íslensk frímerki til UPU sem síðan dreifir þeim til aðildarlandanna. Íslandspósti ohf. hefur einnig verið falið að varðveita frímerki sem UPU sendir hingað til lands.
    Póstrekendum er heimilt að notast við annars konar gjaldmerki að fengnu samþykki Póst- og fjarskiptastofnunar en slík merki skulu bera heiti viðkomandi póstrekanda eða númer sem Póst- og fjarskiptastofnun úthlutar honum, sbr. 4. mgr.
    Um skipti á framangreindum frímerkjum á milli erlendra póstrekenda fer eftir reglum Alþjóðapóstsambandsins.

Um 15. gr.

    Með afnámi einkaréttar og opnun markaðar þykir rétt að tryggja heildstætt póstnúmerakerfi. Til þessa hefur Íslandspóstur ohf. haldið utan um póstnúmeraskrá. Skráin er m.a. notuð til að skilgreina hvar einstaklingar og fyrirtæki eru staðsett og er um leið hluti af flokkunarkerfi núverandi alþjónustuveitanda. Lagt er til að kveðið verði á um það í lögum um póstþjónustu að Póst- og fjarskiptastofnun skuli ákvarða landfræðileg mörk póstnúmera og halda póstnúmeraskrá. Eðlilegra þykir að slíkt vald sé í höndum opinbers aðila en ekki hjá einum markaðsaðila. Þótt aðeins sé vikið að því í ákvæðinu að Póst- og fjarskiptastofnun skuli hafa samráð við Þjóðskrá Íslands varðandi breytingar á póstnúmeraskrá kemur það í sjálfsögðu ekki í veg fyrir að haft sé samráð við hagsmunaaðila. Sjá einnig ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið er á um Íslandspóstur ohf. skuli afhenda Póst- og fjarskiptastofnun upplýsingar um núverandi póstnúmeraskrá.

Um 16. gr.

    Í 1. mgr. er almennt ákvæði sem tekur bæði til gjaldskrár og viðskiptaskilmála innan alþjónustu og kveður á um birtingu þeirra opinberlega.
    Í 2. mgr. er að finna heimild fyrir Póst- og fjarskiptastofnun til að gera athugasemdir við skilmála og/eða gjaldskrá alþjónustuveitanda komist stofnunin að þeirri niðurstöðu að skilmálar brjóti gegn lögum, reglugerðum, almennum heimildum eða skyldum alþjónustuveitanda, þegar það á við. Gert er ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun geri alþjónustuveitanda grein fyrir niðurstöðu sinni og gefi honum kost á að bæta úr ágöllum viðskiptaskilmála. Ef alþjónustuveitandi verður ekki við kröfu stofnunarinnar er eðlilegt að tekin sé formleg ákvörðun um ágreiningsefnið, sbr. 9. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003.

Um 17. gr.

    Í 17. gr. er fjallað um gjaldskrá fyrir alþjónustu og eftirlit með henni og byggist hún á 12. gr. pósttilskipunarinnar. Hér er lögð sú almenna skylda á Póst- og fjarskiptastofnun að hafa eftirlit með gjaldskrám í alþjónustu. Eftirlitið lýtur ekki síst að því að tryggja að þjónustan sé veitt á viðráðanlegu verði fyrir notendur.
    Í 2. mgr. er lagt til að skýrt verði kveðið á um að smásölugjaldskrá fyrir bréf allt að 50 g innan alþjónustu skuli vera sú sama um land allt. Við afnám einkaréttar og þeirrar kvaðar sem hvílt hefur á einkaréttarhafa um að fá samþykki fyrir gjaldskrárbreytingum innan einkaréttar þykir nauðsynlegt að kveða skýrt á um að allir notendur póstþjónustu skuli eiga þess kost að geta sent bréf, innan alþjónustu, á sama verði óháð búsetu.
    Í 3. mgr. er lagt til að kveðið verði á um að gjaldskrá fyrir alþjónustu, þar á meðal gjaldskrá fyrir pakkasendingar til landsins, skuli taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna. Fylgjast ber með verðþróun alþjónustu með tilliti til almenns verðlags og kaupmáttar launa innan lands, auk þess sem hafa má hliðsjón af verðlagningu í helstu viðmiðunarríkjum. Einnig þarf að hafa eftirlit með því að uppsetning gjaldskrár sé skýr og eðlileg og að öllum notendum póstþjónustu standi til boða sama smásöluverð fyrir bréf allt að 50 g, svo sem kveðið er á um í 2. mgr.
    Ekki þykir ástæða til að skýra frekar 4. og 5. mgr. 17. gr. en rétt þykir að fara nokkrum orðum um 6. mgr. Þar eru taldar upp aðferðir sem Póst- og fjarskiptastofnun getur beitt við mat á því hvort gjaldskrár alþjónustuveitanda geti talist viðráðanlegar fyrir notendur í skilningi 1. mgr. ákvæðisins, byggðar á raunkostnaði, sem og hvort að afsláttargjaldskrá fyrir söfnunaraðila og stór fyrirtæki byggist á eðlilegum og sanngjörnum sjónarmiðum. Sem dæmi er átt við kostnaðarsjónarmið, samkeppnissjónarmið, sjónarmið tengd alþjónustu og hvernig hún verður best tryggð án mikils viðbótarkostnaðar fyrir alþjónustuveitanda eða önnur sjónarmið sem eðlilegt þykir að taka tillit til við mat á slíkum gjaldskrám.
    Í 7. mgr. er að finna heimild Póst- og fjarskiptastofnunar til að gera kröfu um úrbætur. Sama á hér við varðandi breytingar á skilmálum, þ.e. ef alþjónustuveitandi fer ekki eftir kröfu stofnunarinnar er eðlilegt að tekin sé formleg ákvörðun um ágreiningsefnið, sbr. 9. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003.
    Í lokamálsgrein ákvæðisins er kveðið á um heimild Póst- og fjarskiptastofnunar til að leggja dagsektir á póstrekandann verði hann ekki við tilmælum stofnunarinnar.

