Ferill 345. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 416  —  345. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019–2023.


Frá utanríkisráðherra.


    Alþingi ályktar, sbr. lög um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, nr. 121/2008, að á árunum 2019–2023 skuli unnið að þróunarsamvinnu Íslands í samræmi við eftirfarandi stefnu.
    Ísland styðji framtíðarsýn Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra veröld þar sem hungri og sárafátækt hefur verið útrýmt, dregið hefur úr ójöfnuði innan og á milli ríkja, mannréttindi allra eru virt, allir eru jafnir fyrir lögum og lifa við frið og öryggi í daglegu lífi. Stefna Íslands í þróunarsamvinnu taki jafnframt mið af þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland hefur gerst aðili að, samþykkt eða fullgilt, m.a. á sviði mannréttinda, alþjóðlegum skuldbindingum um fjármögnun þróunar og Parísarsamkomulaginu um loftslagsmál, sem saman mynda heildstæða umgjörð um þróun á heimsvísu til ársins 2030.
    Alþjóðleg þróunarsamvinna verði áfram ein af meginstoðum íslenskrar utanríkisstefnu og mikilvægur hlekkur í þjóðaröryggisstefnu Íslands. Leitast verði við að tryggja innbyrðis samræmi í utanríkis- og þróunarmálum með tilliti til þeirra hnattrænu viðfangsefna sem sett eru fram í Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Með virkri þátttöku í alþjóðlegri þróunarsamvinnu leitist Ísland við að uppfylla pólitískar, lagalegar og siðferðislegar skyldur sínar sem ábyrg þjóð í samfélagi þjóðanna. Aðild Íslands að Sameinuðu þjóðunum verði áfram einn helsti grundvöllur þróunarsamvinnu Íslands. Viðurkennt sé að til að ná megi settum markmiðum þurfi að virkja ólíka aðila til samstarfs, enda hafi allir hlutverki að gegna, svo sem ráðuneyti og stofnanir, atvinnulíf, borgarasamfélagið og háskólar. Sérstaklega verði leitast við að nýta virðisaukandi sérþekkingu Íslands við úrlausn staðbundinna og alþjóðlegra verkefna.
    Ísland leggi mannréttindi til grundvallar stefnu sinni með þá sýn að leiðarljósi að fátækt sé ekki aðeins skortur á efnislegum gæðum heldur einnig skortur á öryggi, valdi og stjórn yfir eigin aðstæðum. Jafnrétti kynjanna og réttindi barna verði í öndvegi og sérstök áhersla lögð á berskjaldaða hópa. Þróunarsamvinna Íslands endurspegli þannig þau gildi sem íslenskt samfélag hefur í heiðri; virðingu fyrir lýðræði, mannréttindum, fjölbreytileika, umburðarlyndi, réttlæti og samstöðu. Ábyrgð, árangur og áreiðanleiki verði höfð að leiðarljósi í öllu starfi Íslands.

Framlög.
    Íslensk stjórnvöld styðji markmið Sameinuðu þjóðanna um að iðnríki skuli veita sem nemur 0,7% af vergum þjóðartekjum (VÞT) til þróunarsamvinnu, en framlög aðildarríkja þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD/DAC) námu 0,31% af VÞT að meðaltali árið 2017. Íslensk stjórnvöld styðji jafnframt áfram markmið Sameinuðu þjóðanna um að veita í það minnsta 0,2% af VÞT til fátækustu þróunarlandanna. Veruleg hækkun varð á framlögum til þróunarsamvinnu á tímabilinu frá 2013 til 2017. Árið 2013 námu þau rúmlega 4,26 milljörðum króna eða 0,23% af VÞT, árið 2015 voru framlögin 5,26 milljarðar króna, sem svarar til 0,24% af VÞT, og árið 2017 voru þau tæplega 7,3 milljarðar króna eða 0,28% af VÞT.
    Rík áhersla verði lögð á að framlögin séu vel nýtt og sýnt sé fram á árangur af starfi Íslands. Í fjármálaáætlun sem byggist á fjármálastefnu, sbr. 4. og 5. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál, er tilgreind stefna Íslands um framlög til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu sem hlutfall af vergum þjóðartekjum. Stefnt verði að því að Ísland auki framlög sín á næstu árum og að þau verði 0,35% af VÞT árið 2022.

Áherslur og markmið.
    Mannréttindi, jafnrétti kynjanna og sjálfbær þróun verði leiðarljós í þróunarsamvinnu Íslands. Íslensk stjórnvöld leggi sitt af mörkum í baráttunni gegn sárri fátækt og hungri og beiti sér fyrir að aukin hagsæld samfélaga skili sér til þeirra fátækustu og leiði til aukins jafnaðar. Þá verði lögð áhersla á að styðja við óstöðug ríki og þau fátækustu og stuðla að friði á alþjóðavettvangi.
    Í þróunarsamvinnu Íslands verði lögð áhersla á svið þar sem sérþekking Íslands getur nýst í baráttunni gegn fátækt og fyrir framgangi Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Í því samhengi verði unnið að einu yfirmarkmiði og tveimur meginmarkmiðum er lúta að uppbyggingu félagslegra innviða og starfa í þágu friðar, verndunar jarðarinnar og sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda.
     Yfirmarkmið Íslands verði að draga úr fátækt og hungri og stuðla að almennri velferð á grundvelli mannréttinda, kynjajafnréttis og sjálfbærrar þróunar.
     Meginmarkmið Íslands, ásamt undirmarkmiðum, verði eftirfarandi:
     1.      Uppbygging félagslegra innviða og störf í þágu friðar:
        Efla grunnþjónustu og styrkja stofnanir til að bæta lífskjör og auka tækifæri þeirra sem búa við fátækt og ójöfnuð.
                  a.      Kynjajafnrétti og valdefling kvenna (í samræmi við Heimsmarkmið nr. 5).
                  b.      Jafn aðgangur allra að góðri menntun (í samræmi við Heimsmarkmið nr. 4).
                  c.      Bætt grunnheilbrigðisþjónusta og lækkuð tíðni mæðra- og barnadauða (í samræmi við Heimsmarkmið nr. 3).
                  d.      Bætt aðgengi að heilnæmu vatni og hreinlætisaðstöðu (í samræmi við Heimsmarkmið nr. 6).
                  e.      Skjót endurreisn, aukinn viðnámsþróttur og sterkari innviðir samfélaga (í samræmi við Heimsmarkmið nr. 16).
     2.      Verndun jarðarinnar og sjálfbær nýting náttúruauðlinda:
        Auka viðnámsþrótt samfélaga og örva hagvöxt á grundvelli jafnaðar og sjálfbærrar auðlindanýtingar, auk þess sem gripið verði til aðgerða vegna loftslagsbreytinga.
                  a.      Aukin nýting jarðhita og annarra endurnýjanlegra orkugjafa (í samræmi við Heimsmarkmið nr. 7).
                  b.      Verndun og sjálfbær nýting hafs og vatna (í samræmi við Heimsmarkmið nr. 14).
                  c.      Endurheimt landgæða og takmörkun landeyðingar (í samræmi við Heimsmarkmið nr. 15).
                  d.      Aukin mótvægis- og aðlögunarhæfni samfélaga vegna áhrifa loftslagsbreytinga (í samræmi við Heimsmarkmið nr. 13).
                  e.      Sjálfbær hagvöxtur og mannsæmandi atvinnutækifæri fyrir alla (í samræmi við Heimsmarkmið nr. 8).

