Ferill 647. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1573  —  647. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi (áhættumat erfðablöndunar, úthlutun eldissvæða, stjórnvaldssektir o.fl.).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jóhann Guðmundsson, Arnór Snæbjörnsson og Ástu Einarsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Sigurð Guðjónsson og Ragnar Jóhannsson frá Hafrannsóknastofnun, Guðna Magnús Eiríksson frá Fiskistofu, Jón Gíslason, Ernu Karen Óskarsdóttur og Viktor S. Pálsson frá Matvælastofnun, Vidar Saue, Gaute Hilling, Kjetil Korsnes og Þorstein Jónsson fyrir hönd Blue Ocean Salmon, Ásdísi Hlökk Theodórsdóttur, Egil Þórarinsson og Ottó Björgvin Óskarsson frá Skipulagsstofnun og Kristínu Lindu Árnadóttur og Agnar Braga Bragason frá Umhverfisstofnun, Leó Alexander Guðmundsson frá Erfðanefnd landbúnaðarins, Auði Önnu Magnúsdóttur frá Landvernd, Árna Finnsson frá Náttúruverndarsamtökum Íslands, Jón Kaldal frá Iceland Wildlife Fund, Helga Þór Thorarensen og Ólaf Inga Sigurgeirsson frá Háskólanum á Hólum, Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, Einar K. Guðfinnsson, Svein Friðrik Sveinsson, Jón Kristin Sverrisson og Guðberg Rúnarsson frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, dr. Árna Kristmundsson frá Rannsóknarstöð fisksjúkdóma á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, dr. Þorleif Eiríksson frá Rorum ehf., Davíð Þorláksson frá Samtökum atvinnulífsins, Jón Helga Björnsson, Óðin Sigþórsson og Árna Snæbjörnsson frá Landssambandi veiðifélaga, Guðmund Guðmundsson og Sigurð Árnason frá Byggðastofnun, Vigdísi Häsler, Guðjón Bragason, Sigurð Ármann Snævarr og Helgu Guðrúnu Jónasdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Neil Shiran Þórisson frá Arctic Fish, Kjartan Ólafsson og Kristínu Edwald lögmann frá Arnarlaxi, Hauk Oddsson, Gísla Jón Hjaltason og Davíð Kjartansson frá Hábrún ehf., Kristján G. Jóakimsson frá Háafelli ehf. og ÍS 47 ehf., Trausta Baldursson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Jóhannes Sturlaugsson, Valdimar Inga Gunnarsson og Einar Má Sigurðarson frá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi og Austurbrú, Karl Óttar Pétursson frá Fjarðabyggð, Þór Steinarsson frá Vopnafjarðarhreppi, Gauta Jóhannesson frá Djúpavogshreppi, Rúnar Gunnarsson frá Seyðisfjarðarkaupstað, Rögnvald Guðmundsson og Jón Örn Pálsson frá AkvaFuture, Jón Þór Ólason, Ara Wendel og Óttar Yngvason frá Náttúruverndarfélaginu Laxinn lifi, Friðleif Guðmundsson frá NASF – verndarsjóði villtra laxastofna, Jón Steinar Eyjólfsson frá Veiðifélagi Laxdæla, Magnús Ólafsson, Kristján Þór Björnsson og Gunnar Rúnar Kristjánsson frá Veiðifélagi Vatnsdalsár, Gunnlaug Ingólfsson frá Veiðifélagi Breiðdalsár, Björn Magnússon frá Veiðifélagi Víðidalsár, Gunnlaug Stefánsson frá Veiðifélagi Breiðdæla, Jón Þór Ólason frá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur, Jón Kristjánsson, Sigurjón Þórðarson, Guðfinnu Hörpu Árnadóttur og Unnstein Snorra Snorrason frá Landssambandi sauðfjárbænda, Hafdísi Gunnarsdóttur, Sigríði Ó. Kristjánsdóttur og Aðalstein Óskarsson frá Vestfjarðastofu, Rebekku Hilmarsdóttur, Iðu Marsibil Jónsdóttur og Þórkötlu Soffíu Ólafsdóttur frá Vesturbyggð, Bryndísi Sigurðardóttur frá Tálknafjarðarhreppi, Guðmund Gunnarsson frá Ísafjarðarbæ, Jón Pál Hreinsson frá Bolungarvíkurkaupstað, Pétur Georg Markan og Braga Thoroddsen frá Súðavíkurhreppi, Guðbjörgu Ástu Ólafsdóttur og Tómas Hrafn Sveinsson.
    Nefndinni bárust umsagnir frá AkvaFuture ehf., Arnarlaxi hf., Arctic Fish ehf., Bolungarvíkurkaupstað, Borgarbyggð, Dalvíkurbyggð, Djúpavogshreppi, dr. Þorleifi Eiríkssyni, Erfðanefnd landbúnaðarins, Fiskistofu, Fjarðabyggð, Hábrún ehf., Hafrannsóknastofnun, Helga Thorarensen, Húnaþingi vestra, Ísafjarðarbæ, Jóhannesi Sturlaugssyni, Jóni Kristjánssyni og Sigurjóni Þórðarsyni, Landssambandi veiðifélaga, Landvernd, Matvælastofnun, NASF – verndarsjóði villtra laxastofna, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúruverndarfélaginu Laxinn lifi og nokkrum veiðifélögum og veiðiréttarhöfum, Ólafi I. Sigurgeirssyni, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Skipulagsstofnun, Stangaveiðifélagi Reykjavíkur, Sveitarfélaginu Skagafirði, The Icelandic Wildlife Fund, umhverfis- og samgöngunefnd, Umhverfisstofnun, Vakanda – Rakel Garðarsdóttur, Valdimar Inga Gunnarssyni, Veiðifélagi Laxdæla, Veiðifélagi Vatnsdalsár, Veiðifélagi Víðidalsár, Vestfjarðastofu, Vesturbyggð og Þingeyjarsveit.
    Með frumvarpinu er lagt til að heildarframleiðslumagn frjórra laxa verði byggt á áhættumati erfðablöndunar, að hafsvæðum verði skipt í eldissvæði og heimiluð verði úthlutun með auglýsingu, að stjórnsýsla verði efld og eftirlit aukið með fiskeldi, að umsóknir um rekstrarleyfi á svæðum sem ekki eru burðarþolsmetin falli niður, að mælt verði fyrir um vöktun og heimild til aðgerða vegna laxalúsar, að aukið gegnsæi verði um starfsemi fiskeldisfyrirtækja, að Umhverfissjóður sjókvíaeldis verði efldur, að rekstrarleyfi fyrir ófrjóan lax verði háð nýtingu þeirra og að tekin verði upp heimild til álagningar stjórnvaldssekta.
    Megintilgangur frumvarpsins er sá að styrkja lagaumgjörð og stjórnsýslu fiskeldismála með það að markmiði að fiskeldi gangi á grundvelli sjálfbærni. Í frumvarpinu er mótuð sú stefna að það sé skilyrðislaus krafa að fiskeldi verði byggt upp á ráðgjöf vísindamanna.

