Ferill 914. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 2027  —  914. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni um réttindi barna dvalarleyfisumsækjenda og barna umsækjenda um alþjóðlega vernd til náms.


     1.      Hvernig er ákvæðum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, laga um leikskóla og laga um grunnskóla framfylgt varðandi skólaskyldu, réttindi til náms og bann við mismunun vegna stöðu foreldra, hjá börnum búsettum á Íslandi sem eiga foreldra í umsóknarferli um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd?
    Útlendingastofnun ber ábyrgð á að börn í leit að alþjóðlegri vernd og börn sem sækja um dvalarleyfi fái menntun á meðan unnið er að afgreiðslu umsóknar þeirra. Unninn var á árinu 2016, í samvinnu innanríkisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambands Íslands, Rauða krossins og Útlendingastofnunar, rammi um áætlun um skólaþjónustu barna í hælisleit. Samkvæmt þeim ramma er gert ráð fyrir að Útlendingastofnun geti veitt börnum menntun og úrræði í móttökumiðstöð allt að 12 vikur á meðan umsókn þeirra er í vinnslu Útlendingastofnunar. Velji Útlendingastofnun að veita barni skólaþjónustu í móttökumiðstöð ber að sjá til þess að barnið fái menntun sem leiðir til þess að barnið eflist þannig að það verði betur undir það búið að takast á við það sem á eftir kemur. Áhersla er lögð á að meta stöðu barnsins þannig að fyrir liggi stöðumat sem hægt er að byggja áframhaldandi nám á. Ákvörðun um hvar börn í leit að alþjóðlegri vernd búa og sækja skóla á meðan mál þeirra eru afgreidd liggur hjá Útlendingastofnun.

     2.      Hvernig er fyrrnefndum réttindum barna til náms framfylgt vegna barna sem eru sannanlega búsett og jafnvel fædd á Íslandi, en eiga foreldra sem hefur verið neitað um alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi?
    Lög nr. 80/2016 heyra undir dómsmálaráðuneyti sem hefur sett reglugerð um útlendinga nr. 540/2017. Í 27. gr. reglugerðarinnar er fjallað um menntun barna í leit að alþjóðlegri vernd. Þar segir að börnum fram að 18 ára aldri skuli tryggð menntun. Útlendingastofnun skal tryggja að barn sé að jafnaði ekki lengur en fjórar vikur í umsjá stofnunarinnar án þess að vera komið í almennan skóla eða annað úrræði til menntunar. Leitast skal við að barn sé komið í almennan skóla innan 12 vikna frá umsókn um alþjóðlega vernd. Leitast skal við að koma til móts við þarfir fjölskyldna í þjónustu sveitarfélaga með daggæslu, leikskóla, framhaldsskóla eða öðrum menntaúrræðum, eftir því sem við á.
    Í lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, felst almenn stefnumörkun um rétt barna og ungmenna á skólaskyldualdri til náms og kveða lögin á um skýra ábyrgð sveitarfélaga um að veita öllum börnum með lögheimili í sveitarfélaginu skólavist. Þar segir m.a. að sveitarfélögum er skylt að sjá til þess að skólaskyld börn skv. 3. gr., sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu, og börn sem hefur verið ráðstafað í fóstur til fósturforeldra, sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu, njóti skólavistar eftir því sem nánar segir í lögunum. Samkvæmt lögum um grunnskóla er öllum börnum á skólaskyldualdri skylt að sækja skóla og fela lögin ekki í sér sérstakar undanþágur frá skólaskyldu í tilvikum barna í leit að alþjóðlegri vernd. Þá segir enn fremur að liggi ekki fyrir ákvörðun stjórnvalds um lögheimili barns kveður sveitarstjórn á um skólaskyldu þess, enda búi barnið í sveitarfélaginu og leitað hafi verið eftir innritun þess í skóla, sbr. 19. gr. grunnskólalaga. Synjun sveitarstjórnar um skólavist er kæranleg samkvæmt fyrirmælum 47. gr. laga um grunnskóla. Í úrskurði getur ráðuneytið lagt fyrir sveitarfélag að tryggja barni skólavist innan sveitarfélagsins. Á þeim grunni telur ráðuneytið að tryggður sé réttur barna til menntunar á meðan þau búa hér á landi hver sem staða þeirra eða foreldra þeirra kann að vera varðandi alþjóðlega vernd.
    Í lögum um leikskóla, nr. 90/2008, segir að leikskólinn sé fyrsta skólastigið í skólakerfinu og skuli að ósk foreldra annast uppeldi, umönnun og menntun barna á leikskólaaldri. Ekki er lögð nein lagaleg skylda á að foreldrar innriti börn sín í leikskóla en í 4. gr. laganna er skilgreind ábyrgð sveitarfélaga og hafa þau forustu um að tryggja börnum leikskóladvöl og bera ábyrgð á heildarskipan skólahalds í leikskólum sveitarfélagsins. Sveitarstjórn er heimilt, skv. 26. gr. laganna, að setja reglur um innritun í leikskóla í sveitarfélaginu og skulu þær vera öllum aðgengilegar og birtar opinberlega. Á þeim grunni telur ráðuneytið að ábyrgð sveitarfélaga sé rík fyrir því að tryggja börnum í leit að alþjóðlegri vernd leikskólapláss, til jafns við önnur börn í sveitarfélaginu.

     3.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því, í samræmi við ákvæði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, að rétta stöðu barna sem fæðast og eru búsett á Íslandi en kann að vera mismunað vegna stöðu foreldra hvað varðar aðgengi og réttindi til náms?
    Mennta- og menningarmálaráðherra mun vinna í samræmi við ákvæði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um að tryggja stöðu allra barna á Íslandi um aðgengi að öflugu menntakerfi.
    Mennta- og menningarmálaráðuneytið telur að með framangreindum lögum um leik- og grunnskóla sé réttur barna til náms tryggður. Einnig styður 27. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 við rétt barna í alþjóðlegri vernd til menntunar. Mennta- og menningarmálaráðuneytið vinnur í samvinnu við félagsmálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambandið og Heimili og skóla að mörgum aðgerðum í kjölfar úttektar á menntun án aðgreiningar sem fram fór á árinu 2016. Þar er meðal annars fjallað um hvernig tryggja megi sem besta þjónustu við öll börn án aðgreiningar. Eins og fram kemur í svari við 2. tölul. fyrirspurnarinnar ber sveitarfélögum samkvæmt grunnskólalögum að veita öllum börnum sem þar búa skólavist og þeim ber samkvæmt leikskólalögum að hafa forustu um að tryggja börnum leikskólavist.