I. Uppbygging félagslegra innviða og störf í þágu friðar.
    Íslensk stjórnvöld stuðli að uppbyggingu félagslegra innviða með úrbótum í tengslum við menntun barna og ungmenna, heilbrigðismál, vatns- og hreinlætismál, aukinn viðnámsþrótt og endurreisn samfélaga, auk styrkingar innviða þeirra. Þá verði unnið að jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna með sértækum aðgerðum og samþættingu. Lögð verði áhersla á óstöðug ríki og þau fátækustu með lýðræði, stöðugleika og frið að leiðarljósi.
    Í þróunarsamvinnu Íslands verði jafnrétti kynjanna og valdefling kvenna bæði þverlægt og sértækt markmið. Lögð verði áhersla á verkefni sem stuðla að kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna og auknum möguleikum þeirra til tekjuöflunar, auk þess sem gripið verði til aðgerða gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi. Íslensk stjórnvöld styðji einnig við uppbyggingu á getu og starfsþjálfun í þágu kynjajafnréttis. Unnið verði að því að auka færni og styrk stofnana, félagasamtaka og sérfræðinga í þróunarríkjum til að vinna að framgangi kynjajafnréttis. Einnig beiti íslensk stjórnvöld sér fyrir því að jafnréttismál verði í auknum mæli tekin til umræðu þegar rætt er um viðskipti á alþjóðavettvangi og að ákvæði er varða jafnrétti kynjanna verði tekin upp í fríverslunarsamningum EFTA.
    Aukin áhersla verði lögð á gæði grunnmenntunar, bætt aðgengi og minna brottfall úr skólum í fátækum samfélögum og sjónum sérstaklega beint að stúlkum. Hugað verði að börnum og ungmennum, að réttindi þeirra séu virt og þau njóti verndar, þar með talið gegn ofbeldi og skaðlegu athæfi svo að þau fái tækifæri til að dafna og þroska hæfileika sína. Þá leggi íslensk stjórnvöld áherslu á góða grunnheilbrigðisþjónustu þar sem heilsa og næring mæðra og barna er í forgangi og stuðli að kyn- og frjósemisheilbrigði og réttindum þar að lútandi. Jafnframt verði unnið að bættum hollustuháttum með auknu aðgengi að heilnæmu vatni, salernisaðstöðu og fræðslu um hreinlætismál.
    Íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir samhæfingu mannúðaraðstoðar, þróunarsamvinnu og friðaruppbyggingar með áherslu á aukin og fyrirsjáanleg framlög til mannúðarmála í samræmi við áherslur um aukna skilvirkni og árangur mannúðaraðstoðar. Jafnframt taki allt starf Íslands á vettvangi mannúðarmála mið af alþjóðlegu samkomulagi um góða starfshætti í mannúðaraðstoð og skuldbindingum Íslands frá leiðtogafundinum um mannúðarmál sem fram fór í Istanbúl árið 2016. Í því sambandi verði leitast við að styrkja markvisst tengslin á milli mannúðarstarfs á vegum Íslands og þróunarsamvinnu, ekki hvað síst í því skyni að takast á við orsakir og afleiðingar aukinna fólksflutninga og flóttamannavanda. Áhersla verði lögð á að styrkja nærumhverfi þar sem neyð og átök eiga sér stað og á nálægum svæðum með það að leiðarljósi að efla viðnámsþrek samfélaganna og stuðla að uppbyggingu til framtíðar. Störf Íslands verði unnin í samræmi við alþjóðlega mannréttindasamninga og alþjóða- og mannúðarlög og samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum og grundvallarreglum um mannúð, óhlutdrægni, hlutleysi og sjálfstæði.
    Íslensk stjórnvöld virði forystuhlutverk Sameinuðu þjóðanna á þessu sviði og mikilvægi samhæfingar aðgerða á vettvangi. Verkefni á sviði mannúðaraðstoðar miði að því að ná til þeirra hópa sem standa höllum fæti og tryggi að tekið verði mið af þörfum og hagsmunum beggja kynja.
    Íslensk stjórnvöld dragi úr viðskiptahindrunum fyrir þróunarríki með því að bæta markaðsaðgengi fátækustu þróunarríkjanna, enda geti aukin viðskipti stuðlað að auknum hagvexti, hærri tekjum og dregið úr fátækt. Einnig verði lögð áhersla á að stuðla að friði og sjálfbærni í þeim samfélögum sem þróunarsamvinna á vegum Íslands fer fram, sem er nauðsynleg forsenda fyrir uppbyggingu til lengri tíma og efnahagslegri framþróun fyrir alla. Með stuðningi verði ávallt leitast við að tryggja frið og stöðugleika, uppbyggingu í átt að lýðræði (réttarríki) og traustu stjórnarfari, meðal annars með útsendum sérfræðingum og þátttöku í verkefnum í samstarfi við fjölþjóðastofnanir í óstöðugum ríkjum.

II. Verndun jarðarinnar og sjálfbær nýting náttúruauðlinda.
    Íslensk stjórnvöld stuðli að því að auka viðnámsþrótt samfélaga og örva hagvöxt á grundvelli jafnaðar og sjálfbærrar auðlindanýtingar auk þess sem gripið verði til aðgerða vegna loftslagsbreytinga. Áhersla verði einkum lögð á nýtingu jarðhita og endurnýjanlega orku, sjálfbæra nýtingu auðlinda hafs og vatna, landgræðslu og ráðstafanir til að auka mótvægisaðgerðir og aðlögunarhæfni samfélaga vegna áhrifa af völdum loftslagsbreytinga.
    Stutt verði við fræðslu og uppbyggingu þróunarlanda fyrir jarðhitanýtingu þar sem þess er kostur. Í samstarfi við fjölþjóðastofnanir beiti íslensk stjórnvöld sér fyrir auknum fjárfestingum til jarðhitanýtingar og vinni að því að auka þekkingu og færni á sviði jarðhitamála með tilliti til sjálfbærrar orkuframleiðslu og annarrar nýtingar. Ísland styðji jafnframt við verkefni á sviði annarra endurnýjanlegra orkugjafa og leggi áherslu á þau tækifæri sem auka aðgengi kvenna að rafmagni frá slíkum orkugjöfum, t.d. til eldunar og annarra starfa. Í alþjóðlegum viðskiptasamningaviðræðum, sem Ísland kemur að, er gert ráð fyrir að Ísland styðji viðkomandi ríki á sviði jarðhita og fiskimála eftir því sem við á.
    Íslensk stjórnvöld stuðli að bættri afkomu og viðnámsþrótti í fátækum samfélögum sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi með því að styðja við uppbyggingu á þekkingu og færni í fiskveiðum og fiskverkun. Áhersla verði lögð á að veita konum ekki síður en körlum tækifæri til tekjuöflunar og þátttöku í virðiskeðjunni með heilnæmari vinnsluaðferðum og horft verði til aukinna gæða og virðisauka afurða. Þá verði skoðað hvernig Ísland geti lagt sitt af mörkum varðandi aðgerðir gegn plastmengun í hafi.
    Veitt verði aðstoð til að sporna við landeyðingu með áherslu á að draga úr skaðlegum áhrifum loftslagsbreytinga og uppbyggingu þekkingar og færni á sviði sjálfbærrar nýtingar lands og endurheimtar landgæða.
    Stjórnvöld taki þátt í alþjóðasamstarfi um loftslagsmál í samræmi við ákvæði Parísarsamkomulagsins frá árinu 2015 auk þess sem rík áhersla verði lögð á þátttöku kvenna og jafnréttissjónarmið í loftslagstengdum verkefnum. Unnið verði að mótvægisaðgerðum og dregið úr skaðsemi af völdum loftslagsbreytinga.
    Með stuðningi sínum leitist íslensk stjórnvöld við að skapa efnahagsleg tækifæri og mannsæmandi störf í samstarfslöndum, en sjálfbær atvinnusköpun er forsenda þess að útrýma fátækt.

