Ferill 750. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1948  —  750. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2020–2024.

Frá 3. minni hluta fjárlaganefndar.


Inngangur.
    Fjármálaáætlun fyrir árin 2020–2024, sú sem ríkisstjórnin lagði fram í marsmánuði, reyndist ekki langlíf og má segja að forsendur hennar hafi brostið um það leyti sem hún var lögð fram. Spáin var ekki í takti við raunveruleikann. Áætlunin var lögð fram á tímum óvissuþátta í efnahagslífinu. Flugsamgöngur voru í mikilli óvissu og aðeins fáeinum dögum eftir að áætlunin var lögð fram varð annað af tveimur íslensku millilandaflugfélögunum, WOW air, gjaldþrota, en teikn voru á lofti um að svo mundi fara. Kjarasamningar voru lausir og minni hagvöxtur í alþjóðahagkerfinu sem hefur áhrif á eftirspurn eftir íslenskum útflutningsvörum. Undir þessum kringumstæðum hefði ríkisstjórnin átt að leggja fram varfærnislegri áætlun í ljósi vaxandi óvissu í efnahagsumhverfinu. Í henni hefðu átt að koma fram fleiri sviðsmyndir sem hefðu teiknað upp mismunandi aðstæður ásamt rökstuðningi fyrir þeirri leið sem ríkisstjórnin valdi að fara. Alþingi hefði þar með haft betri sýn á aðstæður og átt auðveldara með að taka afstöðu til framlagðar fjármálaáætlunar. Fjármálastjórnun ríkisstjórnarinnar er vissulega umhugsunarefni í ljósi þessa. Hún hefur þurft að endurskoða fjármálastefnu sína og lagt fram fjármálaáætlun sem varð úrelt fáeinum dögum eftir að hún var lögð fram. Fjármálaráð hefur m.a. bent á veikleika í fjármálastjórn ríkisins og að verklag við stefnumótun í opinberum fjármálum hafi ekki verið nógu vandað. Fjármála- og efnahagsráðherra sagði þegar hann lagði fram fjármálaáætlun í mars sl. að hann gerði sér grein fyrir því að forsendur áætlunarinnar gætu breyst. Þetta bendir til þess að ríkisstjórnin hafi verið meðvituð um veikleika í áætluninni en engu síður lagt hana fram.

