Ferill 767. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1527  —  767. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um samtök um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Vilberg Guðjónsson, Ásdísi Jónsdóttur og Gísla Rúnar Pálmason frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Guðbjörgu Andreu Jónsdóttur frá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, Ragnheiði Huldu Proppé frá félagsvísindasviði Háskóla Íslands, Guðrúnu Nordal frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Sigurð Guðjónsson og Sóleyju Morthens frá Hafrannsóknastofnun – rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna, Trausta Baldursson frá Náttúrufræðistofnun Íslands og Hrafnhildi Valdimarsdóttur og Kristínu S. Vogfjörð frá Veðurstofu Íslands.
    Nefndinni bárust umsagnir frá félagsvísindasviði Háskóla Íslands, Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, Hafrannsóknastofnun – rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna, Náttúrufræðistofnun Íslands, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Veðurstofu Íslands.
    Tilefni og tilgangur frumvarpsins er að gera Íslandi kleift með innleiðingu reglugerðar ráðsins (EB) nr. 723/2009 frá 25. júní um lagaramma Bandalagsins um samtök um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC) ásamt reglugerð ráðsins (ESB) nr. 1261/2013 frá 2. desember 2013 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 732/2009 að gerast aðili að samtökum um evrópska rannsóknarinnviði. Með innleiðingu reglugerðanna opnast tækifæri fyrir íslenskt vísindasamfélag til að taka þátt í samstarfi um uppbyggingu og rekstur rannsóknarinnviða sem eru af þeirri stærðargráðu að ógerningur er fyrir einstök ríki að fjármagna slíka innviði sjálfstætt.
    Samhljómur var á meðal gesta um mikilvægi þess að samþykkja frumvarpið og tryggja þátttöku og samstarf um evrópska rannsóknarinnviði. Samþykkt þess eykur m.a. möguleika íslensks vísindasamfélags á aðgangi að rannsóknarinnviðum og fjármagni úr samkeppnissjóðum. Nefndin tekur undir framangreint og áréttar jafnframt að fjárhagsleg áhrif snúa ekki einvörðungu að kostnaði af þátttöku Íslands í erlendum ERIC-samtökum heldur er einnig um að ræða jákvæð fjárhagsleg áhrif fyrir vísindasamfélagið. T.d. hefur þátttaka Íslands í rannsóknarverkefnum leitt til styrkveitinga sem eru hærri en kostnaður við þátttöku í slíku samstarfi. Þá er einnig um að ræða fagleg áhrif fyrir vísindasamfélagið.
    Nefndin leggur til minni háttar orðalagsbreytingar á 1. og 5. gr. frumvarpsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðsins „heimila“ í 1. gr. komi: stuðla að.
     2.      Í stað orðanna „umsóknir Íslands að“ í 5. gr. komi: umsóknir um þátttöku Íslands í.


    Páll Magnússon og Helgi Hrafn Gunnarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álitið með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 14. maí 2019.

Páll Magnússon,
form.
Hjálmar Bogi Hafliðason, frsm. Andrés Ingi Jónsson.
Anna Kolbrún Árnadóttir. Birgir Ármannsson. Guðmundur Andri Thorsson.
Halla Gunnarsdóttir. Helgi Hrafn Gunnarsson. Jón Steindór Valdimarsson.