Ferill 459. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 906  —  459. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni um setu í stjórn dómstólasýslunnar.


     1.      Hver er þóknunin fyrir setu í stjórn dómstólasýslunnar?
    Með ákvörðun dómsmálaráðherra, dags. 18. september 2017, var þóknun stjórnarmanna dómstólasýslunnar ákveðin 50 þóknanaeiningar á mánuði en 100 þóknanaeiningar fyrir formann. Hver þóknanaeining nemur 2.258 kr. Við ákvörðun þóknunar var litið til þeirrar þóknunar sem kjararáð úrskurðaði áður þeim sem sátu í dómstólaráði en þó með tilliti til þess að verkefni dómstólasýslunnar taka til dómstólanna allra en ekki einungis héraðsdómstóla eins og átti við um dómstólaráð.

     2.      Er heimilt fyrir starfsmann dómstólasýslunnar að sitja einnig í stjórn hennar? Ef svo er, fær viðkomandi bæði greidda þóknun fyrir setu í stjórninni og greidd laun sem starfsmaður dómstólasýslunnar?
    Um skipun stjórnarmanna dómstólasýslunnar er fjallað í 1. mgr. 6. gr. laga um dómstóla en þar kemur fram að einn skuli koma úr hópi hæstaréttardómara, einn úr hópi landsréttardómara, einn úr hópi héraðsdómara og einn úr hópi annarra starfsmanna dómstóla. Eðli málsins samkvæmt telst einstaklingur ekki lengur úr hópi framangreindra aðila taki hann fastráðningu sem starfsmaður dómstólasýslunnar og getur því ekki setið fyrir þeirra hönd í stjórn stofnunarinnar. Fimmti stjórnarmaðurinn er skipaður af dómsmálaráðherra án tilnefningar og skal ekki vera starfsmaður dómstólanna.