Áföll í ferðaþjónustu – mikil áhrif á þjóðarbúskapinn.
    Í nýrri og uppfærðri þjóðhagsspá Hagstofu Íslands kemur fram að áður áætlaður hagvöxtur á árinu 2019 þurrkist út og þess í stað sé búist við 0,2% samdrætti, aðallega vegna 2,5% minnkunar á útflutningi. Hafa ber í huga að í spám hefur verið tilhneiging til að vanspá niðursveiflu. Þannig eru líkur til þess að samdrátturinn verði meiri. Nauðsynlegt er að fyrir liggi fráviksspár fyrir aðrar atvinnugreinar, t.d. verslun og þjónustu. Í tengslum við áætlunina vantar sviðsmyndir hvað þetta varðar. Á undraskömmum tíma hefur ferðaþjónustan farið úr því að vera smá í sniðum yfir í að vera stærsta útflutningsgrein landsins. Sá viðsnúningur sem nú hefur orðið hefur í efnahagslífinu sýnir svart á hvítu hvað áföll í ferðaþjónustu hafa mikil áhrif á þjóðarbúskapinn. Í slíku árferði er óskynsamlegt að draga úr útgjöldum til málefnasviðs ferðaþjónustu og veikja þannig stoðkerfi greinarinnar þegar nauðsynlegt er að styrkja það. Fjármálaáætlunin gerir ráð fyrir 18% niðurskurði á fjárveitingum til ferðaþjónustunnar á tímbilinu. Vega þar framlög í flugþróunarsjóð þyngst. Sjóðurinn hefur það markmið að styðja við uppbyggingu nýrra flugleiða til Íslands þannig að koma megi á reglulegu millilandaflugi um alþjóðaflugvellina á Akureyri og Egilsstöðum. Með því er stuðlað að dreifingu ferðamanna um landið. Þetta er sérstaklega mikilvægt verkefni nú þegar samdráttur er í ferðaþjónustunni og afkoma greinarinnar slök á landsbyggðinni. 3. minni hluti telur að hér sé um óskynsamlega ráðstöfun að ræða. Forsvarsmenn ferðaþjónustunnar telja að fram undan sé mun skarpari niðusveifla í ferðaþjónustunni en áður var talið; hún verði allt að 20% og enn meiri á landsbyggðinni. Í maímánuði fækkaði komum erlendra ferðamanna til landsins um 24% miðað við sama mánuð og í fyrra. Er það mesti samdráttur frá því að talningar hófust. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar hvað þessa grundvallaratvinnugrein varðar geta seint talist framsýn stefnumótun. Ferðaþjónustan stóð undir 40% gjaldeyrisöflunar þjóðarbúsins árið 2018 og hefur skapað stóran hluta nýrra starfa um allt land. Ríkisstjórnin hefur gælt við hugmyndir um að færa ferðaþjónustuna úr lægra þrepi virðisaukaskatts, 11%, í efra þrep skattsins, 24%. Ljóst má vera að slíkar hugmyndir eru óskynsamlegar og mundu draga enn frekar úr samkeppnihæfni greinarinnar. Í Danmörku var virðisaukaskattur á ferðaþjónustuna hækkaður og tók það dönsku ferðaþjónustuna tíu ár að ná sér á strik eftir það. Ísland er dýrt ferðamannaland, dýrasti áfangastaður í Evrópu og annar til þriðji dýrasti á heimsvísu. Allar hugmyndir um aukna gjaldtöku á ferðaþjónustuna munu hafa slæm áhrif fyrir greinina og gera henni enn erfiðara fyrir. Fyrir þjóðarbúið í heild fer neysluhegðun ferðamanna að skipta meira máli en áður þar sem ekki er lengur hægt að treysta á að tekjuvöxtur ferðaþjónustunnar komi í gegnum aukinn fjölda ferðamanna.
    Ríkisstjórnin hefur ekki sett fram skýra framtíðarsýn fyrir ferðamál. Aukin fjárframlög til greinarinnar eru nauðsynleg. Það er þó jákvætt skref að auking upp á 25 millj. kr. árlega skuli hafa komið inn frá eldri tillögu frá því í mars sl. Betur má þó ef duga skal. Minnkandi framlög til málefnasviðisins sýna slaka framtíðarsýn. Gríðarlegur vöxtur greinarinnar kallar á framtíðarsýn / stefnu. Hefja þarf þá vegferð nú þegar. Nauðsynlegt era að ráðast í gagnaöflun og rannsóknir sem getur þá undirbyggt alla stefnumörkun til framtíðar. Ákvarðanir sem varða svo stóra atvinnugrein sem ferðaþjónustan er orðin kalla á gagnaöflun og rannsóknir. Auk þess kallar greinin á aukinn kraft í markaðssetningu á tímabili áætlunarinnar.

Útgjaldastefna ríkisstjórnarinnar skapar óvissu.
    Lengsta hagvaxtarskeiði í sögu þjóðarinnar er lokið og við tekur niðursveifla, sem óvíst er hversu djúp verður eða langvinn. Útgjöld ríkisins hafa að undanförnu aukist ár frá ári samfara miklum uppgangi og vaxandi skatttekjum. Stjórnvöld virðast hafa treyst því að tekjur mundu áfram vaxa. Þrátt fyrir uppgang og auknar skatttekjur var ríkissjóður rekinn með lágmarksafgangi. Nýta átti góðærið til að búa í haginn fyrir niðursveifluna. Lítur nú út fyrir að tekjur ríkissjóðs dragist umtalsvert saman, eða um tæplega 139 milljarða kr. á tímabilinu með mótvægisaðgerðum. Ríkisstjórnin hefur ekki rekið sveiflujafnandi útgjaldastefnu á kjörtímabilinu heldur þvert á móti. Útgjöld voru aukin mest þegar hagvöxtur var sem mestur og nú er lagt upp með minni útgjöld af hálfu ríkisins í minnkandi hagvexti. Þetta er umhugsunarefni. Almennt er talið skynsamlegt að beita útgjaldastefnu hins opinbera til sveiflujöfnunar, þvert á hagsveifluna, til að tryggja efnahagslegan stöðugleika.

