Ferill 378. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 802  —  378. mál.




Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Helga Hrafni Gunnarssyni um kostnað við hækkun ellilífeyris.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hver yrði árlegur viðbótarkostnaður ríkissjóðs við almannatryggingakerfið ef ellilífeyrir skv. 17. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, yrði hækkaður svo að samtala ellilífeyris og heimilisuppbótar til ellilífeyrisþega skv. 8. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, yrði 420.000 kr. mánaðarlega?

    Í fyrirspurninni er óskað eftir upplýsingum um viðbótarkostnað ríkissjóðs ef ellilífeyrir skv. 17. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, sem nú er 239.484 kr. á mánuði, sbr. 23. gr. sömu laga, yrði hækkaður svo að samtala ellilífeyris og heimilisuppbótar til ellilífeyrisþega skv. 8. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, yrði 420.000 kr. mánaðarlega. Hér er með öðrum orðum gert ráð fyrir að ellilífeyrir hækki um 120.000 kr. á mánuði og verði 359.484 kr. á mánuði og að fjárhæð heimilisuppbótar verði óbreytt, 60.516 kr. á mánuði.
    Viðbótarkostnaður ríkissjóðs við þessa breytingu er áætlaður 48.459 millj. kr. á ári og er þá ekki gert ráð fyrir breytingum á frítekjumörkum eða skerðingarhlutföllum vegna framangreindra bótaflokka.
    Tekið skal fram að hér er einungis um að ræða kostnaðarauka vegna þeirra ellilífeyrisþega sem þegar hafa sótt um eða fá greiddan ellilífeyri hjá Tryggingastofnun ríkisins. Það eru um 6.000 einstaklingar, 67 ára og eldri, búsettir á Íslandi sem ekki hafa sótt um ellilífeyri frá stofnuninni. Reikna má með að hluti þessa hóps hafi ekki sótt um ellilífeyri vegna þess að tekjur þeirra séu of háar til að þeir eigi rétt á ellilífeyri frá almannatryggingum. Ef fjárhæð ellilífeyris yrði hækkuð en aðrar reglur héldust óbreyttar þá leiddi það til hækkunar þeirra tekna sem valda því að bótaréttur fellur niður vegna tekna. Það gæti haft þau áhrif að einhverjir úr þessum hópi sem ekki eiga rétt á ellilífeyri núna vegna tekna mundu öðlast rétt til greiðslna. Ekki er gert ráð fyrir þeim kostnaði hér að framan og erfitt að áætla hversu hár hann yrði.