Ferill 77. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Prentað upp.

Þingskjal 742  —  77. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga (stofnanir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis).

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Skúla Þór Gunnsteinsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Björgu Finnbogadóttur frá Þjóðskrá Íslands, Björn Amby Lárusson og Helgu Valborgu Steinsdóttur frá ríkisskattstjóra, Bryndísi Gunnlaugsdóttur og Tryggva Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Braga Axelsson frá Innheimtustofnun sveitarfélaga, Dagbjörtu Jónsdóttur og Eyþóru Hjartardóttur frá Vegagerðinni og Helgu Þórisdóttur og Þórð Sveinsson frá Persónuvernd.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Innheimtustofnun sveitarfélaga, ríkisskattstjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Vegagerðinni, Persónuvernd og Þjóðskrá Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til lágmarksbreytingar sem gera þarf á lögum til að renna lagastoð undir og eftir atvikum styrkja lagastoð fyrir vinnslu persónuupplýsinga hjá stofnunum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Með vinnslu er átt við aðgerð eða röð aðgerða, hvort sem vinnslan er sjálfvirk eða ekki, þar sem persónuupplýsingar eru unnar, m.a. söfnun, skráningu, notkun og miðlun, sbr. 4. tölul. 3. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018. Með frumvarpinu er ekki lagt til að umfang núverandi verkefna stofnananna breytist.

Afhending upplýsinga til Innheimtustofnunar.
    Með 2. gr. frumvarpsins er lagt til almennt ákvæði um hvaða aðilum sé skylt að láta Innheimtustofnun sveitarfélaga í té upplýsingar með rafrænum hætti, ef því verður við komið. Fyrir nefndinni kom fram að með ákvæðinu væri heimild Innheimtustofnunar sveitarfélaga til upplýsingaöflunar víkkuð frá því sem nú er þar sem í frumvarpinu væri kveðið á um að stofnunum væri skylt að láta Innheimtustofnun í té upplýsingar að því marki sem þær væru nauðsynlegar til að framfylgja lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga, nr. 54/1971. Bent var á að eðlilegra væri að upplýsingaskylda stofnana væri takmörkuð við upplýsingar vegna innheimtu meðlaga. Það væri í samræmi við gildandi heimild Innheimtustofnunar sveitarfélaga til að krefja skattyfirvöld um upplýsingar um tekjur og eignir meðlagsskyldra foreldra og sjónarmið um meðalhóf. Í umsögn Innheimtustofnunar kom fram að stofnunin sæi ekkert því til fyrirstöðu að heimild hennar til upplýsingaöflunar yrði skilyrt við innheimtu meðlaga. Meiri hlutinn ítrekar að mikilvægt er að upplýsingaöflun fari ekki fram úr því sem nauðsyn krefur. Leggur meiri hlutinn því til breytingu á 2. gr. frumvarpsins þess efnis að upplýsingar sem hinar tilgreindu stofnanir skulu láta Innheimtustofnun sveitarfélaga í té séu vegna innheimtu meðlaga.
    Fyrir nefndinni komu einnig fram athugasemdir við 2. gr. frumvarpsins varðandi gjaldtöku, þ.e. ekki væri skýrt hvort gjald ætti að koma fyrir þann kostnað stofnananna sem gæti hlotist af afhendingu gagna. Meiri hlutinn tekur fram að um slíka gjaldtöku gilda ákvæði sérlaga hverrar stofnunar fyrir sig.
    Fram komu þau sjónarmið að með 2. gr. frumvarpsins væru Innheimtustofnun veittar of víðtækar heimildir til vinnslu persónuupplýsinga þar sem ekki væri gerð krafa um samþykki einstaklings fyrir upplýsingaöflun stofnunarinnar. Meiri hlutinn telur samþykki almennt mikilvægan grundvöll fyrir vinnslu persónuupplýsinga og kallaði því eftir áliti Persónuverndar hvað þetta varðar. Stofnunin benti á að í ákveðnum tilvikum eigi samþykki ekki við sem vinnsluheimild. Þar sem um er að ræða vinnslu persónuupplýsinga sem fram fer í því skyni að innheimta greiðslur sem meðlagsgreiðendum sé skylt að inna af hendi í þágu framfærslu barna sinna megi telja eðlilegt að upplýsingasöfnunin styðjist við skýra lagaheimild fremur en samþykki hlutaðeigandi einstaklings.

Vinnsluheimildir Þjóðskrár Íslands.
    Nefndin fjallaði um ákvæði 4. gr. um heimild Þjóðskrár Íslands til vinnslu persónuupplýsinga. Fyrir nefndinni kom fram að ætla mætti að í afar afmörkuðum tilvikum hefðu heilsufarsupplýsingar vægi vegna starfa Þjóðskrár, einkum gæti það átt við skráningu á konu, sem samþykkt hefur að fram fari tæknifrjóvgun á eiginkonu sinni, sem foreldris barns á grundvelli 1. mgr. 6. gr. barnalaga, nr. 76/2003. Fyrir nefndinni kom fram að það væri í fleiri tilvikum sem Þjóðskrá Íslands þurfi að vinna með heilsufarsupplýsingar, t.d. við aðsetursskráningu vegna veikinda skv. 9. gr. laga um lögheimili, nr. 21/1990, og 8. gr. nýrra laga um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018, sem taka gildi um áramótin. Þá hafi stofnunin heimild skv. 15. gr. a laga nr. 100/1952, um íslenskan ríkisborgararétt, til að óska eftir rannsókn á erfðaefni og töku lífsýnis til rannsókna.
    Meiri hlutinn tekur undir sjónarmið um nauðsyn þess að Þjóðskrá Íslands hafi heimild til vinnslu heilsufarsupplýsinga til að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Meiri hlutinn bendir einnig á að ekki er um óhefta heimild að ræða heldur er hún ávallt afmörkuð í öðrum lögum. Þar er skýrt kveðið á um hvaða heilsufarupplýsingar heimilt er að vinna með.

