Ferill 14. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 14  —  14. mál.




Frumvarp til laga


um starfsemi smálánafyrirtækja.

Flm.: Oddný G. Harðardóttir, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Helga Vala Helgadóttir, Logi Einarsson.


I. KAFLI
Gildissvið og orðskýringar.
1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um starfsemi smálánafyrirtækja hér á landi.
    Með starfsemi smálánafyrirtækja er átt við starfsemi sem felst í að kynna, bjóða eða veita einstaklingum lán allt að einni milljón króna án tillits til þess hvernig lánið er veitt að öðru leyti.

2. gr.
Ófrávíkjanleiki.

    Óheimilt er að víkja frá ákvæðum laga þessara með samningi ef það leiðir til lakari réttar viðskiptamanns.

3. gr.
Orðskýringar.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     1.      Smálánafyrirtæki: Eftirlitsskyldur aðili sem stundar starfsemi samkvæmt ákvæðum laga þessara.
     2.      Smálán: Lán allt að einni milljón króna sem smálánafyrirtæki kynnir, býður eða veitir einstaklingum.
     3.      Viðskiptamaður: Einstaklingur sem smálánafyrirtæki kynnir, býður eða veitir smálán.

4. gr.
Starfsemi undanþegin lögunum.

    Lög þessi taka ekki til útlána lánastofnana skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

II. KAFLI
Starfsleyfi.
5. gr.
Starfsleyfi.

    Fjármálaeftirlitið veitir smálánafyrirtæki starfsleyfi samkvæmt lögum þessum og er öðrum en þeim sem hlotið hafa slíkt starfsleyfi óheimilt að kynna, bjóða eða veita smálán. Smálánafyrirtæki er heimilt að hefja starfsemi þegar starfsleyfi Fjármálaeftirlitsins hefur verið veitt.
    Ágreiningur um það hvort starfsemi falli undir ákvæði laga þessara skal borinn undir Fjármálaeftirlitið. Niðurstaða þess er endanleg á stjórnsýslustigi.

6. gr.
Umsókn.

    Umsókn um starfsleyfi skal vera skrifleg og henni skulu fylgja:
     1.      Nafn, kennitala, hlutafé og lögheimili umsækjanda.
     2.      Samþykktir umsækjanda.
     3.      Upplýsingar um starfsskipulag þar sem m.a. komi fram upplýsingar um hvernig fyrirhugaðri starfsemi verði sinnt.
     4.      Upplýsingar um innra skipulag fyrirtækisins, þ.m.t. eftirlits- og starfsreglur.
     5.      Viðskipta- og rekstraráætlun þar sem m.a. komi fram fyrirhugaður vöxtur og uppbygging eigin fjár.
     6.      Upplýsingar um stofnendur og hluthafa.
     7.      Upplýsingar um stjórnarmenn, framkvæmdastjóra og aðra stjórnendur.
     8.      Staðfesting endurskoðanda á innborgun hlutafjár.
     9.      Upplýsingar um náin tengsl fyrirtækisins við einstaklinga eða lögaðila, sbr. 23. tölul. 1. mgr. 1. gr. a laga um fjármálafyrirtæki.
     10.      Allar aðrar viðeigandi upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið ákveður.
    Seðlabanka Íslands er heimilt að setja nánari reglur um upplýsingar sem fylgja skulu umsókn um starfsleyfi samkvæmt þessari grein.

7. gr.
Veiting starfsleyfis.

    Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um veitingu starfsleyfis skal tilkynnt umsækjanda skriflega svo fljótt sem unnt er og eigi síðar en þremur mánuðum eftir að fullbúin umsókn barst.

8. gr.
Synjun starfsleyfis.

    Fullnægi umsókn um starfsleyfi ekki skilyrðum laga þessara að mati Fjármálaeftirlitsins skal umsókninni synjað.
    Synjun Fjármálaeftirlitsins á umsókn skal rökstudd og tilkynnt umsækjanda innan þriggja mánaða frá móttöku fullbúinnar umsóknar.

