Ferill 417. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1510  —  417. mál.




Frumvarp til laga


um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs.

(Eftir 2. umræðu, 13. maí.)


I. KAFLI

Gildissvið, markmið og orðskýringar.

1. gr.

Gildissvið.

    Starfssvið samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs nær til skipulagðrar starfsemi eða starfsemi í tengslum við hana á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Ungmennafélags Íslands, æskulýðssamtaka sem starfa á grundvelli æskulýðslaga og aðila sem gera samning við það ráðuneyti sem fer með íþrótta- og æskulýðsmál um rekstrarframlag vegna sambærilegrar starfsemi.


2. gr.

Markmið.

     Markmið laga þessara er að íþrótta- og æskulýðsstarf fari fram í öruggu umhverfi og að börn, unglingar og fullorðnir, óháð kynferði eða stöðu að öðru leyti, geti stundað íþróttir eða æskulýðsstarf og leitað sér aðstoðar eða leitað réttar síns vegna atvika og misgerða sem eiga sér stað án þess að þurfa að óttast afleiðingarnar.

3. gr.

Orðskýringar.

    Með atvikum og misgerðum í lögum þessum er átt við andlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi og áreitni, einelti og önnur sambærileg tilvik. Með því er átt við:
     1.      Einelti: Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa, hunsa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.
     2.      Ofbeldi: Hvers kyns hegðun sem leiðir til eða getur leitt til líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennd svipting frelsis.
     3.      Kynbundin áreitni: Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.
     4.      Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns kynferðisleg hegðun í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.


II. KAFLI

Starf samskiptaráðgjafa.

4. gr.

Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs.

    Ráðherra setur á fót starf samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs til fimm ára í senn.
    Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs skal hafa háskólamenntun og þekkingu sem nýtist í starfi.

5. gr.

Hlutverk samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs.

    Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs hefur það hlutverk að bæta umgjörð samtaka og félaga, sem falla undir lög þessi, í samráði við þau. Hann skal stuðla að öryggi þeirra sem taka þátt í starfi þeirra samtaka og félaga.
    Hlutverk sitt rækir hann m.a. með því að:
     1.      Koma með virkum hætti á framfæri upplýsingum til þeirra, sem taka þátt í starfsemi þeirra félaga og samtaka sem falla undir lög þessi, um atvik og misgerðir í þeim tilgangi að auka þekkingu og stuðla að réttum viðbrögðum við þeim.
     2.      Leiðbeina þeim einstaklingum sem til hans leita vegna atvika eða misgerða sem orðið hafa í skipulögðu starfi félaga og samtaka sem falla undir lög þessi eða í tengslum við það um þau úrræði sem standa til boða, hvernig kvörtun er komið á framfæri við rétt yfirvöld og eftir atvikum um þá þjónustu sem ríki og sveitarfélög bjóða upp á.
     3.      Aðstoða samtök og félög sem falla undir lög þessi við að gera viðbragðsáætlanir vegna atvika og misgerða sem verða í starfi þeirra og stuðla að samræmingu á landsvísu, eftir atvikum í samráði við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, æskulýðssamtök og önnur samtök.
     4.      Veita ráðgjöf til þeirra sem taka þátt í starfsemi félaga og samtaka sem falla undir lög þessi um fyrirbyggjandi aðgerðir.
     5.      Fylgjast með rannsóknum og þróun á verksviði samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs og koma upplýsingum á framfæri við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, æskulýðssamtök og önnur samtök sem falla undir lög þessi.
     6.      Taka saman upplýsingar um starf samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs og þær tilkynningar sem honum hafa borist á liðnu almanaksári.

6. gr.

Framkvæmd starfs.

    Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs er í störfum sínum óháður fyrirmælum frá öðrum. Ráðgjöf hans byggist á og er í samræmi við bestu þekkingu á hverjum tíma.
    Hann skal árlega gefa skýrslu til ráðherra um starf samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs á liðnu almanaksári.
    Samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs er ekki heimilt að innheimta gjald af notendum þjónustunnar sem hann veitir.
    Hann skal gæta þess að persónuupplýsinga sé aflað með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga samkvæmt fyrirmælum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, og lögum um opinber skjalasöfn, nr. 77/2014, með áorðnum breytingum. Hann skal einungis afla viðeigandi upplýsinga og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang þeirra og að þær séu áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum.
    
    

7. gr.

Þagnarskylda.

    Samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs er óheimilt að skýra frá þeim atriðum sem hann verður áskynja um í starfi sínu og leynt eiga að fara. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.
    Samþykki þess sem til hans leitar og eftir atvikum forsjáraðila leysir samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs undan þagnarskyldu. Þagnarskylda nær ekki til atvika eða misgerða sem ber að tilkynna lögum samkvæmt, t.d. þegar tilkynningarskylda er fyrir hendi samkvæmt barnaverndarlögum, nr. 80/2002. Í þeim tilvikum ber samskiptaráðgjafanum skylda til að koma upplýsingum um atvik eða misgerðir á framfæri við þar til bær yfirvöld.
    Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs getur, óháð þagnarskyldu viðkomandi aðila, krafið þá aðila sem skipuleggja eða bera ábyrgð á íþrótta- eða æskulýðsstarfi um allar þær upplýsingar sem hann metur nauðsynlegar til að hann geti sinnt hlutverki sínu og er viðkomandi aðilum þá skylt að láta honum í té umbeðnar upplýsingar.

III. kafli

Önnur ákvæði.

8. gr.

Stjórnvaldsfyrirmæli.

     Ráðherra skal með reglugerð setja nánari reglur um starf samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs, m.a. um kynningarstarf, útgáfumál, starfshætti og starfsskilyrði samskiptaráðgjafa, svo sem starfshlutfall og staðsetningu.
    Ráðherra er heimilt að fela þriðja aðila með samningi að sinna hlutverki samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs.

9. gr.

Gildistaka og breyting á öðrum lögum.

     Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 2019. Ákvæði til bráðabirgða I tekur þó þegar gildi.
    Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á íþróttalögum, nr. 64/1998: Á eftir 15. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:
    Óheimilt er að ráða til starfa hjá aðilum sem falla undir lög þessi og sinna börnum og ungmennum undir 18 ára aldri í íþróttastarfi einstaklinga sem hlotið hafa refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Sama gildir um þá sem hlotið hafa refsidóm fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, á síðastliðnum fimm árum. Ákvæði þetta nær einnig til þeirra sem falin er umsjón með börnum og ungmennum undir 18 ára aldri á grundvelli sjálfboðaliðastarfs.
    Yfirmenn þeirra aðila sem falla undir lög þessi og sinna íþróttastarfi eiga rétt til upplýsinga úr sakaskrá um það hvort tiltekinn einstaklingur sem sótt hefur um starf við að sinna börnum og ungmennum undir 18 ára aldri hefur hlotið dóm vegna brota sem 1. mgr. tekur til, að fengnu samþykki hans. Á þetta einnig við um þann einstakling sem hyggst taka að sér sjálfboðaliðastarf.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.


    Ráðherra er heimilt að undirbúa gildistöku laga þessara m.a. með því að útvista starfi samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs til þriðja aðila, auglýsa og ráða í starfið.

II.


     Eftir 1. janúar 2024 skulu lög þessi endurskoðuð og getur ráðherra þá lagt niður starf samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs að fenginni umsögn hagsmunaaðila.