Um 18. gr.

    Fyrir liggur að núverandi alþjónustuveitandi er með allt að 100% markaðshlutdeild í einstökum vöruflokkum innan póstþjónustu.
    Það nýmæli er nú lagt til að fyrirtæki sem sinnir alþjónustuskyldum skuli tilkynna allar breytingar á gjaldskrá fyrirtækisins sem falla undir alþjónustu á einstaklingsmarkaði með a.m.k. tíu daga fyrirvara. Fyrir sömu tímamörk skal alþjónustuveitandi senda til Póst- og fjarskiptastofnunar rökstuðning fyrir breytingum sem hann hyggst gera á einingarverði sendinga undir 50 g. Engin tímamörk eru í gildandi lögum varðandi tilkynningar um verðskrárbreytingar. Eðlilegt má telja að alþjónustuveitanda, með tilliti til neytendasjónarmiða, sé gert að tilkynna verðskrárbreytingar með tilteknum fyrirvara. Sambærilegar reglur eru í fjarskiptaregluverkinu sem ekki hafa valdið neinum vandkvæðum í framkvæmd.
    Lagt er til að tilkynna skuli um breytingar á gjaldskrá fyrir magnpóst, þ.m.t. breytingar á verði og skilmálum, með að lágmarki 30 daga fyrirvara. Rétt þykir að samkeppnisaðilar alþjónustuveitanda fái lágmarkssvigrúm til að bregðast við hækkunum, enda líkur til að hlutaðeigandi þurfi að bregðast við með breytingum á eigin gjaldskrám til sinna viðskiptavina. Alþjónustuveitandi skal fyrir sömu tímamörk senda Póst- og fjarskiptastofnun fullnægjandi rökstuðning fyrir fyrirhuguðum breytingum. Með fullnægjandi rökstuðningi er átt við að breytingar skuli vera í samræmi við meginreglur 17. gr.
    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að yfirfara útreikninga alþjónustuveitanda og getur eftir atvikum kveðið á um breytingar á tilkynntu verði ef útreikningar alþjónustuveitanda eru ekki réttir eða gefa ekki tilefni til þeirrar hækkunar sem tilkynnt var. Gjaldskráin tekur gildi á fyrir fram tilkynntum degi svo framarlega sem tímamörk 1. mgr. eru virt og skilyrði ákvæðisins uppfyllt að öðru leyti.
    Breytingar á gjaldskrá innan alþjónustu, ásamt rökstuðningi, skal birta á vefsíðu Póst- og fjarskiptastofnunar. Auk þess er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að samþykkja beiðni um gjaldskrárbreytingu að hluta eða í heild sinni. Í þessu felst að stofnunin getur komist að þeirri niðurstöðu að rekstrar- og bókhaldsgögn sem alþjónustuveitandi hefur lagt fram styðji ekki að fullu við þá hækkun sem farið er fram á. Með þessu ákvæði er gert ráð fyrir því að Póst- og fjarskiptastofnun sé heimilt að samþykkja þá hækkun sem kostnaðargrunnur gjaldskrárinnar gefur tilefni til en það getur verið einungis hluti af hækkunarbeiðninni.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur gert athugasemdir við breytingar á gjaldskrá áður en gjaldskrá tekur gildi en jafnframt er stofnuninni heimilt að taka gjaldskrá til sérstakrar skoðunar eftir að hún hefur tekið gildi, berist stofnuninni kvörtun yfir gjaldskrá alþjónustu.

Um 19. gr.

    Í 19. gr. er fjallað um bókhaldslega aðgreiningu og byggist greinin á 14. og 15. gr. pósttilskipunarinnar. Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 20. gr.

