Ferill 799. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1260  —  799. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um sameiginlega umsýslu höfundarréttar.

Frá mennta- og menningarmálaráðherra.



I. KAFLI

Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Gildissvið.

    Lög þessi, að undanskildum VII. kafla, gilda um allar sameiginlegar umsýslustofnanir með staðfestu á Íslandi.
    Ákvæði VII. kafla gilda um sameiginlegar umsýslustofnanir með staðfestu á Íslandi sem annast umsýslu höfundarréttinda yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum.
    Viðeigandi ákvæði laga þessara gilda um einingar með staðfestu hér á landi, sem eru beint eða óbeint í eigu eða undir yfirráðum sameiginlegrar umsýslustofnunar, að fullu eða að hluta, svo fremi að einingarnar stundi starfsemi sem félli undir ákvæði laga þessara ef umsýslustofnun stundaði hana.
    Ákvæði 19. og 21. gr., 1.–3. og 5.–7. tölul. 22. gr., og 36. og 37. gr. gilda um allar sjálfstæðar umsýslueiningar með staðfestu á Íslandi.
    Ráðherra getur sett reglur um að sameiginlegar umsýslustofnanir og sjálfstæðar umsýslueiningar, með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, sem eru virkar á Íslandi, falli að öllu leyti eða að hluta undir ákvæði þessara laga.
    Ef sameiginleg umsýslustofnun ákveður í samþykktum sínum að fela félagsaðilum sem eru samtök í fyrirsvari fyrir rétthafa útborgun réttindagreiðslna til rétthafa, sbr. 24. gr., á III. kafli ásamt 4. mgr. 18. gr., 3. mgr. 19. gr. og 36.–37. gr. við um viðkomandi félagsaðila. Félagsaðilar sem eru samtök í fyrirsvari fyrir rétthafa skulu í þessu sambandi tryggja möguleika rétthafa til að taka ákvörðun um hagnýtingu réttindatekna á þeim sviðum sem nefnd eru í 1.–6. tölul 5. mgr. 6. gr.
    Ef sameiginleg umsýslustofnun ákveður í samþykktum sínum að félagsaðilar sem eru samtök í fyrirsvari fyrir rétthafa skuli taka saman gagnsæisskýrslu, sbr. 24. gr. eiga ákvæði 23. gr. og 36.–37. gr. við um viðkomandi félagsaðila. Slíkir félagsaðilar skulu í þessu sambandi tryggja að rétthafar eigi þess kost að samþykkja gagnsæisskýrslu.

2. gr.

Orðskýringar.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     1.      Sameiginleg umsýslustofnun: Hver sú skipulagsheild sem lögum samkvæmt eða með framsali, leyfi eða öðru samningsbundnu fyrirkomulagi hefur, sem sitt eina eða helsta hlutverk, umsjón með höfundarrétti eða réttindum sem tengjast höfundarrétti, fyrir hönd fleiri en eins rétthafa, til sameiginlegra hagsbóta fyrir þessa rétthafa og sem uppfyllir eitt eða bæði eftirfarandi skilyrði:
                  a.      er í eigu eða undir yfirráðum félagsaðila sinna,
                  b.      er ekki starfrækt í hagnaðarskyni.
     2.      Sjálfstæð umsýslueining: Hver sú skipulagsheild sem lögum samkvæmt eða með framsali, leyfi eða öðru samningsbundnu fyrirkomulagi hefur umsjón með höfundarrétti eða réttindum sem tengjast höfundarrétti, fyrir hönd fleiri en eins rétthafa, til sameiginlegra hagsbóta fyrir þessa rétthafa, sem sitt eina eða helsta hlutverk og sem er:
                  a.      hvorki í eigu né undir yfirráðum rétthafa, beint eða óbeint, að fullu eða að hluta og
                  b.      er starfrækt í hagnaðarskyni.
     3.      Rétthafi: Einstaklingur eða eining, önnur en sameiginleg umsýslustofnun, sem er handhafi höfundarréttar eða skyldra réttinda eða á rétt á hluta af réttindatekjum á grundvelli samnings um nýtingu réttinda eða samkvæmt lögum.
     4.      Félagsaðili: Rétthafi eða eining sem er í fyrirsvari fyrir rétthafa, þ.m.t. aðrar sameiginlegar umsýslustofnanir og samtök rétthafa sem uppfylla kröfur sameiginlegrar umsýslustofnunar um félagsaðild og hafa fengið aðild að henni.
     5.      Aðalfundur: Vettvangur innan sameiginlegrar umsýslustofnunar þar sem félagsaðilar taka þátt og neyta atkvæðisréttar síns án tillits til lagalegs forms stofnunarinnar.
     6.      Réttindatekjur: Tekjur sem sameiginleg umsýslustofnun innheimtir fyrir hönd rétthafa hvort sem þær stafa af einkarétti, rétti til þóknunar eða rétti til bóta.
     7.      Umsýslukostnaður: Fjárhæðir sem sameiginleg umsýslustofnun innheimtir, dregur frá eða jafnar á móti réttindatekjum eða tekjum vegna fjárfestingar réttindatekna til þess að standa straum af kostnaði við umsýslu hennar á höfundarrétti eða skyldum réttindum.
     8.      Réttindagreiðslur: Sá hluti af réttindatekjum sem rétthafi fær úthlutað og greiddar.
     9.      Fyrirsvarssamningur: Samningur milli sameiginlegra umsýslustofnana þar sem ein sameiginleg umsýslustofnun veitir annarri sameiginlegri umsýslustofnun umboð til að hafa umsjón með þeim réttindum sem hún er í fyrirsvari fyrir, þ.m.t. samningur gerður skv. 30. og 31. gr.
     10.      Notandi: Hver sá einstaklingur eða eining sem framkvæmir aðgerðir sem eru háðar heimild frá rétthöfum, þóknun til rétthafa eða greiðslu bóta til rétthafa og kemur ekki sjálfur fram sem neytandi.
     11.      Verkaskrá: Þau verk sem falla undir 2. gr. höfundalaga sem sameiginleg umsýslustofnun sér um réttindi fyrir.
     12.      Leyfi yfir landamæri: Leyfi sem tekur til yfirráðasvæðis fleiri en eins aðildarríkis Evrópska efnahagssvæðisins.
     13.      Réttindi vegna netnotkunar á tónverkum: Hver þau réttindi höfundar tónverks sem falla undir 2. gr. höfundalaga sem nauðsynleg eru til að veita megi þjónustu á netinu.
     14.      Höfundaréttindi: Þau réttindi sem falla undir 2. gr. höfundalaga ásamt þeim réttindum sem kveðið er á um í V. kafla höfundalaga.
     15.      Verk: Þau verk sem njóta verndar samkvæmt höfundalögum ásamt þeim skyldu réttindum sem njóta verndar skv. 45.–50. gr. höfundalaga.
     16.      Tónverk: Þau tónverk sem njóta verndar samkvæmt höfundalögum.

II. KAFLI

Fyrirsvar fyrir rétthafa, félagsaðild og skipulag sameiginlegra umsýslustofnana.

3. gr.

Réttindi rétthafa.

    Rétthafar geta heimilað sameiginlegri umsýslustofnun að eigin vali að hafa umsjón með réttindum, flokkum réttinda eða tegundum verka og annars efnis sem þeir velja sér, fyrir þau landfræðilegu yfirráðasvæði sem þeir velja sér. Sameiginlegri umsýslustofnun ber skylda til að hafa umsjón með slíkum réttindum, flokkum réttinda eða tegundum verka og öðru efni nema umsýslustofnun hafi hlutlægt rökstuddar ástæður til að neita slíkri umsýslu, svo fremi að umsýslan sé innan þess sviðs sem starfsemi hennar nær til.
    Þegar rétthafi heimilar sameiginlegri umsýslustofnun að annast umsjón með réttindum sínum skal hann veita sérstakt og sannanlegt samþykki fyrir hver réttindi, flokk réttinda eða tegund verka og annað efni sem hann heimilar umsýslustofnunni að hafa umsjón með.
    Rétthafar eiga rétt á að veita leyfi sem ekki eru í viðskiptalegum tilgangi til notkunar á réttindum, flokkum réttinda eða tegundum verka og öðru efni sem þeir kunna að velja. Sameiginleg umsýslustofnun sem hefur verið falin umsjón með réttindum rétthafa skv. 1. mgr. getur ákveðið skilmála fyrir hagnýtingu slíkra réttinda.
    Rétthafar geta fellt úr gildi heimild til að hafa umsjón með réttindum, flokkum réttinda eða tegundum verka og öðru efni sem þeir veita sameiginlegri umsýslustofnun eða afturkallað hver þau réttindi, flokka réttinda eða tegundir verka og annað efni sem þeir vilja hjá sameiginlegri umsýslustofnun, eins og kveðið er á um í 1. mgr., fyrir þau landfræðilegu yfirráðasvæði sem þeir velja, með hæfilegum fyrirvara sem er ekki lengri en sex mánuðir. Sameiginleg umsýslustofnun getur þó ákveðið að slík uppsögn eða afturköllun taki einungis gildi eftir lok fjárhagsársins.
    Ef rétthafi á rétt á greiðslum vegna nýtingar sem fór fram áður en heimild var sagt upp eða afturköllun réttinda tók gildi, eða á grundvelli leyfis sem veitt var áður en slík uppsögn eða afturköllun tók gildi, skal rétthafinn halda réttindum sínum skv. 14.–16., 19., 21., 29. og 34. gr.
    Sameiginlegri umsýslustofnun er ekki heimilt að takmarka nýtingu réttinda sem kveðið er á um í 4. og 5. mgr. með því að krefjast þess sem skilyrði fyrir nýtingu þessara réttinda að umsýsla réttinda, flokka réttinda eða tegunda verka og annars efnis, sem fellur undir uppsögnina eða afturköllunina, verði falin annarri sameiginlegri umsýslustofnun. Þetta á þó ekki við um þegar sameiginleg umsýsla réttinda er skyldubundin.
    Áður en sameiginleg umsýslustofnun fær heimild rétthafa fyrir því að hafa umsjón með réttindum, flokki réttinda eða tegund verka og öðru efni, skal hún tilkynna rétthöfum um réttindi þeirra skv. 1.–6. mgr. og um hver þau skilyrði sem fylgja réttindunum sem sett eru fram í 3. mgr.
    Kveðið skal á um réttindi skv. 1.–6. mgr. sem og skilyrði fyrir réttindum skv. 3. mgr. í samþykktum eða aðildarskilmálum sameiginlegrar umsýslustofnunar.
    Ákvæði 1.–8. mgr. hafa ekki þýðingu fyrir beitingu ákvæða í höfundalögum um samningskvaðaleyfi eða skyldubundna umsýslu réttinda.

4. gr.

Aðildarreglur sameiginlegra umsýslustofnana.

    Sameiginleg umsýslustofnun skal samþykkja rétthafa og einingar sem eru í fyrirsvari fyrir rétthafa, þ.m.t. aðrar sameiginlegar umsýslustofnanir og samtök rétthafa, sem félagsaðila ef þeir uppfylla aðildarkröfur sem skulu byggjast á hlutlægum og gagnsæjum viðmiðunum og vera án mismununar. Þessar aðildarkröfur skulu koma fram í samþykktum eða aðildarskilmálum sameiginlegu umsýslustofnunarinnar og vera aðgengilegar öllum. Ef sameiginleg umsýslustofnun hafnar beiðni um aðild skal hún veita umsóknaraðila skýran rökstuðning fyrir ákvörðun sinni.
    Í samþykktum sameiginlegrar umsýslustofnunar skal kveða á um viðeigandi og skilvirkt fyrirkomulag þátttöku félagsaðilanna í ákvörðunartökuferli stofnunarinnar. Ef sameiginleg umsýslustofnun hefur fyrirsvar fyrir mismunandi flokka félagsaðila skulu þeir flokkar hafa fulltrúa á sanngirnis- og jafnræðisgrundvelli í ákvörðunartökuferlinu.
    Sameiginleg umsýslustofnun skal gera félagsaðilum sínum kleift að eiga við hana rafræn samskipti, þ.m.t. að því er varðar að neyta réttinda sem félagsaðilar.
    Sameiginleg umsýslustofnun skal halda skrár yfir félagsaðila sína og uppfæra þær skrár reglulega.

5. gr.

Réttindi rétthafa sem ekki eru félagsaðilar sameiginlegrar umsýslustofnunar.

    Sameiginlegar umsýslustofnanir skulu beita ákvæðum 3. mgr. 4. gr., 21. gr., 2. mgr. 30. gr. og 34. gr. um rétthafa sem eru ekki félagsaðilar þeirra en hafa bein lagaleg tengsl við þær, lögum samkvæmt eða með framsali, leyfi eða öðru samningsbundnu fyrirkomulagi.

6. gr.

Aðalfundur.

    Boða skal til aðalfundar sameiginlegrar umsýslustofnunar einu sinni á ári hið minnsta.
    Á aðalfundi skal ákveða hvers kyns breytingar á samþykktum og á aðildarskilmálum sameiginlegrar umsýslustofnunarinnar ef aðildarskilmálarnir eru ekki settir í samþykktunum.
    Á aðalfundi skal ákveða tilnefningu eða brottvikningu stjórnarmanna, endurskoða frammistöðu þeirra almennt og samþykkja laun þeirra og önnur starfskjör, sjá þó ákvæði 4. mgr.
    Ef sameiginleg umsýslustofnun hefur yfirstjórn sem annast stjórnun og stefnumótun og framkvæmdastjórn sem annast daglega stjórnun skal aðalfundurinn ekki tilnefna eða leysa framkvæmdastjórn frá störfum eða staðfesta laun og starfskjör hennar, ef slíkar heimildir falla undir yfirstjórnina.
    Á aðalfundi skal ákveða að lágmarki eftirfarandi atriði, í samræmi við ákvæði III. kafla:
     1.      Almenna stefnu um úthlutun réttindagreiðslna til rétthafa.
     2.      Almenna stefnu um notkun óráðstafanlegra fjárhæða.
     3.      Almenna fjárfestingarstefnu með tilliti til réttindatekna og arðs af fjárfestingu þeirra.
     4.      Almenna stefnu um frádrátt frá réttindatekjum og arðs af fjárfestingu þeirra.
     5.      Notkun óráðstafanlegra fjárhæða.
     6.      Áhættustýringarstefnu.
     7.      Samþykki fyrir hvers konar kaupum, sölu eða tryggingarrétti fastafjármuna.
     8.      Samþykki um samruna og bandalög, stofnun dótturfélaga og kaup á öðrum einingum eða hlutum eða réttindum í öðrum einingum.
     9.      Samþykki fyrir lántöku, lánveitingum eða útgáfu lánatrygginga.
     10.      Tilnefningu og uppsögn endurskoðenda.
     11.      Samþykki árlegrar gagnsæisskýrslu sbr. 23. gr.
    Á aðalfundi má framselja vald til ákvarðanatöku skv. 6.–9. tölul. 5. mgr. til þess aðila er gegnir eftirlitshlutverki skv. 8. gr.
    Fundur skipaðra fulltrúa félagsaðila sem félagsaðilar sameiginlegrar umsýslustofnunar kjósa a.m.k. á fjögurra ára fresti getur farið með valdheimildir aðalfundar félagsaðila svo fremi að:
     a.      tryggð sé viðeigandi og virk þátttaka félagsaðila í ákvarðanatökuferli sameiginlegu umsýslustofnunarinnar og
     b.      skipting fulltrúa úr hinum mismunandi flokkum félagsaðila á fundinum sé sanngjörn og jafnvæg.
Reglurnar sem mælt er fyrir um í 1.–5. mgr. skulu gilda að breyttu breytanda um fund skipaðra fulltrúa.

7. gr.

Þátttökuréttur á aðalfundi.

    Allir félagsaðilar sameiginlegrar umsýslustofnunar hafa heimild til að taka þátt í aðalfundi og rétt á að greiða atkvæði. Sameiginlegri umsýslustofnun er þó heimilt að takmarka rétt félagsaðila til að sækja aðalfund og neyta atkvæðisréttar síns á grundvelli annarrar eða beggja eftirfarandi viðmiðana, að því tilskildu að þær séu ákvarðaðar og þeim beitt á sanngjarnan og hóflegan hátt:
     1.      Tímalengdar félagsaðildar.
     2.      Fjárhæða sem félagsaðili hefur fengið eða á að fá greiddar.
    Viðmiðanirnar sem mælt er fyrir um í 1. og 2. tölul. 1. mgr. skulu koma fram í samþykkt eða skilmálum félagsaðildar sameiginlegrar umsýslustofnunar og vera aðgengilegar öllum í samræmi við 20. og 22. gr.
    Sérhver félagsaðili sameiginlegrar umsýslustofnunar hefur rétt á að veita öðrum einstaklingi eða einingu umboð sitt til að sækja aðalfund og greiða atkvæði fyrir sína hönd svo fremi að slík tilnefning valdi ekki hagsmunaárekstri.
    Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. er sameiginlegri umsýslustofnun heimilt að kveða á um takmarkanir á tilnefningu þeirra sem fara með umboð og neyta atkvæðisréttar félagsaðila sem þeir eru fulltrúar fyrir ef slíkar takmarkanir hafa ekki áhrif á viðeigandi og virka þátttöku félagsaðilanna í ákvörðunartökuferli stofnunarinnar. Slíkar takmarkanir skulu koma fram í samþykkt eða skilmálum félagsaðildar sameiginlegrar umsýslustofnunar og vera aðgengilegar öllum í samræmi við 19. og 21. gr.
    Hvert umboð skal gilda fyrir einn aðalfund. Umboðshafi skal hafa sömu réttindi á aðalfundi og félagsaðilinn sem tilnefndi hann á rétt á. Umboðshafinn skal greiða atkvæði í samræmi við fyrirmæli frá félagsaðilanum sem tilnefndi hann.

8. gr.

Eftirlitshlutverk.

    Sérhver sameiginleg umsýslustofnun skal koma á fót eftirlitskerfi til að fylgjast reglulega með starfi og frammistöðu þeirra einstaklinga sem stjórna daglegri starfsemi stofnunarinnar. Ef stjórn sameiginlegrar umsýslustofnunar er tilnefnd af félagsaðilum á aðalfundi, sbr. 3. mgr. 6. gr., getur hún haft slíkt eftirlitshlutverk með höndum.
    Fari sameiginleg umsýslustofnun með fyrirsvar fyrir ólíka flokka félagsaðila skal gæta sanngirni og jafnræðis við val á fulltrúum þeirra ólíku flokka hjá eftirlitsaðila.
    Hver einstaklingur sem gegnir eftirlitshlutverki skal leggja fyrir aðalfund félagsaðila sérstakt árlegt yfirlit um hagsmunaárekstra með upplýsingunum sem um getur í 3. mgr. 9. gr.
    Eftirlitsaðili skal funda reglulega og a.m.k. beita þeim heimildum sem honum voru faldar af aðalfundi félagsaðila ásamt því að vera heimilt að hafa eftirlit með stjórnendum sem 9. gr. tekur til.
    Aðili sem gegnir eftirlitshlutverki skal gefa skýrslu um framkvæmd eftirlitsins á aðalfundi félagsaðila a.m.k. einu sinni á ári.

9. gr.

Skyldur stjórnenda sameiginlegrar umsýslustofnunar.

    Sérhver sameiginleg umsýslustofnun skal gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að þeir einstaklingar sem stjórna daglegri starfsemi hennar geri það á traustan, skynsaman og viðeigandi hátt og beiti til þess traustum stjórnunar- og bókhaldsaðferðum og innra eftirlitskerfi.
    Sameiginlegar umsýslustofnanir skulu koma sér upp og nota aðferðir til að forðast hagsmunaárekstra og, ef ekki verður komist hjá slíkum árekstrum, að greina, stjórna og fylgjast með og birta upplýsingar um raunverulega eða hugsanlega hagsmunaárekstra þannig að koma megi í veg fyrir að þeir hafi neikvæð áhrif á sameiginlega hagsmuni rétthafanna sem stofnunin er í fyrirsvari fyrir.
    Aðferðirnar sem getið er í 2. mgr. skulu fela í sér að sérhver einstaklingur sem stjórnar daglegri starfsemi sameiginlegrar umsýslustofnunar, sbr. 1. mgr., sendi frá sér sérstakt árlegt yfirlit, hagsmunaskrá, til aðalfundar félagsaðila með eftirfarandi upplýsingum:
     1.      Hvort þeir hafa einhverra hagsmuna að gæta er varða hina sameiginlegu umsýslustofnun.
     2.      Hvort þeir hafa fengið greiðslur á næstliðnu fjárhagsári frá hinni sameiginlegu umsýslustofnun.
     3.      Hvort þeir, sem rétthafar, hafa fengið fjárhæðir frá hinni sameiginlegu umsýslustofnun á næstliðnu fjárhagsári.
     4.      Yfirlýsingu um raunverulegan eða hugsanlegan árekstur milli persónulegra hagsmuna og hagsmuna hinnar sameiginlegu umsýslustofnunar eða milli skuldbindinga gagnvart umsýslustofnuninni og skyldu gagnvart einhverjum öðrum einstaklingi eða lögaðila.

III. KAFLI

Umsýsla réttindatekna.

10. gr.

Almennt.

    Sameiginlegar umsýslustofnanir skulu sýna kostgæfni við innheimtu, úthlutun og aðra umsýslu réttindatekna.

11. gr.

Bókhaldslegur aðskilnaður.

    Sameiginlegar umsýslustofnanir skulu halda aðgreindum í bókhaldi sínu réttindatekjum og hugsanlegum arði af fjárfestingu þeirra frá öðrum tekjum og annarri starfsemi.

12. gr.

Ráðstöfun tekna af réttindum.

    Sameiginlegum umsýslustofnunum er ekki heimilt að ráðstafa réttindatekjum eða tekjum af fjárfestingu réttindatekna í öðrum tilgangi en að úthluta þeim til rétthafa nema þegar heimilt er að umsýslukostnaður komi til frádráttar eða jöfnunar í samræmi við ákvörðun sem er tekin skv. 4. tölul. 5. mgr. 6. gr., eða að nota réttindatekjur eða arð af fjárfestingu þeirra í samræmi við ákvörðun sem tekin er samkvæmt öðrum töluliðum 5. mgr. 6. gr.

13. gr.

Fjárfestingar réttindatekna.

    Ef sameiginleg umsýslustofnun fjárfestir réttindatekjum eða öðrum arði af fjárfestingu þeirra ber henni að gera það í þágu hagsmuna rétthafa þeirra réttinda sem hún er í fyrirsvari fyrir, í samræmi við almenna fjárfestingar- og áhættustýringarstefnu sbr. 3. og 6. tölul. 5. mgr. 6. gr. og með hliðsjón af eftirfarandi reglum:
     1.      Þegar um er að ræða hugsanlega hagsmunaárekstra skal sameiginleg umsýslustofnun tryggja að eingöngu sé fjárfest í þágu hagsmuna rétthafa.
     2.      Eignir skulu fjárfestar þannig að öryggi, gæði, lausafjárstaða og arðsemi eignasafnsins í heild sé tryggt.
     3.      Eignir skulu vera nægilega fjölbreyttar til þess að komast megi hjá því að treysta óþarflega mikið á tiltekna eign og uppsöfnun áhættu í eignasafninu í heild.

14. gr.

Frádrættir.

    Áður en rétthafi veitir sameiginlegri umsýslustofnun leyfi til að hafa umsjón með réttindum sínum ber stofnuninni að veita rétthafanum upplýsingar um umsýslukostnað og annan frádrátt frá réttindatekjum og frá arði af fjárfestingu þeirra.
    Frádráttur skal vera sanngjarn með tilliti til þjónustunnar sem sameiginleg umsýslustofnun veitir rétthöfum.
    Umsýslukostnaður skal ekki fara yfir rökstuddan og skráðan kostnað sem sameiginleg umsýslustofnun stofnar til við umsýslu höfundarréttar og skyldra réttinda.
    Þegar sameiginleg umsýslustofnun veitir félagslega, menningarlega eða menntunartengda þjónustu sem er fjármögnuð með því sem dregið er frá réttindatekjum eða tekjum af fjárfestingum réttindatekna, skal slík þjónusta veitt á grundvelli sanngjarnra viðmiðana.

15. gr.

Útborgun til rétthafa.

    Sérhver sameiginleg umsýslustofnun skal úthluta og greiða réttindagreiðslur til rétthafa reglulega, af kostgæfni og nákvæmni í samræmi við almenna stefnu um úthlutun þeirra, sbr. 1. tölul. 5. mgr. 6. gr.
    Sameiginlegar umsýslustofnanir skulu greiða réttindagreiðslur skv. 1. mgr. til rétthafa eins fljótt og mögulegt er, þó eigi síðar en níu mánuðum frá lokum þess fjárhagsárs þegar réttindatekjur voru innheimtar, nema hlutlægar ástæður komi í veg fyrir að sameiginleg umsýslustofnun virði þann frest.

16. gr.

Rétthafar sem ekki er unnt að finna.

    Þegar útborgun réttindagreiðslna er ekki möguleg innan frestsins skv. 2. mgr. 15. gr. vegna þess að ekki er vitað hverjir rétthafarnir eru eða ekki er hægt að hafa uppi á þeim, skal viðkomandi fjárhæðum haldið aðgreindum í bókhaldi sameiginlegu umsýslustofnunarinnar.
    Sameiginleg umsýslustofnun skal gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að bera kennsl á rétthafana og hafa uppi á þeim í þeim tilvikum sem skýrslur um notkun verka gerir það mögulegt. Við mat á hvað teljist nauðsynlegar ráðstafanir skal höfð hliðsjón af fjárhagslegum hagsmunum rétthafans, tilvist upplýsingaveitna sem hægt væri að nýta sem og kostnaði við mögulega leit, sbr. þó 3.–5. mgr.
    Eigi síðar en þremur mánuðum eftir að frestur skv. 2. mgr. 15. gr. er liðinn skal sameiginleg umsýslustofnun gera upplýsingar um verk sem ekki er vitað hver rétthafi eða rétthafar að því er, eða hvar hann er að finna, aðgengilegar rétthöfunum sem hún er í fyrirsvari fyrir og öllum sameiginlegum umsýslustofnunum sem hún hefur gert fyrirsvarssamninga við.
    Upplýsingar skv. 3. mgr. skulu, að því marki sem þær eru aðgengilegar fyrir sameiginlega umsýslustofnun, fela í sér titil verks eða annars efnis, nafn rétthafans, nafn viðkomandi útgefanda eða framleiðanda og aðrar viðkomandi upplýsingar sem liggja fyrir og gætu gagnast við að staðfesta deili á rétthafanum.
    Ef árangur næst ekki með þeim ráðstöfunum sem greinir í 2.–4. mgr. skal sameiginleg umsýslustofnun gera þessar upplýsingar aðgengilegar öllum eigi síðar en einu ári eftir að þriggja mánaða tímabilinu skv. 3. mgr. lýkur.
    Þegar útborgun réttindagreiðslu hefur ekki reynst möguleg þremur árum frá lokum fjárhagsársins þegar innheimta réttindatekna fór fram, og svo fremi að sameiginleg umsýslustofnun hafi gert allar nauðsynlegar ráðstafanir til að staðfesta deili á og hafa uppi á rétthöfunum sem um getur í 2. og 3. mgr., skulu þessar fjárhæðir teljast óráðstafanlegar.
    Á aðalfundi félagsaðila sameiginlegrar umsýslustofnunar skal ákveða hvernig óráðstafanlegar fjárhæðir skuli notaðar í samræmi við 2. tölul. 5. mgr. 6. gr. Þetta ákvæði er þó með fyrirvara um rétt rétthafa til að gera kröfur í samræmi við almennar reglur um fyrningu krafna.

IV. KAFLI

Umsýsla réttinda fyrir hönd annarra sameiginlegra umsýslustofnana.

17. gr.

Umsýsla réttinda á grundvelli fyrirsvarssamninga.

    Sameiginleg umsýslustofnun skal ekki mismuna rétthöfum þeirra réttinda sem hún hefur umsjón með á grundvelli fyrirsvarssamninga.

18. gr.

Réttindagreiðslur og frádrættir vegna umsýslu á grundvelli fyrirsvarssamninga.

    Sameiginleg umsýslustofnun skal einungis draga umsýslukostnað frá tekjum af þeim réttindum sem hún hefur umsjón með á grundvelli fyrirsvarssamnings, eða frá tekjum af fjárfestingu tekna af þeim réttindum, nema sameiginleg umsýslustofnun sem er aðili að fyrirsvarssamningnum samþykki annars konar frádrátt með skýrum hætti.
    Sameiginleg umsýslustofnun skal úthluta og greiða öðrum sameiginlegum umsýslustofnunum þær réttindagreiðslur sem þeim ber reglulega, af kostgæfni og nákvæmni.
    Sameiginleg umsýslustofnun skal annast slíka úthlutun og greiðslur til annarra sameiginlegra umsýslustofnana eins fljótt og mögulegt er, þó eigi síðar en níu mánuðum frá lokum fjárhagsársins þegar réttindatekjur voru innheimtar, nema hlutlægar ástæður komi í veg fyrir að umsýslustofnun virði þann frest.
    Sameiginleg umsýslustofnun sem tekur við réttindagreiðslum frá öðrum umsýslustofnunum skal úthluta og greiða rétthöfum þær réttindagreiðslur sem þeim ber eins fljótt og mögulegt er, og eigi síðar en sex mánuðum frá móttöku þeirra, nema hlutlægar ástæður komi í veg fyrir að sameiginleg umsýslustofnun virði þann frest.

V. KAFLI

Gagnsæi og skýrslugjöf.

19. gr.

Upplýsingar sem skulu veittar rétthöfum um umsýslu réttinda þeirra.

    Sameiginleg umsýslustofnun skal að lágmarki einu sinni á ári gera a.m.k. eftirfarandi upplýsingar aðgengilegar hverjum þeim rétthafa sem hún hefur úthlutað réttindatekjum til eða innt af hendi réttindagreiðslu til á tímabilinu sem upplýsingarnar varða:
     1.      Tengiliðaupplýsingar sem rétthafi hefur heimilað sameiginlegri umsýslustofnun að nota til þess að staðfesta deili á og hafa uppi á honum.
     2.      Réttindatekjur sem úthlutað er til rétthafans.
     3.      Fjárhæðir sem sameiginleg umsýslustofnun greiðir rétthafa fyrir hvern flokk réttinda sem hún hefur umsjón með og hverja tegund notkunar.
     4.      Tímabil notkunar sem fjárhæðum var úthlutað fyrir og greiddar rétthafanum, nema hlutlægar ástæður er varða skýrslugjöf notenda hindri sameiginlega umsýslustofnun í að veiti þessar upplýsingar.
     5.      Frádráttur vegna umsýslukostnaðar.
     6.      Annar frádráttur.
     7.      Allar útistandandi réttindatekjur sem úthlutað hefur verið til rétthafa á hverjum tíma.
    Þegar sameiginleg umsýslustofnun úthlutar réttindatekjum og hefur sem félagsaðila einingar sem bera ábyrgð á útborgun réttindagreiðslna til rétthafa, sbr. 24. gr., skal sameiginleg umsýslustofnun veita þessum einingum upplýsingar skv. 1. mgr. svo fremi að þær einingar hafi upplýsingarnar ekki þegar undir höndum.
    Hlutaðeigandi einingar skulu að lágmarki einu sinni á ári gera upplýsingarnar aðgengilegar hverjum rétthafa sem þær hafa úthlutað af réttindatekjum eða greitt réttindagreiðslur á því tímabili sem upplýsingarnar eiga við um.

20. gr.

Upplýsingar veittar annarri sameiginlegri umsýslustofnun um réttindaumsýslu á grundvelli fyrirsvarssamninga.

    Sameiginleg umsýslustofnun skal að lágmarki einu sinni á ári og rafrænt gera a.m.k. eftirfarandi upplýsingar aðgengilegar þeim sameiginlegu umsýslustofnunum sem hún hefur umsjón með réttindum fyrir á grundvelli fyrirsvarssamnings, fyrir það tímabil sem upplýsingarnar tengjast:
     1.      Þær réttindatekjur sem úthlutað er, réttindagreiðslur sem greiddar eru af sameiginlegri umsýslustofnun fyrir hvern flokk réttinda sem hún hefur umsjón með og hverja tegund notkunar, fyrir réttindin sem hún hefur umsjón með á grundvelli fyrirsvarssamningsins og úthlutaðar réttindatekjur sem eru ógreiddar á hverjum tíma.
     2.      Frádráttur vegna umsýslukostnaðar.
     3.      Annar frádráttur.
     4.      Upplýsingar um leyfi sem eru veitt eða hafnað að því er varðar verk sem fyrirsvarssamningurinn tekur til.
     5.      Ályktanir samþykktar á aðalfundi félagsaðila, að því marki sem þessar ályktanir tengjast umsýslu réttindanna sem falla undir fyrirsvarssamninginn.

21. gr.

Upplýsingar veittar rétthöfum, öðrum sameiginlegum umsýslustofnunum og notendum samkvæmt beiðni.

    Sameiginleg umsýslustofnun skal, í svari við tilhlýðilega rökstuddri beiðni, gera a.m.k. eftirfarandi upplýsingar aðgengilegar rafrænt og án ótilhlýðilegrar tafar, hverri þeirri sameiginlegu umsýslustofnun, sem hún hefur umsjón með réttindum fyrir á grundvelli fyrirsvarssamnings, eða hverjum rétthafa eða notanda:
     a.      verkin sem hún er í fyrirsvari fyrir, réttindin sem hún hefur umsjón með, beint eða á grundvelli fyrirsvarssamninga og yfirráðasvæðin sem um er að ræða eða
     b.      þegar, vegna umfangs starfsemi umsýslustofnunarinnar, ekki er hægt að ákvarða slík verk, tegundir verka sem hún er í fyrirsvari fyrir, réttindin sem hún hefur umsjón með og yfirráðasvæðin sem þau taka til.

22. gr.

Opinber birting upplýsinga.

    Sameiginleg umsýslustofnun skal birta og uppfæra a.m.k. eftirfarandi upplýsingar á opinberum vef sínum:
     1.      Samþykktir sínar.
     2.      Skilmála félagsaðildar og skilmála uppsagnar heimildar til að hafa umsjón með réttindum ef þeir koma ekki fram í samþykktunum.
     3.      Staðlaða leyfissamninga og staðlaðar viðeigandi gjaldskrár, þ.m.t. afslætti.
     4.      Skrá yfir einstaklinga sem stjórna daglegri starfsemi sameiginlegu umsýslustofnunarinnar, sbr. 9. gr.
     5.      Almenna stefnu um réttindagreiðslur til rétthafa.
     6.      Almenna stefnu um umsýslustofnað.
     7.      Almenna stefnu um frádrætti, aðra en frádrátt vegna umsýslukostnaðar, frá tekjum af réttindum og frá tekjum af fjárfestingu réttindatekna.
     8.      Skrá yfir þá fyrirsvarssamninga sem hún hefur gert og heiti þeirra sameiginlegu umsýslustofnana sem þessir fyrirsvarssamningar hafa verið gerðir við.
     9.      Almenna stefnu um notkun óráðstafanlegra fjárhæða.
     10.      Meðhöndlun kvartana og málsmeðferð við lausn deilumála sem er fyrir hendi í samræmi við 34. og 35. gr.

23. gr.

Árleg gagnsæisskýrsla.

    Sameiginleg umsýslustofnun skal, án tillits til rekstrarforms hennar að lögum, semja og birta árlega gagnsæisskýrslu, þ.m.t. sérstaka skýrslu skv. 4. mgr., fyrir hvert fjárhagsár eigi síðar en átta mánuðum eftir lok viðkomandi fjárhagsárs.
    Gagnsæisskýrslan skal birt á opinberum vef stofnunarinnar og skal hún vera þar aðgengileg almenningi í að lágmarki fimm ár.
    Hin árlega gagnsæisskýrsla skal að lágmarki innihalda þær upplýsingar sem settar eru fram í viðauka með lögum þessum.
    Gagnsæisskýrslan skal innihalda sérstaka skýrslu um notkun fjárhæða sem dregnar eru frá fyrir félagslega, menningarlega og menntunartengda þjónustu og skal hún innihalda að a.m.k. þær upplýsingar sem settar eru fram í 3. lið viðauka með lögum þessum.
    Reikningsskilaupplýsingar sem koma fram í árlegu gagnsæisskýrslunni skulu endurskoðaðar af einum eða fleiri löggiltum endurskoðendum í samræmi við lög um endurskoðendur.
    Endurskoðunarskýrslan ásamt öllum athugasemdum við hana skal birt í heild í árlegu gagnsæisskýrslunni.
    Ákvæði 1.–6. mgr. þessarar greinar skulu einnig eiga við félagsaðila sameiginlegra umsýslustofnana sem eru samtök rétthafa að því leyti sem þau eru ábyrg fyrir samantekt gagnsæisskýrslunnar skv. 24. gr. Gagnsæisskýrslur sem slíkir félagsaðilar taka saman skulu einnig vera aðgengilegar á opinberum vefjum þeirra, ef slíkir eru fyrir hendi, og jafnframt á opinberum vefjum sameiginlegra umsýslustofnana.

VI. KAFLI

Ábyrgðarskipting milli sameiginlegra umsýslustofnana og félagsaðila þeirra.

24. gr.

Ábyrgðarskipting milli sameiginlegra umsýslustofnana og félagsaðila þeirra.

    Sameiginlegar umsýslustofnanir sem hafa félagsaðila sem eru samtök rétthafa geta ákveðið í samþykktum sínum að úthlutun og útborgun réttindagreiðslna skv. 15.–16. gr. og 4. mgr. 18. gr. og samantekt gagnsæisskýrslu skv. 23. gr. fari fram á vegum slíkra félagsaðila, sjá einnig 6. og 7. mgr. 1. gr.

VII. KAFLI

Leyfisveitingar sameiginlegra umsýslustofnana á réttindum yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum.

25. gr.

Geta til að gefa út leyfi yfir landamæri.

    Sameiginleg umsýslustofnun sem veitir leyfi yfir landamæri vegna netnotkunar tónverka skal hafa fullnægjandi getu til að vinna rafrænt og á skilvirkan og gagnsæjan hátt gögn sem þarf fyrir umsjón slíkra leyfa, þ.m.t. í því skyni að skilgreina verkaskrána og fylgjast með notkun hennar, gefa út reikninga á notendur, innheimta tekjur af réttindum og úthluta fjárhæðum til rétthafa.
    Til að teljast hafa fullnægjandi getu skv. 1. mgr. skal sameiginleg umsýslustofnun uppfylla a.m.k. eftirfarandi skilyrði:
     1.      Hafa hæfni til að bera með nákvæmni kennsl á þau tónverk, að öllu leyti eða að hluta, sem sameiginleg umsýslustofnun hefur heimild til að vera í fyrirsvari fyrir.
     2.      Hafa hæfni til að greina nákvæmlega, að öllu leyti eða að hluta, að því er varðar hvert viðkomandi yfirráðasvæði, þau réttindi og samsvarandi rétthafa þeirra fyrir hvert tónverk eða hlutdeild í því, sem sameiginleg umsýslustofnun hefur heimild til að vera í fyrirsvari fyrir.
     3.      Nýta sér einkvæma auðkenniskóða til þess að bera kennsl á rétthafa og tónverk.
     4.      Nýta sér viðeigandi aðferðir til þess að greina og bæta á tímanlegan og skilvirkan hátt úr ósamræmi í gögnum í vörslu annarra sameiginlegra umsýslustofnana sem veita leyfi yfir landamæri vegna réttinda til netnotkunar á tónverkum.

26. gr.

Gagnsæi upplýsinga um verkaskrár yfir landamæri.

    Sameiginleg umsýslustofnun sem veitir leyfi yfir landamæri vegna réttinda til netnotkunar á tónverkum skal, ef rökstudd beiðni þar að lútandi berst, láta þjónustuveitendum á netinu, rétthöfum sem hún sér um réttindi fyrir og öðrum sameiginlegum umsýslustofnunum í té uppfærðar upplýsingar, rafrænt, svo hægt sé að bera kennsl á tónverkaskrána sem hún er í fyrirsvari fyrir á netinu. Upplýsingarnar skulu taka til tónverka sem sameiginlega umsýslustofnunin er í fyrirsvari fyrir, réttinda sem hún er í fyrirsvari fyrir, að öllu leyti eða að hluta, og svæðin sem um er að ræða.

27. gr.

Áreiðanleiki upplýsinga um verkaskrár yfir landamæri.

    Sameiginleg umsýslustofnun sem veitir leyfi yfir landamæri vegna réttinda til netnotkunar á tónverkum skal gera rétthöfum, öðrum sameiginlegum umsýslustofnunum og þjónustuveitendum á netinu kleift að fara fram á leiðréttingu á gögnum sem vísað er til í 2. mgr. 25. gr. eða upplýsingum sem veittar eru skv. 26. gr. Þegar kröfur um leiðréttingu eru nægilega vel rökstuddar skal sameiginleg umsýslustofnun tryggja að gögnin eða upplýsingarnar séu leiðréttar án ótilhlýðilegrar tafar.
    Sameiginleg umsýslustofnun skal sjá rétthöfum sem eiga tónverk í tónverkaskrá hennar sjálfrar og rétthöfum sem hafa falið henni umsjón með réttindum til netnotkunar tónverka sinna, í samræmi við 32. gr., fyrir leiðum til að leggja fram upplýsingar í rafrænu formi um tónverk þeirra, réttindi þeirra til þessara verka og um yfirráðasvæðin sem rétthafarnir veita stofnuninni heimild fyrir.
    Þegar sameiginleg umsýslustofnun veitir annarri sameiginlegri umsýslustofnun umboð til að veita leyfi yfir landamæri vegna réttinda til netnotkunar á tónverkum, skv. 30. og 31. gr., skal sameiginleg umsýslustofnun sem fær umboðið einnig beita 2. mgr. um rétthafa sem eiga tónverk í verkaskrá stofnunarinnar sem veitir umboðið, nema sameiginlegar umsýslustofnanir komist að samkomulagi um annað.

28. gr.

Nákvæm og tímanleg skýrslugjöf og reikningsgerð.

    Sameiginleg umsýslustofnun skal hafa eftirlit með hagnýtingu leyfa til notkunar tónverka yfir landamæri sem hún hefur veitt þjónustuveitendum á netinu.
    Sameiginleg umsýslustofnun skal gera þjónustuveitendum á netinu kleift að senda rafrænar skilagreinar um raunverulega notkun netréttinda á tónverkum. Þjónustuveitendur á netinu skulu senda nákvæma skilagrein um raunverulega notkun þessara verka. Sameiginleg umsýslustofnun skal bjóða upp á a.m.k. eina aðferð til skýrslugjafar þar sem tekið er tillit til valfrjálsra staðla eða starfsvenja innan atvinnulífsins, sem þróaðir eru á alþjóðlegum vettvangi eða á vettvangi Evrópska efnahagssvæðisins fyrir rafræn skil á slíkum gögnum.
    Sameiginleg umsýslustofnun skal senda þjónustuveitendum á netinu reikninga rafrænt. Sameiginleg umsýslustofnun skal bjóða upp á a.m.k. eitt snið þar sem tekið er tillit til valfrjálsra staðla eða starfsvenja innan atvinnulífsins, sem þróaðir eru á alþjóðlegum vettvangi eða á vettvangi Evrópska efnahagssvæðisins fyrir rafræn skipti á slíkum gögnum. Á reikningnum skulu verk og réttindi sem leyfi er veitt fyrir tilgreind á grundvelli gagna sem talin eru upp í 2. mgr. 25. gr., og samsvarandi raunverulegri notkun, að því marki sem mögulegt er á grundvelli upplýsinga frá þjónustuveitendum á netinu og því sniði sem notað er til að veita þær upplýsingar. Þjónustuveitendur á netinu geta ekki hafnað reikningum vegna sniðsins ef sameiginleg umsýslustofnun notar staðal sem er almennt notaður í atvinnulífinu.
    Sameiginleg umsýslustofnun skal reikningsfæra þjónustuveitandann á netinu nákvæmlega og án tafar eftir móttöku skilagreinar um raunverulega notkun réttinda til netnotkunar á tónverki, nema þegar það er ekki hægt af ástæðum sem rekja má til þjónustuveitandans.
    Sameiginleg umsýslustofnun skal bjóða upp á viðeigandi ráðstafanir sem gerir þjónustuveitandanum á netinu kleift að andmæla réttmæti reikningsins.

29. gr.

Nákvæm og tímanleg greiðsla til rétthafa.