III. Þverlæg málefni.
    Mannréttindi, kynjajafnrétti og umhverfismál eru skilgreind sem sértæk og þverlæg áhersluatriði. Þau skuli höfð að leiðarljósi í öllu starfi íslenskra stjórnvalda sem lúta að þróunarsamvinnu eins og í öðru alþjóðasamstarfi. Þess verði jafnframt gætt að í vöktun og úttektum á verkefnum fái mannréttindi, jafnréttis- og umhverfismál vandaða umfjöllun.
    Nálgun íslenskra stjórnvalda í allri þróunarsamvinnu byggist á mannréttindum með vísun í alþjóðleg viðmið í mannréttindamálum. Greiningar miði að því að skýra þá mismunun sem liggur til grundvallar vandamálum þróunarríkja og inngrip miðist við að leiðrétta mismunun og valdaójafnvægi sem hamlar þróun. Jafnrétti kynjanna, sem grundvallast á mannréttindum, verði áfram forgangsmál í þróunarsamvinnu á vegum Íslands og sérstakt markmið sem byggist jafnframt á því að jafnrétti kynjanna og valdefling kvenna sé forsenda fyrir framförum og þróun, þar með talinni efnahagsþróun. Mikilvægt sé að vel verði gætt að kynjasjónarmiðum og hugað að stöðu og réttindum kvenna með áherslu á landsáætlun um framkvæmd ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi. Sérstaklega verði hugað að slíku á átakasvæðum þar sem unnið er að friðaruppbyggingu eða þar sem neyðarástand hefur skapast, til dæmis í kjölfar náttúruhamfara.
    Aukin áhersla verði lögð á að vernda jörðina og koma í veg fyrir hnignun hennar. Með hliðsjón af því verði settur slagkraftur í loftslags- og umhverfismál í þróunarsamstarfi Íslands, svo sem með aðgerðum gegn mengun hafsins, og markvisst unnið að því að tengja mótvægis- og aðlögunaraðgerðir við annað þróunarsamstarf.

Framkvæmd.
    Íslensk stjórnvöld beini stuðningi sínum til valinna samstarfslanda og svæðaverkefna, fjölþjóðastofnana og félagasamtaka og verkefna á þeirra vegum. Með aukinn árangur og skilvirkni að leiðarljósi verði lögð áhersla á að auka samlegðaráhrif tvíhliða og fjölþjóðlegrar þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar. Stuðningur íslenskra stjórnvalda byggist á fyrirsjáanlegum en jafnframt sveigjanlegum framlögum svo að bregðast megi skjótt við og beina stuðningi þangað sem þörfin er talin mest og framlögin koma helst að gagni. Eignarhald heimamanna verði enn fremur virt þegar hafist er handa við uppbyggingu í þeim löndum sem fá aðstoð og grundvöllur lagður að áframhaldandi framförum.
    Við val á samstarfsaðilum verði litið til áherslna Íslands í þróunarsamvinnu og miðað við að sem best samsvörun sé á milli þarfa viðtakenda og þess sem Ísland hefur fram að færa.

I. Tvíhliða samstarfs- og áherslulönd og svæðasamstarf.
    Í þróunarsamvinnu Íslands verði sjónum einkum beint að fátækum og óstöðugum ríkjum og áhersla lögð á samvirkni og tengsl mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu. Kveðið er á um að ná til þeirra sem búa við bág kjör, náttúruvá, ógnir af mannavöldum eða hvers kyns mismunun. Mannúð, virðing fyrir mannréttindum og óhlutdrægni liggi til grundvallar öllu starfi og sérstök áhersla verði lögð á berskjaldaða hópa, þar á meðal börn. Ábyrgðarskylda gagnvart viðtakendum skuli höfð að leiðarljósi og stutt skuli við samræmdar og skilvirkar aðgerðir þróunarstofnana, m.a. með markvissum framlögum til fjölþjóðlegra stofnana og félagasamtaka, útsendum sérfræðingum og aukinni samhæfingu og samlegð verkefna í tvíhliða þróunarsamvinnu Íslands til að auka slagkraft stuðningsins.
    Unnið verði samkvæmt fjögurra ára mannréttindamiðuðum samstarfsáætlunum við tvíhliða samstarfslönd Íslands, Malaví og Úganda, og áfram verði lögð áhersla á samstarf við héraðsstjórnir þar.
    Áherslulönd Íslands verði Mósambík, Palestína og Afganistan. Stuðningur við Palestínu takmarkist ekki við landamæri heldur taki einnig til palestínskra flóttamanna í nágrannaríkjunum Jórdaníu, Sýrlandi og Líbanon. Jafnframt verði stuðningi beint til ríkja þar sem áhrifa flóttamannavandans gætir hvað mest.
    Stefnt verði að frekari útfærslu og útvíkkun svæðasamstarfs í samstarfi við fjölþjóðastofnanir og verði þar einkum lögð áhersla á náttúruauðlindir, umhverfismál og kynjafnréttismál. Áfram verði stutt við jarðhitamál í samstarfi við Alþjóðabankann með áherslu á aukin tækifæri og aðgengi kvenna á sviði endurnýjanlegrar orku. Einnig verði unnið að útfærslu á stuðningi vegna verndunar hafs og sjálfbærrar nýtingar sjávarauðlinda í Vestur-Afríku, meðal annars í Síerra Leóne og Líberíu. Ísland taki þátt í verkefnum sem tengjast plastmengun í hafi, auk þess sem stutt verði við þróunarlönd sem eru smá eyríki.
    Fyrrgreint útiloki þó ekki að hafið verði samstarf og sinnt verði verkefnum í þágu annarra ríkja eða að breytingar verði á samstarfi við samstarfs- eða áhersluland, land innan svæðasamstarfs eða aðra aðila varðandi verkefni. Lögð er áhersla á að fram fari greining á nýjum samstarfslöndum, áherslulöndum og svæðasamstarfi og mögulega verði tekið upp samstarf við eitthvert landanna og nýjum verkefnum sinnt á gildistíma stefnunnar.

