Ferill 469. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 940  —  469. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Kolbeini Óttarssyni Proppé um stefnu um vistvæn atvinnutæki á svæðum í umsjá stofnana sem heyra undir ráðuneytið.


     1.      Hefur verið mörkuð stefna um að einungis vistvæn atvinnutæki, svo sem fólksflutningabifreiðar, þjónustubifreiðar o.fl., fái að koma á svæði í umsjá stofnana sem heyra undir ráðuneytið, þ.e. svæði í umsjá Skógræktarinnar, Landgræðslu ríkisins, þjóðgarðsins á Þingvöllum, Vatnajökulsþjóðgarðs, þjóðgarðsins Snæfellsjökuls og önnur friðlýst svæði, m.a. í umsjá Umhverfisstofnunar?
     2.      Ef ekki, er áformað að setja slíka stefnu og kynni þá að koma til skoðunar að tilgreina í henni að eftir tiltekinn árafjölda verði óheimilt að aka atvinnutækjum sem knúin eru jarðefnaeldsneyti inn á umrædd svæði?

    Ekki hafa verið áform um að setja stefnu sem banni slíkum atvinnutækjum að koma inn á umrædd svæði. Þróun vistvænna atvinnutækja, sem og annarra tækja, er hins vegar hröð um þessar mundir og því mikilvægt fyrir stjórnvöld að huga að því á hverjum tíma hvaða hvötum megi beita til að flýta þeirri þróun. Í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum eru orkuskipti í samgöngum lykilaðgerð og er í henni að finna nokkrar aðgerðir sem lúta að því að hraða orkuskiptum með uppbyggingu innviða fyrir rafbíla og aðrar vistvænar bifreiðar. Þar er til að mynda kveðið á um átak til þess að nýta betur metan frá urðunarstöðum til að knýja bifreiðar og önnur ökutæki og að möguleikar á nýtingu lífeldsneytis á bifreiðar verði kannaðir. Þá kveður ein aðgerðanna í áætluninni á um að nýskráning dísil- og bensínbifreiða verði óheimil árið 2030. Jafnframt er unnið að breytingum á lögum um loftslagsmál þar sem m.a. er gert ráð fyrir að Stjórnarráðið og stofnanir þess setji sér stefnu um aðgerðir gegn losun gróðurhúsalofttegunda. Slík stefna er líkleg til að ná til bifreiða og atvinnutækja stofnananna sjálfra. Frumvarpið er nú í samráðsgátt Stjórnarráðsins.

     3.      Hvaða fjárfestingar þyrfti að ráðast í við innviðauppbyggingu yrði slík stefna sett?
    Ekki hafa verið áform um að setja slíka stefnu og því ekki ljóst hvaða fjárfestingar þyrfti að ráðast í. Almennt verður hins vegar ráðist í viðamikla uppbyggingu innviða hér á landi vegna orkuskipta í samgöngum í tengslum við aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Það er ljóst að hið opinbera getur ekki eitt og sér staðið að orkuskiptunum, heldur þurfa rekstraraðilar fólksflutningabifreiða, þjónustubifreiða og annarra atvinnutækja að taka höndum saman með stjórnvöldum svo að orkuskiptin megi ná fram að ganga.