    Ákvæðið er efnislega sambærilegt ákvæði 36. gr. gildandi laga. Þar er kveðið á um að póstrekendur skuli veita Póst- og fjarskiptastofnun upplýsingar um rekstur og fjárhag til þess að hafa megi eftirlit með gjaldskrá fyrir alþjónustu en samkvæmt pósttilskipun Evrópusambandsins eiga notendur rétt á alþjónustu á „viðráðanlegu verði“. Auk þess þarf stofnunin að hafa aðgang að gögnum um fjárhag og rekstur ef útnefndur alþjónustuveitandi óskar eftir fjárframlagi sökum þess að hann telur alþjónustukvöð ósanngjarna fjárhagslega byrði. Þá ber alþjónustuveitendum skylda til þess að veita Póst- og fjarskiptastofnun upplýsingar um gæði alþjónustu. Auk þess er gert ráð fyrir skyldu til birtingar tiltekinna grundvallarupplýsinga opinberlega, m.a. með hagsmuni notenda í huga.
    Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 19/2002, um póstþjónustu, kemur fram að erfitt hafi reynst að fá upplýsingar um ýmsa þætti póststarfsemi hjá póstrekendum vegna þess að vantað hafi lagaheimild til að krefjast upplýsinganna, m.a. hafi ekki verið hægt að fá upplýsingar um umfang póstþjónustu á Íslandi til birtingar í ritum Alþjóðapóstsambandsins. Um eftirlit með framkvæmd póstlaga gilda ákvæði laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003, þ.m.t. ákvæði 5. gr. um eftirlitsúrræði, sbr. 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins.

Um 21. gr.

    Greinin er efnislega sambærileg 22. gr. gildandi laga um póstþjónustu og byggist m.a. á 16., 17. og 18. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 97/67/EB, sbr. tilskipun 2008/6/EB. Einnig er fjallað um gæðakröfur í viðauka I með frumvarpinu sem byggist á viðauka við ofangreindrar tilskipunar.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal tilkynna undanþágur frá gæðakröfum til Eftirlitsstofnunar Fríverslunarsamtaka Evrópu (ESA). Póst- og fjarskiptastofnun skal hafa eftirlit með því að gæðakröfur séu virtar og birta skýrslu um niðurstöður hennar, t.d. á vefsíðu sinni. Eftirlit skal að lágmarki felast í könnun á dreifingartíma póstsendinga í lægsta þyngdarflokki.

Um 22. gr.

    Greinin er efnislega sambærileg 23. gr. gildandi laga og byggist á 20. gr. pósttilskipunarinnar. Búast má við að stöðlum á þessu sviðið fjölgi á næstu árum eftir því sem meiri tækni verður beitt við meðhöndlun póstsendinga.

Um 23. gr.

    Greinin byggist á gildandi 24. gr. um öryggi póstsendinga og gerir ráð fyrir að sú krafa sé gerð til póstrekenda að þeir tryggi örugga meðferð allra póstsendinga.
    Í greininni er að finna nýmæli þess efnis að sú krafa um öryggi sem gildir um meðferð póstsendinga skuli jafnframt taka til rafrænnar meðhöndlunar bréfa, þar sem bréf hafa verið yfirfærð á stafrænt form, svo sem skönnuð inn í rafræn kerfi, og afhent í rafrænu pósthólfi. Í greininni eru ekki skilgreindar kröfur um notkun ákveðinna staðla en gerðar kröfur um að póstrekandi sem hyggst bjóða upp á rafræna póstdreifingu skuli tryggja öryggi með viðeigandi ráðstöfunum, svo sem með notkun öryggisstaðla, með dulkóðun, auðkenningu notenda eða öðrum viðeigandi ráðstöfunum sem stuðla að öryggi gagnanna. Póstrekendur falla undir gildandi lög á hverjum tíma um meðferð persónuupplýsinga o.fl. og verður að gera kröfu til þeirra um viðeigandi áhættustýringu, ekki síst m.t.t. rekstraráhættu (þ.m.t. net- og upplýsingaöryggi). Vísast og til ákvæða frumvarpsins um póstleynd.

Um 24. gr.

