Ferill 402. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 792  —  402. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Bryndísi Haraldsdóttur um brennslu svartolíu og afgas skipavéla.


     1.      Hver er stefna ráðuneytisins þegar kemur að brennslu svartolíu, og vörnum gegn mengun af hennar völdum? Er bann við notkun svartolíu fyrirhugað?
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna er stefnt að almennu banni við notkun á svartolíu í efnahagslögsögu Íslands. Í september síðastliðnum setti ríkisstjórnin fram „Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum 2018–2030 “. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kom að áætluninni og styður hana. Í aðgerðaáætluninni er m.a. sett fram áætlun um hvernig á að draga úr notkun svartolíu og nota aðra orkugjafa í hennar stað. Þar segir:
            
        Stefnt er að minnkun á svartolíunotkun við strendur Íslands með breytingum á lögum og/eða reglugerðum með það að markmiði að fasa notkun svartolíu endanlega út. Slíkt er í samræmi við ákvæði í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna um að stefna að því að banna notkun svartolíu í efnahagslögsögu Íslands. Málið verður skoðað í samhengi við alþjóðaskuldbindingar, svo sem á vettvangi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) og Norðurskautsráðsins. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna er stefnt að banni við notkun svartolíu í efnahagslögsögu Íslands. Samkvæmt nýlegri greinargerð sem Umhverfisstofnun gerði fyrir umhverfis- og auðlindaráðuneytið er snúið að ná fram algjöru banni við notkun svartolíu í efnahagslögsögu Íslands þar sem slíkt þarf samþykki IMO. Íslensk stjórnvöld geta hins vegar sett einhliða reglur um takmarkaðra bann, sem næði til 12 mílna landhelgi eða til hafna og nærsvæða og fjarða.

    Íslenski fiskiskipaflotinn notar aðallega skipagasolíu (MGO) og skipadísilolíu (MDO) sem eldsneyti á aðalvélar fiskiskipa. Þó brenna nokkur skip svartolíu (HFO) en svartolían er gjarnan notuð á stærri og aflmeiri skipavélar. Svartolían er mun þykkari og hefur meiri seigju en skipagasolían. Hún er minna hreinsuð og inniheldur meira magn af brennisteini, eða allt að 4,5%. Þá getur svartolían verið allt að 30% ódýrari en skipagasolía og skipadísilolía. Svartolían er því einkum áhugaverður kostur fyrir útgerðir stærri skipa með eyðslufrekar aðalvélar.
    Þeim skipum fer heldur fækkandi sem nota svartolíu. Ástæðan er tvíþætt. Annars vegar hefur dregið úr þessum verðmun undanfarið. Auk þess fer venjuleg dísilolía mun betur með aðalvélar skipa en svartolían og því kjósa útgerðir frekar að nota dísilolíu til að spara viðhald vélanna. Að síðustu hefur aukin umhverfisvitund útgerðarfyrirtækja mikið að segja þegar kemur að vali á eldsneyti á aðalvélar.
    Við bruna á skipagasolíu og svartolíu verða til ýmsar lofttegundir sem berast með afgasinu út í andrúmsloftið. Sumar þeirra eru hættulegar heilsu manna og hafa neikvæð áhrif á umhverfið. Við bruna svartolíu eru það aðallega sótagnir (PM eða Black Carbon) og brennisteinsoxíð (SOx) sem valda mengun. Sótagnirnar skapa mikið vandamál, einkum vegna þess hve skaðlegar þær geta reynst ef þær berast í öndunarfæri fólks. Sótagnir hafa verið vandamál þegar farþegaskip brenna svartolíu í aðalvélum sínum nálægt ströndum landsins og í höfnum en þar brenna þau oft svartolíu til að knýja ljósavélar. Mengun af völdum brennslu á svartolíu er meiri en sú mengun sem myndast við brennslu annarra olíutegunda.
    Þá má benda á að sótagnirnar sem koma frá bruna svartolíu setjast á ísinn í Norður-Íshafinu. Þar draga þær í sig hita sem síðan bræðir ísinn. Þannig eykur brennsla svartolíu áhrif hnattrænnar hlýnunar.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Samanburður á losun helstu afgasefna miðað við svartolíu (HFO), skipagasolíu (MGO), skipadísilolíu (MDO) og fljótandi gas (LNG).


