Ferill 782. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
2. uppprentun.

Þingskjal 1557  —  782. mál.
Framsögumaður.

2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum og lögum um Orkustofnun (EES-reglur, viðurlagaákvæði).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Birgi Tjörva Pétursson og Ólaf Jóhannes Einarsson, Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Erlu Sigríði Gestsdóttur og Ingva Má Pálsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Jóhönnu Bryndísi Bjarnadóttur frá utanríkisráðuneyti, Tryggva Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Jón Ingimarsson og Geir Arnar Marelsson frá Landsvirkjun, Guðmund Inga Ásmundsson og Guðjón Axel Guðjónsson frá Landsneti, Pál Erland og Baldur Dýrfjörð frá Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja, Valdimar Össurarson frá Valorku ehf., Pétur Reimarsson og Davíð Þorláksson frá Samtökum atvinnulífsins, Sigurð Hannesson og Lárus Ólafsson frá Samtökum iðnaðarins, Hilmar Gunnlaugsson og Viðar Guðjohnsen, Frosta Sigurjónsson, Bjarna Jónsson og Harald Ólafsson frá samtökunum Orkan okkar, Hönnu Björgu Konráðsdóttur, Guðmund I. Bergþórsson og Rán Jónsdóttur frá Orkustofnun, Hjört Torfason og Eyjólf Ármannsson.
    Umsagnir bárust nefndinni frá Bjarna Jónssyni, Eyjólfi Ármannssyni, Frjálsu landi, Gunnari Guttormssyni, Hilmari Gunnlaugssyni, Hjörleifi Guttormssyni, HS Orku hf., Landsneti hf., Landsvirkjun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, samtökunum Orkan okkar, Umhverfisstofnun, Valorku ehf. og Viðari Guðjohnsen.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á raforkulögum, nr. 65/2003, sem rekja má til innleiðingar þriðju raforkutilskipunarinnar. Breytingarnar lúta fyrst og fremst að því að efla raforkueftirlit Orkustofnunar með því að skýra nánar hlutverk og sjálfstæði stofnunarinnar þegar hún sinnir eftirliti með aðilum á raforkumarkaði.
    Fyrir nefndinni komu fram ýmis sjónarmið um stjórnskipuleg álitamál tengd innleiðingu þriðja orkupakka ESB. Þau heyra ekki efnislega undir nefndina og hafa fengið umfjöllun fyrir utanríkismálanefnd. Verður því ekki fjallað um þau atriði hér.
    Fram kom almennur stuðningur við að efla sjálfstæði Orkustofnunar og veita henni úrræði til að styðja við eftirlitshlutverk hennar. Með frumvarpinu er lagt til að sá hluti starfsemi Orkustofnunar sem lýtur að raforkueftirliti verði sjálfstæður gagnvart ráðherra. Með því gæti ráðherra ekki gefið Orkustofnun almenn eða sérstök fyrirmæli um framkvæmd eftirlitsins. Ráðherra færi eftir sem áður með almennt eftirlit með starfrækslu, fjárreiðum og eignum Orkustofnunar sem tilheyra raforkueftirliti.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að breytingarnar sem lagðar eru til tryggðu ekki nægjanlega það sjálfstæði sem þriðja raforkutilskipunin gerir kröfu um. Nefndin telur að með því að færa raforkueftirlit í sjálfstæða einingu sem er undanskilin forræði ráðherra séu þær kröfur sem tilskipunin gerir uppfylltar.
    Með 6. gr. frumvarpsins eru lagðar til hækkanir á eftirlitsgjöldum. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að um umtalsverða hækkun væri að ræða. Nefndin telur að horfa verði til þess að undanfarin ár hefur verið tap af rekstri raforkueftirlits Orkustofnunar og með þriðju raforkutilskipuninni er gert ráð fyrir auknum verkefnum. Má sem dæmi nefna nýjar skyldur á sviði neytendaverndar og eftirlits með smásölu- og heildsölumarkaði auk þátttöku í ACER sem bent hefur verið á að geti eflt stofnunina, aukið skilvirkni í eftirliti, styrkt þekkingu og auðveldað stofnuninni að fylgjast með þróun raforkumarkaðarins.
    Fram komu ábendingar um að ákvæði frumvarpsins þar sem lagt er til að Orkustofnun fái heimild til álagningar stjórnvaldssekta gæti valdið erfiðleikum í framkvæmd þar sem orðalag þess væri opið og víðtækt. Meiri hlutinn telur ákvæðið nógu afmarkað. Þær greinar laganna sem taldar eru upp fela í sér alvarlegri brot, svo sem að fá ekki leyfi fyrir flutningsvirkjum og virkjunum, blanda saman sérleyfisstarfsemi og annarri starfsemi og fara ekki eftir ákvæðum sem gilda um gjaldskrár og tekjumörk. Þá muni stofnunin geta lagt stjórnvaldssektir á aðila sem sinna ekki kröfum stofnunarinnar um úrbætur eða brjóta ítrekað gegn ákvæðum raforkulaga. Orkustofnun er bundin af ákvæðum stjórnsýslulaga og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar við ákvörðun um álagningu stjórnvaldssekta og ber því að gæta tiltekinna reglna við slíka ákvörðun, svo sem um meðalhóf. Meiri hlutinn telur eðlilegt að í ljósi neytendaverndar séu gerðar ríkar kröfur til aðila á raforkumarkaði.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 4. gr.
                  a.      Í stað orðanna „stjórnvaldssekt á aðila sem brýtur“ í 1. málsl. 1. mgr. b-liðar komi: stjórnvaldssektir á aðila sem brjóta.
                  b.      Í stað orðanna „10 hundraðshlutum“ í 1. málsl. 2. mgr. b-liðar komi: 10%.
     2.      Í stað orðanna „koma til framkvæmda“ í 2. málsl. 9. gr. komi: öðlast þó gildi.

    Þorgerður K. Gunnarsdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 17. maí 2019.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Halla Signý Kristjánsdóttir, frsm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir.
Birgir Ármannsson. Kolbeinn Óttarsson Proppé. Njáll Trausti Friðbertsson.