Ferill 813. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1550  —  813. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Njáli Trausta Friðbertssyni um hagsmunagæslu í tengslum við útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig hefur ráðuneytið háttað upplýsingagjöf og samráði við utanríkismálanefnd vegna hagsmunagæslu í tengslum við útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu?

    Utanríkisráðuneytið leggur almennt mikla áherslu á ítarlega upplýsingagjöf og náið samráð við utanríkismálanefnd Alþingis. Á það ekki síst við vegna fyrirhugaðrar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu (Brexit).
    Í ljósi umfangsmikilla viðskipta og tengsla Íslands og Bretlands á fjölmörgum sviðum er Brexit eitt af forgangsmálum utanríkisþjónustunnar. Um nokkurt skeið hefur ríkt talsverð óvissa um það hvort Bretland gangi úr ESB með eða án útgöngusamnings. Lengst af var gert ráð fyrir því að Bretland gengi úr sambandinu 29. mars 2019 en þar sem ríkisstjórn Bretlands hefur ekki fengið samþykki breska þingsins fyrir útgöngusamningi Bretlands og ESB hefur hún óskað eftir framlengingu á aðild Bretlands að ESB og hefur útgöngu verið frestað í tvígang. Nú liggur fyrir framlenging á aðild Bretlands að ESB til 31. október 2019 nema útgöngusamningur verði samþykktur fyrr. Vegna óvissunnar um framgang mála hefur utanríkisráðuneytið gert ráðstafanir til að bregðast við mismunandi sviðsmyndum.
    Utanríkisráðuneytið hefur gætt þess af kostgæfni að utanríkismálanefnd sé ávallt upplýst um stöðu mála og hefur átt samráð við nefndina um undirbúningsvinnu stjórnvalda á hverju stigi málsins. Bresk stjórnvöld tilkynntu um útgöngu Bretlands úr ESB í lok mars 2017. Frá því í ársbyrjun 2017 hafa fulltrúar utanríkisráðuneytisins mætt tíu sinnum fyrir nefndina vegna Brexit. Þar af hefur Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra rætt um Brexit fimm sinnum við nefndina. Þá hefur utanríkisráðuneytið átt frumkvæði að því að senda nefndinni 11 ítarleg minnisblöð um mismunandi verkþætti, 12 yfirlit yfir stöðu mála og aðrar mikilvægar upplýsingar, t.d. drög að samningum sem gerðir hafa verið við Bretland um leið og þau hafa legið fyrir, skjalleysu um hugsanlegan framtíðarviðskiptasamning og ýmis bakgrunnsskjöl.
    Áfram ríkir óvissa um þróun mála og mun utanríkisráðuneytið halda áfram að vanda til verka þegar kemur að samráði við og upplýsingagjöf til utanríkismálanefndar. Nauðsynlegt er að nefndin fylgist vel með vinnu stjórnvalda í þessu mikilvæga hagsmunamáli og hafi tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Utanríkisráðuneytið kann vel að meta það góða og trausta samstarf sem það hefur átt við nefndina á þessu sviði sem öðrum og fagnar öllum ábendingum og athugasemdum frá nefndinni.