Ferill 530. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 862  —  530. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum til innleiðingar á tilskipun (ESB) 2015/1794 um breytingu á tilskipunum 2008/94/EB, 2009/38/EB, 2002/14/EB, 98/59/EB og 2001/23/EB (um farmenn).

Frá félags- og barnamálaráðherra.


I. KAFLI
Breyting á lögum um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum, nr. 61/1999, með síðari breytingum.
1. gr.

    Við 31. gr. laganna bætist ný málsgrein, sem verður 4. mgr., svohljóðandi:
    Fulltrúar sérstaka samningaráðsins eða samstarfsráðsins sem tilheyra áhöfn hafskips skulu eiga rétt á að taka þátt í fundi ráðanna eða hverjum öðrum fundi samkvæmt fyrirkomulagi sem komið er á skv. 1. mgr. 15. gr. ef þeir eru ekki á sjó eða í höfn í öðru landi en þar sem skipafélagið hefur staðfestu þegar fundurinn fer fram. Hið sama á við um varamenn fulltrúa sérstaka samningaráðsins eða samstarfsráðsins. Þegar mögulegt er skal fundur vera skipulagður þannig að það auðveldi þátttöku fulltrúa eða varamanna sem eru í áhöfn hafskips. Í þeim tilvikum sem fulltrúar sem eru í áhöfn hafskips geta ekki setið fund skal leitast við að nota upplýsinga- og fjarskiptatækni.

2. gr.

    Við 36. gr. a laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Lög þessi eru jafnframt sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2015/1794/ESB frá 6. október 2015 um breytingu á tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2008/94/EB, 2009/38/EB og 2002/14/EB og tilskipunum ráðsins 98/59/EB og 2001/23/EB, um farmenn, sem vísað er til í XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 258/2018 frá 5. desember 2018.

II. KAFLI
Breyting á lögum um upplýsingar og samráð í fyrirtækjum, nr. 151/2006, með síðari breytingum.
3. gr.

    3. mgr. 1. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

    Við 11. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Lög þessi eru jafnframt sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2015/1794/ESB frá 6. október 2015 um breytingu á tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2008/94/EB, 2009/38/EB og 2002/14/EB og tilskipunum ráðsins 98/59/EB og 2001/23/EB, um farmenn, sem vísað er til í XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES nefndarinnar, nr. 258/2018 frá 5. desember 2018.

III. KAFLI
Breyting á lögum um hópuppsagnir, nr. 63/2000.
5. gr.

    B-liður 2. gr. laganna fellur brott.

6. gr.

    Í stað orðsins „svæðisvinnumiðlun“ í 3. gr., 1. mgr. 7. gr., 3. mgr. 7. gr. og 1. og 2. mgr. 8. gr. laganna kemur: Vinnumálastofnun.

7. gr.

    Á eftir 13. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi, og breytist greinatala samkvæmt því:
    Lög þessi eru sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2015/1794/EB frá 6. október 2015 um breytingu á tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2008/94/EB, 2009/38/EB og 2002/14/EB og tilskipunum ráðsins 98/59/EB og 2001/23/EB, um farmenn, sem vísað er til í XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES nefndarinnar, nr. 258/2018 frá 5. desember 2018.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, með síðari breytingum, nr. 72/2002.
8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Lögin gilda einnig um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að hafskipi sem er hluti aðilaskipta að fyrirtæki eða hluta fyrirtækis skv. 1. málsl.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                  Lög þessi gilda ekki um breytingar á skipulagi og starfsháttum stjórnvalds eða tilfærslu á verkefnum milli stjórnvalda.

9. gr.

    Við 9. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Lög þessi eru jafnframt sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2015/1794/EB frá 6. október 2015 um breytingu á tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2008/94/EB, 2009/38/EB og 2002/14/EB og tilskipunum ráðsins 98/59/EB og 2001/23/EB, um farmenn, sem vísað er til í XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES nefndarinnar, nr. 258/2018 frá 5. desember 2018.

