Ferill 316. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 754  —  316. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Margréti Tryggvadóttur um undanþágur vegna starfsemi skóla.


     1.      Hafa verið veittar undanþágur frá rekstrarleyfum grunn- og framhaldsskóla vegna:
       a.      skólabókasafna,
       b.      salerna,
       c.      annars aðbúnaðar?

    Samkvæmt 20. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008, ber sveitarfélögum að sjá til þess að í grunnskólum sé gert ráð fyrir skólasafni eða tryggja með öðrum hætti aðgang nemenda að þjónustu slíks safns sem skal vera upplýsingamiðstöð fyrir nemendur og kennara. Það skal búið bókum og nýsigögnum auk annars safnkosts sem tengist námsgreinum og námssviðum aðalnámskrár grunnskóla. Þá segir jafnframt að grunnskólahúsnæði og skólalóðir skuli uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í lögum um grunnskóla, lögum um vinnuvernd og aðalnámskrá grunnskóla. Húsnæði og allur aðbúnaður á að taka mið af því að tryggja öryggi og vellíðan nemenda og starfsfólks, svo sem hvað varðar hentugan húsbúnað, hljóðvist, lýsingu og loftræstingu. Í reglugerð um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða nr. 657/2009 með síðari breytingum segir m.a.: „Húsnæði og skólalóðir skulu uppfylla kröfur laga nr. 91/2008 um grunnskóla, reglugerðar þessarar, aðalnámskrár grunnskóla og laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustu og öryggi á vinnustöðum. Einnig ber að uppfylla kröfur heilbrigðis- og byggingaryfirvalda til slíkra mannvirkja. Húsnæði, skólalóð og allur aðbúnaður þarf að vera þannig úr garði gerður að unnt sé að ná markmiðum laga um grunnskóla og aðalnámskrá grunnskóla. Er þar sérstaklega átt við að nemendum og starfsfólki skóla sé tryggt öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi sem skapar öryggi og vellíðan þeirra svo sem varðandi hentugan húsbúnað, hljóðvist og lýsingu, fjölbreytni í náms- og leikaðstöðu og annan búnað.“
    Samkvæmt 39. gr. a laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, skal í öllum framhaldsskólum gera ráð fyrir skólasafni eða tryggja með öðrum hætti aðgang nemenda að þjónustu slíks safns. Hvað varðar rekstrarleyfi þá fjallar III. kafli sömu laga um aðra skóla en opinbera á framhaldsskólastigi og skilyrði fyrir viðurkenningu til kennslu á framhaldsskólastigi. Þar kemur m.a. fram það skilyrði að kennsla fari fram í skólahúsnæði sem uppfyllir lög og reglugerðir þar að lútandi. Jafnframt er í reglugerð nr. 426/2010 um viðurkenningu einkaskóla á framhaldsskólastigi tekið fram að skilyrði sé að starfsaðstaða skólans sé fullnægjandi að mati ráðuneytisins.
    Ekki er í framangreindu regluverki gert ráð fyrir að unnt sé að veita undanþágur og því hafa af hálfu mennta- og menningarmálaráðuneytis ekki verið veittar neinar undanþágur vegna skólabókasafna, salerna eða annars búnaðar. Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur ekki upplýsingar um hvort undanþáguheimildir séu í kröfum heilbrigðis- og byggingaryfirvalda eða Vinnueftirlitsins hvað varðar salerni í skólum og þá hvort þær hafi verið veittar.

     2.      Hvaða skólar hafa fengið slíkar undanþágur frá árinu 2003 og hversu lengi gilda þær?
    Með vísan til svars við fyrri tölulið þessarar fyrirspurnar þá hafa engir skólar fengið undanþágu á grundvelli laga um grunnskóla né framhaldsskóla.