Ferill 833. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1493  —  833. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Ingu Sæland um rannsóknir á flotvörpuveiðum á síld og loðnu.


     1.      Hafa flotvörpuveiðar á síld og loðnu verið rannsakaðar á vegum íslenskra rannsóknastofnana, þ.e. þættir á borð við kjörhæfni síldar- og loðnuvarpna, afföll síldar/loðnu við möskvasmug og áhrif skipa og flotvarpa á göngur og útbreiðslu síldar/loðnu á veiðislóðinni?
    Ráðuneytið óskaði eftir greinargerð frá Hafrannsóknastofnun vegna þessarar fyrirspurnar.
    Rannsóknir á flotvörpum hafi verið gerðar í fjölmörgum leiðöngrum Hafrannsóknastofnunar bæði með myndavélum og með svokölluðum yfirpokum. Þessar rannsóknir hafa gefið vísbendingar um að smug á síld eigi sér stað í stærri möskvum vörpunnar en niðurstöður ekki taldar nógu afgerandi til birtingar. Á þeim myndum sem til eru þá virðist fiskur sjaldan snerta trollið sjálft. Þá er möskvi í poka flotvörpu við síldveiðar ávallt hafður smár til að koma í veg fyrir smug.
    Loðna hefur mun minni sundgetu en síld enda mun smærri. Miklu myndefni var safnað af viðbrögðum loðnu við flotvörpu árið 2007. Loðna sýnir lítil viðbrögð við veiðarfærinu. Megnið af loðnunni smaug út frá fremsta hluta vörpunnar þar sem möskvar eru mjög stórir. Niðurstöður hafa verið kynntar í fyrirlestrum og blaðagreinum. Sú umræða hefur leitt til þróunar á loðnuflotvörpunni sem stendur enn.
    Áhrif skipa eða veiðarfæra á göngumynstur fiska hafa ekki verið könnuð hér við land og er Hafrannsóknastofnun ekki kunnugt um að slíkt hafi heldur verið rannsakað annars staðar.

     2.      Hafi slíkar rannsóknir verið gerðar, í hvaða heimildum má nálgast niðurstöður þeirra?
    Í meðfylgjandi greinargerð Hafrannsóknastofnunar eru tilteknar nokkrar rannsóknir og heimildir um hvar niðurstöður þeirra er að finna.

     3.      Hvað er helst vitað um fyrrgreinda áhrifaþætti úr erlendum rannsóknum?
    Í greinargerð Hafrannsóknastofnunar segir að lítið sé af rannsóknum af þessu tagi erlendis. Minnst er á eina rannsókn varðandi möskvasmug á síld í Eystrasalti og heimildar getið. Sú rannsókn laut að smugi úr poka en hér við land er smár möskvi notaður til að koma í veg fyrir smug úr poka. Hafrannsóknastofnun er kunnugt um rannsóknir þar sem bæði hefur verið beitt myndavélum og svokölluðum yfirpoka líkt og gert hefur verið hér við land en þær rannsóknir hafa ekki gefið af sér niðurstöður sem fengist hafa birtar í vísindaritum.
    Þá segir í greinargerðinni að engar rannsóknir séu þekktar um áhrif skipa eða veiðarfæra á göngumynstur fiska. Til eru margar ritrýndar greinar um viðbrögð fiska við veiðarfærum eða hávaða frá skipum en ávallt talað um skammvinn og staðbundin áhrif.

     4.      Leyfa Norðmenn og Færeyingar flotvörpuveiðar á síld og loðnu og ef svo er, með hvaða skilyrðum?
    Hafrannsóknastofnun hefur vitneskju um að síldveiðar eru stundaðar með flotvörpu frá Færeyjum með svipuðum reglum og við Ísland. Loðnuveiðar eru ekki stundaðar við Færeyjar enda er tegundina ekki að finna í veiðanlegu magni á því hafsvæði. Heimilt er að nota flotvörpu við síld- og loðnuveiðar við Noreg.
    Meðfylgjandi er greinargerð Hafrannsóknastofnunar, um rannsóknir á veiðum á síld og loðnu með flotvörpu, sem tekin var saman í tilefni af fyrirspurninni.


Fylgiskjal.



Greinargerð Hafrannsóknastofnunar.
(Reykjavík, 30. apríl 2019.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.








Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.