Skattahækkanir á almenning undir formerkjum umhverfisverndar og loftlagsmála.
    „Það á ekki að hækka skatta á almenning í landinu, það á að hliðra til í skattkerfinu. Við viljum frekar horfa til þess að skattleggja þá efnamestu,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, skömmu fyrir kosningarnar í október 2017. Eitt af fyrstu verkefnum ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur var síðan að hækka umtalsvert kolefnisgjald. Gjaldið skilar á þessu ári 5,9 milljörðum kr. í ríkissjóð og enn er fyrirhugað að hækka gjaldið. Bíleigendur bera aðeins ábyrgð á um 6% losunar gróðurhúsalofttegunda á landinu en eru látnir greiða tæp 90% þeirra losunartengdu skatta sem hér eru innheimtir.
    Í fjármálaáætlun er boðaður nýr skattur sem réttlættur er með vísan til umhverfisverndar. Hér er um að ræða sérstakt sorpgjald vegna urðunar sem leggst á öll heimili og fyrirtæki í landinu. Hins vegar er nýtt gjald á gróðurhúsalofttegundir í frystitækjum. Þessir nýju skattar eiga að skila ríkissjóði 11,5 milljörðum kr. á tímabilinu. Engar skýringar eru gefnar til að réttlæta þessa nýju skatta og hvers vegna heimilum landsmanna og atvinnufyrirtækjum er ætlað að bera þessa þungu skattbyrgðar. Skattastefna þessarar ríkisstjórnar gengur þvert á stefnu Miðflokksins um að gæta hófs við skattlagningu og haga henni með þeim hætti að skilvirkni og jafnræði sitji í fyrirrúmi. Þá verður ekki séð á hvern hátt þessir nýju skattar geti haft jákvæð áhrif á efnahagslífið í þeirri niðursveiflu sem nú blasir við. Slíkir skattar gætu stuðlað að því að lama þrótt atvinnufyrirtækja og með því magnað þá erfiðleika sem fyrirtækin standa frammi fyrir. Skattar af þessu tagi stuðla ekki að því að fyrirtæki ráði til sín nýtt starfsfólk, auki fjárfestingar sínar eða séu í færum til að bæta kjör starfsmanna.

Ríkisbáknið þenst út hömlulaust.
    Í nefndaráliti meiri hlutans kemur fram að ríkisstarfsmönnum hefur fjölgað hratt frá árinu 2016 þar sem aukiningin er rúm 7% í heild og 8% auking á sl. þremur árum. Þegar litið er yfir tímabilið frá 2011 kemur fram að öll fjölgun starfa hjá ríkinu átti sé sér stað á tímabilinu 2016–2018. Sé litið sérstaklega til Stjórnarráðsins má sjá að starfsmönnum forsætisráðuneytisins fjölgaði um 29,5% frá janúar 2016 til apríl 2019. Þetta kemur fram í svari forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, við nýlegri fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um starfsmenn á launaskrá forsætisráðuneytisins.
    Miðflokkurinn hefur gagnrýnt óhóflega fjölgun ríkisstarfsmanna og ekki að ófyrirsynju þegar litið er til þróunar í forsætisráðuneytinu á undanförnum árum. Í þessu samhengi er vert að geta þess að ákvarðanir ríkisstjórnarinnar um sameiningu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins eru ekki reistar á neinum forsendum um hagræðingu þegar kemur að kostnaði við að reka umræddar stofnanir. Ekki er heldur gert ráð fyrir neinni hagræðingu þegar kemur að fjölda starfsmanna í þessum stofnunum. 3. minni hluti telur að hér gætir metnaðarleysis og virðist sem gamalt kjörorð Sjálfstæðisflokksins um báknið burt hafi látið undan síga með áberandi hætti.