II. Samstarf við fjölþjóðlegar stofnanir.
    Áhersla verði lögð á störf fjögurra fjölþjóðastofnana: Alþjóðabankans, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), Stofnunar Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women) og Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA). Enn fremur verði náin samvinna við Landbúnaðar- og matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) og Alþjóðasjóð um þróun landbúnaðar (IFAD) um verndun jarðarinnar og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Áfram verði lögð áhersla á að byggja upp færni einstaklinga og styrk stofnana í þróunarríkjum með starfsemi Jafnréttisskólans, Jarðhitaskólans, Landgræðsluskólans og Sjávarútvegsskólans. Leitast verði við að efla samlegðaráhrif skólanna fjögurra og samþætta starf þeirra öðru þróunarsamstarfi Íslands. Stuðningur og samstarf verði við þær stofnanir Sameinuðu þjóðanna sem gegna lykilhlutverki í mannúðaraðstoð og neyðarviðbrögðum, svo sem við Neyðarsjóð Sameinuðu þjóðanna (CERF), samræmingar-skrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA), matvælaáætlun Sam-einuðu þjóðanna (WFP) og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR). Því til viðbótar verði haft samstarf við Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNRWA), Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO) og alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC). Stutt verði við verkefni á sviði mannréttinda og uppbyggingar sem stuðlar að lýðræði, friði og stöðugleika með sérfræðiþekkingu eða fjármagni til fjölþjóðastofnana, eftir atvikum.
    Stuðningur íslenskra stjórnvalda í marghliða þróunarsamvinnu felist áfram í samningsbundnum kjarnaframlögum í samræmi við bestu starfsvenjur, enda geri slík framlög stofnunum kleift að skipuleggja starf sitt í takt við stefnumótun sína og markmið. Einnig verði veittur stuðningur í formi eyrnamerktra framlaga sem séu ýmist bundin skilyrðum um stuðning við ákveðinn málaflokk eða ríki, sem og starfa útsendra sérfræðinga á vettvangi. Fyrrgreint útiloki þó ekki samstarf við aðrar stofnanir.
    Ísland taki virkan þátt í stefnumótun fjölþjóðastofnana, ýmist í gegnum kjördæmastarf, stjórnir eða tvíhliða samstarf. Þar verði talað fyrir þeim gildum sem íslenskt samfélag hefur í heiðri, auk þess sem áhersla verði lögð á skilvirkni og árangur stofnananna. Þeim hópum sem búa við fátækt og skort á réttindum verði gefinn gaumur, eins og til að mynda hinsegin fólki, fötluðu fólki og öðrum hópum sem eiga undir högg að sækja.

III. Aðrir samstarfsaðilar.
    Gagnkvæm ábyrgð og samstarf í þágu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna verði leiðarstefið í samstarfi ólíkra aðila til að ná megi þeim markmiðum sem stefnt er að. Starfað verði með aðilum úr ýmsum áttum, þar á meðal ráðuneytum og stofnunum, háskólum, atvinnulífinu og félagasamtökum. Samstarfsaðilar verði valdir eftir verkefnum, farið verði eftir viðurkenndum starfsreglum og gagnsæi ávallt viðhaft. Mikil áhersla verði einnig lögð á samráð og samstarf og að málefnasvið verði samtvinnuð.

Félagasamtök.
    Áfram verði veitt framlög til verkefna á vegum félagasamtaka á sviði þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar. Unnið verði samkvæmt stefnumiðum og verklagsreglum um samstarf við íslensk félagasamtök og jafnframt horft til þess að styðja félagasamtök á vettvangi í samstarfs- og áherslulöndum. Stuðningur við félagasamtök miði að því að leggja lóð á vogarskálarnar í þágu sjálfstæðs, þróttmikils og fjölbreytilegs borgarasamfélags í þróunarlöndum sem berjist gegn fátækt í hinum ólíku birtingarmyndum hennar. Jafnframt beinist stuðningurinn að því að styrkja borgarasamfélagið til að standa vörð um lýðræði og mannréttindi fátækra og þeirra sem búa við mismunun. Verkefni félagasamtaka skuli, eins og önnur verkefni íslenskra stjórnvalda, hafa mannréttindi, kynjajafnrétti og sjálfbærni að leiðarljósi.

Atvinnulífið.
    Íslenskir aðilar í atvinnulífi og stofnanir verði hvött til samfélagslegrar ábyrgðar og til að styðja við sjálfbæra uppbyggingu í þróunarlöndum í samræmi við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, til dæmis með tekju- og atvinnuskapandi fjárfestingum og verkefnum sem stuðla að aukinni hagsæld og hjálpa fólki að brjótast úr viðjum fátæktar. Einnig verði horft til þess að fjármögnun þróunarverkefna geti leitt til aukinna fjárfestinga annarra ríkja, stofnana eða aðila atvinnulífs. Hvort tveggja sé í samræmi við niðurstöður þriðju ráðstefnunnar um fjármögnun þróunar þar sem kallað var eftir aukinni þátttöku aðila atvinnulífsins í fjármögnun verkefna tengdum sjálfbærri þróun.
    Unnið verði að því að nýta íslenska virðisaukandi sérþekkingu í verkefnum og innan fjölþjóðastofnana, enda búi íslensk fyrirtæki og stofnanir yfir margs konar sérþekkingu sem nýst geti við efnahagsþróun í fátækum ríkjum. Virðing fyrir alþjóðlegum skuldbindingum, m.a. á sviði mannréttinda, umhverfis- og atvinnumála, skuli ævinlega í heiðri höfð í þeim verkefnum sem öðrum.

Kynning og fræðsla.
    Íslensk stjórnvöld leggi áherslu á upplýsingagjöf, kynningu og fræðslu um Heimsmarkmiðin og alþjóðlega þróunarsamvinnu. Markmiðið verði að auka skilning á þeim hnattrænu áskorunum sem til staðar eru, auka gagnsæi, skilvirkni og stuðla að aukinni þekkingu meðal almennings um málaflokkinn. Lögð verði áhersla á að nýta nýjar hugmyndir og nálganir við kynningarstarf. Ólíkar leiðir verði nýttar til að ná til almennings, m.a. með gagnvirkum gagnaveitum, samfélagsmiðlum og samstarfi við menntastofnanir, fjölmiðla, félagasamtök, háskólasamfélagið og landsskrifstofur alþjóðastofnana. Árangri af þróunarsamvinnu og mannúðarstarfi verði komið á framfæri við almenning með viðeigandi umfjöllun sem byggist á virðingu fyrir fólki og viðkvæmum hópum.

Skilvirkni og árangur.
    Virk þátttaka á vettvangi þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD/DAC) verði áfram mikilvægur liður í starfi Íslands og tekið verði tillit til jafningjarýni DAC sem reglulega er gerð á þróunarsamvinnu Íslands. Unnið verði markvisst að því að sem bestur árangur náist og settum markmiðum verði náð. Ísland taki virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi um skilvirkni og árangur þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar. Árangurseftirlit með framkvæmd þróunarsamvinnu Íslands taki mið af bestu starfsvenjum og viðmiðum á alþjóðavísu.
    Árangur, skilvirkni og vönduð og fagleg vinnubrögð verði lykilatriði við fjárveitingar til þróunarsamvinnu og gerð verði grein fyrir áhrifum þeirra á stöðu karla og kvenna. Mat og úttektir unnar af utanaðkomandi aðilum verði mikilvægur þáttur í því að meta framkvæmd, skilvirkni og árangur.
    Úttekt verði gerð á framkvæmd þingsályktunar þessarar að gildistíma loknum í því skyni að meta þann árangur sem náðst hefur.

