Ferill 371. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 706  —  371. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Önnu Kolbrúnu Árnadóttur um biðlista hjá geðlæknum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hversu löng bið er að jafnaði eftir tíma hjá barna- og unglingageðlæknum og geðlæknum fullorðinna á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum? Spurt er um biðlista hjá læknum hvort sem þeir starfa hjá hinu opinbera eða eru sjálfstætt starfandi.

    Á sjúkrahúsum, í geðheilsuteymum hjá heilbrigðisstofnunum og víðast hvar í heilbrigðisþjónustu er unnið í þverfaglegum teymum þar sem hjúkrunarfræðingar, læknar, sálfræðingar og fleiri fagstéttir vinna saman að meðferð sjúklinga. Yfirleitt er ekki haldið sérstaklega utan um biðtíma eftir þjónustu einstakra fagstétta heldur er talað um biðtíma eftir þjónustu teymisins. Þjónustan er skipulögð út frá þjónustuþörfum sjúklings og því fer það eftir eðli vandans hvaða fagstétt hittir viðkomandi fyrst. Málum er ávallt forgangsraðað eftir því hve alvarlegur og bráður vandinn er og þess vegna um mismunandi biðtíma að ræða eftir því hver vandinn er. Ekki þarf að bíða eftir bráðaþjónustu og því ekki fjallað um hana hér.
    
Landspítali.
    Barna- og unglingageðlæknar á Barna- og unglingageðdeild Landspítala (BUGL) starfa í þverfaglegum teymum. Þegar um innköllun af almennum biðlista er að ræða hittir fjölskyldan aðra heilbrigðisstarfsmenn en sérfræðilækni við fyrstu komu en sérfræðilæknir er þrátt fyrir það ávallt tengdur komunni. Eftir mat á geðrænum vanda/greiningu er þörf fyrir aðkomu sérfræðilæknis metin. Barnið og fjölskylda þess hitta þá sérfræðilækni eins fljótt og kostur er, yfirleitt innan nokkurra daga eða vikna. Barna- og unglingageðlæknir er starfandi á legudeild BUGL og kemur því að öllum málum. Meðalbiðtími eftir þjónustu göngudeildar BUGL er nú fimm mánuðir.
    Ferliþjónusta geðsviðs Landspítala samanstendur af 13 sérhæfðum þverfaglegum teymum. Meðalbiðtími eftir að komast í þjónustu teymis er misjafn, frá nokkrum dögum upp í eitt ár. Allajafna er bið eftir því að komast að hjá geðrofsteymi innan við tvær vikur. Eins til þriggja mánaða bið er eftir því að komast að hjá FMB-teymi (foreldrar, meðganga, barn), átröskunarteymi, samfélagsgeðteymi, transteymi og þunglyndis- og kvíðateymi. Allt að sex til níu mánuða bið getur verið eftir þjónustu PTSD-teymis, (áfallastreituröskunarteymi) og DAM-teymis (skjólstæðingar með persónuleikaröskun, alvarlegan tilfinningastjórnunarvanda, langvarandi kvíðaraskanir og þunglyndi). Eins árs bið er eftir þjónustu ADHD-teymis (skjólstæðingar með mögulegan athyglisbrest og ofvirkni).

Sjúkrahúsið á Akureyri.
    Bið eftir tíma hjá geðlækni fyrir fullorðna er um tveir til þrír mánuðir eftir að tilvísun berst. Hins vegar er aðeins 1–4 vikna bið eftir að tilvísun berst þar til skjólstæðingur kemst til málastjóra sem heldur utan um hans mál. Málastjóri kynnir málið í teymi og eftir það er um það bil fjögurra vikna bið eftir geðlæknisþjónustu. Á meðan á biðtíma stendur hittir skjólstæðingur málastjóra eða aðra meðferðaraðila.
    Bið eftir viðtölum við barna- og unglingageðlækni hjá Sjúkrahúsinu á Akureyri tekur að jafnaði um sex til sjö vikur eftir að tilvísun berst. Á meðan á bið eftir geðlækni stendur er nær alltaf unnið með skjólstæðing af öðrum meðferðaraðila í teyminu.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins.
    Hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins eru í geðheilsuteymunum starfandi geðlæknar fullorðinna. Biðtími eftir inntöku í geðheilsuteymi vestur er nú tveir mánuðir og sex mánuðir í geðheilsuteymi austur.

Aðrar heilbrigðisstofnanir.
    Geðlæknar eru almennt ekki starfandi við aðrar heilbrigðisstofnanir. Hins vegar nálgast heilbrigðisstarfsfólk heilbrigðisstofnana ráðgjöf og leiðsögn hjá geðlæknum, svo sem með samráðsfundum vegna sameiginlegra skjólstæðinga til að tryggja samfellu í þjónustu.

Engin stofnun heldur utan um upplýsingar um biðlista hjá geðlæknum sem eru sjálfstætt starfandi.