    Sameiginleg umsýslustofnun sem sér um leyfisveitingar yfir landamæri vegna réttinda til netnotkunar á tónverkum skal greiða þær réttindagreiðslur sem rétthafar eiga að fá vegna slíkra leyfa á nákvæman hátt og án tafar eftir að tilkynnt er um raunverulega notkun á verkinu, nema þegar það er ekki mögulegt af ástæðum sem rekja má til þjónustuveitanda.
    Með hverri greiðslu sem sameiginleg umsýslustofnun innir af hendi í samræmi við 1. mgr. skal veita rétthöfum a.m.k. upplýsingar um eftirfarandi:
     1.      Notkunartímabil og landfræðilega staðsetningu notkunar sem rétthafar eiga að fá greitt fyrir.
     2.      Innheimtar réttindatekjur, frádrátt og fjárhæðir sem sameiginleg umsýslustofnun úthlutar fyrir hverja netnotkun á hverju því tónverki sem rétthafar hafa heimilað umsýslustofnun, að fullu eða að hluta, að vera í fyrirsvari fyrir.
     3.      Rétthafagreiðslu sem innheimt er fyrir rétthafa, frádrátt frá henni og upphæð sem sameiginleg umsýslustofnun úthlutar fyrir hvern þjónustuveitanda.
    Þegar sameiginleg umsýslustofnun veitir annarri sameiginlegri umsýslustofnun umboð til leyfisveitinga yfir landamæri vegna réttinda til netnotkunar á tónverkum, skv. 30. og 31. gr., skal sú síðarnefnda greiða þær réttindagreiðslur, sem tilgreindar eru í 1. mgr., af nákvæmni og án tafar til fyrrnefndu stofnunarinnar og veita henni þær upplýsingar sem tilgreindar eru í 2. mgr. Sameiginlega umsýslustofnunin sem veitir umboðið skal bera ábyrgð á síðari útborgun slíkra réttindagreiðslna og veita slíkar upplýsingar til rétthafa nema sameiginlegu umsýslustofnanirnar komi sér saman um annað.

30. gr.

Samningar milli sameiginlegra umsýslustofnana vegna leyfisveitinga yfir landamæri.

    Fyrirsvarssamningur milli sameiginlegra umsýslustofnana, þar sem ein stofnun veitir annarri umboð til leyfisveitinga yfir landamæri vegna réttinda til netnotkunar á tónverkum sem eru í tónverkaskrá þeirrar fyrrnefndu, skulu ekki útiloka sambærileg umboð til annarra sameiginlegra umsýslustofnana.
    Sameiginleg umsýslustofnun sem veitir umboð skv. 1. mgr. skal tilkynna félagsaðilum sínum um helstu skilmála fyrirsvarssamningsins.
    Sameiginleg umsýslustofnun sem fær umboð skv. 1. mgr. skal upplýsa sameiginlegu umsýslustofnunina sem veitir slíkt umboð um helstu skilmálana um leyfisveitingu réttinda vegna netnotkunar sem umboðið tekur til.

31. gr.

Skylda til að vera í fyrirsvari fyrir aðra sameiginlega umsýslustofnun vegna leyfisveitinga yfir landamæri.

    Þegar sameiginleg umsýslustofnun sem veitir ekki leyfi eða býður ekki leyfisveitingu yfir landamæri vegna réttinda til netnotkunar á tónverkum í eigin verkaskrá fer fram á að önnur sameiginleg umsýslustofnun geri samning um að vera í fyrirsvari fyrir viðkomandi réttindi, verður sú síðarnefnda að samþykkja beiðnina ef hún veitir þegar slík leyfi eða býður slíka leyfisveitingu á tónverkum í verkaskrá einnar eða fleiri annarra sameiginlegra umsýslustofnana.
    Sameiginleg umsýslustofnun sem beiðninni er beint til skal svara sameiginlegri umsýslustofnun, sem leggur fram beiðnina, skriflega og án ótilhlýðilegrar tafar.
    Sameiginleg umsýslustofnun sem beiðninni til beint til skal hafa umsjón með verkaskrá þeirrar sameiginlegu umsýslustofnunar sem leggur fram beiðnina með sömu skilyrðum og sú fyrrnefnda notar við umsýslu eigin verkaskrár.
    Sameiginleg umsýslustofnun sem beiðninni er beint til skal hafa þá verkaskrá sameiginlegu umsýslustofnunarinnar sem leggur fram beiðnina, sem hún er í fyrirsvari fyrir, í öllum tilboðum sínum til þjónustuveitenda á netinu.
    Umsýslukostnaður vegna þjónustu, sem sameiginleg umsýslustofnun sem beiðninni er beint til veitir stofnuninni sem leggur fram beiðnina, skal ekki vera umfram hóflegan kostnað sem sú fyrrnefnda hefur stofnað til.
    Sameiginleg umsýslustofnun sem leggur fram beiðnina skal veita sameiginlegri umsýslustofnun, sem beiðninni er beint til, aðgang að upplýsingum sem tengjast eigin tónverkaskrá og sem eru nauðsynlegar til leyfisveitingar yfir landamæri vegna réttinda til netnotkunar á tónverkum. Ef upplýsingar eru ekki fullnægjandi eða veittar á formi sem gerir sameiginlegri umsýslustofnun, sem beiðninni er beint til, ekki kleift að uppfylla kröfur þessa kafla skal hún eiga rétt á að krefjast greiðslu hóflegs kostnaðar sem stofnað er til til að uppfylla slíkar kröfur eða að útiloka þau verk sem ekki eru nægar upplýsingar um eða ekki er hægt að nota.

32. gr.

Aðgangur að leyfisveitingum yfir landamæri.

    Þegar sameiginleg umsýslustofnun veitir ekki eða býður ekki leyfi yfir landamæri vegna réttinda til netnotkunar á tónverkum, eða leyfir ekki annarri sameiginlegri umsýslustofnun að vera í fyrirsvari fyrir þessi réttindi í þeim tilgangi, geta rétthafar sem hafa veitt fyrstnefndu stofnuninni heimild til að vera í fyrirsvari fyrir réttindi sín vegna netnotkunar á tónverkum afturkallað þá heimild fyrir öll yfirráðasvæði. Rétthafar geta þó valið að heimila sameiginlegu umsýslustofnuninni að veita slík leyfi fyrir netnotkun innan eins ríkis.

33. gr.

Undanþága frá réttindum til netnotkunar á tónverkum fyrir hljóðvarps- og sjónvarpsefni.

    Kröfur þessa kafla gilda ekki þegar sameiginlegar umsýslustofnanir veita, á grundvelli valfrjálsrar uppsöfnunar þeirra réttinda sem þarf, leyfi yfir landamæri vegna réttinda til netnotkunar á tónverkum sem útvarpsstofnun þarf til samtímis miðlunar hljóðvarps- eða sjónvarpsefnis eða eftir atvikum síðari miðlun eftir upphaflega útsendingu þess ásamt netnotkun hvers konar annars efnis, þ.m.t. sýnishorn, framleidd af eða fyrir útvarpsstofnun, sem tengist augljóslega upphaflegri útsendingu hljóðvarps- eða sjónvarpsefnis.

VIII. KAFLI

Meðferð deilumála, eftirlit og viðurlög.

34. gr.

Meðferð kvartana.

    Sameiginlegar umsýslustofnanir skulu hafa tiltækt fyrir félagsaðila sína og sameiginlegar umsýslustofnanir sem þær hafa umsjón með réttindum fyrir á grundvelli fyrirsvarssamnings skilvirkt og tímanlegt ferli til að bregðast við kvörtunum.
    Sameiginlegar umsýslustofnanir skulu svara kvörtunum skriflega. Ákvörðun sameiginlegrar umsýslustofnunar um frávísun kvörtunar skal rökstudd.

35. gr.

Úrskurðarnefnd um höfundaréttarmál.

    Deilum sameiginlegrar umsýslustofnunar við raunverulegan eða mögulegan þjónustuveitanda á netinu varðandi beitingu 26.–28. gr., við einn eða fleiri rétthafa varðandi beitingu 26.– 32. gr. og við aðra sameiginlega umsýslustofnun varðandi beitingu 26.–31. gr. má vísa til úrskurðarnefndar um höfundaréttarmál skv. 57. gr. höfundalaga.

36. gr.

Eftirlit.

    Ráðuneyti sem fer með málefni höfundaréttar hefur eftirlit með starfsemi sameiginlegra umsýslustofnana sem falla undir gildissvið laga þessara, að undanskildum málum sem falla undir valdsvið úrskurðarnefndar skv. 35. gr.
    Óski ráðuneytið eftir upplýsingum um starfsemi þeirra skulu sameiginlegar umsýslustofnanir afhenda ráðuneytinu þær án ótilhlýðilegrar tafar.
    Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda einnig um þá félagsaðila sameiginlegra umsýslustofnana sem eru eining í fyrirsvari fyrir rétthafa í þeim mæli sem þeir falla undir þessi lög skv. 6. og 7. mgr. 1. gr.
    Ráðuneyti sem fer með málefni höfundaréttar getur, ef um gróf eða endurtekin brot á lögum þessum er að ræða af hálfu umsýslustofnana sem viðurkennd eru á grundvelli ákvæða höfundalaga í 4. mgr. 11. gr., 5. mgr. 25. gr. b, 4. mgr. 26. gr. a, 2. mgr. 47. gr. og 3. mgr. 47. gr. b, ákveðið að fella niður slíka viðurkenningu að hluta eða öllu leyti.

37. gr.

Viðurlög.

    Fyrir brot á lögum þessum skal því aðeins refsa að þau séu framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Fyrir hlutdeild í brotum skal refsa á sama hátt.
    Eftirfarandi brot varða sektum nema þau varði þyngri brotum samkvæmt öðrum lögum:
     1.      Brot á 4. mgr. 4. gr. um skrá yfir félagsaðila.
     2.      Brot á 1.–5. mgr. 6. gr. um aðalfund félagsaðila.
     3.      Brot á 1., 3. og 5. mgr. 8. gr. um eftirlit.
     4.      Brot á 3. mgr. 9. gr. um upplýsingaskyldu aðila sem stjórna sameiginlegri umsýslustofnun.
     5.      Brot á 11. gr. og 12. gr. um bókhaldslegan aðskilnað og ráðstöfun tekna af réttindum.
     6.      Brot á 1. mgr. 14. gr. um upplýsingar um umsýslukostnað og annan frádrátt.
     7.      Brot á 2. mgr. 15. gr. um tímanlega úthlutun fjárhæða til rétthafa.
     8.      Brot á 1. og 3.–5. mgr. 16. gr. um óráðstafanlegar fjárhæðir.
     9.      Brot á 1., 3. og 4. mgr. 18. gr. um frádrætti og greiðslur í fyrirsvarssamningum.
     10.      Brot á 19.–23. gr. um upplýsingaskyldu gagnvart rétthöfum, sameiginlegum umsýslustofnunum og notendum.
     11.      Vanræksla á að láta í té upplýsingar skv. 2. mgr. 36. gr.
    Nú er brot framið á vegum sameiginlegrar umsýslustofnunar, félags eða annars fyrirtækis og má þá dæma fésekt á hendur því.
    Ákvæði 2. mgr. skulu eiga við félagsaðila sameiginlegra umsýslustofnana sem eru samtök í fyrirsvari fyrir rétthafa að því leyti sem slík samtök falla undir ákvæði laganna, sbr. 6. og 7. mgr. 1. gr.

IX. KAFLI

Ýmis ákvæði

38. gr.

Innleiðing á tilskipun.

    Með lögum þessum eru innleidd ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/26/ ESB frá 26. febrúar 2014 um sameiginlega umsýslu höfundarréttar og skyldra réttinda og leyfisveitingar yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum á innri markaðnum, eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 186/2017 frá 22. september 2017 um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992.

39. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2020.
    Ákvæði 32. gr. öðlast gildi einu ári eftir gildistökudag ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 186/2017 frá 22. september 2017.
    Ákvæði 40. gr. taka ekki til réttinda sem um er samið fyrir gildistöku laga þessara.

40. gr.

Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum: Á eftir II. kafla laganna kemur nýr kafli, II. kafli A, Tengsl sameiginlegra umsýslustofnana og samningsbundinna notenda, með tveimur nýjum greinum, 26. gr. d og 26. gr. e, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (26. gr. d.)

Leyfisveiting.

    Samningaviðræður sameiginlegra umsýslustofnana og notenda um leyfisveitingu réttinda skulu fara fram í góðri trú. Aðilar samningsviðræðna skulu veita hver öðrum allar nauðsynlegar upplýsingar.
    Skilmálar leyfisveitinga skulu byggjast á hlutlægum viðmiðunum án mismununar. Við leyfisveitingar réttinda þurfa sameiginlegar umsýslustofnanir ekki að nota, sem fordæmi fyrir aðra þjónustu á netinu, skilmála við leyfisveitingar sem samið var um við notanda þegar hann veitir nýja tegund þjónustu á netinu sem hefur verið aðgengileg almenningi á Evrópska efnahagssvæðinu skemur en þrjú ár.
    Rétthafar skulu fá viðeigandi þóknun fyrir notkun á réttindum þeirra.
    Sameiginlegar umsýslustofnanir skulu upplýsa notendur um viðmiðanir sem eru notaðar við ákvörðun gjaldskráa.
    Sameiginlegar umsýslustofnanir skulu svara beiðnum frá notendum án ótilhlýðilegrar tafar, og gefa meðal annars til kynna hvaða upplýsingar þarf til að sameiginleg umsýslustofnun geti boðið leyfi. Þegar sameiginleg umsýslustofnun hefur móttekið allar viðeigandi upplýsingar skal hún án ótilhlýðilegrar tafar annaðhvort veita leyfi eða láta notandanum í té rökstudda yfirlýsingu um það hvers vegna stofnunin ætlar ekki að veita slíkt leyfi.
    Sameiginlegar umsýslustofnanir skulu gera notendum kleift að eiga rafræn samskipti við þær.
    Ákvæði 1. mgr. skulu einnig eiga við allar sjálfstæðar umsýslueiningar sem hafa staðfestu á Íslandi.
    Deilum sameiginlegrar umsýslustofnunar, sem veitir eða býður veitingu fjölþjóðlegra leyfa yfir landamæri fyrir netnotkun tónverka, við raunverulegan eða mögulegan þjónustuveitanda á netinu varðandi beitingu 1.–6. mgr. má vísa til úrskurðarnefndar um höfundarréttarmál skv. 57. gr. svo framarlega sem deilurnar varði slík fjölþjóðleg leyfi.

    b. (26. gr. e.)

Skyldur notenda.

    Notendur skulu láta sameiginlegri umsýslustofnun í té allar viðeigandi upplýsingar sem þeir búa yfir um notkun réttinda, sem sameiginleg umsýslustofnun er í fyrirsvari fyrir, og þörf er á vegna innheimtu tekna af réttindum og fyrir úthlutun og útborgun réttindagreiðslna til rétthafa.
    Ef notandi og sameiginleg umsýslustofnun semja ekki sérstaklega um hvenær upplýsingar skv. 1. mgr. skuli afhendast skulu þær látnar í té svo fljótt sem auðið er eftir not viðkomandi réttinda.
    Ef notandi og sameiginleg umsýslustofnun semja ekki sérstaklega um á hvaða formi upplýsingar skv. 1. mgr. skuli látnar í té, skal notandinn nota þau skýrsluform sem sameiginlega umsýslustofnunin lætur í té, nema slíkt teljist ósanngjarnt.
    Ef upp koma álitamál um upplýsingaskyldu notanda skv. 1.–3. mgr. má leggja það álitamál fyrir úrskurðarnefnd um höfundarréttarmál skv. 57. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Sameiginleg umsýslustofnun skal í síðasta lagi upplýsa rétthafa, sem fyrir gildistöku laga þessara hafa gefið stofnuninni heimild til að hafa umsjón með réttindum sínum, um réttindi sín skv. 1.–6. mgr. 3. gr. og þau skilyrði sem sett hafa verið varðandi rétt sem þeir hafa skv. 3. mgr. 3. gr., sex mánuðum eftir gildistökudag ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 186/2017 frá 22. september 2017

Viðauki.

     1.      Upplýsingar sem eiga að koma fram í árlegri gagnsæisskýrslu sem um getur í 23. gr.:
                  a.      reikningsskil sem innihalda efnahagsreikning eða yfirlit yfir eignir og skuldir, rekstrarreikningur yfir fjárhagsárið og yfirlit um sjóðstreymi,
                  b.      skýrsla um aðgerðir á fjárhagsárinu,
                  c.      upplýsingar um synjun leyfisveitingar skv. 5. mgr. 26. gr. d. höfundalaga,
                  d.      lýsing á rekstrarformi að lögum og stjórnunarháttum sameiginlegu umsýslustofnunarinnar,
                  e.      upplýsingar um einingar sem eru beint eða óbeint í eigu eða undir yfirráðum sameiginlegu umsýslustofnunarinnar, að fullu eða að hluta,
                  f.      upplýsingar um heildarfjárhæð þóknunar sem er greidd einstaklingum, sem um getur í 3. mgr. 8. gr. og 9. gr. á næstliðnu ári og önnur fríðindi sem þeim eru veitt,
                  g.      fjárhagsupplýsingarnar sem um getur í 2. lið þessa viðauka,
                  h.      sérstök skýrsla um notkun fjárhæða sem koma til frádráttar vegna félagslegrar, menningarlegrar og menntunartengdrar þjónustu, með upplýsingum sem um getur í 3. lið þessa viðauka.
     2.      Fjárhagsupplýsingar sem eiga að koma fram í árlegri gagnsæisskýrslu:
                  a.      upplýsingar um tekjur af réttindum, fyrir hvern réttindaflokk sem umsjón er höfð með og hverja tegund notkunar (t.d. útsendingu hljóðvarps- eða sjónvarpsefnis, netnotkun, opinberan flutning), þ.m.t. upplýsingar um tekjur af fjárfestingu réttindatekna og notkun slíkra tekna (hvort þeim sé úthlutað til rétthafa eða annarra sameiginlegra umsýslustofnana eða notaðar á annan hátt),
                  b.      upplýsingar um kostnað við umsýslu réttinda og aðra þjónustu sem sameiginlega umsýslustofnunin veitir rétthöfum, ásamt ítarlegri lýsingu á a.m.k. eftirfarandi þáttum:
                      i.      allur rekstrar- og fjárhagskostnaður, sundurliðaður eftir flokkum þeirra réttinda sem umsjón er höfð með og, þegar um er að ræða óbeinan kostnað sem ekki hægt að rekja til eins eða fleiri réttindaflokka, útskýring á aðferðinni sem er notuð við að skipta niður slíkum óbeinum kostnaði,
                      ii.      rekstrar- og fjárhagskostnaður, sundurliðaður eftir flokkum réttinda sem umsjón er höfð með og, þegar um er að ræða óbeinan kostnað sem ekki er hægt að rekja til eins eða fleiri réttindaflokka, útskýring á aðferðinni sem er notuð við skipta niður slíkum óbeinum kostnaði, einungis að því er varðar réttindaumsýslu, þ.m.t. umsýslukostnaður sem dreginn er frá eða jafnaður á móti tekjum af réttindum eða tekjum af fjárfestingu á réttindatekjum í samræmi við 12. gr. og 1.–3. mgr. 14. gr.,
                      iii.      rekstrar- og fjárhagskostnaður að því er varðar þjónustu aðra en réttindaumsýslu en að meðtalinni félagslegri, menningarlegri og menntunartengdri þjónustu,
                      iv.      fjármagn notað til að greiða kostnað,
                      v.      frádráttur frá tekjum af réttindum, sundurliðaður eftir flokkum réttinda sem umsjón er höfð með og eftir tegund notkunar og af hverju frádrátturinn stafar, svo sem kostnaður er varðar réttindaumsýslu eða félagslega, menningarlega eða menntunartengda þjónustu,
                      vi.      hlutfallið, sem kostnaður við réttindaumsýslu og aðra þjónustu sem sameiginlega umsýslustofnunin veitir rétthöfum, tengist í samanburði við réttindatekjur á viðkomandi fjárhagsári, eftir flokki þeirra réttinda sem umsjón er höfð með og, þegar kostnaður er óbeinn og ekki hægt að skipta honum niður á einn eða fleiri flokka réttinda, útskýring á aðferðinni sem er notuð við að úthluta slíkum óbeinum kostnaði,
                  c.      upplýsingar um réttindagreiðslur til rétthafa með ítarlegri lýsingu á a.m.k. eftirfarandi þáttum:
                      i.      heildarfjárhæðinni sem er úthlutað á rétthafa, sundurliðaðri eftir flokki réttinda sem umsjón er höfð með og tegund notkunar,
                      ii.      heildarfjárhæðinni sem er greidd rétthöfum, sundurliðaðri eftir flokki réttinda sem umsjón er höfð með og tegund notkunar,
                      iii.      tíðni greiðslna, sundurliðaðri eftir flokki réttinda sem umsjón er höfð með og tegund notkunar,
                      iv.      heildarfjárhæð sem er innheimt en hefur enn ekki verið úthlutuð rétthöfum, sundurliðaðri eftir flokkum réttinda sem umsýsla er höfð með og tegund notkunar, þar sem fram kemur fjárhagsárið þegar viðkomandi fjárhæðir voru innheimtar,
                      v.      heildarfjárhæð sem úthlutað hefur verið til rétthafa en hefur ekki verið útborgað, sundurliðaðri eftir flokki réttinda sem umsjón er höfð með og tegund notkunar, þar sem fram kemur fjárhagsárið þegar þessar fjárhæðir voru innheimtar,
                      vi.      þegar sameiginleg umsýslustofnun hefur ekki útborgað réttindagreiðslum innan þess frests sem settur er í 2. mgr. 15. gr., ástæðum þessarar tafar,
                      vii.      óráðstafanlegum fjárhæðum í heild, ásamt skýringu á notkun þessara fjárhæða,
                  d.      upplýsingar um tengsl við aðrar sameiginlegar umsýslustofnanir með lýsingu á a.m.k. eftirfarandi þáttum:
                      i.      mótteknum fjárhæðum frá öðrum sameiginlegum umsýslustofnunum og fjárhæðum sem greiddar eru til annarra sameiginlegra umsýslustofnana, sundurliðuðum eftir flokkum réttinda, eftir tegund notkunar og eftir stofnunum,
                      ii.      umsýslukostnaði og öðrum frádrætti frá réttindatekjum til annarra sameiginlegra umsýslustofnana, sundurliðuðum eftir flokkum réttinda, eftir tegund notkunar og eftir stofnunum,
                      iii.      umsýslukostnaði og öðrum frádrætti frá þeim fjárhæðum sem aðrar sameiginlegar umsýslustofnanir greiða, sundurliðuðum eftir flokkum réttinda og eftir stofnunum,
                      iv.      fjárhæðum sem er úthlutað beint til rétthafa og koma frá öðrum sameiginlegum umsýslustofnunum, sundurliðuðum eftir flokki réttinda og stofnunum.
     3.      Upplýsingar sem ber að gefa í sérstöku skýrslunni sem um getur í 4. mgr. 23. gr.:
                  a.      fjárhæðirnar sem eru dregnar frá vegna félagslegrar, menningarlegrar og menntunartengdrar þjónustu á fjárhagsárinu, sundurliðaðar eftir tegund tilgangs og, fyrir hverja tegund tilgangs, sundurliðaðar eftir flokki réttinda sem umsjón er höfð með og tegund notkunar,
                  b.      útskýring á notkun þessara fjárhæða, sundurliðuðum eftir tegund tilgangs, þ.m.t. kostnaður við umsýslu fjárhæða sem dregnar eru frá til að fjármagna félagslega, menningarlega og menntunartengda þjónustu og sérstakra fjárhæða sem notaðar eru fyrir félagslega, menningarlega og menntunartengda þjónustu.

Greinargerð.

Efnisskipan.
1. Inngangur.
2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    2.1. Bakgrunnur, tilgangur og notkunarsvið.
    2.2. Meginefni tilskipunarinnar.
    2.3. Lögfesting í landsrétt.
3. Meginefni frumvarpsins.
    3.1. Gildissvið og skilgreiningar.
              3.1.1. Gildissvið.
              3.1.2. Skilgreiningar.
    3.2. Fyrirsvar rétthafa, félagsaðild og skipulag sameiginlegra umsýslustofnana.
              3.2.1. Réttindi rétthafa.
              3.2.2. Aðildarreglur sameiginlegra umsýslustofnana.
              3.2.3. Réttindi rétthafa sem ekki eru félagsaðilar sameiginlegrar umsýslustofnunar.
              3.2.4. Aðalfundur.
              3.2.5. Eftirlit og skyldur forsvarsmanna sameiginlegra umsýslustofnana.
    3.3. Umsýsla tekna af réttindum.
              3.3.1. Innheimta og not tekna.
              3.3.2. Frádráttur.
              3.3.3. Úthlutun til rétthafa.
              3.3.4. Rétthafar sem ekki er unnt að finna.
    3.4. Umsýsla réttinda fyrir hönd annarra sameiginlegra umsýslustofnana.
              3.4.1. Umsýsla á grundvelli fyrirsvarssamninga.
              3.4.2. Réttindagreiðslur og frádrættir vegna umsýslu á grundvelli fyrirsvarssamninga.
    3.5. Gagnsæi og skýrslugjöf.
    3.6. Ábyrgðarskipting milli sameiginlegrar umsýslustofnana og félagsaðila þeirra.
    3.7. Leyfisveitingar sameiginlegrar umsýslustofnana á réttindum yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum.
              3.7.1. Kröfur um upplýsingar.
              3.7.2. Skýrslugjöf, reikningsgerð og úthlutun.
              3.7.3. Samningar á milli sameiginlegra umsýslustofnana um leyfisveitingar.
              3.7.4. Réttur til leyfisveitinga yfir landamæri.
              3.7.5. Undanþága frá réttindum til netnotkunar á tónverkum fyrir hljóðvarps- og sjónvarpsefni.
    3.8. Meðferð deilumála, eftirlit og viðurlög.
              3.8.1. Kvartanir.
              3.8.2. Úrskurðarnefnd höfundaréttarmála.
              3.8.3. Eftirlit og viðurlög.
    3.9 Tengsl sameiginlegra umsýslustofnana og samningsbundinna notenda.
4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
5. Samráð.
6. Mat á áhrifum.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins í samráði við höfundaréttarnefnd sem er mennta- og menningarmálaráðherra til ráðuneytis um höfundaréttarmál, skv. 58. gr. höfundalaga, nr. 73/1972, með síðari breytingum. Með frumvarpinu er stefnt að því að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/26/ESB um sameiginlega umsýslu höfundaréttar og skyldra réttinda og leyfisveitingar yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum á innri markaðnum (hér eftir einnig nefnd tilskipunin). Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 186/2017 frá 22. september 2017 um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992. Við undirbúning frumvarpsins var höfð hliðsjón af innleiðingu tilskipunarinnar í öðrum norrænum ríkjum, einkum í Danmörku.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Markmið frumvarpsins er að bæta starfshætti rétthafasamtaka, sem teljast sameiginlegar umsýslustofnanir, með því að setja samræmdar reglur um stjórnhætti, gagnsæi starfsreglna og fjármálaskipulag þeirra. Reglurnar eiga að tryggja viðeigandi þátttöku rétthafa í ákvarðanaferli sameiginlegra umsýslustofnana og upplýsingaflæði til rétthafa, annarra rétthafasamtaka, þjónustuveitenda og alls almennings. Þá eiga reglurnar að tryggja að umsýsla tekna sem sameiginlegar umsýslustofnanir innheimta fyrir hönd rétthafa sé í samræmi við lög. Með frumvarpinu er einnig stefnt að því að koma á samræmdum reglum um fjölþjóðleg leyfi sem veitt verða af sameiginlegum umsýslustofnunum um afnot af tónlist á netinu í þeim tilgangi að tryggja aukið framboð slíkrar þjónustu. Með frumvarpinu er verið að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/26/ESB um sameiginlega umsýslu höfundaréttar og skyldra réttinda og leyfisveitingar yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum á innri markaðnum.
    Tilskipunin öðlaðist gildi hér á landi á gildistökudegi ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 186/2017 frá 22. september 2017. Alþingi aflétti stjórnskipulegum fyrirvörum vegna þeirrar ákvörðunar með þingsályktun nr. 28/148 þann 7. júní 2018. Norðmenn hafa hins vegar ekki enn aflétt stjórnskipulegum fyrirvörum sínum vegna ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 186/2017 og því er dagsetning gildistöku ákvörðunarinnar ekki enn ljós.

2.1. Bakgrunnur, tilgangur og notkunarsvið tilskipunarinnar
    Frá árinu 1991 hafa Evrópuþingið og ráðið gefið út fjölmargar tilskipanir á höfundaréttarsviði. Tilskipanir Sambandsins, sem hafa verið samþykktar á sviði höfundarréttar og skyldra réttinda, sbr. V. kafla höfundalag um ýmis réttindi, skyld höfundarétti, veita rétthöfum víðtæka vernd og mynda lagaramma fyrir hagnýtingu verka sem njóta höfundaverndar. Hinar skapandi greinar, sem höfundaréttur á að vernda og styrkja, gegna mikilvægu hlutverki á Íslandi. Sameiginleg umsýsla höfundarréttar og skyldra réttinda er mikilvægur liður í nýtingu höfundaréttarverndaðra verka og hefur verið frá upphafi höfundaréttar. Slík sameiginleg umsýsla nýtur almennt viðurkenningar jafnt meðal rétthafa sem notenda.
    Ef aðrir en höfundarétthafar ætla að nýta efni sem er verndað af höfundarrétti og skyldum réttindum, þ.m.t. bækur, efni fyrir hljóð- og myndmiðla og tónlistarupptökur og þjónusta tengd því, þarf að fá leyfi fyrir þeim notum frá mismunandi handhöfum höfundarréttar og skyldra réttinda, svo sem höfundum, listflytjendum, framleiðendum og útgefendum. Með leyfi er átt við samning um nytjaleyfi fyrir hið verndaða efni. Á mörgum sviðum er ekki framkvæmanlegt eða efnahagslega fýsilegt fyrir einstaka rétthafa að veita slík leyfi á einstaklingsgrundvelli. Það þýðir að sameiginleg umsýsla réttinda er mikilvægt úrræði til efnahagslegrar hagnýtingar fyrir marga rétthafa. En það er þó ávallt rétthafinn sem velur milli einstaklingsbundinnar eða sameiginlegrar umsýslu réttinda sinna, nema lög kveði á um annað.
    Sameiginleg umsýsla höfundaréttinda felur meðal annars í sér útgáfu leyfa til notenda, stjórn notkunar, eftirlit með hagnýtingu réttinda, framfylgni höfundaréttar og skyldra réttinda, innheimtu rétthafagreiðslna fyrir notkun og úthlutun þeirra til rétthafa. Sameiginlegar umsýslustofnanir sjá þannig til þess að rétthafar fái endurgjald vegna notkunar sem þeir væru ekki í aðstöðu til að hafa eftirlit með eða framfylgja sjálfir, þ.m.t. á erlendum mörkuðum. Sameiginleg umsýsla er grundvöllur fyrir fjölbreyttu framboði þjónustu sem byggir á notkun mikils fjölda verndaðra verka, t.d. flutningur tónlistar í útvarpi eða ljósritun í menntastofnunum, þar sem hin sameiginlega umsýsla gerir mögulegt að afgreiða framsal réttinda í miklu magni. Þessi leið kemur bæði rétthöfum og notendum verndaðs efnis til góða. Sameiginlegar umsýslustofnanir gegna, og ættu að gegna áfram, mikilvægu hlutverki með því að stuðla að fjölbreytileika menningarlegra tjáningarforma, bæði með því að veita öllum verkum, þekktum og minna þekktum, aðgang að markaðnum á jafnræðisgrundvelli og með því að veita félagslega, menningarlega og menntunartengda þjónustu í þágu rétthafa sinna og almennings.
    Mikill munur er á lagaumhverfi um starfsemi sameiginlegra umsýslustofnana í einstökum aðildarríkjum ESB og EES, einkum að því er varðar reglur um gagnsæi og ábyrgðarskyldu þeirra gagnvart félagsaðilum og rétthöfum. Þetta hefur í mörgum tilvikum valdið erfiðleikum, einkum fyrir erlenda rétthafa þegar þeir leita réttar síns, og lélegri fjármálastjórnun á innheimtum tekjum. Vandkvæði varðandi starfsemi sameiginlegra umsýslustofnana leiða til óhagkvæmni við nýtingu höfundarréttar og skyldra réttinda á öllum innri markaðnum og eru til baga fyrir félagsaðila sameiginlegra umsýslustofnana, sem eru rétthafar eða samtök rétthafa, og notendur.
    Sameiginlegar umsýslustofnanir með staðfestu í EES-ríkjum ættu að geta notið þess frelsis sem kveðið er á um í EES-samningnum þegar þær eru í fyrirsvari fyrir rétthafa sem eru búsettir eða með staðfestu í öðrum aðildarríkjum eða annast leyfisveitingar til notenda sem eru búsettir eða með staðfestu í öðrum aðildarríkjum. Sérstaklega á þetta við um dreifingu tónlistar á netinu. Þörfin á að bæta starfsemi sameiginlegra umsýslustofnana á því sviði hefur þegar verið skilgreind í tilmælum framkvæmdastjórnarinnar 2005/737/EB um sameiginlega umsýslu landa á höfundarétti og skyldum réttindum í tengslum við lögmæta dreifingu tónlistar á netinu. Í þeim tilmælum eru settar fram nokkrar meginreglur, þar á meðal að rétthöfum sé frjálst að velja sér sameiginlegar umsýslustofnanir, að mismunandi flokkar rétthafa fái jafna meðferð og að úthlutun rétthafagreiðslna sé sanngjörn. Þar er mælst til þess að sameiginlegar umsýslustofnanir sjái notendum fyrir fullnægjandi upplýsingum um gjaldskrár og verkaskrár áður en samningaviðræður fara fram milli þeirra. Í þeim eru einnig tilmæli um ábyrgðarskyldu, fyrirsvar rétthafa hjá þeim aðilum sem fara með ákvarðanatöku innan sameiginlegra umsýslustofnana og lausn deilumála. Tilmælunum hefur hins vegar verið misjafnlega fylgt eftir.
    Hagsmunavernd félagsaðila sameiginlegra umsýslustofnana, rétthafa og þriðju aðila krefst þess að lög aðildarríkjanna er varða umsýslu höfundarréttar og leyfisveitingar yfir landamæri vegna réttinda til netnotkunar á tónverkum skuli samræmd með það fyrir augum að verndarráðstafanir séu jafngildar alls staðar á EES-svæðinu. Vegna alþjóðlegs eðlis netsins er tæknilega unnt að starfrækja tónlistarveitu í einu landi til að þjóna öllum ríkjum innri markaðarins. Markaður fyrir tónlistarveitur á innri markaðinum er þó enn landfræðilega uppskiptur og í raun hefur ekki enn komist á stafrænn innri markaður fyrir miðlun menningarefnis landa á milli. Flækjustigið og þær hindranir sem tengjast sameiginlegri umsýslu réttinda í Evrópu hafa þannig torveldað markmiðið um að koma upp innri markaði fyrir stafræna tónlistarþjónustu. Núverandi staða er í skýrri andstöðu við vaxandi eftirspurn notenda eftir aðgangi að stafrænni miðlun menningarefnis og nýsköpun á því sviði, þar með talið þjónustu sem gengur þvert yfir landamæri. Mikilvægt er að skapa skilyrði sem styður við skilvirkar leyfisveitingar yfir landamæri hjá sameiginlegum umsýslustofnunum sem fara með réttindi að tónverkum. Með tilskipuninni er stefnt að því að taka upp nýjar reglur sem leggja grundvöll að skilyrðum fyrir þær sameiginlegu umsýslustofnanir sem annast leyfisveitingar yfir landamæri fyrir notkun tónverka á netinu. Markmið tilskipunarinnar er að tryggja nauðsynlegar kröfur til gæða á þeirri starfsemi yfir landamæri sem sameiginlegar umsýslustofnanir standa að, sérstaklega með tilliti til gagnsæis varðandi þær verkaskrár sem stofnanirnar eru í fyrirsvari fyrir, og nákvæmni þess greiðsluflæðis sem tengist notkun réttinda.
    Tilgangurinn er enn fremur að skapa skilyrði sem stuðla að valfrjálsri sameiningu verkaskráa tónverka og réttinda og draga þannig fjölda þeirra leyfa sem notandi þarf að afla sér til að bjóða upp á tónlistarveitu yfir landamæri í mörgum löndum með fjölbreyttri verkaskrá.
    Tilskipunin gegnir tvennum aðalmarkmiðum í þessum sambandi. Fyrra markmiðið er að nútímavæða og endurbæta reglur um stjórnun, gagnsæi og fjárhagsstjórn sameiginlegra umsýslustofnana, meðal annars til að tryggja áhrif rétthafa á ákvarðanatöku ásamt því að tryggja nákvæma og tímanlega úthlutun áfallinna réttindagreiðslna. Síðara markmiðið er að flýta fyrir og efla útbreiðslu fjölsvæða leyfa fyrir tónverk í því augnamiði að skapa raunverulegan stafrænan innri markað.
    Markmið tilskipunarinnar er að kveða á um samræmingu landsreglna um aðgang sameiginlegra umsýslustofnana að þeirri starfsemi sem lýtur að umsjón með höfundarrétti og skyldum réttindum, fyrirkomulagi við stjórnun þeirra og eftirlitsramma. Tilgangurinn með þessari tilskipun er að mæla fyrir um ákvæði, sem gilda um sameiginlegar umsýslustofnanir, í því skyni að tryggja strangar kröfur um stjórnunarhætti, fjármálastjórnun, gagnsæi og skýrslugjöf. Þetta ætti þó ekki að fyrirbyggja að aðildarríkin viðhaldi eða geri strangari kröfur, í tengslum við sameiginlegar umsýslustofnanir með staðfestu á yfirráðasvæði þeirra, en þær sem mælt er fyrir um í II. bálki tilskipunarinnar, svo fremi að strangari kröfur á borð við þær séu í samræmi við aðra löggjöf á innri markaðinum. Ekkert í þessari tilskipun ætti að koma í veg fyrir að sameiginlegar umsýslustofnanir geri fyrirsvarssamninga við aðrar sameiginlegar umsýslustofnanir í samræmi við samkeppnisreglur Evrópuréttarins á sviði réttindaumsýslu til þess að auðvelda, bæta og einfalda málsmeðferð vegna leyfisveitinga til notenda, þ.m.t. að því er varðar að gera einn reikning, við jafngild, gagnsæ skilyrði og án mismununar, einnig vegna leyfisveitinga yfir landamæri á öðrum sviðum en þeim sem um getur í III. bálki þessarar tilskipunar.
    Tilskipunin hefur ekki áhrif á þann möguleika aðildarríkja að ákvarða í þessu skyni, með lögum, reglugerð eða annarri sérstakri málsmeðferð, sanngjarnar bætur til rétthafa fyrir undanþágur eða takmarkanir á rétti til eftirgerðar, sem kveðið er á um í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB, og greiðslur til rétthafa vegna frávika frá einkarétti til útlána til almennings, sem kveðið er á um í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/115/EB, sem gildir á yfirráðasvæði þeirra ásamt þeim skilyrðum sem gilda um innheimtu þeirra.

2.2. Meginefni tilskipunarinnar.
    Tilskipunin samanstendur af 45 greinum og viðauka. Meginmáli tilskipunarinnar er skipt í fimm bálka og verður hér stuttlega fjallað um efni þeirra.
    Fyrsti bálkur tilskipunarinnar (1.–3. gr.) hefur að geyma almenn ákvæði um gildissvið auk skilgreininga lykilhugtaka.
    Af 2. gr. tilskipunarinnar leiðir að bálkar I, II, IV og V, að undanskilinni 2. mgr. 34. gr. og 38. gr., gilda um allar sameiginlegar umsýslustofnanir með staðfestu í EES-ríki, jafnframt því sem bálkur III og 2. mgr. 34. gr., og 38. gr. gilda um þær sameiginlegu umsýslustofnanir sem hafa staðfestu í EES-ríki, og fara með fyrirsvar tónhöfunda að því er varðar netnotkun yfir landamæri á grundvelli fjölsvæðaleyfa. Enn fremur leiðir af 1. mgr. 16. gr., 18. gr., 20. gr., stafliðir a), b), c), e), f) og g) í 1. mgr. 21. gr., 36. gr. og 42. gr. gilda um allar sjálfstæðar umsýslueiningar, með staðfestu í EES-ríki.
    Annar bálkur tilskipunarinnar (4.–22. gr. sem er skipt í fimm kafla) , sem er jafnframt sá viðamesti, fjallar um stofnanir sem annast sameiginlega umsýslu. Hann hefur að geyma reglur, sem gilda um allar sameiginlegar umsýslustofnanir, með staðfestu í EES-ríki.
    Kafli 1 í bálki II (4.–10. gr.) felur í sér reglur um fyrirsvar fyrir rétthafa og félagsaðild og skipulag sameiginlegra umsýslustofnana.
    5. gr. kveður meðal annars á um að rétthafar skuli eiga rétt á því að veita sameiginlegri umsýslustofnun að eigin vali umboð til að fara með fyrirsvar réttinda, einstakra réttindaflokka eða tegundir verka á landfræðilegu svæði að eigin vali, óháð þjóðerni, heimilisfesti og staðfesturíki sameiginlegrar umsýslustofnunar eða rétthafa. Með sama hætti skulu rétthafar hafa möguleika á að afturkalla umboð sem þeir hafa veitt sameiginlegri umsýslustofnun.
    Ákvæði 6. gr. fela í sér reglur um félagsaðild að sameiginlegri umsýslustofnun. Af ákvæðinu leiðir meðal annars að sameiginlegri umsýslustofnun ber að samþykkja rétthafa og þær einingar, sem koma fram fyrir hönd rétthafa, þar með taldar aðrar sameiginlegar umsýslustofnanir og samtök rétthafa sem félagsaðila, ef þau uppfylla kröfur félagsaðildar. Kröfur um félagsaðild skulu reistar á hlutlægum og gagnsæjum kröfum sem fela ekki í sér mismunun.
    Ákvæði 8. gr. hefur að geyma ákvæði í 13. mgr. um aðalfund sameiginlegrar umsýslustofnunar. Þar á meðal er þar að finna reglur um hvaða ákvarðanir skuli taka á aðalfundi, heimildir til að takmarka réttinn til að greiða atkvæði á aðalfundinum ásamt meðferð umboðs og takmarkanir á því.
    Í 9. gr. er mælt fyrir um að sameiginleg umsýslustofnun skuli innleiða eftirlitshlutverk sem rýnir reglulega starfsemi og framkvæmd verkefna sameiginlegrar umsýslustofnunar af hálfu stjórnenda hennar.
    Kafli 2 í bálki II (11.–13. gr.) felur í sér reglur um umsýslu réttindagreiðslna og felur meðal annars í sér reglur um ráðstöfun réttindagreiðslna, þ.m.t. fjárfestingu þeirra, frádráttarliði sem sameiginleg umsýslustofnun getur dregið frá réttindagreiðslum til rétthafa, úthlutun réttindaþóknunar til rétthafa, auk málsmeðferðar til að ákvarða hvenær greiðslur teljast óráðstafanlegar sökum þess að ekki tekst að bera kennsl á rétthafa og staðsetningu hans.
    Kafli 3 í bálki II (14.–15. gr.) fjallar um umsýslu réttinda fyrir hönd annarra sameiginlegra umsýslustofnana.
    Kafli 4 í bálki II (16.–17. gr.) fjallar um tengsl sameiginlegra umsýslustofnana við notendur vegna leyfissamninga við þá.
    Kafli 5 í bálki II (18.–22. gr.) felur í sér reglur um gagnsæi og skýrslugjöf. Af 18. gr. leiðir að umsýslustofnun skal minnst einu sinni á ári gera aðgengilegar upplýsingar fyrir hvern rétthafa sem hefur fengið úthlutað réttindagreiðslu eða fengið greitt á því tímabili sem um ræðir.
    Ákvæði 21. gr. skylda sameiginlegar umsýslustofnanir til að birta opinberlega ýmsa flokka upplýsinga, þ.m.t. samþykktir, skilyrði fyrir félagsaðild og afturköllun umboðs til að fara með fyrirsvar réttinda, stöðluð leyfisákvæði og gildandi gjaldskrá, almenn stefna fyrir úthlutun áfallinna greiðslna til rétthafa og stefna um umsýslukostnað.
    Af 22. gr. leiðir að sameiginleg umsýslustofnun skal, án tillits til rekstrarforms samkvæmt landsrétti, undirbúa og birta opinberlega gagnsæisskýrslu fyrir hvert reikningsár í síðasta lagi átta mánuðum eftir lok viðkomandi reikningsárs.
    Í þriðja bálki tilskipunarinnar (23.–32. gr.) er kveðið á um leyfisveitingar sameiginlegra umsýslustofnana á réttindum yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum. 24. gr. áskilur meðal annars að sameiginleg umsýslustofnun sem gefur út fjölsvæða afnotaleyfi fyrir tónlistarréttindi á netinu þarf að hafa nægilega getu til að stafrænnar gagnavinnslu á skilvirkan og gagnsæjan hátt sem er nauðsynlegur fyrir umsýslu slíkra leyfa, þ.m.t. með tilliti til þess að bera kennsl á verkaskrá og hafa eftirlit með notkun hennar, gefa út reikninga til notenda, innheimta réttindagreiðslur og úthluta þeim til rétthafa.
    Ákvæði 30. gr. felur í sér skyldu fyrir sameiginlega umsýslustofnun til að koma fram fyrir hönd annarrar sameiginlegrar umsýslustofnunar að því er varðar veitingu fjölsvæðaleyfa. Af ákvæðinu leiðir að þegar sameiginleg umsýslustofnun sem ekki veitir eða býður upp á útgáfu fjölsvæða afnotaleyfa fyrir netafnot tónlistar á eigin verkaskrám, óskar eftir fyrirsvarssamningi við aðra sameiginlega umsýslustofnun um umsýslu slíkra réttinda, ber síðarnefndri umsýslustofnun að verða við þeirri ósk, ef hún gefur þegar út eða býður upp útgáfu á fjölsvæða afnotaleyfi í sama flokki tónlistarréttinda á netinu fyrir eina eða fleiri verkaskrár annarra sameiginlegra umsýslustofnana.
    Í 31. gr. er kveðið á um að þegar sameiginleg umsýslustofnun gefur ekki út eða býður ekki upp á fjölsvæðaleyfi fyrir tónlistarafnot á netinu eða veitir annarri sameiginlegri umsýslustofnun ekki möguleika á að fara með fyrirsvar réttinda í þessu skyni, geti rétthafar, sem hafa veitt viðkomandi sameiginlegri umsýslustofnun umboð til að fara með fyrirsvar tónlistarréttinda þeirra á netinu, svipt sameiginlega umsýslustofnun heimild til að fara með fyrirsvar tónlistarréttinda þeirra á netinu að því er varðar útgáfu fjölsvæðaleyfa fyrir öll landfræðileg svæði, án þess að nauðsynlegt sé að afturkalla heimildina vegna útgáfu leyfa á landsvísu. Rétthafi á þess kost við slíkar aðstæður að gefa sjálfur út fjölsvæða afnotaleyfi fyrir netafnot tónlistar á eigin verkum, veita öðrum aðila slíka heimild eða veita annarri sameiginlegri umsýslustofnun umboð til að fara með þann hluta sinna.
    Fjórði bálkur tilskipunarinnar (33.–38. gr.) fjallar um framfylgdarráðstafanir, svo sem meðferð kærumála og annarra ágreiningsmála og upplýsingaskipti milli lögbærra yfirvalda á EES-svæðinu. Af 33. gr. leiðir t.d. að sameiginleg umsýslustofnun skal veita félagsaðilum og öðrum sameiginlegum umsýslustofnunum sem hún annast umsýslu réttinda fyrir samkvæmt fyrirsvarssamningi, aðgang að skilvirkri málsmeðferð til úrlausna kvartana sem tengjast umboði til að fara með réttindi og uppsögn eða afturköllun slíks umboðs, skilmála félagsaðildar, innheimtu áfallinna greiðslna til rétthafa, frádrátt og úthlutun. Þá kveður 36 gr. á um að aðildarríkin skulu hafa eftirlit með sameiginlegum umsýslustofnunum með staðfestu í hlutaðeigandi aðildarríki.
    Fimmti og síðasti bálkur tilskipunarinnar (39.–45. gr.) inniheldur ýmis ákvæði sem lúta meðal annars að skýrslugjöf og innleiðingu tilskipunarinnar.