Röng forgangsröðun á útgjaldahlið.
    Veigamikill hluti í aðgerðum ríkisstjórnarinnar gagnvart breyttum forsendum í efnhagsmálum birtist á útgjaldahlið ríkisfjármálanna. Sumar ákvaðarnir meiri hlutans í þessum efnum vekja alvarlegar spurningar um forgansgröðum ríkisstjórnarinnar. Nægir að nefna fjögur dæmi:
     1.      Ríkisstjórnin ákveður að hægja á fyrirhugaðari aukningu úgjalda til málflokks öryrkja frá því sem áður var áformað. Nema þessar aðgerðir í fjárhæðum talið á tímabilinu samtals um 4,5 milljörðum kr. Í þessu sambandi er vert að benda á bréf formanns Öryrkjabandalagsins til þingmanna. Í bréfinu lýsir formaðurinn áhyggjum af málaflokkum sem varða fatlað fólk í endurskoðaðri fjármálaáætlun. Lýsir formaðurinn skorti á samráði og upplýsingum um hvert stjórnvöld stefna í málaflokknum. Telur formaðurinn að það stangist á við 3. mgr. 4. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem kveður á um að náið samráð skuli haft við fatlað fólk og hagsmunasamtök þess í allri ákvarðanatöku. Formaðurinn hefur miklar áhyggjur af því að stjórnvöld hækki ekki örorkulífeyri og að skerðingar verði ekki afnumdar. Að fatlað fólk muni áfram búa við alltof lága framfærslu sem skapar því sannarlega ekki aðgang að samfélaginu, og verður ekki til að valdefla fatlað fólk. Formaður Öryrkjabandalagsins hefur áhyggjur af því að fatlað fólk verði enn fátækara en það er nú þegar og að stjórnvöld skilji fatlað fólk eftir í vegferð sinni til að spara ríkinu örorkulífeyri. Bréfinu til þingmanna lýkur formaðurinn á þessum nótum: „Brýnt er að tryggja að fatlað fólk hafi mannsæmandi framfærslu, til að það hafi raunveruleg tækifæri til að taka þátt í samfélaginu, það hlýtur að vera eitt aðal verkefni stjórnvalda, til þess ætlast ég sem fötluð manneskja að orð séu virt, að enginn sé skilinn eftir.“
     2.      Málefnasvið 23 Sjúkrahúsþjónusta fær 2 milljörðum kr. minna en áður var áætlað. Um er að ræða framlög til byggingar nýs landspítala. Fram kemur í nefndaráliti meiri hlutans að að þau framlög eiga að hækka árið 2025 en þá hefur ný ríkisstjórn tekið við völdum og ekki er á færi þessarar ríkisstjórnar að taka ákvörðun fyrir næstu ríkisstjórn. Í eðli sínu er þessi frestun af hálfu ríkisstjórnarinnar því varanleg. Verður ekki betur séð en að ríkisstjórnin hafi tekið ákvörðun um að fresta enn byggingu þjóðarsjúkrahússins, nýs Landspítala. Einnig má benda á að heilsugæslan og sérfræðiaðstoð fá um 1,5 milljörðum kr. minna en áður var áætlað. Afleiðingin af þessum áformum getur ekki orðið önnur en skert þjónusta sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva við almenning frá því sem áður var áætlað. Með Íslendingum býr sterk tilfinning fyrir því að hér á landi eigi að vera öflugt heilbrigðiskerfi sem geti mætt þörfum fólks sem þarf á þjónustu að halda í heilbrigðismálum. Málefni aldraða verða einnig fyrir lækkun miðað við það sem áður var áformað og nemur sú lækkun um 600 millj. kr. Ekki hefur verið skýrt með fullnægjandi hætti hvar þessi lækkun kemur helst niður. Hér er um að ræða mjög mikilvægan og viðkvæman málaflokk, hvort sem litið er til afkomu eldri borgara eða til dvalar- og hjúkrunarheimila sem verða að vera fyrir hendi í fullnægjandi mæli þegar fólk getur ekki búið lengur heima hjá sér.
     3.      Dregið er úr hækkunum til framhaldsskólanna sem nemur 1,2 milljörðum kr. Vanrækslan á framhaldsskólastiginu stefnir í að verða alvarlegt vandamál í íslensku skólakerfi. Umrædd lækkun ofan í styttingu framhaldsskólans í þrjú ár, gegn ráði færustu skólamanna, felur í sér veikingu á þessu mikilvæga skólastigi sem ekki verður við unað. Gengur þetta gegn yfirlýstri stefnumótun ríkisstjórnarinnar og er ekki í samræmi við þær fyrirætlanir sem mennta- og menningarmálaráðherra hefur lýst.
     4.      Á næstu fimm árum verður dregið úr áformuðum hækkunum til samgöngumála um sem nemur 17%. Við blasir stórfelld þörf á endurbótum á samgöngumannvirkjum víðs vegar um landið. Brýnt er að tryggt verði fé til slíkra framkvæmda til að mæta áhrifum hinnar efnahagslegu niðursveiflu sem nú gætir. Til þessara framkvæmda þarf að renna fé sem áður var áformað að rynni til hins fyrirhugaða Þjóðarsjóðs sem nú hefur verið slegið á frest um óákveðinn tíma. Umræddar fjárhæðir eru umtalsverðar og gætu átt þátt í að draga verulega úr neikvæðum áhrifum niðursveiflunnar og stuðla að nýju uppbyggingar- og hagsældarskeiði til hagsbóta fyrir landsmenn. Fælist um leið í slíku átaki að lagður væri grunnur að frekari uppbyggingu og framþróun í ferðaþjónustu, sem gæti gert þeirri mikilvægu atvinnugrein kleift að skila auknum tekjum og gjaldeyri í þjóðarbúið.

