Ferill 401. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 805  —  401. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Gunnari Braga Sveinssyni um lyfjanotkun í matvælaframleiðslu.


     1.      Hefur starfshópur, sem skipaður var í janúar árið 2017 til að móta hvernig upplýsingagjöf til neytenda um sýklalyfjanotkun við matvælaframleiðslu skyldi háttað, skilað niðurstöðum og hverjar voru tillögur starfshópsins? Hvað tefur ef hann hefur ekki enn skilað niðurstöðum?
    Hinn 28. febrúar 2017 skipaði þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra starfshóp um miðlun upplýsinga um lyfjanotkun við framleiðslu afurða úr dýraríkinu. Gert var ráð fyrir að starfshópurinn skilaði tillögum til ráðherra fyrir 1. júlí 2017. Starf hópsins gekk hins vegar ekki eftir eins og til stóð. Í janúar 2018 hafði hópurinn einungis fundað tvisvar sinnum og vinnunni miðaði ekki áfram. Því var ákveðið að leggja hópinn niður. Sú ákvörðun var tilkynnt meðlimum hópsins með bréfi, dags. 23. janúar 2018.

     2.      Telur ráðherra að upplýsa eigi neytendur um lyfjanotkun í matvælaframleiðslu? Hvernig telur ráðherra best að koma þeim upplýsingum til neytenda? Hyggst hann beita sér fyrir því að lögum verði breytt í þessu skyni?
    Ríkisstjórnin ætlar að tryggja betur rétt neytenda til upplýsinga um uppruna, framleiðsluhætti, lyfjanotkun og umhverfisáhrif. Málefni þessi eru til skoðunar innan ráðuneytisins og hefur ráðherra fundað með hagsmunaaðilum. Til skoðunar er hvernig megi sem best tryggja aðgengi neytenda að framangreindum upplýsingum. Að svo stöddu stendur ekki til að leggja til að gerðar verði breytingar á lögum í þessu skyni.

     3.      Ef leitt yrði í lög að merkja skyldi umbúðir með upplýsingum um lyfjanotkun við framleiðslu vöru, í hvaða lögum ætti slík breyting heima?
    Fjallað er um merkingar matvæla í lögum um matvæli, nr. 93/1995, og reglugerðum sem settar hafa verið á grundvelli þeirra laga. Þá er rétt að geta þess að reglur um merkingar matvæla falla undir gildissvið EES-samningsins og hefur reglugerð ESB nr. 1169/2011 um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda verið innleidd hér á landi með reglugerð nr. 1294/2014. Yrði sú leið farin að settar yrðu reglur um merkingar um lyfjanotkun við framleiðslu matvæla af dýrauppruna þyrfti því að gæta að því að í þeim felist ekki tæknilegar hindranir í andstöðu við EES-samninginn.

     4.      Ef leitt yrði í lög að upplýsa skyldi með skýrum og áberandi hætti í verslunum um lyfjanotkun við framleiðslu vöru, í hvaða lögum ætti slík breyting heima?
    Sjá svar við 3. tölul. fyrirspurnarinnar.