2.3. Lögfesting í landsrétt.
    Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur lagt mat á hvort innleiða beri tilskipunina í landsrétt með breytingum á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum, en niðurstaðan er sú að það sé ekki skynsamlegt af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi eru reglur tilskipunarinnar annars eðlis en ákvæði í gildandi höfundalögum. Í öðru lagi eru ákvæði tilskipunarinnar umfangsmikil og innleiðing þess í heild sinni í höfundalög væri til þess fallin að torvelda yfirsýn um hvoru tveggja réttindi höfunda og rétthafa skyldra réttinda og starfsreglur um rétthafasamtök, sem í skilningi tilskipunarinnar nefnast sameiginlegar umsýslustofnanir. Þá er rétt að hafa í huga að samtök rétthafa í skilningi höfundalaga eru ekki öll sameiginlegar umsýslustofnanir í skilningi tilskipunarinnar og því er ákveðin aðgreining nauðsynleg milli þessara hugtaka í tvennum lögum. Með hliðsjón af þessum hugleiðingum er lagt til að tilskipunin verði tekin upp í íslenskan rétt með nýjum lögum um sameiginlega umsýslu höfundarréttar. Til aðgreiningar er rétt að benda á að fræðigreinin höfundaréttur er rituð með einu „r“ en í hugtakinu höfundarréttur í skilningi réttinda sem höfundur á til verks eru tvö „r“.
    Við undirbúning innleiðingar tilskipunarinnar hafa þau ráðuneyti hjá Norðurlandaþjóðunum, sem með höfundaréttarmálefni fara, haft með sér samráð. Er löng hefð fyrir því að Norðurlandaþjóðirnar leitist við að hafa sem mest samræmi í höfundalöggjöf sinni og annarri löggjöf sem snertir höfundaréttarmálefni. Við samningu frumvarpsins hefur sérstaklega verið höfð hliðsjón af frumvarpi Dana til laga um sameiginlega umsýslu höfundarréttar sem lagt var fram í danska þjóðþinginu 9. desember 2015 og varð að lögum 11. desember sama ár (Lov nr. 321 af 05/04/2016 om kollektiv forvaltning af ophavsret).
    Sú leið er farin í frumvarpinu að um er að ræða svonefnda lágmarksinnleiðingu með beinni skírskotun til uppbyggingar og orðalags tilskipunarinnar og er sú stefna í samræmi við stefnu stjórnvalda um upptöku EES-gerða í landsrétt. Á hinn bóginn þýðir þessi innleiðingaraðferð að réttaráhrif frumvarpsins kunna að verða víðtækari og dýpri en orðalagið ber með sér. Eru þá einkum höfð í hug afleidd áhrif sem frumvarpið kann að hafa á félagsaðila sameiginlegra umsýslustofnana og aðildarfélög þeirra. Samkvæmt 9. mgr. og 10. mgr. 8. gr. tilskipunarinnar hafa aðildarríkin möguleika á að veita sameiginlegum umsýslustofnunum heimild til að setja reglur um þátttöku- og atkvæðarétt á aðalfundi, sem og reglur um í hversu miklum mæli er heimilt að veita umboð vegna þessa. Í frumvarpinu er lagt til að veita umsýslustofnunum fullt sjálfræði og sveigjanleika í samræmi við þá möguleika sem tilskipunin veitir. Að því leyti er ekki gengið lengra en tilskipunin mælir fyrir um. Um þetta atriði vísast til athugasemda við 7. gr. frumvarpsins.
    Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur lagt mat á hvort ákvæði frumvarpsins eigi að fullu eða að hluta að ná til félagsaðila sameiginlegrar umsýslustofnunar og aðildarfélaga þeirra í ljósi þess að aðildarfélögin eru oft ábyrg fyrir úthlutun áfallinna greiðslna til rétthafa, sbr. eins og t.d. Fjölís og Innheimtumiðstöð gjalda (IHM) gera með sínar úthlutanir. Tilskipunin hefur aðeins að geyma fáar reglur um úthlutanir til rétthafa á vegum aðildarfélaga félagsaðila og lágmarksinnleiðing tilskipunarinnar felur því í sér að rétthafar sem fá úthlutað réttindagreiðslum með þessum hætti njóta ekki sömu réttarverndar og að er stefnt með tilskipuninni. Á hinn bóginn eiga sameiginlegar umsýslustofnanir og félagsaðilar þeirra þess kost að setja ákvæði í samþykktir sínar um skyldur aðildarfélaga að þessu leyti og ábyrgðar- og hlutverkaskiptingu milli sameiginlegrar umsýslustofnunar, félagsaðila og aðildarfélaga þeirra. Til stuðnings slíku fyrirkomulagi eru í 6. mgr. og 7. mgr. 1. gr. og 24. gr. í frumvarpinu ákvæði um ábyrgðarskiptingu milli sameiginlegra umsýslustofnana og félagsaðila þeirra. Er þetta að danskri fyrirmynd. Þessi ákvæði teljast þó ekki fela í sér innleiðingu tilskipunarinnar umfram nauðsyn.
    Við innleiðingu tilskipunarinnar var höfð hliðsjón af þýðingu hennar á íslensku. Á einstaka stað eru notuð önnur orð og orðalag en er að finna í þýðingunni. Er það gert þegar þjálla og skýrara þykir að nota önnur orð en er að finna í þýðingunni. Sömuleiðis er leitast við að nota orðalag sem notað er í höfundalögum til að tengja þessa lagabálka betur saman. Þessar einstöku orðalagsbreytingar hafa ekki áhrif á efni innleiðingarinnar heldur eru eingöngu ætlaðar til skýringarauka. Að öðru leyti vísast til athugasemda með umræddum ákvæðum frumvarpsins.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Kaflaskipting frumvarpsins tekur að meginstefnu til mið af uppbyggingu tilskipunarinnar.

3.1. Gildissvið og skilgreiningar.
3.1.1. Gildissvið.
    Fyrsti kafli frumvarpsins kveður á um gildissvið þess og skilgreiningar og miðar að því að innleiða ákvæði tilskipunarinnar að því leyti. Gildissvið tilskipunarinnar er fyrst og fremst starfsemi sameiginlegra umsýslustofnana með staðfestu á EES svæðinu auk þess sem gefinn er kostur á að reglur hennar geti átt við sameiginlegar umsýslustofnanir sem ekki eru með staðfestu í EES en starfa innan einstakra landa á svæðinu. Þá er sérstakur kafli í tilskipuninni sem gildir eingöngu fyrir sameiginlegar umsýslustofnanir sem sjá um umsýslu höfundarréttinda yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum. Í íslenskum rétti er ekki sérstaklega kveðið á um starfsemi sameiginlegra umsýslustofnana eða höfundaréttarsamtaka eins og þau hafa verið nefnd, utan einstakra ákvæða í höfundalögum. Í höfundalögum eru notuð hugtökin félagssamtök, höfundaréttarfélag, rétthafasamtök, samtök höfundaréttarfélaga og samtök rétthafa yfir það sem er í frumvarpi þessu nefnt sameiginleg umsýslustofnun. Ekki munu þó öll höfundaréttarsamtök falla undir skilgreiningar frumvarpsins um hvað teljist vera sameiginleg umsýslustofnun, en skv. 1. tölul. 2. gr. eru það eingöngu skipulagsheild sem lögum samkvæmt eða með framsali, leyfi eða öðru samningsbundnu fyrirkomulagi hefur, sem sitt eina eða helsta hlutverk, umsjón með höfundarrétti eða réttindum sem tengjast höfundarrétti, fyrir hönd fleiri en eins rétthafa, til sameiginlegra hagsbóta fyrir þessa rétthafa. Auk þess þurfa þau að uppfylla eitt eða bæði eftirfarandi skilyrði: að vera í eigu eða undir yfirráðum félagsaðila sinna og/eða ekki vera starfrækt í hagnaðarskyni.
    Sameiginlegar umsýslustofnanir eða rétthafasamtök eru háðar mismunandi réttarreglum sem ráðast af því félagaformi sem orðið hefur verið fyrir valinu við skipulag á starfsemi þeirra. Flestar sameiginlegar umsýslustofnanir eða rétthafasamtök hér á landi eru starfrækt sem félagasamtök í eigu félagsmanna, sjá nánar kafla 3.2.5. Aðild að slíkum félagasamtökum getur ýmist verið í formi einstaklingsaðildar eða í gegnum aðildarfélag að samtökunum. Dæmi um félög þar sem aðild rétthafa byggist á einstaklingsaðild eru t.d. Rithöfundafélags Íslands (RSÍ) og Hagþenkir – félag höfunda fræðirita og kennslugagna. Dæmi um samtök þar sem aðild rétthafa er í gegnum aðildarfélag er Myndhöfundasjóður Íslands (Myndstef).
    Greiðslur frá sameiginlegum umsýslustofnunum gegna stóru hlutverki ekki aðeins fyrir afkomu listamanna sjálfra, heldur einnig framleiðendur og útgefendur; samanlagt deilast hundruð milljóna króna árlega til íslenskra rétthafa, sem er stór þáttur í grundvelli fyrir frekari tilurð nýrrar og margbreytilegrar listar á sviði kvikmynda, tónlistar, bókmennta, sviðslista, sjónvarps, listaverka, hönnunar, húsagerðar o.fl. Sameiginleg umsýsla höfundaréttinda kemur jafnt rétthöfum, notendum og samfélaginu almennt til góða. Fyrir rétthafana eru kostir þessa fyrirkomulags t.d. að þeir hafa möguleika á að fá greiðslur fyrir afnot réttinda sinna á sviðum þar sem þeir hafa sjálfir ekki möguleika á að veita leyfi á einstaklingsgrundvelli. Kostirnir fyrir notendur eru að unnt er með auðveldum hætti og án of mikillar skriffinnsku að öðlast afnotaleyfi fyrir stór verkasöfn sem eru háð höfundaréttarvernd. Það kemur jafnframt samfélaginu til góða að auðvelt er að afla leyfis til nýtingar á höfundaréttarvörðu efni. Umsýslustofnanir innheimta réttindatekjur frá notendum og úthluta þeim til rétthafa, annaðhvort beint til rétthafa í formi einstaklingsúthlutunar, eða til félagsaðila sem eru samtök rétthafa, sem síðan sjá um úthlutun til sinna rétthafa. Sameiginlegar umsýslustofnanir og aðildarfélög þeirra úthluta einnig réttindatekjum í formi heildarúthlutunar í stað einstaklingsgreiðslu, þannig að rétthafar á viðkomandi sviði geta t.d. sótt um styrki frá viðkomandi stofnunum eða félögum. Slíkt getur verið óumflýjanlegt þegar ómögulegt er eða örðugt vegna kostnaðar að greina hvaða verk hafa verið notuð í hvert einstakt sinn eins og á við t.d. um samningskvaðasamninga Fjölís um ljósritun eða aðra fjölföldun í stofnunum. Ef upp kemur ágreiningur við notendur er í mörgum tilvikum unnt að leysa úr honum fyrir tilstilli úrskurðarnefndar höfundaréttarmála skv. 57. gr. höfundalaga. Ekki hefur oft reynt á að leitað hafi verið til þeirrar úrskurðarnefndar.
    Þau rétthafasamtök á sviði höfundaréttar sem hlotið hafa viðurkenningu skv. höfundalögum til að sjá um innheimtu skv. ákvæðum laganna eru STEF, Myndstef, RSÍ, Hagþenkir, SFH, Fjölís og IHM.
    STEF, samband tónskálda og eigenda flutningsréttar, var stofnað 1948. Aðildarfélög STEFs eru tvö talsins, þ.e. Tónskáldafélag Íslands og Félag tónskálda og textahöfunda. STEF sér um umsýslu flutningsréttinda tónverka fyrir hönd aðildarfélaga sinna. Umsýslan er fyrst og fremst á grundvelli umboðs einstakra félagsmanna. Umboðið veitir STEFi einkaumboð til umsýslu viðkomandi réttinda sem þýðir að félagsmenn geta ekki sjálfir ráðstafað þeim réttindum sem hann eða hún hafa veitt STEFi umboð fyrir. Þess utan hefur STEF viðurkenningu ráðherra til að stofna til samningskvaðasamninga. Þannig fer umsýsla flutningsréttinda í útvarpi (hljóð- og sjónvarpi), sem og annar opinber flutningur tónlistar, fram á grundvelli samningskvaðaheimildar í 1. mgr. 23. gr. höfundalaga.
    Myndstef var stofnað 1991. Samtökin annast gæslu á notkunar- og birtingarrétti myndverka höfunda sem þegar hafa verið birt, skv. umboði. Myndstef tekur að sér að innheimta fylgiréttargjöld vegna endursölu listaverka í atvinnuskyni, sbr. 25. gr. b höfundalaga. Þá hefur getur Myndstef einnig annast samningskvaðagerð á grundvelli og í samræmi við ákvæði höfundalaga þar að lútandi, sjá 12. gr. b, 1. mgr. 23. gr. höfundalaga og 3. mgr. 14. gr. höfundalaga, sbr. 4. mgr. 26. gr. höfundalaga. Aðildarfélög Myndstefs eru sjö talsins. Þau eru Samband íslenskra myndlistarmanna, Ljósmyndarafélag Íslands, Hönnunarmiðstöð Íslands, Félag íslenskra teiknara, Félag grafískra teiknara, Arkitektafélag Íslands og Félag leikmynda- og búningahöfunda. Að auki býður Myndstef myndlistamönnum upp á einstaklingsaðild.
    Rithöfundasamband Íslands (RSÍ) var stofnað árið 1974. RSÍ annast umsýslu ýmissa réttinda rithöfunda, meðal annars hefur sambandið viðurkenningu mennta- og menningarráðuneytisins til samningskvaðasamninga vegna flutning efnis í útvarpi (hljóð- og sjónvarpi), sbr. 1. mgr. 23. gr. höfundalaga.
    Hagþenkir, félag höfunda fræðirita og kennslugagna, var stofnað árið 1983. Markmið félagsins er að gæta hagsmuna og réttar félagsmanna m. a. með því að annast samninga sem félagsfundir ákveða að gerðir skuli fyrir félagsmenn sameiginlega og vera aðili að rétthafasamtökum sem máli skipta í því sambandi og við aðra hagsmunagæslu fyrir félagsmenn og með því að úthluta því fé sem greitt er til félagsins samkvæmt slíkum samningum í samræmi við reglur sem samþykktar eru á félagsfundum. Hagþenkir hefur viðurkenningu ráðuneytisins til að annast samningskvaðasamningagerð við Ríkisútvarpið, sbr. 1. mgr. 23. gr. höfundalaga.
    Innheimtumiðstöð gjalda (IHM) var stofnuð árið 1984. Verkefni IHM eru eftirtalin: Innheimta, umsýsla og úthlutun fjármuna vegna bóta vegna eftirgerðar verka til einkanota skv. 3. mgr. 11.gr. höfundalaga nr. 73/1972, með síðari breytingum; vegna endurvarps á óbreyttu útvarps- og sjónvarpsefni til almennings um kapalkerfi samtímis hinni upphaflegu útsendingu sbr. 23. gr. a í höfundalögum nr. 73/1972, með síðari breytingum; vegna ólínulegs endurvarps útvarps- og sjónvarpsefnis til almennings, þ.m.t. vegna heimildar til að nálgast verndað efni á mismunandi tímum og með mismunandi móttökutækjum; vegna endurnota og endurútsendinga eldra efnis úr safni útvarpsstöðva sbr. 23. gr. b höfundalaga nr. 73/1972, með síðari breytingum; önnur innheimta og umsýsla fyrir aðildarfélög IHM og/eða aðra rétthafa, sem samtökunum hefur verið falið með sérstökum samningum þar að lútandi. Aðildafélög IHM eru: STEF (Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar), SFH (Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda), Rithöfundasamband Íslands, Blaðamannafélag Íslands, Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Félag kvikmyndagerðarmanna, Samtök kvikmyndaleikstjóra, Félag leikstjóra á Íslandi, Hagþenkir (Félag höfunda fræðirita og kennslugagna) og Myndstef.
    Fjölís – hagsmunasamtök vegna ljósritunar og stafrænnar eftirgerðar, var stofnað 1984. Aðildarfélög Fjölís eru Rithöfundasamband Íslands, Félaga íslenskra bókaútgefenda, Blaðamannafélag Íslands, Hagþenkir (Félag höfunda fræðirita og kennslugagna), Myndstef, STEF (Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar) og Samband íslenskra tónbókaútgefenda. Fjölís kemur fram fyrir hönd rétthafa að verkum sem njóta höfundaréttar og nýtt eru með ljósritun, skönnun, rafrænni eftirgerð eða annarri hliðstæðri eftirgerð. Fjölís hefur viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðuneytisins til að standa að samningskvaðasamningum, sbr. 18. gr. og 4. mgr. 26. gr. a höfundalaga.
    Líklegt er að flest þessara samtaka munu falla undir skilgreiningu frumvarpsins að vera sameiginleg umsýslustofnun samkvæmt frumvarpinu, sbr. 1. tölul. 2. gr.
    Í frumvarpinu er lagt til að lögin muni gilda um allar sameiginlegar umsýslustofnanir sem hafa staðfestu á Íslandi utan ákvæða VII. kafla sem eingöngu gilda fyrir sameiginlegar umsýslustofnanir sem annast umsýslu höfundarréttinda yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum. Auk þess er lagt til að ráðherra sem fer með málefni höfundaréttar geti sett reglur um að sameiginlegar umsýslustofnanir og sjálfstæðar umsýslustofnanir, með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, sem eru virkar á Íslandi, falli að öllu leyti eða að hluta undir ákvæði þessara laga. Nánar er vísað til greinargerðar með 1. gr. frumvarpsins um gildissvið frumvarpsins.

3.1.2. Skilgreiningar.
    Í tilskipuninni er að finna skilgreiningar á mörgum hugtökum sem ýmist er ekki að finna í íslenskum rétti eða hafa ekki einhlíta skilgreiningu og mikilvægt er að afmarka þýðingu þeirra. Skilgreiningar tilskipunarinnar eru til þess að samræma notkun og skilning á grunnhugtökum varðandi starfsemi sameiginlegra umsýslustofnana. Því er lagt til að þær verði teknar upp í frumvarpið, utan skilgreiningu á hugtakinu forstöðumaður (e. director) þar sem það er talið ónauðsynlegt. Sjá nánar í greinargerð með 2. gr. frumvarpsins.

3.2. Fyrirsvar rétthafa, félagsaðild og skipulag sameiginlegra umsýslustofnana.
3.2.1. Réttindi rétthafa.
    Almennt er kveðið á um réttindi sem rétthafar njóta sem félagar í sameiginlegri umsýslustofnun í samþykktum viðkomandi stofnunnar eða í ákvæðum um félagsaðild annarra sameiginlegra umsýslustofnana ef um slíkt er að ræða. Samþykktir eða ákvæði um félagsaðild eru yfirleitt ákveðnar á aðalfundum viðkomandi stofnana og eru breytilegar frá einni umsýslustofnun til annarrar. Af því leiðir að réttindin eru mismunandi eftir því hvaða sameiginlega umsýslustofnun rétthafar veita umboð sitt til að fara með höfundaréttindi sín.
    Ekki er að finna ákvæði í íslenskum rétti um hvernig farið skuli með höfundaréttindi rétthafa hjá sameiginlegum umsýslustofnunum. Það eina sem fyrirfinnst er ákvæði 27. gr. höfundalaga um að framsal höfundaréttar sé heimilt að hluta eða öllu. Þá geta meginreglur félagaréttar átt við.
    Á tónlistarsviðinu eru umsýslusamningar algengir þar sem viðkomandi rétthafar (tónskáld, textahöfundar og útgefendur) framselja einkarétt sinn til sameiginlegrar umsýslustofnunnar. Á öðrum sviðum eru eiginlegir umsýslusamningar ekki algengir. Þess í stað er stuðst við umboð eða ákvæði í samþykktum viðkomandi umsýslustofnunar.
    Þá er í höfundalögum að finna ákvæði um samningskvaðaleyfi og afnotakvaðir.
    Ákvæði um samningskvaðaleyfi (d. avtalelicens, s. aftalslicens, n. avtalelisens, e. extended collective licenses) hefur verið að finna í norrænum höfundalögum um árabil. Með samningskvöð er átt við það að ákveðið er með lögum að notendum verka sem varin eru af höfundarétti, sem gert hafa samning við sameiginlega umsýslustofnanir á sviði höfundaréttar um notkun á verkum aðildarfélaga/félagsmanna þeirra (t.d. með ljósritun), skuli einnig vera heimilt að nýta verk höfunda sem standa utan samtakanna enda séu verkin sömu tegundar og verk sem samningurinn tekur til og notkunin að öðru leyti háð ákvæðum samningsins. Þetta fyrirkomulag auðveldar notkun verka, til hagsbóta fyrir rétthafa og notendur, í þeim tilvikum sem um mikla notkun fjölda verka er að ræða. Sem dæmi um slíkt má nefna ljósritun fyrir kennslu eða flutning tónlistar í útvarpi þegar erfitt eða ómögulegt er fyrir notendur að fá leyfi hvers og eins rétthafa fyrir viðkomandi afnotum. Með því að samningur með samningskvaðaáhrifum bindur rétthafa sem standa utan rétthafasamtaka er réttarvissa tryggð fyrir notandann. Þá eru jafnframt ákvæði sem tryggja hagsmuni ófélagsbundinna rétthafa. Eingöngu sameiginlegar umsýslustofnanir sem til þess hafa hlotið viðurkenningu geta gert samningskvaðasamninga, sbr. 4. mgr. 26. gr. a höfundalaga.
    Höfundalög hafa að geyma átta samningskvaðaákvæði. Þau eru eftirfarandi: vegna nota safna á verkum í safnkosti sínum á netinu (12. gr. b); vegna endurbirtingar listaverka í almennu fræðsluefni, í sambandi við gagnrýni og við vísindalega umfjöllun í fjárhagslegum tilgangi (3. mgr. 14. gr,); vegna eintakagerðar og notkunar slíkra eintaka í stofnunum, samtökum og atvinnufyrirtækjum (18. gr.); vegna eintakagerðar af mynd- og hljóðupptökum útvarpsstofnana og notkunar þeirra í þágu fatlaðra (4. mgr. 19. gr.); vegna notkunar útvarpsstöðva á verkum í útsendingum sínum (23. gr.); vegna samtímis endurvarps útvarps í kapalkerfum (23. gr. a); vegna endurútsendinga útvarpsstöðva á efni úr safnkosti þeirra og til nota sama efnis á netinu (23. gr. b); vegna afmarkaðra og vel skilgreindra nota (2. mgr. 26. gr. a).
    Skilyrði fyrir samningskvaðasamningum er að finna í ákvæðum 26. gr. a og b höfundalaganna. Þar kemur fram að eingöngu sameiginlegar umsýslustofnanir sem hafi viðurkenningu ráðherra geti gert samninga sem veiti samningskvaðaleyfi. Slík viðurkenning verður eingöngu veitt sameiginlegum umsýslustofnunum sem eru í forsvari fyrir verulegum hluta höfunda tiltekinna verka sem notuð eru hér á landi.
    Ákvæði um afnotakvaðir í höfundalögum eru nokkur. Afnotakvöð felur í sér að notkun verka er heimil án sérstaks leyfis höfundar, ýmist gegn greiðslu bóta eða gjaldfrjáls not, sbr. t.d. ákvæði 1. mgr. 11. gr. höfundalaga um eintakagerð til einkanota sem er dæmi um afnotakvöð sem bætur greiðast fyrir, sbr. 4. og 5. mgr. sömu greinar. Sameiginleg umsýslustofnun, IHM, sem til þess hefur hlotið viðurkenningu ráðherra annast skil á þeim bótum.
    Tilgangurinn með 3. gr. frumvarpsins er að innleiða 5. gr. tilskipunarinnar. Sú grein tilskipunarinnar endurspeglar þá grunnreglu ESB réttar að sameiginlegar umsýslustofnanir megi ekki mismuna rétthöfum á grunni, þjóðernis, búsetu eða staðfestu lögaðila. Þessi grunnregla var staðfest í ákvörðunum framkvæmdastjórnar ESB í GEMA málunum svokölluðum. Málin vörðuðu þýsku stofnunina GEMA sem er systurstofnun STEFs og fer með tónlistarréttindi. GEMA I málið kvað á um þegar árið 1971 að ekki mætti mismuna rétthöfum eftir þjóðerni. Sú ákvörðun ásamt ákvörðunum í GEMA II og GEMA III staðfestu jafnframt að rétthafar sem væru félagsaðilar í sameiginlegri umsýslustofnun gætu yfirfært öll sín réttindi eða hluta þeirra til slíkra stofnana. Jafnframt að þeir ættu rétt á að afturkalla slíka yfirfærslu við ákveðnar aðstæður, að hluta eða öllu. GEMA I ákvörðunin skilgreindi sjö hópa réttinda tengdum tónverkum. Þessar ákvarðanir voru tilraun af hálfu framkvæmdastjórnar ESB til að finna jafnvægi á milli hagsmuna rétthafa til að geta sjálfir annast réttindi sín og hagsmuna sameiginlegra umsýslustofnana til að geta á skilvirkan hátt annast umsýslu réttinda félagsaðila sinna. Það hafði áhrif á niðurstöðu málanna að GEMA áskildu sér einkarétt á umsýslu réttinda félagsaðila sinna.
    Evrópudómstólinn fjallaði einnig um þetta hagsmunamat á milli rétthafa og sameiginlegra umsýslustofnana í dómi sínum þann 27. mars 1974 í máli 127/73 á milli belgísku útvarpsstöðvarinnar BRT, annars vegar, og sameiginlegu umsýslustofnana á sviði tónlistar í Belgíu, Sabam og Fonior, hins vegar. Málið fjallaði um meinta misnotkun Sabam á markaðsráðandi stöðu sinni í Belgíu. Niðurstaða dómstólsins var að við mat á meintri misnotkun þyrfti að hafa í huga að til þess að sameiginlegar umsýslustofnanir gætu uppfyllt það markmið að gæta réttinda og hagsmuna félagsaðila sinna á skilvirkan hátt þyrftu stofnanirnar að hafa nægilegan styrkleika sem byggðist á umfangi og breidd umboða félagsaðila. Þessi niðurstaða endurspeglast í formálsgrein 19 í tilskipuninni.
    5. gr. tilskipunarinnar er byggð á ofangreindum grunnreglum og hagsmunamati. Eins og að ofan greinir er 3. gr. frumvarpsins ætlað að innleiða 5. gr. tilskipunarinnar og er vísað til athugasemda við þá grein um nánari umfjöllun.

3.2.2. Aðildarreglur sameiginlegra umsýslustofnana.
    Aðildarreglur sameiginlegra umsýslustofnana er yfirleitt að finna í samþykktum eða aðildarskilmálum þeirra. Slíkar reglur eru breytilegar frá einni stofnun til annarrar og eru yfirleitt ákveðnar af aðalfundi stofnananna. Engar íslenskar lagareglur eru til sem beinlínis kveða á um aðildarreglur slíkra stofnana.
    4. gr. frumvarpsins stefnir að innleiðingu 6. gr. tilskipunarinnar um aðildarreglur sameiginlegra umsýslustofnana. Þar er meðal annars kveðið á um að stofnanirnar skuli samþykkja aðildarumsóknir svo framarlega sem þær uppfylli aðildarkröfur en þær skuli byggjast á hlutlægum og gagnsæjum viðmiðunum og vera án mismununar. Þá er kveðið á um að aðildarreglur skuli tryggja þátttöku félagsaðila í ákvarðanaferli stofnana á grundvelli jafnræðis og sanngirni. Einnig er tiltekið að sameiginlegar umsýslustofnanir skuli gera félagsaðilum sínum kleift að eiga samskipti við stofnunina á rafrænan hátt og að lokum að stofnanirnar þurfi að halda skrá yfir félagsaðila sem verði að uppfæra reglulega.
    Tilgangur 4. gr. frumvarpsins er að setja lágmarksreglur fyrir félagsaðila sameiginlegra umsýslustofnana. Frumvarpsgreinin fylgir efni og orðalaga 6. gr. tilskipunarinnar og formálsgrein 20 tilskipunarinnar. Í þeirri formálsgrein kemur meðal annars fram að sameiginlegar umsýslustofnanir verði ekki skuldbundnar til að taka við félagsaðilum með réttindi, réttindaflokka eða tegundir verka eða annað efni sem fellur utan starfssviðs þeirra.

3.2.3. Réttindi rétthafa sem ekki eru félagsaðilar sameiginlegrar umsýslustofnunar.
    Höfundalög geyma ýmsar reglur um réttindi utanfélagsmanna í tengslum við samningskvaðir, sbr. ákvæði 1. og 2. mgr. 26. gr. b. Sjá umfjöllun um samningkvaðir í kafla 3.2.1 hér að ofan.
    Frumvarpsákvæði 5. gr. er ætlað að innleiða ákvæði 7. gr. tilskipunarinnar sem kveður á um að aðildarríki skulu tryggja að sameiginlegar umsýslustofnanir fari að reglum sem mælt er fyrir um í nánar tilteknum greinum tilskipunarinnar að því er varðar utanfélagsmenn. Þá er í 2. mgr. 7. gr. kveðið á um að aðildarríkjum sé frjálst að kveða á um að fleiri ákvæði tilskipunarinnar gildi um utanfélagsmenn.
    Það er mat ráðuneytisins að ekki sé þörf á að lögfesta fleiri ákvæði um réttindi utanfélagsmanna úr tilskipuninni þar sem þau sem kveðið er á um í 7. gr. séu nægileg til að tryggja lágmarksréttindi þeirra.

3.2.4. Aðalfundur.
    Reglur um aðalfundi sameiginlegra umsýslustofnana er yfirleitt að finna í samþykktum þeirra og eru breytilegar frá einni stofnun til annarrar.
    6. og 7. gr. frumvarpsins er ætlað að innleiða 8. gr. tilskipunarinnar sem fjallar um aðalfundi, meðal annars hversu oft slíkir skuli haldnir, hvaða ákvarðanir skuli teknar þar, hverjir eigi rétt á þátttöku og hafi kosningarétt, þ.m.t. á grundvelli umboðs.
    8. gr. tilskipunar er ein af megingreinum tilskipunarinnar þar sem aðalfundir lýðræðislegra rekinna stofnana eru mikilvægasti vettvangur fyrir félagsaðila til að hafa áhrif á ákvarðanir stofnana. Efni 8. gr. tilskipunar er mjög umfangsmikið og því hefur verið ákveðið að skipta ákvæðum greinarinnar í tvær greinar í frumvarpinu, sbr. 6. og 7. gr. frumvarpsins. 6. gr. frumvarpsins fjallar um hvaða ákvarðanir ber að taka á aðalfundi og hverjir geti farið með valdheimildir aðalfundar félagsaðila og 7. gr. fjallar um þátttökurétt félagsaðila.
    Í meginatriðum er uppsetningu 8. gr. tilskipunarinnar fylgt í 6. og 7. gr. frumvarpsins. Nauðsynlegt hefur þó verið talið að hnika til nokkrum atriðum til að aðlaga efni tilskipunarinnar að íslenskum aðstæðum.
    Í fyrsta lagi er um að ræða aðlögun á ákvæðum um stjórn sameiginlegra umsýslustofnana þannig að þau endurspegli stjórnarhætti slíkra stofnana á Íslandi, sbr. umfjöllun í athugasemdum um 3. og 4. mgr. frumvarpsins.
    Í öðru lagi hefur ráðuneytið ákveðið að innleiða ekki takmarkanir á rétti til að tilnefna umboðsaðila eins og heimilt er í 10. mgr. 8. gr. tilskipunarinnar heldur þess í stað heimila sameiginlegum umsýslustofnum sjálfum að setja slíkar takmarkanir, sbr. 4. mgr. 7. gr. frumvarpsins. Þannig er veitt sem mestur sveigjanleiki fyrir viðeigandi umsýslustofnanir.
    Í þriðja lagi er sleppt að innleiða nokkur heimildarákvæði 8. gr. tilskipunarinnar, þ.e. ákvæði sem ekki er skylt að innleiða. Þannig er ekki sérstök ákvæði í frumvarpinu samsvarandi 7., 2. ml. 8., 12. og 13. mgr. 8. gr. tilskipunarinnar.

3.2.5. Eftirlit og skyldur forsvarsmanna sameiginlegra umsýslustofnana.
    Stjórn og skipulag umsýslustofnana fer fyrst og fremst eftir félagaformi þeirra. Þannig þarf umsýslustofnun sem er rekin sem hlutafélag að fylgja reglum hlutafélagalaga o.s.frv. Umsýslustofnanir á Íslandi eru velflestar reknar í formi frjálsra félagasamtaka. Ekki er til nein heildarlöggjöf um frjáls félagasamtök hér á landi, en í nokkur skipti hefur þó verið farið af stað með vinnu við að smíða slíka löggjöf af hálfu dómsmálaráðuneytisins en ekki hefur þó tekist að ljúka henni í því formi að frumvarp hafi verið lagt fram. Lagaákvæði um þessa tegund rekstrarforms eru því að finna á víð og dreif t.d. í skattalögum. Um almenn félög eða frjáls félagasamtök má segja að um sé að ræða skipulagsbundin félög sem ekki starfa í ávinningsskyni. Slík félög eru ekki skráningarskyld, en séu þau skráð verða þau að sjálfstæðum lögaðilum. Félagsaðild felur ekki sér hagnað í sjálfu sér og félagsmenn bera takmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félagsins. Almenn félög geta rekið atvinnustarfsemi en misnotkun á félagaforminu getur haft það að verkum að hin takmarkaða ábyrgð fellur brott.
    Skipulag umsýslustofnana sem eru rekin í formi frjálsra félagasamtaka fer því fyrst og fremst eftir samþykktum þeirra, en þess ber að geta að ekki þarf að skila inn samþykktum þeirra til fyrirtækjaskrár eða tilkynna um breytingar á þeim eins og er t.d. varðandi hlutafélög og einkahlutafélög. Engar sérstakar lagareglur gilda því um eftirlit umsýslustofnana heldur hefur það farið eftir samþykktum hverrar umsýslustofnunar. Almennt hefur eftirlit verið í höndum stjórnar sem kosin er á aðalfundi af félagsaðilum.

3.3. Umsýsla tekna af réttindum.
    Meðferð sameiginlegra umsýslustofnana af réttindatekjum er alla jafna þríþætt – innheimta, úthlutun og útborgun.
    Í innheimtufasanum felst útsending reikninga og innheimta tekna frá notendum verka sem stofnunin er í fyrirsvari fyrir. Greiðslur notenda geta verið fyrir hver einstök not verka eða sem eingreiðsla fyrir heildarnot, t.d. eins og gert er vegna ljósritunar í skólum og öðrum stofnunum í samningskvaðasamningum við Fjölís.
    Í úthlutunarfasanum úthlutar umsýslustofnun innheimtum tekjum til fjárvörslureikninga einstakra rétthafa hjá stofnuninni.
    Að lokum er rétthöfum greiddar úthlutaðar upphæðir. Hjá flestum umsýslustofnunum hérlendis fer úthlutun og útborgun nánast fram samstundis.
    Í sumum tilvikum annast sameiginlegar umsýslustofnanir ekki úthlutun og greiðslu til einstakra rétthafa heldur til samtaka rétthafa, sem eru félagsaðilar stofnunarinnar, sbr. 4. tölul. 2. gr. frumvarpsins. Þau samtök annast úthlutun og greiðslu úthlutaðra upphæða til einstakra rétthafa, sem þau eru í fyrirsvari fyrir. Eðli málsins samkvæmt eru slík samtök í nánari tengslum við viðkomandi rétthafa, sem eru jafnan félagsmenn þeirra. Þetta á við t.d. um umsýslu tekna af réttindum sem Fjölís og IHM innheimta.
    Annar kafli tilskipunarinnar fjallar um umsýslu sameiginlegra umsýslustofnana af réttindatekjum. Þar er meðal annars að finna ákvæði um innheimtu, innri umsýslu slíkra tekna og hvenær úthlutun og útborgun innheimtra tekna skal fram fara.

3.3.1. Innheimta og not tekna.
    Höfundalög hafa ekki að geyma mörg ákvæði um umsýslu tekna af réttindum.
    Í 5. mgr. 25. gr. b laganna er kveðið á um að fylgiréttargjald verði aðeins innheimt af samtökum rétthafa sem hafa hlotið viðurkenningu ráðuneytisins. Þau samtök skulu annast innheimtu og skil á þeim til.
    Í 4. mgr. 11. gr. laganna er kveðið á um að bætur vegna eintakagerðar til einkanota skv. 3. mgr. sömu greinar skuli greiðast til samtaka höfundaréttarfélaga sem hafa hlotið viðurkenningu ráðherra til að fara með slík réttindi höfunda. Þau samtök skulu annast skil á bótunum til höfundaréttarfélaga.
    Að öðru leyti fer um umsýslu sameiginlegrar umsýslustofnana af tekjum af réttindum eftir samþykktum þeirra og venju.
    Hvað varðar fjárfestingar slíkra tekna þá hafa íslenskar umsýslustofnanir, t.d. STEF og IHM, almennt ekki staðið í fjárfestingum og ávöxtun slíkra tekna til úthlutunar síðar, heldur haft að markmiði að koma innheimtu fé sem fyrst til rétthafa.
    11. gr. tilskipunarinnar fjallar um innheimtu og ráðstöfun tekna af réttindum og er 10.–13. gr. frumvarpsins ætlað að innleiða þau ákvæði sem þar er að finna, sbr. nánari umfjöllun í athugasemdum við þær greinar.
    Rétt er að geta þess að í 27. formálsgrein tilskipunarinnar er að finna ábendingu um að aðildarríki, og þá þ.m.t. aðildarríki EFTA-EES, geti sett strangari reglur um fjárfestingar innheimtra tekna af réttindum en er að finna í ákvæðum tilskipunarinnar. Ekki þykir ástæða til setja slíkar reglur hér á landi. Rétt er þó að geta að sameiginlegar umsýslustofnanir eru þó áfram skuldbundnar til að uppfylla skilyrði annarra laga um fjárfestingar ef svo ber undir.
    10.–13. gr. frumvarpsins taka ekki sjálfkrafa til samtaka rétthafa, sem eru félagsaðilar sameiginlegu umsýslustofnunarinnar, nema ef sameiginleg umsýslustofnun ákveður að slík undirsamtök sjái um úthlutun og útborgun réttindagreiðslna til rétthafa. Þá leiðir af ákvæðum 24. gr. og 6. mgr. 1. gr. frumvarpsins að ákvæði 10.–13. gr. eigi við um þau.

3.3.2. Frádráttur.
    Höfundalög hafa ekki að geyma mörg ákvæði um frádrátt af tekjum af réttindum áður en þeim er úthlutað. Bæði í 4. mgr. 11. gr. og 5. mgr. 25. gr. b laganna er kveðið á um að skil á bótum skuli vera að frádregnum „hæfilegum“ umsýslukostnaði. Þá er kveðið á um í 1. mgr. 26. gr. b að sömu reglur skuli gilda um ákvörðun þóknunar til utanfélagsmanna og félagsmanna að því viðbættu að utanfélagsmenn skuli ávallt eiga rétt á einstaklingsgreiðslum, sbr. 2. mgr. 26. gr. b höfundalaga.
    Að þessum ákvæðum slepptum verða reglur um frádrátt sameiginlegra umsýslustofnana af tekjum af réttindum settar af þeim sjálfum. Ákvæði um frádrátt eru mismunandi frá einni stofnun til annarrar, þannig er kveðið á í samþykktum STEFs að fulltrúaráð ákveði frádrátt af höfundarréttartekjum, þ.m.t. vegna Menningarsjóðs. Í samþykktum IHM er kveðið á um að til viðbótar frádrætti vegna rekstrarkostnaðar skuli leggja í varasjóð 5% af heildartekjum samtakanna þangað til höfuðstóll sjóðsins hafi náð tíu millj. kr.
    Tilgangur 14. gr. frumvarpsins er að innleiða 12. gr. tilskipunarinnar um frádrætti. Frumvarpið fylgir uppbyggingu 12. gr. tilskipunarinnar að meginstefnu utan þess að ákvæði 2. hluta 3. mgr. 12. gr. tilskipunarinnar um gagnsæisreglur vegna frádráttar eru ekki tekin beint upp í ákvæðið 14. gr. enda verður talið að þá reglur megi leiða af ákvæði 1. mgr. frumvarpsins.
    Á sama hátt og á við um 10.–13. gr. frumvarpsins þá eiga ákvæði 14. gr. ekki við samtök sem eru félagsaðilar sameiginlegu umsýslusýslustofnunarinnar nema sú síðarnefnda taki ákvörðun skv. 24. gr. frumvarpsins, sbr. 6. mgr. 1. gr. frumvarpsins.