Álit fjármálaráðs.
    Álitsgerð fjármálaráðs um fjármálaáætlun ríkisstjórarinnar er lögmælt og hefur áunnið sér veigamikinn sess í umfjöllun um stefnuna í ríkisfjármálum. Álitsgerðir fjármálasráðs hafa einkennst af skarplegri greiningu en um leið gætilegri og hófstilltri framsetningu sem hefur aukið vægi þeirra leiðbeininga sem fjármálaráð hefur talið ástæðu til að koma á framfæri í álitsgerðum sínum. Sést glöggt að áhrifa fyrri álita fjármálaráðs gætir í ýmsu tilliti í framsetningu og úrvinnslu efnis frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og fjárlaganefnd þegar kemur að mótun og framkvæmd stefnunnar í ríkisfjármálum.
    Meðal helstu ábendinga sem meiri hlutinn tekur upp í álit sitt eru eftirfarandi atriði:
     1.      Bent er á að nú reyni á þanþol opinberra fjármála þegar spáð hefur verið minni hagvexti en áður. Þannig reyni á aðra þætti hagstjórnar en verið hefur á sl. árum og nauðsynlegt að gæta meiri varfærni en áður.
     2.      Í því samhengi er umhugsunarvert að áætlunin hafi alltaf verið sett í gólf afkomumarkmiðs stefnunnar og þannig hafa stjórnvöld skapað spennitreyju sem erfitt er að komast úr. Miðað við óbreytt afkomumarkmið má ekkert út af bregða í hagvaxtaráætlunum. Eftir á að hyggja hefði mátt vera meira borð fyrir báru hvað varðar áætlanir um afkomu hins opinbera.
     3.      Möguleikar stjórnvalda til sveiflujöfnunar eru ýmsir, en vafasamt er að treysta um of á sveiflujöfnunarmátt opinberra fjármála umfram virkni sjálfvirkra sveiflujafnara. Stjórnvöld ættu að huga að því að efla þá frekar en veikja.
     4.      Samræming fjármálastjórnar og peningastjórnar er mjög mikilvæg og næst ekki að fullu fram nema með auknu samráði. Við þetta má bæta að svo virðist sem í áætlunum sé almennt gefið eftir í aðhaldi til skamms tíma en til lengri tíma sé aðhaldið aukið. Sá tímapunktur liggur utan tímabils gildandi fjármálastefnu.
     5.      Gagnsæi er ekki nægilegt varðandi þær breytingar á tekju- og gjaldaráðstöfunum sem orðið hafa milli áætlana og þær eru ekki settar í samhengi við boðuð áform stjórnvalda.
     6.      Opinber útgjöld hafa aukist en umfang aukningarinnar er álitamál. Í áætluninni eru fjárhæðir útgjalda staðvirtar með vísitölu neysluverðs sem getur gefið aðra mynd en ef aðrar verðvísitölur eru notaðar við samanburð milli ára. Þá skiptir máli að huga að samspili launaþróunar og framleiðni annars vegar og almennri launaþróun hins vegar.
     7.      Skuldir hins opinbera eru komnar undir þau mörk sem tiltekin eru í skuldareglu laga um opinber fjármál. Skuldahlutfall hins opinbera er nokkuð undir viðmiði gildandi fjármálastefnu og ef svo fer sem horfir er stutt í að það nái lokastefnumiði fjármálastefnunnar. Áætlanir stjórnvalda um skuldaþróun á tímabili fjármálaáætlunarinnar, sem nær tvö ár út fyrir gildistíma stefnunnar, eru háðar mikilli óvissu vegna þess hve þróunin ræðst af efnahagsframvindunni.
     8.      Samvinna ríkis og sveitarfélaga á sviði fjárhagsáætlanagerðar hefur aukist á sl. árum en markmið um afkomu sveitarfélaganna hafa ekki gengi eftir sem skyldi. Boðað hefur verið nýtt fjárhagslíkan til að meta afkomu og áætlanir sveitarfélaga og opinberra fyrirtækja. Aukið samráð og samtal opinberra aðila þarf til að tryggja samfellu í áætlunum og aðgerðum.
     9.      Mikilvægt er að fram fari mat á fjárfestingarþörf opinberra aðila og að gefin verði forskrift um hvernig forgangsröðun þeirra skuli háttað.
     10.      Það er mjög til bóta að í framlagðri áætlun er lögð fram fráviksspá. Slíkt eykur gagnsæi auk þess sem það stuðlar að stöðugleika og festu áætlana. Sama á við um rammagreinar þar sem fjallað er um afmörkuð atriði. Beita mætti næmnigreiningum í ríkari mæli til að slá máli á áhrif óvissu undirliggjandi þátta í greiningunum á niðurstöður þeirra.
    Þriðji minni hluti telur brýnt að framangreindum ábendingum verði fylgt eftir gagnvart ráðuneytinu og að þær móti stefnu og framkvæmd í ríkisfjármálum á komandi tímum.