Greinargerð.

Inngangur.
    Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, nr. 121/2008, með síðari breytingum, skal utanríkisráðherra fimmta hvert ár leggja fram tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands til fimm ára í senn.
    Árið 2015 settu Sameinuðu þjóðirnar sér ný söguleg Heimsmarkmið um sjálfbæra þróun. Ísland tók virkan þátt í samningaviðræðum Sameinuðu þjóðanna um markmiðin, framkvæmd þeirra og eftirfylgni. Niðurstaða samningaviðræðnanna voru 17 markmið með 169 undirmarkmiðum sem spanna vítt svið sjálfbærrar þróunar á sviði félags-, efnahags- og umhverfismála. Markmiðin eru metnaðarfull og gilda fyrir öll aðildarríkin, bæði heima fyrir og í alþjóðlegri samvinnu. Þau mynda ramma utan um starf Sameinuðu þjóðanna til ársins 2030 og þeim er m.a. ætlað að útrýma fátækt í heiminum, ná tökum á umhverfisvanda mannkyns og vinna að jöfnum félagslegum tækifærum. Heimsmarkmiðin móta starf Íslands á sviði þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar. Er litið svo á að með framlagi sínu leggi Ísland sitt af mörkum til þess að markmiðunum verði náð fyrir árið 2030. Ísland beinir sérstaklega kröftum sínum að tíu Heimsmarkmiðum og undirmarkmið Íslands í þróunarsamvinnu eru í samræmi við þau.
    Stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019–2023 er áþekk þingsályktun um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2013–2016 hvað varðar framtíðarsýn, áherslur og framkvæmd. Hún endurspeglar einnig þær breytingar sem orðið hafa í alþjóðlegri þróunarsamvinnu á síðustu misserum, sérstaklega með Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun (UN Sustainable Development Goals), Parísar-samkomulaginu um loftslagsmál, niðurstöðu þriðju alþjóðaráðstefnunnar um fjármögnun þróunarsamvinnu í Addis Ababa frá árinu 2015 (Addis Ababa Action Agenda), útkomu annars fundar háttsettra aðila um alþjóðlegt samstarf fyrir skilvirka þróunarsamvinnu í Naíróbí 2016 (2nd High Level Meeting of the Global Partnership for Effective Development Cooperation) og leiðtogafundar um mannúðaraðstoð sem haldinn var í Istanbúl 2016 (World Humanitarian Summit). Einnig byggist stefnan á tillögum sem koma fram í jafningjarýni þróunarsamvinnunefndar OECD/DAC á þróunarsamvinnu Íslands frá árinu 2017 og skýrslu stýrihóps um utanríkisþjónustu til framtíðar frá september 2017.
    Væntanlegur árangur af starfi Íslands fær aukið vægi og í því skyni er lagt fram yfirlit yfir aðgerðir og verkefni í aðgerðaáætlun 2019–2020 sem sjá má í fylgiskjali I með þingsályktunartillögu þessari og er í samræmi við 5. gr. laga nr. 121/2008. Þar er gerð grein fyrir framkvæmd stefnunnar, áætluðum árangri og aðgerðum sem er í takt við áherslur íslenskra stjórnvalda um árangursmiðaða stjórnun. Þess ber að geta að aðgerðaáætlunin er nokkuð yfirgripsmikil en þó ekki tæmandi. Í henni er að finna yfirlit yfir starf í tvíhliða samstarfsríkjum Íslands, stuðning við áherslustofnanir og mannúðarstarf. Þar eru jafnframt sett fram markmið og leiðir er varða sérstakar áherslur í starfinu.
    Í samræmi við ákvæði 2. mgr. 5. gr. laganna hefur tillagan verið lögð fyrir þróunarsamvinnunefnd og fylgir umsögn hennar sem fylgiskjal II. Drög að tillögu til þingsályktunar voru einnig sett í samráðsgátt stjórnvalda og veittar voru rúmlega tvær vikur til að skila inn umsögnum. Alls bárust þrjár umsagnir sem tekið hefur verið tillit til í lokadrögum að stefnu eftir því sem kostur er. Skýrsla um framkvæmd þingsályktunar um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir árin 2013–2016 er fylgiskjal III með þingsályktunartillögu þessari. Í skýrslunni er að finna heildstætt yfirlit yfir alla þróunarsamvinnu Íslands á árunum 2013–2016, m.a. hvernig fjármunum til þróunarsamvinnu hefur verið ráðstafað og með hvaða hætti áætlun stjórnvalda hefur verið framkvæmd. Þá er greint frá stöðu einstakra verkefna og gerð grein fyrir árangri sem náðst hefur. Þessi ár hefur ötullega verið unnið að markmiðum áætlunarinnar. Samhliða þróunarverkefnum í samstarfslöndum Íslands og stuðningi við verkefni fjölþjóðastofnana og félagasamtaka hefur margvísleg stefnu-mótunarvinna farið fram. Vönduð vinnubrögð eru leiðarljós í þróunarstarfi Íslands og eru í samræmi við alþjóðleg viðmið um gott verklag. Eins og greint er frá í skýrslunni skilar þróunarsamvinna Íslands árangri og leiðir til aukinnar hagsældar og framfara í fátækum samfélögum.
    Stefnan er nokkuð frábrugðin fyrri stefnum hvað uppbyggingu og framsetningu áhrærir. Til að tryggja samræmi er vísað í fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar um framlög Íslands til þróunarsamvinnu. Í fjármálaáætlun sem byggist á fjármálastefnu, sbr. 4. og 5. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál, er stefna Íslands tilgreind hvað varðar hlutfall framlaga til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu af vergum þjóðartekjum, en gert er ráð fyrir að framlögin aukist og nemi 0,35% af VÞT árið 2022. Íslensk stjórnvöld styðja markmið Sameinuðu þjóðanna um að hátekjuríki skuli veita sem nemur 0,7% af VÞT til þróunarsamvinnu, en framlög aðildarríkja þróunarsamvinnunefndar OECD/DAC námu að meðaltali 0,31% af VÞT árið 2017. Ísland mun, líkt og áður, veita í það minnsta 0,2% af VÞT til fátækustu þróunarlandanna, sem er í samræmi við viðmið Sameinuðu þjóðanna.

