Ferill 112. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 714  —  112. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Sæmundssyni um virðisaukaskatt.


     1.      Hver var árlegur virðisaukaskattur, þ.e. innskattur og útskattur og mismunur til greiðslu eða inneignar, samkvæmt tekjubókhaldi ríkissjóðs árin 2012–2017 af framleiðslu:
                  a.      sauðfjárafurða,
                  b.      kjötafurða af nautgripum,
                  c.      mjólkurafurða?

    Gögn ríkisskattstjóra (RSK) um útskatt og innskatt við álagningu virðisaukaskatts (VSK) eru sundurliðuð eftir skráðum atvinnugreinanúmerum virðisaukaskattsskyldra aðila. Þau eru einnig sundurliðuð eftir skattþrepum en ekki nánar eftir tegundum vöru eða þjónustu sem aðilar framleiða og/eða selja. Af þeirri ástæðu er ekki unnt að afmarka veltu og VSK fyrir tilteknar tegundir afurða, vöru eða þjónustu. Gögn um veltu og VSK eftir atvinnugreinum ættu þó að nálgast slíka niðurstöðu að því marki sem aðilar eru skráðir á virðisaukaskattsskrá með flokkunarnúmer sem samsvarar meginstarfsemi þeirra og stunda að öllu eða mestu leyti þá starfsemi sem flokkunin segir til um. Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárhæðir út- og innskatts aðila sem skráðir eru á virðisaukaskattsskrá RSK í þeim atvinnugreinum sem best samsvara þeim afurðum sem spurt er um, samkvæmt atvinnugreinaflokkun (ÍSAT-flokkun). Að því marki sem einstakir aðilar kunna að stunda fleiri en eina tegund starfsemi samhliða á sömu kennitölu og sömu ÍSAT-flokkun kann þó að vera ósamræmi á milli framleiðslu þeirra afurða sem spurt er um í a–c-lið og þeirrar veltu og þeirra aðfanga sem liggja að baki út- og innskatti í þeim atvinnugreinum sem taflan miðast við.

Tafla. Út- og innskattur í nokkrum völdum greinum landbúnaðar 2012–2017 (millj. kr.).
Sauðfjár- og geitarækt, önnur nautgriparækt (önnur en mjólkurkúa) og mjólkurkúarækt.

Útskattur Innskattur Mismunur (álagning)
(a) Sauðfjár- og geitarækt (ÍSAT 01450).
2012 1.635,8 1.663,6 -27,8
2013 1.669,2 1.881,6 -212,4
2014 1.758,2 1.871,1 -112,8
2015 1.713,1 1.781,9 -68,8
2016 1.751,9 1.864,8 -112,9
2017 1.421,4 1.612,6 -191,2
(b) Önnur nautgriparækt (ÍSAT 01420).
2012 220,3 220,5 -0,2
2013 228,8 249,1 -20,3
2014 253,6 235,2 18,4
2015 250,2 267,0 -16,8
2016 267,9 288,8 -20,9
2017 302,2 311,3 -9,2
(c) Ræktun mjólkurkúa (ÍSAT 01410).
2012 2.868,1 2.709,6 158,4
2013 3.047,7 2.951,9 95,8
2014 3.185,9 3.246,9 -61,0
2015 3.244,4 3.193,3 51,1
2016 3.252,5 3.044,1 208,4
2017 3.273,8 3.178,0 95,8
Heimild: Ríkisskattstjóri. Upplýsingar eru byggðar á stöðu álagningargagna í júlí 2018. Fjárhæðir eru án áætlana og án tapaðra viðskiptakrafna í eldri skattþrepum.

     2.      Hverjar voru fyrrgreindar fjárhæðir í almennum viðskiptum með vörurnar?
    Í skattkerfi ríkisskattstjóra eru gögn um veltu virðisaukaskatts, útskatt og innskatt, sundurliðuð eftir aðilum. Unnt er að taka þau gögn saman eftir atvinnugreinum. Gögnin eru hins vegar ekki sundurliðuð eftir vörutegundum eins og fram kom í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar. Af þeirri ástæðu er ekki unnt að afmarka útskatt og innskatt í viðskiptum með umræddar vörutegundir á síðasta sölustigi.