3.3.3. Úthlutun til rétthafa.
    Ekki er að finna ákvæði í íslenskum lögum um hvenær útborgun réttindagreiðslna skuli fara fram.
    Tilgangur 15. gr. frumvarpsins er að innleiða 1. mgr. 13. gr. tilskipunarinnar sem fjallar um úthlutun og útborgun réttindagreiðslna til rétthafa, þ.e. þau lágmarksskilyrði sem slík umsýsla skal uppfylla. Að öðru leyti verður almenn stefna um úthlutun réttindagreiðslna ákveðin á aðalfundi, sbr. 1. tölul. 5. mgr. 6. gr. frumvarpsins.
    Á sama hátt og á við um 10.–13. gr. frumvarpsins þá eiga ákvæði 15. gr. ekki við samtök sem eru félagsaðilar sameiginlegu umsýslusýslustofnunarinnar nema sú síðarnefnda taki ákvörðun skv. 24. gr. frumvarpsins, sbr. 6. mgr. 1. gr. frumvarpsins.

3.3.4. Rétthafar sem ekki er unnt að finna
    Í höfundalögum er að finna tvö ákvæði um fyrningu. Annars vegar er í 5. mgr. 25. gr. b höfundalaga kveðið á um að fylgiréttargjald fyrnist á þremur árum frá lokum þess árs er endursala fór fram og hins vegar er í 5. mgr. 26. gr. b kveðið á um að kröfur um þóknun fyrir hagnýtingu verka samkvæmt samningskvaðaleyfi fyrnast á fjórum árum. Að öðru leyti fer um fyrningu eftir almennum reglum þar að lútandi.
    Ekki er að finna reglur í höfundalögum um hvaða ráðstafanir sameiginlegar umsýslustofnanir eigi að grípa til þess að tilgreina eða hafa upp á rétthafa sem á rétt á hluta af réttindatekjum. Í tengslum við viðurkenningar sameiginlegra umsýslustofnana vegna samningskvaðasamninga þá er geta þeirra til að hafa upp á rétthöfum til að koma greiðslum til þeirra eitt af þeim atriðum sem litið er til, sbr. 4. mgr. 26. gr. a. En það eru sameiginlegu umsýslustofnanirnar sem sjálfar setja sér reglur um hvaða aðferðum þær beita við að hafa upp á rétthöfum.
    16. gr. frumvarpsins miðar að því að innleiða 2.–5. mgr. 13. gr. tilskipunarinnar sem fjalla um hvaða ráðstafanir sameiginlegar umsýslustofnanir eigi að taka til að hafa uppi á rétthöfum. Meginreglan er sú að þeim beri að hafa upp á þeim en að þeim sé eftirlátið hvernig þær framkvæmi það. Þannig geta þau sett sér reglur sem taka mið af umsýslukostnaði við slíka leit þannig að ekki fari hlutfallslega of mikill tími og kostnaður í að leita þeirra sem erfitt er að hafa uppi á og sem eiga e.t.v. rétt á mjög takmörkuðum upphæðum.
    16. gr. frumvarpsins fylgir að mestu uppsetningu 2.–5. mgr. 13. gr. tilskipunarinnar. Hins vegar er hnykkt á því í 2. mgr. 16. gr. að við mat á hvað teljist nauðsynlegar ráðstafanir skal höfð hliðsjón af fjárhagslegum hagsmunum rétthafans, tilvist upplýsingaveitna sem hægt væri að nýta sem og kostnaði við mögulega leit. Það orðalag er ekki að finna í tilskipuninni en er í samræmi við venju hérlendis og skilning á framkvæmd ákvæða tilskipunarinnar. Þá er orðalag 3. málsliðar 3. mgr. 13. gr. tilskipunarinnar þar sem kveðið er á um að sameiginlegar umsýslustofnanir eigi að sannprófa skrá sínar yfir félagsaðila við leit og aðrar aðgengilegar skrár ekki tekið orðrétt upp þar sem talið verður að það felist í almennu orðalagi 2. mgr. 16. gr. frumvarpsins. Þá er að finna í 6. mgr. 13. gr. tilskipunarinnar heimild fyrir stjórnvöld að setja ítarlegri eða strangari reglur um meðferð óráðstafanlegra tekna. Ekki þykir ástæða til að leggja slíkt til hér enda eru hinar sameiginlegu umsýslustofnanir í bestri aðstöðu til að ákveða meðferð slíkra greiðslna innan ramma meginreglna III. kafla frumvarpsins.
    Á sama hátt og á við um 10.–13. gr. frumvarpsins þá eiga ákvæði 16. gr. ekki við samtök sem eru félagsaðilar sameiginlegu umsýslusýslustofnunarinnar nema sú síðarnefnda taki ákvörðun skv. 24. gr. frumvarpsins, sbr. 6. mgr. 1. gr. frumvarpsins.

3.4. Umsýsla réttinda fyrir hönd annarra sameiginlegra umsýslustofnana.
    Reglur um tengsl sameiginlegra umsýslustofnana á grundvelli fyrirsvarssamninga er að finna í 14. og 15. gr. tilskipunarinnar. Fyrirsvarssamningar eru grundvöllur alþjóðasamstarfs sameiginlegra umsýslustofnana. Slíkir samningar gerir sameiginlegri umsýslustofnun í einu landi kleift að fela sameiginlegri umsýslustofnun í öðru landi umsýslu verka sem hún er í fyrirsvari fyrir í sínu landi þannig að þau verk geti verið nýtt í landi síðarnefndu stofnunarinnar. Fyrirsvarssamningurinn tryggir að sameiginleg umsýslustofnun í öðru landi getur haft umsjón með verkum, sem önnur sameiginleg umsýslustofnun er í fyrirsvari í sínu heimalandi, og sú fyrrnefnda nýtir þar með þekkingu sína á staðháttum, lögum og venjum síns lands við nýtingu, umsýslu og eftirlits með réttindum rétthafanna á grundvelli samningsins. Sömuleiðis einfalda slíkir fyrirsvarssamningar notendum að fá leyfi til nýtingar erlendra verka þar sem þeir geta gert það með samningum við sameiginlega umsýslustofnun í sínu landi.
    Þá eru slíkir fyrirsvarssamningar mikilvægir fyrir íslenskar sameiginlegar umsýslustofnanir því með þeim geta þær sýnt fram á að þær uppfylli skilyrði 4. mgr. 26. gr. a höfundalaga um að þær séu í forsvari fyrir verulegum hluta höfunda tiltekinna verka sem notuð eru hér á landi.
    Fyrirsvarssamningar innihalda yfirleitt ákvæði um þau verk, not og landfræðilegar takmarkanir nota sem hin sameiginlega umsýslustofnun á að sjá um umsýslu á. Þá er almennt að finna ákvæði í slíkum samningum um hvernig innheimtum réttindatekjum skuli úthlutað og greiddar, ásamt ákvæðum um hvaða gögn skuli liggja til grundvallar upplýsingum. Ákvæði um frádrátt vegna umsýslukostnaðar og mögulegan frádrátt í félagslegum, menningarlegum eða menntunartengdum tilgangi er einnig oft að finna í fyrirsvarssamningum. Algengt er að slíkir samningar innihaldi ákvæði um gagnkvæma upplýsingagjöf um verk og gjaldskrár fyrir not þeirra sem viðkomandi sameiginlegar umsýslustofnanir byggja á við leyfisveitingar vegna nota verkanna. Að lokum er meginreglan sú að fyrirsvarssamningar innihaldi ákvæði um markaðseftirlit og framfylgd réttinda rétthafa viðkomandi verka ásamt ákvæðum um eftirlit með umsýslu þeirrar sameiginlegu umsýslustofnana sem tekur að sér umsýslu réttinda annarrar umsýslustofnunar í fyrirsvarssamningi.

3.4.1. Umsýsla á grundvelli fyrirsvarssamninga.
    Engar sérstakar reglur er að finna í íslenskum lögum um umsýslu réttinda fyrir hönd annarra sameiginlegra umsýslustofnana. Það sem næst því kemst eru ákvæði 1. mgr. 26. gr. b höfundalaga um að ófélagsbundnir rétthafar skuli eiga rétt á sömu þóknun fyrir not á grundvelli samningskvaðasamnings eins og félagsbundnir rétthafar.
    Með 17. gr. frumvarpsins er stefnt að því að innleiða 14. gr. tilskipunarinnar sem kveður á um að sameiginleg umsýslustofnun mismuni ekki rétthöfum þeirra réttinda sem hún hefur umsjón með á grundvelli fyrirsvarssamnings.
    Bann við mismunun er ein af óskráðum meginreglum höfundaréttar, sem endurspeglast t.d. í ofangreindu ákvæði 1. mgr. 26. gr. b höfundalaga. Rétt þykir þó að fylgja fordæmi tilskipunarinnar og leggja til að sú meginreglu verði lögfest í 17. gr. frumvarpsins.

3.4.2. Réttindagreiðslur og frádrættir vegna umsýslu á grundvelli fyrirsvarssamninga.
    Eins og að ofan greinir þá er engar sérstakar reglur er að finna í íslenskum lögum um umsýslu réttinda fyrir hönd annarra sameiginlegra umsýslustofnana. Tilgangur 18. gr. frumvarpsins er að innleiða 15. gr. tilskipunarinnar sem kveður á um reglur um úthlutun réttindatekna, útborgun réttindagreiðslna og frádrátt og fresti þar að lútandi þegar um umsýslu fyrir aðra sameiginlega umsýslustofnun á grundvelli fyrirsvarssamnings er að ræða. 18. gr. frumvarpsins fylgir uppbyggingu 15. gr. tilskipunarinnar að meginstefnu til. Nánar er fjallað um efni 18. gr. í athugasemdum við einstakar greinar.

3.5. Gagnsæi og skýrslugjöf.
    Engar sérstakar reglur er að finna í íslenskri löggjöf um hvaða upplýsingar sameiginlegum umsýslustofnunum er skylt að veita rétthöfum. Hins vegar er að finna í 3. mgr. 26. gr. b höfundalaga ákvæði sem skyldar sameiginlegum umsýslustofnunum (rétthafasamtökum) sem eru aðilar að samningskvaðasamningi að birta samningskvaðasamninga sem gerðir eru á viðeigandi hátt þannig að ófélagsbundnir rétthafar geti gert kröfu um þóknun.
    Margar sameiginlegar umsýslustofnanir hérlendis birta ýmsar viðeigandi upplýsingar fyrir rétthafa, t.d. samþykktir, ársreikninga og gjaldskrár, sbr. t.d. heimasíður STEFs og Myndstefs.
    19.–22. gr. frumvarpsins eiga að innleiða 18.–21. gr. tilskipunarinnar sem kveða á um ýmsar reglur til að tryggja gagnsæi og upplýsingaflæði hjá sameiginlegum umsýslustofnunum. Tilgangur þeirra ákvæða tilskipunarinnar eins og útfært er í formálsgreinum 34 og 36 er að auka traust á störfum sameiginlegra umsýslustofnana og veita rétthöfum möguleika á að bera saman starfsemi þeirra. Frumvarpsgreinar 19.–22. fylgja sömu uppbyggingu á ákvæði 18.–21. gr. tilskipunarinnar að mestu.
    23. gr. frumvarpsins er ætlað að innleiða 22. gr. tilskipunarinnar og viðauka við hana, sem er jafnframt lagt til í frumvarpinu að verði viðauki við lögin. 22. gr. tilskipunarinnar fjallar um árlega gagnsæisskýrslu sem sameiginlegar umsýslustofnanir eiga að birta á vefjum sínum. Viðaukinn er listi um þau atriði sem eiga að vera í slíkri gagnsæisskýrslu.
    Eins og að ofan greinir þá birta sameiginlegar umsýslustofnanir ýmsar viðeigandi upplýsingar fyrir rétthafa, t.d. samþykktir, ársreikninga og gjaldskrár. Upplýsingagjöf er því verkefni sem slíkar stofnanir þekkja hérlendis. Hins vegar er ástæða þess að sett er ákvæði í tilskipunina um gagnsæisskýrslu sú að nauðsyn er talin á að samræma kröfur til evrópskra umsýslustofnana um upplýsingagjöf, burtséð hvert lagalegt form slíkra stofnana er. Þetta mun auðvelda rétthöfum og öðrum sameiginlegum umsýslustofnunum að meta starfsemi þeirra og veita þeim aðhald. Slík samræmd upplýsingagjöf er líka nauðsynleg til að auðvelda rétthöfum að velja sér sameiginlega umsýslustofnun eins og kveðið er á um í 5. gr. tilskipunarinnar. Þá getur slík gagnsæisskýrsla verið mikilvægt gagn fyrir ráðuneytið í tengslum við það eftirlit sem það skal hafa með höndum skv. 36. gr. frumvarpsins.
    Uppbygging 23. gr. frumvarpsins fylgir byggingu 22. gr. tilskipunarinnar utan að í 23. gr. er að finna fleiri málsgreinar en í 22. gr. tilskipunarinnar vegna tíðari uppskiptingar þeirra í frumvarpinu. Þess utan er að finna eina viðbótarmálsgrein í 23. gr. frumvarpsins, þ.e. 7. mgr. sem helgast af uppbyggingu frumvarpsins í heild þar sem 24. gr. þess mælir almennt fyrir um hvernig frumvarpið skuli lúta að samtökum rétthafa sem ekki eru sameiginlegar umsýslustofnanir heldur aðildarfélag slíkrar stofnunar, sjá nánar í athugasemdum við 23. gr. og 24. gr. frumvarpsins hér að neðan.

3.6. Ábyrgðarskipting milli sameiginlegrar umsýslustofnana og félagsaðila þeirra.
    Engar sérstakar reglur er að finna í íslenskum lögum um ábyrgðarskiptingu á milli sameiginlegra umsýslustofnana og félagsaðila þeirra sem eru samtök rétthafa. Eins og minnst er á að ofan þá annast slíkir félagsaðilar oft úthlutun og útborgun réttindagreiðslna, sbr. kafli 3.3.
    Tilgangur 24. gr. frumvarpsins, sem er að danskri fyrirmynd, er að skapa möguleika á að sameiginlegar umsýslustofnanir geti sett reglur fyrir félagasamtök sín og að innleiða þannig meðal annars hluta af 1. mgr. 13. gr. og 3. mgr. 15. gr. tilskipunarinnar.
    Að mati mennta- og menningarmálaráðuneytis er mikilvægt að frumvarpið leiði ekki til röskunar á starfsemi sameiginlegra umsýslustofnana með lagskipta aðild í gegnum félagsaðila og aðildarfélög þeirra. Í því skyni er lagt til í 24. gr. frumvarpsins að sameiginlegar umsýslustofnanir geti ákveðið ábyrgðarskiptingu milli umsýslustofnunar og félagsaðila þegar kemur að úthlutun áfallinna réttindatekna til rétthafa, sbr. 15. gr. og 16. gr. og 4. mgr. 18. gr. frumvarpsins, ásamt undirbúningi gagnsæisskýrslu skv. 23. gr. frumvarpsins. Til samræmis er í 6. mgr. og 7. mgr. 1. gr. frumvarpsins tilgreind þau ákvæði frumvarpsins sem félagsaðilar þurfa að uppfylla til að úthluta áföllnum greiðslum til rétthafa (6. mgr.) eða undirbúa gagnsæisskýrslu (7. mgr.). Ákvæðið gefur færi á að sameiginlegar umsýslustofnanir geti ákveðið að félagsaðilar taki á sig umræddar skyldur og að sameiginleg umsýslustofnun beri ekki ábyrgð á starfsemi félagsaðila að þessu leyti. Með því móti verður skýrt hvar ábyrgð félagsaðila tekur við og hvar ábyrgð sameiginlegrar umsýslustofnunar lýkur. Þannig verða mörk ábyrgðar milli sameiginlegrar umsýslustofnunar og félagsaðila skýr. Flutningur ábyrgðar frá sameiginlegri umsýslustofnun er takmarkaður við þau tilvik sem talin eru upp í 24. gr. frumvarpsins, sem byggist á beinni innleiðingu tilskipunarinnar og skýrleika fyrir rétthafa sem kunna að hafa haft væntingar um að ábyrgðin á framfylgd við ákvæði tilskipunarinnar væri hjá sameiginlegri umsýslustofnun. Ef stór hluti af skyldum sameiginlegrar umsýslustofnunar væri fluttur yfir til mismunandi félagsaðila gæti verið erfitt fyrir rétthafa, þar með talið erlenda rétthafa, að fá yfirsýn yfir hvaða samtök væru ábyrg fyrir ólíkum þáttum í starfseminni. Af þessum sökum getur það skapað ófyrirséð vandamál ef frekari heimildir eru veittar í frumvarpinu til að framselja ábyrgð sameiginlegrar umsýslustofnunar til annarra aðila, t.d. um ákvarðanir sem á að taka á aðalfundi. Af þessum sökum ber aðeins að nýta möguleika á að framselja ábyrgð þegar það samræmist þörf og ríkjandi skipulagi á umsýslu í þágu rétthafa. Að mati ráðuneytisins er sú lausn sem felst í 24. gr. frumvarpsins heimil skv. tilskipuninni. Í þessu sambandi er lögð áhersla á að viðurkennt er í tilskipuninni að úthlutun réttindagreiðslna geti farið fram í gegnum félagsaðila en að tilskipunin kveður ekki á um kröfur til félagsaðilanna umfram það sem leiðir af 13. gr., 15. gr. og 18. gr. tilskipunarinnar. Að mati ráðuneytisins er því ákveðið svigrúm fyrir aðildarríkin við innleiðingu tilskipunarinnar í landsrétt á þessu sviði. Mennta- og menningarmálaráðuneytið leggur einnig áherslu á að tilgangi tilskipunarinnar verður samkvæmt skilningi ráðuneytisins best náð með þeirri útfærslu sem hér er lögð til, þannig að rétthafarnir fái á þennan hátt sömu réttarvernd, óháð því hvort úthlutun réttindagreiðslna fer fram í gegnum sameiginlega umsýslustofnun eða félagsaðila. Mennta- og menningarmálaráðuneytið telur að ákvæðið feli ekki í sér innleiðingu umfram efni tilskipunarinnar þannig að skyldum sameiginlegrar umsýslustofnunar verði velt yfir á félagsaðila þannig að ábyrgðarmörkin verði óskýr. Að auki bendir ráðuneytið á að umrædd samtök eru skipulögð þannig að þau eru ekki rekin í þeim tilgangi að skila eigendum sínum arði og því er ekki um það að ræða að frumvarpið leiði til aukinna skyldna fyrir atvinnulífið.

3.7. Leyfisveitingar sameiginlegrar umsýslustofnana á réttindum yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum.
    Þriðji bálkur tilskipunarinnar hefur að geyma ákvæði um leyfisveitingar á réttindum yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum. Þessi hluti tilskipunarinnar á eingöngu við um sameiginlegar umsýslustofnanir sem hafa staðfestu á EES svæðinu og sem hafa umsýslu með réttindum vegna tónverka sem miða að netnotkun þeirra í fleiri en einu aðildarlandi á EES svæðinu, sbr. 2. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar. Þær reglur sem settar eru fram í tilskipuninni hvað þetta varðar byggja á nánari útfærslu á meginreglum sem er að finna í tilmælum framkvæmdastjórnarinnar 2005/737/ESB, þar sem hvatt var til að breytinga á lagaumhverfi í tengslum við framboð tónlistarþjónustu þvert yfir landamæri aðildarríkja ESB. Í formálsgrein 39 með tilskipuninni er rakið að tilmælin hafa ekki haft tilætluð áhrif og þess vegna sé þörf, sbr. umfjöllun í formálsgrein 40 með tilskipuninni, að fastsetja lágmarksskilyrði um sameiginlegar umsýslustofnanir sem bjóða upp á slík leyfi yfir landamæri.
    Tilgangur þriðja bálks tilskipunarinnar um leyfisveitingar yfir landamæri er að skapa sem hagstæðust skilyrði fyrir slíkar leyfisveitingar hjá sameiginlegum umsýslustofnunum nú þegar kröfur um slík leyfi aukast stöðugt. Það er gert með því að kynna til leiks ýmsar skyldur sem slíkar stofnanir þurfa að uppfylla.
    Þannig er kveðið á um í 23. gr. tilskipunarinnar að aðildarríki skuli tryggja að sameiginlegar umsýslustofnanir á þeirra yfirráðasvæði skuli fara að þeim reglum sem er að finna í III. bálki tilskipunarinnar þegar þær veita leyfi á réttindum yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum. Það gildir þó ekki um þjónustu á netinu sem veitir eingöngu aðgang að nótum tónverka, sbr. formálsgrein 40 með tilskipuninni.
    Sameiginlegar umsýslustofnanir sem uppfylla skulu skilyrði tilskipunarinnar sem er að finna í þriðja bálk hennar skulu einnig uppfylla skilyrði annars bálks hennar, þ.e. þær reglur sem 3.–23. gr. þessa frumvarps er ætlað að innleiða.

3.7.1. Kröfur um upplýsingar
    Íslensk löggjöf hefur engar reglur um meðferð sameiginlegra umsýslustofnana á upplýsingum um réttindi og þá rétthafa tónverka sem þau annast umsýslu fyrir.
    Tilgangur 25.–27. gr. frumvarpsins er að innleiða 24.–26. gr. tilskipunarinnar. Þær reglur eiga að tryggja að sameiginleg umsýslustofnun sem veitir leyfi yfir landamæri hafi nákvæmar og fullnægjandi upplýsingar um tónverk, rétthafa og réttindi, sem stofnunin hefur heimild til að vera í fyrirsvari fyrir á gefnu landsvæði.
    Kröfur frumvarpsins um upplýsingagjöf viðeigandi sameiginlegra umsýslustofnana sem er að finna í 25.–27. gr. þurfa að skoðast í tengslum við þær áskoranir sem fylgja útgáfu leyfa yfir landamæri. Slíkar leyfisveitingar geta verið krefjandi og dýrar og skortur á viðeigandi afkastagetu og tæknilausnum geta leitt til ónákvæmrar eða jafnvel tvöföldunar í innheimtu réttindatekna hjá notendum og tafa í slíkri innheimtu sem aftur leiðir til tafa í réttindagreiðslum til rétthafa. Því er nauðsynlegt að sameiginlegar umsýslustofnanir sem taka að sér slíkar leyfisveitingar yfir landamæri uppfylli ýmsar lágmarkskröfur um afkastagetu og nákvæmni í umsýslu þeirra gagna sem þær byggja leyfisveitingar sínar og umsýslu þeim tengdum á.
    Þannig byggjast ákvæði 25.–27. gr. frumvarpsins á þeim meginreglum að viðkomandi sameiginleg umsýslustofnun hafi nákvæmar upplýsingar um þá rétthafa sem þær eru í fyrirsvari fyrir, hvaða tónverk þeirra rétthafa falla undir verkaskrá stofnunarinnar, sbr. 11. tölul. 2. gr. frumvarpsins, og til hvaða landa stofnunin hefur umboð til umsýslu þeirra réttinda sem um ræðir.
    Reglur 25.–27. gr. frumvarpsins tengjast þeim stöðlum og venjum sem unnið er að á alþjóðavettvangi og innan EES svæðisins. Því þarf túlkun reglnanna að vera lifandi og vera í samræmi við það sem gildir þar. Vert er að geta að á alþjóðavettvangi er unnið að uppbyggingu gagnakerfa í samvinnu ýmissa sameiginlegra umsýslustofnana. Sömuleiðis er verið að vinna að stöðlum um þær upplýsingar sem veita þarf vegna verka og rétthafa.

3.7.2. Skýrslugjöf, reikningsgerð og úthlutun.
    Það eru engar reglur í íslenskum rétti hvernig beinlínuþjónustur skuli gera grein fyrir notum tónverka til sameiginlegra umsýslustofnana. Ekki eru heldur reglur um hvernig sameiginlegar umsýslustofnanir skuli innheimta fyrir slík not.
    Tilgangur 28. gr. frumvarpsins er að innleiða 27. gr. tilskipunarinnar sem varðar skýrslugerð beinlínuþjónustu vegna nota af tónverkum til sameiginlegrar umsýslustofnunar og reikningsgerð þeirrar síðarnefndu til þjónustuveitanda fyrir þau not.
    Tilgangur 29. gr. frumvarpsins er að innleiða 28. gr. tilskipunarinnar sem varðar fresti fyrir sameiginlegar umsýslustofnanir sem veita leyfi yfir landamæri til að úthluta og greiða réttindagreiðslur af innheimtum tekjum ásamt þeim upplýsingum sem þeim ber að veita rétthöfum þar að lútandi.
    Ákvæði 28. og 29. gr. frumvarpsins þurfa að skoðast í tengslum við formálsgrein 43 í tilskipuninni en þar kemur fram að sameiginlegar umsýslustofnanir skuli skyldaðar til að senda reikninga til þjónustuveitenda og úthluta réttindatekjum án tafa. Sömuleiðis er undirstrikað í formálsgrein 43 að til að það geti orðið þurfi notendur að láta sameiginlegum umsýslustofnunum í té nákvæmar og tímanlegar upplýsingar um not verka. Allt á þetta að stuðla að hraðari meðferð fjármuna; innheimtu, úthlutun og útborgun þeirra til rétthafa.

3.7.3. Samningar á milli sameiginlegra umsýslustofnana um leyfisveitingar.
    Frumvarpsgreinar 30.–31 eiga að innleiða 29. og 30. gr. tilskipunarinnar í íslensk lög.
    29. gr. tilskipunarinnar varðar samninga á milli sameiginlegra umsýslustofnana um leyfi yfir landamæri. 30. gr. tilskipunarinnar varðar samvinnu milli sameiginlegra umsýslustofnana í tengslum við slíkar leyfisveitingar þegar ein umsýslustofnun hefur veitt annarri umboð til að veita slík leyfi fyrir sína hönd.
    Eitt af markmiðum tilskipunarinnar er að einfalda þjónustuveitendum á netinu að ná samningum við sameiginlegar umsýslustofnanir um not tónverka á öllu EES svæðinu. Þetta verður meðal annars gert með því að fækka þeim sameiginlegu umsýslustofnunum sem þjónustuveitendur þurfa að semja við. Það krefst þess að sameiginlegar umsýslustofnanir leggi saman verkaskrár sínar þannig að þjónustuveitendur geti öðlast fjölþjóðleg leyfi. Í formálsgrein 44 með tilskipuninni er undirstrikað að þær sameiginlegu umsýslustofnanir sem ekki geta eða ekki vilja veita fjölþjóðleg leyfi skuli hvattar að veita af sjálfsdáðum öðrum sameiginlegum umsýslustofnunum umboð til að veita slík leyfi án mismununar.
    Reglur sem eiga að hvetja til slíks er að finna í 30. og 31. gr. frumvarpsins, ásamt ákvæðum 32. gr. frumvarpsins. Ýmsar aðrar reglur í frumvarpinu eru þeim til fyllingar, meðal annars hinar almennu reglur um fyrirsvarssamninga í 17. og 18. gr. frumvarpsins.
    Ef aðstæður eru þannig að sameiginleg umsýslustofnun vill ekki eða treystir sér ekki af tæknilegum ástæðum að veita leyfi fyrir netnotkun tónverka yfir landamæri þá eiga ákvæði 31. gr. frumvarpsins að tryggja að önnur sameiginleg umsýslustofnun taki slíka umsýslu að sér að beiðni þeirrar fyrstnefndu. Ef upphaflega stofnunin veitir ekki annarri sameiginlegri umsýslustofnun slíkt umboð þá getur komið til kasta 32. gr. frumvarpsins, sjá nánar í næsta kafla.

3.7.4. Réttur til leyfisveitinga yfir landamæri.
    Engar sérstakar reglur er að finna í íslenskum rétti um rétt rétthafa til að afturkalla umboð sitt um umsýslu réttinda frá sameiginlegri umsýslustofnun.
    31. gr. tilskipunar fjallar um þau tilvik ef sameiginleg umsýslustofnun vill ekki eða getur ekki veitt fjölþjóðleg leyfi yfir landamæri og veitir ekki annarri sameiginlegri umsýslustofnun slíkt umboð þá getur rétthafinn afturkallað umboð sitt að því er varðar slík fjölþjóðleg leyfi yfir landamæri til annarra ríkja og sjálfur farið með þau réttindi eða veitt öðrum aðila, t.d. annarri sameiginlegri umsýslustofnun, umboð til að fara með þau réttindi, án þess að afturkalla umboð sitt til hinnar upphaflega sameiginlegu umsýslustofnunar að því er varðar netnotkun verkanna innanlands. Þetta á að tryggja rétt rétthafa að þessu leyti. 32. gr. frumvarpsins er ætlað að innleiða það ákvæði.
    Þetta ákvæði tekur ekki gildi fyrr en einu ári eftir gildistökudag ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 186/2017 frá 22. september 2017, sbr. ákvæði 2. mgr. 39. gr. frumvarpsins.

3.7.5. Undanþága frá réttindum til netnotkunar á tónverkum fyrir hljóðvarps- og sjónvarpsefni.
    Ekki eru neinar reglur til í gildandi lögum um undanþágur frá réttindum til netnotkunar á tónverkum fyrir hljóðvarps- og sjónvarpsefni.
    Ákvæði 32. gr. tilskipunar hefur að geyma ákvæði sem kveður á um undanþágur frá ákvæðum III. bálks tilskipunar vegna sameiginlegra umsýslustofnana sem sjá um leyfisveitingar yfir landamæri á réttindum sem eru nauðsynleg til netnotkunar á tónverkum fyrir hljóðvarps- og sjónvarpsefni. Þær undanþágur eru til þess að auðvelda útgáfu leyfa fyrir netnotkun vegna útsendinga á slíku efni, sbr. formálsgrein 48 með tilskipuninni. 33. gr. frumvarpsins er ætlað að innleiða 35. gr. tilskipunarinnar. Skv. 33. gr. frumvarpsins þurfa sameiginlegar umsýslustofnanir sem veita fjölþjóðleg leyfi yfir landamæri fyrir réttindum til netnotkunar á tónverkum fyrir hljóðvarps- og sjónvarpsefni, sem falla innan ramma greinarinnar, ekki að uppfylla ákvæði VII. kafla frumvarpsins.
    Eins og tekið er fram í formálsgrein 48 með tilskipuninni þá á þessi undanþága ekki að vera notuð þannig að hún skekki samkeppni við aðra þjónustuveitendur sem veita notendum beinlínuaðgang að einstökum tónverkum eða kvikmyndum, eða leiði til samkeppnishindrandi viðskiptaleiða. Meðferð undanþágunnar þarf því að vera í samræmi við samkeppnisreglur eins og tiltekið er í 32. gr. tilskipunarinnar þar sem vísað er í 102. og 103. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins. Fyrir EES-ríkin eiga ákvæði 53. og 54. gr. EES samningsins við, sbr. a-lið, 2. mgr. 1. gr. ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 186/2017 frá 22. september 2017.

3.8. Meðferð deilumála, eftirlit og viðurlög.
    Eins og fram kemur í formálsgrein 49 með tilskipuninni þá er nauðsynlegt að tryggja skilvirka framfylgd þeirra ákvæða sem sett eru til að innleiða efni tilskipunarinnar í landslög EES ríkjanna. Því er í tilskipuninni af finna ýmis ákvæði um framfylgd, þ.m.t. kæruheimild, sbr. 33. gr. tilskipunarinnar; lausn deilumála utan dómstóla, sbr. 34. gr. tilskipunarinnar; dómstólameðferð, sbr. 35. gr. tilskipunarinnar og eftirlit með sameiginlegum umsýslustofnunum, sbr. 36. gr. tilskipunarinnar. Þá er að finna reglur í 37. og 38. gr. tilskipunarinnar um samvinnu milli aðildarríkja og jafnframt samvinnu aðildarríkja við framkvæmdastjórn ESB. Tímafrestir í þeim ákvæðum ráðast að því er varðar EES-ríkin af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 186/2017 frá 22. september 2017.
    Í formálsgrein 50 með tilskipuninni kemur fram að aðildarríkin skuli innleiða viðeigandi eftirlitsferla til að fylgjast með framfylgd sameiginlegra umsýslustofnana á ákvæðum innleiddrar tilskipunar. Hins vegar eru ekki sett ákvæði í tilskipunina hver eða hvernig á að framkvæma slíkt eftirlit. Það er því aðildarríkjum í sjálfsvald sett. Þá er tilskipunin hlutlaus með tilliti til núgildandi viðurkenninga- og eftirlitsferla í aðildarríkjum.

3.8.1. Kvartanir.
    Ekki er í núgildandi rétti að finna ákvæði um kvartanaferli innan sameiginlegra umsýslustofnana, þ.e. til handa félagsaðilum þeirra eða annarra sameiginlegra umsýslustofnana sem tengjast þeim með fyrirsvarssamningum.
    Tilgangur 34. gr. frumvarpsins er að innleiða 33. gr. tilskipunarinnar um kvartanir.
    Sameiginlegar umsýslustofnanir og aðildarfélög þeirra sjá nú þegar um að svara fyrirspurnum rétthafa um umsýslu, úthlutun og útborgun réttindatekna. Tilgangur slíkra fyrirspurna er oft til að fá leiðsögn frá stofnunum en líka til að kvarta um umsýsluna.
    Ákvæði 33. gr. tilskipunarinnar miðar að samræma reglur um kvartanir innan EES þannig að rétthafar geti treyst að þær séu meðhöndlaðar á sama hátt innan alls EES svæðisins. Ákvæði 34. gr. frumvarpsins tekur mið af uppsetningu 33. gr. tilskipunarinnar en þó með ákveðinni einföldun

3.8.2. Úrskurðarnefnd höfundaréttarmála.
    Úrskurðarnefnd skv. 57. gr. höfundalaga getur úrskurðað fjárhæð þóknunar vegna eftirtalinna ákvæða höfundalaga: 12. gr. b, 3. mgr. 14. gr., 16.–18. gr., 4. mgr. 19. gr., 20. og 21. gr., 1. mgr. 23. gr., 23. gr. a, 23. gr. b, 26. gr. b og 47. gr., eða um önnur ágreiningsefni vegna samningskvaðamála. Úrskurður nefndarinnar felur í sér fullnaðarúrlausn um ágreiningsefnið á stjórnsýslustigi. Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um starfshætti nefndarinnar en engin slík er í gildi. Ekki hefur oft verið leitað úrskurðar skv. þessu ákvæði.
    Ákvæði 35. gr. miðar að því að innleiða hluta af 34. gr. tilskipunarinnar um málsmeðferð deilumála utan dómstóla.
    34. gr. tilskipunar heimilar aðildarríkjum annars vegar í 1. mgr. að kveða á um að deilumál á milli sameiginlegra umsýslustofnana, félagsaðila sameiginlegra umsýslustofnana, rétthafa og notenda vegna innleiðingar tilskipunarinnar skuli vera hægt að leggja undir hraðvirka, sjálfstæða og óvilhalla úrskurðaraðila utan dómstóla. Hins vegar skyldar tilskipunin í 2. mgr. 34. gr. aðildarríkjum að tryggja að slík úrskurðarúrræði séu fyrir hendi vegna ákveðinna þátta vegna fjölþjóðlegra leyfisveitinga yfir landamæri vegna netnotkunar tónverka. Þetta er síðan endurspeglað í formálsgrein 49 með tilskipuninni og þar eru nefnd sem dæmi gerðardómar eða sáttaumleitanir.
    Deilumálum á milli sameiginlegra umsýslustofnana, félagsaðila sameiginlegra umsýslustofnana, rétthafa og notenda er hægt að vísa til sjálfstæðra og óvilhallra úrskurðaraðila, þ.m.t. til gerðardóma og sáttameðferðar skv. samkomulagi aðila. Þess utan geta ákveðin mál verið borin undir úrskurðarnefnd skv. 57. gr. höfundalaga, eins og að ofan greinir. Það er því mat ráðuneytisins að ákvæði 34. gr. tilskipunarinnar séu þegar uppfyllt að því er þetta varðar. Vangaveltur voru uppi um hvort bæta mætti við úrræðum, sérstaklega hvort auka mætti gildissvið úrskurðarnefndar skv. 57. gr. höfundalaga. Niðurstaða þeirra hugleiðinga er sú að ekki sé rétt að gera það með öll mál sem falla undir upptalningu 34. gr. tilskipunarinnar heldur eingöngu þau sem varða ákveðna þætti vegna fjölþjóðlegra leyfisveitinga yfir landamæri vegna netnotkunar tónverka, sbr. 2. mgr. 34. gr. tilskipunarinnar. Ástæða þess er helst sú að ef öll mál sem féllu undir 34. gr. tilskipunarinnar yrðu lögð undir úrskurðarnefndina myndi það valda of miklum málafjölda sem ynni gegn því markmiði að unnt væri að fá hraðvirka úrlausn deilumáls sbr. tilgang 34. gr. tilskipunarinnar og sem er áréttað í formálsgrein 49 með tilskipuninni. Mikilvægara væri að tryggja málshraða vegna deilumála sem vörðuðu ákveðna þætti vegna fjölþjóðlegra leyfisveitinga yfir landamæri vegna netnotkunar tónverka, sbr. 2. mgr. 34. gr. tilskipunarinnar. Því er lagt til að þau deilumál megi leggja undir úrskurð nefndarinnar skv. 57. gr. höfundalag í 35. gr. frumvarpsins og a-liður 40. gr. frumvarpsins.

3.8.3. Eftirlit og viðurlög.
    Höfundalög innihalda ekki ákvæði um eftirlit með sameiginlegum umsýslustofnunum eða öðrum rétthafasamtökum. Hins vegar er óbeint eftirlit falið í höfundalögunum með því að það ráðuneyti sem fer með höfundaréttarmál veitir rétthafasamtökum viðurkenningu til fara með innheimtu ýmissa bóta, þóknana og endurgjald skv. ákvæðum höfundalaga, sem og viðurkenningu til að standa að samningskvaðasamningum, sjá ákvæði höfundalaga í 4. mgr. 11. gr., 5. mgr. 25. gr. b, 4. mgr. 26. gr. a, 2. mgr. 47. gr. og 3. mgr. 47. gr. b. Ekki hefur þó verið sett reglugerð um málsmeðferð slíkra viðurkenningar.
    Ekki er að finna ákvæði í höfundalögum um refsingar sameiginlegra umsýslustofnana eða annarra rétthafasamtaka.
    36. gr. tilskipunarinnar kveður á um að aðildarríki tryggi eftirfylgni með að sameiginlegar umsýslustofnanir fari eftir ákvæðum sem innleiða ákvæði tilskipunarinnar, sbr. 1. mgr. hennar. Þá er í 2. mgr. kveðið á um að aðildarríki skuli einnig tryggja að fyrir hendi séu virkir og sanngjarnir ferlar fyrir aðildarfélaga sameiginlegra umsýslustofnana, rétthafa, notendur, aðrar sameiginlegar umsýslustofnanir og aðra aðila sem hagsmuna hafa að gæta til að koma að athugasemdum til eftirlitsaðila um það sem mögulega út af ber í starfsemi sameiginlegrar umsýslustofnunar skv. innleiddum ákvæðum tilskipunarinnar. Að lokum er í 3. mgr. 36. gr. tilskipunarinnar kveðið á um að eftirlitsaðilar skuli geta beitt viðeigandi, sanngjörnum og virkum viðurlögum við brotum. Af formálsgrein 50 með tilskipuninni má ráða að tilskipunin lætur aðildarríkjum eftir að ákvarða val á eftirlitsaðila eða eftirlitsferli og ekki sé ætlast til að stofnað sé til nýrra embætta. Sömuleiðis er þeim frjálst að velja viðeigandi viðurlög við brotum svo framarlega sem þau teljast viðeigandi, sanngjörn og virk.
    Þótt hægt sé að leita til dómstóla við meðferð deilumála sem tengjast sameiginlegum umsýslustofnunum þá geta málskot til þeirra verið tímafrek og kostnaðarsöm. Þá eru mörg ákvæði sem innleiðing tilskipunarinnar krefst þess eðlis að ekki er talið rétt að eftirlit með þeim sé eftirlátið aðilum sjálfum. Því er talið rétt að koma á sérstöku eftirliti með sameiginlegum umsýslustofnunum vegna innleiðingar tilskipunarinnar. Um slíkt eftirlit er kveðið á í 36. gr. frumvarpsins og vísast til athugasemda við þá grein um frekari umfjöllun.
    Einnig telur ráðuneytið að þörf sé á að setja ákvæði sem heimila að dæmdar verði sektir við ákveðnum brotum á ákvæðum þessa frumvarps, sbr. 37. gr. þess. Nánar er fjallað um það ákvæði í athugasemdum við þá grein.

3.9. Tengsl sameiginlegra umsýslustofnana og samningsbundinna notenda.
    Ekki er að finna ákvæði í íslenskum lögum sem kveða á um gerð samninga á milli sameiginlegra umsýslustofnana og notenda. Slíkir samningar fylgja því almennum reglum kröfuréttar, þ.m.t. lögum um samningsgerð. Ef aðilar ná ekki samkomulagi um fjárhæð þóknunar skv. nánar tilgreindum ákvæðum höfundalaga er heimilt að leggja ágreiningsefnið undir nefnd skv. 58. gr. höfundalaga. Sú nefnd getur einnig kveðið upp úr um önnur ágreiningsefnis sem varða samningskvaðaheimildir, sbr. sama ákvæði. Þá er hægt að fara fram á sáttameðferð ef ekki nást samningar um samningskvaðaleyfi skv. 26. gr. a höfundalaga, sbr. 26. gr. c höfundalaga. Öll þessi ágreiningsmál er einnig hægt að bera undir dómstóla.
    Höfundalögin hafa að geyma ákvæði um afnotakvöð, þ.e. lagaheimild til handa notendum að nota efni sem háð er höfundarétti án leyfis höfundaréttarhafa en með skyldu til greiðslu þóknunar eða bóta til hans eða hennar. Dæmi um þetta er t.d. 47. gr. höfundalaga sem heimilar not hljóðrita en gegn þóknun. Hins vegar eru ekki almenn ákvæði um hvernig þóknanir fyrir afnotakvaðir eða um upplýsingaskyldu notenda um umfang notkunar.
    Höfundalögin hafa ákvæði um hvernig skuli ákvarða upphæð og tímafresti til greiðslu fylgiréttargjalds, ásamt ákvæði um upplýsingaskyldu, sbr. 25. gr. b og einnig um hvernig reikna skuli bætur vegna eintakagerðar til einkanota, sbr. 3. og 4. mgr. 11. gr. höfundalaga.
    Frumvarpið stefnir að því að innleiða ákvæði 16. og 17. gr. tilskipunarinnar. Fyrri greinin inniheldur ákvæði um samningsgerð notenda og sameiginlegra umsýslustofnana og sú seinni um skýrslugjöf notenda. Ráðuneytið velti fyrir sér hvort leggja ætti til að hafa þessi ákvæði í frumvarpinu til laga um sameiginlegar umsýslustofnanir eða leggja til að ný ákvæði yrðu tekin upp í höfundalög. Ákveðið var að fara síðari leiðina. Ástæða þess er að ákvæði 16. og 17. gr. tilskipunarinnar fjalla ekki um stjórnsýslu sameiginlegra umsýslustofnana heldur samningsgerð á milli þeirra og notenda. Það þótti því betur eiga við að hafa þau í höfundalögum þar sem nú þegar er að finna ýmsar reglur um samskipti þessara aðila. 40. gr. frumvarpsins leggur til að tekin verði upp tvær nýjar greinar í höfundalög, 26. gr. d um leyfisveitingar, sbr. 16. gr. tilskipunarinnar, og 26. gr. e um skyldur notenda, sbr. 17. gr. tilskipunarinnar. Uppsetningu 16. og 17. gr. tilskipunarinnar er að mestu fylgt, þó með afbrigðum, eins og nánar verður gert grein fyrir í athugasemdum við 40. gr.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið hefur að geyma ákvæði sem fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/26/ESB um sameiginlega umsýslu höfundarréttar og skyldra réttinda og leyfisveitingar yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum á innri markaðnum. Frumvarpið hefur að öðru leyti ekki gefið tilefni til mats á samræmi þess við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.

