Ferill 452. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 952  —  452. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ásgerði K. Gylfadóttur um heimilisofbeldismál.

     1.      Hver hefur verið fjöldi heimilisofbeldismála hjá hverju lögregluembætti frá 1. janúar 2015? Hve mörg af málunum hafa leitt til ákæru, greint niður eftir lögregluembættum?
    Eftirfarandi tafla sýnir fjölda heimilisofbeldistilvika hjá hverju lögregluembætti á tímabilinu 1. janúar 2015 – 31. desember 2018. Í 66–68% tilvika er um ofbeldi af hendi maka eða fyrrum maka að ræða.

2015 2016 2017 2018
Austurland 6 4 4 9
Höfuðborgarsvæðið 650 657 712 701
Norðurland eystra 27 42 33 41
Norðurland vestra 6 3 1 3
Suðurland 29 39 39 36
Suðurnes 63 51 70 54
Vestfirðir 9 6 12 6
Vestmannaeyjar 6 14 10 7
Vesturland 11 7 7 11
Samtals 807 823 888 868

    Á eftirfarandi mynd má sjá stöðu heimilisofbeldismála sem skráð voru í málaskrá ákæruvaldsins á tímabilinu 1. janúar 2015 – 3. janúar 2019. Af þeim má sjá þann fjölda mála þar sem ákæra hefur verið gefin út, en það eru þau mál þar sem dómur hefur fallið og þau mál sem eru í meðferð hjá dómstólum.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     2.      Eru til forvirkar heimildir til miðlunar persónuupplýsinga milli kerfa eða stofnana, svo sem lögreglu, barnaverndar og heilbrigðisstofnana, í málum er varða heimilisofbeldi, í samræmi við ný persónuverndarlög? Ef svo er ekki, telur ráðherra að ástæða sé til að veita slíkar heimildir til verndar lífi og heilsu þeirra sem búa við heimilisofbeldi?
    Í lögum er að finna ýmsar heimildir fyrir upplýsingaskipti á milli lögreglu og annarra stjórnvalda til að tryggja að viðkomandi stjórnvöld hafi allar nauðsynlegar upplýsingar, þar á meðal persónuupplýsingar, til að geta sinnt lögbundnum hlutverkum sínum.
    Samkvæmt lögreglulögum ber lögreglu að hafa víðtækt samstarf við önnur stjórnvöld. Þannig segir m.a. í f-lið 1. gr. að hlutverk lögreglu sé að starfa í samvinnu við önnur stjórnvöld og stofnanir sem hafa með höndum verkefni sem tengjast starfssviði lögreglu. Þetta samvinnuhlutverk er nánar útfært í 11. gr. laganna þar sem kveðið er á um að lögregla og önnur stjórnvöld og stofnanir skuli hafa gagnkvæmt samstarf varðandi verkefni sem tengjast löggæslu, svo sem forvarnir. Sérstaklega skuli lögregla vinna með félagsmálayfirvöldum, heilbrigðisyfirvöldum og menntamálayfirvöldum að forvörnum eftir því sem tilefni gefur til og aðstæður leyfa og upplýsa þessa aðila um málefni sem krefjast afskipta þeirra.
    Í barnaverndarlögum, nr. 80/2002, er einnig að finna ákvæði sem er ætlað að tryggja að barnaverndaryfirvöldum sé tilkynnt um tilvik þegar barn verður fyrir ofbeldi eða verður vitni að ofbeldi á heimili sínu. Í 18. gr. laganna er kveðið á um að verði lögregla þess vör að barn búi við aðstæður eins og lýst er í 16. gr. laganna, þ.e. búi við óviðunandi aðstæður eða verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi, skuli hún tilkynna barnaverndarnefnd um það. Að sama skapi þegar grunur leikur á að framið hafi verið brot gegn barni skal lögregla, þegar hún fær slíkt mál til meðferðar, tilkynna það barnaverndarnefnd og gefa henni kost á að fylgjast með rannsókn málsins. Skv. 7. gr. laganna er heilbrigðisstarfsmönnum einnig skylt að tilkynna barnaverndarnefnd ef ætla má að aðstæður barns séu með þeim hætti sem lýst er í 16. gr. laganna. Þá er í 20. gr. laganna kveðið á um að lögreglu sé skylt að hafa samstarf við barnaverndarnefndir og veita þeim eftir atvikum aðstoð við úrlausn barnaverndarmála. Við meðferð mála hjá barnaverndarnefndum er heilbrigðisstofnunum og lögreglu einnig skylt skv. 44. gr. laganna að láta þeim í té endurgjaldslaust upplýsingar og afrit af nauðsynlegum gögnum.
    Einnig skal nefnt að nýtt frumvarp til laga um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi hefur verið lagt fyrir Alþingi og mun miðlun á grundvelli ofangreindra lagaheimilda að einhverju leyti styðjast við ákvæði þeirra laga en önnur við ákvæði laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Slík miðlun verður þannig að uppfylla skilyrði sem fram koma í lögunum en lagaheimildirnar sem slíkar eru allar í samræmi við ákvæði persónuverndarlaga.
    Þessu til viðbótar skal nefnt að í hinu nýja frumvarpi er mælt fyrir um almennar miðlunarheimildir sem m.a. taka til lögreglu, en í 11. gr. frumvarpsins segir að heimilt sé að miðla persónuupplýsingum til annarra opinberra aðila og einkaaðila að því marki sem nauðsynlegt er til að þeir geti sinnt lögbundnum hlutverkum sínum eða gætt lögvarinna hagsmuna sinna.
    Að mati ráðherra skapa ofangreindar lagaheimildir, sem allar heimila miðlun persónuupplýsinga, fullnægjandi ramma utan um nauðsynleg upplýsingaskipti umræddra stofnana til að tryggja hagsmuni þolenda og barna í heimilisofbeldismálum, hvort sem er við meðferð þeirra hjá lögreglu eða barnaverndaryfirvöldum. Að svo stöddu, og ljósi þess árangurs sem náðst hefur í málaflokknum með tilkomu nýs verklags, er ekki talin þörf á að lögfesta frekari eða tilteknar forvirkar heimildir í því skyni að auka á upplýsingaskipti milli þessara yfirvalda.