Vinna nefndarinnar.
    Nefndin hefur við umfjöllun sína lagt mikla áherslu á að fá öll sjónarmið um málið upp á borðið og vega þau og meta. Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein sem mikilvægt er að setja skýrt og sanngjarnt regluverk um með það að markmiði að greinin verði sterk og öflug og sjálfbær þróun og vernd lífríkisins sé höfð að leiðarljósi. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að frumvarpið væri mikil bót á lagaumgjörð fiskeldis og styrki það verulega og mikil þörf væri á að frumvarpið verði að lögum.
    Við undirbúning umfjöllunarinnar fór atvinnuveganefnd til Bergen til að kynna sér fiskeldi í Noregi. Nefndin sótti þar NASF-sjávarútvegsráðstefnuna og ýmsa fyrirlestra um fiskeldi og sjávarútveg. Þá fór nefndin í heimsóknir og fékk fyrirlestra frá NORCE – rannsóknarstöð, Blom fiskeldisfyrirtæki, Blue Planet, norsku hafrannsóknastofnuninni, norsku fiskistofunni, norsku umhverfisverndarsamtökunum, Reddvillaksen.no, Veiði- og fiskveiðisamtökum Noregs, DNB-banka og PWC. Þá hefur nefndin haldið 19 fundi um málið, fengið á sinn fund fjölda gesta, aflað fjölmargra umsagna um málið og fengið umsögn frá umhverfis- og samgöngunefnd um þann hluta frumvarpsins sem snýr að umhverfisáhrifum fiskeldis, þ.e. mengun og áhrif á lífríki fjarða og áa. Umsögn umhverfis- og samgöngunefndar er fylgiskjal með áliti þessu. Þau atriði sem fengu mesta umfjöllun í meðferð nefndarinnar voru áhættumat erfðablöndunar, rekstrarleyfi, gildi þeirra og umsóknir um þau, sjókvíaeldi í opnum og lokuðum kerfum, kostir, gallar og áhættur, mikilvægi þess að regluverk sé endurskoðað og fylgi þróun í atvinnugreininni auk náttúruverndar- og umhverfissjónarmiða.

