Ferill 448. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 689  —  448. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu rammasamkomulags milli Grænlands/Danmerkur, Íslands og Noregs um verndun loðnustofnsins og stjórnun veiða úr honum.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Veturliða Þór Stefánsson frá utanríkisráðuneyti og Jóhann Guðmundsson og Baldur P. Erlingsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á rammasamkomulagi milli Grænlands/Danmerkur, Íslands og Noregs um verndun loðnustofnsins og stjórnun veiða úr honum sem gert var í London 21. júní 2018, ásamt viðaukum. Gert er ráð fyrir að samningsaðilar geti breytt efni viðauka á árlegum samráðsfundi ríkjanna um loðnustofninn ef samningsaðilar, sem hagsmuna hafa að gæta, samþykkja.
    Samningaviðræður ríkjanna hófust árið 2016 og náðist niðurstaða um gerð nýs þríhliða samkomulags milli Íslands, Grænlands/Danmerkur og Noregs um skiptingu leyfilegs hámarksafla og fyrirkomulag kvótaúthlutunar á viðræðufundi embættismanna ríkjanna í London 18.–21. júní sl. Loðnuveiðar á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen hafa á undanförnum árum farið fram á grundvelli þríhliða samnings milli landanna sem gerður var 8. júlí 2003 og tvíhliða samninga milli landanna sem gerðir voru 8. og 9. júlí 2003.
    Nýja rammasamkomulagið er ótímabundið en hægt er að segja því upp með einnar vertíðar fyrirvara. Samkomulagið felur í sér að hlutur Íslands í heildaraflanum minnkar úr 81% í 80%, hlutur Noregs minnkar úr 8% í 5% og hlutur Grænlands eykst úr 11% í 15%.
    Í greinargerð með tillögunni kemur m.a. fram að samkomulagið staðfestir með formlegum hætti að ákvörðun heildarafla á hverri vertíð byggist á langtímanýtingarstefnu. Þá er einnig staðfest sú samstaða ríkjanna að stunda ekki ósjálfbærar sumarveiðar. Þessi samstaða þýðir að nær engin loðna er lengur veidd í fiskveiðilögsögu annarra ríkja en Íslands. Íslandi er áfram heimilt að veiða það magn sem óveitt er, komi í ljós að hlutur Grænlands eða Noregs veiðist ekki að fullu. Nýmæli í samningnum snýr að því að bótaskylda miðar við að ákvörðun um heildarafla sé tekin 5. febrúar eða síðar á árinu. Önnur breyting snýr að því að þremur tilgreindum grænlenskum skipum er heimilt að vinna að hámarki 6.500 lestir samtals af afla um borð, meðan skipin eru í fiskveiðilandhelgi Íslands, en miðaðist áður við tvö grænlensk skip. Þá hefur nýja samkomulagið að geyma skýrari ákvæði um skýrsluskil og miðlun upplýsinga um afla og framsal aflahlutdeildar. Fiskistofa safnar og heldur utan um allar aflaupplýsingar um veiði á loðnu og sér jafnframt um að miðla þeim til samningsaðila.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 12. desember 2018.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir,
form., frsm.
Ari Trausti Guðmundsson. Ásgerður K. Gylfadóttir.
Björn Leví Gunnarsson. Bryndís Haraldsdóttir. Logi Einarsson.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Una María Óskarsdóttir. Þorsteinn Víglundsson.