Ferill 949. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 2012  —  949. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um skimun fyrir streptókokkum.


     1.      Hvað líður hugmyndum sem þáverandi heilbrigðisráðherra viðraði árið 2013 um að hrinda í framkvæmd skimun fyrir streptókokkum hjá barnshafandi konum, í samræmi við tilmæli sóttvarnaráðs með það að markmiði að draga úr veikindum nýbura?
    Ráðgjafahópur sóttvarnalæknis kannaði faraldsfræði streptókokkasýkinga hjá þunguðum konum á árunum 1976 til og með 2013 vegna vinnu við ráðleggingar um skimanir fyrir sýkingum á meðgöngu. Hópurinn klofnaði í afstöðu sinni til ráðlegginga um almenna skimun á meðgöngu. Annars vegar var mælt með almennri skimun á meðgöngu og hins vegar var mælt með svokallaðri áhættuþáttanálgun þar sem konum með ákveðna áhættuþætti var boðið upp á sýklalyfjameðferð í fæðingunni. Sóttvarnaráð tók undir álit rágjafahópsins og taldi að fela ætti sóttvarnalækni nánari útfærslu skimananna í samráði við ráðuneytið. Áhættuþáttanálgun hefur verið viðhöfð hér á landi til margra ára og er talin koma í veg fyrir sýkingar í mörgum tilfellum hjá nýburum í og eftir fæðingu. Samkvæmt sóttvarnalækni virðast skimun á meðgöngu og viðeigandi ráðstafanir einungis draga úr sýkingum hjá nýburum á fyrstu viku eftir fæðingu en ekki sýkingum eftir þann tíma.
    Á undanförnum árum hafa sóttvarnalæknir og sóttvarnaráð nokkrum sinnum fjallað um skimanir fyrir streptókokkum af flokki B hjá barnshafandi konum. Sjúkdómar af völdum streptókokka af flokki B eru hvorki tilkynningar- né skráningarskyldir samkvæmt sóttvarnalögum, nr. 19/1997, og reglugerð nr. 221/2012. Sóttvarnalæknir hefur því ekki upplýsingar um faraldsfræði þessara sýkinga á undanförnum árum. Þess ber að geta að almenn skimun fyrir streptókokkum hjá barnshafandi konum er ekki viðhöfð annars staðar á Norðurlöndum.

     2.      Hver yrði árlegur kostnaður við slíka skimun?
    Niðurstaða ráðgjafahópsins var að almenn skimun hér á landi hjá barnshafandi konum mundi koma í veg fyrir um eina sýkingu á ári að meðaltali hjá nýburum á fyrstu viku eftir fæðingu og eitt dauðsfall á tíu ára fresti. Á verðlagi ársins 2013 var talið að almenn skimun mundi kosta um 10 millj. kr. árlega.