Ferill 489. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 876  —  489. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Kolbeini Óttarssyni Proppé um stefnu um vistvæn atvinnutæki á svæðum í umsjá stofnana sem heyra undir ráðuneytið.


     1.      Hefur verið mörkuð stefna um að einungis vistvæn atvinnutæki, svo sem fólksflutningabifreiðar, þjónustubifreiðar o.fl., fái að koma á svæði í umsjá stofnana sem heyra undir ráðuneytið með einhverjum hætti, t.d. á opinberum ferðamannastöðum?
    Engin opinber svæði eru í umsjón ráðuneytisins eða stofnana þess. Því hefur ráðuneytið ekki markað slíka stefnu.

     2.      Ef ekki, er áformað að setja slíka stefnu og kynni þá að koma til skoðunar að tilgreina í henni að eftir tiltekinn árafjölda verði óheimilt að aka atvinnutækjum sem knúin eru jarðefnaeldsneyti inn á umrædd svæði?
    Í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum er gert ráð fyrir að eftir árið 2030 verði skráningar þeirra bifreiða ólögmætar sem eingöngu ganga fyrir jarðefnaeldsneyti.

     3.      Hvaða fjárfestingar þyrfti að ráðast í við innviðauppbyggingu yrði slík stefna sett?
    Halda þyrfti áfram að fjárfesta í innviðum fyrir ökutæki sem ganga fyrir öðru en jarðefnaeldsneyti, t.d. í rafhleðslustöðvum. Þess má geta að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra skipuðu starfshóp 28. janúar sl. sem er að vinna áætlun um uppbyggingu innviða til að styðja við orkuskipti í samgöngum. Starfshópurinn greinir núverandi stöðu og forgangsraðar tillögum með hliðsjón af ábata og fjármögnun.