Ferill 431. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 813  —  431. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um húsaleigu framhaldsskóla.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hversu mikið hækkaði húsaleiga framhaldsskóla á árinu 2018? Hversu mikið jukust fjárveitingar til húsaleigu framhaldsskóla það ár? Svar óskast sundurliðað eftir skólum.

    Í kjölfar efnahagshrunsins þrengdi mjög að fjárhag stofnana og náðist samkomulag við Ríkiseignir um tímabundna 12% lækkun á skólahúsnæði frá árinu 2010. Í apríl 2017 tilkynntu Ríkiseignir leigutökum sínum að frá og með 1. janúar 2018 yrði afsláttur felldur niður og leiga innheimt samkvæmt gildandi samningum. Miðað við þetta átti húsaleiga hjá framhaldsskólum að hækka um alls 258,8 millj. kr. á ársgrundvelli á árinu 2018.
    Mennta- og menningarmálaráðuneytið fór þess á leit við fjármála- og efnahagsráðuneytið að afnám 12% afsláttarins yrði bætt stofnunum með einhverjum hætti þar sem ekki var gert sérstaklega ráð fyrir hækkun útgjalda vegna leigugreiðslna í fjármálaáætlun og fjárlagagerð fyrir árið 2018. Því hefði ráðstöfunin haft töluverð áhrif á stofnanirnar, sér í lagi framhaldsskóla. Fjármála- og efnahagsráðuneytið sagði að það væru margvísleg rök fyrir afnámi afsláttar og sagði að frá upphafi hefði verið ljóst að um tímabundna ráðustöfun væri að ræða og að stofnanir þyrftu á einhverjum tímapunkti að greiða fullt leiguverð án afsláttar. Afslátturinn hefur m.a. skert þá fjármuni sem til ráðstöfunar eru til viðhalds- og endurnýjunar á húsnæði ríkisstofnana, en brýnt er orðið að ráðast í margar slíkar framkvæmdir. Þrátt fyrir framangreint var fjármála- og efnahagsráðuneytið tilbúið að fallast á að framhaldsskólar nytu á árinu 2018 ígildis helmings þess afsláttar sem áður var í gildi, eða 6%, en afnám afsláttar gilti áfram fyrir aðrar stofnanir sem og fyrir allar stofnanir á árinu 2019. Með því móti taldi fjármála- og efnahagsráðuneytið sig koma til móts við beiðni mennta- og menningarmálaráðuneytisins en lagði áherslu á að um einskiptisráðstöfun væri að ræða sem einskorðaðist við framhaldsskóla. Hækkun á húsaleigu hjá framhaldsskólum á árinu 2018 var því 129,4 millj. kr., sjá sundurliðun eftir skólum í meðfylgjandi töflu.
    
Framhaldsskólar með leigusamning við Ríkiseignir 6% hækkun
Kvennaskólinn í Reykjavík 3.236.551
Menntaskólinn í Reykjavík 3.933.262
Tækniskólinn 14.402.062
Menntaskólinn við Sund/Vogaskóli 5.019.860
Menntaskólinn við Hamrahlíð 6.619.146
Fjölbrautaskólinn við Ármúla 5.356.328
Fjölbrautaskólinn í Breiðholti 7.396.272
Fjölbrautaskólinn í Garðabæ 3.657.288
Borgarholtsskóli 6.883.551
Flensborgarskólinn í Hafnarfirði 5.112.935
Menntaskólinn í Kópavogi 6.514.220
Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ 2.605.442
Fjölbrautaskóli Suðurnesja 5.904.222
Fjölbrautaskóli Vesturlands 5.210.912
Menntaskólinn á Ísafirði 3.447.566
Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra 5.030.773
Menntaskólinn á Akureyri 4.390.034
Verkmenntaskólinn á Akureyri 9.382.188
Framhaldsskólinn á Húsavík 1.093.648
Framhaldsskólinn á Laugum 4.196.394
Menntaskólinn á Egilsstöðum 3.770.707
Verkmenntaskóli Austurlands 3.080.871
Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum 2.040.619
Fjölbrautaskóli Suðurlands 6.353.454
Menntaskólinn við Laugarvatn 4.758.468
Samtals 129.396.773

    Miðað við fjárveitingar til framhaldsskóla í fjárlögum 2017 er meðalverð á hvern nemanda 1,3 millj. kr. og í fjárlögum 2018 er meðalverðið 1,4 millj. kr. Hér er um 8,5% hækkun að ræða á verðlagi hvors árs en 6,5% að raunvirði.
    Í fjárlögum 2017 voru fjárheimildir til málefnasviðs 20 Framhaldsskólar 30.298 millj. kr. og í fjárlögum 2018 voru fjárheimildir 31.589 millj. kr. eða hækkun um 1.291 millj. kr. Ef tekið er tillit til 129.396.773 kr. hækkunar vegna leigu er hækkun milli áranna 2017 og 2018 um 1.161 millj. kr. á verðlagi hvors árs. Á föstu verðlagi er hækkunin 635 millj. kr.
    Ekki var gert ráð fyrir sérstakri hækkun á fjárveitingum til húsaleigu vegna afnáms afsláttar á árinu 2018.