9. gr.
Afturköllun starfsleyfis.

    Fjármálaeftirlitið getur afturkallað starfsleyfi smálánafyrirtækis í heild eða að hluta.
    Áður en til afturköllunar kemur skv. 1. mgr. skal fyrirtækinu veittur hæfilegur frestur til úrbóta sé unnt að koma þeim við að mati Fjármálaeftirlitsins.

III. KAFLI
Stofnun smálánafyrirtækis.
10. gr.
Búsetuskilyrði.

    Einungis einstaklingar og lögaðilar búsettir innan aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins eða Fríverslunarsamtaka Evrópu geta verið stofnendur smálánafyrirtækis.

11. gr.
Rekstrarform.

    Smálánafyrirtæki skal starfa sem hlutafélag.

12. gr.
Hlutafé.

    Hlutafé smálánafyrirtækis skal að lágmarki nema jafnvirði einnar milljónar evra.
    Sé hlutafé skráð í íslenskum krónum skal miða við opinbert viðmiðunargengi (kaupgengi) eins og það er skráð hverju sinni.

IV. KAFLI
Starfsemi.
13. gr.
Almenn ákvæði.

    Um starfsemi smálánafyrirtækja gilda ákvæði laga um fjarsölu á fjármálaþjónustu og laga um neytendalán, enda sé ekki á annan veg mælt í lögum þessum.

14. gr.
Starfshættir.

    Smálánafyrirtæki skal starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða starfshætti og venjur á fjármálamarkaði. Smálánafyrirtækjum ber að fylgja viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja. Í því skyni skulu þau m.a. birta árlega yfirlýsingu um stjórnarhætti fyrirtækisins í sérstökum kafla í ársreikningi eða ársskýrslu og gera grein fyrir stjórnarháttum sínum á vefsíðu fyrirtækisins. Að öðru leyti setur Seðlabanki Íslands reglur um hvað teljast eðlilegir og heilbrigðir starfshættir smálánafyrirtækja samkvæmt lögum þessum.
    Smálánafyrirtæki skal tilgreina á vefsíðu nöfn og hlutfallslegt eignarhald allra þeirra sem eiga 5% eða stærri hlut í fyrirtækinu.

15. gr.
Lánveitingar.

    Áður en smálánafyrirtæki veitir viðskiptamanni lán skal það láta fara fram mat á greiðslugetu viðkomandi og skjalfesta niðurstöður þess.
    Ekki er heimilt að veita lán til viðskiptamanns sem:
     1.      er ólögráða,
     2.      er ekki fjár síns ráðandi,
     3.      hefur haft meðalatvinnutekjur síðustu tólf mánuði undir lægstu atvinnuleysisbótum,
     4.      hefur gengið frá samningi um sérstaka skuldaaðlögun á síðustu tólf mánuðum, samkvæmt samkomulagi um verklagsreglur um sérstaka skuldaaðlögun á grundvelli laga um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins, eða
     5.      hefur hafið greiðsluaðlögunarumleitan eða lokið samningi um greiðsluaðlögun samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga eða nauðasamningi til greiðsluaðlögunar skv. X. kafla a laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
    Mat á greiðslugetu skal endurskoða reglulega og eigi sjaldnar en á sex mánaða fresti.
    Óheimilt er að greiða út lán til viðskiptamanns fyrr en 48 klukkustundir eru liðnar frá samþykkt lánsumsóknar.
    Móttaka og afgreiðsla umsókna um smálán er einungis heimil frá kl. 9.00 til kl. 17.00 hvern virkan dag.

16. gr.
Starfsábyrgðartrygging.

    Smálánafyrirtæki er skylt að hafa í gildi ábyrgðartryggingu vegna fjárhagstjóns sem leitt getur af gáleysi í störfum þess eða starfsmanna þess.
    Seðlabanka Íslands er heimilt að setja nánari reglur um starfsábyrgðartryggingu smálánafyrirtækja, þ.m.t. um lágmarksfjárhæð tryggingar.