V. KAFLI
Gildistaka.
10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 61/1999, um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum, með síðari breytingum, lögum nr. 151/2006, um upplýsingar og samráð í fyrirtækjum, með síðari breytingum, lögum nr. 63/2000, um hópuppsagnir, og lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, með síðari breytingum, vegna innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2015/1794/ESB, frá 6. október 2015, um breytingu á tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2008/94/EB, 2009/38/EB og 2002/14/EB og tilskipunum ráðsins 98/59/EB og 2001/23/EB, um farmenn. Um er að ræða tilskipanir sem allar hafa verið felldar undir Samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samninginn) og innleiddar í íslenskan rétt með lögum. Um er að ræða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/94/EB um vernd til handa launþegum verði vinnuveitandi gjaldþrota, tilskipun 2009/38/EB um stofnun evrópsks samstarfsráðs eða samþykkt reglna í fyrirtækjum og fyrirtækjasamstæðum, er starfa á bandalagsvísu, varðandi upplýsingamiðlun til starfsmanna og samráð við starfsmenn, tilskipun 2002/14/EB um almennan ramma um upplýsingamiðlun til launamanna og samráð við þá innan Evrópubandalagsins og tilskipunum ráðsins, tilskipun 98/59/EB um samræmingu laga aðildarríkjanna um hópuppsagnir og 2001/23/EB um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launamanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta fyrirtækja eða atvinnurekstrar.
    Frumvarpið var samið í velferðarráðuneytinu að höfðu samráði við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. Nánar er fjallað um samráð í 5. kafla.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Megintilefni frumvarpsins er innleiðing á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins, 2015/1794 frá 6. október 2015, um farmenn. Fram kemur í tilskipuninni að aðildarríkin skuli samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipuninni eigi síðar en 10. október 2017. Tilskipun þessi var felld undir EES-samninginn með ákvörðun Sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 258/2018 frá 5. desember 2018. Hafa íslensk stjórnvöld því frest til 6. júní 2019 að innleiða efni hennar í innlendan rétt.
    Frumvarpið er fyrst og fremst komið til vegna breytinga sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn og innleiddar hafa verið í löggjöf hér á landi. Tilskipunin felur meðal annars í sér breytingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/94/EB um vernd til handa launþegum verði vinnuveitandi gjaldþrota þannig að óheimilt er fyrir aðildarríki að undanskilja farmenn gildissviði tilskipunarinnar. Lög nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, með síðari breytingum, voru meðal annars sett til innleiðingar á umræddri tilskipun en íslensku lögin gilda um gjaldþrot fyrirtækja í sjávarútvegi líkt og gert hefur verið í öðrum starfsgreinum. Þótti því ekki nauðsyn að breyta þeim lögum. Hið sama á við um lög nr. 61/1999, um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum, með síðari breytingum, sem innleiddu tilskipun 2009/38/EB, um stofnun evrópsks samstarfsráðs eða samþykkt reglna í fyrirtækjum og fyrirtækjasamstæðum sem starfa á bandalagsvísu varðandi upplýsingamiðlun til starfsmanna og samráð við starfsmenn. Hins vegar kveður tilskipun 2015/1794 ESB á um efnisreglu er varðar sérstakar aðstæður fulltrúa sérstaka samningaráðsins og samstarfsráðsins, eða varamanna þeirra, sem eru í áhöfnum hafskipa og því er lögð til breyting á 31. gr. laganna, sbr. 1. gr. frumvarps þessa.
