Ferill 26. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 889  —  26. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um nálgunarbann og brottvísun af heimili, nr. 85/2011, með síðari breytingum (meðferð beiðna um nálgunarbann).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Rögnu Bjarnadóttur frá dómsmálaráðuneyti, Sigríði J. Friðjónsdóttur ríkissaksóknara, Huldu Elsu Björgvinsdóttur frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Nichole Leigh Mosty frá Samtökum kvenna af erlendum uppruna á Íslandi og Elínu G. Einarsdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Mannréttindaskrifstofu Íslands og Samtökum kvenna af erlendum uppruna á Íslandi.
    Með frumvarpinu er lagt til að breyta framkvæmdinni varðandi meðferð beiðna um nálgunarbann. Þannig er gerður nokkur greinarmunur á meðferð mála er varða nálgunarbann annars vegar og brottvísun af heimili hins vegar, án þess þó að ganga á réttindi sakbornings og með það fyrir augum að styrkja réttarstöðu brotaþola með einfaldari málsmeðferð, aukinni skilvirkni og frekari greinarmun á tryggingarráðstöfunum og þvingunarráðstöfunum. Þá er málsmeðferð vegna nálgunarbanns einfölduð, án þess að breytt sé því efnislega mati sem fer fram varðandi það álitaefni hvort skilyrðum fyrir beitingu úrræðisins sé fullnægt.
    Samhljómur var um mikilvægi þess að bæta meðferð beiðna um nálgunarbann með það að markmiði að vernda þann sem brotið er á og fyrirbyggja frekara ofbeldi, en um leið að ekki verði gengið á réttindi sakbornings. Jafnframt stuðli frumvarpið að vandaðri málsmeðferð og auknu hagræði.
    Við meðferð málsins var fjallað nokkuð um 1. gr. frumvarpsins sem felur í sér að ríkissaksóknari setji almenn fyrirmæli um svokölluð vægari úrræði. Þannig geti ríkissaksóknari gefið út leiðbeiningar sem lúti að slíkum vægari úrræðum, þar á meðal hver þau geti verið og um framkvæmd þeirra. Slíkt stuðli að samræmdri framkvæmd milli lögreglustjóraembætta, svo sem er varðar verklagsreglur um bókanir lögreglunnar um samskipti við sakborning eða þær óformfestu yfirlýsingar sakbornings um að halda sig frá brotaþola og setja sig ekki í samband við hann sem embættin hafa verið að nýta sem vægari úrræði. Nefndinni var þó bent á að meta verði hvert mál út frá því hvaða úrræðum er beitt hverju sinni.
    Nefndin tekur undir framangreind sjónarmið og tekur undir mikilvægi þess að ríkissaksóknari gefi út almenn fyrirmæli þar sem vægari úrræði verði skilgreind til að tryggja samræmt verklag milli lögregluembætta.
    Nefndin leggur til lagfæringu á gildistöku frumvarpsins þannig að miðað verði við 1. mars í stað 1. janúar 2019.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað orðanna „1. janúar“ í 4. gr. komi: 1. mars.
    Birgir Ármannsson, Jón Steindór Valdimarsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Willum Þór Þórsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álitið í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Guðmundur Ingi Kristinsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 31. janúar 2019.

Páll Magnússon,
form., frsm.
Andrés Ingi Jónsson. Anna Kolbrún Árnadóttir.
Birgir Ármannsson. Guðmundur Andri Thorsson. Jón Steindór Valdimarsson.
Steinunn Þóra Árnadóttir. Willum Þór Þórsson. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.