5. Samráð.
    Helstu hagsmunaaðilar eru annars vegar samtök sem fara með réttindi og hagsmunagæslu fyrir höfunda og listflytjendur eins og STEF, Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda, Rithöfundasamband Íslands, FJÖLÍS – samtök rétthafa vegna samninga um ljósritun og aðra sambærilega eintakagerð í atvinnuskyni, Myndstef - Myndhöfundasjóður Íslands, Hagþenkir – félag höfunda fræði- og kennslubóka og IHM – Innheimtumiðstöð rétthafa. Hins vegar eru það rétthafar höfundaréttinda, sem eru yfirleitt höfundar eða flytjendur höfundaréttinda en geta líka verið einingar, önnur en sameiginleg umsýslustofnun, sem er handhafi höfundarréttar eða skyldra réttinda eða á rétt á hluta af réttindatekjum á grundvelli samnings um nýtingu réttinda eða samkvæmt lögum, sbr. 3. tölul. 2. gr. frumvarpsins.
    Áform um frumvarpið voru kynnt í Samráðsgátt Stjórnarráðsins 5. febrúar 2018 ásamt frummati á áhrifum. Engar athugasemdir bárust fyrir lok samráðsfrests sem var til 19. febrúar 2018. Höfundaréttarnefnd, sem er nefnd sérfræðinga um höfundaréttarmál og er skipuð í samráði við helstu höfundaréttarsamtök landsins, sbr. 58. gr. höfundalaga, hefur haft frumvarpið til athugunar á ýmsum stigum þess og komið með ábendingar og athugasemdir.
    Frumvarpið var kynnt í Samráðsgátt Stjórnarráðsins frá 25. febrúar 2020.
    Ein umsögn barst fyrir lok samráðsfrestsins sem var til 11. mars 2020. Sú umsögn var frá Myndstefi sem var jákvætt í garð frumvarpsins og taldi það framfaraskref. Samtökin höfðu þó þrjár athugasemdir. Í fyrsta lagi var varpað fram spurningu um túlkun ákvæðis 4. mgr. 4. gr. frumvarpsins, sú spurning krefst ekki breytinga á frumvarpinu. Þá var gerð athugasemd við skyldu eftirlitsaðila sameiginlegra umsýslustofnana að leggja fram árlegt yfirlit um hagsmunaárekstra, sbr. 3. mgr. 8. gr. frumvarpsins, sem Myndstef taldi of íþyngjandi. Þetta ákvæði er innleiðing á 3. mgr. 9. gr. tilskipunarinnar og ekki er svigrúm til að breyta því ákvæði á þann hátt sem Myndstef leggur til. Að lokum var í umsögninni ábending um að skortur væri á leiðum til handa rétthöfum, notendum og umsýslustofnunum til að öðlast skjótvirka og sanngjarna úrlausn mála sinna, óháð dómstólum. Lagt er til að gagnlegt væri að víkka hlutverk úrskurðarnefndar skv. 57. gr. höfundalaga frekar en gert er í frumvarpinu. Íhugað var við undirbúning frumvarpsins að víkka verksvið úrskurðarnefndarinnar en niðurstaðan var sú að það gæti valdið of miklum málafjölda, sbr. umfjöllun í kafla 3.8.2 hér að framan, og þannig komið í veg fyrir að því markmiði yrði náð að tryggja hraðvirkar úrlausnir. Eftir lok samráðsfrestsins barst umsögn frá STEFi. Í umsögn STEFs var undirstrikað það viðhorf þeirra að löggjöfin væri íþyngjandi og kostnaðarsöm fyrir íslensk rétthafasamtök sem væru mjög smá á alþjóðlegan mælikvarða. STEF taldi þó að frumvarpið myndi auka traust á umsýslustofnunum höfundarréttar. Aðalathugasemd STEFs varðaði að ekki hefðu verið nýtt heimildarákvæði í 8. gr. tilskipunarinnar, sem frumvarpinu er ætlað að innleiða, sem varða möguleikann á að valdheimildir aðalfundar skv. greininni geti verið á höndum annarra aðila. Þetta væri STEFi mjög mikilvægt þar sem æðsta vald STEFs væri í höndum fulltrúaráðs og aðalfundur þess kæmi í stað aðalfundar félagsaðila. Nefndi STEF sérstaklega í þessu sambandi að rétt hefði verið að innleiða 12. mgr. 8. gr. tilskipunarinnar. Vegna þessarar ábendingar voru heimildarákvæði 8. gr. tilskipunarinnar endurskoðuð. Niðurstaða þeirrar skoðunar var að 12. mgr. 8. gr. ætti ekki við því ákvæði 12. mgr. 8. gr. eru aðallega hugsuð fyrir sameiginlegar umsýslustofnanir sem er komið á fót með lögskipuðu rekstrarformi sjálfseignarstofnunar og sem ekki hafa neina félagsaðila. Ástæða þess að STEF heldur ekki aðalfund félagsaðila er hins vegar ekki vegna lögbundins rekstrarforms. Niðurstaðan var sú að heimildarákvæði 11. mgr. 8. gr. tilskipunar gæti leyst vanda STEFs og annarra sameiginlegra umsýslustofnana sem lúta sama skipulagi. Þar er kveðið á um að fundur skipaðra fulltrúa félagsaðila geti að ákveðnum skilyrðum uppfylltum farið með valdheimildir aðalfundar félagsaðila. Því er lagt til að bæta við nýrri málsgrein, 6. mgr., við 6. gr. frumvarpsins þar sem þetta heimildarákvæði tilskipunarinnar er innleitt, sjá nánar um það í athugasemdum við 6. gr. frumvarpsins.

6. Mat á áhrifum.
    Gert er ráð fyrir að samþykkt frumvarpsins hafi takmörkuð áhrif á fjárhag ríkissjóðs og óveruleg áhrif til aukinnar stjórnsýslubyrði hjá stjórnvöldum en mennta- og menningarmálaráðuneyti er lögbært stjórnvald fyrir eftirlit og upplýsingaskipti vegna innleiðingar tilskipunarinnar við önnur lögbær stjórnvöld á EES-svæðinu og mun samhliða gildistöku frumvarpsins huga sérstaklega að stöðu sameiginlegra umsýslustofnana með staðfestu hjá á landi. Gert er ráð fyrir að þær breytingar sem frumvarpið mælir fyrir um á skipulagi og starfsháttum samtaka rétthafa höfundarréttar muni leiða til aukinnar stjórnsýslubyrði í mennta- og menningarmálaráðuneyti. Sérstaklega á það við í upphafi eftir gildistöku laganna. Í tilskipuninni er ekki gerð krafa um frumkvæðiseftirlit eða viðvarandi eftirlit. Möguleg afleiðing af samþykki frumvarpsins kann að verða sú að notendur og sameiginlegar umsýslustofnanir leiti í einhverjum mæli til úrskurðarnefndar í höfundaréttarmálum skv. 57. gr. höfundalaga sem starfar á vegum ráðuneytisins. Þóknun til úrskurðarnefndarinnar greiðist af málskostnaðargjaldi sem deiluaðilar standa skil á. Gert er ráð fyrir að kostnaður af samþykki frumvarpsins rúmist innan núverandi útgjaldaramma mennta- og menningarmálaráðuneytis. Aukinni stjórnsýslubyrði sem leiða kann af samþykkt frumvarpsins verður mætt með breyttri forgangsröðun verkefna innan málaflokksins með tilliti til mikilvægis málshraða og þeirra hagsmuna sem í húfi eru hverju sinni.
    Áhrif frumvarpsins á atvinnulíf, vinnumarkað og samkeppni takmarkast við samtök rétthafa höfundarréttar sem þurfa að laga samþykktir sínar, skipulag og starfshætti til samræmis við ákvæði frumvarpsins. Um er að ræða samtök eins og STEF, Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda (SFH), Rithöfundasamband Íslands, FJÖLÍS – samtök rétthafa vegna samninga um ljósritun og aðra sambærilega eintakagerð í atvinnuskyni, Myndstef – Myndhöfundasjóður Íslands, Hagþenkir – félag höfunda fræði- og kennslubóka og IHM – Innheimtumiðstöð gjalda. Gera má ráð fyrir að frumvarpið hafi áhrif á skipulag og starfshætti aðildarfélaga framangreindra samtaka vegna krafna í tilskipuninni um beina aðild félaga að ákvarðanatöku í stað fulltrúalýðræðis eins og tíðkast hefur fram til þessa. Krafa í tilskipuninni um að samtök rétthafa höfundaréttar birti árlega gagnsæisskýrslu mun hafa áhrif á hvernig samtökin standa að gerð ársskýrslu fyrir starfsemi sína. Gerð gagnsæisskýrslu mun hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir þau samtök sem falla undir frumvarpið, en ljóst er að gagnsæisskýrslan er að mörgu leyti ólík hefðbundinni íslenskri ársskýrslu og hefur í för með sér aukna vinnu fyrir samtökin. Þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir að gagnsæisskýrslan sé staðfest af endurskoðanda mun gerð skýrslunnar einnig hafa í för með sér aukinn beinan útlagðan kostnað vegna greiðslna til endurskoðanda. Ekki er ólíklegt að sá viðbótarkostnaður einn og sér nemi frá 500 þúsund kr. til einnar milljónar kr. árlega hjá hverri umsýslustofnun, enda er ekki nóg fyrir endurskoðanda að lesa skýrsluna og staðfesta hana heldur verður endurskoðandi að geta staðfest að þær fullyrðingar sem þar koma fram séu í samræmi við raunverulega úthlutun og bókhald samtakanna.
    Hugsanlegt er að þær kröfur sem fylgja ákvæðum frumvarpsins muni leiða til einhvers konar samstarfs eða sameiningar samtaka. Í því efni er þó rétt að hafa í huga að það er í valdi mennta- og menningarmálaráðherra að hafa áhrif á hvaða rétthafar fara saman með ólík réttindi innan sömu samtaka, sbr. 4. mgr. 26. gr. a í höfundalögum.
    Framangreindar sameiginlegar umsýslustofnanir eru starfræktar sem almenn félög í eigu félagsmanna sem hafa ekki þann tilgang að skila eigendum sínum arði. Að því leyti er ekki gert ráð fyrir að samþykki frumvarpsins hafi fjárhagsleg áhrif eða auki stjórnsýslubyrði fyrir atvinnulífið.
    Samþykki frumvarpsins kann að hafa minni háttar efnahagsleg áhrif og auka stjórnsýslubyrði sjálfstæðra umsýslustofnana, þ.e. umsýslustofnana sem eru starfræktar í hagnaðarskyni og er þá bæði átt við kostnað vegna aðlögunar á kröfum frumvarpsins og aukinn kostnað af daglegri starfsemi slíkra umsýslustofnana. Rétt er þó að taka fram að fá ákvæði frumvarpsins eiga við starfsemi sjálfstæðra umsýslustofnana, sbr. 5. mgr. 1. gr. frumvarpsins sem veitir mennta- og menningarmálaráðherra heimild til ákveða með reglugerð að hvaða leyti sjálfstæðar umsýslustofnanir falla undir ákvæði frumvarpsins. Að mati ráðuneytisins munu þó fáar eða jafnvel engar sjálfstæðar umsýslustofnanir falla undir ákvæði frumvarpsins. Fyrir höfunda sem þiggja greiðslur fyrir afnot verka sinna frá samtökunum mun breytt skipulag leiða til aukins gagnsæis í meðferð fjármuna og skiptingu þeirra milli ólíkra rétthafa.
    Á þessu stigi liggja ekki fyrir upplýsingar eða vísbendingar um að ákvæði frumvarpsins geti haft áhrif á samkeppnisstöðu rétthafasamtaka. Þar sem aðeins ein samtök eru að jafnaði koma fram fyrir hönd rétthafa verka tiltekinnar tegundar er ekki fyrirséð að ákvæði frumvarpsins geti leitt til samkeppni milli rétthafasamtaka.
    Ákvæði frumvarpsins um beina aðild rétthafa að ákvörðunum sem teknar eru innan samtaka þeirra og aukið gagnsæi í meðferð fjármuna eru til þess fallin að auka traust almennings og rétthafa á starfsemi samtaka rétthafa höfundaréttar. Ákvæði frumvarpsins um samræmdar reglur um fjölþjóðleg leyfi sem samtök rétthafa höfundaréttar veita fyrir afnot af tónlist á netinu eru til þess fallin að auka framboð slíkrar þjónustu í þágu aukinnar fjölbreytni fyrir almenning.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Ákvæði 1. gr. frumvarpsins er ætlað að innleiða 2. gr. tilskipunarinnar sem mælir fyrir um gildissvið. Til hliðsjónar eru hafðar formálsgreinar tilskipunarinnar sem snerta á einn eða annan hátt spurningar um gildissvið laganna, sjá formálsgreinar 4, 10, 12 og 14–17.
    Í samræmi við það er gengið út frá því í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins að gildissvið þess, að undanskildum ákvæðum VII. kafla, séu sameiginlegar umsýslustofnanir með staðfestu hér á landi. Með því er átt við sameiginlegar umsýslustofnanir sem stofnsettar hafa verið hérlendis, en hugtakið sameiginleg umsýslustofnun er skilgreint í 1. tölul. 2. gr. Frumvarpið gildir því ekki um sameiginlegar umsýslustofnanir sem eru með staðfestu í öðrum EES ríkjum, án tillits til þess hvort þær eru virkar hér á landi. Slíkar sameiginlegar umsýslustofnanir munu þó þurfa að uppfylla ákvæði annarra laga sem kunna að eiga við um starfsemi þeirra hér á landi, þar með talið kröfur um viðurkenningu starfseminnar skv. 4. mgr. 26. gr. a í höfundalögum. Mennta- og menningarmálaráðuneyti á þess kost að beita málsmeðferð skv. 37. gr. tilskipunarinnar ef það er mat ráðuneytisins að sameiginleg umsýslustofnun með staðfestu í öðru EES aðildarríki með virka starfsemi hér á landi starfi ekki í samræmi við innlendan rétt í staðfestulandinu. Ákvæði 37. gr. tilskipunarinnar fjallar um upplýsingagjöf á milli lögbærra yfirvalda innan EES-svæðisins. Þess utan er að finna reglugerðarheimild um að ákvæði frumvarpsins eigi að gilda um sameiginlegar og sjálfstæðar umsýslustofnanir sem eru með staðfestu utan EES-svæðisins en eru efnahagslega virkar hér á landi, sbr. 5. mgr. 1. gr. frumvarpsins, sem nánar er fjallað um hér að neðan.
    Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins skulu ákvæði VII. kafla frumvarpsins gilda um sameiginlegar umsýslustofnanir með staðfestu á Íslandi sem annast umsýslu höfundarréttinda yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum. Þetta er í samræmi við 2. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar. Ein og sama sameiginlega umsýslustofnunin getur þannig fallið undir bæði 1. og 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins og fellur þá starfsemi hennar undir frumvarpið í heild sinni. Um sambandið milli VII. kafla og annarra ákvæða frumvarpsins vísast að öðru leyti til umfjöllunar í greinargerð, sbr. kafla 3.8 í greinargerð.
    Í 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins felst að viðeigandi ákvæði frumvarpsins gilda um einingar sem eru beint eða óbeint í eigu eða undir yfirráðum sameiginlegrar umsýslustofnunar, að fullu eða að hluta, t.d. dótturfélög. Þetta er innleiðing á 3. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar. Skilyrði þess að ákvæði 3. mgr. eigi við er að slíkar einingar stundi starfsemi sem félli undir ákvæði frumvarpsins ef umsýslustofnunin stundaði hana. Kjósi sameiginleg umsýslustofnun að útvista einhverjum verkefna sinna til þriðja aðila sem hún hefur ekki yfirráð yfir, ber stofnunin ábyrgð á því að viðkomandi aðili fylgi ákvæðum laganna. Lúti viðkomandi aðili eða eining hins vegar yfirráðum sameiginlegu umsýslustofnunarinnar ber aðilanum að fylgja þeim ákvæðum laganna sem ná til starfsemi hans, þ.e. öllum ákvæðum í frumvarpinu um þá starfsemi eins og um sameiginlega umsýslustofnun væri að ræða. Ákvæði 3. mgr. er ætlað að koma í veg fyrir að sameiginlegar umsýslustofnanir reyni að komast fram hjá ákvæðum frumvarpsins með því að stofna t.d. dótturfélög. Hugtakið yfirráð skal túlkað í samræmi við skilgreiningu laga um hlutafélög, nr. 2/1995 og laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994.
    Í 4. mgr. 1. gr. frumvarpsins er kveðið á um reglur sem gilda skuli um sjálfstæðar umsýslueiningar með staðfestu á Íslandi. Um er að ræða innleiðingu á 4. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar. Skilgreining á hvað telst sjálfstæð umsýslueining er að finna í 2. tölul. 2. gr. frumvarpsins. Rétthöfum er heimilt að fela sjálfstæðum umsýslueiningum umsjón réttinda sinna en slíkar einingar geta ekki talist til sameiginlegra umsýslustofnana meðal annars þar sem þær eru reknar í hagnaðarskyni og eru ekki í eigu rétthafa, sbr. skilgreiningu 2. tölul. 2. gr. Að því marki sem slíkar umsýslueiningar sinna sambærilegum verkefnum og sameiginlegar umsýslustofnanir ber þeim að veita rétthöfum sem þær eru í fyrirsvari fyrir, sameiginlegum umsýslustofnunum og notendum ákveðnar upplýsingar. Þar af leiðandi kemur fram í 4. mgr. að ákvæði 19. og 21. gr., 1.–3. og 5.–7. tölul. 22. gr, og 36. og 37. gr. gilda um allar sjálfstæðar umsýslueiningar með staðfestu á Íslandi.
    Lagt er til í 5. mgr. 1. gr. frumvarpsins að mennta- og menningarmálaráðherra fái heimild til að gefa út reglur um gildissvið laganna gagnvart sameiginlegum og sjálfstæðum umsýslustofnunum sem eru með staðfestu utan EES-svæðisins en eru efnahagslega virkar hér á landi. Formálsgrein 10 með tilskipuninni gefur færi á að gildissvið frumvarpsins sé valkvætt að þessu leyti. Í formálsgrein 10 með tilskipuninni kemur fram að hún eigi ekki að girða fyrir að aðildarríki beiti sömu eða sambærilegum ákvæðum og eru í tilskipuninni um sameiginlegar umsýslustofnanir sem hafa staðfestu utan EES-svæðisins en eru starfræktar í því aðildarríki. Í þessu felst að það er í valdi íslenskra stjórnvalda að láta kröfur tilskipunarinnar ná til umsýslustofnana sem eru með staðfestu utan EES-svæðisins en eru efnahagslega virkar hér á landi. Ekki er hægt að útiloka að umsýslustofnanir sem eru með staðfestu í ríki utan EES-svæðisins muni í framtíðinni verða með starfsemi hér á landi. Því getur verið nauðsynlegt að gera ráð fyrir þeim möguleika að láta lögin á skjótvirkan og sveigjanlega hátt einnig ná yfir starfsemi þeirra að hluta eða öllu leyti. Með þessari aðferð getur mennta- og menningarmálaráðherra brugðist við með skjótum og sveigjanlegum hætti ef þörf er talin á að láta ákvæði frumvarpsins að hluta eða öllu leyti gilda um starfsemi umsýslustofnana og sjálfstæðra umsýslustofnana sem eru með staðfestu í ríki utan EES-svæðisins en starfa hér á landi. Ef heimildin verður nýtt væri markmiðið að jafna stöðu íslenskra umsýslustofnana gagnvart umsýslustofnunum með staðfestu í ríki utan EES-svæðisins, þannig að sambærilegar reglur gildi um þær og íslenskar umsýslustofnanir.
    Ákvæði 6. og 7. mgr. 1. gr. frumvarpsins hafa skírskotun til 24. gr. þess. Í 24. gr. er lagt til að sameiginleg umsýslustofnun, sem hefur félagsaðila sem eru samtök í fyrirsvari fyrir rétthafa, sbr. skilgreiningu í 4. tölul. 2. gr. frumvarpsins, geti annars vegar ákveðið í samþykktum sínum að slíkir félagsaðilar sjái um útborgun áfallinna greiðslna til rétthafa skv. 15. og 16. gr. og 4. mgr. 18. gr. frumvarpsins og hins vegar að slíkir félagsaðilar sjái um undirbúning gagnsæisskýrslu skv. 23. gr. Ef sameiginleg umsýslustofnun tekur slíka ákvörðun er kveðið á um í 6. mgr. og 7. mgr. 1. gr. frumvarpsins hvaða reglum félagsaðilar sem eru samtök í fyrirsvari fyrir rétthafa eigi að fylgja. Ef tekin er ákvörðun um að slíkur félagsaðili taki að sér útborgun áfallinna greiðslna til rétthafa leiðir af 6. mgr. 1. gr. frumvarpsins að III. kafli, 4. mgr. 18. gr., 3. mgr. 19. gr. og 36.–37. gr. frumvarpsins eiga við um skyldur slíks félagsaðila. Ákvæðið byggist þannig á þeirri meginreglu að ákvæði frumvarpsins um úthlutun og útborgun gilda þá með samsvarandi hætti um félagsaðila sem eru samtök í fyrirsvari fyrir rétthafa, og rétthafar fá sökum þessa sömu réttarstöðu, óháð því hvaðan úthlutunin kemur. Sum ákvæði sem nefnd eru í 6. mgr. 1. gr. frumvarpsins vísa til annarra ákvæða, sem eiga ekki við um félagsaðila sem eru samtök í fyrirsvari fyrir rétthafa, t.d. er vísað til þess að úthlutun skuli fara fram samkvæmt almennri stefnu um úthlutun sem er ákveðin á aðalfundi, sbr. 1. tölul. 5. mgr. 6. gr. frumvarpsins. Til að tryggja að rétthafar njóti að því leyti sem unnt er sömu réttarverndar óháð því hvernig útborgun áfallinna greiðslna fer fram er sett fram sú skylda í 2. málsl. 6. mgr. að félagsaðilum sem eru samtök í fyrirsvari fyrir rétthafa beri að veita þeim rétthöfum sem rétt eiga á greiðslu færi á að hafa áhrif á úthlutun réttindatekna, án þess í því felist að slíkur félagsaðili falli undir 6. gr. og 7. gr. frumvarpsins. Ef tekin er ákvörðun á grundvelli 24. gr. frumvarpsins um að félagsaðilar sem eru samtök í fyrirsvari fyrir rétthafa skuli undirbúa gagnsæisskýrslu, sbr. 23. gr. frumvarpsins, fylgja slíkir félagsaðilar sömu kröfum og sameiginleg umsýslustofnun hefði fylgt, ef hún hefði sjálf undirbúið skýrsluna. Ákvæðið felur einnig í sér skyldu til að þeir rétthafar sem félagsaðilinn er í fyrirsvari fyrir hafi tækifæri til að staðfesta gagnsæisskýrsluna óháð því hvort slíkur félagsaðili fellur undir 6. og 7. gr. frumvarpsins. Um nánari skýringar vísast til tilvitnaðra ákvæða frumvarpsins.

Um 2. gr.

    Markmið 2. gr. frumvarpsins er að innleiða hluta af 3. gr. tilskipunarinnar í íslenskan rétt. Ákvæði 3. gr. tilskipunarinnar hefur að geyma skilgreiningar á hugtökum sem notuð eru í tilskipuninni. Þá eru formálsgreinar tilskipunarinnar sem varða slíka hugtakanotkun á einn eða annan hátt hafðar til hliðsjónar, þ.e. formálsgreinar 2, 14–16 og 37.
    Í greininni er að finna skýringar á helstu hugtökum sem koma fyrir í frumvarpinu, en mörg þeirra eru ný í íslenskri löggjöf. Í höfundalögum eru notuð hugtökin félagssamtök, höfundaréttarfélag, rétthafasamtök, samtök höfundaréttarfélaga og samtök rétthafa yfir það sem er í frumvarpi þessu nefnt sameiginleg umsýslustofnun. Hugtakið sameiginleg umsýslustofnun er notað í opinberri íslenskri þýðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/26/ESB um sameiginlega umsýslu höfundarréttar og skyldra réttinda og leyfisveitingar yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum á innri markaðnum og felur í sér þýðingu á ensku hugtaki (e. collective management organisation ). Höfundalög hafa ekki að geyma hugtak sem hefur samsvörun við hugtakið sjálfstæð umsýslueining (e. independent management entity) í frumvarpinu. Hugtakið félagsaðili í frumvarpinu hefur samsvörun við hugtakið félagssamtök, sem er notað í 4. mgr. 26. gr. a og hugtakið aðildarfélag í 2. mgr. 47. gr. höfundalaga, auk þess að taka til almennra félaga, þ.e. einstakra rétthafa. Hin nýju hugtök eru ekki í samræmi við hefðbundna hugtakanotkun í höfundalögum, nr. 72/1972, með síðari breytingum. Við undirbúning frumvarpsins kom til álita hvort nota ætti hefðbundin hugtök sem notuð hafa verið í höfundalögum en niðurstaðan varð sú að nota í frumvarpinu sömu hugtök og koma fyrir í íslenskri þýðingu tilskipunarinnar. Það var einkum gert til að auðvelda túlkun sambærilegra ákvæða í frumvarpinu og tilskipuninni.
    Lykilhugtakið sameiginleg umsýslustofnun er skilgreint í 1. tölul. sem hver sú skipulagsheild sem lögum samkvæmt eða með framsali, leyfi eða öðru samningsbundnu fyrirkomulagi hefur umsjón með höfundarrétti eða réttindum sem tengjast höfundarrétti, fyrir hönd fleiri en eins rétthafa, til sameiginlegra hagsbóta fyrir þessa rétthafa, sem sitt eina eða helsta hlutverk, og uppfyllir eitt eða bæði eftirfarandi skilyrða:
     a.      er í eigu eða undir yfirráðum félagsaðila sinna,
     b.      er ekki starfrækt í hagnaðarskyni.
    Af skilgreiningunni er ljóst að uppfylla þarf nokkur skilyrði til þess að teljast sameiginleg umsýslustofnun í skilningi þessa frumvarps. Í fyrsta lagi þarf sameiginleg umsýslustofnun að hafa umsjón með tilteknum réttindum lögum samkvæmt eða á grundvelli hvers konar samningsbundins fyrirkomulags. Eins og að ofan greinir þá er hugtakið sameiginleg umsýslustofnun ekki til í íslenskri löggjöf heldur hafa ýmis önnur hugtök verið notuð fyrir þær stofnanir sem undir það hugtak falla. Flestar sameiginlegu umsýslustofnanir á Íslandi annast umsýslu á grundvelli umboðs félagsmanna, sem í frumvarpinu er lagt til að verði framvegis skilgreint sem félagsaðili, sbr. 4. tölul. 2. gr. frumvarpsins. Hvaða réttindi umsýslustofnanirnar fara með fer yfirleitt eftir samþykktum viðkomandi umsýslustofnunnar. Hins vegar sjá t.d. IHM og SFH um umsýslu réttinda á grundvelli lagaákvæða. Þannig hefur IHM viðurkenningu ráðuneytisins til að sjá um umsýslu bóta skv. 3. mgr. 11. gr. höfundalaga vegna eintakagerðar til einkanota. SFH hefur viðurkenningu ráðuneytisins til að annast innheimtu og úthlutun þóknunar skv. 47. gr. höfundalaga um notkun hljóðrita í útvarpi og annarrar opinberrar miðlunar.
    Í öðru lagi þarf sameiginleg umsýslustofnun að hafa umsjón með höfundarrétti eða réttindum sem tengjast höfundarrétti. Hvað nákvæmlega felst í því að hafa umsjón með höfundarrétti eða tengdum réttindum er ekki skilgreint í texta tilskipunar 2014/26/ESB. Í formálsgrein 2 með tilskipuninni kemur hins vegar fram að umsýsla höfundarréttar og skyldra réttinda taki til leyfisveitinga til notenda, umsjónar með notendum, eftirlits með notkun réttinda, framfylgdar höfundarréttar og skyldra réttinda, innheimtu tekna af réttindum og úthlutun fjárhæða sem ber að greiða rétthöfum. Ekki er nauðsynlegt að stofnun hafi með höndum öll framangreind verkefni heldur getur verið nægilegt að hún innheimti tekjur og úthluti fjárhæðum til rétthafa til þess að teljast sameiginleg umsýslustofnun.
    Í þriðja lagi þarf sameiginleg umsýslustofnun að hafa með höndum umsjón réttinda fleiri en eins rétthafa og myndi stofnun sem einungis hefur umsjón með réttindum eins rétthafa því ekki teljast sameiginleg umsýslustofnun í skilningi frumvarpsins.
    Í fjórða lagi skal þessi umsýsla vera til sameiginlegra hagsbóta fyrir rétthafana sem sameiginleg umsýslustofnun er í fyrirsvari fyrir.
    Í fimmta lagi skal umsjón höfundarréttar eða réttinda sem tengjast höfundarrétti samkvæmt ofangreindu vera eina eða helsta hlutverk sameiginlegrar umsýslustofnunar. Þetta skilyrði hefur í för með sér að ýmsar einingar, sem uppfylla önnur skilyrði til þess að teljast sameiginlegar umsýslustofnanir, flokkast ekki sem slíkar í skilningi þessa frumvarps. Til dæmis getur verið um að ræða hagsmunasamtök eða fagfélög sem hafa þá fleiri hlutverkum að gegna en að fara með umsjón höfundarréttinda. Slíkum aðilum er stundum falið að hafa umsjón með höfundarréttindum meðlima sinna, en sé það ekki helsta eða eina hlutverk þeirra teljast þeir ekki til sameiginlegra umsýslustofnana. Þessir aðilar geta hins vegar verið og eru oft félagsaðilar sameiginlegra umsýslustofnana. Þannig er ljóst að t.d. aðildarfélög Myndstefs teldust félagsaðilar en ekki sameiginlegar umsýslustofnanir.
    Í sjötta og síðasta lagi þarf sameiginleg umsýslustofnun að uppfylla annað eða bæði skilyrðanna um að vera í eigu eða undir yfirráðum félagsaðila sinna, og að vera ekki starfrækt í hagnaðarskyni.
    Í 2. tölul. er hugtakið sjálfstæð umsýslueining skilgreint sem hver sú skipulagsheild sem lögum samkvæmt eða með framsali, leyfi eða öðru samningsbundnu fyrirkomulagi hefur umsjón með höfundarrétti eða réttindum sem tengjast höfundarrétti, fyrir hönd fleiri en eins rétthafa, til sameiginlegra hagsbóta fyrir þessa rétthafa, sem sitt eina eða helsta hlutverk og sem er hvorki í eigu né undir yfirráðum rétthafa, beint eða óbeint, að fullu eða að hluta, og er starfrækt í hagnaðarskyni. Munurinn á skilgreiningu sjálfstæðrar umsýslueiningar og sameiginlegrar umsýslustofnunar er því einkum sá að sú fyrrnefnda er ekki í eigu eða undir yfirráðum rétthafa og er þar að auki rekin í hagnaðarskyni. Í formálsgrein 16 með tilskipuninni er rakið að framleiðendur efnis fyrir hljóð- og myndmiðla, hljómplötuframleiðendur og útvarpsrekendur 1 veita leyfi fyrir eigin réttindum, í ákveðnum tilvikum samhliða réttindum sem t.d. listflytjendur hafa framselt þeim á grundvelli samninga sem gerðir eru sérstaklega og starfa í eigin þágu. Útgefendur bóka, tónlistar 2 eða fréttablaða veita leyfi fyrir réttindum sem þeim hafa verið framseld á grundvelli samninga sem gerðir eru sérstaklega og starfa í eigin þágu. Því eigi ekki að líta á framleiðendur efnis fyrir hljóð- og myndmiðla, hljómplötuframleiðendur, útvarpsrekendur og útgefendur sem „sjálfstæðar umsýslueiningar“. Enn fremur eigi ekki að líta á umboðsmenn og fulltrúa höfunda og listflytjenda, sem starfa sem milliliðir og koma fram fyrir hönd rétthafa í samskiptum þeirra við sameiginlegar umsýslustofnanir, sem „sjálfstæðar umsýslueiningar“ þar sem þeir hafi ekki umsjón með málum er varða réttindi í þeim skilningi að ákvarða gjaldskrár, veita leyfi eða innheimta peninga frá notendum.
    Samkvæmt 3. tölul. er rétthafi einstaklingur eða eining, önnur en sameiginleg umsýslustofnun, sem er handhafi höfundarréttar eða skyldra réttinda eða á rétt á hluta af tekjum af réttindunum á grundvelli samnings um nýtingu réttinda eða samkvæmt lögum. Yfirleitt eru rétthafar einstaklingar en lögaðili getur þó talist rétthafi. Einungis einstakir rétthafar falla undir þessa skilgreiningu. Þannig falla rétthafasamtök, sem eru félagsaðilar sameiginlegra umsýslustofnana, ekki undir skilgreininguna. Sjálfstæð umsýslueining getur hins vegar talist rétthafi, uppfylli hún skilyrði ákvæðisins.
    Í 4. tölul. er hugtakið félagsaðili skilgreint á þann veg að félagsaðili sé rétthafi, sbr. skilgreiningu í 3. tölul., eða eining sem er í fyrirsvari fyrir rétthafa, þ.m.t. aðrar sameiginlegar umsýslustofnanir og samtök rétthafa, sem uppfylla kröfur sameiginlegrar umsýslustofnunar um félagsaðild og hafa fengið aðild að henni. Um aðildarreglur sameiginlegrar umsýslustofnunar og hvernig þær skulu úr garði gerðar vísast til athugasemda við 4. gr. frumvarpsins.
    Í 5. tölul. er aðalfundur skilgreindur sem vettvangur innan sameiginlegrar umsýslustofnunar þar sem félagsaðilar taka þátt og neyta atkvæðisréttar síns án tillits til lagalegs forms stofnunarinnar. Í þessu felst að sameiginleg umsýslustofnun skal halda aðalfund óháð því hvort lagareglur sem gilda um rekstrarform hennar krefjast þess að aðalfundur sé haldinn. Ekki er fjallað um í hvaða formi skal halda aðalfund en aðalfundurinn þarf að uppfylla skilyrði ákvæðisins um þátttöku félagsaðila og möguleika þeirra á að neyta atkvæðisréttar síns. Frekari umfjöllun um aðalfund er að finna í athugasemdum með 6. og 7. gr. frumvarpsins.
    Samkvæmt 6. tölul. eru réttindatekjur skilgreindar sem þær tekjur sem sameiginleg umsýslustofnun innheimtir fyrir hönd rétthafa, hvort sem þær stafa af einkarétti, rétti til þóknunar eða rétti til bóta, sbr. t.d. réttur til bóta vegna eintakagerðar til einkanota skv. 3. mgr. 11. gr. höfundalaga.
    Í 7. tölul. er umsýslukostnaður skilgreindur sem þær fjárhæðir sem sameiginleg umsýslustofnun innheimtir, dregur frá eða jafnar á móti tekjum af réttindum eða tekjum vegna fjárfestingar tekna af réttindum, til þess að standa straum af kostnaði við umsýslu hennar á höfundarrétti eða skyldum réttindum. Nánar er fjallað um umsýslukostnað í athugasemdum við 14. gr.
    Í 8. tölul. eru réttindagreiðslur skilgreindar sem sá hluti af réttindatekjum sem úthlutað er til rétthafa og greiddar þeim
     Fyrirsvarssamningur er skilgreindur í 9. tölul. sem samningur milli sameiginlegra umsýslustofnana þar sem ein sameiginleg umsýslustofnun veitir annarri sameiginlegri umsýslustofnun umboð til að hafa umsjón með þeim réttindum sem hún er í fyrirsvari fyrir, þ.m.t. samningur gerður skv. 30. og 31. gr. Vísað er til nánari umfjöllunar um fyrirsvarssamninga í kafla 3.4.1 í greinargerð.
    Samkvæmt 10. tölul. telst notandi í skilningi frumvarpsins hver sá einstaklingur eða eining sem framkvæmir aðgerðir sem eru háðar heimild frá rétthöfum, þóknun til rétthafa eða greiðslu bóta til rétthafa og kemur ekki sjálfur fram sem neytandi. Notandi getur t.d. verið þjónustuveitandi sem býður streymiþjónustu með tónlist á netinu. Skilgreiningin tekur ekki til spurningarinnar um ábyrgð á notunum gagnvart rétthafa.
    Í 11. tölul. er verkaskrá skilgreind sem þau verk sem sameiginleg umsýslustofnun sér um réttindi fyrir. Hugtakið verk er skilgreint í 1. gr. höfundalaga. Sameiginleg umsýslustofnun getur ýmist eða bæði farið með rétt til slíkra verka skv. 2. gr. höfundalaga eða réttinda skv. V. kafla höfundalaga, svokölluð skyld réttindi. Í frumvarpi þessu kemur hugtakið verkaskrá eingöngu fyrir í VII. kafla um leyfisveitingar sameiginlegra umsýslustofnana á réttindum yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum. Sá kafli frumvarpsins tekur, í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar, eingöngu til tónverka, þ.e. verka á sviði tónlistar sem njóta verndar skv. 1. og 2. gr. höfundalaga, en ekki til skyldra réttinda skv. V. kafla höfundalaga, t.d. rétti flytjenda og framleiðenda.
    Í 12. tölul. er leyfi yfir landamæri skilgreint sem leyfi sem tekur til yfirráðasvæðis fleiri en eins aðildarríkis Evrópska efnahagssvæðisins. Fjallað er um leyfi yfir landamæri vegna réttinda til netnotkunar á tónlist í VII. kafla frumvarpsins, en þar er lagt til að hægt verði að semja um leyfi sem gera netþjónustuveitanda kleift að gera tónverk aðgengileg í fleiri en einu ríki, þrátt fyrir að viðkomandi hafi einungis gert leyfissamning við sameiginlega umsýslustofnun í einu ríki.
    Samkvæmt 13. tölul. eru réttindi vegna netnotkunar á tónverkum hver þau réttindi höfundar tónverks sem kveðið er á um í 2. gr. höfundalaga, sbr. 2. og 3. gr. tilskipunar 2001/29/EB, sem er krafist til að veita megi þjónustu á netinu. Aðilar sem veita þjónustu á netinu og nota tónverk, svo sem tónlistarþjónusta sem gerir neytendum kleift að hala niður tónlist eða hlusta á hana í streymi, verða fyrst að fá rétt til að nota slík verk. Að því er varðar höfunda fela þessi réttindi í sér einkarétt til eftirgerðar og einkarétt til að miðla tónverkum til almennings sem felur í sér réttinn til að gera þau aðgengileg almenningi. Í VII. kafla frumvarpsins er fjallað um leyfi yfir landamæri vegna réttinda til netnotkunar á tónlist. Sá kafli tekur, í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar, eingöngu til réttinda til verka skv. 2. gr. höfundalaga, ekki til skyldra réttinda, t.d. réttinda flytjenda og framleiðenda, sem kveðið er á um í V. kafla höfundalaga.
    Þá er í 14., 15. og 16. tölul. skýrt hvernig hugtökin höfundarréttindi, verk og tónverk eru notuð í frumvarpinu.

Um 3. gr.