V. KAFLI
Eftirlit.
17. gr.
Eftirlit.

    Um eftirlit með starfsemi smálánafyrirtækis fer skv. XIII. kafla laga um fjármálafyrirtæki.
    Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi samkvæmt lögum þessum, nema annað leiði af lögum eða alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að. Um eftirlitið fer samkvæmt ákvæðum laga þessara, laga um fjármálafyrirtæki og laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Telji Fjármálaeftirlitið að starfsemi samkvæmt lögum þessum sé stunduð án tilskilinna leyfa getur það krafist gagna og upplýsinga hjá viðkomandi aðilum eða hjá eftirlitsskyldum aðilum sem nauðsynleg eru til að ganga úr skugga um hvort svo sé. Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að slíkri starfsemi sé hætt þegar í stað. Jafnframt er því heimilt að birta opinberlega nöfn aðila sem ljóst er að stundi starfsemi samkvæmt lögum þessum án tilskilinna leyfa.

18. gr.
Eftirlitsgjald.

    Smálánafyrirtæki sem fengið hefur starfsleyfi hér á landi útgefið af Fjármálaeftirlitinu skal árlega greiða eftirlitsgjald vegna starfsemi sinnar í samræmi við ákvæði laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

VI. KAFLI
Viðurlög o.fl.
19. gr.
Stjórnvaldssektir.

    Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn:
     1.      5. gr. um starfsleyfi,
     2.      14. gr. um starfshætti,
     3.      15. gr. um lánveitingar,
     4.      16. gr. um starfsábyrgðartryggingu.
    Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 100 þús. kr. til 20 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 500 þús. kr. til 50 millj. kr. Við ákvörðun sekta skal m.a. tekið tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Ákvarðanir um stjórnvaldssektir eru aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
    Stjórnvaldssektum má beita óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.

20. gr.
Sektir og fangelsi.

    Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn ákvæðum:
     1.      5. gr. um starfsleyfi,
     2.      14. gr. um starfshætti,
     3.      15. gr. um lánveitingar,
     4.      16. gr. um starfsábyrgðartryggingu.

21. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2020.

22. gr.
Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum :
    Við 1. mgr. 5. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Smálánafyrirtæki samkvæmt lögum um starfsemi smálánafyrirtækja skulu greiða fastagjald sem nemur 600.000 kr.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Smálánafyrirtæki sem starfa hér á landi við gildistöku þessara laga skulu þegar í stað grípa til viðeigandi ráðstafana til að uppfylla skilyrði laga þessara og skulu uppfylla þau eigi síðar en þremur mánuðum frá gildistöku þeirra.

Greinargerð.

    Mál þetta var áður flutt á 149. löggjafarþingi (168. mál) en náði ekki fram að ganga. Það er nú endurflutt lítið breytt.

Markmið og efnistök.
    Svonefnd smálánafyrirtæki hófu starfsemi hér á landi í upphafi árs 2010 en veiting smáláns felst í því að lántaka er veitt lán til skamms tíma og lántaki óskar eftir útgreiðslu lánsins á heimasíðu lánveitanda eða með því að senda smáskilaboð úr farsíma. Smálánafyrirtækin hafa verið gagnrýnd frá upphafi, bæði vegna kostnaðar við lántöku og markaðssetningu lánanna. Einn helsti munur á smálánum og hefðbundnum yfirdrætti í almenna bankakerfinu er að smálán eru eingöngu veitt í mjög stuttan tíma, eða allt frá einum degi til rétt rúmlega mánaðar.
    Mikil umræða hefur verið bæði hérlendis og í nágrannalöndum okkar um skaðsemi þessara lána. Bæði hagsmunaaðilar og eftirlitsaðilar á neytendamarkaði hafa lýst yfir miklum áhyggjum af uppgangi smálánafyrirtækja hér á landi enda er um að ræða lán á okurvöxtum, allt að 648% árleg hlutfallstala kostnaðar, sem markaðssett eru sérstaklega fyrir ungt fólk sem höllum fæti stendur og þá sem hafa lítið á milli handanna. Smálánin falla undir lög um neytendalán og hefur Neytendastofa ítrekað þurft að grípa inn í vegna starfshátta smálánafyrirtækjanna á grundvelli þeirra laga og beitt fyrir sig stjórnvaldssektum. Þær ráðstafanir hafa ekki borið árangur. Svo virðist sem smálánafyrirtæki leitist við að fara fram hjá ákvæðum laga um neytendalán um hvað teljist falla undir árlega hlutfallstölu kostnaðar.
    Engin lög gilda um reksturinn sjálfan, ekki þarf að sækja um starfsleyfi eða uppfylla tilteknar skipulagskröfur. Með frumvarpi þessu er lagt til að komið verði böndum á starfsemi smálánafyrirtækja með því að setja sérlög um starfsemina þar sem settur verði skýr rammi og tryggt að aðeins þeir aðilar geti fengið starfsleyfi sem uppfylla tiltekin skilyrði og starfa á grundvelli laga um neytendalán um árlega hlutfallstölu kostnaðar.