Áhættumat erfðablöndunar.
    Ein veigamesta breytingin sem lögð er til í frumvarpinu er lögfesting áhættumats erfðablöndunar. Lagt er til að Hafrannsóknastofnun verði gert skylt að vinna áhættumat erfðablöndunar þar sem fram komi það magn frjórra laxa sem leyfilegt er að ala í sjókvíum hverju sinni, en samkvæmt gildandi lögum ræðst heildarframleiðsla á hverju svæði af útgefnu burðarþolsmati og því framleiðslumagni sem kveðið er á um í einstökum rekstrarleyfum. Markmiðið með áhættumatinu er að koma í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum og gerir áhættumatið samkvæmt því ráð fyrir að óafturkræfum skaða sé valdið eða sjálfbærri nýtingu villts stofns sé stefnt í hættu fari fjöldi eldislaxa í veiðivatni yfir tiltekin viðmiðunarmörk.
    Fyrir nefndinni komu fram ýmsar athugasemdir við áhættumat erfðablöndunar. Lýstu gestir yfir miklum áhyggjum af áhrifum erfðablöndunar eldislax við villta nytjastofna og bentu á að rannsóknir hafi sýnt að slík erfðablöndun hafi neikvæð áhrif á lífsferil og möguleika villtra stofna til að bregðast við breytingum í umhverfi til lengri tíma litið vegna erfðabreytinga. Komu jafnframt fram sjónarmið um að áhyggjur af erfðablöndun væru óþarfar vegna skertrar hæfni eldisfiska til að tímga sig í náttúrunni, auk þess sem fullyrðingar um áhrif erfðablöndunar væru ofmetin að einhverju leyti.
    Eldi á frjóum laxi í opnum sjókvíum við Ísland hefur aukist umtalsvert á síðustu árum. Fyrst og fremst er notast við norskan lax, sem er framandi tegund í íslenskri náttúru. Því ber að gæta ýtrustu varkárni við framleiðsluna og að gera kröfu um að rekstrarleyfishafar beri ábyrgð á því að ekki verði erfðablöndun við villta íslenska laxastofna. Mikilvægt er að vernda villta nytjastofna í ám landsins. Ítrekar meiri hlutinn að megintilgangur áhættumats erfðablöndunar sé að koma í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum með því að meta við hvaða mark sjálfbærri nýtingu villtra stofna sé stefnt í hættu. Með frumvarpinu sé skerpt á skyldum rekstrarleyfishafa, m.a. til að bregðast við stroki, ásamt því að efla eftirlit og veita Matvælastofnun ríka heimild til að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota rekstrarleyfishafa. Rekstrarleyfishafar notist þar að auki við mótvægisaðgerðir, t.d. ljósastýringu og notkun stærri seiða, sem miði að því að seinka kynþroska frjólaxa. Með því séu hverfandi líkur á því að eldisfiskar nái að fjölga sér úti í náttúrunni sleppi þeir úr kvíunum. Bendir meiri hlutinn á að rannsóknir sýni að eldisfiskar standi verr að vígi en villtir stofnar og séu síður í stakk búnir til að lifa af í náttúrunni. Sú hæfni fari minnkandi eftir því sem stærri seiðum er sleppt í kvíarnar. Mótvægisaðgerðirnar stuðli þannig að því að lágmarka líkur á erfðablöndun. Þá sé einnig horft til stærðar möskva. Meiri hlutinn telur mikilvægt að tekið sé tillit til mótvægisaðgerða og leggur til að nýrri málsgrein verði bætt við á eftir 1. mgr. a-liðar 7. gr. frumvarpsins (6. gr. a) þess efnis. Meiri hlutinn bendir á að mikil áhersla sé lögð á að sem best sé staðið að fiskeldi. Mikið kapp sé lagt á að koma í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum og mótvægisaðgerðir séu hluti af því. Mikilvægt er að hvetja sem mest til þess að slíkum aðferðum sé beitt í rekstri þar sem þær draga enn frekar úr líkum á skaðlegum áhrifum eldisins og stuðla þannig að umhverfisvænni rekstri. Í 2. mgr. 13. gr. laga um fiskeldi er ákvæði sem skyldar rekstrarleyfishafa til að grípa til ráðstafana til að koma í veg fyrir vistfræðilegt tjón af völdum stroks. Til að lágmarka enn frekar líkur á erfðablöndum leggur meiri hlutinn til að auk þessa verði kveðið á um heimild Fiskistofu til að mæla fyrir um að leitað verði að strokufiski í nærliggjandi veiðiám og vötnum og hann fjarlægður. Skal það vera að fengnu samþykki stjórnar veiðifélags eða veiðiréttarhafa þegar veiðifélag hefur ekki verið stofnað.
    Með hliðsjón af öllu framangreindu leggur meiri hlutinn til breytingar á skilgreiningu á áhættumati erfðablöndunar í 1. gr. frumvarpsins til að skerpa enn frekar á því hlutverki þess að koma í veg fyrir að tíðni arfgerða villtra stofna breytist og valdi versnandi hæfni stofngerða.

