Ferill 313. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 786  —  313. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Willum Þór Þórssyni um kennitöluflakk.


     1.      Hefur umfang kennitöluflakks á Íslandi verið kannað á vegum stjórnvalda og ef svo er, hversu umfangsmikið er það miðað við fjölda kennitala og fjárhæða á árunum 2012– 2017? Í hvaða atvinnugrein var mest um kennitöluflakk og hvar minnst á árunum 2012– 2017? Svör óskast sundurliðuð eftir árum.
    Ekki liggur fyrir lagaleg skilgreining á hugtakinu „kennitöluflakk“ en það er oftast notað um ákveðna misnotkun eigenda atvinnurekstrar í skjóli takmarkaðrar ábyrgðar. Felst það í stofnun nýs félags í sama atvinnurekstri til að losa undirliggjandi rekstur undan fjárhagslegum skuldbindingum en viðhalda samt eignum. Tjónið felst gjarnan í því að félög fara í gjaldþrot með skuldum í formi skatta, lífeyrissjóðsgjalda og gjalda úr Ábyrgðasjóði launa, svo og við birgja og aðra kröfuhafa, m.a. launþega.
    Fyrir nokkru kannaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið leiðir til þess að greina umfang kennitöluflakks á Íslandi. Leitað var til Hagstofu Íslands, ríkisskattstjóra og fyrirtækjaskrár, tollstjórans í Reykjavík og Ábyrgðasjóðs launa. Engin þessara stofnana né aðrar stofnanir safna tölulegum upplýsingum um eignarhald á félögum og hverjir standa þar að baki. Meðan slíkar upplýsingar liggja ekki fyrir er erfitt um vik að leggja mat á umfang vandans. Að auki þyrfti að tengja saman upplýsingar um eignarhald félags við skuldir og eignir þess svo hægt sé að rekja sögu eigenda.
    Sem vísbendingu um þann fjölda sem kom til greina við skoðun á kennitöluflakki má þó vísa til þess að samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands voru alls 9.250 félög tekin til gjaldþrotaskipta á tímabilinu 2003 til 2013, af tæplega 350 þúsund félögum sem voru á skrá á tímabilinu eða hluta þess tíma (sjá mynd 1). Það þýðir að um 2% skráðra félaga verða að meðaltali gjaldþrota á ári hverju. Ef eingöngu er tekið mið af félögum sem greiddu laun á tímabilinu eru gjaldþrotin hins vegar að meðaltali um 6%. Mynd 2 sýnir annars vegar fjölda einstaklinga sem fengu nýja kennitölu til atvinnureksturs frá 2008 til 2012 og hins vegar hlutfall þeirra sem skiptu um kennitölu af nýskráðum félögum á tímabilinu. Alls voru skráð 5.178 ný félög á árunum frá 2008 til 2012, þar af voru 259 einstaklingar að skipta um kennitölu. Það þýðir að um 2% einstaklinga voru að meðaltali að skipta um kennitölu af þeim fjölda kennitalna sem voru teknar í notkun á þessu fimm ára tímabili. Athygli er vakin á því að tölurnar sýna eingöngu félög sem voru með fleiri en fimm starfsmenn í vinnu hjá sér. Þar með vantar upplýsingar um smærri félög en mögulega er tíðni á breytingu kennitölu hærri þar en hjá stærri félögum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Ekki er hægt að álykta að allir þeir sem skiptu um kennitölu hafi gert slíkt í þeim tilgangi að losna við skuldir en myndin sýnir þó þann fjölda fyrirtækja með fleiri en fimm starfsmenn sem kæmi til álita vegna kennitöluflakks.

