Ferill 164. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 713  —  164. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Maríönnu Evu Ragnarsdóttur um stefnu ríkisins við innkaup á matvælum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Er þess gætt við innkaup á landbúnaðarafurðum á grundvelli rammasamninga um matvæli, kjöt og fisk að kaupa innlendar vörur og ef svo er, hvernig er því fylgt eftir? Ef ekki, hvers vegna ekki?
     2.      Hvað keypti ríkið mikið af eftirfarandi matvöru árin 2015, 2016 og 2017 og hvert var hlutfallið á milli innlendrar og erlendrar vöru:
                  a.      kjöti (sundurliðað eftir tegundum: kindakjöti, nautakjöti, svínakjöti, alifuglakjöti),
                  b.      fiski,
                  c.      grænmeti?


    Til upplýsingar er vísað til svars fjármála- og efnahagsráðherra á 148. löggjafarþingi, þingskjal 590, við fyrirspurn um stefnu ríkisins um innkaup á matvælum. Eftirfarandi svar var gefið:
    „Innkaupastefna ríkisins nær til allra vöruflokka og er ætlað að stuðla að virkri samkeppni á markaði og tryggja hagkvæmni í rekstri ríkisins. Stefnan skilgreinir helstu forsendur og sjónarmið sem leggja á til grundvallar við einstök innkaup. Hagkvæm innkaup eða bestu kaup eru hornsteinn stefnunnar.
    Jafnframt hefur verið í gildi stefna ríkisins um vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur. Markmiðið með þeirri stefnu er að tekið sé tillit til umhverfissjónarmiða við öll innkaup ríkisins. Þessi stefna eins og innkaupastefna ríkisins tekur einnig til matvæla og ekki er í gildi sérstök innkaupastefna um innkaup á matvælum.
    Þess ber einnig að geta að í gildi eru rammasamningar um matvæli sem Ríkiskaup hefur boðið út fyrir hönd ríkisaðila. Í þeim samningum er tekið tillit til þeirra áhersluatriða sem koma fram í innkaupastefnu ríkisins og stefnu um vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur.
    Aukin áhersla er nú lögð á vistvæn skilyrði en áður. Í því fellst m.a. að horft er í auknum mæli til líftímakostnaðar (t.d. kolefnisspors vöru) og annarra vistvænna þátta við innkaup, til að mynda styttri dreifileiðir vöru.“
    Takmarkanir á viðskiptum sem fela það í sér að ávallt eigi að kaupa innlendar vörur umfram þær sem framleiddar eru erlendis ganga gegn einni af grunnstoðum EES-samningsins um frjálst flæði vöru. Við innkaup á vöru og þjónustu í rammasamningum, sem Ríkiskaup hafa boðið út fyrir hönd ríkisaðila og annarra opinbera aðila, er því ekki gerð krafa um að keyptar séu innlendar vörur. Það væri í ósamræmi við skuldbindingar Íslands þar sem EES-samningurinn heimilar ekki að gert sé upp á milli innkaupa eftir upprunalandi innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þetta á við nær alla rammasamninga sem Ríkiskaup bjóða út og þar með einnig rammasamninga um matvæli.
    Hins vegar er meiri áhersla nú lögð á vistvæn skilyrði en áður. Í því felst m.a. að horft er í auknum mæli til líftímakostnaðar (t.d. kolefnisspors vöru) og annarra vistvænna þátta við innkaup, til að mynda styttri dreifileiðir vöru. Slíkar málefnalegar kröfur teljast ekki vera í ósamræmi við EES-samninginn.
    Fjárhagsbókhald ríkisins gefur takmörkuð svör við ofangreindri fyrirspurn. Tegundarlykillinn í fjárhagsbókhaldinu flokkar matvæli einungis í 3 flokka:
    52810 Matvörur,
    52820 Matvörur (hráefni),
    52830 Drykkjarvörur.
    Heildarfjárhæðir bókaðar á þessa lykla voru 2.668.660.150 kr. árið 2015, 2.757.876.222 kr. árið 2016 og 2.915.781.961 kr. árið 2017.
    Greining á upprunalandi og tegund matvæla samkvæmt upplýsingum úr fjárhagsbókhaldi ríkisins út frá hverjum og einum reikningi er umfangsmeiri vinna en svo að unnt sé að svara því í þessari fyrirspurn.
    Ekki er unnt að sundurliða veltuupplýsingar sem Ríkiskaup safna frá seljendum í þeim tveimur rammasamningum Ríkiskaupa um innkaup á matvöru sem fyrirspurnin tekur til, hvort sem það snýr að skiptingu á hlutfalli milli innlendrar framleiðslu og erlendrar vöru, flokkun á tegundum af kjöti eða skiptingu á milli kjöts, fisks og grænmetis. Gildandi rammasamningar Ríkiskaupa um matvæli renna út í apríl og maí á næsta ári og unnið er að breyttri aðferðafræði við innkaupin.
    Þess má geta að settur hefur verið á fót starfshópur á vegum atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis þar sem unnið er að gerð innkaupastefnu á matvælum fyrir ríkið. Þar verður horft til ýmissa þátta og munu innkaup ríkisins taka mið af þeirri vinnu.
    Hlutverk starfshópsins er að móta stefnu um opinber innkaup til að tryggja neytendum matvæli úr heilnæmum afurðum með tilliti til framleiðsluhátta og umhverfisáhrifa. Stefnan taki m.a. mið af því að opinber innkaup matvæla stuðli m.a. að minnkun sótspors við framleiðslu og flutning. Starfshópnum er falið að móta tillögur að hvötum, fræðslu og stuðningi við innkaupastefnu sem byggist á framangreindum viðmiðum. Tillögur hópsins þurfa enn fremur að tryggja að neytendur hafi aðgang að upplýsingum um uppruna matvæla og að stefnan uppfylli lýðheilsumarkmið um næringu.