Þróun og reglusetning um smálánastarfsemi á Íslandi.
    Á 139. löggjafarþingi lagði efnahags- og viðskiptaráðherra fram frumvarp til breytinga á lögum um neytendalán, nr. 121/1994, en frumvarpið náði ekki fram að ganga. Megintilgangur þess frumvarps var að fella veitingu smálána undir umgjörð og ramma neytendalöggjafarinnar til að tryggja neytendavernd. Nýtt frumvarp til laga um neytendalán varð að lögum nr. 33/2013, um neytendalán. Í því frumvarpi var ákveðið að fella smálán undir löggjöf um neytendalán, en sú löggjöf er innleiðing á tilskipun ESB 2008/48/EB um neytendalán. Þegar tilskipun ESB var innleidd var uppi nokkur umræða um þessi mál í samfélaginu. Löggjafinn brást við með því að útvíkka gildissvið laga um neytendalán svo þau næðu yfir smálán og jafnframt var sett sérstakt ákvæði um hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar í 26. gr. laga um neytendalán. Er þar um að ræða ákvæði sem gengur lengra en kröfur tilskipunarinnar og var sérstaklega beint að smálánafyrirtækjum. Í greinargerð frumvarpsins kom fram að „nágrannalönd okkar hafa fundið sig knúin til að bregðast við uppgangi smálánafyrirtækja með aukinni reglusetningu til verndar neytendum. Í þessu samhengi er vert að nefna að um helmingur af 27 aðildarríkjum Evrópusambandsins hefur í löggjöf sinni ákvæði um hámarksvexti (Study on interest rate restrictions in the EU, 2010). Finnar hafa lagt fram frumvarp sem kveður á um hámarksvexti á smálánum og Danir hafa tilkynnt að þeir ætli sér slíkt hið sama. Í Norður Ameríku er sama sagan; í Kanada hefur verið sett 60% hámark á árlega hlutfallstölu kostnaðar og í 35 fylkjum Bandaríkjanna hafa verið settar reglur um smálánastarfsemi sem taka til ýmissa skilyrða, svo sem vaxta og gjalda (How to regulate payday lending: learning from international best practice, 2011).“
    Eftir setningu laga um neytendalán árið 2013 varð vart við það að smálánafyrirtæki fóru að finna upp leiðir til að komast hjá framangreindri 26. gr. laga um neytendalán. Fyrst með svokölluðu flýtigjaldi, þ.e. að einstaklingur greiddi sérstaka fjárhæð fyrir að lánið væri afgreitt strax annars tæki það 5–7 daga. Það mál fór fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur sem komst að þeirri niðurstöðu ólögmætt væri að undanþiggja slíkt gjald við útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar.
    Í framhaldi af því kynntu smálánafyrirtækin nýtt gjald sem var þannig fram sett að lántaki keypti rafbækur og fékk í kjölfarið heimild til að taka lán. Neytendastofa hefur ákvarðað stjórnvaldssektir á smálánafyrirtæki vegna þessa fyrirkomulags.
    Vert er að halda til haga að einnig eru starfandi fyrirtæki sem veita smálán og eru innan þess ramma sem slíkum fyrirtækjum er settur með lögum um neytendalán frá 2013. Eftirlitsaðilar hafa ekki þurft að gera athugasemdir eða grípa til úrræða varðandi starfsemi þessara fyrirtækja.
    Í minnisblaði frá umboðsmanni skuldara, dags. 28. febrúar 2018, sem barst efnahags- og viðskiptanefnd er að finna greiningu á smálánaskuldum hjá umsækjendum um úrræðið hjá umboðsmanni skuldara. Þar kemur fram að fjöldi þeirra sem hefur sótt um úrræði hjá embættinu vegna greiðsluerfiðleika hefur aukist síðustu tvö ár. Heildarfjöldi umsókna á árinu 2015 var samtals 1.157, á árinu 2016 samtals 1.401 og á árinu 2017 var hann samtals 1.436. Þegar umsóknir ársins 2016 og 2017 eru kannaðar kemur í ljós að meira en helmingur þeirra sem sóttu um ráðgjöf og greiðsluaðlögun á þessum tveimur árum eru yngri en 40 ára. Þá er áberandi mest fjölgun á umsækjendum um greiðsluaðlögun í aldurshópnum 18–29 ára, úr 14,9% í 23,3 % á þessum tveimur árum. Í greiningu umboðsmanns kemur einnig fram að hlutfall umsækjenda sem tóku smálán fór t.d. úr 13% á árinu 2013 í 43% á árinu 2017 en þessar tölur miðast við allar umsóknir um ráðgjöf og greiðsluaðlögun. Til samanburðar fór hlutfall umsækjenda sem tóku fasteignalán úr 32% á árinu 2015 niður í 17% á árinu 2017. Í aldurshópnum 18–29 ára hafa 76 af 109 umsækjendum árið 2017 tekið smálán eða um 70% umsækjenda, en á árinu 2016 höfðu 39 af 63 eða 62% tekið smálán.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Hlutfall smálána af heildarskuldum þeirra sem tóku smálán jókst úr 13% í 20% frá árinu 2016 til 2017. Meðalupphæð smálánaskulda umsækjenda hjá Umboðsmanni skuldara var tæpar 600 þús. kr. árið 2017 en rúmar 400 þús. kr. árið 2016. Það er því ljóst að smálán eru að verða algengari og sífellt stærri hluti af vanda þessa hóps.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1.–4. gr.

