Ferill 66. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 710  —  66. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um áritun á frumrit skuldabréfa.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig framkvæma fjármálastofnanir í eigu ríkisins ákvæði tilskipunar frá 9. febrúar 1798 um áritun afborgana á frumrit skuldabréfa? Telur ráðherra framkvæmdina fullnægjandi?

    Við vinnslu þessa svars var óskað eftir upplýsingum frá Íslandsbanka hf., Landsbanka hf., Sparisjóði Austurlands hf. og Íbúðalánasjóði. Svör bárust frá öllum nema Íbúðalánasjóði.
    Af svörunum verður ekki annað ráðið en að framkvæmdin á ákvæðum tilskipunarinnar sé sambærileg hjá fjármálafyrirtækjunum þremur.
    Undanfarna áratugi hafa orðið mjög örar tæknibreytingar og nú er svo komið að nánast öll bankaviðskipti eru rafræn. Greiðslur afborgana og uppgreiðslur skuldabréfa eru þar engin undantekning en þær fara alla jafna fram með greiðslu greiðsluseðils eða millifærslu í netbanka. Skuldabréf eru ekki árituð um afborganir af höfuðstól, enda gerir 2. gr. tilskipunarinnar ráð fyrir að kvittanir á lausum blöðum, sem hafa að mestu leyti færst yfir á rafrænt form, séu jafngildar gagnvart þeim sem gaf þær út. Skuldarar eiga þó engu að síður rétt á því að koma á starfsstöð lánveitanda og óska eftir því að hann framvísi frumriti skuldabréfsins fyrir uppgreiðslu eða greiðslu afborgunar. Jafnframt eiga skuldarar rétt á því að upplýsingar um afborgun séu ritaðar á frumrit skuldabréfsins. Af svörum fyrirtækjanna að dæma er afar fátítt að eftir slíku sé leitað. Greiðslusaga skuldabréfs er vistuð í lánakerfum lánveitanda og þegar skuld samkvæmt skuldabréfi er uppgreidd er frumrit skuldabréfs áritað um uppgreiðslu og það sent til skuldara.
    Telja verður að markmið tilskipunarinnar á sínum tíma hafi verið að vernda skuldara, sér í lagi þegar skuldabréf ganga kaupum og sölum. Nútíma lánastarfsemi byggist að töluverðu leyti á útgáfu skuldabréfa, einkum vegna lána til neytenda þar sem skilmálar eru staðlaðir. Það heyrir til algerra undantekninga að bankar framselji skuldabréf sem gefin hafa verið út til einstaklinga og kemur slíkt yfirleitt aðeins til vegna óbeinna framsala við sameiningar eða yfirtökur.
    Af svörum fjármálafyrirtækjanna að dæma er tilefni til að ætla að framkvæmd þeirra á ákvæðum tilskipunarinnar sé í fullnægjandi horfi. Jafnframt er ljóst að hún er komin til ára sinna og ný tækni hefur leyst af hólmi þá skriflegu framkvæmd sem efni tilskipunarinnar gengur út frá. Að lokum er rétt að taka fram að Fjármálaeftirlitið fer samkvæmt lögum með eftirlit með því hvort fjármálafyrirtæki fari að lögum og reglum í starfsemi sinni og því er matið á því hvort framkvæmdin telst fullnægjandi fyrst og fremst á verksviði þess.