Nýjar áherslur.
    Landgræðsla er orðið sérstakt áherslusvið undir sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda auk loftslags- og umhverfismála sem áður voru einungis þverlæg málefni. Nýtt markmið er sett fram sem miðar að sjálfbærum hagvexti og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla. Þá eru kynjajafnréttismálin einnig orðin að sérstöku áherslusviði undir liðnum uppbygging félagslegra innviða í stað þess að falla einungis undir sértæk og þverlæg málefni. Í fyrri áætlun var nokkur áhersla lögð á mannréttindi, sem nú eru sértæk og þverlæg málefni, en samkvæmt mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna eru mannréttindi forsenda friðar, réttlætis og lýðræðis. Jafnframt er mannréttindum gert hátt undir höfði í málflutningi fulltrúa Íslands á alþjóðavettvangi, sem endurspeglast m.a. í kjöri Íslands til mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. Stefnan tekur mið af þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland hefur fullgilt á sviði mannréttinda og er í samræmi við utanríkisstefnu Íslands í mannréttindamálum. Þessi áherslubreyting er í takt við áherslur nágrannalanda okkar, en Finnar og Danir byggja stefnu sína t.d. á mannréttindamiðaðri þróunarsamvinnu, líkt og Ísland mun gera á gildistíma þingsályktunarinnar. Það felur í sér að mannréttindi eru höfð til hliðsjónar þegar þróunarsamvinnustefna og verkefni þar að lútandi eru mótuð, framkvæmd og metin. Starf Íslands í þágu uppbyggingar og friðar í stríðshrjáðum ríkjum hefur jafnframt verið samþætt í umfjöllun um uppbyggingu innviða, en það er í samræmi við verklagsreglur þróunarsamvinnunefndar OECD/DAC um flokkun verkefna.
    Þátttaka Íslands í þróunarsamvinnuverkefnum er á vegum borgaralegra stofnana, þ.e. þróunarsamvinnu- og mannúðarstofnana, t.d. stofnana Sameinuðu þjóðanna. Íslenskir friðargæsluliðar sem kostaðir eru af framlögum til þróunarsamvinnu eru borgaralegir starfs-menn. Þeir starfa á vegum fjölþjóðastofnana og störf þeirra tengjast endurreisn, uppbyggingu og bættu stjórnarfari.
    Viðskiptamál fá aukið vægi miðað við fyrri stefnumótun og er nú stefna Íslands á sviði þróunarsamvinnu og viðskiptamála í fyrsta sinn samþætt í því skyni að stuðla að sjálfbærri þróun í þágu fátækustu þróunarríkjanna. Slík samþætting er í takt við samræmingu stefnumiða í þróunarsamvinnu (Policy Coherence for Development) þar sem stjórnvöldum er gert að taka tillit til þróunarmarkmiða í öllum stefnumálum sem líkleg eru til að hafa áhrif á þróunarlönd. Mikil áhersla er lögð á að Ísland beiti sér fyrir jafnrétti kynjanna á vettvangi EFTA og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) í tengslum við fríverslunar-samninga og leggi jafnframt áherslu á efnahagslega valdeflingu kvenna í viðskiptum með því að styðja við verkefni Alþjóðaviðskiptamiðstöðvarinnar (ITC) þar að lútandi. Á sama tíma verður, í þeim fríverslunarviðræðum sem Ísland kemur að, leitast við að styðja viðkomandi ríki á sviði jarðhitanýtingar og sjávarútvegsmála eftir því sem við á. Þá er lögð ríkari áhersla á samstarf við atvinnurekendur í því skyni að auka fjárfestingar þeirra í þróunarríkjum og koma sérþekkingu okkar Íslendinga betur á framfæri, einkum á sviði jarðhitanýtingar og sjálfbærrar nýtingar sjávarauðlinda.

Tvíhliða samstarf, áherslulönd og svæðaverkefni.
    Tvíhliða samstarfslönd Íslands eru Malaví og Úganda, þar sem íslensk stjórnvöld hafa viðveru. Ísland vinnur að uppbyggingu félagslegra innviða í þessum löndum með því að styðja við yfirvöld í tilteknum héruðum landanna tveggja. Meginmarkmiðið er að draga úr fátækt í þessum héruðum, bæta hag íbúanna almennt og stuðla að því að mannréttindi séu virt, enda verði unnið eftir hugmyndafræði mannréttindamiðaðrar þróunarsamvinnu. Rík áhersla er lögð á að vinna í samræmi við þróunar- og uppbyggingaráætlanir, bæði í héraði og á landsvísu. Áætlanir tengdar héruðum eru staðbundnar í eðli sínu og gera að verkum að meiri áhrifa gætir af stuðningnum í héruðunum en ef hann væri á landsvísu. Leitast er eftir samvinnu og samþættingu við alþjóðastofnanir og aðra sem sinna þróunarsamvinnu til að ná samlegðaráhrifum.
    Samstarf við Mósambík hefur tekið breytingum, en tvíhliða samstarfi við stjórnvöld lauk í lok árs 2017. Frá áramótum 2018 hefur stuðningur við uppbyggingu í Mósambík ein-göngu falist í framlögum til fjölþjóðastofnana og annarra aðila. Mósambík breytist því úr tvíhliða samstarfslandi í áhersluland. Sú ákvörðun var tekin eftir ítarlega greiningarvinnu á árunum 2014-2016, að teknu tilliti til umfangs þróunarsamvinnu við landið, fjölda framlagsríkja, mati á mikilvægi þróunarframlaga Íslands og stjórnarfars.
    Lönd sem teljast áherslulönd eru ríki sem njóta umtalsverðs og skilgreinds stuðnings af Íslands hálfu til að framkvæma þróunarstefnu sína. Ísland hefur þó ekki viðveru í áherslulöndum en styður uppbyggingarstarf í gegnum fjölþjóðastofnanir og félagasamtök. Slíkur stuðningur er rakinn í landsáætlunum, miðast til lengri tíma og getur falist í útsendum sérfræðingum, fjárhagslegum stuðningi við áætlanir fjölþjóðastofnana í viðkomandi ríki, sem og stuðningi við félagasamtök heimamanna. Aukinheldur getur þessi stuðningur falist í tvíhliða pólitísku samráði og málflutningi á alþjóðavettvangi.
    Fjallað er um svæðasamstarf og er þar vísað til verkefna í nokkrum löndum í samstarfi við fjölþjóðastofnanir, en þetta form hefur gefist vel í samstarfi Íslands, Norræna þróunarsjóðsins og Alþjóðabankans í tengslum við nýtingu jarðhita í Austur-Afríku. Því er ætlunin að nýta frekari möguleika þessarar nálgunar og styðja við fiskimál í Vestur-Afríku í samstarfi við Alþjóðabankann. Jafnframt verði unnið að því að auka nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og efla þátttöku kvenna, meðal annars í samstarfi við Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UN Environment). Einnig verður unnið að útfærslu á öðrum verkefnum í Vestur-Afríku, þ.m.t. í Síerra Leóne og Líberíu, stuðningi við lítil eyríki og verkefni sem tengjast plastmengun í hafi. Einnig verður unnin greining á nýjum samstarfslöndum, áherslulöndum og svæðasamstarfi og mögulega tekið upp samstarf eða nýjum verkefnum sinnt í þeirra þágu á gildistíma stefnunnar. Stefnan veitir því svigrúm til þess að breytingar verði á samstarfi eða samstarf hafið með nýjum samstarfsaðilum á gildistíma hennar. Val á samstarfsaðilum og samstarfslöndum byggist á faglegum greiningum þar sem leitast er við að greina leiðir til að framlög til þróunarsamvinnu Íslands nýtist með sem skilvirkustum hætti. Landsáætlanir eru gerðar til þriggja ára, en í verklagsreglum fyrir þróunarsamvinnu og í skýrslu um utanríkisþjónustu til framtíðar er lögð áhersla á að áætlanir og samningar séu ávallt innan marka gildistíma þróunarsamvinnustefnu.