    Í 1.–4. gr. er fjallað um gildissvið frumvarpsins og starfsemi smálánafyrirtækja hér á landi sérstaklega skilgreind. Lagt er til að óheimilt verði að víkja frá ákvæðum laganna með samningi ef slíkur samningur leiddi til lakari stöðu fyrir viðskiptamann. Til að ná markmiðum frumvarpsins er mikilvægt að tryggt sé að viðskiptamenn geti ekki samið sig frá ákvæðum þess. Loks er lagt til að lög um starfsemi smálánafyrirtækja taki ekki til útlána lánastofnana skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Lánastofnanir í skilningi greinarinnar teljast þau fjármálafyrirtæki vera sem fengið hafa starfsleyfi skv. 1.–4. tölul. 1. mgr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Um 5.–9. gr.

    Í 5.–9. gr. er fjallað um starfsleyfi, umsóknir og veitingu þeirra. Lagt er til að starfsemi smálánafyrirtækja verði gerði starfsleyfisskyld og öðrum en þeim sem hlotið hafa starfsleyfi verði óheimilt að kynna, bjóða eða veita smálán. Þá verði smálánafyrirtæki ekki heimilt að hefja starfsemi fyrr en starfsleyfi hefur verið veitt. Fjármálaeftirlitinu er falið að hafa umsjón með umsóknum og veitingu starfsleyfa. Heimilt er að synja fyrirtæki um starfsleyfi ef umsókn um leyfi uppfyllir ekki skilyrði laganna að mati Fjármálaeftirlitsins. Synjun skal rökstyðja og tilkynna innan þriggja mánaða frá móttöku umsóknar. Loks er lagt til að Fjármálaeftirlitið fái heimild til að afturkalla starfsleyfi smálánafyrirtækis í heild eða að hluta telji eftirlitið að viðkomandi fyrirtæki hafi ekki starfað samkvæmt eðlilegum og heilbrigðum starfsháttum og venjum á fjármálamarkaði eða brotið gegn lögum þessum á annan hátt.