    Í aðfaraorðum tilskipunarinnar kemur fram að í orðsendingu frá framkvæmdastjórninni frá 21. janúar 2009, sem ber yfirskriftina „Stefnumótandi markmið og tilmæli vegna stefnu Evrópusambandsins í sjóflutningum til ársins 2018", væri lögð áhersla á mikilvægi þess að samþættur lagarammi yrði settur í þeim tilgangi að gera sjávarútveginn samkeppnishæfari. Jafnframt kemur þar fram að fyrir liggi undanþágur, sem ýmist eru valkvæðar eða ekki, og geti þær komið í veg fyrir að farmenn geti nýtt sér að fullu rétt sinn til sanngjarnra og réttlátra vinnuskilyrða, auk réttar til upplýsingamiðlunar og samráðs. Fram kemur að núverandi réttarstaða sé að nokkru tilkomin vegna sérstakra aðstæðna í sjávarútvegi, sem hafi í för með sér að hin ýmsu aðildarríki meðhöndli starfsmenn í sömu starfsstétt með ólíkum hætti, eftir því hvort þau nýta sér undanþágurnar sem gildandi Evrópulöggjöf veitir. Þá kemur fram að umtalsverður fjöldi aðildarríkja hafi ekki nýtt sér þessar valkvæðu undanþágur eða einungis að takmörkuðu leyti.
    Enn fremur er vísað í orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar frá 10. október 2007 sem bar yfirskriftina „Samþætt stefna Evrópusambandsins í málefnum hafsins“ þar sem tekið er fram að stefnan væri byggð á skýrri viðurkenningu á því að öll mál sem tengdust úthöfum og hafsvæðum Evrópu væru tengd og að stefnumál sem tengjast hafsvæðum verði að þróa sameiginlega til að ná megi fyrirhuguðum árangri. Lögð var áhersla á þörfina á að auka fjölda og gæði starfa við siglingar fyrir borgara Evrópusambandsins og mikilvægi þess að bæta vinnuskilyrði um borð, m.a. með því að fjárfesta í rannsóknum, menntun, þjálfun, heilsuvernd og öryggismálum. Tekið er fram að efni tilskipunarinnar sé í samræmi við áætlunina „Evrópa 2020“ og atvinnumarkmið hennar sem og áætlun framkvæmdastjórnarinnar frá 23. nóvember 2010 sem ber yfirskriftina „Áætlun um nýja færni og störf: Framlag Evrópu til atvinnu fyrir alla“.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Meginefni frumvarpsins snertir fyrst og fremst innleiðingu á efni tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2015/1794/ESB, frá 6. október 2015, um breytingu á tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2008/94/EB, 2009/38/EB og 2002/14/EB og tilskipunum ráðsins 98/59/EB og 2001/23/EB, um farmenn.
    Lagt er til að við lög um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum, með síðari breytingum, bætist ný málsgrein þar sem fjallað er um rétt fulltrúa sérstaka samningaráðsins eða samstarfsráðsins, sem og varamanna, sem eru í áhöfn hafskips, til að taka þátt í fundum sérstaks samningaráðs eða samstarfsráðsins eða hverjum öðrum fundum samkvæmt fyrirkomulagi, sem komið er á samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna. Það á þó einungis við ef fulltrúarnir eru ekki á sjó eða í höfn í öðru landi en þar sem skipafélagið hefur staðfestu þegar fundurinn fer fram.
    Auk þess er lagt til að ákvæði í lögum um upplýsingar og samráð í fyrirtækjum, með síðari breytingum, verði fellt brott sem hefur þau áhrif að lög um upplýsingar og samráð í fyrirtækjum, með síðari breytingum, munu gilda um áhafnir hafskipa.
    Með frumvarpinu er lagt til að ákvæði laga um hópuppsagnir, með síðari breytingum, verði fellt brott sem hefur þau áhrif að lög um hópuppsagnir munu gilda um áhafnir skipa sem sigla undir íslenskum fána.
    Þá er lagt til að ákvæði laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, með síðari breytingum, verði fellt brott þannig að lögin eigi við um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að hafskipi sem er hluti aðilaskipta að fyrirtæki eða hluta fyrirtækis innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og í Færeyjum til annars vinnuveitanda á grundvelli framsals eða samruna.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið hefur hvorki gefið sérstakt tilefni til að meta samræmi við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, né aðrar alþjóðlegar skuldbindingar en á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