Markmið um afkomu og efnahag hins opinbera.
    Af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytisins eru með bréfi til fjárlaganefndar Alþingis, dags 18. júní 2018, kynntar tilteknar breytingar á þeirri tillögu til breytinga sem kynnt var fjárlaganefnd 6. júní sl. Eru breytingarnar í fjórum töluliðum. Lúta þær að stafrænni þjónustu, endurmati útgjalda, heilbrigðismálum og félagsmálum. Eru þar lögð til hliðar óútfærð markmið um sparnað en á þeim tíma þegar tillögurnar voru lagðar fram lá ekki fyrir hvort eða að hve miklu marki væri raunhæft að ætla þær gengju eftir. Er umhugsunarvert að slíkar almennar hugleiðingar séu lagðar fram sem fullmótaðar sparnaðartillögur frá ríkisstjórninni í stað þess að hún gæti þess að leggja alltaf fram fullmótaðar og raunhæfar tillögur fyrir Alþingi. Sem betur fer voru þessir draumórar svæfðir. Veldur það áhyggjum að þegar kemur að heilbrigðismálum hefði þurft að ganga lengra til að verja málaflokkana 23 Sjúkrahúsþjónusta og 26 Lyf- og lækningavörur en kynnt er í tilvitnuðu bréfi.

