Ferill 449. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 690  —  449. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2018.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Veturliða Þór Stefánsson frá utanríkisráðuneyti og Jóhann Guðmundsson og Baldur P. Erlingsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á samningi milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2018 sem gengið var frá með bréfaskiptum í Þórshöfn og Reykjavík 26. júní og 22. nóvember sl.
    Samningurinn kveður á um heimildir aðila til veiða á uppsjávarfiski í lögsögu hvors annars á árinu 2018. Þá gerir samningurinn ráð fyrir gagnkvæmri heimild skipa hvors aðila til veiða á kolmunna og norsk-íslenskri síld innan lögsögu hins á árinu 2018. Þá eru íslenskum skipum heimilaðar veiðar á allt að 1.300 lestum af makríl innan færeyskrar lögsögu á árinu 2018.
    Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að á árlegum fundi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Íslands og sjávarútvegsráðherra Færeyja sem haldinn var í Færeyjum í desember 2017 náðist ekki samkomulag milli aðila um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2018. Samkomulag náðist í janúar 2018. Efni samningsins er frábrugðið fyrri samningum að því leyti að það hámark sem sett er á loðnuveiðar Færeyinga, miðað við 5% af heildarloðnukvótanum árið 2018, er 25.000 lestir en var áður 30.000. Þá er skipum sem heimilt er að vera við kolmunnaveiðar samtímis í lögsögu Færeyja fjölgað úr 12 skipum í 15. Loks var samþykkt að hefja vinnu við að breyta fyrirkomulagi samningaviðræðna með það að markmiði að gera rammasamning til lengri tíma.
    Nefndin leggur áherslu á mikilvægi þess að fyrirkomulagi samningaviðræðna verði komið í fastari skorður svo tryggja megi hagsmuni Íslands til lengri tíma.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.


Alþingi, 12. desember 2018.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir,
form., frsm.
Ari Trausti Guðmundsson. Ásgerður K. Gylfadóttir.
Björn Leví Gunnarsson. Bryndís Haraldsdóttir. Logi Einarsson.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Una María Óskarsdóttir. Þorsteinn Víglundsson.