5. Samráð.
    Frumvarpið var samið í velferðarráðuneytinu í samráði við fulltrúa frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Frumvarpið var einnig sent til umsagnar til Alþýðusambands Íslands, Sjómannasambandsins, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka verslunar og þjónustu sem og Félags skipstjórnarmanna.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið hefur áhrif á fyrirtæki í sjávarútvegi sem gera út skip sem áður hafa verið undanskilin gildissvæði þeirra laga sem verið er að breyta með frumvarpi þessu. Á sama hátt hefur frumvarpið áhrif á stöðu áhafnarmeðlima á viðkomandi skipum. Á það við þegar kemur að hópuppsögnum innan framangreindra fyrirtækja í skilningi laga um hópuppsagnir, upplýsingar og samráð innan fyrirtækjanna þar sem starfa að jafnaði a.m.k. 50 starfsmenn samkvæmt lögum um upplýsingar og samráð í fyrirtækjum og í tilvikum er kemur til aðilaskipta að slíkum fyrirtækjum. Að því er varðar lög um evrópsk samstarfsráð hefur ekki mikið reynt á efni þeirrar tilskipunar hér á landi í ljósi þess um hversu stór fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæður þær gilda en skv. 3. gr. laganna gilda fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæður sem hafa a.m.k. 1.000 starfsmenn í ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu. Með hliðsjón af því og smæðar íslenskra fyrirtækja munu ákvæði frumvarpsins að öllum líkindum ekki koma til framkvæmda hér á landi nema að óverulegu leyti. Ekki er ástæða til að ætla að samþykkt frumvarpsins hafi í för með sér útgjöld fyrir ríkissjóð.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Markmið laga um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum, með síðari breytingum, er að bæta rétt starfsmanna til upplýsinga og samráðs í fyrirtækjum eða fyrirtækjasamstæðum sem starfa í a.m.k. tveimur ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu og eru að ákveðinni stærð. Samkvæmt eldri tilskipun var aðildarríkjum heimilt að undanskilja áhafnir hafskipa gildissviði þeirrar löggjafar sem innleiddi umrædda tilskipun. Það var ekki gert við setningu laganna hér á landi og er því ekki um eiginlega breytingu að ræða að því er varðar farmenn. Tilskipun 2015/1794/ESB breytir eldri tilskipun nr. 2009/38/EB þannig að aðildarríki skuli sjá til þess að ákvæði hennar gildi einnig um áhafnir hafskipa. Því skuli taka tillit til aðstæðna fulltrúa sérstaka samningaráðsins og samstarfsráðsins, eða varamanna þeirra, sem eru í áhöfnum hafskipa. Er því lagt til að við 31. gr. laganna bætist ný málsgrein þar sem fjallað er um rétt fulltrúa sérstaka samningaráðsins eða samstarfsráðsins, sem og varamenn, sem eru í áhöfn hafskipa, til að taka þátt í fundum sérstakra samningaráða eða samstarfsráða eða hverjum öðrum fundum samkvæmt fyrirkomulagi, sem komið er á skv. 1. mgr. 15. gr. laganna. Á það þó einungis við ef fulltrúarnir eru ekki á sjó eða í höfn í öðru landi en þar sem skipafélagið hefur staðfestu þegar fundurinn fer fram. Enn fremur er lagt til að fundur sé skipulagður þannig að það auðveldi þátttöku fulltrúa eða varamanna sem eru í áhöfnum hafskipa þegar mögulegt er. Þá skuli leitast við að nota upplýsinga- og fjarskiptatækni í þeim tilvikum sem fulltrúar sem eru í áhöfn hafskip geta ekki setið umrædda fundi.