    Greinin er sambærileg 47. gr. gildandi laga. Ákvæðið nær til allra sem starfa við póstþjónustu, sama hver sú aðkoma er, og einskorðast ekki við póstþjónustu innan alþjónustu. Hvílir sú skylda á öllum sem starfa við póstþjónustu að veita engar upplýsingar um póstsendingar eða notkun póstþjónustu nema að undangengnum dómsúrskurði eða samkvæmt heimild í öðrum lögum.
    Ákvæði 3. mgr. er hins vegar nýmæli. Á undanförnum árum hefur færst í vöxt að tollupplýsingum um sendingar til útlanda (ITMATT-skeyti) sé miðlað rafrænt. Nauðsynlegt þykir því að setja skýra heimild í lög um póstþjónustu sem heimilar upplýsingagjöf sem þessa. Sífellt eru gerðar ríkari kröfur um slíka rafræna upplýsingagjöf fyrir fram til að flýta fyrir tollmeðferð í ákvörðunarlandi, t.d. í sambandi við tollalöggjöf Evrópusambandsins ( Union Customs Code) og einnig vegna öryggissjónarmiða, svo sem flugöryggis. Reynslan sýnir jafnframt að ef upp koma mál sem varða öryggi póstsendinga hafa einstök lönd brugðist mjög snögglega við með verulega hertum reglum. Má sem dæmi nefna hertar öryggiskröfur fyrir póst til Bandaríkjanna 2010 sem höfðu víðtæk áhrif á vinnslu póstsendinga um allan heim. Þá þarf einnig að senda rafrænar upplýsingar ( pre-advice) fyrir vörur til Evrópusambandsins frá 2021.
    Mikilvægt er því að í lög um póstþjónustu komi nýmæli sem heimilar sendingu og viðtöku rafrænna skeyta með upplýsingum um sendanda, viðtakanda og innihald póstsendinga. Ef ekki er skilmerkilega kveðið á um slíka heimild fyrir póstsendingar úr landi getur komið til þess að póstur frá Íslandi verði stöðvaður. Þá flýta slík skeyti fyrir skráningu og vinnslu póstsendinga sem koma til landsins, koma í veg fyrir að tvívinna þurfi skráningu og lækka þar með kostnað við meðferð þeirra.

Um 25. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um undanþágur frá meginreglu um bann við opnun póstsendinga, þar á meðal varðandi opnun óskilasendinga. Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.

Um 26. gr.

    Í greininni eru sameinuð ákvæði 25. og 26. gr. gildandi laga. Auk þess er nú kveðið á um að Póst- og fjarskiptastofnun geti leyst úr ágreiningi um hvað telst vera hæfileg greiðsla fyrir flutning á póstsendingum.

Um 27. gr.