Um 10.–12. gr.

    Í 10. gr. er kveðið á um að aðeins einstaklingar og lögaðilar búsettir í aðildarríkjum EES eða EFTA geti verið stofnendur smálánafyrirtækis.
    Í 11. gr. er lagt til að smálánafyrirtæki skuli starfa sem hlutafélag. Mikilvægt er að aðeins þar til bærir aðilar sæki inn á þennan lánamarkað og því er í 12. gr. lagt til að gerð verði krafa um að hlutafé smálánafyrirtækis verði að lágmarki jafnvirði einnar milljónar evra.

Um 13.–16. gr.

    Hér er lagt er til að um starfsemi smálánafyrirtækja gildi ákvæði laga um fjarsölu á fjármálaþjónustu og laga um neytendalán ef ekki er á annan veg mælt fyrir um í þessum lögum um starfsemi smálánafyrirtækja. Lögð er áhersla á að smálánafyrirtæki starfi í samræmi við eðlilega og heilbrigða starfshætti og venjur á fjármálamarkaði og Seðlabankanum falið að setja reglur um hvað teljast eðlilegir og heilbrigðir starfshættir samkvæmt lögum þessum. Með frumvarpi þessu er einnig lagt til að viðskiptamenn fari í greiðslumat áður en lán er veitt og niðurstöður greiðslumats skráðar. Einnig eru í fimm töluliðum talin upp þau tilfelli þar sem ekki verði heimilt að veita lán til viðskiptamanns. Þá verði t.d. óheimilt að greiða lán út fyrr en 48 klukkustundum frá því að lánsumsókn var samþykkt. Einnig er lagt til að einungis verði heimilt að afgreiða umsóknir um smálán á skrifstofutíma milli kl. 9.00 og kl. 17.00 virka daga. Loks er gerð krafa um að smálánafyrirtæki hafi gilda starfsábyrgðartryggingu vegna tjóns sem leitt geti af gáleysi í störfum þess. Leitast er við að haga kerfinu þannig að erfiðara sé fyrir fólk að taka lán án þess að hafa ígrundað það vel, hugsað lánaferlið til enda og kynnt sér vexti og lánaskilmála.

Um 17.–18. gr.

    Lagt er til að um eftirlit með smálánafyrirtækjum fari eftir lögum þessum, XIII. kafla laga um fjármálafyrirtæki og lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Fjármálaeftirlitinu verður falið að annast eftirlitið samkvæmt frumvarpinu. Til að standa straum af eftirlitinu er lagt til að smálánafyrirtæki sem fengið hafa starfsleyfi greiði árlegt eftirlitsgjald í samræmi við ákvæði laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálaþjónustu.

Um 19.–20. gr.

    Lagt er til að viðurlagakafli frumvarpsins verði með svipuðu sniði og í öðrum lögum á sviði fjármálaþjónustu með heimildum Fjármálaeftirlitsins til að beita stjórnvaldssektum auk hefðbundinna refsiákvæða.

Um 21.–22. gr.

    Lagt til að bætt verði við nýrri málsgrein í 5. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, þar sem kveðið verður á um 600.000 kr. eftirlitsgjald sem smálánafyrirtækin greiða.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Loks er lagt til í ákvæði til bráðabirgða að smálánafyrirtæki sem starfa hér á landi við gildistöku þessara laga skuli þegar í stað grípa til viðeigandi ráðstafana til að uppfylla skilyrði laganna og það eigi síðar en þremur mánuðum frá gildistöku þeirra. Það er því ljóst að lögum þessum er ætlað að ná til allra smálánafyrirtækja og ekki bara