Rýni áhættumats erfðablöndunar.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að forsendur í áhættumatinu væru rangar og verið sé að beita áhættumatinu til að mæla áhrif af laxeldi sem sé komið í efri mörk burðarþolsmats með þeim afleiðingum að komið sé í veg fyrir nýtingu eldissvæða. Meiri hlutinn bendir á að frumvarpið gerir ráð fyrir að áhættumat erfðablöndunar verði endurskoðað á þriggja ára fresti hið minnsta. Mikilvægt er að ekki verði farið of geyst af stað í uppbyggingu heldur séu varúðarsjónarmið í heiðri höfð. Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að áhættumat og burðarþol sé rýnt af sérfræðingum og leggur því til að við 23. gr., sem verður 24. gr., frumvarpsins verði bætt ákvæði til bráðabirgða þess efnis að ráðherra skipi þriggja manna nefnd vísindamanna á sviði fiskifræði, stofnerfðafræði og/eða vistfræði til að rýna þá aðferðafræði sem Hafrannsóknastofnun notar við mat á burðarþoli og við gerð áhættumats. Nefndin skuli skila áliti og tillögum til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir 1. maí 2020 og skuli ráðherra í kjölfarið skila Alþingi skýrslu um niðurstöður nefndarinnar og viðbrögð við þeim.

Breytt áhættumat erfðablöndunar.
    Nefndinni var bent á að með því að tillaga Hafrannsóknastofnunar að áhættumati sé bindandi fyrir ráðherra væri stofnuninni falið stjórnsýsluvald og vegið að vísindalegu sjálfstæði hennar. Meiri hlutinn bendir á að samkvæmt frumvarpinu gildi eldra áhættumat þar til nýtt áhættumat hafi verið staðfest. Ráðherra geti synjað því að staðfesta tillögu stofnunarinnar og þá gildi eldra áhættumat áfram. Ákvörðunarvaldið er því hjá ráðherra um að samþykkja áhættumat eða synja, en hann hefur ekki heimild til að breyta tillögu um áhættumat.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að veita þyrfti ráðherra heimild til að kveða nánar á um meðferð rekstrarleyfa, t.d. þegar breyta þurfi rekstrarleyfi í kjölfar breytinga á áhættumati. Nauðsynlegt væri að kveða skýrt á um viðbrögð við slíkum breytingum enda um mikla hagsmuni að ræða fyrir rekstrarleyfishafa. Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að kveðið sé skýrt á um hvernig bregðast eigi við breytingum á áhættumati, hvort heldur sem er til aukningar eða minnkunar heimilda samkvæmt rekstrarleyfi. Leggur meiri hlutinn því til að 7. gr. frumvarpsins verði breytt þannig að ráðherra verði skylt að setja slíka reglugerð þar sem nánar verði kveðið á um þessi atriði.

Samráðsnefnd um fiskeldi.
    Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að ráðherra skipi samráðsnefnd um fiskeldi sem sé stjórnvöldum til ráðgjafar um málefni fiskeldis. Hlutverk nefndarinnar sé m.a. að leggja mat á forsendur og úrvinnslu þeirra gagna sem áhættumat erfðablöndunar byggist á.
    Nefndinni var bent á að samráðsnefnd skipuð fulltrúum hagsmunaaðila geti ekki fjallað fræðilega um forsendur og úrvinnslu þeirra gagna sem áhættumat byggist á og vegi að sjálfstæði Hafrannsóknastofnunar. Fyrir nefndinni komu einnig fram sjónarmið um að slík samráðsnefnd væri mikilvægur vettvangur til að fara yfir málefni fiskeldis. Var enn fremur bent á mikilvægi þess að í samráðsnefndinni væru fulltrúar frá náttúru- og umhverfisverndarsamtökum og frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu til þess að gætt yrði að umhverfissjónarmiðum. Meiri hlutinn tekur undir að brýnt er að til staðar sé vettvangur til að ræða fiskeldi. Nauðsynlegt er að byggja upp atvinnugreinina án þess að skaði verði á náttúrunni eða öðrum hagsmunum og því er mikilvægt að allir hagsmunaaðilar hafi færi á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Meiri hlutinn telur mikilvægt að málsvarar umhverfis- og náttúruverndar eigi fulltrúa í samráðsnefndinni og að skerpt sé á tengingu við lög um náttúruvernd. Leggur meiri hlutinn því til breytingu á b-lið 2. gr. frumvarpsins þess efnis að umhverfis- og auðlindaráðuneytið tilnefni einn fulltrúa í samráðsnefndina. Meiri hlutinn leggur jafnframt til breytingu þess efnis að ráðherra setji reglugerð þar sem settar verði nánari reglur um störf samráðsnefndarinnar. Meiri hlutinn bendir á að í frumvarpinu sé tryggt að sjónarmið vísindamanna ráði hvort tekið verði tillit til sjónarmiða samráðsnefndarinnar þar sem 7. gr. frumvarpsins (2. mgr. 6. gr. a) kveði á um að Hafrannsóknastofnun skuli taka rökstudda afstöðu til álitsins og gera breytingar á tillögu hennar telji hún ástæðu til.