Vinnumarkaður.
    Við gerð kjarasamninga á vinnumarkaði voru kynntar aðgerðir ríkisins til stuðnings kjarasamningum sem metnar eru á um 80 milljarða kr. á samningstímanum. Voru einstakar aðgerðir ríkisstjórnarinnar birtar með sérstakri yfirlýsingu 3. apríl sl. Til viðbótar því sem fyrir var í framlagðri fjármálaáætlun var lofað hækkun skerðingarmarka í barnabótakerfinu og breytingum á tekjuskattskerfinu. 3. minni hluti leggur áherslu á nauðsyn þess að af hálfu ríkisstjórnarinnar verið að fullu staðið við þau fyrirheit sem gefin voru við gerð kjarasamninganna. Fjárlaganefnd óskaði eftir minnisblaði frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu þar sem gerð væri grein fyrir þeim hluta aðgerða ríkisstjórnarinnar sem ekki var þegar fyrir í fjármálaáætluninni. Þó að tiltölulega langt sé um liðið hefur það minnisblað ekki borist nefndinni og því ógerlegt fyrir minni hluta nefndarinnar að gera sér grein fyrir til hvaða viðbótaraðgerða ríkisstjórnin greip til í því augnamiði að standa við sinn hluta lífskjarasamninganna og hvað þær aðgerðir kostuðu. Verður ekki betur séð en að langstærsti hluti þeirra 80 milljarða kr. aðgerða sem ríkisstjórnin hugðist grípa til í kjölfar samninganna hefðu þegar verið ákvarðaðar og fjármagnaðar og því færi lítið fyrir þeirri miklu innspýtingu sem ætla mátti að kjarasamningarnir sem slíkir hefðu í för með sér.

Aukið eftirlit með bættum skattskilum.
    Meiri hlutinn greinir frá því að fyrirhugað sé að veita aukið fjármagn til skattaeftirlits hjá ríkisskattstjóra frá og með næsta ári og áætlað sé að skattekjur geti aukist um samtals 10,1 milljarð kr. vegna þessa.
    Miðfokkurinn telur að aðgerðir til að bæta eftirlit með skattheimtu séu nauðsynlegar til að efla skilvirka framkvæmd og auka jafnræði milli skattgreiðenda. Miðflokkurinn telur að aðgerðir í þessa átt geti skilað umtalsverðum árangri, líkt og getið er um í áliti meiri hlutans. Rétt er að geta þess að Miðflokkurinn lagði fram breytingartillögu við fjárlög fyrir árið 2019 þess efnis að auka skatteftirlit. Tillagan var felld af hálfu stjórnarflokkanna. Er því ánægjulegt að af þeirra hálfu er nú höfð uppi viðleitni til að bæta úr skák í þessum efnum með líkum hætti og Miðflokkurinn lagið til. Þess ber að geta að ríkisskattstjóri hefur ekki komið á fund nefndarinnar til að gera henni grein fyrir því hvort og að hvaða marki tillögur ríkisstjórnarinnar eru raunhæfar. Einnig ber að hafa í huga að verulegur hluti stóru hrunmálanna svokölluðu og skattaleg meðferð þeirra hefur verið til lykta leiddur og því kann að reynast erfitt að afla enn hærri tekna í kjölfar þessara mála. Það leiðir hugann að því hvort framsetning tillagnanna sé raunhæf og þarf því að gera nefndinni betri grein fyrir þessum áformum, engu síður er ríkisstjórninni óskað velfarnaðar í þessu mikilvæga átaki. Í þessu sambandi má einnig hafa í huga að ekki hefur alltaf reynst auðvelt að innheimta skattaálögur.

Ófjármögnuð aðgerð til að bregðast við innflutningi á hráu kjöti.
    Þriðji minni hluti telur ástæðu til að vekja sérstaklega athygli á því að í umfjöllun meiri hlutans um málefasvið 12 Landbúnaður er ekki fjallað með heildstæðum hætti um fjármögnun 17 liða aðgerðaáætlunar sem sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra hefur kynnt og er ætlað að bregðast við áhrifum þess að frystiskylda á hráu kjöti verði felld úr lögum. Með þessu staðfestir meiri hlutinn áhyggjur þingmanna Miðflokksins af því að umrædd aðgerðaáætlun í 17 liðum sé ekki fjármögnuð með fullnægjandi hætti. 3. minni hluti telur að ráðast verði í þessar aðgerðir af festu og fyrirhyggju á þann veg að innlendir matvælaframleiðendur séu á hverjum tíma upplýstir um framgang einstakra þátta í áætluninni.