    Ákvæðið kemur í stað gildandi 31. gr. laga um póstþjónustu. Þar er kveðið á um nokkrar meginreglur sem afmarka réttindi og skyldur sendanda, viðtakanda og póstrekanda, þar á meðal hvenær ábyrgð flyst af póstrekanda og yfir til viðtakanda.
    Í 1. mgr. er fjallað um heimildir póstrekanda til að setja í skilmála reglur um frágang póstsendinga og skyldu þeirra til að athuga að rétt sé frá gengið miðað við það sem verið er að flytja hverju sinni. Eðli málsins samkvæmt hlýtur það að vera sendanda að leita sér upplýsinga um hvernig hann eigi að ganga frá einstökum hlutum til að hægt sé að tryggja að þeir komist óskemmdir á leiðarenda.
    Í 2. mgr. er fjallað um dagstimplun póstsendinga. Reglur um dagstimplun eru þrengdar frá gildandi lögum. Samkvæmt ákvæðinu er eingöngu skylt að dagstimpla bréf hafi því verið lofað að sendingin berist fyrir ákveðin tímamörk. Viss neytendavernd er fólgin í því að bréf og eftir atvikum pakkar sýni móttökudagsetningu sendingarinnar hjá póstrekanda.
    Í 3. mgr. eru skilgreindar fjölbreyttar afhendingarleiðir til að unnt sé að haga dreifingu á sem hagkvæmastan hátt. Opnað er á möguleikann að afhenda skráðar sendingar gegn afhendingarskanna, þ.e. póstsendingin er skönnuð út úr kerfinu á afhendingarstað, sem sönnun um afhendingu póstsendingarinnar, en ekki kvittun viðtakanda til að lækka kostnað við dreifingu á sendingum, t.d. erlendum sendingum þar sem endastöðvargjöld standa ekki undir kostnaði við vinnslu og dreifingu sendinganna. Þó skal afhenda gegn kvittun þær sendingar þar sem keypt hefur verið sérstök viðbótarþjónusta sem felur í sér kvittun við afhendingu. Um afhendingu á stefnum og öðrum réttarfarstilkynningum gilda sérreglur.
    Í 4. mgr. er ítrekuð sú skylda sem m.a. kemur fram í byggingarreglugerð að það sé á ábyrgð móttakanda að koma upp viðeigandi bréfakassa og/eða bréfalúgu þar sem póstrekandi getur afhent póstsendingar. Fram til 1. janúar 2016 bar Íslandspóstur ohf. kostnað af uppsetningu bréfakassa í dreifbýli. Með reglugerð nr. 868/2015 var kveðið á um að viðtakendur póstsendinga skyldu bera þennan kostnað sem og bera ábyrgð á að bréfakassar væru til staðar. Um staðsetningu bréfakassa í dreifbýli fer samkvæmt reglugerð nr. 364/2003, um alþjónustu og framkvæmd póstþjónustu, með síðari breytingum.
    Í 5. mgr. er lagt til að sett verði heimild fyrir alþjónustuveitanda að setja upp bréfakassasamstæðu, á sinn kostnað, í þéttbýli. Nauðsynlegt er að bregðast við sífelldri fækkun bréfa með því að gefa alþjónustuveitanda tiltekið svigrúm til að sinna þjónustunni á sem hagkvæmastan hátt. Einn þáttur í því er að gera mögulegt að póstrekandi sem er alþjónustuveitandi verði veitt heimild til að setja upp bréfakassasamstæður í þéttbýli þar sem hann telur að hann geti dregið úr kostnaði við dreifinguna. Gert er ráð fyrir að þessi heimild verði útfærð nánar í reglugerð sem ráðherra kemur til með að setja, svo sem til hvaða póstnúmera slík heimild nái, um frágang, stærð bréfakassa o.fl. Vísast til 1. tölul. 2. mgr. 41. gr. í þessu samhengi.
    Í 6. mgr. er kveðið á um að póstrekendum sé heimilt að endursenda póstsendingar til sendanda ef bréfakassar eða bréfalúgur eru ekki í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar og/eða þær reglur sem gilda um fjarlægð á bréfakössum í dreifbýli í reglugerð um alþjónustu og/eða safna þeim saman á viðkomandi afgreiðslustað þar til úr hefur verið bætt.
    Í 7. mgr. er fjallað um hvenær ábyrgð póstrekanda á póstsendingu lýkur.
    Í 8. mgr. er vikið að yfirráðum sendanda yfir póstsendingum.
    Ákvæði 9. mgr. er nánast efnislega samhljóða 6. mgr. 31. gr. gildandi laga en bætt hefur verið við að sendandi geti einnig talist eigandi sendingar. Eðlilegt þykir að viðtakandi geti í sumum tilfellum gefið bein fyrirmæli um breyttan afhendingarstað enda sýni hann fram á að hann sé eigandi sendingar sem um er að ræða, t.d. þegar um er að ræða viðskipti á netinu. Einnig hefur verið bætt við heimild til handa póstrekendum til að leggja aukagjöld á viðtakanda eða sendanda póstsendingarinnar. Aðeins er heimilt að leggja þetta gjald á þegar ekki hefur tekist að afhenda póstsendingu í samræmi við upplýsingar sem koma fram á póstsendingunni. Stærð bréfalúga og staðsetning þeirra að öðru leyti er ákveðin í byggingarreglugerð. Reynslan sýnir að ekki eru allir móttakendur með bréfalúgur í samræmi við gildandi reglur og/eða stærðarmörk sem miðað er við í einstökum þjónustuflokkum hérlendis sem erlendis. Þetta þýðir að í sumum tilvikum er ekki hægt að afhenda einstakar póstsendingar í samræmi við þjónustuskilmála sem um þá gilda og póstrekandi hefur fengið greitt fyrir. Á þetta einkum við þegar ekki tekst að afhenda stærri óskráðar póstsendingar. Afleiðing þessa er að nauðsynlegt er að skrá sendinguna og senda tilkynningu með tilheyrandi aukakostnaði. Vegna þessa er póstrekanda heimilt að leggja á aukagjald, t.d. skráningargjald, til að hann fái upp í viðbótarkostnað sem hann verður fyrir vegna þessa. Neytendur geta komið í veg fyrir slíkan aukakostnað með því að stækka bréfalúgur og/eða setja upp stærri bréfakassa.

Um 28. gr.

    Ákvæðið felur í sér nýmæli. Lagt er til að lögfestur verður réttur viðtakenda til að hafna viðtöku fjöldasendinga, svo sem fjölpósts og fríblaða. Ákvæðinu er ætlað að tryggja rétt neytenda gagnvart öllum aðilum sem dreifa fjölpósti og/eða fríblöðum. Ekki er gert ráð fyrir að komið sé á fót miðlægri bannskrá þar sem viðtakandi þurfi að skrá sig. Það nægir að viðkomandi setji ótvíræða merkingu á bréfalúgu og/eða bréfakassa um að hann vilji ekki fjölpóst og/eða fríblöð. Umsvifamiklir dreifendur ættu að geta komið sér upp upplýsingum um fjölda þeirra sem hafna fjölpósti og/eða fríblöðum og miðlað til útgefanda til að komið sé í veg fyrir óþarfa prentun og þar með kostnað. Í ákvæðinu er gerð sú undantekning að tilkynningar frá veitufyrirtækjum, kynningarefni vegna kosninga, tilkynningar sveitarfélaga til íbúa sinna og tilkynningar stjórnvalda sem varða almannahag og almannaöryggi teljast ekki falla undir ákvæðið. Með almannahag er átt við tilkynningar t.d. vegna heilsugæslu, tilkynningar vegna lokana svæða o.s.frv. Með almannaöryggi er átt við tilkynningar sem ætlað er að tryggja öryggi almennings, umhverfi og eignir, viðbrögð við hamförum o.s.frv.