     2.      Hefur verið unnt að meta hversu miklum skatttekjum ríkissjóður hefur orðið af vegna kennitöluflakks og ef svo er, hvert er þá árlegt tap ríkissjóðs vegna þess á árunum 2012– 2017?
    Ekki liggja fyrir upplýsingar um hversu miklum skatttekjum ríkissjóður hefur orðið af vegna kennitöluflakks eða hvert er þá árlegt tap ríkissjóðs vegna þess. Þess má geta að í skýrslu starfshóps um umfang skattundanskota og tillögur til aðgerða, frá 20. júní 2017, er kafli um kennitöluflakk en þar er þó ekki að finna fjárhagslegt mat á tapi vegna þess. Þar kemur fram það álit starfshópsins „að greina þurfi umfang vandans áður en ráðist verði í aðgerðir og ákveðið hve langt þurfi að ganga til að koma í veg fyrir framangreinda misnotkun á kerfinu.“

     3.      Hefur samfélagslegt fjárhagstap vegna kennitöluflakks verið metið á vegum ráðuneytisins og ef svo er, hvernig var því mati háttað og hvert var tapið á árunum 2012–2017, hvert ár fyrir sig?
    Ekki liggja fyrir upplýsingar um samfélagslegt fjárhagstap vegna kennitöluflakks.

     4.      Hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar af hálfu ríkisstjórnarinnar til þess að sporna við kennitöluflakki eins og kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum?
    Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið og dómsmálaráðuneytið hafa undanfarin misseri haft til skoðunar tillögur Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands frá júní 2017 um leiðir til að sporna við kennitöluflakki í atvinnurekstri. Afrakstur þeirrar vinnu eru m.a. drög að frumvarpi sem er í vinnslu og er stefnt að því að leggja það fram á Alþingi í febrúar 2019. Markmið frumvarpsins er að bregðast við misnotkun á hlutafélagaforminu, og að í ákveðnum tilvikum verði unnt að setja einstaklinga í atvinnurekstrarbann.

     5.      Hvaða aðgerðir, þar á meðal lagabreytingar, hafa nú þegar komið til framkvæmda til þess að draga úr kennitöluflakki? Hvert er mat ráðherra á árangri af þeim aðgerðum?
    Á árinu 2016 voru gerðar breytingar á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006, þar sem stigin voru skref til að bæta gagnsæi í viðskiptum, þ.m.t. til að sporna við kennitöluflakki, og bæta skil ársreikninga. Þær breytingar sem voru gerðar eiga m.a. að tryggja að öll félag sem falla undir lögin, m.a. öll hlutafélög og einkahlutafélög hvort sem þau stunda atvinnurekstur eða ekki, skili ársreikningi til ársreikningaskrár til opinberrar birtingar. Með bættum skilum á ársreikningum fæst betri yfirsýn yfir félög og starfsemi einstakra félaga sem stuðlar að gagnsæi í viðskiptum. Lagabreytingin hefur haft þau áhrif að ársreikningar berast ársreikningaskrá mun fyrr og betur en verið hefur. Á árinu 2017 voru einnig gerðar breytingar á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, og lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994, sem liður í því að stemma stigu við misnotkun á félagaforminu en þær breytingar lúta að heimild til að greiða hlutafé við stofnun hlutafélags og einkahlutafélags með kröfu á hendur stofnendum, missi hæfis stjórnarmanna og framkvæmdastjóra hlutafélaga og einkahlutafélaga til setu í stjórn og til að gegna starfi framkvæmdastjóra og afskráningu stjórnarmanna og framkvæmdastjóra úr hlutafélagaskrá í slíkum tilvikum, sem og að skráning stjórnarmanna og framkvæmdastjóra skuli standa óbreytt í hlutafélagaskrá eftir að héraðsdómari hefur kveðið upp úrskurð um að bú félagsins verði tekið til skipta. Mikilvægt er að hlutafélagaskrá geti afskráð einstaklinga sem missa hæfi sem stjórnarmenn og framkvæmdastjórar sem og hafnað skráningu tilkynninga um breytingu á stjórn og framkvæmdastjóra eftir að kveðinn hefur verið upp úrskurður um að bú hlutafélags hafi verið tekið til skipta.