Fjölþjóðasamstarf.
    Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) er ný áherslustofnun Íslands, en starf stofnunarinnar samræmist mjög vel áherslum Íslands á sviði kynjajafnréttis, heilbrigðismála og kyn- og frjósemisheilbrigðis og réttinda. Ísland hefur stutt við starf UNFPA um árabil og hefur á liðnum misserum aukið fjárframlög til stofnunarinnar í ljósi mikilvægis málaflokksins og samsvörunar við áherslur Íslands. Ísland heldur áfram samstarfi við alþjóðastofnanir í Róm, FAO, IFAD og WFP. Starfsmaður þróunarsamvinnu er fastafulltrúi í Róm og sinnir slíku samstarfi sem fyrirhugað er að auka á komandi árum, sér í lagi á þeim sviðum sem Ísland býr yfir sérþekkingu á, svo sem landgræðslu og sjávarútvegi. Þá hefur verið undirritaður samstarfssamningur við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO) um þátttöku Íslands í viðbragðsteymum hennar. Er það í samræmi við áherslu Íslands á heilbrigðismál og aukið vægi samþættingar mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu. Í samstarfsyfirlýsingu við Rauða kross Íslands kemur fram fyrirætlun ráðuneytisins um stuðning við Alþjóðaráð Rauða krossins og neyðarsjóð ráðsins. Ráðið gegnir mikilvægu hlutverki við samhæfingu mannúðaraðstoðar og er ný samstarfsstofnun Íslands.
    Þá kemur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) inn sem áherslustofnun á sviði mannúðaraðstoðar, en stofnunin var sett á fót í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar til þess að aðstoða þær milljónir Evrópubúa sem höfðu flúið eða misst heimili sín í stríðinu. Nú gegnir stofnunin áfram lykilhlutverki þegar kemur að því að bregðast við þeim gríðarlega flóttamannavanda sem heimurinn stendur frammi fyrir, m.a. í tengslum við afleiðingar átakanna í Sýrlandi og vaxandi fjölda flóttamanna í Afríku (Suður-Súdan, Mið-Afríkulýðveldinu, Sómalíu, Búrúndí o.fl.) af völdum afleiðinga átaka og áhrifa loftslags-breytinga. Á aðeins fimm ára tímabili hefur fjöldi flóttamanna í heiminum vaxið um 50% og er áætlað að rúmlega 60 milljónir manna séu nú á flótta. Ljóst er að flóttamannavandinn er eitt af stærstu verkefnunum sem alþjóðasamfélagið stendur frammi fyrir á næstu árum og þar gegnir Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna mikilvægu hlutverki. Hún er í forystu fyrir móttöku og aðstoð við flóttamenn á vettvangi. Íslensk stjórnvöld hafa lagt sitt af mörkum til þess að mæta þessum vanda og hafa lagt myndarleg framlög til stofnunarinnar á síðastliðnum tveimur árum. Jafnframt er formlegt samstarf við stofnunina í tengslum við móttöku flóttafólks til Íslands.

Sveigjanleiki í starfi.
    Lögð er áhersla á að stuðningur íslenskra stjórnvalda byggist á sveigjanlegum framlögum svo að tilfærsla verði möguleg til að beina megi stuðningi til stofnana og/eða verkefna eftir því sem þörf krefur. Þetta er mikilvægt, ekki síst í ljósi þeirra áherslna sem alþjóðasamfélagið leggur á samþættingu í allri þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð sem er nauðsynleg til að geta betur brugðist við stöðu mála í óstöðugum ríkjum, ríkjum þar sem átök og langvarandi neyð er og ekki hvað síst í samhengi við aðgerðir til að bregðast við vaxandi flóttamannavanda í heiminum. Sveigjanleiki í úthlutun framlaga var jafnframt talinn einn helsti styrkleiki Íslands í síðustu jafningjarýni þróunarsamvinnunefndar OECD/DAC og mikilvægt að viðhalda honum þannig að aðstoð Íslands komi að sem mestu gagni.

Samvirkni mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu.
    Í umfjöllun um tvíhliða samstarfs- og áherslulönd og svæðasamstarf er tekið fram að sjónum verði sérstaklega beint að fátækum og óstöðugum ríkjum og áhersla lögð á samvirkni mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu. Stuðningur verði því einkum við fátæk og óstöðug ríki í gegnum þróunarsamvinnu Íslands. Þessir þættir fara oftast saman, þ.e. óstöðugt ríki er jafnan fátækt og öfugt, þó að það sé ekki algilt.
    Almennt séð er þróunarsamvinnu ætlað að vera framlag efnaðri ríkja heims til að styðja þau fátækari til að bæta lífskjör fátækra þegna sinna. Ríkjum er þá raðað í hópa eftir ákveðnum breytum og teljast þau ríki fátæk sem falla undir hópinn lágtekjulönd. Einfaldasti vísirinn er tekjumæling Sameinuðu þjóðanna þar sem miðað er við 1,9 Bandaríkjadal á dag á hvern íbúa. Þeir sem hafa minna milli handanna en sem samsvarar þeirri upphæð teljast sárafátækir.
    Hvað óstöðugleika varðar þá birtir DAC árlega lista yfir þau ríki sem hafa verið skilgreind óstöðug. Þar er rýnt í veikleika og áhættuþætti sem raskað geta stöðugleika ríkis. Matið byggist einkum á rýni á stöðu eftirfarandi þátta: a) ofbeldi, b) lögmæti (allir standi jafnfætis gagnvart lögunum og öðrum ákvörðunum stjórnvalda), c) skilvirkni og ábyrgð stofnana, d) efnahagslegum undirstöðum og e) getu til að laga sig að félagslegum, efnahagslegum og umhverfislegum áföllum og hamförum. Rök fyrir þróunarsamvinnu við óstöðug ríki eru einkum þau að ríkin sitji oft eftir hvað varðar lífskjör og mannréttindi. Þau ná síður árangri en önnur ríki og ógna friði innan lands, í nágrannalöndum og í heiminum. Á lista DAC frá árinu 2016 eru 56 lönd sem teljast til óstöðugra ríkja. Þar á meðal eru tvíhliða samstarfslönd Íslands, Malaví og Úganda, og áherslulöndin Afganistan, Palestína og Mósambík. Einnig vinnur Ísland með tekjulágum löndum í svæðasamstarfi sínu, m.a. með Síerra Leóne og Líberíu í Vestur-Afríku, og Eþíópíu, Djíbútí og Tansaníu í Austur-Afríku. Auk þess fer meginhluti íslenskrar mannúðaraðstoðar, eða um 80%, til óstöðugra ríkja.
    Samvirkni mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu gerir að verkum að heildaráhrifin verða meiri en samanlögð áhrif hinna einstöku þátta. Alþjóðasamfélagið leggur nú áherslu á að þróunarsamvinna og mannúðarstarf verði ekki lengur tveir aðskildir málaflokkar, en um leið skuli áréttað að meginhlutverk mannúðarstarfs felist í lífsnauðsynlegum aðgerðum. Sífellt fleiri langvarandi átök og neyð hafa kallað á nýja hugsun í þessum efnum. Á leiðtogafundinum um mannúðaraðstoð, sem haldinn var í Istanbúl í maí 2016, var kallað eftir því að alþjóðasamfélagið og framlagsríki stuðluðu markvisst að samvirkni í aðgerðum í þágu friðar, þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar, en með því móti væri betra að takast á við verkefni á þeim sviðum og skipuleggja fyrirbyggjandi aðgerðir. Íslensk stjórnvöld hafa einsett sér að vinna eftir þessari hugmyndafræði.