Um 29. gr.

    Ákvæði 29. gr. um óskilasendingar er efnislega sambærilegt gildandi 32. gr. laga um póstþjónustu og fjallar um þá skyldu póstrekanda að gera allar eðlilegar ráðstafanir til að koma póstsendingum til skila. Komi í ljós að skráðan viðtakanda er ekki að finna vegna ófullnægjandi upplýsinga eða rangs heimilisfangs eða nafns ber póstrekanda að endursenda póstsendinguna til sendanda. Færst hefur í vöxt að póstsendingar séu stílaðar á heimilisfang innan lands þó að viðtakandi sé fluttur til útlanda enda sparar sendandi á því í burðargjaldi. Hér hefur verið bætt við sérstöku ákvæði sem heimilar póstrekanda að endursenda slíkar póstsendingar til sendanda. Sams konar ákvæði er um ógreiddar eða vangreiddar póstsendingar. Ef ekki er hægt að endursenda vanskilasendingu vegna ónógra upplýsinga á umbúðum póstsendingar er heimilt að opna sendinguna ef upplýsingar um sendanda skyldi vera að finna í innihaldinu.

Um 30. gr.

    Ákvæðið byggist á 33. gr. gildandi laga þar sem er fjallað um óheimilar og ólögmætar sendingar en hér er lögð til nokkur einföldun.
    Nokkur munur er á milli heimshluta um hvað teljast óheimilar póstsendingar og geta slíkar reglur tekið breytingum. Póst- og fjarskiptastofnun skal því leitast við að birta lista Alþjóðapóstsambandsins um ólögmætar sendingar á vefsíðu sinni.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um ólögmætt innihald póstsendinga, sbr. 41. gr. frumvarpsins.

Um 31. gr.

    Ákvæði um umbúðir póstsendinga byggist á gildandi 34. gr. laga um póstþjónustu. Það fjallar almennt um umbúðir póstsendinga og veitir póstrekendum heimild til að hafna póstsendingum ef talin er hætta á því að umbúðir og innihald geti skemmst í meðförum vegna lélegs frágangs. Síðan segir að skilyrða megi móttöku sendinga með innihaldi sem getur valdið skaða, smiti eða veikindum því að rétt sé búið um sendinguna og hún merkt sérstaklega. Nefnd eru ákveðin dæmi um innihald af þessu tagi en gert er ráð fyrir að nánari reglur um slíkar sendingar verði settar í reglugerð. Verða þar höfð til hliðsjónar ákvæði alþjóðapóstsamningsins. Reglur geta verið misjafnar milli landa. Mikilvægt er að reglur um hvað má senda í pósti til annarra landa séu sendendum aðgengilegar.

Um 32. gr.

    Greinin er efnislega sambærileg 37. gr. gildandi laga um póstþjónustu og byggist á 19. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 97/67/EB, sbr. tilskipun 2008/6/EB.
    Lagt er til í 1. mgr. að póstrekendur skuli semja reglur um meðferð kvartana frá notendum póstþjónustu og birta opinberlega. Er þetta gert til að auðvelda notendum póstþjónustu að leita réttar síns hjá póstrekanda og auka gagnsæi.
    Í 2. mgr. er að finna leiðbeiningar um það hvernig reglur skv. 1. mgr. eigi að vera. Þannig eiga þær að gefa kost á skjótri og sanngjarnri lausn deilumála með endurgreiðslum eða skaðabótum þegar þær eiga rétt á sér.
    Telji notendur póstþjónustu, eða aðrir sem hagsmuna hafa að gæta, að póstrekandi brjóti gegn skyldum sínum samkvæmt lögum um póstþjónustu, eða gegn skilyrðum sem mælt er fyrir um í almennum heimildum eða réttindum, getur hlutaðeigandi beint kvörtun til Póst- og fjarskiptastofnunar um að hún láti málið til sín taka, sbr. 10. gr. laga nr. 69/2003.

Um 33. gr.

    1. mgr. byggist á 38. og 39. gr. gildandi laga um póstþjónustu og kveður á um að óskráða póstsendingar skuli vera undanþegnar skaðabótaskyldu ef þær glatast að öllu eða einhverju leyti vegna óviðráðanlegra aðstæðna eða atburða.
    Mismunandi er samkvæmt alþjóðapóstsamningnum hvaða póstsendingar eru skaðabótaskyldar og hverjar ekki. Sem dæmi má nefna að einn vöruflokkur rekjanlegra sendinga er ekki skaðabótaskyldur ( tracked) á meðan annar er það ( registered), sjá nánar 22. gr. í alþjóðapóstsamningnum.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að skaðabótaskylda að því er varðar vöruflokka sem falla undir alþjóðapóstsamninginn einskorðist við sömu tegundir póstsendinga og þar er fjallað um. Í samræmi við það tekur skaðabótaskylda samkvæmt þessu ákvæði eingöngu til skráðra póstsendinga, eins og þær eru skilgreindar í frumvarpinu, eða sambærilegra póstsendinga.