Sjókvíaeldi í lokuðum kerfum.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að í frumvarpið skorti frekari hvata fyrir rekstraraðila til að stunda lokað sjókvíaeldi. Nauðsynlegt sé að slíkir hvatar séu fyrir hendi til þess að rekstraraðilar sjái hag sinn í því að stunda eldi í lokuðum eldisbúnaði, þar sem slíkur búnaður sé dýrari en hefðbundnar sjókvíar. Lokaður eldisbúnaður tryggi einnig að eldisfiskur sleppi ekki út í náttúruna.
    Meiri hlutinn tekur undir að mikilvægt sé að hvetja rekstraraðila til að haga framleiðslu sinni með sem umhverfisvænstum hætti og leggur því til breytingu á 2. málsl. a-liðar 19. gr. frumvarpsins sem kveður á um að framleiðendur ófrjós fisks greiði 10 SDR árlega en þeir sem noti lokaðan eldisbúnað greiði 5 SDR.

Gildistími rekstrarleyfa.
    Nefndinni var bent á að misræmis gætti í að bæði væru gefin út ótímabundin rekstrarleyfi og leyfi tímabundin til sextán ára. Komu jafnframt fram þau sjónarmið að ótímabundnum rekstrarleyfum mætti jafna til óbeins eignarréttar yfir sameiginlegri auðlind. Meiri hlutinn telur rétt að tryggt sé að allir rekstrarleyfishafar sitji við sama borð og að slík leyfi sæti endurskoðun líkt og önnur rekstrarleyfi. Meiri hlutinn leggur því til þá breytingu á 11. gr. frumvarpsins að rekstrarleyfi verði tímabundin og skuli endurskoðuð a.m.k. á sextán ára fresti og að rekstrarleyfishafa verði skylt að leggja fram þau gögn sem nauðsynleg séu til endurskoðunar leyfisins, sé þess óskað.

Náttúruvernd.
    Þegar hefur komið fram áhersla nefndarinnar á verndun villtra nytjastofna og að gætt verði að umhverfisverndarsjónarmiðum. Nefndinni var einnig bent á að við skiptingu í eldissvæði og úthlutun þeirra sé nauðsynlegt að tengja það betur lögum um náttúruvernd og lögum um skipulag haf- og strandsvæða. Leggur meiri hlutinn því til breytingu á 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins um að við skiptingu fjarða eða hafsvæða í eldissvæði skuli til viðbótar við Skipulagsstofnun haft samráð við Umhverfisstofnun og svæðisráð viðkomandi svæðis. Með því næst einnig betri tenging við lög um náttúruvernd.
    Fyrir nefndinni komu fram þau sjónarmið að nauðsynlegt væri að skilgreina smitsjúkdómasvæði og að takmarka flutning lifandi eldisfiska og brunnbáta á milli slíkra svæða. Meiri hlutinn bendir á að í lögum nr. 60/2006, um varnir gegn fisksjúkdómum, og reglugerð nr. 300/2018, um velferð lagardýra, varnir gegn sjúkdómum og heilbrigðiseftirlit með eldisstöðvum, eru heimildir til að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að hefta útbreiðslu dýrasjúkdóma og banna flutning lagardýra til og frá eldisstöðvum nema með framvísun heilbrigðisvottorðs. Meiri hlutinn telur hins vegar rétt að þessi heimild komi skýrt fram í lögum um fiskeldi og leggur því til breytingu á 10. gr. frumvarpsins þar sem vísað verði til laga um varnir gegn fisksjúkdómum, enda er ákvæðinu ekki ætlað að hrófla við eða breyta þeim víðtæku heimildum sem þar eru lögfestar. Meiri hlutinn bendir á að um innflutning brunnbáta gilda strangar reglur, en innflutningur er háður leyfi Matvælastofnunar og eru umsóknir bornar undir fisksjúkdómanefnd áður en leyfi er gefið út. Leyfi eru gefin út með tilteknum skilyrðum og eru vottuð af opinberum aðilum í viðkomandi landi. Sérgreinadýralæknir fisksjúkdóma hefur eftirlit með að skilyrðin séu uppfyllt og gerir m.a. úttekt á brunnbátum við komu til landsins áður en þeir eru notaðir hér við land. Því telur meiri hlutinn ekki þörf á að gera breytingar á frumvarpinu hvað brunnbáta varðar.

