Ferill 500. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 933  —  500. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu heildarsamnings um efnahagslega samvinnu milli EFTA-ríkjanna og Ekvador.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristin F. Árnason, Katrínu Einarsdóttur og Davíð Loga Sigurðsson frá utanríkisráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Ekvador sem undirritaður var á Sauðárkróki 25. júní 2018.
    Í greinargerð með tillögunni kemur fram að fríverslunarsamningurinn við Ekvador kveði á um gagnkvæma niðurfellingu og lækkun tolla á iðnaðarvörur, sjávarafurðir og unnar og óunnar landbúnaðarvörur. Þannig muni tollar á hvers kyns sjávarafurðir og iðnaðarvörur, sem fluttar eru út frá Íslandi til Ekvador, falla niður frá gildistöku samningsins eða á aðlögunartíma og sama á við um helstu landbúnaðarvörur sem framleiddar eru hér á landi til útflutnings.
    Þá kemur fram í greinargerð að útflutningur frá Íslandi til Ekvador hafi verið lítill og numið tæpum 30 millj. kr. árið 2018. Er þar nær einungis um að ræða útflutning á iðnaðarvörum. Innflutningur frá Ekvador hefur einnig verið lítill en hefur þó aukist undanfarin ár og nam um 600 millj. kr. árið 2017. Er þar að mestu um að ræða innflutning á ávöxtum og öðrum matvælum. Með gagnkvæmri niðurfellingu og lækkun tolla skapar samningurinn forsendur fyrir auknum viðskiptum milli landanna.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 6. febrúar 2019.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir,
form.
Ari Trausti Guðmundsson,
frsm.
Ásgerður K. Gylfadóttir.
Bryndís Haraldsdóttir. Gunnar Bragi Sveinsson. Logi Einarsson.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Smári McCarthy. Þorgerður K. Gunnarsdóttir.