Ferill 554. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 931  —  554. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um bann við notkun pálmaolíu í lífdísil á Íslandi.


Flm.: Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Hanna Katrín Friðriksson, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Smári McCarthy, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að leggja fram frumvarp þar sem bannað verði að nota pálmaolíu í lífdísil á Íslandi. Frumvarpið verði lagt fram eigi síðar en í lok árs 2019.

Greinargerð.

    Með þingsályktunartillögu þessari vilja flutningsmenn stuðla að því að bannað verði að nota pálmaolíu í lífdísil á Íslandi. Regnskógar eru ruddir þegar pálmaolía er unnin, en það hefur ill áhrif á umhverfið og veldur margvíslegum skaða sem brýnt er að girða fyrir með banni. Eftirfarandi greinargerð er byggð á umfjöllun Rannveigar Magnúsdóttur vistfræðings. 1

Ræktun olíupálma.
    Olíupálmi ( Elaeis guineensis) er fljótvaxinn hitabeltispálmi og upprunninn í Vestur- og Suðvestur-Afríku. Úr ávöxtum þessa pálma er unnin pálmaolía (e. palm oil). Einn hektari af olíupálma gefur af sér um fjögur tonn af pálma- og pálmakjarnaolíu. Þessar afurðir er að finna í mörgu sem fólk á Vesturlöndum, og í vaxandi mæli í Asíu, notar og kaupir á hverjum degi. Þar má nefna snyrtivörur, sápur, súkkulaði, brauð, kökur, kex, eldsneyti og fleira. Lönd eins og Indónesía og Malasía, sem framleiða langmest af pálmaolíu, hafa nú þegar fellt stóran hluta af regnskógum sínum, m.a. fyrir fjöldaframleiðslu á pálmaolíu, sem er ódýrasta jurtaolían á markaði. Eftirspurn eftir henni hefur aukist verulega undanfarna áratugi og til þess að anna henni er regnskógur ruddur í stórum stíl. Í dag er langstærstur hluti pálmaolíu á markaði ósjálfbær og valdur að eyðingu regnskóga. Talið er að hið minnsta 15 milljónir hektara af regnskógi sé nú þegar búið að fella fyrir framleiðslu á pálmaolíu, aðallega í Indónesíu og Malasíu. Slíkt landflæmi jafnast á við eitt og hálft Ísland að stærð. Framleiðsla á pálmaolíu hefur tvöfaldast undanfarinn áratug og mun líklega tvöfaldast enn fram til ársins 2020. Þetta er að miklu leyti vegna aukinnar eftirspurnar frá Asíu.

Vistfræðilegt mikilvægi regnskóga.
    Regnskógar eru mjög frjósamir og búa yfir miklum líffræðilegum fjölbreytileika. Á einum hektara í Amazon-frumskóginum hafa t.d. fundist fleiri en 230 tegundir trjáa. Þar að auki er skógur miklu meira en aðeins tré og því miður tapast einnig margar dýra- og smádýrategundir þegar skógar eru ruddir. Dýr þrífast ekki nema þau hafi skjól og heppilegt æti og fæðuvefurinn getur verið mjög flókinn í gömlum regnskógum. Sumar lífverur eru jafnvel háðar öðrum. Margar plöntutegundir geta t.d. ekki stundað víxlfrjóvgun nema með hjálp ákveðinna skordýra, fugla eða spendýra og ef þau hverfa af svæðinu deyja plönturnar í kjölfarið. Dýr geta þurft stór svæði til að athafna sig og þrífast ekki í litlum afmörkuðum regnskógarleifum. Þetta er ástæða þess að margar regnskógartegundir eru í bráðri útrýmingarhættu. Regnskógar eru gríðarlega stórar kolefnisgeymslur og sumir regnskógar, einkum í Suðaustur-Asíu, vaxa í kolefnisríkum mýrum. Þegar skógarnir eru ruddir og brenndir aukast áhrif loftslagsbreytinga því bæði losnar kolefni út í andrúmsloftið þegar skógurinn sjálfur er brenndur og einnig þegar mýrin er ræst fram. Að auki kviknar oft í þessum mýrum og árið 2015, sem var mjög þurrt ár, var mikill hluti Suðaustur-Asíu hulinn menguðu mistri sem rekja mátti að miklu leyti til skógarelda í Indónesíu vegna pálmaolíuframleiðslu. Við það að breyta regnskógum í plantekrur eru í raun búin til nær líflaus landsvæði þar sem dýr eins og órangútanar eiga sér enga von. Talið er að ef haldið verður áfram að eyðileggja regnskóga Indónesíu á sama hraða gætu órangútanar orðið útdauðir í náttúrunni innan örfárra áratuga. Að auki hefur Amnesty International 2 nýlega komið upp um hræðilegan aðbúnað fólks og barna sem vinnur á pálmaolíuplantekrum þar sem börnum er þrælað út og konur veikjast við að úða skordýraeitri á skógarbotninn.