Um 34. gr.

    Í alþjóðapóstsamningnum er kveðið á um tiltekin viðmið fyrir póstrekanda varðandi uppgjör skaðabóta þegar póstsending týnist eða skemmist við póstmeðferð. Nauðsynlegt er að til staðar sé ákvæði sem tryggir þennan rétt póstrekanda. Rétt er að geta þess að notendur póstþjónustu geta í öllum tilvikum tryggt póstsendingar sérstaklega og fer þá um greiðslur samkvæmt ákvæðum tryggingarskilmála hverju sinni.


Um 35. gr.

    Greinin er efnislega sambærileg 43. gr. gildandi laga um póstþjónustu og þarfnast ekki skýringa.

Um 36. gr.

    Greinin er efnislega sambærileg 44. gr. gildandi laga um póstþjónustu og fjallar um skaðabætur fyrir póstsendingar milli landa. Bætur vegna slíkra sendinga fara eftir gildandi milliríkjasamningum. Það á þó ekki við ef sending glatast eða skemmist þegar hún er í höndum innlends póstrekanda. Fer þá um bætur líkt og um innlenda sendingu sé að ræða enda sé það hagstæðara fyrir tjónþola.

Um 37. gr.

    Greinin er samhljóða 46. gr. gildandi laga um póstþjónustu og er í samræmi við alþjóðapóstsamninginn. Hún kveður á um fyrningarfrest krafna um skaðabætur. Greinin kveður á um að gera þurfi kröfu um skaðabætur innan sex mánaða frá því að viðkomandi póstsending var afhent til flutnings.

Um 38. gr.

    Í 38. gr. er fjallað um póstþjónustu við önnur lönd. Ákvæði 1. og 2. mgr. eru nánast efnislega í samræmi við 51. og 52. gr. gildandi laga um póstþjónustu. Í greininni er kveðið á um að ákvæði laganna gildi um póstþjónustu við önnur lönd að því gefnu að þau brjóti ekki í bága við milliríkjasamninga um póstþjónustu.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að ráðherra geti falið póstrekanda að fara með réttindi og skyldur samkvæmt alþjóðapóstsamningum.
    Ákvæði 3. mgr. eru sambærileg 17. gr. gildandi laga og fjallar um endastöðvargjöld fyrir millilandasendingar. Ákvæði greinarinnar er í samræmi við 13. gr. pósttilskipunarinnar og segir til um hvaða reglum skuli fylgt við ákvörðun á endastöðvargjaldi fyrir póstsendingar frá útlöndum sem fellur undir alþjónustu og/eða alþjóðapóstsamninginn.
    Ákvæði 4. mgr. er nýmæli. Eins og komið hefur fram nægja endastöðvargjöld Alþjóðapóstsambandsins (UPU) ekki fyrir þeim kostnaði sem til fellur innan lands við dreifingu póstsendinga. Tekur það bæði til almennra póstsendinga og skráðra póstsendinga. Ekki er líklegt að gjöldin hækki nógu mikið í fyrirsjáanlegri framtíð til að standa undir þessum kostnaði. Nauðsynlegt er því að alþjónustuveitandi hafi heimild til að krefja sendendur „remail“ um innanlandsburðargjöld eða hafi heimild til að endursenda þær ef augljóst er að þeir hafi fjárhagslegan ávinning af því að póstleggja sendingarnar erlendis til dreifingar hérlendis (A-B-A remail) eða af því að beina sendingum í gegnum lönd sem greiða lægri endastöðvargjöld (A-B-C remail). Íslandspóstur ohf., núverandi alþjónustuhafi, er nú þegar farinn að fá póst sem er augljóslega „remail“ í gegnum ríki sem greiða lægstu endastöðvargjöld Alþjóðapóstsambandsins (UPU). Hætt er við að „A-B-C remail“ frá þróunarríkjum fari vaxandi eftir því sem endastöðvargjöld iðnríkja hækka. Með ákvæðinu er þó ekki ætlunin að banna alfarið ETOE eða „remail“-sendingar, heldur ákveður viðkomandi póstrekandi/alþjónustuveitandi hvort endursenda eigi sendingarnar með stoð í þessu ákvæði ásamt því að bera sönnunarbyrðina fyrir því að um „remail“-sendingar sé að ræða.


Um 39. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að póstrekendur skuli veita Póst- og fjarskiptastofnun upplýsingar sem nauðsynlegar séu til að ganga úr skugga um að farið sé eftir skilyrðum laganna.
    Í 2.–3. gr. er kveðið á um það til hvaða úrræði stofnunin hefur ef póstrekandi brýtur skilmála almennra heimilda og fleira.
    Gert er ráð fyrir að kveðið verði á um að heimilt sé að fella skráningu aðila niður eða afturkalla réttindi fari póstrekandi ekki að ákvæðum laganna. Þetta er nauðsynlegt svo hafið sé yfir allan vafa að hægt sé að koma í veg fyrir að póstrekandi haldi starfsemi áfram þrátt fyrir að hafa verið dæmdur brotlegur við lögin.
    Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 40. gr.