    Markmið með 3. gr. frumvarpsins er að innleiða 5. gr. tilskipunarinnar. Nánari skýringar um efni og gildissvið 5. gr. tilskipunarinnar er finna í formálsgreinum 12, sem fjallar um gildissvið tilskipunarinnar og 19, sem fjallar um rétt rétthafa til að velja hvaða réttindi sameiginlegar umsýslustofnanir hafa umsýslu með.
    Í 3. gr. frumvarpsins er fjallað um réttindi rétthafa og tilteknar skyldur sameiginlegra umsýslustofnana gagnvart rétthöfum. Greinin á einungis við um þau tilfelli þegar rétthafi veitir sameiginlegri umsýslustofnun heimild til að vera í fyrirsvari fyrir tiltekin réttindi, og á þannig ekki við þegar allir félagsaðilar sameiginlegrar umsýslustofnunar eru aðrar sameiginlegar umsýslustofnanir eða rétthafasamtök. Þannig á greinin heldur ekki við þegar um er að ræða umsýslu réttinda á grundvelli samningskvaðar eða afnotakvaðar.
    Samkvæmt 1. mgr. eiga rétthafar rétt á að velja þá sameiginlegu umsýslustofnun sem þeir kjósa að heimila umsjón með réttindum, flokkum réttinda eða tegundum verka og annars efnis sem þeir velja sér, fyrir þau landfræðilegu yfirráðasvæði sem þeir velja sér. Í þessu felst að rétthöfum er frjálst að velja þá sameiginlegu umsýslustofnun sem þeir heimila umsjón með réttindum sínum, óháð því t.d. í hvaða landi innan Evrópska efnahagssvæðisins hún starfar eða hvar hún var stofnuð. Sameiginlegri umsýslustofnun er svo skylt að hafa umsjón með slíkum réttindum, flokkum réttinda eða tegundum verka og öðru efni nema stofnunin hafi ástæður sem rökstuddar eru á hlutlægan hátt til að neita slíkri umsýslu, svo framarlega sem hún starfar á viðkomandi sviði. Hlutlægar ástæður til að neita að hafa umsjón með réttindum eða verkum rétthafa geta t.d. verið að hún hafi einungis rétthafasamtök fyrir félagsaðila en ekki einstaka rétthafa.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að rétthafi skuli veita sérstakt og sannanlegt samþykki sitt sérstaklega fyrir hver réttindi, flokk réttinda eða tegund verka og annað efni sem hann heimilar sameiginlegri umsýslustofnun að hafa umsjón með. Hvorki flokkar réttinda né tegundir verka eru hins vegar skilgreind í tilskipuninni. Það er því í höndum hverrar sameiginlegrar umsýslustofnunar að skilgreina þau verk og réttindi sem hún hefur umsýslu með. Í formálsgrein 19 í tilskipuninn er hins vegar að finna leiðbeiningu þar sem tiltekið er að rétthöfum sé frjálst að velja sameiginlega umsýslustofnum til að annast réttindi sín: „hvort sem þessi réttindi fela í sér miðlun til almennings eða réttindi til fjölföldunar, eða réttindaflokka sem eru tengdir ákveðnu formi nýtingar, svo sem dreifingu hljóðvarps- og sjónvarpsefnis, leikhússýningum eða afritun til dreifingar á Netinu“. Það er jafnframt undirstrikað í formálsgrein 19 að á aðalfundi sameiginlegrar umsýslustofnunar skuli skilgreina hver séu þau réttindi og verk eru sem stofnunin annast nema slíkt sé þegar gert í samþykktum hennar.
    Krafan um sérstakt og sannanlegt samþykki felur í sér kröfu um að rétthafinn veiti upplýst samþykki fyrir því hvaða réttindi, flokk réttinda eða verk sameiginleg umsýslustofnun fær heimild til að hafa umsjón með. Kröfuna um slíkt sérstakt og sannanlegt samþykki er að finna í 7. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar. Vert er að geta þess að þýðing tilskipunarinnar á íslensku felur í sér örlítið villandi orðalag þar sem skilja mætti ákvæðið sem kröfu um skriflegt samþykki. Það er þó ekki svo. Sérstakt og sannanlegt samþykki getur auðvitað verið skriflegt, t.d. þegar rétthafinn undirritar samning eða umboð þar sem þessi atriði koma skýrt fram. Hins vegar geta skýr ákvæði í samþykktum sameiginlegrar umsýslustofnunar ásamt upplýsingagjöf til rétthafa áður en þeir gerast félagsaðilar viðkomandi stofnunar einnig uppfyllt kröfur málsgreinarinnar. Aðalatriðið er að stofnunin geti sýnt fram á með gögnum að rétthafinn hafi veitt sérstakt samþykki sem uppfyllir kröfur frumvarpsins. Slíkt sérstakt og sannanlegt samþykki kemur ekki í veg fyrir að rétthafar geti samþykkt breytingar á því síðar, hvaða réttindi eða flokka réttinda þeir heimila sameiginlegri umsýslustofnun að hafa umsjón með fyrir sína hönd, t.d. ef sameiginleg umsýslustofnun útvíkkar starfsemi sína og tekur að sér umsýslu nýrra flokka réttinda. Ef slíkar breytingar eru skýrt fram settar í samþykktum og eru nægjanlega auglýstar getur þegjandi samkomulag rétthafa talist uppfylla kröfur frumvarpsins. Þetta kemur skýrt fram í umfjöllun 19. formálsgreinar tilskipunarinnar.
    Samkvæmt 3. mgr. eiga rétthafar rétt á að veita leyfi sem ekki eru í viðskiptalegum tilgangi til notkunar á réttindum, flokkum réttinda eða tegundum verka og öðru efni sem þeir kunna að velja. Á þetta við þegar rétthafar hafa veitt sameiginlegri umsýslustofnun umboð til umsýslu réttinda sinna, jafnvel þótt slíkt umboð veiti stofnuninni einkarétt til umsýslu þeirra réttinda. Sameiginlegum umsýslustofnunum er heimilt að setja frekari reglur um útfærslu nýtingu rétthafa á þessum réttindum og geta þær þannig bundið nýtinguna ákveðnum skilyrðum, t.d. upplýsingagjöf rétthafa til stofnunarinnar, sbr. umfjöllun um ákvæðið í 19. formálsgrein tilskipunarinnar. Slík skilyrði skulu þó einungis sett ef það er nauðsynlegt vegna umsýslu sameiginlegu umsýslustofnunarinnar meðal annars með tilliti til skilvirkni.
    Í 4. mgr. er kveðið á um rétt rétthafa til að fella úr gildi heimild til hafa umsjón með réttindum, flokkum réttinda eða tegundum verka og öðru efni sem þeir veita sameiginlegri umsýslustofnun. Þessi réttur til afturköllunar tekur einnig til landfræðilegra yfirráðasvæða, þ.e. rétthafar geta t.d. afturkallað heimildina til umsjónar í öðrum löndum, einu eða fleirum, eða þeir geta afturkallað umsjón með ákveðnum verkum eða flokkum réttinda, eða bæði. Rétthafar skulu hafa hæfilegan fyrirvara á uppsögn eða afturköllun samkvæmt ákvæðinu en hann skal þó ekki vera lengri en sex mánuðir. Sameiginlegri umsýslustofnun er svo heimilt að ákveða að uppsögnin eða afturköllunin taki ekki gildi fyrr en eftir lok fjárhagsársins. Í 5. mgr. er kveðið á um þau réttindi sem rétthafi heldur þrátt fyrir uppsögn eða afturköllun samkvæmt 4. mgr. vegna nýtingar sem fram fór áður en heimild var sagt upp eða afturköllun tók gildi, eða á grundvelli leyfis sem veitt var áður en slík uppsögn eða afturköllun tók gildi. Þannig heldur rétthafi réttindum sínum að þeim hluta skv. 14.–16. gr. sem fjalla um úthlutun greiðslna og frádrætti, 19. og 21. gr. sem fjalla um upplýsingar til rétthafa, 29. gr. um nákvæma og tímanlega úthlutun og 34. gr. um kvartanir
    Samkvæmt 6. mgr. er sameiginlegri umsýslustofnun ekki heimilt að takmarka nýtingu réttinda sem kveðið er á um í 4. og 5. mgr. með því að krefjast þess, sem skilyrði fyrir nýtingu þeirra, að umsýsla þess sem fellur undir uppsögnina eða afturköllunina verði falin annarri sameiginlegri umsýslustofnun. Þetta á þó ekki við þegar lög krefjast þess að nýting réttinda sé í höndum sameiginlegrar umsýslustofnunnar eins og skýrt er í formálsgrein 19 með tilskipuninni. Þetta á við í tveimur tilvikum skv. höfundalögum. Í fyrsta lagi verður innheimta fylgiréttargjalds aðeins í höndum sameiginlegrar umsýslustofnunar sem hefur viðurkenningu ráðuneytisins, sbr. 5. mgr. 25. gr. b höfundalaga. Í öðru lagi verður þóknun fyrir opinbera flutning á hljóðriti skv. 47. gr. höfundalaga einungis innheimt af nánar tilgreindri sameiginlegri umsýslustofnun, sbr. 2. mgr. 47. gr. höfundalaga.
    Í 7. mgr. kemur fram að sameiginleg umsýslustofnun skuli tilkynna rétthöfum um réttindi þeirra skv. 1.–6. mgr. og um skilyrði sem kunna að fylgja réttindum skv. 3. mgr. áður en hún fær heimild rétthafanna fyrir því að hafa umsjón með réttindum, flokki réttinda eða tegund verka og öðru efni. Um er að ræða virka upplýsingaskyldu sameiginlegrar umsýslustofnunar gagnvart rétthöfum og er markmið ákvæðisins að rétthafar geti tekið upplýsta ákvörðun um val á sameiginlegri umsýslustofnun. Ekki er kveðið á um hvernig sameiginleg umsýslustofnun skuli uppfylla þessa skyldu, en það getur hún meðal annars gert með upplýsingagjöf á vef sínum eða með því að kveða á um ofangreind atriði í samþykkt sinni. Þannig væri t.d. hægt að bjóða upp á rafrænt skráningarform til að fela sameiginlegri umsýslustofnun umsjón réttinda þar sem samþykkja þyrfti skilmála sem taka á öllum framangreindum atriðum áður en hægt væri að senda skráningarformið. Sjá einnig í þessu samhengi bráðabirgðaákvæði frumvarpsins um tilkynningar til rétthafa sem hafa veitt sameiginlegum umsýslustofnunum heimild til umsjónar fyrir gildistöku frumvarpsins.
    Í 8. mgr. kemur fram að kveða skuli á um réttindi skv. 1.–6. mgr. sem og skilyrði fyrir réttindum skv. 3. mgr. í samþykktum eða aðildarskilmálum sameiginlegrar umsýslustofnunar. Það er í ákvörðunarvaldi stofnunarinnar hvort verði gert en ef hvorugt er fyrir hendi þá þarf aðalfundur að samþykkja tillagðar breytingar á samþykktum eða aðildarskilmálum skv. 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins.
    Í 9. mgr. er kveðið á um að ákvæði 1.–8. mgr. hafi ekki þýðingu fyrir beitingu ákvæða í höfundalögum um samningskvaðaleyfi eða skyldbundna umsýslu réttinda. Ákvæði þessara málsgreina hafa því ekki áhrif á umfang samningskvaðaleyfa eða mat ráðuneytisins á viðurkenningu sameiginlegra umsýslustofnana í samræmi við 4. mgr. 26. gr. a höfundalaga. Ákvæði 9. mgr. er sett með hliðsjón af formálsgrein 12 tilskipunarinnar þar sem fram kemur að tilskipunin stangist ekki á við „fyrirkomulag við réttindaumsýslu í aðildarríkjunum, svo sem einstaklingsbundna umsýslu, rýmkuð áhrif samnings milli viðkomandi sameiginlegrar umsýslustofnunar og notanda, þ.e. samningskvaðaleyfi, skyldubundna sameiginlega umsýslu, lagalegar forsendur fyrir málsvari og yfirfærslu réttinda til sameiginlegra umsýslustofnana“.
    Ákvæði 3. gr. frumvarpsins kemur ekki í veg fyrir að sameiginleg umsýslustofnun og notandi semji tímabundið um hvernig með skuli fara ef rétthafi sem er félagsaðili í sameiginlegri umsýslustofnun afturkallar heimild sína til stofnunarinnar um umsýslu réttinda sem falla undir samning stofnunarinnar og notanda, eftir gerð slíks samnings.

Um 4. gr.

    Greinin fjallar um aðildarreglur sameiginlegra umsýslustofnana og samskipti þeirra við rétthafa, ákvörðunartökuferli og skrá yfir félagsaðila og hefur það markmið að innleiða 6. gr. tilskipunarinnar. Sjá einnig formálsgrein 20 með tilskipuninni um skilyrði aðildar.
    Í 1. mgr. kemur fram að sameiginleg umsýslustofnun skuli samþykkja rétthafa og einingar sem eru í fyrirsvari fyrir rétthafa sem félagsaðila ef þeir uppfylla aðildarkröfur. Skulu þær kröfur byggjast á hlutlægum og gagnsæjum viðmiðunum og vera án mismununar (e. non-discriminatory). Aðildarkröfurnar skulu koma fram í samþykkt eða aðildarskilmálum sameiginlegu umsýslustofnunarinnar og vera aðgengilegar öllum. Ef sameiginleg umsýslustofnun hafnar beiðni um félagsaðild skal hún gefa viðkomandi rétthafa eða aðila greinargóða skýringu á ástæðum höfnunarinnar. Ákvæðið felur hins vegar ekki í sér skyldu sameiginlegrar umsýslustofnunar til að samþykkja rétthafa sem félagsaðila ef stofnunin starfar ekki á því sviði sem réttindi rétthafanna falla undir. Þá er sameiginlegri umsýslustofnun, sem einungis hefur rétthafasamtök eða aðrar sameiginlegar umsýslustofnanir sem félagsaðila, ekki skylt að samþykkja einstaka rétthafa sem félagsaðila.
    Samkvæmt 2. mgr. skal kveða á um viðeigandi og skilvirkt fyrirkomulag þátttöku félagsaðila í ákvörðunartökuferli sameiginlegrar umsýslustofnunar í samþykkt hennar. Mismunandi flokkar félagsaðila skulu hafa fulltrúa í ákvörðunartökuferlinu á sanngirnis- og jafnræðisgrundvelli. Það er undir hverri umsýslustofnun komið hvernig slíkar reglur eru útfærðar svo framarlega sem þær geti sýnt fram á að reglurnar séu sanngjarnar og gæti jafnræðis.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að sameiginleg umsýslustofnun skuli gera félagsaðilum sínum kleift að eiga við hana rafræn samskipti, þ.m.t. að því er varðar að neyta réttinda sem félagsaðilar. Ákvæðinu er meðal annars ætlað að tryggja möguleika félagsaðila á því að neyta atkvæðisréttar síns, óháð því hvort þeir sækja aðalfund félagsaðila sameiginlegrar umsýslustofnunar. Félagsaðilum skal einnig heimilt að veita þriðja aðila umboð til að sækja aðalfund og greiða atkvæði fyrir sína hönd, sbr. ákvæði 3. mgr. 7. gr. og vísast til athugasemda við 7. gr. í þessu sambandi.
    Í 4. mgr. er fjallað um skyldu sameiginlegrar umsýslustofnunar til að halda skrá yfir félagsaðila sína og uppfæra hana. Í því felst að sameiginleg umsýslustofnun skal gera breytingar á skránni meðal annars þegar nýir félagsaðilar bætast við og þegar aðrir félagsaðilar segja skilið við hana. Ákvæðið felur ekki í sér skyldu sameiginlegrar umsýslustofnunar sem einungis hefur aðrar sameiginlegar umsýslustofnanir eða rétthafasamtök sem félagsaðila til að halda skrá yfir aðra en sína eigin félagsaðila og þarf slík sameiginleg umsýslustofnun þannig ekki að halda skrá yfir einstaka rétthafa. Brot á þessu ákvæði varðar sektum sbr. 1. tölul. 2. mgr. 37. gr. frumvarpsins.

Um 5. gr.

    Greininni er ætlað að innleiða ákvæði 7. gr. tilskipunarinnar um réttindi utanfélagsmanna, sbr. einnig 21. formálsgrein tilskipunarinnar. Í greininni er kveðið á um að sameiginlegar umsýslustofnanir skuli beita ákvæðum 3. mgr. 4. gr. (rafræn samskipti), 21. gr. (upplýsingagjöf samkvæmt beiðni), 2. mgr. 30. gr. (tilkynningu um skilmála fyrirsvarssamninga) og 34. gr. (meðferð kvartana) um þá rétthafa sem ekki eru félagsaðilar þeirra, en sem hafa bein lagaleg tengsl við þær, lögum samkvæmt eða með framsali, leyfi eða öðru samningsbundnu fyrirkomulagi. Dæmi um rétthafa sem ekki eru félagsaðilar (utanfélagsmenn) en sem sameiginlegar umsýslustofnanir hafa bein lagaleg tengsl við eru t.d. þeir rétthafar sem eiga verk sem nýtt eru skv. samningskvaðasamningi sem sameiginleg umsýslustofnun er aðili að. Sömuleiðis rétthafar sem eiga hljóðrit sem nýtt eru skv. ákvæðum 47. gr. höfundalaga en sem eru ekki aðilar að þeirri sameiginlegu umsýslustofnun sem sér um innheimtu á þóknun samkvæmt þeirri grein. Þá geta þessar reglur einnig átt við rétthafa sem lýtur fyrirsvari einingar sem er félagsaðili sameiginlegu umsýslustofnunarinnar, t.d. rétthafar aðildarfélaga Fjölís.
    Sameiginlegar umsýslustofnanir geta ákveðið að beita fleiri ákvæðum en þeim sem nefnd eru í greininni um rétthafa sem eru utanfélagsmenn. Þannig geta þær t.d. ákveðið að gera hlutaðeigandi rétthöfum kleift að taka þátt í ákvörðunartökuferli stofnananna. Þessi grein varðar eingöngu spurninguna um hvenær utanfélagsmenn njóta góðs af aðildarreglum sameiginlegra umsýslustofnana en ekki t.d. reglum sem settar eru um úthlutun, sbr. 15. gr. frumvarpsins.

Um 6. gr.

    Greininni, ásamt 7. gr. frumvarpsins, er ætlað að innleiða 8. gr. tilskipunarinnar, sjá einnig 22. formálsgrein um þátttöku félagsaðila á aðalfundi. Greinin fjallar um aðalfund sameiginlegrar umsýslustofnunar, sbr. orðskýringu í 5. tölul. 2. gr. frumvarpsins, sem skal boðað til að lágmarki einu sinni á ári, og hvaða ákvarðanir skal taka á aðalfundinum. Með kröfu 1. mgr. um að boðað sé til aðalfundar einu sinni á ári hið minnsta er ætlunin að tryggja félagsaðilum sameiginlegrar umsýslustofnunar möguleika á að hafa áhrif á starfsemi hennar.
    Í 2. mgr. kemur fram að á aðalfundi félagsaðila skuli ákveða hvers kyns breytingar á samþykktum og á aðildarskilmálum sameiginlegu umsýslustofnunarinnar ef þeir eru ekki settir í samþykktinni. Ekki er kveðið sérstaklega á um hversu mörg af greiddum atkvæðum þarf til að samþykkja þessar breytingar, en ákvæðið skal túlkað í samræmi við 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins um þátttöku félagsaðila í ákvörðunartökuferlinu og fyrirsvari mismunandi flokka félagsaðila í því ferli. Skv. 3. mgr. skal tilnefning eða brottvikning stjórnarmanna ákveðin á aðalfundi félagsaðila, auk þess sem frammistaða þeirra skal almennt endurskoðuð og laun og önnur starfskjör þeirra samþykkt, en sjá þó ákvæði 4. mgr., sbr. umfjöllun hér strax á eftir. Ákvæði 3. mgr. felur ekki í sér fortakslausa skyldu aðalfundar til að velja alla stjórnarmenn með beinum hætti en þó skal aðalfundur hafa raunveruleg áhrif á samsetningu stjórnar sameiginlegu umsýslustofnunarinnar. Þannig getur aðalfundur félagsaðila t.d. kosið meirihluta stjórnarmanna með beinum hætti. Með öðrum starfskjörum stjórnarmanna er átt við fjárhagsleg og ófjárhagsleg fríðindi, t.d. lífeyrisréttindi og -greiðslur, réttindi til annarra greiðslna og réttindi til biðlauna.
    Í 4. mgr. er að finna undanþágu frá ákvæði 3. mgr. ef sameiginleg umsýslustofnun hefur yfirstjórn sem annast yfirstjórn og stefnumótun og framkvæmdastjórn sem er í fyrirsvari fyrir daglega stjórnun. Ef aðstæður eru slíkar skal aðalfundurinn ekki tilnefna eða leysa framkvæmdastjórn frá störfum eða staðfesta laun og starfskjör hennar, ef slíkar heimildir falla undir yfirstjórnina. Þessi undanþága endurspeglar hvernig stjórnarháttum er í raun farið í flestum sameiginlegu umsýslustofnunum hérlendis.
    Í 5. mgr. eru talin upp 11 atriði sem aðalfundur félagsaðila skal ákveða að lágmarki. Listinn er ekki tæmandi og getur sameiginleg umsýslustofnun því ákveðið að fela aðalfundi félagsaðila að taka ákvörðun um fleiri atriði en fram koma í ákvæðinu.
    Með almennri stefnu um útborgun réttindagreiðslna til rétthafa, sbr. 1. tölul., er átt við að aðalfundur setji fram ákveðna stefnumótun eða leiðbeiningar sem stjórn sameiginlegu umsýslustofnunarinnar yrði í flestum tilfellum falið að útfæra nánar. Sameiginleg umsýslustofnun ákveður hversu nákvæm þessi stefnumótun eða leiðbeiningar skulu vera, þó þannig að félagsaðilar hafi áfram möguleika á að hafa áhrif á stefnu um úthlutun fjárhæða til rétthafa. Stefnan skal vera þannig úr garði gerð að útborgun réttindagreiðslna til rétthafa á grundvelli hennar geti uppfyllt skilyrði ákvæða 15. og 16. gr. frumvarpsins, meðal annars um nákvæmni og fresti.
    Í 2. tölul. er kveðið á um almenna stefnu um notkun óráðstafanlegra fjárhæða. Munurinn á almennri stefnu samkvæmt þessum tölulið og notkun óráðstafanlegra fjárhæða skv. 5. tölul. er sá að stefnunni er ætlað að ramma inn notkun þessara fjárhæða almennt og án tillits til þess, hvort nokkrar óráðstafanlegar fjárhæðir liggja fyrir, en í 5. tölul. er átt við ákvarðanir um notkun fjárhæða sem þegar hafa verið skilgreindar sem óráðstafanlegar, sbr. ákvæði 7. mgr. 16. gr. frumvarpsins.
    Samkvæmt 3. tölul. skal aðalfundur félagsaðila setja fram almenna fjárfestingarstefnu með tilliti til tekna af réttindum og tekna af fjárfestingu tekna af réttindum. Auk slíkrar fjárfestingarstefnu ber sameiginlegri umsýslustofnun að fara að reglum 13. gr. frumvarpsins um fjárfestingar réttindatekna og tekna af fjárfestingu þeirra.
    Almenn stefna um frádrátt frá tekjum af réttindum og tekjum af fjárfestingu tekna af réttindum sbr. 4. tölul. skal meðal annars taka til umsýslukostnaðar og annars frádráttar. Frekari umfjöllun um umsýslukostnað er að finna í athugasemdum við 14. gr. frumvarpsins.
    Með notkun óráðstafanlegra fjárhæða skv. 5. tölul. er átt við að aðalfundur taki ákvörðun um notkun fjárhæða sem þegar hafa talist óráðstafanlegar. Ákvörðunin skal ná til allra óráðstafanlegra fjárhæða og skal fjallað skýrt og greinilega um fyrirhugaða notkun þeirra svo félagsaðilar geti tekið upplýsta ákvörðun þar um. Það nægir því ekki að aðalfundur taki ákvörðun um að notkun óráðstafanlegra fjárhæða skuli vera í samræmi við almenna stefnu um notkun slíkra fjárhæða.
    Samkvæmt 6. tölul. skal aðalfundur félagsaðila setja áhættustýringarstefnu. Það er í höndum sameiginlegu umsýslustofnunarinnar sjálfrar að ákveða hversu nákvæm sú stefna skal vera.
    Í 7. tölul. kemur fram að aðalfundur skuli samþykkja hvers konar kaup, sölu eða tryggingarrétti fastafjármuna. Ákvæðið getur meðal annars haft þýðingu þegar sameiginleg umsýslustofnun kaupir fasteign undir starfsemi sína og skal aðalfundur hafa raunverulegan möguleika til að hafa áhrif á ákvörðun um slíkar ráðstafanir. Ef nota á réttindatekjur eða tekjur af fjárfestingu réttindatekna til þess að kaupa fasteign eða aðra fastafjármuni skal slík fjárfesting auk þess uppfylla kröfur 13. gr.
    Í 8. tölul. er samþykki um samruna og bandalög, stofnun dótturfélaga og kaup á öðrum einingum eða hlutum eða réttindum í öðrum einingum tilgreint.
    Aðalfundur skal skv. 9. tölul. samþykkja að taka lán, veita lán eða veita tryggingu fyrir lánum, auk þess sem hann skal tilnefna og segja upp endurskoðanda, skv. 10. tölul. Þá skal aðalfundur samþykkja hina árlegu gagnsæisskýrslu skv. 11. tölul. Um gagnsæisskýrsluna vísast til athugasemda við 23. gr.
    Samkvæmt 5. mgr. 6. gr. má aðalfundur félagsaðila framselja vald til ákvarðana skv. 6.–9. tölul. hér að framan til þess aðila er gegnir eftirlitshlutverkinu skv. 8. gr. frumvarpsins. Sé þessi möguleiki nýttur skal fjallað um þær ákvarðanir, sem aðilinn sem gegnir eftirlitshlutverkinu tekur, í árlegri skýrslu skv. 5. mgr. 8. gr. sem skal lögð fyrir aðalfund félagsaðila.
    Að lokum er í 6. mgr. nýtt heimildarákvæði 12. tölul. 8. gr. tilskipunarinnar sem kveður á um að fundur skipaðra fulltrúa félagsaðila sem félagsaðilar sameiginlegrar umsýslustofnunar kjósa a.m.k. á fjögurra ára fresti getur farið með valdheimildir aðalfundar félagsaðila. Skilyrði þess er að tryggð sé viðeigandi og virk þátttaka félagsaðila í ákvarðanatökuferli sameiginlegu umsýslustofnunarinnar og að skipting fulltrúa úr hinum mismunandi flokkum félagsaðila á fundinum sé sanngjörn og jafnvæg. Reglurnar, sem mælt er fyrir um í 1.–5. mgr. skulu gilda að breyttu breytanda um fund skipaðra fulltrúa. Mikilvægt er að innleiða þetta ákvæði því t.d. í STEF er æðsta vald stofnunarinnar í höndum fulltrúaráðs. Þar er því ekki haldinn aðalfundur í skilningi 6. gr. frumvarpsins heldur eingöngu aðalfundur fulltrúaráðsins.

Um 7. gr.

    Greininni er ætlað, ásamt 6. gr. frumvarpsins, að innleiða 8. gr. tilskipunarinnar, sbr. 23. formálsgrein.
    Í 7. gr. er fjallað um aðalfund félagsaðila sameiginlegrar umsýslustofnunar með tilliti til þátttöku félagsaðila. Í 1. mgr. kemur fram að allir félagsaðilar hafi heimild til að taka þátt í aðalfundi og rétt á að greiða atkvæði. Hins vegar sé sameiginlegri umsýslustofnun heimilt að takmarka þessi réttindi á grundvelli annarrar eða beggja eftirfarandi viðmiðana: Tímalengdar félagsaðildar eða fjárhæða sem félagsaðili hefur fengið eða á að fá greiddar. Þannig gæti sameiginleg umsýslustofnun t.d. takmarkað atkvæðisrétt við þá sem hafa verið félagsaðilar í ákveðinn tíma áður en atkvæðagreiðsla fer fram. Framangreindar viðmiðanir skulu ákvarðaðar og þeim beitt á sanngjarnan og hóflegan hátt og væri því ekki heimilt að beita þeim á þann hátt að einungis lítill hluti félagsaðila fengi að nýta atkvæðarétt sinn, enda byggist ákvæðið á því grunnsjónarmiði að allir félagsaðilar skuli hafa færi á því að taka þátt í aðalfundi og greiða þar atkvæði.
    Samkvæmt 2. mgr. skulu viðmiðanir skv. 1. mgr. koma fram í samþykkt eða skilmálum félagsaðildar sameiginlegrar umsýslustofnunar og vera aðgengilegar öllum í samræmi við 20. og 22. gr. frumvarpsins um upplýsingagjöf. Birting samþykktar eða skilmála félagsaðildar á vef sameiginlegrar umsýslustofnunar telst uppfylla þetta skilyrði.
    Í 3. mgr. kemur fram að sérhver félagsaðili sameiginlegrar umsýslustofnunar hafi rétt á að veita öðrum einstaklingi eða einingu umboð sitt til að sækja aðalfund og greiða atkvæði fyrir sína hönd, svo fremi að slík tilnefning valdi ekki hagsmunaárekstri. Hagsmunaárekstur gæti t.d. falist í að umboðshafinn og sá sem veitir umboðið tilheyri mismunandi flokkum rétthafa innan umsýslustofnunarinnar.
    Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. er sameiginlegri umsýslustofnun heimilt, skv. 4. mgr., að kveða á um takmarkanir á tilnefningu þeirra sem fara með umboð og neyta atkvæðisréttar félagsaðila, sem þeir eru fulltrúar fyrir, í samþykkt eða skilmálum sínum um félagsaðild sem skulu vera öllum aðgengilegir í samræmi við 20. og 22. gr. Slíkar takmarkanir mega ekki hafa áhrif á viðeigandi og virka þátttöku félagsaðilanna í ákvörðunartökuferli stofnunarinnar, t.d. með því að tilteknum félagsaðila yrði gert ótilhlýðilega erfitt að neyta atkvæðisréttar síns. Hins vegar gæti sameiginleg umsýslustofnun ákveðið hámarksfjölda umboða sem einn umboðshafi getur fengið eða ákveðið að einungis félagsaðilar geti tekið við umboðum frá öðrum félagsaðilum.
    Samkvæmt 5. mgr. skal hvert umboð einungis gilda fyrir einn aðalfund félagsaðila og skal umboðshafi hafa sömu réttindi á aðalfundinum og félagsaðilinn sem tilnefndi hann á rétt á. Þá skal umboðshafi greiða atkvæði í samræmi við fyrirmælin frá félagsaðilanum sem tilnefndi hann. Hafi umboðshafi umboð frá fleiri en einum félagsaðila getur það því farið svo að hann greiði atkvæði á mismunandi vegu fyrir mismunandi félagsaðila.

Um 8. gr.

    Greininni er ætlað að innleiða 9. gr. tilskipunarinnar um eftirlit, sjá einnig 24. formálsgrein hennar.
    Í greininni er fjallað um eftirlitskerfi sameiginlegra umsýslustofnana og aðila sem gegna eftirlitshlutverki. Skv. 1. mgr. skal sérhver sameiginleg umsýslustofnun koma á fót eftirlitskerfi til að fylgjast reglulega með starfi og frammistöðu þeirra einstaklinga sem stjórna daglegri starfsemi stofnunarinnar. Eftirlitið getur verið í höndum sérstaks aðila eða verið í umsjón hluta af eða allra meðlima stjórnar sameiginlegu umsýslustofnunarinnar. Greinin felur því ekki í sér að setja þurfi á stofn sérstaka eftirlitsdeild, ráð eða stofnun innan umsýslustofnunarinnar til að uppfylla eftirlitsskyldu, þótt slíkt sé að sjálfsögðu einnig mögulegt. Þeir einstaklingar sem stjórna daglegri starfsemi sameiginlegrar umsýslustofnunar og falla undir 9. gr. geta þó ekki samtímis farið með eftirlitshlutverk samkvæmt grein þessari. Ef ekki er fyrir hendi eftirlitskerfi skv. 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins getur það varðað sektum sbr. 3. tölul. 2. mgr. 37. gr. frumvarpsins.
    Í 2. mgr. kemur fram að fari sameiginleg umsýslustofnun með fyrirsvar fyrir ólíka flokka félagsaðila skal gæta sanngirni og jafnræðis við val á fulltrúum þeirra ólíku flokka hjá eftirlitsaðilanum. Þetta getur t.d. falið í sér að sérhver flokkur félagsaðila eigi fulltrúa í stjórn. Þrátt fyrir að ákvæðið skyldi sameiginlegar umsýslustofnanir ekki til að skipa óháða aðila í stjórn, eða sem fulltrúa í þá deild, ráð eða stofnun sem sinnir eftirlitshlutverkinu, kemur það ekki í veg fyrir að leitað sé til þriðja aðila til að sinna því hlutverki. T.d. væri hægt að leita til aðila sem hafa sérþekkingu á starfsemi stofnunarinnar, annaðhvort lögfræðilega, bókhaldslega eða rekstrarlega sérþekkingu þó svo viðkomandi uppfylli ekki skilyrði félagsaðildar, sbr. einnig umfjöllun í 24. formálsgrein tilskipunarinnar. Þar getur verið um að ræða rétthafa sem eru aðilar rétthafasamtaka sem eru félagsaðilar hlutaðeigandi sameiginlegrar umsýslustofnunar í þeim tilfellum að umsýslustofnun er í formi regnhlífasamtaka eins og t.d. Fjölís og IHM. Eftirlitsaðilar þurfa því í reynd hvorki að vera rétthafar né félagsaðilar til að geta verið falið eftirlitshlutverk skv. 8. grein.
    Samkvæmt 3. mgr. ber hverjum einstaklingi sem gegnir eftirlitshlutverkinu að leggja sérstakt árlegt yfirlit um hagsmunaárekstra með upplýsingunum sem fram koma í 3. mgr. 9. gr. fyrir aðalfund félagsaðila en um þær upplýsingar vísast til athugasemda við 9. gr. Ef þessari upplýsingaskyldu er ekki sinnt getur það varðað sektum, sbr. 3. tölul. 2. mgr. 37. gr. frumvarpsins.
    Samkvæmt 4. mgr. skal sú eining sem gegnir eftirlitshlutverkinu funda reglulega og beita a.m.k. þeim heimildum sem henni hefur verið falið af aðalfundi félagsaðila. Eftirlitseiningunni er að öðru leyti eftirlátið að ákveða hvernig hentugast er að haga fundahöldum en þau skulu þó vera nægilega tíð til að eftirlitið beri árangur. Þá er kveðið á um að sú eining sem gegnir eftirlitshlutverkinu skuli hafa heimild til að fylgjast með starfi og frammistöðu þeirra einstaklinga sem um getur í 9. gr., þ.e. þeirra einstaklinga sem stjórna daglegri starfsemi sameiginlegrar umsýslustofnunar. Þessi hluti eftirlitsins getur meðal annars falist í því að fylgjast með því hvernig viðkomandi einstaklingar útfæra þær almennu stefnur sem getið er í 1.–4. tölul. 5. mgr. 6. gr. og hvernig þeim er komið á framfæri við rétthafa.
    Samkvæmt 5. mgr. skal einingin sem gegnir eftirlitshlutverkinu gefa skýrslu um framkvæmd eftirlitsins á aðalfundi félagsaðila a.m.k. einu sinni á ári. Ekki eru gerðar sérstakar kröfur um form skýrslunnar og getur hún því verið gefin hvort sem er skriflega eða munnlega. Ákvæðið hefur heldur ekki að geyma leiðbeiningar um innihald skýrslunnar en hún skal þó gefa góða mynd af starfsemi og ákvörðunum aðilans sem fer með eftirlitshlutverkið. Ef þessi upplýsingaskylda er ekki uppfyllt getur það varðað sektum í samræmi við 3. tölul. 2. mgr. 37. gr. frumvarpsins.

Um 9. gr.

    Greininni er ætlað að innleiða 10. gr. tilskipunarinnar, sjá einnig 25. formálsgrein hennar.
    Greinin fjallar um þá einstaklinga sem stjórna daglegri starfsemi sameiginlegrar umsýslustofnunar og skyldur þeirra. Í 1. mgr. kemur fram að sérhver sameiginleg umsýslustofnun skuli gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að þessir einstaklingar stjórni starfsemi stofnunarinnar á traustan, skynsaman og viðeigandi hátt og beiti til þess traustum stjórnunar- og bókhaldsaðferðum og innra eftirlitskerfi. Þetta getur t.d. falist í því að tryggja að einingin sem sinni eftirlitshlutverkinu fái sinnt því með skilvirkum og áhrifaríkum hætti. Það hvaða einstaklingar teljast sinna daglegri stjórnun fer eftir stjórnskipulagi hverrar sameiginlegrar umsýslustofnunar fyrir sig og getur það t.d. verið á hendi eins eða fleiri stjórnarmanna eða framkvæmdastjórnar sem er ráðin af sameiginlegri umsýslustofnun. Einstaklingur sem fellur undir þessa grein getur ekki jafnframt sinnt eftirlitshlutverki skv. 8. gr.
    Samkvæmt 2. mgr. skal sameiginleg umsýslustofnun koma sér upp og nota aðferðir til að forðast hagsmunaárekstra. Verði ekki komist hjá slíkum árekstrum skal hún enn fremur greina, stjórna og fylgjast með og birta upplýsingar um raunverulega eða hugsanlega hagsmunaárekstra þannig að unnt sé að koma í veg fyrir að þeir hafi neikvæð áhrif á sameiginlega hagsmuni rétthafanna sem stofnunin er í fyrirsvari fyrir. Þessar aðferðir geta t.d. byggt á þekktum viðmiðum um góða stjórnarhætti í félögum. Dæmi um hagsmunaárekstra væri ef einstaklingur sem fellur undir 9. gr. selur sameiginleg umsýslustofnun vörur eða þjónustu eða er viðsemjandi hennar vegna hvers konar viðskipta.
    Aðferðir þær, sem getið er í 2. mgr., skulu skv. 3. mgr. fela í sér að sérhverjum einstaklingi sem stjórnar daglegri starfsemi sameiginlegrar umsýslustofnunar, sbr. 1. mgr., sé skylt að senda frá sér sérstakt árlegt yfirlit til aðalfundar félagsaðila með eftirfarandi upplýsingum:
     1.      Hvort þeir hafa einhverra hagsmuna að gæta er varða hina sameiginlegu umsýslustofnun.
     2.      Hvort þeir hafa fengið greiðslur á næstliðnu fjárhagsári frá hinni sameiginlegu umsýslustofnun.
     3.      Hvort þeir, sem rétthafar, hafa fengið fjárhæðir frá hinni sameiginlegu umsýslustofnun á næstliðnu fjárhagsári.
     4.      Yfirlýsingu um raunverulegan eða hugsanlegan árekstur milli persónulegra hagsmuna og hagsmuna hinnar sameiginlegu umsýslustofnunar eða milli skuldbindinga gagnvart stofnuninni og skyldu gagnvart einhverjum öðrum einstaklingi eða lögaðila.
    Ef þessari upplýsingaskyldu er ekki sinnt getur það varðað sektum, sbr. 4. tölul. 2. mgr. 37. gr. frumvarpsins.

Um 10. gr.

    Greininni er ætlað að innleiða 2. mgr. 11. gr. tilskipunarinnar, sjá einnig formálsgreinar 26 og 27. Í greininni er að finna almenna reglu um að sameiginlegar umsýslustofnanir skuli vera nákvæmar við innheimtu og umsjón með tekjum af réttindum. Í 1. tölul. 2. gr. frumvarpsins er lagt til að hluti skilgreiningar á sameiginlegri umsýslustofnun sé að hún hafi umsjón með höfundarrétti eða tengdum réttindum að sínu eina eða meginhlutverki, og mikilvægt að slík stofnun sinni því hlutverki sínu af kostgæfni.
    Auk þess að leggja almenna skyldu á sameiginlegar umsýslustofnanir að vera nákvæmar við umsýslu tekna af réttindum og hefur þýðingu við túlkun annarra ákvæða frumvarpsins.
    Ákvæði III. kafla, þ.m.t. 10. gr., taka ekki sjálfkrafa til samtaka rétthafa sem eru félagsaðilar sameiginlegu umsýslustofnunarinnar. Af ákvæðum 24. gr. og 6. mgr. 1. gr. frumvarpsins leiðir hins vegar að ef sameiginlegar umsýslustofnanir ákveða að slíkar félagsaðilaeiningar sjái um úthlutun og útborgun réttindagreiðslna til rétthafa þá eiga ákvæði III. kafla við um þau.

Um 11. gr.

    Greininni er ætlað að innleiða 3. mgr. 11. gr. tilskipunarinnar, sjá einnig formálsgrein 27.
    Greinin hefur að geyma fyrirmæli um það hvernig sameiginlegar umsýslustofnanir skuli hátta bókhaldi sínu með tilliti til aðskilnaðar fjármuna sem stofnanirnar hafa í vörslu sinni og tengjast hvers kyns umsýslu réttinda annars vegar, og eigna stofnananna hins vegar.
    Markmið ákvæðisins er að það sé skýrt, hversu háar fjárhæðir sameiginleg umsýslustofnun hefur innheimt fyrir hönd rétthafa í formi tekna af réttindum og hversu háar tekjur af fjárfestingum réttindatekna eru. Þetta er einnig lykilatriði til að hægt sé að ganga úr skugga um að frádrættir frá þessum tekjum séu í samræmi við önnur ákvæði frumvarpsins, svo sem 12. gr.
    Vanræksla á að fylgja þessum ákvæði getur varðað sektum sbr. 5. tölul. 2. mgr. 37. gr. frumvarpsins.
    Ákvæði þessarar greinar eiga einnig við um samtök rétthafa sem eru félagsaðilar sameiginlegu umsýslustofnunarinnar ef þau skv. ákvörðun síðarnefndu stofnunarinnar, sbr. 24. gr. frumvarpsins, eiga að sjá um útborgun réttindagreiðslna, sbr. 6. mgr. 1. gr. frumvarpsins.

Um 12. gr.

    Greininni er ætlað að innleiða 4. mgr. 11. gr. tilskipunarinnar, sjá einnig formálsgreinar 26 og 27. Í 12. gr. frumvarpsins er kveðið á um hvernig sameiginlegum umsýslustofnunum er heimilt að ráðstafa tekjum af réttindum eða tekjum af fjárfestingu réttindatekna. Almennt er sameiginlegri umsýslustofnun einungis heimilt að ráðstafa slíkum tekjum með úthlutun til rétthafa, nema þegar heimilt er að umsýslukostnaður komi til frádráttar eða jöfnunar eða þegar fjárfesting réttindateknanna er heimil á grundvelli ákvörðunar sem tekin hefur verið á aðalfundi félagsaðila stofnunarinnar, sbr. 4. og 7.–9. tölul. 5. mgr. 6. gr. frumvarpsins. Markmið greinarinnar er að aðalfundur félagsaðila hafi tækifæri til að hafa áhrif á ráðstöfun tekna af réttindum eða fjárfestingu réttindatekna sem ekki er úthlutað beint til rétthafa, t.d. til nota í menningarlegum tilgangi.
    Greinin felur því í sér tvo ólíka möguleika til frádráttar frá tekjum af réttindum og af fjárfestingu réttindatekna. Annars vegar getur verið um að ræða umsýslukostnað, og hins vegar nýtingu fjárhæða sem aðalfundur félagsaðila tekur ákvörðun um, sbr. 7.–9. tölul. 5. mgr. 6. gr. frumvarpsins. Slík ákvörðun getur t.d. falist í fjárfestingu eða veitingu fjármuna til félagslegrar, menningarlegrar eða menntunartengdrar þjónustu, sjá um það 14. gr. frumvarpsins.
    Vanræksla á að fylgja þessum ákvæði getur varðað sektum sbr. 5. tölul. 2. mgr. 37. gr. frumvarpsins.
    Ákvæði þessarar greinar eiga einnig við um samtök rétthafa sem eru félagsaðilar sameiginlegu umsýslustofnunarinnar ef þau samkvæmt ákvörðun síðarnefndu stofnunarinnar, sbr. 24. gr. frumvarpsins, eiga að sjá um útborgun réttindagreiðslna, sbr. 6. mgr. 1. gr. frumvarpsins.

Um 13. gr.

    Greininni er ætlað að innleiða 5. mgr. 11. gr. tilskipunarinnar, sjá einnig formálsgreinar 23, 27 og 29. Í greininni eru lagðar til nánari reglur um fjárfestingu tekna af réttindum eða annarra tekna af fjárfestingu réttindatekna. Þannig ber sameiginlegri umsýslustofnun að fjárfesta slíkar tekjur í þágu hagsmuna rétthafa þeirra réttinda sem hún er í fyrirsvari fyrir. Fjárfestingarnar skulu vera í samræmi við almenna fjárfestingarstefnu og almenna áhættustýringarstefnu sem samþykkt hefur verið á aðalfundi félagsaðila stofnunarinnar, sbr. 3. og 6. tölul. 5. mgr. 6. gr. frumvarpsins. Að auki skal sameiginleg umsýslustofnun fylgja eftirfarandi reglum:
     1.      Þegar um er að ræða hugsanlega hagsmunaárekstra skal sameiginleg umsýslustofnun tryggja að fjárfest sé eingöngu í þágu hagsmuna þessara rétthafa.
     2.      Eignirnar skulu fjárfestar þannig að öryggi, gæði, lausafjárstaða og arðsemi eignasafnsins í heild sé tryggð.
     3.      Eignirnar skulu vera nægilega fjölbreytilegar til þess að komast megi hjá því að treysta óþarflega mikið á tiltekna eign og uppsöfnun áhættu í eignasafninu í heild.
    Framangreindum reglum er ætlað að hvetja til varkárni og vandaðra vinnubragða við fjárfestingu tekna af réttindum og tryggja þannig eftir föngum fjárhagslega hagsmuni rétthafa. Aðalfundur hinnar sameiginlegu umsýslustofnunarinnar ákveður hvort og hvernig fjárfesta skuli. Hugsanlegt er að aðalfundur félagsaðila sameiginlegrar umsýslustofnunar kjósi að setja enn skýrari reglur um fjárfestingu tekna af réttindum við setningu almennrar fjárfestingastefnu skv. 4. tölul. 5. mgr. 6. gr. Reglur greinarinnar gilda þó allt að einu og er slík fjárfestingastefna þeim því til fyllingar.
    Ákvæði þessarar greinar eiga einnig við um samtök rétthafa sem eru félagsaðilar sameiginlegu umsýslustofnunarinnar ef þau samkvæmt ákvörðun síðarnefndu stofnunarinnar, sbr. 24. gr. frumvarpsins, eiga að sjá um útborgun réttindagreiðslna, sbr. 6. mgr. 1. gr. frumvarpsins.

Um 14. gr.

    Greininni er ætlað að innleiða 12. gr. tilskipunarinnar, sjá einnig formálsgreinar 28, 30, 34 og 35. Í greininni er kveðið á um hvaða kostnað er heimilt að draga frá tekjum af réttindum og hvernig sameiginlegri umsýslustofnun ber að upplýsa um slíkan frádrátt. Tilgangur greinarinnar er að tryggja gagnsæi og yfirsýn í tengslum við frádrátt frá réttindatekjum og jafnframt að tryggja að slíkir frádrættir séu sanngjarnir.
    Í 1. mgr. kemur fram að sameiginleg umsýslustofnun skuli upplýsa rétthafa um umsýslukostnað og annan frádrátt frá tekjum af réttindum áður en rétthafinn veitir stofnuninni heimild til að hafa umsjón með réttindum sínum. Eðli málsins samkvæmt á því ákvæðið ekki við vegna umsýslu réttindagreiðslna til utanfélagsmanna á grundvelli samningskvaðasamninga eða vegna umsýslu þóknana vegna ákvæða 1. mgr. 47. gr. höfundalaga eða vegna umsýslu bóta vegna eintakagerðar til einkanota skv. 11. gr. höfundalaga.
    Þá er ljóst að fyrir fram upplýsingar um frádrátt vegna umsýslukostnaðar geta eingöngu verið almenns eðlis þar sem endanlegur kostnaður liggur ekki fyrir á þeim tímapunkti. Ætla má að sameiginleg umsýslustofnun geti uppfyllt skilyrði málsgreinarinnar með birtingu upplýsinganna á vef sínum, sbr. einnig 22. gr. frumvarpsins um opinbera birtingu upplýsinga þar sem meðal annars er gert ráð fyrir að almenn stefna um umsýslukostnað og almenn stefna um frádrætti sé meðal þeirra upplýsinga sem birtar eru opinberlega. Krafa þessi er í samræmi við það markmið tilskipunar 2014/26/ESB og þessa frumvarps að stuðla að auknu gagnsæi í starfsemi sameiginlegra umsýslustofnana.
    Vanræksla á að fylgja þessum ákvæði getur varðað sektum sbr. 6. tölul. 2. mgr. 37. gr. frumvarpsins.
    Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar skal frádráttur vera sanngjarn með tilliti til þjónustunnar sem sameiginleg umsýslustofnun veitir rétthöfum. Með því er átt við að frádrátturinn sé í samræmi við veitta þjónustu og kostnaðinn við að veita hana. Málsgreinin tekur til hvers kyns frádráttar frá tekjum af réttindum, þ.m.t. umsýslukostnaðar og kostnaðar við félagslega, menningarlega eða menntunartengda þjónustu sem sameiginleg umsýslustofnun kann að veita.
    Í 3. mgr. kemur fram að umsýslukostnaður skuli ekki fara yfir rökstuddan og skráðan kostnað sem sameiginleg umsýslustofnun stofnar til við umsýslu höfundarréttar og skyldra réttinda. Í því felst að sameiginleg umsýslustofnun getur ekki ákveðið fyrir fram að tiltekið hlutfall réttindatekna skuli dregið frá til að greiða umsýslukostnað, heldur verður frádrátturinn að endurspegla raunverulegan kostnað við veitta þjónustu. Slíkur kostnaður getur verið mismunandi fyrir ólíka flokka réttinda. Umsýslukostnaður getur t.d. falist í launakostnaði, kaupum á aðföngum og kostnaði við leigu skrifstofuhúsnæðis. Frádráttur vegna umsýslukostnaðar verður bæði að uppfylla kröfur 2. mgr. og 3. mgr.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að þegar sameiginleg umsýslustofnun veitir félagslega, menningarlega eða menntunartengda þjónustu sem fjármögnuð er með frádrætti frá tekjum af réttindum skuli slík þjónusta veitt á grundvelli sanngjarnra viðmiða. Í því felst að ekki megi mismuna aðilum að því er varðar aðgengi að slíkri þjónustu.
    Ákvæði þessarar greinar eiga einnig við um samtök rétthafa sem eru félagsaðilar sameiginlegu umsýslustofnunarinnar ef þau samkvæmt ákvörðun síðarnefndu stofnunarinnar, sbr. 24. gr. frumvarpsins, eiga að sjá um útborgun réttindagreiðslna, sbr. 6. mgr. 1. gr. frumvarpsins.

