Ferill 364. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 883  —  364. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Karli Gauta Hjaltasyni um fjölda starfsmanna sem vinna við gerð lagafrumvarpa.


    Til þess að varpa ljósi á þau verkefni sem fyrirspurnin lýtur að er rétt að gera grein fyrir því með almennum hætti í hverju vinna við frumvörp og frumvarpsdrög í ráðuneyti felst.
    Að jafnaði hefst undirbúningur lagafrumvarps þannig að frumgreining er unnin vegna úrlausnarefnis sem komið hefur til kasta ráðuneytisins vegna alþjóðlegra skuldbindinga eða vegna stefnumála ráðherra og ríkisstjórnar. Þeirri greiningu er komið á framfæri við ráðherra, t.d. í formi minnisblaðs, ásamt mati á þeim leiðum sem koma til greina. Að því mati koma sérfræðingar ráðuneytisins, eftir atvikum í samvinnu við sérfræðinga annarra ráðuneyta eða stofnana ráðuneytisins, hagsmunaaðila og sérfróða aðila.
    Eftir að ákvörðun um að hefja smíði frumvarpsdraga liggur fyrir og það er sett á þingmálaskrá hefst undirbúningur að gerð lagafrumvarpa í samræmi við samþykkt ríkisstjórnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og stjórnartillagna, sbr. 10. gr. reglna um starfshætti ríkisstjórnar, sem gefnar voru út 10. mars 2017. Fyrsta skrefið að því loknu er innra samráð um svonefnd áform um lagasetningu. Áform eru sett fram á stöðluðu eyðublaði og tiltaka, ásamt öðru, þær leiðir við lagasetningu sem til greina koma og innihalda rökstuðning fyrir þeirri leið sem áformuð er. Jafnframt fylgir áformum svonefnt frummat á áhrifum, þ.e. mat á efnahagslegum áhrifum, áhrifum á fjármál ríkis eða sveitarfélaga, áhrifum á jafnrétti kynjanna, á atvinnulífið o.fl. Áform um lagasetningu eru kynnt ráðuneytisstjórum annarra ráðuneyta.
    Áform um lagasetningu, með þeim breytingum sem orðið hafa í kjölfar innra samráðs, eru síðan sett í opið umsagnarferli í samráðsgátt Stjórnarráðsins, samradsgatt.island.is. Þar geta þeir sem áhuga hafa komið að ábendingum og athugasemdum um áform ráðuneytisins. Tekin er afstaða til þeirra ábendinga sem berast og varða áformuð efnistök frumvarpsdraga.
    Af framangreindu er ljóst að þótt eiginleg lagafrumvörp séu fyrst og fremst unnin af lögfræðingum þá koma aðrir sérfræðingar að samningu minnisblaða og annarra undirbúningsskjala sem tengjast undirbúningi og vinnslu lagafrumvarpa. Aðrir en lögfræðingar koma einnig að mati á áhrifum og samráði um lagasetningaráform og frumvarpsdrög.

     1.      Hversu margir starfsmenn, skipt niður á störf lögfræðinga og annarra, vinna að undirbúningi, samningu, yfirlestri og frágangi lagafrumvarpa í ráðuneytinu? Þess er óskað að tilgreint verði starfshlutfall við verkefnið ef ekki er um fullt starf að ræða.
    Í ráðuneytinu er það hlutverk laga- og stjórnsýsluskrifstofu að annast undirbúning og gerð lagafrumvarpa. Á skrifstofunni eru fimm stöðugildi lögfræðinga og annast þeir slík verkefni í samræmi við efni frumvarps og verksvið þeirra á skrifstofunni. Undirbúningur og gerð lagafrumvarpa fer jafnframt fram í samráði við aðrar skrifstofur ráðuneytisins eftir því sem við á og aðra eins og lýst er í inngangi svarsins.
    Það leiðir af verkefnum utanríkisráðuneytisins að þingmál utanríkisráðherra á hverju löggjafarþingi eru að mestu leyti þingsályktunartillögur vegna fullgildingar eða staðfestingar alþjóðasamninga og ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar, en frumvörp í mun minna mæli en hjá öðrum ráðherrum. Auk þess er það mismunandi frá einu löggjafarþingi til annars hvort utanríkisráðherra leggur fram lagafrumvarp eða ekki. Af þeim sökum er miklum erfiðleikum bundið að leggja sérstakt mat á starfshlutfall lögfræðinga sem sinna undirbúningi og gerð frumvarpa.

     2.      Í hversu miklum mæli byggist vinna við gerð lagafrumvarpa á vegum ráðuneytisins á aðkeyptri vinnu utanaðkomandi sérfræðinga?
    Almennt hafa frumvörp utanríkisráðherra á undanförnum tíu árum verið unnin af starfsmönnum ráðuneytisins. Sérfræðingar hafa verið kallaðir til í einstaka tilvikum til að vinna að undirbúningi og/eða gerð frumvarpa.

     3.      Hversu mikið greiddi ráðuneytið árlega árin 2008–2017 fyrir vinnu utanaðkomandi sérfræðinga við gerð lagafrumvarpa?
    Hér fer yfirlit yfir þann kostnað sem ráðuneytið greiddi utanaðkomandi sérfræðingum vegna gerðar lagafrumvarpa á framangreindu tímabili.

Ár Kostnaður
2008 752.918 kr.
2009 1.036.659 kr.
2010 3.682.641 kr.
2011 0 kr.
2012 0 kr.
2013 0 kr.
2014 0 kr.
2015 0 kr.
2016 0 kr.
2017 0 kr.

    Alls fóru tuttugu vinnustundir í að taka þetta svar saman.