    Í 40. gr. er að finna viðurlagaákvæði. Gert er ráð fyrir að brot gegn ákvæðum frumvarpsins varði að meginstefnu til sektum. Séu brot hins vegar stórfelld eða ítrekuð þá varði þau allt að tveggja ára fangelsi. Í ákvæðinu eru gefnar leiðbeiningar um það hvað geti talist stórfellt brot, þ.e. þegar brot er framið í tengslum við skipulagða brotastarfsemi. Ekki er um tæmandi leiðbeiningar að ræða en þær gefa vissulega ákveðna vísbendingu um hvað telst stórfellt brot.
    Þá er kveðið á um að gáleysisbrot varði aðeins sektum og að heimilt sé að refsa lögaðilum fyrir tilraun og hlutdeild.


Um 40. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.

Um 41. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að kveðið verði á um heimildir og skyldu ráðherra til nánari reglusetningar á grundvelli laganna í reglugerðum í almennu ákvæði. Valin hefur verið sú leið að kveða á um allar reglugerðarheimildir í sérstöku ákvæði en ekki á víð og dreif í frumvarpinu. Þannig er auðvelt að öðlast yfirsýn yfir heimildir sem ráðherra hefur til reglusetningar.
    Ekki þykja efni til að útskýra ákvæðið í þaula en þó rétt að fjalla nánar um 7. tölul. 1. mgr. ákvæðisins. Þar er m.a. lagt til að kveðið verði á um heimild ráðherra til að innleiða nýlega reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2018/644, um pakkasendingar yfir landamæri (Regulation (EU) 2018/644 of the European Parliament and of the Council of 18 April 2018 on cross-border parcel delivery service), í íslenskan rétt með setningu reglugerðar. Unnið er að því að taka umrædda reglugerð upp í samningin um Evrópska efnahagssvæðið. Tilgangurinn með reglugerð ESB nr. 2018/644 er að stuðla að auknu trausti neytenda á netverslun milli landa með aukinni upplýsingasöfnun og miðlun varðandi pakkasendingaþjónustu. Framkvæmdastjórnin vísaði m.a. til könnunar sem gerð var þar sem fram kom að almennt er þrisvar til fjórum sinnum dýrara að senda pakka á milli landa en að senda sambærilegan pakka innan lands. Hliðstæð innleiðingaraðferð var notuð þegar svokallaðar reikireglugerðir Evrópusambandsins voru innleiddar inn í íslenskan rétt, sbr. 2. mgr. 35. gr. fjarskiptalaga.

Um 42. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. janúar 2020 og samtímis falli úr gildi lög um póstþjónustu, nr. 19/2002, með síðari breytingum. Gera má ráð fyrir því að póstrekendur þurfi einhvern tíma til að aðlagast breyttum reglum.

Um 43. gr.

    Þar sem með frumvarpi þessu er felldur niður einkaréttur íslenska ríkisins á afmörkuðum þáttum póstþjónustu og í lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, er vísað til einkaréttar á sviði póstþjónustu er lagt til breytt orðalag í þeim lögum. Ekki er um efnislega breytingu að ræða.
    Ekki þykja forsendur fyrir því að afnema eða útvíkka undanþágu frá virðisaukaskattsskyldu, sbr. núgildandi fyrirkomulag, enda er um að ræða grunnþjónustu, auk þess sem póstþjónusta á Íslandi á undir högg að sækja vegna þess hve dregið hefur úr bréfasendingum.
    Undanþága þessi tekur ekki til óáritaðra bréfapóstsendinga, t.d. fjöldasendinga. Þá er dreifing á pakkapósti og forgangssendingum skattskyld eins og verið hefur.
    Þá eru lagðar til breytingar á orðanotkun í lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, til samræmis við breytta hugtakanotkun í frumvarpi þessu. Verði frumvarpið að lögum verða hugtökin rekstrarleyfi og rekstrarleyfishafi lögð af í tengslum við póstþjónustu. Enn fremur er lagt til að rekstrargjald verði hækkað úr 0,34% í 0,4% og er þetta gert vegna aukins eftirlits stofnunarinnar.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Kveðið er á um að Íslandspósti ohf. beri að afhenda Póst- og fjarskiptastofnun upplýsingar um gildandi póstnúmerakerfi eigi síðar en tveimur mánuðum fyrir gildistöku laganna enda mun stofnunin framvegis hafa umsjón með breytingum á póstnúmerakerfinu.

Um viðauka I og II.

    Viðaukar með frumvarpi þessu byggjast á viðaukum sama efnis í pósttilskipuninni, með síðari breytingum, og þarfnast ekki frekari skýringa.