Um 15. gr.

    Greininni er ætlað að innleiða 1. mgr. 13. gr. tilskipunarinnar, sjá einnig formálsgreinar 17, 26, 29, 33 og 41. Tilgangur hennar er því að tryggja að rétthafar fái fljótt og vel aðgang að sínum hlut af réttindatekjum sem hin sameiginlega umsýslustofnun innheimtir. Því er kveðið á um í að rétthöfum skuli greitt reglulega og að greiðslur séu nákvæmar og í samræmi við almenna stefnu um úthlutun og útborgun sem sett hefur verið af aðalfundi félagsaðila sameiginlegrar umsýslustofnunar, sbr. 1. tölul. 5. mgr. 6. gr. frumvarpsins. Greinin hefur að geyma almenn viðmið um úthlutun og útborgun enda setur hver og ein stofnun sér eigin stefnu um þessi málefni innan ramma greinarinnar.
    1. mgr. felur í sér að sameiginleg umsýslustofnun skuli leitast við að úthluta fjárhæðum til einstakra rétthafa en ekki almennt eða með heildarúthlutun, svo sem í formi styrkja. Slík heildarúthlutun getur þó átt sér stað í gegnum þann hlut sem dreginn er frá innheimtum réttindatekjum vegna félagslegrar, menningarlegrar eða menntunartengdar þjónustu, sbr. 4. mgr. 14. gr. frumvarpsins eða þegar óráðstafanlegum fjárhæðum er úthlutað, sbr. 2. tölul. 5. mgr. 6. gr. frumvarpsins.
    Í 2. mgr. 15. gr. frumvarpsins eru sett fram viðmið um hvenær úthlutun skal fara fram en almennt skulu sameiginlegar umsýslustofnanir greiða fjárhæðir skv. 1. mgr. til rétthafa eins fljótt og auðið er. Greiðslan skal ekki fara fram síðar en níu mánuðum eftir lok þess fjárhagsárs þegar tekjur af réttindunum voru innheimtar, nema hlutlægar ástæður komi í veg fyrir að sameiginleg umsýslustofnun geti virt þann frest. Slíkar hlutlægar ástæður geta varðað skýrslugjöf notenda, staðfestingu á réttindum eða pörun upplýsinga um verk og annað efni við rétthafa o.fl.
    Vanræksla á að fylgja ákvæði 1. mgr. 15. gr. frumvarpsins getur varðað sektum sbr. 7. tölul. 2. mgr. 37. gr. frumvarpsins.
    Ákvæði þessarar greinar eiga einnig við um samtök rétthafa sem eru félagsaðilar sameiginlegu umsýslustofnunarinnar ef þau skv. ákvörðun síðarnefndu stofnunarinnar, sbr. 24. gr. frumvarpsins, eiga að sjá um útborgun réttindagreiðslna, sbr. 6. mgr. 1. gr. frumvarpsins.

Um 16. gr.

    Greininni er ætlað að innleiða 2.–6. mgr. 13. gr. tilskipunarinnar, sjá einnig formálsgreinar 17, 26, 29, 33 og 41. Hún fjallar um hvaða ráðstafanir sameiginlegar umsýslustofnanir skuli gera þegar ekki er hægt að koma réttindagreiðslum til rétthafa í samræmi við ákvæði 15. gr. frumvarpsins. Skv.1. mgr. 16. gr. frumvarpsins skal sameiginleg umsýslustofnun halda slíkum fjárhæðum aðgreindum í bókhaldi sínu. Skv. 2. mgr. skal sameiginleg umsýslustofnun gera allar nauðsynlegar ráðstafanir í samræmi við 15. gr. til að bera kennsl á hlutaðeigandi rétthafa og hafa uppi á þeim. Hver sameiginleg umsýslustofnun fyrir sig setur sér reglur innan ramma 16. gr. Við mat á hvað teljist nauðsynlegar ráðstafanir skal höfð hliðsjón af fjárhagslegum hagsmunum rétthafans, tilvist upplýsingaveitna sem hægt væri að nýta sem og kostnaði við mögulega leit, en að lágmarki þurfa nauðsynlegar ráðstafanir að taka til þeirra atriða sem um er fjallað í 3.–5. mgr. greinarinnar. Þá verður að telja að leit í skrá sameiginlegrar umsýslustofnunar yfir félagsaðila sem henni ber að halda, sbr. 4. mgr. 4. gr. frumvarpsins, og aðrar skrár sem stofnunin hefur greiðan aðgang að, séu hluti af nauðsynlegum ráðstöfunum. Ekki er talin þörf á að tilgreina það sérstaklega í 16. gr. frumvarpsins.
    Í 3. mgr. kemur fram að sameiginleg umsýslustofnun skuli, eigi síðar en þremur mánuðum eftir að frestur skv. 15. gr. er liðinn, gera upplýsingar um verk og annað efni þegar ekki er vitað hver rétthafi, eða rétthafar, að því verki er eða hvar hann er að finna, aðgengilegar rétthöfum sem hún er í fyrirsvari fyrir sem og öllum sameiginlegum umsýslustofnunum sem hún hefur gert fyrirsvarssamninga við. Þannig skal sameiginleg umsýslustofnun veita upplýsingar samkvæmt þessari málsgrein í síðasta lagi tólf mánuðum eftir lok þess fjárhagsárs þegar tekjur af réttindum voru innheimtar. Ekki eru gerðar sérstakar kröfur til þess í hvaða formi upplýsingarnar skuli veittar.
    Í 4. mgr. er tiltekið í hverju upplýsingar skv. 3. mgr. felast, séu þær á annað borð fyrir hendi og aðgengilegar umsýslustofnun. Um er að ræða upplýsingar um titil verks, nafn rétthafans, nafn viðkomandi útgefanda eða framleiðanda og aðrar upplýsingar sem liggja fyrir og gætu gagnast við að staðfesta hver rétthafi verks er. Málsgreinin felur í sér að þær upplýsingar sem sameiginleg umsýslustofnun skal veita á grundvelli 3. mgr. séu upplýsingar sem stofnunin hefur þegar í sínum fórum.
    Samkvæmt 5. mgr. skal sameiginleg umsýslustofnun gera framangreindar upplýsingar aðgengilegar öllum eigi síðar en einu ári eftir að þriggja mánaða tímabilinu skv. 3. mgr. lýkur, hafi ráðstafanir skv. 2.–4. mgr. ekki borið árangur. Upplýsingarnar skulu því vera aðgengilegar öllum í síðasta lagi tveimur árum eftir lok þess fjárhagsárs þegar tekjur af hlutaðeigandi réttindum voru innheimtar nema hlutlægar ástæður hafi staðið í vegi fyrir úthlutun til rétthafa sbr. athugasemdir við 2. mgr. 15. gr. hér að framan. Ekki er gerð krafa um hvernig upplýsingarnar skuli veittar og gæti sameiginleg umsýslustofnun t.d. uppfyllt kröfur ákvæðisins með því að birta þær á vef sínum.
    Í 6. mgr. er fjallað um hvenær fjárhæðir teljist óráðstafanlegar. Þegar ekki hefur verið hægt að úthluta fjárhæðum til rétthafa og þrjú ár eru liðin frá lokum fjárhagsársins þegar innheimta tekna af réttindunum fór fram, skulu fjárhæðirnar teljast óráðstafanlegar svo framarlega sem sameiginleg umsýslustofnun hefur gert allar nauðsynlegar ráðstafanir í samræmi við 2.–4. mgr. Í þessu felst að hafi stofnunin ekki uppfyllt skyldur sínar til að staðfesta deili á og hafa uppi á rétthöfunum sem getið er í 2. og 3. mgr., verða fjárhæðirnar ekki taldar óráðstafanlegar og því ekki heimilt að ráðstafa þeim sem slíkum.
    Samkvæmt 7. mgr. skal aðalfundur félagsaðila sameiginlegrar umsýslustofnunar ákveða hvernig óráðstafanlegar fjárhæðir skuli notaðar, sbr. 2. tölul. 5. mgr. 6. gr. frumvarpsins. Þetta er þó með fyrirvara um rétt rétthafa skv. almennum fyrningarreglum, sbr. þó 5. mgr. 25. gr. b höfundalaga.
    Vanræksla á að fylgja ákvæðum 1. og 3.–5. mgr. 16. gr. frumvarpsins getur varðað sektum sbr. 8. tölul. 2. mgr. 37. gr. frumvarpsins.
    Ákvæði þessarar greinar eiga einnig við um samtök rétthafa sem eru félagsaðilar sameiginlegu umsýslustofnunarinnar ef þau samkvæmt ákvörðun síðarnefndu stofnunarinnar, sbr. 24. gr. frumvarpsins, eiga að sjá um útborgun réttindagreiðslna, sbr. 6. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Þau ákvæði leiða þó ekki til að slík samtök verði skyldug til að halda félagaskrá í samræmi við 4. mgr. 4. gr. frumvarpsins eða halda aðalfundi í samræmi við ákvæði 6.–7. gr. frumvarpsins þótt til þeirra ákvæða sé vísað í ákvæðum 16. gr. frumvarpsins.

Um 17. gr.

    Greininni er ætlað að innleiða 14. gr. tilskipunarinnar, sjá einnig formálsgreinar 11, 18, 20 og 30 þar sem fjallað er um fyrirsvarssamninga. Í greininni er lagt bann við því að sameiginleg umsýslustofnun mismuni rétthöfum þeirra réttinda sem hún hefur umsjón með á grundvelli fyrirsvarssamninga. Hér er einkum átt við mismunun með tilliti til viðeigandi gjaldskrár, umsýslukostnaðar og skilyrða vegna innheimtu tekna af réttindum og úthlutunar fjárhæða til rétthafa. Í greininni felst meðal annars að sameiginlegum umsýslustofnunum er óheimilt að láta framangreind atriði ráðast af þjóðerni rétthafa eða búsetu þeirra.
    Ákvæði þessarar greinar eiga ekki við um réttindi ófélagsbundinna rétthafa þegar sameiginleg umsýslustofnun fer með réttindi þeirra á grundvelli samningskvaðasamninga. Um slíka rétthafa gilda hins vegar reglur 26. gr. b höfundalaga.

Um 18. gr.

    Greininni er ætlað að innleiða 15. gr. tilskipunarinnar, sjá einnig formálsgreinar 11, 18, 20 og 30 þar sem fjallað er um fyrirsvarssamninga.
    Samkvæmt 1. mgr. er sameiginlegri umsýslustofnun óheimilt að draga annað en umsýslukostnað frá tekjum af réttindum sem hún hefur umsjón með á grundvelli fyrirsvarssamningsins, eða frá tekjum af fjárfestingum tekna af þeim réttindum, nema hin sameiginlega umsýslustofnun sem er aðili að fyrirsvarssamningnum samþykki annars konar frádrátt með skýrum hætti. Þannig er meginreglan sú að stofnunin sem fer með fyrirsvar fyrir aðra stofnun á grundvelli fyrirsvarssamnings skal einungis draga umsýslukostnað sem uppfyllir skilyrði 14. gr. frá tekjum sem henni ber að úthluta síðarnefndu stofnuninni. Hins vegar væri hægt að semja um annars konar frádrátt í fyrirsvarssamningi milli stofnananna.
    Í 2. mgr. kemur fram að sameiginleg umsýslustofnun skuli úthluta og greiða þær réttindagreiðslur sem öðrum sameiginlegum umsýslustofnunum ber reglulega, af kostgæfni og nákvæmni. Málsgreinin skal túlkuð á sama hátt og ákvæði 1. mgr. 15. um úthlutun til rétthafa.
    Samkvæmt 3. mgr. skal sameiginleg umsýslustofnun annast úthlutun og greiðslur til hinnar sameiginlegu umsýslustofnunarinnar eins fljótt og mögulegt er, eigi síðar en níu mánuðum frá lokum fjárhagsársins þegar tekjur af réttindunum voru innheimtar, nema hlutlægar ástæður komi í veg fyrir að hægt sé að virða þann frest. Hlutlægar ástæður skulu túlkaðar á sama máta og í 2. mgr. 15. gr., og getur þannig verið um að ræða ástæður er varða skýrslugjöf notenda, staðfestingu á réttindum, rétthöfum eða pörun upplýsingar um verk og annað efni varðandi rétthafa.
    Með 4. mgr. eru gerðar kröfur til þess að sameiginleg umsýslustofnun sem tekur við greiðslum frá annarri sameiginlegri umsýslustofnun á grundvelli þessarar greinar úthluti og greiði þær réttindagreiðslur sem rétthöfum ber eins fljótt og mögulegt er. Greiðsla skal hafa farið fram eigi síðar en sex mánuðum eftir að sameiginleg umsýslustofnun tók við greiðslunum, nema hlutlægar ástæður komi í veg fyrir að sá frestur sé virtur. Hlutlægar ástæður skulu túlkast á sama hátt og undir 15. gr. og 3. mgr. 18. gr. frumvarpsins. Sameiginleg umsýslustofnun sem móttekur greiðslur samkvæmt þessari málsgrein getur einnig ákveðið að samtök rétthafa sem eru félagsaðilar sameiginlegrar umsýslustofnunar skuli sjá um útborgun réttindagreiðslna. Í þeim tilvikum eiga sömu frestir við, sbr. 24. gr. frumvarpsins og 6. mgr. 1. gr. frumvarpsins.
    Vanræksla á að fylgja ákvæðum 1. og 3.–4. mgr. 18. gr. frumvarpsins getur varðað sektum sbr. 9. tölul. 2. mgr. 37. gr. frumvarpsins.

Um 19. gr.

    Með 19. gr. frumvarpsins er miðað að innleiðingu 18. gr. tilskipunarinnar sem fjallar um þær upplýsingar sem sameiginleg umsýslustofnun skal veita þeim rétthöfum sem taka við höfundarréttargreiðslum, sjá einnig formálsgrein 15, sem fjallar um upplýsingagjöf sjálfstæðra umsýslueininga, sbr. 2. tölul. 2. gr. frumvarpsins, og formálsgrein 34, sem fjallar almennt um upplýsingaskyldu sameiginlegra umsýslustofnana.
    Í 1. mgr. 19. gr. eru taldar upp í sjö töluliðum þær lágmarksupplýsingar sem sameiginlegri umsýslustofnun ber að gera aðgengilegar rétthöfum sem hún hefur úthlutað réttindatekjum eða innt af hendi greiðslu til á tímabilinu sem upplýsingarnar varðar. Sameiginleg umsýslustofnun ákveður í hvaða formi upplýsingarnar eru veittar, svo framarlega sem þær eru auðveldlega aðgengilegar rétthöfum. Upplýsingaskylda skv. 1. mgr. á aðeins við þegar sameiginleg umsýslustofnun úthlutar og greiðir beint til rétthafa en ekki þegar hún úthlutar til aðildarfélaga, þ.e. félagsaðila sem eru einingar, sbr. 4. tölul. 2. gr. frumvarpsins, og þau sjá síðan um úthlutun og útborgun til rétthafa. Um upplýsingaskyldu í þeim tilfellum er fjallað í 2. mgr. 19. gr. frumvarpsins.
    Í 1. tölul. er vísað til samskiptaupplýsinga sem rétthafi hefur heimilað sameiginlegri umsýslustofnun að nota til að staðfesta deili á og hafa uppi á honum. Hér getur t.d. verið um að ræða upplýsingar um nafn, heimilisfang og símanúmer eða póstfang.
    Réttindatekjur sem úthlutaðar eru rétthafanum (réttindagreiðslur), sbr. 2. tölul., eiga við úthlutanir á viðkomandi tímabili vegna tilgreinds tímabils sem hafa verið greiddar eða verða greiddar rétthafanum.
    Samkvæmt 3. tölul. skal sameiginleg umsýslustofnun upplýsa um fjárhæðir sem hún greiðir rétthafa fyrir hvern flokk réttinda sem hún hefur umsjón með og hverja tegund notkunar. Það er umsýslustofnunin sjálf sem skilgreinir þessa flokka réttinda.
    Í 4. tölul. er gerð krafa um upplýsingar um tímabilið þegar notkunin sem fjárhæðum var úthlutað fyrir og greiddar rétthafanum fór fram, nema hlutlægar ástæður er varða skýrslugjöf notenda standi í vegi fyrir því að sameiginleg umsýslustofnun veiti þessar upplýsingar. Hér getur t.d. verið um að ræða ófullnægjandi upplýsingar notanda um það fyrir hvaða tímabil tiltekin greiðsla er.
    Með frádrætti vegna umsýslukostnaðar í 5. tölul. er átt við umsýslukostnað sem uppfyllir kröfur 14. gr. frumvarpsins. Ekki er gert ráð fyrir að umsýslukostnaður sé einstaklingsgreindur þ.e. ekki raunverulegur kostnaður við að úthluta og greiða hverjum einstökum rétthafa heldur er miðað við þann heildarkostnað sem umsýsla viðeigandi réttinda fyrir alla rétthafa í sama flokki hefur í för með sér. Sá kostnaður dregst síðan jafnt frá öllum réttindagreiðslum þess hóps rétthafa. Frádráttur er varðar annað en umsýslukostnað sbr. 6. tölul. getur t.d. verið frádráttur vegna félagslegrar, menningarlegrar og menntunartengdrar þjónustu hinnar sameiginlegu umsýslustofnunar.
    Í 7. tölul. eru tilgreindar hvers kyns tekjur af réttindum sem rétthafa er úthlutað og eru útistandandi á hverjum tíma. Hér er átt við þær réttindagreiðslur eða hluta þeirra sem ekki hafa verið greiddar, annaðhvort vegna yfirstandandi tímabils eða eldra. 1. tölul. tekur hins vegar til upplýsingar um heildarúthlutun á því tímabili sem upplýsingarnar varða, þ.e. bæði greiddar og ógreiddar úthlutaðar réttindatekjur (réttindagreiðslur) til rétthafans.
    Í 2. mgr. kemur fram að þegar sameiginleg umsýslustofnun úthlutar réttindatekjum og hefur sem félagsaðila einingar, þ.e. samtök rétthafa sem eru félagsaðilar, sem bera ábyrgð á að úthluta rétthöfum tekjum af réttindum skuli sameiginleg umsýslustofnun veita þessum einingum upplýsingar í samræmi við 1. mgr. nema þær einingar hafi upplýsingarnar þegar undir höndum. Á hlutaðeigandi einingum hvílir svo sama skylda til að upplýsa rétthafa og á sameiginlegum umsýslustofnunum skv. 1. mgr. Einingunum er í sjálfsvald sett í hvaða formi þessar upplýsingar eru veittar.
    3. mgr. kveður á um að slíkum einingum sé, eins og hinni sameiginlegu umsýslustofnun, skylt að veita upplýsingar skv. 2. mgr., sbr. 1. mgr., einu sinni á ári.
    Vanræksla á að fylgja ákvæðum 19. gr. frumvarpsins getur varðað sektum sbr. 10. tölul. 2. mgr. 37. gr. frumvarpsins.

Um 20. gr.

    Greininni er ætlað að innleiða 19. gr. tilskipunarinnar, sjá einnig formálsgrein 15, sem fjallar um upplýsingagjöf sjálfstæðra umsýslueininga, sbr. 2. tölul. 2. gr. frumvarpsins, og formálsgrein 34, sem fjallar almennt um upplýsingaskyldu sameiginlegra umsýslustofnana.
    Í 20. gr. er fjallað um þær upplýsingar sem sameiginleg umsýslustofnun skal veita öðrum sameiginlegum umsýslustofnunum á grundvelli fyrirsvarssamnings. Upplýsingarnar skal veita rafrænt að lágmarki einu sinni á ári fyrir það tímabil sem upplýsingarnar tengjast.
    Samkvæmt 1. tölul. skal upplýsa um þær réttindatekjur sem úthlutað er, réttindagreiðslur sem greiddar eru af sameiginlegri umsýslustofnun fyrir hvern flokk réttinda sem hún hefur umsjón með, og hverja tegund notkunar, fyrir réttindin sem hún hefur umsjón með á grundvelli fyrirsvarssamningsins og úthlutaðar réttindatekjur sem eru ógreiddar á hverjum tíma. Hver sameiginleg umsýslustofnun fyrir sig ákveður hvernig flokkum réttinda og nota er háttað en þó þannig að samkomulag geti náðst á milli sameiginlegra umsýslustofnana sem standa að fyrirsvarssamningum geti náð samkomulagi um leyfileg not verka samkvæmt samningnum.
    Í 2. tölul. er fjallað um frádrátt vegna umsýslukostnaðar en um hann vísast til athugasemda við 14. gr. frumvarpsins.
    Um frádrátt vegna annars en sem varðar umsýslukostnað og sem getið er í 3. tölul. vísast til athugasemda við 18. gr. frumvarpsins. Slíkur frádráttur er einungis heimill ef samið hefur verið um hann í fyrirsvarssamningi eða hann samþykktur með öðrum hætti.
    Samkvæmt 4. tölul. skal einnig veita upplýsingar um leyfi sem eru veitt eða hafnað að því er varðar verk og annað efni sem fyrirsvarssamningur tekur til. Það er undir þeim sameiginlegu umsýslustofnunum komið að skilgreina nánar hvað fellur undir samninginn.
    Með ályktunum sem samþykktar eru á aðalfundi félagsaðila, sbr. 5. tölul., getur t.d. verið átt við almenna stefnu um frádrátt frá tekjum af réttindum, enda ljóst að slík stefna getur tengst umsýslu réttindanna sem falla undir fyrirsvarssamninginn.

Um 21. gr.

    Greininni er ætlað að innleiða 20. gr. tilskipunarinnar, sjá einnig formálsgrein 15, sem fjallar um upplýsingagjöf sjálfstæðra umsýslustofnana, sbr. 2. tölul. 2. gr. frumvarpsins, og formálsgrein 35, sem fjallar um upplýsingar veittar samkvæmt beiðni.
    Ákvæðum greinarinnar er ætlað að tryggja aðgengi hvers rétthafa, notenda og annarra sameiginlegra umsýslustofnana að upplýsingum um starfsemi þeirrar sameiginlegu umsýslustofnunar sem fer með umsýslu réttinda fyrir þessa aðila. Sameiginleg umsýslustofnun skal veita a.m.k. þær upplýsingar sem getið er í greininni í svari við rökstuddri beiðni, og gera þær aðgengilegar rafrænt t.d. með tölvupósti og án ótilhlýðilegrar tafar. Með orðalaginu „hverjum rétthafa“ er átt við að bæði rétthafar sem eru félagsaðilar sameiginlegrar umsýslustofnunar og rétthafar sem ekki eru félagsaðilar hennar hafi rétt á upplýsingum samkvæmt þessari grein.
    Sameiginleg umsýslustofnun skal veita upplýsingar um verk eða annað efni sem hún er í fyrirsvari fyrir, réttindin sem hún hefur umsjón með, beint eða á grundvelli fyrirsvarssamninga og yfirráðasvæðin sem um er að ræða. Sé ekki hægt að ákvarða einstök verk vegna umfangs starfsemi sameiginlegu umsýslustofnunarinnar skal upplýst um þær tegundir verka sem hún hefur umsjón með, og þau réttindi sem þær varða. Dæmi um slíkt tilfelli eru samningskvaðaleyfi þegar ekki er unnt að greina frá verkum þeirra rétthafa sem ekki eru félagsaðilar stofnunarinnar.
    Skilyrði þess að greinin eigi við er að sameiginlegri umsýslustofnun berist rökstudd beiðni um upplýsingar frá rétthafa, notanda eða annarri sameiginlegri umsýslustofnun. Þannig væri heimilt að hafna beiðnum sem eru alls órökstuddar og geta sameiginlegar umsýslustofnanir mótað lágmarkskröfur til upplýsingabeiðna sem þarf að uppfylla til að umbeðnar upplýsingar verði veittar. Slíkar kröfur mega þó ekki vera svo strangar að rétthöfum, notendum eða öðrum sameiginlegum umsýslustofnunum verði gert ómögulegt að nálgast þessar upplýsingar.

Um 22. gr.

    Greininni er ætlað að innleiða 21. gr. tilskipunarinnar, sjá einnig formálsgrein 15, sem fjallar um upplýsingagjöf sjálfstæðra umsýslueininga, sbr. 2. tölul. 2. gr. frumvarpsins, og formálsgrein 35, síðasti málsl., sem fjallar um birtingu upplýsinga. Ákvæði 21. gr. frumvarpsins fjalla um þær upplýsingar sem sameiginlegri umsýslustofnun er skylt að birta á opinberum vef sínum og uppfæra.
    Samkvæmt 1. tölul. skulu samþykktir sameiginlegrar umsýslustofnunar birt á vef hennar.
    Í 2. tölul. kemur fram að skilmálar félagsaðildar og skilmálar uppsagnar heimildar til að hafa umsjón með réttindum, ef þeir koma ekki fram í samþykktinni, skuli birtir. Af ákvæðinu má ráða að unnt sé að fjalla um skilmála uppsagnar í samþykkt og í slíkum tilfellum þyrfti ekki að birta þá skilmála sérstaklega, heldur yrði birting samþykktarinnar látin nægja.
    Samkvæmt 3. tölul. skal birta staðlaða leyfissamninga og staðlaðar viðeigandi gjaldskrár, þ.m.t. afslætti ef hægt er að upplýsa um þá með almennum hætti.
    Í 4. tölul. er skrá yfir einstaklinga sem stjórna daglegri starfsemi sameiginlegu umsýslustofnunarinnar, sbr. 9. gr., tilgreind. Þetta felur ekki í sér að upplýsa þurfi um þá aðila sem sitja í stjórn ef þeir koma ekki að daglegri stjórnun stofnunarinnar.
    Í 5. og 6. tölul. eru almennar stefnur um úthlutun réttindagreiðslna til rétthafa og um umsýslukostnað tilgreindar en um þær vísast til athugasemda við 1. og 4. tölul. 5. mgr. 6. gr. frumvarpsins. Um 7. tölul. um almenna stefnu um annan frádrátt en vegna umsýslukostnaðar vísast sömuleiðis til athugasemda við 4. tölul. 5. mgr. 6. gr. frumvarpsins.
    Með 8. tölul. er lögð sú skylda á sameiginlega umsýslustofnanir að upplýsa um alla þá fyrirsvarssamninga sem þær hafa gert og um nöfn þeirra sameiginlegu umsýslustofnana sem samningarnir eru við.
    Um almenna stefnu um notkun óráðstafanlegra fjárhæða, sbr. 9. tölul., vísast til athugasemda við 2. tölul. 5. mgr. 6. gr. frumvarpsins.
    Í 10. tölul. er vísað til meðhöndlunar kvartana og málsmeðferðar við lausn deilumála sem er fyrir hendi í samræmi við 34. og 35. gr. Lýsing á málsmeðferð við lausn deilumála getur t.d. innihaldið upplýsingar um það, hvernig hægt er að skjóta máli til úrskurðarnefndar um höfundaréttarmál skv. 57. gr. höfundalaga, nr. 73/1972, með síðari breytingum.
    Ákvæði 22. gr. er frábrugðið ákvæðum 19.–21. gr. að því leyti til að hér er fjallað um upplýsingar sem birta skal opinberlega, meðan 19.–21. gr. taka til upplýsinga sem veita skal nánar tilgreindum aðilum. Sameiginlegar umsýslustofnanir hafa val um hvernig þær gera framangreindar upplýsingar aðgengilegar, svo framarlega sem þær eru birtar á opinberum vef stofnunarinnar. Vanræksla á að fylgja ákvæðum 22. gr. frumvarpsins getur varðað sektum sbr. 10. tölul. 2. mgr. 37. gr. frumvarpsins.

Um 23. gr.

    Greininni er ætlað að innleiða 22. gr. tilskipunarinnar um árlegar gagnsæisskýrslur, sjá einnig formálsgrein 36 um sama efni. Í greininni er fjallað um árlega gagnsæisskýrslu sem allar sameiginlegar umsýslustofnanir, án tillits til rekstrarforms hennar að lögum, skulu semja og birta eigi síðar en átta mánuðum eftir lok viðkomandi fjárhagsárs, sbr. 1. mgr. Markmiðið með því að gera kröfu um slíka skýrslu er að gera rétthöfum, stjórnvöldum og öðrum sameiginlegum umsýslustofnunum kleift að nálgast upplýsingar um hverja stofnun meðal annars til notkunar við samanburð milli ólíkra umsýslustofnana innan Evrópska efnahagssvæðisins og til að hafa eftirlit með þeim. Hver sameiginleg umsýslustofnun ákveður í hvaða formi gagnsæisskýrsla er útbúin. Þannig er t.d. hægt að ákveða að gagnsæisskýrslan sé birt sem hluti af hefðbundinni ársskýrslu stofnunar, en einnig er hægt að birta þessar skýrslur hvora í sínu lagi. Mikilvægt er að gagnsæisskýrslan sé sett fram á þann máta að auðvelt sé að leita í henni og nálgast þær upplýsingar sem leitað er að. Gagnsæisskýrslan skal samþykkt á aðalfundi, sbr. 11. tölul. 5. mgr. 6. gr. frumvarpsins.
    Samkvæmt 2. mgr. er sameiginlegri umsýslustofnun skylt að birta gagnsæisskýrsluna á opinberum vef sínum og skal skýrslan vera þar aðgengileg almenningi í að lágmarki fimm ár. Hafi gagnsæisskýrslan verið birt í fleiri en einum hluta skulu allir hlutar hennar uppfylla kröfur þessarar málsgreinar.
    Í 3. mgr. er vísað til viðauka við frumvarpið en þar koma fram þær lágmarksupplýsingar sem hin árlega gagnsæisskýrsla skal innihalda. Viðaukanum er skipt í þrjá liði og í þeim fyrsta er fjallað um þær grunnupplýsingar sem eiga að koma fram í árlegu gagnsæisskýrslunni. Þar á meðal eru ársreikningar, aðgerðaskýrsla og upplýsingar um rekstrarfyrirkomulag og stjórn hinnar sameiginlegu umsýslustofnunar.
    Í 2. lið. viðauka eru tilteknar þær fjárhagsupplýsingar sem koma skulu fram í árlegu gagnsæisskýrslunni. Þær skulu, í samræmi við 5. mgr. 23. gr. frumvarpsins, allar vera endurskoðaðar af einum eða fleiri löggiltum endurskoðendum. Fjárhagsupplýsingarnar eru meðal annars upplýsingar um tekjur af réttindum fyrir hvern réttindaflokk sem umsjón er höfð með og hverja tegund notkunar, upplýsingar um kostnað við umsjón með réttindum og aðra þjónustu sem sameiginleg umsýslustofnun veitir, sundurliðaðar eftir flokkum réttinda, upplýsingar um frádrátt frá tekjum af réttindum og af hverju frádrátturinn stafar, upplýsingar um réttindagreiðslur til rétthafa með ítarlegri lýsingu á nánar tilgreindum þáttum á borð við tíðni greiðslna og upplýsingar um tengsl við aðrar sameiginlegar umsýslustofnanir. Einnig skal upplýst um óbeinan kostnað sem ekki er hægt að rekja til eins eða fleiri réttindaflokka og útskýringu á aðferðinni sem notuð er við að skipta niður slíkum óbeinum kostnaði. Þar getur t.d. verið um að ræða kostnað við leigu húsnæðis eða skrifstofubúnaðar.
    Loks er í 3. lið viðaukans fjallað um upplýsingar um fjárhæðir sem dregnar eru frá vegna félagslegrar, menningarlegrar og menntunartengdrar þjónustu á fjárhagsárinu og útskýringar á notkun þessara fjárhæða. Skulu þessar upplýsingar sundurliðaðar eftir tegund tilgangs. Þær upplýsingar skulu birtar í sérstakri skýrslu, sbr. 4. mgr. 23. gr. frumvarpsins.
    Víða í viðauka er gerð krafa um að upplýsingar séu sundurliðaðar eftir flokki réttinda og tegund notkunar. Sameiginlegum umsýslustofnunum er í sjálfsvald sett hvernig þær skipta þeim réttindum sem þær hafa umsjón með í flokka. Flokkarnir ættu þó að veita raunverulega innsýn í starfsemi stofnunarinnar og vera hæfilega sérhæfðir. Einnig ættu flokkar réttinda innan mismunandi umsýslustofnana að vera sambærilegir, enda einn tilgangurinn með því að birta upplýsingar sem sundurgreindar eru eftir flokkum réttinda sá að veita rétthöfum og öðrum aðilum tækifæri til að bera saman sameiginlegar umsýslustofnanir á grundvelli þess hvernig þjónustu þeirra við einstaka flokka réttinda er háttað. Sameiginlegar umsýslustofnanir skulu hafa sams konar sjónarmið að leiðarljósi þegar þær ákvarða mismunandi tegundir notkunar.
    Mismunandi flokkar réttinda geta byggt á þeim réttindum sem höfundum eru veittir í 2. gr. höfundalaga, nr. 73/1972, en þurfa þó að vera nægilega tilgreindir til að þeir gefi innsýn í starfsemi stofnunarinnar, eins og að ofan greinir. Sem dæmi mætti nefna eintakagerð, lán, beinlínunot eða útsendingu efnis. Þau dæmi um flokka réttinda sem nefnd eru í viðaukanum hafa ekki áhrif á ákvörðun réttinda sem um er fjallað í 3. gr. frumvarpsins.
    Tilgreining flokka notkunar samkvæmt viðaukanum vísar til raunverulegrar notkunar sem veittar upplýsingar varða, t.d. not á netinu, við kennslu eða í fyrirtækjum.
    Gæta verður að því að ólíkir flokkar réttinda skarist ekki né heldur ólíkar tegundir notkunar. Hins vegar má vel hugsa sér að einn flokkur réttinda geti gefið tilefni til fleiri en einnar tegundar notkunar, t.d. eintakagerð í kennslu og eintakagerð í fyrirtækjum, og sömuleiðis getur ein tegund notkunar átt við fleiri en einn flokka réttinda, t.d. varðar not á netinu yfirleitt bæði eintakagerð og beinlínuaðgang.
    Í 4. mgr. 23. gr. frumvarpsins er kveðið á um að gagnsæisskýrslan skuli innihalda sérstaka skýrslu um notkun fjárhæðanna sem dregnar eru frá fyrir félagslega, menningarlega og menntunartengda þjónustu og skal hún innihalda a.m.k. þær upplýsingar sem settar eru fram í 3. lið viðaukans. Sameiginleg umsýslustofnun getur þannig kosið að birta ítarlegri upplýsingar en þar eru tilgreindar. Sérstaka skýrslan skv. 4. mgr. getur hvort sem er verið birt sem aðskilin skýrsla eða sem hluti af árlegu gagnsæisskýrslunni.
    Samkvæmt 5. mgr. skulu reikningsskilaupplýsingarnar sem koma fram í árlegu gagnsæisskýrslunni endurskoðaðar af einum eða fleiri löggiltum endurskoðendum í samræmi við lög um endurskoðendur á hverjum tíma, nú lög nr. 79/2008.
    Í 6. mgr. kemur fram að endurskoðunarskýrslan ásamt öllum athugasemdum við hana skuli birt í heild í árlegu gagnsæisskýrslunni.
    7. mgr. hefur í för með sér að ákvæði 1.–6. mgr. skulu einnig eiga við félagsaðila sameiginlegra umsýslustofnana sem eru samtök rétthafa að því leyti sem þau eru ábyrg fyrir samantekt gagnsæiskýrslunnar skv. 24. gr. Gagnsæisskýrslur sem slíkir félagsaðilar taka saman skulu einnig vera aðgengilegar á opinberum vefjum þeirra, ef slík eru fyrir hendi, og jafnframt á opinberum vefjum sameiginlega umsýslustofnunarinnar. Ef félagsaðilar sem eru samtök rétthafa hafa ekki eigin vef skal vera hægt að fá rafrænt eintak af gagnsæisskýrslunni ef slíks er óskað.
    Vanræksla á að fylgja ákvæðum 23. gr. frumvarpsins getur varðað sektum sbr. 10. tölul. 2. mgr. 37. gr. frumvarpsins.

Um 24. gr.

    Greininni er ætlað að skapa möguleika á að sameiginlegar umsýslustofnanir geti sett reglur fyrir félagasamtök sín og að innleiða þannig meðal annars hluta af 1. mgr. 13. gr. og 3. mgr. 15. gr. tilskipunarinnar. Hér er einnig vert að hafa í huga formálsgrein 14 í tilskipuninni um lagalegt form umsýslustofnana. Sjá einnig umfjöllun um efni hennar í greinargerð, sbr. f.-lið 3. kafla um meginefni frumvarpsins.
    Með greininni er lagt til að sameiginlegar umsýslustofnanir, sem hafa félagsaðila sem eru samtök rétthafa, geti ákveðið í samþykktum sínum að úthlutun og útborgun réttindagreiðslna skv. 15. –16. gr. og 4. mgr. 18. gr. og samantekt gagnsæisskýrslu skv. 23. gr. fari fram á vegum félagsaðila þeirra. Ef þessi möguleiki er nýttur hefur það í för með sér að ýmis önnur ákvæði frumvarpsins myndu eiga við um slíka félagsaðila, sbr. 6. og 7. mgr. 1. gr. frumvarpsins.
    Með ákvörðun sameiginlegrar umsýslustofnunar í samþykktum sínum skv. 24. gr. frumvarpsins myndi framkvæmd og ábyrgð á hlutverkum skv. 15.–16. gr. og 4. mgr. 18. gr. og/eða samantekt gagnsæisskýrslu skv. 23. gr. frumvarpsins færast á félagsaðila sem væru samtök rétthafa. Slík ábyrgðarskipting þyrfti að koma skýrt fram í samþykktunum. Eins og fram kemur í 22. gr. frumvarpsins þarf að birta og uppfæra samþykktir sameiginlegra umsýslustofnana reglulega þannig að þriðji aðili á að geta verið upplýstur um mögulega ábyrgðarskiptingu samkvæmt ákvörðun í samþykktum skv. 24. gr. frumvarpsins.
    Um er að ræða ákvarðanir um framkvæmd og ábyrgðarskiptingu tveggja mismunandi atriða.
    Í fyrsta lagi er hægt að taka ákvörðun um að ábyrgðin og framkvæmd úthlutunar og útborgun réttindagreiðslu skv. 15.–16. gr. og 4. mgr. 18. gr. færist yfir á félagsaðila sem eru samtök rétthafa. Slík ákvörðun hefði í för með sér að hin sameiginlega umsýslustofnun væri einungis ábyrg fyrir úthlutun réttindatekna og útborgun þeirra til viðkomandi félagsaðila. Í þeirri umsýslu þyrfti viðkomandi sameiginlega umsýslustofnun að sjálfsögðu að fara eftir kröfum sem settar eru fram í III. kafla. Félagsaðilarnir yrði síðan ábyrgir fyrir áframhaldandi úthlutun og útborgun réttindagreiðslna til rétthafa, þ.m.t. leit að rétthöfum skv. 16. gr. frumvarpsins. Félagsaðilar yrðu þá jafnframt í sömu sporum gagnvart rétthöfum eins og hin sameiginlega umsýslustofnun hefði verið, þ.m.t. skylda til að uppfylla skyldur skv. 10.–16. gr., 4. mgr. 18. gr. og 3. mgr. 19. gr. frumvarpsins. Sjá í því samhengi athugasemdir við þær greinar.
    Í öðru lagi er hægt að ákveða að félagsaðilar sem eru samtök rétthafa sjái um gagnsæisskýrslu skv. 23. gr. frumvarpsins að því er varðar athafnir slíks félagsaðila vegna úthlutunar og útborgunar réttindagreiðslna samkvæmt framangreindu. Ef slík ákvörðun er ekki tekin þá er það hin sameiginlega umsýslustofnun sem sér um slíka gagnsæisskýrslu fyrir þeirra hönd. Ef ákveðið er að félagsaðilinn sjái um gagnsæisskýrsluna þá er sá aðili skuldbundinn af ákvæðum 23. gr. frumvarpsins á sama hátt og hins sameiginlega umsýslustofnun, sbr. 7. mgr. 1. gr. frumvarpsins.
    Aftur er vert að undirstrika að hin sameiginlega umsýslustofnun er áfram ábyrg fyrir sínum hluta gagnsæisskýrslunnar þó svo að ákveðið sé að félagsaðilar sjái um gagnsæisskýrslu er varðar úthlutun og útborgun til rétthafa skv. ákvörðun á grundvelli 24. gr. frumvarpsins. Þá er hinni sameiginlegu umsýslustofnun jafnframt skylt að birta gagnsæisskýrslu félagaaðila sem er gerð á grundvelli 24. gr. frumvarpsins, skv. 7. mgr. 23. gr. frumvarpsins.
    Þar sem ákvörðun um slíka ábyrgðarskiptingu þarf að koma fram í samþykktum hinnar sameiginlega umsýslustofnunar þá er ljóst að aðalfundur hennar þarf að samþykkja slíkar ákvarðanir í samræmi við ákvæði 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins.

Um 25. gr.

    Greininni er ætlað að innleiða 24. gr. tilskipunarinnar, sjá einnig formálsgreinar 37–48 og 51 til hliðsjónar.
    Í greininni er fjallað um þau skilyrði sem sameiginlegar umsýslustofnanir þurfa að uppfylla til að geta veitt leyfi yfir landamæri vegna netnotkunar tónverka. Þær skulu hafa fullnægjandi getu til að vinna rafrænt á skilvirkan og gagnsæjan hátt gögn sem þarf fyrir umsjón slíkra leyfa, þ.m.t. í því skyni að skilgreina verkaskrá og fylgjast með notkun hennar, útbúa reikninga á notendur, innheimta tekjur af réttindum og úthluta fjárhæðum til rétthafa. Hyggist sameiginleg umsýslustofnun veita leyfi yfir landamæri vegna netnotkunar tónverka þarf hún því að haga starfsemi sinni þannig að hún uppfylli kröfur laganna til þeirra stofnana sem veita slík leyfi. Þetta krefst þess að stofnunin búi yfir eða hafi aðgang að gagnagrunni yfir rétthafa viðeigandi réttinda og sem gerir henni kleift að greina verk, réttindi og rétthafa svo og þau yfirráðasvæði sem sameiginleg umsýslustofnun hefur umsjón með. Gagnagrunnarnir þurfa að vera uppfærðir reglulega og geta veitt upplýsingar til að bera saman tónverk og upptökur sem fela í sér verkið.
    Samkvæmt 2. mgr. skal sameiginleg umsýslustofnun uppfylla a.m.k. þau fjögur skilyrði sem talin eru upp í málsgreininni til að teljast hafa fullnægjandi getu skv. 1. mgr.
    Í 1. tölul. er fjallað um hæfni til að greina nákvæmlega, að öllu leyti eða að hluta, þau tónverk sem sameiginleg umsýslustofnun hefur heimild til að vera í fyrirsvari fyrir.
    Í 2. tölul. er fjallað um hæfni til að greina nákvæmlega, að öllu leyti eða að hluta, að því er varðar hvert viðkomandi yfirráðasvæði, þau réttindi og samsvarandi rétthafa þeirra fyrir hvert tónverk eða hlutdeild í því, sem sameiginleg umsýslustofnun hefur heimild til að vera í fyrirsvari fyrir.
    Í 3. tölul. er vísað til að geta nýtt sér sérstök auðkenni til þess að staðfesta deili á rétthöfum og tónverkum, eftir því sem mögulegt er.
    Í 4. tölul. er vísað til að geta nýtt sér viðeigandi aðferðir til þess að greina og leysa tímanlega og á skilvirkan hátt úr ósamræmi í gögnum í vörslu annarra sameiginlegra umsýslustofnana sem veita leyfi yfir landamæri vegna réttinda til netnotkunar á tónverkum.
    Sameiginlegri umsýslustofnun nægir að uppfylla ofangreind skilyrði til að teljast hafa fullnægjandi getu til að veita leyfi yfir landamæri vegna réttinda til netnotkunar á tónlist skv. 1. mgr.