Um 2. gr.

    Lög um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum, með síðari breytingum, voru sett til innleiðingar tilskipunar 2009/38/EB um stofnun evrópsks samstarfsráðs eða samþykkt reglna í fyrirtækjum og fyrirtækjasamstæðum, er starfa á bandalagsvísu, varðandi upplýsingamiðlun til starfsmanna og samráð við starfsmenn, sbr. 36. gr. a laganna. Er því lagt til að þeirri grein verði breytt þannig að fram komi í ákvæðinu að með lögunum sé jafnframt innleidd í íslenskan rétt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2015/1794/ESB, frá 6. október 2015, um breytingu á tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2008/94/EB, 2009/38/EB og 2002/14/EB, tilskipunum ráðsins 98/59/EB og 2001/23/EB, um farmenn.

Um 3. gr.

    Í greininni er lagt til að 3. mgr. 1. gr. laganna verði felld brott sem hefur þau áhrif að lög um upplýsingar og samráð í fyrirtækjum, með síðari breytingum, munu gilda um áhafnir hafskipa. Þessi breyting er í samræmi við efni 3. gr. tilskipunar 2015/1794/ESB. Þannig munu sjávarútvegsfyrirtæki sem gera út hafskip og hafa að jafnaði a.m.k. 50 starfsmenn í vinnu þurfa að tryggja rétt starfsmanna sinna til upplýsinga og samráðs í fyrirtækinu í samræmi við ákvæði laganna, sbr. 2. gr. laganna.

Um 4. gr.

    Lög um upplýsingar og samráð í fyrirtækjum, með síðari breytingum, voru sett til innleiðingar tilskipunar 2002/14/EB um almennan ramma um upplýsingamiðlun til launamanna og samráð við þá innan Evrópubandalagsins og tilskipunum ráðsins, sbr. 11. gr. laganna. Er því lagt til að þeirri grein verði breytt þannig að fram komi í ákvæðinu að með lögunum sé jafnframt innleidd í íslenskan rétt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2015/1794/ESB, frá 6. október 2015, um breytingu á tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2008/94/EB, 2009/38/EB, 2002/14/EB, tilskipunum ráðsins 98/59/EB og 2001/23/EB, um farmenn.

Um 5. gr.

    Í greininni er lagt til að b-liður 2. gr. laganna verði felldur brott sem hefur þau áhrif að lög um hópuppsagnir munu gilda um áhafnir skipa sem sigla undir íslenskum fána. Þessi breyting er í samræmi við efni 4. gr. tilskipunar 2015/1794/ESB. Þannig ber fyrirtækjum í sjávarútvegi sem fara með rekstur skipa undir íslenskum fána að fara að ákvæðum laganna um upplýsingar og samráð þegar kemur að hópuppsögnum sem og að tilkynna um þær til Vinnumálastofnunar að höfðu samráði við trúnaðarmenn stéttarfélaga eða, ef ekki hefur verið kjörinn trúnaðarmaður, við annan fulltrúa starfsmanna, sem þeir hafa til þess valið.

Um 6. gr.

    Í greininni er lagt til að í stað orðsins „svæðismiðlun“ í 3. gr., 1. mgr. 7. gr., 3. mgr. 7. gr. og 1. og 2. mgr. 8. gr. laga um hópuppsagnir komi: Vinnumálastofnun.

Um 7. gr.

    Lög um hópuppsagnir voru sett til innleiðingar tilskipunar 98/59/EB um samræmingu laga aðildarríkjanna um hópuppsagnir. Er því lagt til að 14. gr. laganna verði breytt þannig að fram komi í ákvæðinu að með lögunum sé innleidd í íslenskan rétt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2015/1794/ESB, frá 6. október 2015, um breytingu á tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2008/94/EB, 2009/38/EB, 2002/14/EB, tilskipunum ráðsins 98/59/EB og 2001/23/EB, um farmenn.

Um 8. gr.

    Í greininni er lagt til að b-liður 2. mgr. 1. gr. laganna verði felldur brott sem hefur þau áhrif að lög um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, með síðari breytingum, munu einnig gilda um hafskip. Er jafnframt lagt til að tekið verði fram í 1. mgr. sama ákvæðis að lögin eigi við um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að hafskipi sem er hluti aðilaskipta að fyrirtæki eða hluta fyrirtækis innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og í Færeyjum til annars vinnuveitanda á grundvelli framsals eða samruna.

Um 9. gr.

    Lög um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, með síðari breytingum, voru sett til innleiðingar tilskipunar 2001/23/EB um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launamanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta fyrirtækja eða atvinnurekstrar. sbr. 9. gr. laganna. Er því lagt til að greininni verði breytt þannig að fram komi í ákvæðinu að með lögunum sé innleidd í íslenskan rétt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2015/1794/ESB, frá 6. október 2015, um breytingu á tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2008/94/EB, 2009/38/EB, 2002/14/EB og tilskipunum ráðsins 98/59/EB og 2001/23/EB, um farmenn.

Um 10. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.