Ferill 755. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1543  —  755. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Sigurði Páli Jónssyni um varmadæluvæðingu.


     1.      Er vinna hafin við varmadæluvæðingu á köldum svæðum, sbr. þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024 sem samþykkt var á Alþingi 11. júní 2018?
    Í þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024, sem samþykkt var á Alþingi 11. júní 2018, er að finna eftirfarandi verkefni um varmadæluvæðingu á köldum svæðum:
    „ C.5. Varmadæluvæðing á köldum svæðum.
     Verkefnismarkmið: Að draga úr raforkunotkun á köldum svæðum og auka orkuöryggi.
    Dregið verði úr raforkunotkun kyntra hitaveitna og orkuöryggi aukið með varmadæluvæðingu á köldum svæðum með því að styðja uppsetningu varmadælna. Árangur af verkefninu verði mældur í lægri orkukostnaði á landsvísu og auknu orkuöryggi.
     Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Orkusjóður.
     Dæmi um samstarfsaðila: Sveitarfélög.
     Tímabil: 2019–2023.
     Tillaga að fjármögnun: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.“
    Verkefni þetta snýr að Orkusjóði og þeim styrkveitingum sem hann hefur sinnt síðustu ár. Árin 2016 og 2018 var 12 verkefnum (6 á hvoru ári) veittur styrkur úr Orkusjóði til uppsetningar á varmadælum í opinberu húsnæði, t.d. skóla, íþróttahúsi og félagsheimili. Styrkþegar þessara verkefna eru allt sveitarfélög á köldum svæðum. Heildarupphæð þessara styrkja nemur tæpum 50 millj. kr. en ekki hefur endanlega verið gengið frá greiðslu allrar þeirrar upphæðar þar sem styrkir fást einungis greiddir að fullu þegar framkvæmdum er lokið.
    Jafnframt ber þess að geta að á fjárlögum fyrir árin 2017 og 2018 var veitt sérstök fjárveiting til uppsetningar á varmadælu í Vestmannaeyjum, 150 millj. kr. fyrir hvort ár, samtals 300 millj. kr.
    Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvers konar verkefni við uppsetningu varmadæla verða styrkt af Orkusjóði á þessu ári.
    Þá ber þess einnig að geta að á grundvelli fjárlagaliðar 04-583 (niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar) hefur Orkustofnun veitt eingreiðslu til einstaklinga á köldum svæðum til uppsetningar á varmadælum. Frá upphafi styrkveitinganna í lok árs 2009 og fram til 1. febrúar 2019 hafði Orkustofnun greitt 237 millj. kr. til 294 styrkþega. Á móti reiknast að magn raforku sem ríkið niðurgreiðir hefur lækkað um 6 GWst/ár en það samsvarar 48 millj. kr. árlegum sparnaði fyrir ríkissjóð.

     2.      Hvernig verður staðið að uppsetningu varmadæla?
    Áfram er ráðgert að stutt verði við uppsetningu varmadæla með styrkjum úr Orkusjóði og eingreiðslum til einstaklinga frá Orkustofnun. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um til hvers konar verkefna styrkir verða veittir á þessu ári eða á komandi árum. Af fjárlagalið 04-583 eru ráðgerðar 21.530.192 kr. í eingreiðslur til einstaklinga fyrir árið 2019.

     3.      Munu þeir aðilar sem fá styrk við uppsetningu á varmadælum þurfa að greiða skatt af þeim styrk?
    Samkvæmt lögum um tekjuskatt eru styrkir almennt skattskyldir og sama á almennt við um styrki Orkustofnunar til einstaklinga til uppsetningar á varmadælum. Hins vegar heimilast fullur skattfrádráttur vegna kostnaðar sem styrkjum er ætlað að mæta. Styrkþegi þarf því að færa kostnað við uppsetningu varmadælu til frádráttar fjárhæð styrksins á skattframtali og kemur þá ekki til skattskyldu af styrknum.
    Þess ber einnig að geta að samkvæmt tímabundnu ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 50/1998, um virðisaukaskatt, (ákvæði XXVII), er heimilt að endurgreiða virðisaukaskatt vegna kaupa á varmadælu til upphitunar íbúðarhúsnæðis. Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga um framlengingu á umræddu bráðabirgðaákvæði, en að óbreyttu rennur það út 28. maí 2019.