Fyrirliggjandi umsóknir um rekstrarleyfi.
    Með a- og b-lið 23. gr., sem verður 24. gr., frumvarpsins er lagt til að við lög um fiskeldi bætist tvö bráðabirgðaákvæði. Lúta þau að því hvernig fara skuli með umsóknir sem þegar liggja fyrir um rekstrarleyfi til fiskeldis. Þar er kveðið á um að umsóknir um leyfi á svæðum sem ekki hafa verið burðarþolsmetin falla niður en að umsóknir um leyfi á svæðum sem hafa verið burðarþolsmetin halda gildi sínu og að taka skuli slíkar umsóknir til meðferðar í þeirri röð sem þær berast Matvælastofnun. Nefndin leitaði sérfræðiálits Tómasar Hrafns Sveinssonar um það hvort kæmi til skaðabótaskyldu íslenska ríkisins ef umsóknum aðila, sem hafa þegar sótt um leyfi til að stunda fiskeldi á burðarþolsmetnum svæðum, væri úthlutað í samræmi við 3. gr. frumvarpsins eða ef slíkar umsóknir yrðu felldar úr gildi. Niðurstaða Tómasar var sú að löggjafinn hefði rúmt svigrúm til að setja lög um viðfangsefnið og taldi hann ólíklegt að til skaðabótaskyldu íslenska ríkisins kæmi í framangreindum tilvikum. Fyrir nefndinni kom fram að meðferð þónokkurra umsókna væri komin á lokastig og mundi niðurfelling umsókna því ónýta mikla vinnu við mat á gögnum, umhverfismat o.fl. sem hefur kostað umsækjendur mikla vinnu og fjármuni. Leggur meiri hlutinn því til að b-liður 23. gr., sem verður 24. gr., frumvarpsins kveði á um að um þær umsóknir um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á hafsvæðum sem hafa verið metin til burðarþols, sem bárust fyrir gildistöku þessara laga og uppfylla skilyrði 8. gr. laganna eins og þau voru fyrir breytingu, fari eftir ákvæðum laganna fyrir breytingu hvað snertir meðferð og afgreiðslu umsókna. Felur breytingin í sér að þeir rekstraraðilar sem hafa lagt fram umsókn um rekstrarleyfi til Matvælastofnunar og lagt fram fullnægjandi gögn skv. 8. gr. laganna, muni hljóta afgreiðslu samkvæmt ákvæðum laganna eins og þau voru fyrir breytingu. Jafnframt munu þeir aðilar sem ekki hafa lagt inn umsókn til Matvælastofnunar en eru langt komnir í ferli hjá Skipulagsstofnun hafa tækifæri til þess að skila inn umsókn og leggja fram fullnægjandi gögn skv. 8. gr. til Matvælastofnunar fyrir gildistöku laganna. Með þessu er gætt að jafnræði þeirra aðila sem sannanlega hafa lagt út í kostnað og vinnu vegna fyrirhugaðs fiskeldis. Með gagnályktun frá ákvæðinu er ljóst að umsóknir sem berast eftir gildistöku laganna á hafsvæðum sem metin hafa verið til burðarþols fer samkvæmt þeirri málsmeðferð sem mælt er fyrir í lögunum og því á úthlutunarregla 4. gr. a við um þau svæði og þau svæði sem ekki hafa verið metin til burðarþols.

Endurskoðun laga.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að greinin stuðli að því að mennta starfsfólk í fiskeldi svo hægt sé að byggja upp öfluga þekkingu í greininni á hverju svæði. Skv. 5. mgr. 3. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að ráðherra skuli setja reglugerð um nánari ákvæði um skiptingu hafsvæða í eldissvæði, skilmála úthlutunar og fleira. Meiri hlutinn telur rétt að einn þeirra þátta sem horft verði til við það sé reynsla og þekking á starfssvæðinu, sem og fyrirhugaðrar uppbyggingar. Þá áréttar meiri hlutinn að mikilvægt er að tryggja að þær stofnanir sem fá aukið hlutverk samkvæmt lögunum séu efldar og þeim tryggt fjármagn.
    Mikil og ör þróun hefur átt sér stað í fiskeldi undanfarin ár og ljóst er að hún mun halda áfram. Það er því mikilvægt að við uppbyggingu atvinnugreinarinnar hér á landi verði ætíð stuðst við bestu fáanlegu tækni, með hagsmuni náttúrunnar í huga. Meiri hlutinn telur að ekki sé langt þangað til að eldi á frjóum laxi verði eingöngu stundað í lokuðum og hálflokuðum kvíum. Að því beri að stefna og í því skyni þarf á næstu árum að fara fram endurskoðun á lagaumhverfi fiskeldis þar sem tekið verður tillit til þeirra framfara sem hafa orðið, m.a. á eldisbúnaði. Með hliðsjón af framangreindu leggur meiri hlutinn því til að við 23. gr., sem verður 24. gr., frumvarpsins bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem kveði á um að lögin verði endurskoðuð eigi síðar en 1. maí 2024.
    Í frumvarpinu eru tvær greinar númeraðar sem 22. gr. og leggur meiri hlutinn til breytingu til að leiðrétta þá villu. Til viðbótar við framangreindar breytingar eru gerðar smávægilegar tæknilegar lagfæringar. Meiri hlutinn telur frumvarp þetta til bóta og leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 17. maí 2019.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Kolbeinn Óttarsson Proppé, frsm. Ásmundur Friðriksson.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Jón Þór Þorvaldsson. Njáll Trausti Friðbertsson.
Ólafur Ísleifsson.


Fylgiskjal.