    Samkvæmt viðauka IV við alþjóðasamning um verndun hafsins, MARPOL (MARine POLution), er heimilt að tilgreina sérstök hafsvæði þar sem magn mengandi lofttegunda í afgasi skipa er takmarkað. Þessi hafsvæði eru kölluð ECA-svæði (e. Emission Control Area). Í viðaukanum er tekið á gæðum eldsneytis og brennslu þess í skipavélum. Með ákvæðum hans eru sett takmörk á leyfilegt magn brennisteins í eldsneyti og brennisteinsoxíða (SOx) í afgasi. Þau svæði sem tilgreind hafa verið eru Eystrasaltið og Norðursjórinn ásamt strandlengju Bandaríkjanna. Ísland fullgilti viðauka VI við MARPOL 22. nóvember 2017. Viðaukinn tók gildi hér á landi 22. febrúar 2018.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Hvað brennisteinsefnin varðar þá hefur Alþjóðasiglingamálastofnunin (IMO) sett reglur, byggðar á viðauka VI í MARPOL, um leyfilegt magn þeirra í því eldsneyti sem skipavélar brenna. Þar er leyfilegt hámark brennisteins í eldsneyti 0,1% frá byrjun árs 2015. Fyrir önnur svæði er hámarkið 3,5% til ársins 2020 og eftir það 0,5% hámark fyrir innihald brennisteins í eldsneyti.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    
Eins og sést hér að framan er útlosun óæskilegra efna í afgasi skipavéla langmest í svartolíu (HFO). Til samanburðar er hér einnig innlend repjuolía (repjudísill) sem framleidd er úr íslenskum orkujurtum en útgerðarfyrirtæki hér á landi hyggjast nota repjuolíu, sem ræktuð er á þeirra vegum, sem eldsneyti.
    Árið 2016 sigldu 856 skip um íslensku efnahagslögsöguna og sum þeirra oftar en einu sinni. Flest þessara skipa voru fiskiskip eða 371. Öll skipin (nema eitt) notuðu dísilolíu af fjórum mismunandi tegundum. Dísiltegundunum er skipt niður eftir seigju eða hve þykkar og hreinar olíurnar eru og er mælingin í cSt (centistoke) sem segir til um rennslið.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Alls 220 skip sem sigldu í íslensku efnahagslögsögunni 2016 notuðu svartolíu á aflvélar sínar. Það samsvarar 26% skipanna. Sama ár nam heildarnotkun eldsneytis úr jarðolíu innan íslensku efnahagslögsögunnar alls 167.790 tonnum. Þar af voru 54.068 tonn svartolía (HFO), eða 32% af heildarmagninu.
    Af þessum 856 skipum voru 79 farþegaskip. Af þeim keyrðu 31 á 16.913 tonnum af svartolíu (HFO 180/380). Einnig brenndu 12 gámaskip um 14.624 tonn af sömu svartolíunni. Tvö fiskiskip brenndu 444 tonnum. Þetta þýðir að mun meiri losun sótagna varð en ef skipin hefðu notað skipagasolíu.
    Þar sem mengun af svartolíu er mun meiri en til dæmis af skipagasolíu ber að stefna að útfösun þessa orkugjafa. Til að viðauki VI í MARPOL teljist uppfylltur má brennisteinsinnihald svartolíu ekki fara yfir 0,1%. Svartolía með svo lágt brennisteinsinnihald er vart í boði í dag.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Eldsneytissala á Íslandi eftir eldsneytistegundum, olía (Orkuspárnefnd).

    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Spá um notkun olíu eftir tegundum 2016–2050 ásamt rauntölum áranna 2000–2015 (Orkuspárnefnd).


    Upplýsingar frá Orkuspárnefnd gera ráð fyrir útfösun svartolíu að verulegu leyti frá árinu 2021 en á sama tíma muni hlutur nýrra orkugjafa aukast til muna .

