Ferill 773. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1545  —  773. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samnings um að koma í veg fyrir stjórnlausar úthafsveiðar í miðhluta Norður-Íshafsins.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Finn Þór Birgisson frá utanríkisráðuneyti og Arnór Snæbjörnsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á samningi um að koma í veg fyrir stjórnlausar úthafsveiðar í miðhluta Norður-Íshafsins (Norður-Íshafssamningurinn).
    Í greinargerð með tillögunni kemur fram að meginmarkmið Norður-Íshafssamningsins er að koma í veg fyrir stjórnlausar fiskveiðar á úthafinu í miðhluta Norður-Íshafsins, en hafsvæðið, um 2,8 milljónir ferkílómetra að stærð, telst úthaf í skilningi hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna. Fram til þessa hefur þetta hafsvæði verið þakið ís mestan hluta ársins og hafa fiskveiðar þar því ekki verið mögulegar. Með breytingum á ísþekju, hlýnun sjávar, breyttum seltuskilyrðum og breyttri hringrás, flæði og aðstreymi sjávar verður ekki lengur útilokað að síðar meir kunni fiskveiðar í atvinnuskyni á þessu hafsvæði að verða mögulegar. Samningurinn byggist á varúðarnálgun og er ætlað að tryggja að verndunar- og stjórnunarráðstafanir vegna þessa hafsvæðis verði hluti af langtímaáætlun sem miði að því að tryggja heilbrigð sjávarvistkerfi og tryggja verndun og sjálfbæra nýtingu fiskstofna. Samkvæmt samningnum skuldbinda aðilar sig annars vegar til þess að koma í veg fyrir veiðar í atvinnuskyni á samningssvæðinu á meðan vísindaleg óvissa ríkir um hvort stunda megi slíkar veiðar með sjálfbærum hætti, hins vegar skapar samningurinn ramma um hvernig taka megi næsta skref þegar vísindalegar upplýsingar styðja að hefja megi slíkar veiðar, að teknu tilliti til viðeigandi sjónarmiða varðandi stjórn fiskveiða og áhrif slíkra veiða á vistkerfið, þ.m.t. varúðarnálgunar.
    Þá kemur fram í greinargerð að við gerð Norður-Íshafssamningsins var skilgreining samningssvæðisins eitt af viðkvæmari úrlausnarefnum samningaviðræðnanna, m.a. vegna réttarstöðu hafsvæðanna í kringum Svalbarða.
    Loks kemur fram í greinargerð að framkvæmd samnings hér á landi kallar á að íslensk stjórnvöld meini íslenskum fiskiskipum að stunda veiðar á úthafinu á miðju Norður-Íshafi en engar slíkar veiðar eru stundaðar í dag.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    
    Bryndís Haraldsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Smári McCarthy voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 17. maí 2019.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir,
form.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, frsm. Ari Trausti Guðmundsson.
Logi Einarsson. Þorgerður K. Gunnarsdóttir.