Ferill 913. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1535  —  913. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur, nr. 87/2018 (veitinga- og skemmtistaðir).

Flm.: Ólafur Þór Gunnarsson, Ari Trausti Guðmundsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir.


1. gr.

    Við 12. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Einungis er heimilt að nota rafrettur á veitinga- og skemmtistöðum sem eru þannig útbúnir að öðrum gestum stafi ekki ónæði af notkuninni.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Á 148. löggjafarþingi voru samþykkt lög um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur, nr. 87/2018, og notkun rafrettna og sala þar með gerð heimil. Mörg sjónarmið komu fram við umræðu málsins á þingi, en þó var nokkur samstaða um að með lagasetningunni væri eytt óvissu sem verið hafði í nokkurn tíma. Við lagasetninguna var gætt meðalhófs, en samþykkt laganna var einnig þáttur í innleiðingu á reglum EES-svæðisins um sama efni.
    Mikil umræða hefur verið í samfélaginu undanfarnar vikur og mánuði um aukna notkun rafrettna og áhyggjur hafa aukist af því að neysla nikótíns hafi aukist. Umræður um ónæði sem kann að stafa af rafrettunotkun hefur einnig verið til umræðu.
    Tilgangur frumvarpsins er að tryggja rétt þeirra sem ekki vilja vera í rafrettureyk til reyklauss umhverfis og má í því sambandi vísa til 9. gr. laga um tóbaksvarnir, nr. 6/2002, um sambærilegt efni. Með ákvæðinu er skilgreind heimild til notkunar rafrettna á veitinga og skemmtistöðum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
    Þrátt fyrir að rafrettur og bein og óbein neysla þeirra hafi verið rannsakað töluvert eru langtímaáhrif notkunarinnar enn ekki ljós. Því má segja að þrátt fyrir rétt einstaklinga til að velja slíka notkun fyrir sjálfa sig geti í því vali ekki falist réttur til að velja það sama fyrir aðra. Réttur þeirra sem ekki vilja nota rafrettur hlýtur því að þurfa að vera ríkari en réttur þeirra sem vilja nota þær, enda sé sá réttur ekki óhóflega skertur. Neysla rafrettna í afmörkuðu rými á veitingastöðum eða skemmtistöðum, án tilhlýðilegrar loftræstingar eða afmörkunar, á því ekki að skerða rétt annarra til að anda að sér ómenguðu lofti. Flutningsmenn telja skynsamlegt að takmarka notkun rafrettna á framangreindum stöðum þannig að aðrir verði ekki fyrir ónæði, líkt og hefur verið gert með tóbaksreyk. Vegna óvissu um langtímaáhrif notkunar telja flutningsmenn málefnalegt að verja þá sem ekki vilja anda að sér rafrettureyk fyrir áhrifum notkunarinnar og því ónæði sem kann af því að hljótast.
    Flutningsmenn gera sér ljóst að notkun rafrettna getur stuðlað að því að notendur hætti tóbaksreykingum og sem slík getur hún hjálpað við að draga úr reykingum hjá þeim sem þegar reykja. Á allra síðustu misserum hafa á hinn bóginn komið fram upplýsingar sem geta bent til þess að með aukinni notkun nikótíns í rafrettuformi, einkum meðal ungmenna, aukist tóbaksnotkun hjá sömu hópum. Árangur Íslendinga við að draga úr tóbaksneyslu hefur vakið heimsathygli og mikilvægt að tryggja að sá árangur haldist. Með því að tryggja að notkunin á rafrettum sé takmörkuð, þó í litlu sé, er stigið mikilvægt skref í þá átt að setja mörk við notkuninni, án þess að draga úr þeim kostum sem notkun getur þó haft hjá þeim sem hafa tekið upp rafrettunotkun í stað tóbaksnotkunar.