     2.      Hafa verið rannsakaðar, innan ráðuneytisins eða stofnana þess, leiðir til að takmarka sótagnir í afgasi skipavéla?
    Samgöngustofa hefur rannsakað leiðir til að takmarka sótagnir í afgasi skipa. Niðurstöður þeirra hafa verið birtar á vef Samgöngustofu. *
    Hér er bæði um að ræða rannsóknir á afgasi sem og rannsóknir á repjuræktun til skipaeldsneytis. Rannsóknir á afgashreinsun sýna að með vothreinsun á afgasi frá aðalvélum skipa má minnka útlosun sótagna um 90% og brennisteinsoxíða (SOx) um 98%. Á það einnig við um hreinsun á afgasi af bruna svartolíu. Sama niðurstaða fæst þegar úrefnum hefur verið blandað í hreinsivökvann.
    Önnur aðferð til að hreinsa sótagnir úr afgasi skipavéla er vatnsfleyting. Þegar henni er beitt er vatni fleytt inn með olíunni rétt áður en hún fer inn í brennsluhólf vélarinnar. Þessi aðferð ein og sér hefur minni hreinsunaráhrif en hin fyrri en séu báðar aðferðirnar eru notaðar, þ.e. vatnsfleyting og einföld afgashreinsun, hreinsast svo til allt sót úr afgasinu, sem og öll brennisteinsoxíð. Gildir þá einu hvort skipavélin brenni skipagasolíu eða svartolíu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér eru sýndar mismunandi hreinsunaraðferðir á afgasi frá aðalvélum skipa.


     3.      Hvað eru mörg skip á íslenskri skipaskrá sem eru með svokallaðan afgashreinsibúnað þar sem sótagnir í afgasi frá vélum skipa eru hreinsaðar, t.d. með vothreinsun? Eru einhverjar aðgerðir fyrirhugaðar sem skylda skip til að nýta slíkan búnað?

    Með fullgildingu viðauka VI í MARPOL og gildistöku hans hér á landi þurfa útgerðir sem brenna svartolíu að uppfylla ákvæði hans hvað varðar kröfur um útlosun á sótögnum og brennisteinsoxíðum. Brenni skip skipagasolíu með allt að 0,1% brennisteinsinnihaldi hafa þau uppfyllt þau ákvæði viðaukans.
    Flest þeirra fiskiskipa sem smíðuð hafa verið fyrir íslenskar útgerðir síðustu ár hafa svokallaðan afgashreinsibúnað. Í heildina eru þessi skip sjö talsins. Einnig er vitað að bæði Eimskip og Samskip sýna nýjum skipum með afgashreinsibúnað mikinn áhuga og munu að öllum líkindum nota þannig skip í framtíðinni.
    Ekki er fyrirhugað að setja sérstakar íslenskar reglur um notkun á afgashreinsibúnaði en íslensk stjórnvöld fylgjast vel með þróun alþjóðlegra reglna á þessu sviði sem stefnir í þá átt að slíkur búnaður verði gerður að skyldu í framtíðinni. Á vettvangi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) eru komnar fram hugmyndir um að setja í reglur ákvæði um afgashreinsibúnað í öll skip.
    Eitt af verkefnunum sem Ísland mun standa að á vettvangi Norðurskautsráðsins og PAME (Protection of the Arctic Marine Environment) byggist á niðurstöðum Samgöngustofu úr verkefninu „Hreinsun óæskilegra lofttegunda og sótagna úr afgasi skipavéla“. Ísland mun taka við formennsku í Norðurskautsráðinu árið 2019 og eitt af meginverkefnum ráðsins mun snúast um að draga úr notkun svartolíu og sótugum útblæstri á hafsvæðinu sem telst til Norðurskautsins.
    Önnur leið til að minnka sót í afgasi skipavéla er að brenna repjuolíu. Við brennslu á repjuolíu myndast svo til ekkert sót, engin brennisteinsoxíð og við ræktun repjunnar verður tvöföld koldíoxíðjöfnun.
    Eitt útgerðarfyrirtæki á Höfn í Hornafirði, Skinney-Þinganes, hefur hafið ræktun á repju þar sem stefnt er að því að fullnýta allar afurðir sem falla til við ræktunina og olíuvinnsluna. Olían verður nýtt sem eldsneyti, repjuhratið sem fóðurmjöl, enda er það næringarríkt. Hálmurinn verður borinn undir nautgripi og síðan ekið á völl sem áburði.



*     www.samgongustofa.is/siglingar/skrar-og-utgafa/umhverfisvaenir-orkugjafar/