Umsögn umhverfis- og samgöngunefndar um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi (áhættumat erfðablöndunar, úthlutun eldissvæða, stjórnvaldssektir o.fl.).


    Umhverfis- og samgöngunefnd hefur að beiðni atvinnuveganefndar frá 20. mars sl. fjallað um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi, nánar tiltekið þann hluta frumvarpsins sem snýr að umhverfisáhrifum fiskeldis, þ.e. mengun og áhrif á lífríki fjarða og áa. Nefndin hélt sameiginlegan fund með atvinnuveganefnd til að fjalla um málið. Á þann fund mættu Auður Önnu Magnúsdóttir frá Landvernd, Árni Finnsson frá Náttúruverndarsamtökum Íslands, Jón Kaldal frá Iceland Wildlife Fund, Ólafur Ingi Sigurgeirsson lektor við Háskólann á Hólum, Helgi Þór Thorarensen prófessor við Háskólann á Hólum og Heiðrún Lind Marteinsdóttir, Einar K. Guðfinnsson og Guðbergur Rúnarsson frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.
    Í búgrein á borð við fiskeldi er megináskorunin fólgin í því að finna og ástunda jafnvægi milli náttúrunytja og náttúruverndar. Fiskeldi í opnum sjókvíum er háð mörgum umhverfisþáttum og veldur álagi á þá, bæði nær og fjær. Að mati nefndarinnar er eðlilegt að gera kröfu um að slíkt fiskeldi sé sem sjálfbærast, og að það þróist jafnt og þétt til rekjanlegrar sjálfbærni. Sjókvíaeldið gerir enn ríkari kröfur til framleiðenda, sérfræðinga, leyfisveitenda, eftirlitsaðila og annarra opinberra aðila en aðrar tegundir fiskeldis. Á það við til dæmis um burðarþolsmat eldissvæða, áhættumat vegna hættu á erfðablöndun við villta laxastofna og um hvers konar vöktun, eftirlit og mótvægisaðgerðir.
    Líkt og kom fram á fundi nefndarinnar hafa margvísleg álitamál vaknað við uppbyggingu fiskeldis á Íslandi og vísindamenn jafnt sem hagaðilar, þ.e. talsmenn fiskeldisfyrirtækja, laxveiðirétthafa og náttúruverndarsamtaka, eru ósammála um sum efnisatriði sem miklu varða um þróun atvinnuvegarins.
    Nefndin telur brýnt að umhverfisvernd verði leiðandi við uppbyggingu fiskeldis til jafns við félagsleg sjónarmið sem eru hluti sjálfbærnimats hverrar atvinnugreinar. Varkárni við uppbyggingu eldisstöðva og tillit til skoðana og krafna sem miða að sem skilvirkastri náttúruvernd skulu hafðar að leiðarljósi við ákvarðanir um rekstur og þróun fiskeldisins. Öflugt innra eftirlit eldisstöðva jafnt sem skilvirkt og sterkt eftirlit opinberra aðila er þar lykilatriði. Nefndin leggur áherslu á nokkra þætti sem hún telur hvað mikilvægasta til þess að svo verði.

Áhættumat erfðablöndunar – vöktun og mótvægisaðgerðir.
    Nefndin leggur áherslu á vöktun og mótvægisaðgerðir í ljósi þess áhættumats erfðablöndunar sem er notað og lagt til að verði lögfest með frumvarpinu, og ber auk þess að endurskoða jafnt og þétt í ljósi nýrra vísindagagna. Nefndin er ekki þess umkomin að leggja mat á gæði þessa áhættumats eða á gagnrýni vísindamanna á það. Nefndin bendir engu að síður á að sólarhringsvöktun í rauntíma með bestu fáanlegu tækjum eigi að vera skylda fiskeldisfyrirtækja með opnar sjókvíar. Því þó unnið sé með spálíkön eins og áhættumat í upphafi er mikilvægt að til lengri tíma verði byggt á rauntölum úr rannsóknum og stöðugri vöktun.
    Styrkja ber eftirlit með sleppingum, jafnt eftirlit fyrirtækjanna sjálfra sem opinberra stofnana. Sleppi fiskur úr kvíum er þörf á skýrum og árangursríkum mótvægisaðgerðum. Bendir nefndin á reynslu frá Noregi þar sem leitað er að strokulöxum. Reynslan ber þess vitni að fiskarnir leita langoftast í nálægar ár þótt þeirra geti orðið vart í fjarlægum ám. Til eru aðferðir við að leita uppi og fjarlægja þess konar aðkomufiska. Meðal annars leita kafarar að þeim og fjarlægja úr ánum. Slíkar mótvægisaðgerðir ber að þróa hér á landi að mati nefndarinnar, og kosta meðal annars með fé úr atvinnugreininni.