Framleiðsla pálmaolíu.
    Árið 2013 voru samtals framleiddar tæpar 60 milljónir tonna af pálmaolíu á heimsvísu, en þar af voru einungis 16,5% framleidd undir regnhlíf samtaka sem kalla sig „Hringborð um sjálfbæra pálmaolíu“ (e. Roundtable on Sustainable Palm Oil). Um helmingur þeirrar olíu var metinn sjálfbær með sérstakri vottun, sem samsvarar einungis um 9% af heimsframleiðslunni. Indland, Indónesía og Kína kaupa um 42% af þeirri pálmaolíu sem framleidd er í heiminum og lönd í Evrópusambandinu um 10% en þar er einnig mest keypt af þeirri pálmaolíu sem hefur fengið sjálfbæra vottun frá Hringborðinu. Hringborðið um sjálfbæra pálmaolíu eru samtök sem tengja saman hagsmunaaðila í framleiðslu pálmaolíu í allri virðiskeðjunni, þar á meðal pálmaolíuframleiðendur, aðra framleiðendur, verslanir, banka og frjáls félagasamtök. Hugmyndafræðin er einföld og snýr að því að stöðva skógareyðingu og framleiða og votta sjálfbæra pálmaolíu. Því miður er kerfið mjög gallað, en þó er unnið kappsamlega að því að bæta vottunina.
    Efast má um það að nokkur pálmaolía geti verið sjálfbær. Er framleiðslan orðin sjálfbær þegar fimm, tíu eða þrjátíu ár eru liðin frá því að regnskóginum var flett ofan af landinu? Staðreyndin er sú að regnskógur var á öllu því svæði þar sem pálmaolía er nú framleidd, hvort sem hún er vottuð sem sjálfbær eður ei. Rökin fyrir því að nýta þessi svæði, sem nú þegar hafa verið rudd af regnskógi, eru þau að pálmaolíuframleiðsla sé mjög mikil á hvern hektara miðað við aðra olíuframleiðslu. Mörg umhverfisverndarsamtök hafa því lagt mikla áherslu á það undanfarið að styðja við framleiðslu á sannarlega sjálfbærri pálmaolíu og hvetja þau fyrirtæki og neytendur til að kaupa hana í stað þess að sniðganga pálmaolíu alfarið.

Pálmaolía með hærra kolefnisspor en jarðefnaeldsneyti.
    Þó stærstur hluti þeirrar pálmaolíu sem framleidd er fari í matvörur og snyrtivörur hefur hún í auknum mæli undanfarinn áratug verið notuð sem eldsneyti eða íblöndun í það. Því veldur aðallega loftslagsstefna Evrópusambandsins. Áætlað er að árið 2014 hafi evrópsk farartæki brennt meira en þremur milljónum tonna af pálmaolíu. Það var hér um bil þriðjungur af allri lífeldsneytisnotkun í Evrópusambandinu. Hefð hefur verið fyrir því að líta á lífeldsneyti sem kolefnishlutlausa vöru en sú einföldun hefur í raun blekkt stjórnvöld til að trúa því að pálmaolía í lífeldsneyti sé betri fyrir loftslagið en jarðefnaeldsneyti. Því miður er raunin þveröfug. Aukin eftirspurn í Evrópu eftir lífeldsneyti hefur orsakað enn meiri framleiðslu á pálmaolíu í Malasíu og Indónesíu, og því fylgir aukin eyðing regnskóga, þurrkun á mólendi, minni líffræðilegur fjölbreytileiki og aukin losun gróðurhúsalofttegunda. 3
    Reiknað hefur verið út að lífeldsneyti frá jurtaolíu, sem er um 70% af lífeldsneytismarkaði í Evrópu, losi 80% meira af gróðurhúsalofttegundum en jarðefnaeldsneytið sem verið er að skipta út. 4 Pálmaolía trónir þar hæst og er þrisvar sinnum verri en jarðefnaeldsneyti, en næst á eftir kemur sojaolía sem er tvisvar sinnum verri.

Íslensk framleiðsla lífdísils.
    Lífdísill er framleiddur á þremur stöðum á Íslandi í dag og er þar nýtt tækifæri til að framleiða eins umhverfisvænan lífdísil og mögulegt er. Þannig er hægt að nýta fjölmargt annað en pálmaolíu, t.d. úrgangsmatarolíu og dýrafitu, endurnýta metanól og mögulega í framtíðinni þörunga.

1     www.ruv.is/frett/regnskogaeydandi-palmaolia
2     amnistia.org.ar/wp-content/uploads/delightful-downloads/2016/12/ASA2151842016ENGLISH-1-50-ilovepdf-compressed-1.pdf
3     d5i6is0eze552.cloudfront.net/documents/Publikasjoner/Andre-rapporter/For-peats-sake-Climate-implications-of-palm_May2017.pdf?mtime=20170531170131
4     www.transportenvironment.org/sites/te/files/publications/2016_04_TE_Globiom_paper_FINAL_0.pdf