     3.      Hver telur ráðherra að sé reynsla af nýjum verklagsreglum sem ríkislögreglustjóri gaf út og tóku gildi 2. desember 2014 fyrir öll lögregluembætti í tengslum við heimilisofbeldi og fólust í breyttri forgangsröðun hjá lögreglu og félagsþjónustu sveitarfélaga með það að markmiði að bæta þjónustu við þolendur heimilisofbeldis?
    Til að meta reynslu af hinum nýju verklagsreglum ríkislögreglustjóra óskaði ráðherra eftir upplýsingum frá þeim lögregluembættum sem hafa haft hvað flest heimilisofbeldismál til meðferðar. Með vísan til eftirfarandi umfjöllunar telur ráðherra að reynslan af hinu breytta verklagi hafi verið góð og að mikill árangur hafi náðst í að bæta rannsóknir og meðferð heimilisofbeldismála almennt.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu.
    Embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu telur að breytingar á verklagi við afgreiðslu heimilisofbeldismála hafi haft margþættar og jákvæðar breytingar í för með sér. Meiri áhersla en áður sé lögð á undirliggjandi refsiverða háttsemi í hverju tilviki, sem m.a. hafi haft það í för með sér að fleiri heimilisofbeldismál séu rannsökuð og leiði til útgáfu ákæru. Auk þess sé oftar gripið til úrræða sem miði að því að tryggja öryggi brotaþola, svo sem með nálgunarbanni og vöktun símanúmera. Þá hafi nýjum tilkynningum einnig fjölgað sem sé vísbending um að fleiri leiti nú til lögreglu en áður vegna heimilisofbeldis, þ.e. að tilkynningarhlutfall þessara brota hafi hækkað.
    Hið breytta verklag hafi einnig leitt til aukins samstarfs við aðra fagaðila sem hafi betri þekkingu og bjargir til að sinna þolendum. Það samstarf hafi tryggt þolendum betri þjónustu, m.a. með því að barnavernd sé kölluð til í nær öllum tilvikum þar sem börn eru á vettvangi.
    Það er því mat lögreglustjórans að nýjar verklagsreglur hafi skilað verulegum árangri sem m.a. hafi leitt til bættrar þjónustu við brotaþola með ákveðnara inngripi og vilja til að skoða málin heildstætt í stað þess að afgreiða málin sem einstök tilvik án samráðs við önnur viðeigandi stjórnvöld.

Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra.
    Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra telur einnig að reynslan af breyttu verklagi hafi verið góð. Telur hann að breytt verklag hafi beint athyglinni að heimilisofbeldi, eða ofbeldi í nánum samböndum, og að það hafi stuðlað að viðhorfsbreytingu, bæði á meðal lögreglumanna og almennings. Mikilvægt sé að byrja rannsókn þessara mála strax á vettvangi. Brotaþolar séu yfirleitt opnari í skýrslutökum sem fram fara á vettvangi og viljugri til að þiggja þá aðstoð sem í boði er til að stöðva ofbeldið og þess vegna sé afar mikilvægt að setja málin í þann farveg sem markaður hafi verið með verklagsreglunum. Eftirfylgniheimsóknir lögreglu og barnaverndar eða annarra félagsmálayfirvalda samkvæmt verklagsreglum eru einnig taldar hafa gefið góða raun. Það sé von lögreglustjórans að með þessu móti verði dregið úr heimilisofbeldi og að endurteknum tilvikum heimilisofbeldis muni fækka.
    Þá telur lögreglustjóri það hafa verið mjög til bóta að starfsmenn barnaverndar og/eða félagsþjónustu komi á vettvang heimilisofbeldismála; það sé mikilvægur stuðningur fyrir aðila og ekki síður börn á vettvangi heimilisofbeldis, starfsmennirnir geti orðið mikilvæg vitni um ástand og aðkomu á heimilinu auk þess sem það gefi þessum aðilum tækifæri til að grípa inn þar sem börn eru á heimili eða skráð til heimilis. Alvarleiki slíkra brota sé mikill, ekki aðeins fyrir þann sem fyrir ofbeldinu verður heldur líka fyrir börn sem verða vitni að eða upplifa ofbeldi á heimilum sínum eða á milli nákominna, enda alkunnugt hversu mikil og skaðleg áhrif það geti haft á börn að alast upp við ofbeldi. Með þessum verklagsreglum gefist því ómetanlegt tækifæri til að grípa inn í og reyna að rjúfa vítahring ofbeldis í nánum samböndum.
    Lögreglustjórinn telur því mega fullyrða að reynslan hafi verið góð og hafi skilað sér í betri og skilvirkari þjónustu við þá sem sárt eiga um að binda vegna ofbeldis á heimili og milli nákominna. Faglegar hafi verið tekið á málunum þótt ekki leiði öll málin til útgáfu ákæru. Meginmarkmiðið sé að draga úr ofbeldi og standi vonir til þess að það hafi tekist með inngripi þessara aðila sem að málunum koma svo og hvatningu til fólks um að leita sér aðstoðar.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum.
    Lögreglustjórinn telur reynslu af hinu nýja verklagi hafa í heildina verið afar góða. Verklagið hafi haft gríðarleg áhrif til hins betra á líf fólks og haft mikið að segja um breytta nálgun í málaflokknum á landsvísu. Yfirsýn yfir málaflokkinn hafi aukist til muna og breytt nálgun lögreglu hafi leitt til þess að fleiri sakborningar leiti sér nú aðstoðar. Lögum um nálgunarbann og brottvísun af heimili hafi einnig verið beitt í ríkara mæli og fleiri mál leiði til útgáfu ákæru en áður. Verklagið hafi einnig bætt mjög samstarf lögreglu við önnur stjórnvöld, sem í dag sé mun skilvirkara og árangursríkara en áður.