Vöktun á burðarþoli.
    Í annan stað leggur nefndin áherslu á sem öflugasta vöktun á því ætlaða burðarþoli eldisstaða og eldissvæða sem er einn hornsteinn leyfisveitinga og reksturs. Fjöldi kvía á leyfðu eldissvæði, stærð þeirra og tímaháður tilflutningur eru breytur sem eiga að lúta varúðarreglum og vera í samræmi við ráðleggingar og kröfur stofnana sem ákvarða þær við leyfisveitingar. Nefndin telur ekki að hún geti metið á raunhæfan hátt að hvaða marki burðarþolsmælingar og burðarþolsákvarðanir eru hafnar yfir vafa eða gagnrýni. Einnig hefur reynst erfitt að fá uppgefnar áreiðanlegar tölur um magn úrgangs frá helstu stærðum opinna sjókvía. Engu að síður hvetur nefndin til þess að farið sé stranglega eftir fyrirliggjandi burðarþolsmati á hverju fiskeldissvæði og það endurskoðað og uppfært eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Nefndin áréttar mikilvægi þess að fylgst sé vandlega með uppsöfnun úrgangs á eldissvæðum, með eins tíðum mælingum og unnt er, og ávallt verði gripið til ráðstafana þegar mörkum ásættanlegs úrgangs er náð. Tilfærsla kvía og álagshvíld botns undir þeim eftir tiltekinn notkunartíma er aðalaðferðin við að hamla gegn umhverfisspjöllum á sjávarbotni vegna fiskeldis í opnum sjókvíum. Strangt eftirlit og vöktun í sem næst rauntíma er lykill að því að aðferðin beri árangur. Auknar rannsóknir afla gagna sem styrkja bæði burðarþolsmatið og mótvægisaðgerðirnar. Nefndin hvetur þar með til árvekni við víðtækt mat á umhverfisáhrifum reksturs fiskeldisstöðva og leggur áherslu á að þeim sé mætt með vísindalegum mótvægisaðgerðum þar sem þess gerist þörf og leitast verði við að lágmarka þau umhverfisáhrif sem fiskeldi getur haft, þ.m.t. á aðra atvinnustarfsemi eins og ferðaþjónustu og aðra matvælaframleiðslu á svæðinu.

Laxalús og önnur sníkjudýr.
    Að mati nefndarinnar er nauðsynlegt að efla vöktun í eldiskvíum, m.a. með tilliti til laxalúsar og annarra sníkjudýra. Nefndin fagnar aukinni áherslu á innra eftirlit rekstraraðila, m.a. með mánaðarlegri skýrslugjöf, sem eflir mótvægisaðgerðir gegn sníkjudýrum og sjúkdómum og enn fremur nýjum reglugerðarheimildum sem settar verða í lög um varnir gegn fisksjúkdómum. Nefndin áréttar mikilvægi þess að varnaraðgerðir gegn laxalús og öðrum sníkjudýrum séu umhverfisvænar.

Annað.
    Nefndin fagnar ákvæðum/hvötum í frumvarpinu og líka í framlögðu frumvarpi um gjaldtöku í fiskeldi sem ýta undir umskipti úr hefðbundnu eldi í opnum kvíum yfir í eldi með geldfisk eða eldi í lokuðum kvíum í sjó. Verið er að þróa eldi með geldfiski til æ betri vegar og eldi í lokuðum kvíum veldur takmörkuðu álagi á umhverfið, m.a. þar sem úrgangsefni frá laxinum safnast í botn kvíar en ekki á sjávarbotn. Líkur á að fiskur sleppi úr slíkum kvíum eru hverfandi.
    Umhverfissjóður sjókvíaeldis er efldur samkvæmt frumvarpinu og lýsir nefndin sérstakri ánægju með þá ráðstöfun.
    Loks fagnar nefndin samráðsnefnd um fiskeldi sem sett verður á fót. Hún mun geta eflt samstarf hagaðila og sérfræðinga og þannig stuðlað að sem umhverfisvænstu fiskeldi og styrkari vísindagrunni, jafnt áhættumats sem burðarþolsmats. Aukið gegnsæi í rekstri fiskeldis og birting upplýsinga úr honum kallar á frekara aðhald og umbætur, m.a. með því að allir hagaðilar, þ.m.t. náttúruverndarsamtök og veiðirétthafar, geta kynnt sér starfsemina með þessu móti. Með frumvarpinu eru lögð til hert viðurlög við brotum gegn lögum um fiskeldi með það að markmiði að auka varnaðaráhrif þeirra. Nefndin telur þetta til bóta og til þess fallið að ýta undir bættan rekstur í heild sinni, til góða fyrir atvinnugreinina en ekki síst umhverfið.
    Björn Leví Gunnarsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur umsögn þessari.

Alþingi, 9. apríl 2019.

Jón Gunnarsson, form.,
Ari Trausti Guðmundsson,
Hanna Katrín Friðriksson,
Páll Valur Björnsson,
Karl Gauti Hjaltason,
Líneik Anna Sævarsdóttir,
Una Hildardóttir,
Vilhjálmur Árnason.