Ferill 464. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 683  —  464. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006 (atkvæðisréttur).

Flm.: Haraldur Benediktsson, Óli Björn Kárason, Ari Trausti Guðmundsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson, Líneik Anna Sævarsdóttir.


1. gr.

    Á eftir 42. tölul. 3. gr. laganna kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Tengdir aðilar: Einstaklingar og/eða félög sem tengjast með einhverjum eftirfarandi hætti:
     a.      annar aðilinn, einstaklingur eða lögaðili, á beint eða óbeint meiri hluta hlutafjár eða stofnfjár, beinan eða óbeinan eignarrétt eða eftir atvikum annars konar ráðstöfunarrétt yfir eignarhlut í hinum aðilanum eða fer með meiri hluta atkvæðisréttar,
     b.      annar aðilinn, einstaklingur eða lögaðili, hefur með öðrum hætti en greinir í a-lið raunveruleg yfirráð yfir hinum,
     c.      tvö eða fleiri félög eru beint eða óbeint undir yfirráðum sama aðila,
     d.      með varanlegum tengslum þeirra við sama þriðja aðila í gegnum yfirráðatengsl,
     e.      samstarf/samkomulag er til staðar milli aðila um að einn eða fleiri saman nái meiri hluta atkvæðisréttar í veiðifélagi, hvort sem samstarfið/samkomulagið er formlegt eða óformlegt, skriflegt, munnlegt eða með öðrum hætti,
     f.      annar aðilinn telst móðurfélag en hinn dótturfélag, og ef um systurfélög er að ræða.

2. gr.

    Á eftir 1. mgr. 40. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er sama aðila eða tengdum aðilum í skilningi laga þessara ekki heimilt að hafa til ráðstöfunar meira en 30% atkvæða í veiðifélagi. Skylt er félagsmanni að upplýsa stjórn veiðifélags ef slík tengsl eru fyrir hendi.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um lax- og silungsveiði sem miða að því að koma í veg fyrir að sami aðili eða tengdir aðilar geti með uppkaupum á lögbýlum komist yfir stærri hluta atkvæðisréttar í veiðifélagi en 30%. Lagt er til að við 40. gr. laganna bætist ákvæði um að sama aðila eða tengdum aðilum í skilningi laganna verði ekki heimilt að hafa til ráðstöfunar meira en 30% atkvæða í veiðifélagi hverju sinni. Samhliða er lagt til að ný skilgreining komi í 3. gr. laganna sem afmarkar tengda aðila í skilningi þeirra.
    Með lögum nr. 61/2006 er kveðið á um skyldu til að stofna veiðifélag um veiðivatn eða fiskihverfi og skylduaðild eiganda veiðiréttar að veiðifélagi. Veiðifélag ráðstafar veiði og enginn má veiða í veiðivatni án þess að veiðifélag heimili slíkt. Því er ljóst að með skylduaðild að veiðifélagi eru hömlur lagðar á meðferð eignarréttar að veiði. Í því ljósi er mikilvægt að tryggja sem best málefnalega og hlutlausa meðferð veiðifélags á veiðiréttinum. Í því sambandi þarf að huga betur að vernd minni hluta í veiðifélögum en gert er samkvæmt gildandi lögum um lax- og silungsveiði. Við heildarendurskoðun fyrri laga um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, var gerð sú breyting að í stað þess að félagsmaður fór með eitt atkvæði þótt hann byggi á fleiri en einni jörð er atkvæðisréttur nú bundinn við lögbýli sem stofnað var fyrir gildistöku hinna eldri jarðalaga, nr. 65/1976, eða eyðijörð eftir atvikum. Þá var lögfest ákvæði sem heimilar að greiða megi atkvæði á félagsfundi á grundvelli arðskrár ef ráðstafa á 25% af tekjum veiðifélags á því starfsári eða meira. Nú liggur fyrir að frá setningu laga nr. 61/2006 hefur orðið sú breyting að erlendir aðilar hafa keypt upp laxveiðijarðir með það markmið að öðlast yfirráð yfir veiðifélagi. Eins og málum er nú háttað getur slíkt valdið því að minni hluti í veiðifélagi verður áhrifalaus með öllu og einn aðili getur beitt atkvæðum sínum sér til hagsbóta og á kostnað minni hluta. Við því er brugðist með frumvarpi þessu.
    Í gildandi lögum er ákvæði um að til að breyta megi samþykktum veiðifélags þurfi atkvæði 2/ 3 félagsmanna á fundi. Af þeim sökum telja flutningsmenn rétt að kveða á um að hámark atkvæða sem sami aðili eða tengdir aðilar geta farið með á félagsfundi verði mest 30% af fjölda atkvæða við afgreiðslu mála á fundum í veiðifélagi.
    Vernd minni hluta í hlutafélögum sem og öðrum félögum hefur alltaf verið mikilvæg. Reglur um margfeldiskosningar á hluthafafundum hafa verið settar til að tryggja að minni hluti eigi þess kost að skipa fulltrúa í stjórnir félaga. Í öðrum löndum er stöðugt verið að endurskoða reglur til að tryggja að einn eða tengdir aðilar geti ekki gengið á rétt minni hluta. Í Bandaríkjunum hafa verið settar reglur um lágmarksfjölda óháðra stjórnarmanna í fyrirtækjum og einnig hvernig standa skuli að ákvörðun launa helstu stjórnenda. Hinar sérstöku reglur um meðferð veiðiréttar og ráðstöfun veiði samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði gera það að verkum að huga þarf sérstaklega að þessum þætti í starfsemi veiðifélaga.
    Lítt hefur verið hugað að vernd minni hluta í veiðifélögum þrátt fyrir að aðild að þeim sé lögbundin.
    Frumvarp þetta beinist ekki að erlendum aðilum sérstaklega heldur fremur því að tryggja að enginn einn aðili, innlendur eða erlendur, geti með uppkaupum á veiðiréttarjörðum náð yfirráðum yfir veiðifélagi og ráðstafað réttindum félagsmanna í krafti meirihlutavalds.
    Í nýlegri skýrslu sem unnin var fyrir Landssamband veiðifélaga um efnahagslegt gildi veiðihlunninda kemur vel fram hve miklu máli það skiptir fyrir byggð og búsetu í mörgum sveitum að vel takist til að standa vörð um ábyrga nýtingu þeirra. Raunar má segja að hún hafi víða úrslitaáhrif um afkomu fjölda fólks. Því er mikilvægt að löggjafinn láti sig varða stöðu eigenda þeirra hlunninda. Löggjöf um veiðifélög er ein elsta löggjöf á sviði náttúruverndar og um leið undirbyggt að hlunnindi af veiðum standa sem burðarstoð undir byggð. Megininntak þeirrar löggjafar var og er til styrktar byggð í sveitum. Flutningsmenn telja hættu á að byggðamynstur raskist ef ekki verður kveðið á um sterka vernd fyrir minni hluta í veiðifélögum.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Hér er bætt við lögin skilgreiningu á tengdum aðilum. Samkvæmt henni teljast þeir tengdir aðilar þar sem einn eða fleiri lúta eignaryfirráðum þess þriðja. Nokkuð vandasamt er að setja í lög um lax- og silungsveiði skilgreiningu á tengdum aðilum og hafa skilgreininguna ekki svo þrönga að ekki sé tekið tillit til þess að í sömu sveit geta veiðiréttarhafar tengst fjölskylduböndum. Mikilvægt er að hafa skilgreiningu þessa í lögunum svo að engum vafa sé undirorpið hverjir teljast tengdir aðilar í skilningi laganna. Flutningsmenn frumvarpsins hafa m.a. haft til hliðsjónar skilgreiningar á tengdum aðilum og einnig aðilum sem teljast hafa samstarf í lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, nr. 162/2006, í lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og loks í lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006.
    Að öðru leyti skýrir greinin sig sjálf.