Fjölbreytt flóra samstarfsaðila.
    Lögð er rík áhersla á samstarf við ólíka aðila til að ná megi Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Meðal samstarfsaðila eru félagasamtök, sem samkvæmt skilgreiningu ríkisskattstjóra eru skipulagsbundin félög, sem starfa í þágu ófjárhagslegs tilgangs. Framlög verði veitt til íslenskra félagasamtaka, sem og félagasamtaka á vettvangi, m.a. í gegnum sendiráð Íslands í tvíhliða samstarfslöndum. Einnig er fjallað um mikilvægi þess að aðilar úr atvinnulífinu verði hvattir til samfélagslegrar ábyrgðar og taki þátt í verkefni alþjóðasamfélagsins um að ná Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og markmiðum Parísarsamkomulagsins. Ísland vinnur m.a. að sjálfbærum hagvexti og atvinnutækifærum í lágtekjuríkjum og er sérstaklega litið til samstarfs við ólíka aðila í því samhengi, m.a. aðila atvinnulífsins og félagasamtaka. Mikilvægt sé að auka vogarafl opinberrar þróunar-samvinnu, en með þátttöku aðila atvinnulífsins, t.d. með beinum fjárfestingum, getur fjármögnun til þróunarríkja margfaldast. Taka ber fram að hér er ekki átt við að þróunarfé sé varið til viðskiptaþróunar eða renni beint til útrásar fyrirtækja. Lögð er áhersla á að virðisaukandi íslensk sérþekking nýtist í þróunarsamstarfi og að henni verði komið á framfæri með starfi íslenskra stjórnvalda. Í samstarfi við aðila atvinnulífsins skal tekið mið af skuldbindingum Íslands á vettvangi þróunarsamvinnunefndar OECD/DAC. Enn fremur er fjallað um kynningu og fræðslu þar sem áhersla er lögð á Heimsmarkmiðin og nýjar nálganir við kynningarstarf, m.a. með gagnvirkum gagnaveitum og samfélagsmiðlum. Árangri af starfinu verði komið á framfæri við almenning með það að leiðarljósi að auka gagnsæi og þekkingu á málaflokknum.

Árangursstjórnun.
    Loks er fjallað um skilvirkni og árangur, sem eru sem fyrr miðlæg í allri þróunarsamvinnu. Gerð er krafa um skilvirka og ábyrga notkun á þeim fjármunum sem ráðstafað er til þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar. Beita skal árangursstjórnun við framkvæmd sem miðast við frammistöðu og árangur og hlutlaust mat á því hvernig til tekst með gagnsæjum hætti. Stefna og skýr markmið, skipulagðar aðferðir, kerfisbundnar mælingar og eftirfylgni eru helstu þættir árangursstjórnunar. Miðlun upplýsinga til allra haghafa og hagsmunaaðila er jafnframt mikilvægur þáttur í ferlinu. Til að vinna að framgangi er stefnt að innleiðingu heildræns árangursstjórnunarkerfis á gildistíma þingsályktunarinnar. Í tvíhliða þróunarsamstarfi í samstarfslöndum eru verkefni vöktuð reglulega af hlutaðeigandi starfsmönnum. Fylgst er með framvindu og brugðist við og gerðar ráðstafanir eftir því sem við á, í samræmi við áætlanir. Þá eru gerðar úttektir af utanaðkomandi aðilum þar sem árangur er metinn og áhrif verkefnanna til lengri tíma litið. Eftirlit með kjarnaframlögum og eyrnamerktum framlögum til fjölþjóðastofnana byggist einnig á vöktun framvindu og árangurs, ásamt virku samstarfi við stofnanirnar. Starf þeirra er reglulega tekið út af óháðum aðilum. Alþjóðlegt samstarf sem Ísland tekur þátt í er m.a. alþjóðlegt samstarf fyrir skilvirka þróunarsamvinnu (GPEDC), á vettvangi þróunarsamvinnunefndar OECD/DAC og Nordic Plus-ríkjanna, sem telja Norðurlöndin, Bretland, Holland og Írland. Slíkt samstarf tekur mið af alþjóðlegum skuldbindingum, m.a. af Parísaryfirlýsingunni um markvirkni í þróunarstarfi, Accra-aðgerðaáætluninni og Busan-samstarfinu um skilvirkni þróunarsamstarfs.

Skammstafanir:
CERF United Nations Central Emergency Relief Fund – Neyðarsjóður Sameinuðu þjóðanna
DAC Development Assistance Committee – þróunarsamvinnunefnd OECD
ESMAP Energy Sector Management Assistance Programme
FAO Food and Agriculture Organization – Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna
GPEDC Global Partnership for Effective Development Cooperation – alþjóðlegt samstarf fyrir skilvirka þróunarsamvinnu
HSÞ Háskóli Sameinuðu þjóðanna
ICRC International Committee of the Red Cross – alþjóðaráð Rauða krossins
IFAD International Fund for Agricultural Development – Alþjóðasjóður um þróun landbúnaðar
LDCF Least Developed Countries Fund
OCHA United Nations Office for the Coordination of Humanitarian Affairs – samræmingarskrifstofa aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum
OECD Organization for Economic Cooperation and Development – Efnahags- og framfarastofnunin
PROBLUE Global Programme on Fisheries
SEforAll Sustainable Energy for All
Sameinuðu þjóðirnar
UFGE Umbrella Facility for Gender Equality – Jafnréttissjóður Alþjóðabankans
UN Environment The United Nations Environment Programme – Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna
UN Women United Nations Entity for Gender Equality and the Empowerment of Women – Stofnun Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna
UNFPA United Nations Population Fund – Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna
UNHCR Office of the United Nations High Commissioner for Refugees – Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna
UNICEF United Nations Childrens Fund – Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna
UNRWA The United Nations Relief and Works Agency for Palestine Refugees in the Near East – Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna
VÞT Vergar þjóðartekjur
WB World Bank – Alþjóðabankinn
WFP World Food Programme – matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna
WHO World Health Organization – Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin
WTO World Trade Organization – Alþjóðaviðskiptastofnunin



Fylgiskjal I.

Aðgerðaáætlun 2019–2020.


www.althingi.is/altext/pdf/149/fylgiskjol/s0416-f_I.pdf



Fylgiskjal II.

Umsögn þróunarsamvinnunefndar.


www.althingi.is/altext/pdf/149/fylgiskjol/s0416-f_II.pdf



Fylgiskjal III.


Framkvæmd þingsályktunar um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir árin 2013–2016.


www.althingi.is/altext/pdf/149/fylgiskjol/s0416-f_III.pdf