Ferill 187. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Nr. 42/149.

Þingskjal 1926  —  187. mál.


Þingsályktun

um stöðu sveitarfélaganna á Suðurnesjum.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp fulltrúa sveitarfélaga á Suðurnesjum og fimm sérfræðinga úr forsætisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og velferðarráðuneyti til að vinna tímasetta aðgerðaáætlun um hvernig efla megi þjónustu ríkisins við íbúa á Suðurnesjum og mæta mikilli fólksfjölgun þar. Meðal þess sem hópurinn skal leggja til grundvallar aðgerðaáætluninni er mat á:
     a.      samfélagslegum áhrifum fólksfjölgunar á svæðinu,
     b.      samsetningu íbúa og mismunandi þörfum þeirra með tilliti til stöðu, aldurs, móðurmáls o.fl.,
     c.      hvort fjárframlög til ríkisstofnana á svæðinu hafi fylgt þróun byggðamála og fólksfjölgun,
     d.      áhrifum niðursveiflu í ferðaþjónustu og færri flugferða um Keflavíkurflugvöll á sveitarfélögin á svæðinu.
    Starfshópurinn skili skýrslu með niðurstöðum eigi síðar en 1. desember 2019. Forsætisráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins.

Samþykkt á Alþingi 19. júní 2019.