Um 26. gr.

    Greininni er ætlað að innleiða 25. gr. tilskipunarinnar, sjá einnig formálsgreinar 37–48 og 51 til hliðsjónar. Í greininni er kveðið á um þær upplýsingar sem sameiginlegri umsýslustofnun sem veitir leyfi yfir landamæri vegna réttinda til netnotkunar á tónlist er skylt að veita þjónustuveitendum á netinu, rétthöfum og öðrum sameiginlegum umsýslustofnunum. Upplýsingarnar skulu taka til tónverka og réttinda sem stofnunin er í fyrirsvari fyrir og til þeirra svæða sem um er að ræða. Sameiginleg umsýslustofnun skal veita uppfærðar upplýsingar um þessi atriði rafrænt, sem svar við tilhlýðilega rökstuddri beiðni. Markmiðið með ákvæðinu er að unnt sé að greina tónverkaskrána á netinu sem umsýslustofnunin er í fyrirsvari fyrir.
    Framangreindar upplýsingar er einungis skylt að veita hafi hinni sameiginlegu umsýslustofnun borist rökstudd beiðni þar að lútandi. Í því felst að stofnuninni er heimilt að hafna órökstuddum beiðnum um upplýsingar. Þá er nauðsynlegt að sameiginleg umsýslustofnun uppfæri gagnagrunna sína reglulega til að geta veitt uppfærðar upplýsingar í samræmi við kröfur greinarinnar.

Um 27. gr.

    Greininni er ætlað að innleiða 26. gr. tilskipunarinnar, sjá til hliðsjónar formálsgreinar 37–48 og 51. Ákvæði 27. gr. frumvarpsins á að tryggja rétthöfum, þjónustuveitendum á netinu og öðrum sameiginlegum umsýslustofnunum möguleikann á því að leiðrétta rangar eða ónákvæmar upplýsingar í gagnagrunni sameiginlegrar umsýslustofnunar sem veitir leyfi yfir landamæri vegna réttinda fyrir netnotkun á tónlist. Skv. 1. mgr. er umsýslustofnun skylt að tryggja að gögn eða upplýsingar séu leiðréttar án ótilhlýðilegrar tafar þegar kröfur um leiðréttingu eru nægilega vel rökstuddar. Sameiginleg umsýslustofnun sem móttekur slíka beiðni leggur sjálf mat á áreiðanleika kröfunnar og eftir atvikum fylgigagna og getur sett nánari leiðbeiningar reglur þar um, t.d. um hvers konar gögn skulu fylgja kröfu um leiðréttingu.
    Í 2. mgr. felst að sameiginleg umsýslustofnun skal bjóða rétthöfum sem eiga tónverk í tónverkaskrá hennar og rétthöfum sem hafa falið henni umsjón með réttindum til netnotkunar tónverka sinna, í samræmi við 32. gr., upp á rafrænan möguleika til að leggja fram þær upplýsingar sem tilgreindar eru í málsgreininni. Sameiginleg umsýslustofnun skal í tengslum við þetta taka tillit til valfrjálsra staðla eða starfsvenja innan atvinnulífsins að því er varðar skipti á gögnum, sem þróaðir eru á alþjóðlegum vettvangi eða innan Evrópska efnahagssvæðisins og gera rétthöfum kleift að tilgreina tónverk, að fullu eða að hluta, netréttindi, að fullu eða að hluta og yfirráðasvæðin sem þeir veita stofnuninni heimild fyrir.
    Samkvæmt 3. mgr. skal sameiginleg umsýslustofnun sem fær umboð til að veita leyfi yfir landamæri vegna réttinda til netnotkunar á tónverkum frá annarri sameiginlegri umsýslustofnun, sbr. 30. og 31. gr. frumvarpsins, einnig beita 2. mgr. þessarar greinar um rétthafa sem eiga tónverk í verkaskrá stofnunarinnar sem veitir umboðið, nema sameiginlegu umsýslustofnanirnar komist að samkomulagi um annað. Stofnanirnar gætu t.d. samið um annað fyrirkomulag í fyrirsvarssamningi sín á milli.

Um 28. gr.

    Greininni er ætlað að innleiða 27. gr. tilskipunarinnar, sjá til hliðsjónar formálsgreinar 37–48 og 51. Í greininni er fjallað um samband sameiginlegrar umsýslustofnunar sem veitir leyfi yfir landamæri vegna réttinda til netnotkunar á tónlist og þeirra sem veita þjónustu á netinu. Samkvæmt 1. mgr. skal sameiginlega umsýslustofnunin hafa eftirlit með hagnýtingu þjónustuveitenda á leyfi til notkunar tónverka yfir landamæri sem hún hefur veitt honum, vegna tónverka sem hún er í fyrirsvari fyrir, að fullu eða að hluta. Sameiginlega umsýslustofnunin ákveður sjálf hvernig hún sinnir þessu eftirliti en mikilvægt er að grundvallarréttindi á borð við réttinn til friðhelgi einkalífs séu virt í þessu samhengi.
    Í 2. mgr. kemur fram að sameiginleg umsýslustofnun skuli gera þjónustuveitendum á netinu kleift að gefa rafræna skýrslu um raunverulega notkun netréttinda á tónverkum og skulu þjónustuveitendurnir gefa nákvæma skýrslu um slíka notkun. Sameiginlegri umsýslustofnun er jafnframt skylt að bjóða upp á a.m.k. eina aðferð til skýrslugjafar þar sem tekið er tillit til valfrjálsra staðla eða starfsvenja innan atvinnulífsins fyrir rafræn skipti á slíkum gögnum, sem þróaðir hafa verið á alþjóðlegum vettvangi eða innan Evrópska efnahagssvæðisins. Bjóði stofnunin upp á slíkan möguleika er henni heimilt að neita að taka við skýrslum sem eru á eigin formi netþjónustuveitandans.
    Í 3. mgr. er fjallað um rafræna sendingu reikninga. Sameiginleg umsýslustofnun skal senda þeim sem veita þjónustu á netinu rafræna reikninga og bjóða upp á a.m.k. eitt snið þar sem tekið er tillit til valfrjálsra staðla eða starfsvenja innan atvinnulífsins, sem þróaðir eru á alþjóðlegum vettvangi eða á vettvangi Evrópska efnahagssvæðisins. Dæmi um staðla sem kunna að vera þróaðir á alþjóðlegum vettvangi væri ef sameiginlegar umsýslustofnanir sem starfa í ólíkum löndum sameinuðust um gerð slíks staðals. Þá skulu þau gögn, sem tilgreind eru í 2. mgr. 25. gr., lögð til grundvallar tilgreiningu verka og réttinda sem leyfi er veitt fyrir. Þá skal samsvarandi raunveruleg notkun tilgreind að því marki sem mögulegt er á grundvelli upplýsinga frá þjónustuveitendum. Slíkir þjónustuveitendur geta ekki neitað að samþykkja reikninga vegna sniðsins ef sameiginleg umsýslustofnun notar staðal sem er almennt notaður í atvinnulífinu.
    Samkvæmt 4. mgr. skal sameiginleg umsýslustofnun reikningsfæra þjónustuveitanda rétt og án tafar eftir að skýrsla er gefin um raunveruleg réttindi til netnotkunar á tónverki. Það gildir þó ekki ef þetta er ómögulegt vegna ástæðna sem rekja má til þjónustuveitandans sjálfs, t.d. ófullnægjandi skýrslugjöf þjónustuveitanda.
    Í 5. mgr. er fjallað um skyldu sameiginlegrar umsýslustofnunar til að bjóða upp á fullnægjandi fyrirkomulag sem gerir þjónustuveitanda kleift að gera athugasemdir við nákvæmni reiknings, t.d. ef hann fær reikning frá einni eða fleiri sameiginlegum umsýslustofnunum fyrir sömu netréttindum vegna sama tónverks. Það er hlutverk hverrar sameiginlegrar umsýslustofnunar fyrir sig að móta fyrirkomulag sem uppfyllir skilyrði þessarar málsgreinar.

Um 29. gr.

    Greininni er ætlað að innleiða 28. gr. tilskipunarinnar, sjá einnig til hliðsjónar formálsgreinar 37–48 og 51 tilskipunarinnar. Hún fjallar um greiðslu til rétthafa vegna leyfisveitinga yfir landamæri vegna réttinda til netnotkunar á tónverkum. Sameiginleg umsýslustofnun sem annast slíkar leyfisveitingar skal, skv. 1. mgr., úthluta fjárhæðum sem rétthöfum ber og safnast hafa upp vegna slíkra leyfa, á nákvæman hátt og án tafar eftir að tilkynnt er um raunverulega notkun á verki, nema þegar það er ekki mögulegt af ástæðum sem rekja má til netþjónustuveitandans, t.d. vegna ófullnægjandi skýrsluskila. Þessa málsgrein ber að túlka í samhengi við 2. mgr. 28. gr. um nákvæm rafræn skýrsluskil þjónustuveitenda á netinu um raunverulega notkun.
    Í 2. mgr. eru tilgreindar þær lágmarksupplýsingar sem sameiginleg umsýslustofnun skal veita rétthöfum með hverri greiðslu sem hún innir af hendi skv. 1. mgr. Samkvæmt 1. tölul. skal veita upplýsingar um tímabilið þegar notkunin sem rétthafar eiga að fá greitt fyrir fór fram og yfirráðasvæðið þar sem notkunin fór fram. Í 2. tölul. kemur fram að veita skuli upplýsingar um innheimtar fjárhæðir, frádrátt og fjárhæðir sem sameiginleg umsýslustofnun úthlutar fyrir hverja netnotkun á hverju því tónverki sem rétthafar hafa heimilað umsýslustofnun, að fullu eða að hluta, að vera í fyrirsvari fyrir. Rétthafar eiga því að geta fengið sundurliðaðar upplýsingar sem gera þeim kleift að yfirfara notkun hvers verks fyrir sig. Loks skal veita upplýsingar um fjárhæðir sem innheimtar eru fyrir rétthafa, frádrátt frá þeim og fjárhæðir sem sameiginleg umsýslustofnun úthlutar að því er varðar hvern þjónustuveitanda á netinu, sbr. 3. tölul. Rétthafar eiga þannig að geta séð frá hvaða netþjónustuveitanda mótteknar greiðslur stafa.
    Samkvæmt 3. mgr. skal sameiginleg umsýslustofnun sem tekur að sér umsýslu réttinda fyrir hönd annarrar sameiginlegrar umsýslustofnunar á grundvelli fyrirsvarssamnings að veita síðarnefndu stofnuninni upplýsingar skv. 2. mgr. af nákvæmni og án tafar. Síðarnefnda stofnunin, sú sem tekur við greiðslum frá þeirri sameiginlegu umsýslustofnun sem hún hefur gert fyrirsvarssamning við, ber hins vegar ábyrgð á að greiðslurnar og upplýsingarnar skv. 2. mgr. skili sér til rétthafa. Sameiginlegu umsýslustofnanirnar geta þó komið sér saman um annað fyrirkomulag og væri hægt að semja um slíkt í fyrirsvarssamningi þeirra á milli. Þannig gætu stofnanirnar t.d. ákveðið að sameiginleg umsýslustofnun sem hefur tekið að sér umsýslu réttindanna veitti rétthöfum upplýsingarnar beint, í stað þess fyrirkomulags sem málsgreinin gerir ráð fyrir. Þær geta hins vegar að sjálfsögðu ekki samið um að greiðslur og upplýsingar berist ekki til rétthafa.

Um 30. gr.

    Greininni er ætlað að innleiða 29. gr. tilskipunarinnar, sjá einnig til hliðsjónar formálsgreinar 37–48 og 51 tilskipunarinnar. Í 1. mgr. er fjallað um að fyrirsvarssamningar milli sameiginlegra umsýslustofnana skuli ekki útiloka sambærileg umboð til annarra sameiginlegra umsýslustofnana (e. non-exclusive). Þegar ein sameiginleg umsýslustofnun veitir annarri slíkri stofnun umboð til leyfisveitinga yfir landamæri vegna réttinda til netnotkunar á tónverkum sem eru í tónverkaskrá þeirrar fyrri, er því óheimilt að semja á þann veg að stofnunin sem fær umboðið verði sú eina sem fær slíkt umboð frá fyrrnefndu stofnuninni. Sameiginlegum umsýslustofnunum er því frjálst að veita fleiri en einni sameiginlegri umsýslustofnun sambærileg umboð. Sameiginleg umsýslustofnun sem fær slíkt umboð skal hafa umsjón með réttindum vegna netnotkunar samkvæmt umboðinu án mismununar, sbr. 17. gr. frumvarpsins. Þannig skulu félagsaðilar beggja umsýslustofnana njóta sömu kjara.
    Samkvæmt 2. mgr. skal sameiginleg umsýslustofnun sem veitir umboðið tilkynna félagsaðilum sínum um helstu skilmála fyrirsvarssamnings, þ.m.t. um gildistíma hans og kostnað við veitta þjónustu stofnunarinnar sem fær umboðið og sér um hina eiginlegu umsýslu. Ákvæðinu er ætlað að auka gagnsæi fyrirsvarssamninga gagnvart rétthöfum.
    Í 3. mgr. kemur svo fram að sameiginleg umsýslustofnun sem fær umboðið skuli tilkynna stofnuninni sem veitir umboðið um helstu skilmála leyfisveitinga réttinda til netnotkunar sem umboðið tekur til, þ.m.t. hvers eðlis notkunin er, öll ákvæði sem tengjast eða hafa áhrif á leyfisgjöld, gildistíma leyfisins, reikningsskilatímabil og yfirráðasvæði sem leyfið tekur til.

Um 31. gr.

    Greininni er ætlað að innleiða 30. gr. tilskipunarinnar, sjá einnig til hliðsjónar formálsgreinar 37–48 og 51 tilskipunarinnar. Í 1. mgr. er kveðið á um að þegar sameiginleg umsýslustofnun, sem veitir ekki eða býður ekki leyfi yfir landamæri vegna réttinda til netnotkunar á tónverkum í eigin verkaskrá, fer fram á að önnur slík stofnun geri fyrirsvarssamning um viðkomandi réttindi verður sú síðarnefnda að verða við beiðninni ef hún hefur þegar veitt leyfi eða boðið leyfisveitingu yfir landamæri fyrir sama flokk réttinda í verkaskrá einnar eða fleiri annarra sameiginlegra umsýslustofnana. Bjóði sameiginleg umsýslustofnun því yfir höfuð upp á þjónustuna er henni ekki heimilt að neita að taka að sér að veita sambærilega þjónustu vegna tónverka í verkaskrá annarrar sameiginlegrar umsýslustofnunar sem fer fram á slíkt.
    Ákvæðið gefur möguleika á að sú sameiginlega umsýslustofnun sem vill ekki eða getur ekki veitt fjölþjóða leyfi yfir landamæri vegna netnotkunar geti samt áfram gefið leyfi fyrir netnotkun innanlands, þ.e. eingöngu veitt umboð til annarrar umsýslustofnunar vegna réttinda sem nauðsynleg eru vegna leyfis yfir landamæri.
    Með 2. mgr. er lögð sú skylda á sameiginlega umsýslustofnun sem beiðni er beint til að svara þeirri stofnun sem beiðnina sendir skriflega og án tafar. Krafan um skriflegt svar telst uppfyllt sé beiðninni svarað með tölvupósti.
    Í 3. mgr. kemur fram að sameiginleg umsýslustofnun sem beiðni er beint til skuli hafa umsjón með verkaskrá þeirrar sameiginlegu umsýslustofnunar sem leggur fram beiðnina með sömu skilyrðum og hún notar við umsýslu eigin verkaskrár. Í ákvæðinu felst bann við mismunun milli verkaskráa umsýslustofnana og skal það túlkað með hliðsjón af hinu almenna banni við mismunun rétthafa sem er að finna í 17. gr. frumvarpsins.
    Samkvæmt 4. mgr. ber sameiginlegri umsýslustofnun sem beiðni er beint til að hafa þá verkaskrá sameiginlegu umsýslustofnunarinnar sem leggur fram beiðnina, sem hún er í fyrirsvari fyrir, í öllum tilboðum sem hún beinir til þeirra sem veita þjónustu á netinu. Taki sameiginleg umsýslustofnun þannig að sér að vera í fyrirsvari fyrir tiltekna verkaskrá annarrar stofnunar er henni óheimilt að senda út nokkurt tilboð, sem inniheldur ekki þessa tilteknu verkaskrá.
    Í 5. mgr. er fjallað um umsýslukostnað vegna þjónustu sem sameiginleg umsýslustofnun sem beiðni er beint til veitir stofnuninni sem lagði fram beiðnina, og skal hann ekki vera meiri en eðlilegur kostnaður sem fyrrnefnd umsýslustofnun hefur stofnað til. Ákvæðið skal túlkað í samræmi við 3. mgr. og við 17. gr. frumvarpsins um bann við mismunun. Með umsýslukostnaði er átt við umsýslukostnað sem uppfyllir skilyrði 14. gr. frumvarpsins.
    Samkvæmt 6. mgr. skal sameiginlega umsýslustofnunin sem leggur fram beiðni veita sameiginlegri umsýslustofnun, sem beiðninni er beint til, aðgang að upplýsingum sem tengjast eigin verkaskrá og sem eru nauðsynlegar til leyfisveitingar yfir landamæri vegna réttar til netnotkunar á tónverkum. Með þessu er ætlunin að tryggja að nægilegar upplýsingar liggi fyrir svo hægt sé að veita þá þjónustu sem óskað er eftir. Séu upplýsingar ekki fullnægjandi eða veittar á formi sem gerir sameiginlegri umsýslustofnun sem beiðni er beint til ókleift að uppfylla kröfur VII. kaflans á hún rétt á að innheimta fyrir kostnaði sem stofnað er til á eðlilegan hátt við að uppfylla þær kröfur. Henni er enn fremur heimilt að útiloka þau verk sem ekki eru nægar upplýsingar um eða sem ekki er hægt að nota.

Um 32. gr.

    Greininni er ætlað að innleiða 31. gr. tilskipunarinnar, sjá einnig til hliðsjónar formálsgreinar 37–48 og 51 með tilskipuninni. Í greininni er kveðið á um að þegar sameiginleg umsýslustofnun veitir ekki eða býður ekki leyfi yfir landamæri vegna réttinda til netnotkunar á tónverkum, eða leyfir ekki annarri sameiginlegri umsýslustofnun að vera í fyrirsvari fyrir þessi réttindi í þeim tilgangi, geti rétthafar afturkallað heimild hennar til að vera í fyrirsvari fyrir réttindi sín vegna netnotkunar á tónverkum fyrir öll yfirráðasvæði. Rétthafarnir geta þó valið að afturkalla ekki heimildina vegna slíkra leyfisveitinga innan eins ríkis. Rétthafar geta afturkallað þessa leyfisveitingu með það fyrir augum að veita slík leyfi yfir landamæri sjálfir eða að fela annarri sameiginlegri umsýslustofnun, sem veitir eða býður leyfi yfir landamæri vegna réttinda til netnotkunar á tónverkum, umsjón þessara réttinda sinna.
    Til þess að ákvæðið eigi við er nauðsynlegt að sameiginleg umsýslustofnun hvorki veiti né bjóði leyfi yfir landamæri vegna réttinda til netnotkunar á tónverkum. Með því að bjóða leyfi yfir landamæri er átt við þær aðstæður þegar sameiginleg umsýslustofnun hefur gert fyrirsvarssamning við aðra sameiginlega umsýslustofnun sem veitir slík leyfi sjálf.
    Þótt rétthafi afturkalli heimild sameiginlegrar umsýslustofnunar til að vera í fyrirsvari fyrir réttindi sín vegna netnotkunar á tónverkum fyrir öll yfirráðasvæði, getur viðkomandi rétthafi eftir sem áður heimilað hlutaðeigandi sameiginlegri umsýslustofnun að vera í fyrirsvari fyrir réttindi sín að því er varðar leyfisveitingar í einstöku landi (e. mono-territorial licensing). Kjósi rétthafi að nýta heimild sína til afturköllunar samkvæmt þessari grein getur hann veitt leyfin sjálfur eða leitað til annarrar sameiginlegrar umsýslustofnunar sem veitir eða býður upp á leyfisveitingu yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum.
    Ákvæði 32. gr. er frábrugðið heimild rétthafa skv. 4. mgr. 3. gr. frumvarpsins til að fella úr gildi heimild til að hafa umsjón með réttindum, flokkum réttinda eða tegundum verka og öðru efni að því leyti til að ekki er kveðið á um nein tímamörk. Þá gildir 32. gr. frumvarpsins aðeins um réttindi vegna netnotkunar tónverka. Skv. 4. mgr. 3. gr. frumvarpsins þarf rétthafi að fella heimild úr gildi með hæfilegum fyrirvara sem ekki er lengri en sex mánuðir, auk þess sem sameiginlegri umsýslustofnun er heimilt að ákveða að slík afturköllun taki einungis gildi í lok fjárhagsársins. Slíkar takmarkanir er ekki að finna í 32. gr. frumvarpsins og geta rétthafar því nýtt sér ákvæði hennar hvenær sem er og eiga þá að geta ráðstafað umræddum réttindum sínum um leið og þeir hafa afturkallað leyfisveitingu samkvæmt greininni.
    Rétthöfum er ekki skylt að afturkalla leyfisveitingu á grundvelli þessarar greinar. Kjósi þeir að nýta sér heimild greinarinnar er þeim heldur ekki skylt að sjá til þess að leyfi yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum þeirra verði veitt eða þau boðin.
    Þetta ákvæði tekur ekki gildi fyrr en einu ári eftir gildistökudag ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 186/2017 frá 22. september 2017, sbr. ákvæði 2. mgr. 39. gr. frumvarpsins.

Um 33. gr.

    Greininni er ætlað að innleiða 32. gr. tilskipunarinnar, sjá einnig til hliðsjónar formálsgreinar 37–48 og 51 með tilskipuninni. Í 33. gr. kemur fram að ákvæði VII. kafla gildi ekki þegar sameiginlegar umsýslustofnanir veita, á grundvelli valfrjálsrar uppsöfnunar þeirra réttinda sem þarf, leyfi yfir landamæri vegna réttinda til netnotkunar á tónverkum sem útvarpsstofnun þarf til samtímis miðlunar hljóðvarps- eða sjónvarpsefnis eða eftir atvikum síðari miðlun eftir upphaflega útsendingu þeirra ásamt hvers konar öðru efni sem tengist þeim á netinu. Þar getur t.d. verið um að ræða sýnishorn, framleidd af eða fyrir útvarpsrekanda, sem er viðbót við upphaflega útsendingu hljóðvarps- eða sjónvarpsefnis.
    Er 33. gr. ætlað að auðvelda leyfisveitingar vegna réttinda til netnotkunar tónverka að því er varðar samhliða og seinkaða netbirtingu á sjónvarps- og hljóðvarpssendingum með því að kveða á um undanþágu frá reglunum sem annars myndu gilda um þær samkvæmt VII. kafla.
    Þessi undantekning á þó ekki að leiða til þess að röskun verði á samkeppni við aðra þjónustustarfsemi sem veitir notendum aðgang að einstökum tónverkum eða hljóð- og myndverkum eða leiðir til samkeppnishamlandi viðskiptahátta.
    Undanþágan sem felst í 33. gr. takmarkast við það sem er nauðsynlegt til að veita aðgang að sjónvarps- eða hljóðvarpsefni á netinu og efni sem tengist augljóslega upprunalegri útsendingu og fellur undir hana, og er t.d. framleitt sem viðbót við viðkomandi efni sem sýnishorn eða endursýning. Ætti undanþágan því ekki að valda röskun á samkeppni við aðra þjónustu sem veitir neytendum aðgang að einstaka tónverkum eða hljóð- eða myndverkum á netinu.

Um 34. gr.

    Tilgangur greinarinnar er að innleiða ákvæði 33. gr. tilskipunarinnar, sjá til hliðsjónar formálsgrein 49 með tilskipuninni um virka framfylgd og formálsgrein 50 með tilskipuninni um eftirlit með sameiginlegum umsýslustofnunum.
    Ákvæði 1. mgr. skyldar sameiginlegar umsýslustofnanir að hafa skilvirkt og tímanlegt ferli til að bregðast við kvörtunum frá félagsaðilum sínum og öðrum sameiginlegum umsýslustofnunum, sem þær hafa umsjón með réttindum fyrir á grundvelli fyrirsvarssamnings. Slíkt ferli getur falist í reglum sameiginlegra umsýslustofnana um að svara skuli kvörtunum innan ákveðins frests og að viðkomandi aðilar fái upplýsingar um meðferð slíkra kvartana. Kvartanir geta meðal annars varðað heimildir eða umboð rétthafa til sameiginlegra umsýslustofnana og afturköllun slíkra heimilda, eða skilyrði félagsaðildar, kröfur um réttindagreiðslur, frádrætti og úthlutun réttindatekna.
    Viðkomandi ferlar skulu einnig standa þeim rétthöfum til boða sem ekki eru félagsaðilar sameiginlegu umsýslustofnunarinnar en sem hafa bein lagaleg tengsl við hana skv. lagaákvæðum, framsali, leyfi eða öðru samningsbundnu fyrirkomulagi, sbr. ákvæði 5. gr. frumvarpsins. Þetta á meðal annars við um rétthafa sem á réttindi sem falla undir samningskvaðasamning.
    Ákvæði 2. mgr. kveður á um að svar við kvörtunum skuli vera skriflegt og rökstutt. Krafan um rökstuðning kemur ekki í veg fyrir að sameiginleg umsýslustofnun notist við staðlaðan rökstuðning.
    Ákvæði 34. gr. frumvarpsins tekur ekki til almennra yfirlýsinga eða spurninga rétthafa eða annarra aðila sama á hvaða formi þær berast nema þær tengist ákveðnum kvörtunarmálum.

Um 35. gr.

    Greininni er ætlað að innleiða ákvæði 34. gr. tilskipunarinnar, sjá til hliðsjónar formálsgrein 49 með tilskipuninni um virka framfylgd og formálsgrein 50 með tilskipuninni um eftirlit með sameiginlegum umsýslustofnunum.
    Greinin kveður á um að deilum sameiginlegrar umsýslustofnunar við raunverulegan eða mögulegan þjónustuveitanda á netinu varðandi beitingu 26.–28. gr., við einn eða fleiri rétthafa varðandi beitingu 26. –32. gr. og við aðra sameiginlega umsýslustofnun varðandi beitingu 26.–31. gr. má vísa til úrskurðarnefndar um höfundaréttarmál skv. 57. gr. höfundalaga.
    Heimild til að vísa málum til úrskurðarnefndarinnar skv. greininni er takmörkuð við mál sem varða fjölþjóðleg leyfi yfir landamæri vegna netnotkunar tónverka.

Um 36. gr.

    Greininni er ætlað að innleiða hluta af ákvæðum 36. gr. tilskipunarinnar, sjá til hliðsjónar formálsgrein 49 með tilskipuninni um virka framfylgd og formálsgrein 50 með tilskipuninni um eftirlit með sameiginlegum umsýslustofnunum.
    Í 1. mgr. greinarinnar er kveðið á um að ráðuneyti sem fer með málefni höfundaréttar hefur eftirlit með starfsemi sameiginlegra umsýslustofnana sem falla undir gildissvið ákvæða frumvarpsins sem ekki falla undir valdsvið úrskurðarnefnda um höfundaréttarmál skv. 57. gr. höfundalaga. Ráðuneytið setur rammann fyrir eftirlit samkvæmt ákvæðinu, þar á meðal hvaða mál tekin verði til athugunar. Það felur í sér að ráðuneytið getur ákveðið að kanna ekki einhver mál eða taka mál til athugunar af sjálfsdáðum. Eftirlitið tekur til mála sem ekki verða lögð undir úrskurð nefndar skv. 57. gr. höfundalaga. Þá takmarkast eftirlitið við formskilyrði og hvort réttum ferlum hafi verið fylgt, t.d. hvort gagnsæisskýrsla skv. 23. gr. frumvarpsins hafi verið birt en ekki ágreining um það sem í skýrslunni. Ekki væri heldur hluti af eftirlitinu að meta t.d. hvort rétthafi hafi fengið rétt reiknaða réttindagreiðslu.
    Gert er ráð fyrir að eftirlitið muni vera í tengslum við mál sem varða sameiginlegar umsýslustofnanir og aðildarfélög þeirra, t.d. þegar farið er fram á viðurkenningu þeirra samkvæmt höfundalögum eða í tengslum við fyrirspurnir frá aðilum, t.d. rétthöfum eða öðrum sameiginlegum umsýslustofnunum. Niðurstöður eftirlits væri hægt að birta á heimasíðu ráðuneytisins.
    Í 2. mgr. greinarinnar er kveðið á um skyldu sameiginlegra umsýslustofnana til að veita ráðuneytinu upplýsingar án ótilhlýðilegrar tafar ef um þær er beðið. Slíkar upplýsingar geta varðað tímasetningar útborgunar réttindagreiðslu eða hvernig staðið er að gerð gagnsæisskýrslu. Hvað telst eðlilegur tímafrestur að svara fyrirspurnum ráðuneytisins skv. ákvæðinu fer eftir eðli og efni fyrirspurnarinnar. Í flestum tilvikum mætti reikna með 2–4 vikum frá því að beiðni um upplýsingar berst.
    3. mgr. greinarinnar kveður á um að ákvæði 1. og 2. mgr. gildi einnig um þá félagsaðila sameiginlegra umsýslustofnana sem eru í fyrirsvari fyrir rétthafa, sbr. 4. tölul. 2. gr. frumvarpsins, í þeim mæli sem þeir falla undir þessi lög skv. 6. og 7. mgr. 1. gr. frumvarpsins, sbr. ákvæði 24. gr. frumvarpsins.
    Í 4. mgr. greinarinnar er kveðið á um að ráðuneyti, sem fer með málefni höfundaréttar, geti, ef um gróf eða endurtekin brot á lögum þessum er að ræða af hálfu umsýslustofnana sem viðurkennd eru á grundvelli ákvæða höfundalaga í 4. mgr. 11. gr., 5. mgr. 25. gr. b, 4. mgr. 26. gr. a, 2. mgr. 47. gr. og 3. mgr. 47. gr. b, ákveðið að fella niður slíka viðurkenningu að hluta eða öllu leyti. Niðurfelling viðurkenningar er viðamikil ákvörðun og þess vegna er undirstrikað að aðeins verði gripið til slíkra ráðstafana ef um gróf eða endurtekin brot er að ræða. Málsmeðferð vegna mögulegrar afturköllunar færi samkvæmt stjórnsýslulögum.

Um 37. gr.

    Greininni er ætlað að innleiða hluta af ákvæðum 36. gr. tilskipunarinnar, sjá til hliðsjónar formálsgrein 49 með tilskipuninni um virka framfylgd og formálsgrein 50 með tilskipuninni um eftirlit með sameiginlegum umsýslustofnunum.
    Í 1. mgr. er tiltekið að fyrir brot á lögum þessum skuli því aðeins refsa að þau séu framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi og að fyrir hlutdeild í brotum skuli refsa á sama hátt.
    Í 2. mgr. er upptalning í 11 liðum um þau ákvæði sem vanræksla á að framfylgja getur varðað sektum. Verður vísað til athugasemda með þeim ákvæðum hér að ofan til nánari skýringar.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að ef brot er framið á vegum sameiginlegrar umsýslustofnunar, félags eða annars fyrirtækis megi dæma fésekt á hendur því, sjá nánar um refsiábyrgð lögaðila í II. kafla A almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að ákvæði 2. mgr. skuli eiga við félagsaðila sameiginlegra umsýslustofnana sem eru samtök í fyrirsvari fyrir rétthafa, að því leyti sem slík samtök falla undir ákvæði laganna, sbr. 6. og 7. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Sameiginlega umsýslustofnunin sem slík rétthafasamtök eru aðilar að verður almennt ekki meðábyrg fyrir athöfnum sem aðildarfélögin eru ábyrg fyrir, ef skilyrði 24. gr. frumvarpsins eru uppfyllt, nema til komi sérstök hlutdeildarábyrgð.
    Í 5. mgr. er undirstrikað að lögaðilar geti sætt refsiábyrgð í samræmi við ákvæði II. kafla A almennra hegningarlaga.

Um 38. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 39. gr.

    Samkvæmt tilskipuninni áttu aðildarríki ESB að innleiða ákvæði t ilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/26/ESB um sameiginlega umsýslu höfundaréttar og skyldra réttinda og leyfisveitingar yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum á innri markaðnum fyrir 10. apríl 2016. Hvað varðar EFTA-EES-ríkin þá skal innleiðing tilskipunarinnar taka gildi á gildistökudegi ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 186/2017 frá 22. september 2017. Alþingi aflétti stjórnskipulegum fyrirvörum vegna þeirrar ákvörðunar með þingsályktun nr. 28/148 þann 7. júní 2018. Norðmenn hafa hins vegar ekki enn aflétt stjórnskipulegum fyrirvörum sínum vegna ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 186/2017 og því er dagsetning gildistöku ákvörðunarinnar ekki enn ljós. Ástæða þess er sú að Norðmenn vinna enn að gerð frumvarps til innleiðingar sem stefnt er að leggja fyrir norska þingið haustið 2019. Ekki þykir rétt að láta slíka óvissu ríkja um gildistökudaginn og því lagt til að miða við ákveðna dagsetningu, þ.e. 1. janúar 2020. Á þeim tíma ættu Norðmenn að vera búnir að aflétta sínum stjórnskipulegu fyrirvörum.
    Tillagður gildistökudagur skv. 1. mgr. greinarinnar á þó ekki við um ákvæði 32. gr. frumvarpsins um aðgang að leyfisveitingum yfir landamæri, heldur er lagt til í 2. mgr. 39. gr. frumvarpsins að ákvæði 32. gr. frumvarpsins taki ekki gildi fyrr en einu ári eftir gildistökudag ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 186/2017 frá 22. september 2017.
    Frumvarpið á við réttindatekjur sem innheimtar eru frá og með 1. janúar 2020. Það þýðir að reglur frumvarpsins um úthlutun og útborgun réttindatekna munu eiga við þær réttindatekjur sem innheimtast eftir þau tímamörk. Jafnframt mun þurfa að skila gagnsæisskýrslu skv. 23. gr. frumvarpsins fyrir árið 2020 og taka til innheimtra réttindatekna og meðferð þeirra það ár.
    Ákvæði 3. mgr. hafa í för með sér að ákvæði 40. gr. um ný ákvæði í höfundalögum taka ekki til samninga um réttindi sem samið er um fyrir 1. janúar 2020. Ekki þarf því að endurskoða slíka samning að því leyti. Önnur ákvæði sem þar eru lögð til munu heldur ekki eiga við eldri gerðir.

Um 40. gr.

    Þessari grein er ætlað að innleiða 16. og 17. gr. tilskipunarinnar, sbr. formálsgreinar 31–33, með því að tvær nýjar greinar verði teknar upp í höfundalög í nýjum kafla, II. kafla A með heitinu „Tengsl sameiginlegra umsýslustofnana og samningsbundinna notenda“. Hugtök og heiti sem notuð eru í frumvarpsgreininni skulu vera túlkuð í samræmi við orðskýringar í 2. gr. frumvarpsins til laga um sameiginlega umsýslu höfundaréttar.
    Í a-lið 40. gr. frumvarpsins er þannig lagt til að ný grein, 26. gr. d, verði tekin upp í höfundalög sem innleiðing á ákvæðum 16. gr. tilskipunarinnar. Í a-lið þeirrar greinar er kveðið á um að aðilar skuli taka þátt í samningaumræðum í góðri trú og veita hver öðrum allar nauðsynlegar upplýsingar. Ákvæðið skyldar ekki hina sameiginlegu umsýslustofnun til að veita leyfi, eingöngu að taka þátt í umræðu um leyfisveitingu í góðri trú.
    Krafan í 2. mgr. a-liðar um að skilmálar leyfisveitinga skulu byggjast á hlutlægum viðmiðunum án mismununar er í samræmi við dómaframkvæmd ESB dómstólsins. Ákvæðið um að skilmálar sem samið er um fyrir nýja tegund þjónustu á netinu skuli ekki vera fordæmisgefandi fyrstu þrjú árin er vegna þess að í samningum um nýja þjónustu ríkir ávallt mikil óvissa um hvernig skuli semja og ekki víst að réttu meðalhófi sé náð í fyrstu atrennu.
    3. mgr. a-liðar á að tryggja að rétthafar fái viðeigandi þóknun fyrir notkun á réttindum þeirra. Þóknun fyrir einkaréttindi og vegna afnotakvaða á vegum sameiginlegra umsýslustofnana skal vera í sanngjörnu hlutfalli við viðskiptalegt virði réttindanna og eðli og umfang notkunar sem stofnunin veitir heimild fyrir. Þetta er í samræmi við reglur sem ESB dómstólinn hefur mótað í dómum sínum um gjaldtöku og gjaldskrár vegna þóknunar sem sameiginlegar umsýslustofnanir innheimta vegna einkaréttinda og afnotakvaða. Sömu viðmið eiga hins vegar ekki við um bætur, t.d. vegna eintakagerðar til einkanota, sbr. 3. og 4. mgr. 11. gr. höfundalaga, eða vegna umsamins endurgjalds í samningum einstakra rétthafa.
    4. mgr. a-liðar kveður á um upplýsingaskyldu sameiginlegra umsýslustofnana til notenda um gjaldskrár og þau viðmið sem þær eru byggðar á. Slíkar upplýsingar eiga að auðvelda notendum að meta réttmæti gjaldskránna enda er það grundvallarforsenda að gjaldskrár eigi að vera sanngjarnar. Ef um er að ræða sérstök tilvik sem ekki er hægt að upplýsa vegna aðstæðna í því tiltekna máli þá skulu stofnanirnar samt sem áður leitast við að upplýsa um meginviðmiðin.
    5. mgr. a-liðar kveður á um skyldur sameiginlegra umsýslustofnana í samskiptum við notendur sem sækja um leyfi til notkunar réttinda sem stofnanir hafa umsýslu með. Þær skulu svara beiðnum notenda án ótilhlýðilegra tafa og sömuleiðis veita leyfi að uppfylltum kröfum án ótilhlýðilegrar tafar eða rökstyðja af hverju slíkt leyfi er ekki veitt. Ákvæði skyldar því ekki sameiginlegu umsýslustofnunina til að veita leyfi heldur einungis til að draga ekki ferlið á langinn og rökstyðja höfnun leyfis.
    6. mgr. a-liðar kveður á um að notendur eigi að geta haft rafræn samskipti við sameiginlegar umsýslustofnanir. Á það við öll samskipti, t.d. eftir atvikum, að því er varðar skýrslugjöf um notkun leyfis. Slík rafræn samskipti geta t.d. verið í formi tölvupósta.
    7. mgr. a-liðar um að 1. mgr. skuli gilda fyrir allar sjálfstæðar umsýslueiningar sem hafa staðfestu hér á landi, sbr. 2. tölul. 2. gr. frumvarpsins, kemur til af því að kveðið er á um í 4. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar að reglur sem felast í 1. mgr. a-liðar um góða trú samingaaðila og gagnkvæma upplýsingagjöf skuli einnig eiga við um sjálfstæðar umsýslustofnanir.
    8. mgr. a-liðar um að deilum sameiginlegrar umsýslustofnunar, sem veitir eða býður veitingu fjölþjóðlegra leyfa yfir landamæri fyrir netnotkun tónverka, við raunverulegan eða mögulegan þjónustuveitanda á netinu varðandi beitingu 1.–6. mgr. megi vísa til úrskurðarnefndar um höfundaréttarmál skv. 57. gr. svo framarlega sem deilurnar varði slík fjölþjóðleg leyfi verður að skoða í samhengi við ákvæði a-liðar 2. mgr. 34. gr. tilskipunarinnar og 35. gr. frumvarpsins. Af lagatæknilegum ástæðum er nauðsynlegt að endurtaka þessa heimild aftur í 8. mgr. a-liðar 40. gr. frumvarpsins sem verður 8. mgr. 26. gr. d í höfundalögum ef frumvarpið verður samþykkt.
    Í b-lið 40. gr. frumvarpsins er fjallað um skyldur notenda og lagt til að ný grein, 26. gr. e, verði sett í höfundalög um það efni.
    Í 1. mgr. b-liðar er kveðið á um að notendur skulu láta sameiginlegri umsýslustofnun í té allar viðeigandi upplýsingar sem þeir búa yfir um notkun réttinda, sem sameiginleg umsýslustofnun er í fyrirsvari fyrir, og þörf er á vegna innheimtu tekna af réttindum og fyrir úthlutun og útborgun réttindagreiðslna til rétthafa. Almennt er það leyfissamningur sameiginlegu umsýslustofnunarinnar og notenda sem liggur til grundvallar upplýsingaskyldunni samkvæmt þessu ákvæði en einnig getur verið kveðið á um upplýsingaskyldu notenda í almennum gjaldskrám stofnunarinnar. Upplýsingaskylda notenda er þó takmörkuð við þær upplýsingar sem þeir hafa undir höndum. Hins vegar útilokar ákvæðið ekki að aðilar geti samið um frekari upplýsingaskyldu.
    Í 2. mgr. b-liðar er tiltekið að upplýsingar skv. 1. mgr. skuli afhendast eins fljótt sem auðið er eftir not viðkomandi réttinda ef ekki er samið um sérstakan afhendingartíma þeirra. Þetta ákvæði á að tryggja að hin sameiginlega umsýslustofnun geti haldið þá fresti sem henni eru settar til að úthluta réttindatekjum.
    Í 3. mgr. b-liðar er undirstrikað að ef notandi og sameiginleg umsýslustofnun semja ekki sérstaklega um á hvaða formi upplýsingar skv. 1. mgr. skuli látnar í té, skuli notandinn nota þau skýrsluform sem sameiginlega umsýslustofnunin lætur í té, nema slíkt teljist ósanngjarnt. Skv. 17. gr. tilskipunarinnar er meginreglan sú að við ákvörðun á því formi sem veita skal slíkar upplýsingar skulu sameiginlegar umsýslustofnanir og notendur, eftir því sem hægt er, taka tillit til valfrjálsra staðla innan atvinnulífsins.
    Álitamál um upplýsingaskyldu notenda skv. 1.–3. mgr. má leggja fyrir úrskurðarnefnd um höfundaréttarmál skv. 57. gr. höfundalaga, sbr. 4. mgr. b-liðar. Þetta ákvæði hefur í för með sér að úrskurðarnefndin getur, í fyrsta lagi, úrskurðað um umfang upplýsingaskyldunnar, hvort sem hún er byggð á ákvæði 1. –3. mgr. eða á samningi aðila. Þannig getur nefndin ákveðið að upplýsingaskyldan sé of víðtæk ef hún fer t.d. út fyrir það sem nauðsynlegt er fyrir hagsmuni sameiginlegu umsýslustofnunarinnar af því að fá slíkar upplýsingar með hliðsjón af getu notandans til að afla viðkomandi upplýsinga. Í öðru lagi getur úrskurðarnefndin tekið afstöðu til hvort kröfur um það form sem upplýsingar skuli berast á séu ósanngjarnar, hvort sem samið hefur verið um formið eða byggt á ákvæði 3. mgr. þessarar greinar.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Ákvæðinu er ætlað að innleiða 2. tölul. 8. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar og varðar það hvenær sameiginleg umsýslustofnun skal upplýsa rétthafa, sem fyrir gildistöku laganna hafa gefið þeim heimild til að hafa umsjón með réttindum sínum, um réttindi þeirra skv. 1. –6. mgr. 3. gr. frumvarpsins sem og þau skilyrði sem sett hafa verið varðandi rétt sem þeir hafa skv. 3. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Tímamarkið er sex mánuðum eftir gildistökudag ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 186/2017 frá 22. september 2017.
    Þetta ákvæði tekur ekki til rétthafa sem sameiginlegar umsýslustofnanir annast umsýslu á réttindum þeirra skv. samningskvaðasamningi.

1    Svo í íslenskri þýðingu tilskipunarinnar, enska orðið er „broadcasters“. Í höfundalögum er ýmist talað um útvarpsstofnanir eða útvarpsstöð, sbr. 48. gr. höfundalaga með síðari breytingum. Í lögum um fjölmiðla nr. 38/2011 teldist útvarpsstofnun eða stöð væntanlega vera „fjölmiðlaveita“.
2    Á Íslandi hefur skapast sú hefð að nefna útgefendur tónlistar „tónlistarforleggjara“.