Um 2. gr.

    Vernd minni hluta í hlutafélögum sem og öðrum félögum hefur alltaf verið mikilvæg. Reglur um margfeldiskosningar á hluthafafundum hafa verið settar til að tryggja að minni hluti eigi þess kost að skipa fulltrúa í stjórnir félaga. Í öðrum löndum er stöðugt verið að endurskoða reglur til að tryggja að einn eða tengdir aðilar geti ekki gengið á rétt minni hluta. Í Bandaríkjunum hafa verið settar reglur um lágmarksfjölda óháðra stjórnarmanna í fyrirtækjum og einnig hvernig standa skuli að ákvörðun launa helstu stjórnenda.
    Á undanförnum árum hafa einstaklingar og félög sem ekki tengjast landbúnaði keypt tugi jarða hér á landi. Mesta athygli hafa kaup erlendra auðmanna vakið en íslenskir aðilar hafa einnig komið þar við sögu. Sérstaklega hafa jarðir sem eiga veiðirétt að ám og vötnum verið eftirsóknarverðar. Sú hætta hefur skapast að einn aðili eða tengdir aðilar nái yfirráðum yfir helstu hlunnindajörðum landsins og ráði þar með í einu og öllu hvernig veiðiréttur annarra jarða, sem ekki er í þeirra eigu, er nýttur. Markmið frumvarpsins er að koma í veg fyrir slíkt. Í þessu sambandi ber að hafa í huga að skv. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 „er mönnum skylt að hafa með sér félagsskap um skipulag veiði í hverju fiskihverfi“. Þessi kvöð er eðlileg og nauðsynleg til að markmið laganna nái fram að ganga.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.