Vinnsluheimildir sveitarfélaga.
    Samband íslenskra sveitarfélaga benti á að sveitarstjórnir fara með lögbundið hlutverk samkvæmt lögum um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962, en skv. 2. gr. þeirra laga starfa sveitarstjórnir auk Þjóðskrár Íslands að almannaskráningu. Sveitarfélög komi þannig að því að byggja upp þær ólíku skrár sem Þjóðskrá er ætlað að halda samkvæmt lögum um Þjóðskrá Íslands, nr. 70/2018. Nauðsynlegt sé að tryggja að nýjar reglur um persónuvernd raski ekki þessu hlutverki sveitarfélaga. Að mati meiri hlutans er brýnt að sveitarfélög geti sinnt sínu lögbundna hlutverki að þessu leyti en jafnframt að slík upplýsingaöflun og vinnsla fari ekki fram úr því sem nauðsyn krefur. Meiri hlutinn leggur því til að á eftir 4. gr. frumvarpsins komi ný grein þess efnis að sveitarfélögum sé heimil vinnsla persónuupplýsinga sem hinn skráði eða Þjóðskrá skv. 3. gr. laganna leggur í té í þeim tilgangi að sinna lögbundnu hlutverki sínu samkvæmt lögunum.

Vinnsluheimildir Jöfnunarsjóðs.
    Í 10. gr. er mælt fyrir um heimild Jöfnunarsjóðs til vinnslu persónuupplýsinga, þar á meðal viðkvæmra persónuupplýsinga um fatlanir og þroskaraskanir einstaklinga sem njóta þjónustu sveitarfélaga og um þarfir nemenda sem þurfa á sérfræðiaðstoð að halda í grunnskólum sveitarfélaga, sem og aðrar slíkar upplýsingar, í þeim tilgangi að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Persónuvernd gagnrýndi orðalagið „öðrum slíkum upplýsingum“ en stofnunin telur þar um að ræða svo óljósa tilgreiningu á hvaða persónuupplýsingar vinna megi með að hún fullnægi ekki þeim kröfum sem gera verði til lagaheimildar til vinnslu slíkra upplýsinga, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs og 2. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, sbr. b-lið 2. mgr. 9. gr. reglugerðar ESB 2016/679. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og leggur til að tilgreind orð falli brott úr 10. gr.

Lögheimili og aðsetur.
    Meiri hlutinn leggur til nýtt ákvæði í lög um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018, samhljóða 4. gr. frumvarpsins, svo tryggt verði að Þjóðskrá geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu samkvæmt lögunum.
    Lög um lögheimili og aðsetur öðlast gildi 1. janúar 2019 að undanskildum tveimur ákvæðum sem taka gildi 1. janúar 2020. Annað þeirra, 3. mgr. 2. gr., kveður á um að lögheimili skuli skráð í tiltekinni íbúð eða eftir atvikum húsi, við tiltekna götu eða í dreifbýli, sem er skráð sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands og hefur staðfang. Nefndinni var bent á að með því að fresta gildistöku þessa ákvæðis yrði hugsanlega unnt að skrá lögheimili í húsnæði öðru en íbúðarhúsnæði. Frestun gildistökunnar átti eingöngu að taka til skráningar niður á tilteknar íbúðir. Til að leiðrétta þetta og tryggja rétta skráningu leggur meiri hlutinn til bráðabirgðaákvæði við lögin sem gildir þá að gildistöku 3. mgr. 2. gr. 1. janúar 2020.

Almennt.
    Bent var á að betur færi á því að nota hugtakið samgöngumannvirki en þjóðvegir í 8. gr. frumvarpsins sem lýtur að breytingu á lögum um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála, nr. 120/2012. Vegagerðinni sé falið að annast um öll samgöngumannvirki sem falla undir ábyrgðarsvið hennar lögum samkvæmt. Í dag séu það aðallega þjóðvegir en einnig Landeyjahöfn. Þá sé ekki unnt að útiloka að breytingar verði þar á í framtíðinni. Meiri hlutinn leggur því til breytingu á 8. gr. frumvarpsins í þá veru auk smávægilegrar breytingar lagatæknilegs eðlis.
    Meiri hlutinn tekur fram að um nauðsynlega lagabreytingu er að ræða svo að gildandi réttur uppfylli kröfur nýrrar persónuverndarlöggjafar en að mati meiri hlutans er brýnt að gætt sé að réttindum einstaklings í hvívetna.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Rósa Björk Brynjólfsdóttir framsögumaður var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 13. desember 2018.

Jón Gunnarsson,
1. varaform.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, frsm. Ari Trausti Guðmundsson.
Jón Þór Þorvaldsson. Líneik Anna Sævarsdóttir. Vilhjálmur Árnason.