Ferill 162. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 473  —  162. mál.
3. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., lögum um bifreiðagjald og lögum um virðisaukaskatt (losunarviðmið, sendi-, vöru- og golfbifreiðar).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Meiri hluti nefndarinnar vísar til nefndarálits við 2. umræðu (þskj. 359) en þar kom m.a. fram að nefndin hygðist taka nánari afstöðu til þess hvernig haga skyldi vörugjöldum af ökutækjum sem verða flutt inn frá gildistöku frumvarpsins til næstu áramóta og hafa skráða koltvísýringslosun samkvæmt evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunaraðferðinni.
    Meiri hlutinn telur æskilegt að löggjafinn leitist eftir fremsta megni við að bregðast við tækni- og framkvæmdarlegum aðstæðum sem upp koma. Á það sér í lagi við þegar hagsmunir neytenda og fyrirtækja eru í húfi.
    Sterkar vísbendingar eru um að ökutæki sem mæld eru samkvæmt evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunaraðferðinni fái að meðaltali 9,6% hærri skráða koltvísýringslosun en ökutæki sem eingöngu eru mæld samkvæmt evrópsku aksturslotunni. Við þessu er brugðist í frumvarpinu með kerfisbreytingu álagningar vörugjalds á ökutæki og er ætlunin að breytingin taki gildi um áramótin. Hins vegar er þegar hafinn innflutningur á ökutækjum sem mæld eru með báðum aðferðum og hafa þess vegna hærri skráða losun. Að óbreyttu má gera ráð fyrir að útsöluverð þessara ökutækja muni í mörgum tilvikum hækka vegna þessa. Ætla má að hækkunin verði tímabundin og hún gangi til baka þegar kerfisbreyting vörugjaldsálagningar tekur gildi um áramótin. Af tæknilegum ástæðum virðist ljóst að sú kerfisbreyting getur ekki tekið gildi fyrr en lagt hefur verið upp með. Helstu rök sem mæla gegn viðbrögðum við hinu tímabundna ástandi hafa því verið þau að slík viðbrögð kalli á handvirka framkvæmd í stað rafrænnar sem skapi hættu á umtalsverðum töfum við tollafgreiðslu. Að mati meiri hlutans er tímabundin hækkun útsöluverðs hins vegar afar óæskileg með tilliti til hagsmuna neytenda og söluaðila ökutækja.
    Þegar haft er í huga hve stutt er eftir af árinu og að áætlanir um fjölda innfluttra ökutækja gefa til kynna að umfangið geti verið viðráðanlegt telur meiri hlutinn ekki annað forsvaranlegt en að bregðast við þeim ábendingum sem bárust frá Bílgreinasambandinu og varða framangreind atriði. Í því ljósi leggur meiri hlutinn til að gerðar verði breytingar á 4. og 5. gr. frumvarpsins þar sem kveðið verði á um að til áramóta beri að lækka skráða koltvísýringslosun ökutækja sem skráð er bæði samkvæmt evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunaraðferðinni um 8,8% áður en til álagningar vörugjalds kemur. Með því móti ætti sá 9,6% meðaltalsmunur sem virðist vera á milli ökutækja sem aðeins hafa skráða losun samkvæmt evrópsku aksturslotunni annars vegar og hins vegar ökutækja sem hafa skráða losun samkvæmt bæði evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunaraðferðinni ekki að skapa forsendur til hærra útsöluverðs ökutækja.
    Í ljósi þess álags sem breytingartillaga þessi getur skapað í starfsemi tollstjóra, sérstaklega ef tekið er mið af tíðni innflutnings ökutækja síðustu ár, mun ákveðin hætta verða á að framkvæmd lækkunar skráðrar koltvísýringslosunar fyrir álagningu vörugjalds valdi töfum á viðkvæmum tíma. Því er ekki loku fyrir það skotið að hagsmunir innflytjenda kalli á skjótari álagningu en unnt er með handvirkum hætti. Undir slíkum kringumstæðum getur verið eðlilegt að álagning vörugjalds fari í upphafi fram án þess að lækkunin eigi sér stað en hún verði reiknuð inn eftir á og mismunur fjárhæðar vörugjalds fyrir og eftir lækkun verði endurgreiddur. Komi þessi staða upp eignast innflytjandi rétt til endurgreiðslu á grundvelli 27. gr. laga nr. 29/1993, sbr. 125. gr. tollalaga, nr. 88/2005. Þar sem gera má ráð fyrir því að slíkri aðferð verði einkum beitt í ljósi hagsmuna innflytjenda af skjótri álagningu þykir hins vegar ekki eðlilegt að endurgreiðslufjárhæðin beri vexti nema verulegur dráttur verði á framkvæmd hennar. Af þessum sökum leggur meiri hlutinn til að skýrt verði kveðið á um að um endurgreiðslu fari skv. 125. gr. tollalaga, nr. 88/2005, og að endurgreiðslufjárhæðin beri vexti frá og með 1. apríl 2019.
    Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 4. gr.
                  a.      Við b-lið bætist: en um 8,8% hafi losun verið ákvörðuð samkvæmt evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunaraðferðinni. Komi lækkunin ekki til framkvæmda fyrir álagningu fer um endurgreiðslu þess vörugjalds sem á milli munar skv. 125. gr. tollalaga að því undanskildu að mismunurinn ber vexti skv. 2. mgr. þeirrar greinar frá 1. apríl 2019.
                  b.      Á eftir b-lið komi nýr stafliður, svohljóðandi: Í stað orðsins „Lækkunin“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: Mismunur álagningar samkvæmt aðalflokki 1. mgr. 3. gr. og undanþáguflokki.
     2.      Við efnismgr. 5. gr. bætist: en um 8,8% hafi losun verið ákvörðuð samkvæmt evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunaraðferðinni. Komi lækkunin ekki til framkvæmda fyrir álagningu fer um endurgreiðslu þess vörugjalds sem á milli munar skv. 125. gr. tollalaga að því undanskildu að mismunurinn ber vexti skv. 2. mgr. þeirrar greinar frá 1. apríl 2019.

Alþingi, 14. nóvember 2018.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Þorsteinn Víglundsson. Brynjar Níelsson.
Ásgerður K. Gylfadóttir. Bryndís Haraldsdóttir. Ólafur Þór Gunnarsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.