Lækkun á framlögum til alþjóðlegrar þróunarsamvinna.
    Meiri hlutinn gerir tillögu um ríflega 600 millj. kr. árlega lækkun framlaga til þróunarsamvinnu. Helmingur lækkunarinnar skýrist af lækkun þjóðartekna samkvæmt nýrri þjóðhagsspá. Ekki verður betur séð en að hinar 300 millj. kr. séu tilkomnar vegna millifærslu á málefnasvið utanríkismála til að bregðast við viðhaldsþörf varnarmannvirkja NATO á Keflavíkurflugvelli og tryggja þar starfsemi. 3. minni hluti telur ekki eðlilegt að lækka framlög til þróunarsamvinnu til að mæta fyrrgreindri viðhaldsþörf.

Lokaorð.
    Almennt má segja um breytingartillögur meiri hlutans að útfærsla þeirra er óljós og alfarið fengin framkvæmdarvaldinu en það hefur ekki lagt fram neinar tillögur hjá nefndinni um það hvernig það ætlar að leysa þau verkefni farsællega sem því eru falin samkvæmt nefndarálitinu. Er því hætt við að framkvæmdin mistakist eða verði ekki eins árangursrík og meiri hlutinn stefnir að í sínu óljósa og óútfærða nefndaráliti.
    Athygli vekur að ríkisstjórninni hefur ekki enn tekist að koma á að nýju samningum milli Sjúkratrygginga Íslands og hjúkrunarheimila og enn er ekkert samræmi milli kröfulýsingar sem heimilunum er ætlað að starfa eftir og fjármögnunar málaflokksins. Afleiðingarnar eru þekktar í löngum biðlistum eftir þessari mikilvægu þjónustu, mjög erfiðu ástandi á heimilum margra aldraða þar sem fullorðið fólk neyðist til að sinna umönnun nákominna sem það hefur ekki heilsu til og gengur þar með nærri þeirra eigin heilsu. Eins og framar er getið er ætlunin að fresta byggingu nýs Landspítala sem frestar því að hann geti aukið afköst sín og þar með aukast enn fráflæðisvandamál spítalans. Ríkisstjórninni hefur því mistekist að móta stefnu á þessu sviði og sjá til þess að aðgerðir til að framfylgja henni leysi þau alvarlegu vandamál í velferðarþjónustunni sem hér er lýst. Virðist því mega álykta að vandinn muni vaxa ár frá ári á starfstíma ríkisstjórnarinnar í stað þess að hún leysi vandann.
    Nauðsynlegt er að leggja ríka áherslu á að breytingartillögur meiri hlutans, sem koma að mestu frá ríkisstjórninni, voru lagðar fram og afgreiddar úr fjárlaganefnd á einum stuttum fundi og útfærslur þeirra hafa ekki verið kynntar nægilega vel fyrir minni hlutanum. Í þeim þó litlu umræðum sem fram fóru um þær varð ekki betur séð en meiri hlutanum væru þær að mestu ókunnar. Vekur þetta spurningar um hvort tilgangur nýrra laga um opinber fjármál um að styrkja umræðu um stefnumótum, fjármál og eftirlit með framkvæmd fjárlaga gangi ekki eftir þar sem meiri hlutinn veitir ekki það svigrúm í tíma og nauðsynlegum rannsóknum fjárbeiðna og verkefna að nefndin geti unnið þau faglega. Þetta dregur augljóslega úr fjárstjórnarvaldi Alþingis, gerir því erfitt um vik að sinna eftirlitshlutverki sínu og hlýtur að draga úr gæðum fjármálastefnu og sérstaklega fjármálaáætlunar. Gengur það þvert á markmið laga um opinber fjármál sem ætlunin var að bættu alla umgjörð ríkisfjármála. 3. minni hluti harmar að Alþingi sé sniðinn svo þröngur stakkur og að þingið sætti sig við slík vinnubrögð.

Alþingi, 19. júní 2019.

Birgir Þórarinsson.