Ferill 366. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 935  —  366. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Jóni Steindóri Valdimarssyni um tekjur og gjaldtöku Isavia á Keflavíkurflugvelli.


     1.      Hverjar voru heildartekjur ISAVIA og/eða ríkisins vegna lendingargjalda, farþegagjalda, stæðisgjalda, flugverndargjalda, flugleiðsögugjalda og annarra gjalda sem við kunna að eiga á Keflavíkurflugvelli árin 2013–2018, sundurliðað eftir árum, og:
                  a.      hversu stór fjárhæð var komin fram yfir gjalddaga í lok hvers árs,
                  b.      hve há fjárhæð tapaðist á hverju ári vegna ógreiddra gjalda,
                  c.      hve háir dráttarvextir voru reiknaðir af framangreindum gjöldum sem komin voru í vanskil ár hvert,
                  d.      hve háar eru skuldir flugfélaga sem komnar eru fram yfir gjalddaga og/eða eindaga 1. nóvember 2018?

    Í eftirfarandi töflu koma fram heildartekjur vegna umræddra gjalda. Tölurnar eru í milljónum króna.

Flugtengdar tekjur KEF Tekjur vegna aðflugsgjalda KEF Samtals
2013 4.813 4.813
2014 5.345 5.345
2015 7.019 7.019
2016 9.925 241 10.166
2017 11.776 381 12.157

    Tölur fyrir árið 2018 liggja ekki fyrir.

    a. Í ársreikningum félagsins fyrir árin 2013–2015 koma fram upplýsingar um aldursgreiningu viðskiptakrafna í skýringu 13 með ársreikningi. Fyrir árin 2016 og 2017 koma upplýsingar um aldursgreiningu viðskiptakrafna fram í skýringu 14 með ársreikningi. Í framangreindum skýringum eru samanteknar upplýsingar um allar kröfur hjá samstæðu Isavia en ekki einungis á Keflavíkurflugvelli.
    Fjárhæðir sem komnar voru fram yfir gjalddaga voru eftirfarandi í milljónum króna:
    
2013 470
2014 520
2015 450
2016 786
2017 1.711

    Tölur vegna 2018 liggja ekki fyrir.

    b. Í ársreikningum félagsins fyrir árin 2013–2015 koma fram upplýsingar um aldursgreiningu viðskiptakrafna í skýringu 13 með ársreikningi. Fyrir árin 2016 og 2017 koma upplýsingar um aldursgreiningu viðskiptakrafna fram í skýringu 14 með ársreikningi. Í framangreindum skýringum eru teknar saman upplýsingar um allar kröfur hjá samstæðu Isavia en ekki einungis á Keflavíkurflugvelli.
    Fjárhæðir sem töpuðust voru eftirfarandi í milljónum króna:

2013 1
2014 1
2015 36
2016 0
2017 0
    
    Tölur vegna 2018 liggja ekki fyrir.

    c. Dráttarvextir eru innheimtir í samræmi við ákvæði greinar 9.2 í notendaskilmálum Keflavíkurflugvallar ( www.isavia.is/media/1/terms-of-services2017.pdf). Þar kemur fram að innheimta dráttarvaxta fari samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Samkvæmt þeim eru dráttarvextir miðaðir við vexti sem Seðlabankinn ákveður hverju sinni.
    
    d. Samkvæmt upplýsingum frá Isavia eru eingöngu gefnar upp fjárhagslegar upplýsingar miðað við dagsetningar í árs- og árshlutareikningum félagsins.

     2.      Getur ISAVIA beitt stöðvunarheimild á vélar sem eru í leigu flugfélags fyrir skuldum félagsins sem ekki tengjast þeirri flugvél?
    Eignarhald viðkomandi flugvéla hefur ekki áhrif á heimild Isavia til að beita stöðvunarheimildum. Isavia getur því kyrrsett flugvél sem notuð er af tilteknu flugfélagi sem skuldar félaginu fjármuni þó svo að hún sé ekki í eigu þess flugfélags.

     3.      Telur ráðherra það ásættanlegt að ISAVIA veiti einstökum flugfélögum greiðslufrest án trygginga á háum fjárhæðum sem eru í vanskilum?
    Rétt er að skýra hvernig almennt greiðslufyrirkomulag Isavia er í þessum efnum. Þannig er að tekin eru saman þau gjöld sem gjaldfallin eru í lok hvers mánaðar. Hvert flugfélag hefur síðan annan mánuð í gjaldfrest. Innheimtan getur því spannað allt að tvo mánuði.
    Alltaf geta komið upp tilvik eða aðstæður sem leiða til þess að ekki er greitt á réttum tíma, enda er flugrekstur sveiflukenndur rekstur. Alla jafna kemur það ekki að sök og greiddir eru dráttarvextir af því sem gjaldfallið er. Eðlilegt þykir að tilvik sem þessi geti komið upp og er brugðist við því í samræmi við það sem hér hefur verið sagt. Síðan ber að líta til þess að félagið hefur ríkar stöðvunarheimildir til að tryggja greiðslur ef því er að skipta.
    Isavia ohf. er fyrirtæki í rekstri á markaði með sérstaka stjórn. Fyrirtækinu er falin ábyrgð á meðferð þeirra fjármuna sem rekstrinum tilheyra í samræmi við löggjöf um rekstrarform fyrirtækisins. Því fylgir að félagið sjálft tekur ákvarðanir um það sem spurt er um í þessum lið. Ráðherra hefur ekki sérstaka skoðun á fyrirkomulagi fyrirtækisins í þessum efnum.